Ótti Sjálfstæðismanna við stjórnarskrárbreytingar

Á vef Samfylkingarinnar segir:

"Hörð andstaða Sjálfstæðisflokksins við einfaldar en mikilvægar breytingar á stjórnarskrá á sér rætur í hefðbundnum viðhorfum til valda og lýðræðis.

Þær stjórnarskrárbreytingar sem nú eru lagðar til ganga út á þrjú lykilatriði:

  • Að afnema varanlega vald til að gefa eða selja einkaaðilum sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.
  • Færa almenningi vald til að geta haft bein áhrif á mál milli kosninga með ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur.
  • Færa almenningi beinna vald til breytinga á stjórnarskrá með ákvæði um hvernig stjórnarskrá er breytt milli kosninga og með stjórnlagaþingi.

Þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins hamast gegn þessum sjálfsögðu breytingum með þeim rökum að verið sé að svipta Alþingi einhverju af verkefnum sínum eða völdum horfa þeir framhjá því að Alþingi er ekki uppspretta valds. Valdið á uppruna sinn hjá almenningi og svo þiggja þingmenn vald sitt frá fólkinu sem fulltrúar kjósenda.

Í þessum átökum kristallast því gamalkunnugt stef um mismunandi sjónarmið jafnaðarstefnunnar annars vegar og varðstöðu um völd og sérhagsmuni hins vegar.

Ein afleiðing þess að hafna því að stjórnarskrá megi breyta í samræmi við þjóðarvilja á miðju kjörtímabili í stað þess að aðeins Alþingi geti gert slíkt á tvennum þingum, er sú að tefja lyktir mögulegra samninga við Evrópusambandið um aðild óháð vilja kjósenda eða stöðu á þeim tíma."

Viljir þú bætt lýðræði og út með spillingu - kjóstu þá xS!   ;-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

kýs xV...en góð hugleiðing!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.4.2009 kl. 23:17

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Takk fyrir þetta Svanur. Í ljósi frétta nú um páskana hef ég verið að velta því fyrir mér hvort íhaldið sé að velta sér uppúr þessum drullupolli til að draga athyglina frá kosningabaráttunni og þeirri staðreynd að þeir standa á móti þeim þjóðþrifamálum sem þú telur upp hér að ofan.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 12.4.2009 kl. 23:20

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Samfylkingin og Vinstri grænir eru samstíga í þessu eftir því sem ég best veit Anna.  :-)

Akkúrat Ingibjörg. 

Sæl Dóra.  Ef þú skilur ekki hvers vegna það er brýnt að fara í þessar stjórnarskrárbreytingar, þá er það líklega af því að þú hefur ekki leitt hugann að því að ástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn höfðu óskorað vald til að láta stærstu fjármálastofnanir þjóðarinnar í hendurnar á vinum sínum sem vildu ríkastir allra ríkra verða, er að hluta sú að þjóðin og stjórnarandstaðan hafði engar leiðir mögulegar til að láta kjósa um mikilvæg málefni í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þessar breytingar nú eru lagðar til að minnka vald ráðherra og færa þjóðinni aukin tæki í hendur til að koma í veg fyrir stjórnarfarsleg slys.  Lýðræði gengur aðeins upp ef það er nægileg valddreyfing því annars blómstrar spilling eins átti sér stað á vakt xD og xB.  Ekkert kerfi er alger trygging en gamla kerfið er greinilega ófullnægjandi eða fannst þér þetta allt bara í lagi Dóra?  

Hvers vegna ætlarðu að öllum líkindum að styðja xD, flokkinn sem átti stærstan þátt í því að koma heimilunum og fyrirtækjunum í þann vanda sem þau eiga við að etja í dag?   Hvað þarf til að sannfæra þig um að sá flokkur er búinn að fyrirgera trausti sínu?  Dugir ekki listi "afreka" hans sem ég skrifaði um í síðasta bloggi? 

Svanur Sigurbjörnsson, 13.4.2009 kl. 00:50

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Nú reyna ýmsir Sjálfstæðismenn að klóra í bakkann og koma með fáránlegar og siðlausar grobb-yfirlýsingar eins og Guðlaugur Þór í sjónvarpinu í gær:  "Við vorum fyrstir til að birta listann um styrkveitendur (árið 2006)"  Duhh! auðvitað því upp um þá komst að þeir hefðu þegið ofurstyrki þegar frumvarp þess efnis að hámark styrkja yrði margfalt minni, var um það bil að vera samþykkt í þinginu.  Listinn var því ekki birtur að frumkvæði þeirra heldur vegna kröfu um að þeir gerðu hreint fyrir sínum dyrum.   Þetta segir manni nokkuð um hversu siðferðisblindur Guðlaugur þór er. 

Annað dæmi er þegar hann og Sigurður Kári komu fram uppstrílaðir í upphitunarþætti á Stöð 2 sport 2, fyrir leik Man. Utd. á kosningardegi prófkjörs flokksins 28. mars sl.  Þar básúnuðu þeir kunnáttu sína á ensku knattspyrnunni og brostu breitt.  Þetta var algerlega óviðeigandi þar sem kaupendur þessarar dagskrár voru ekki að kaupa álit stjórnmálamanna á ensku knattspyrnunni og með þessu var öðrum frambjóðendum í prófkjörinu mismunað á kosningardegi.  Þetta leiddi hugann að því hversu mikið þeir hafi greitt fyrir að hafa fengið að koma þarna fram.  Kannski greiddu þeir ekkert en þá leiðir það hugann að því hvort að stjórnendur þáttarins hafi verið að gera þessum frambjóðendum vinargreiða eða hygla prófkjöri Sjálfstæðismanna þar sem þeir væru í sama flokki?  Þetta var óeðlilegt á þessum degi og svo augljóslega gert til að auglýsa þá sem frambjóðendur.   Augljóslega þótti þeim Sigurði Kára og Guðlaugi Þór ekkert athugavert til þetta, frekar en Guðlaugi Þór þótti athugavert að fá tugi milljóna fyrir xD þegar slíkt var talið óviðeigandi á Alþingi.

Svanur Sigurbjörnsson, 13.4.2009 kl. 01:34

5 identicon

Hvernig er það, fyrst það er meirihluti fyrir þessu máli á þingi, getur þá þingforseti ekki sagt að nú sé nóg komið af snakki og nú verði kosið um málið og þannig afgreitt málið fyrir kosningar?

Valsól (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 06:58

6 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

"Ein afleiðing þess að hafna því að stjórnarskrá megi breyta í samræmi við þjóðarvilja á miðju kjörtímabili í stað þess að aðeins Alþingi geti gert slíkt á tvennum þingum, er sú að tefja lyktir mögulegra samninga við Evrópusambandið um aðild óháð vilja kjósenda eða stöðu á þeim tíma"

Svanur, sjálfstæðismenn hafa ítrekað bent á að þeir myndu samþykkja þá einu breytingu á stórnarskránni sem auðveldaði breytingar á henni eftir kosningar. Þeir hafa hins vegar þverskallast yfir því að verið sé að gera flausturslega gríðarmiklar breytingar á stjórnarskránni 5 mínútum fyrir kosningar og í óþökk t.d. lögmannafélagsins sem segir þetta frumvarp meingallað.

Enda skilja þeir ekki afhverju þarf að breyta stjórnarskrá núna þegar á að setja stjórnarskrárþing eftir kosningar til þess ætluðu að breyta stjórnarskránni. Þá mun bara þurfa þetta atkvæði fyrir kosningarnar núna.

Mér finnst meira um að vita afhverju þetta skiptir mestu máli og látið standa í vegi fyrir frumvörpum um aðgerðir til bjargar heimilum og fyrirtækjum í stjórn sem segist skipuð til þess. Stjórnarskráin er ekki orsökin fyrir hruninu og breytingar á henni laga ekki skammtímavanda heimilanna.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera sér fulla grein fyrir að þeir tapa atkvæðum á töfunum. Þeim, öfugt við aðra þingmenn, finnst samt skylda sín sem íslendinga að standa vörð um stjórnarskrána og flaustursleg vinnubrögð varðandi hana, þó að flokkurinn tapi atkvæðum á því.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 13.4.2009 kl. 08:59

7 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Úr því að þú ert svona vel inn í þessum málum þá getur þú kannski sagt mér hvað hefur breyst frá því að vinstrimenn voru á þessum skoðunum. Þetta snýst um að gera þetta í sátt, en ekki að þvinga þetta í gegn um Alþingi. 2 af 27 umsagnaraðilum voru sammála þessu. Aðrir voru annað hvort +a móti eða töldu að það þyrfti að ræða þetta betur.

  • Ögmundur Jónasson: „Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga. [...] Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa.“

  • Össur Skarphéðinsson: „Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

  • Kolbrún Halldórsdóttir: „Eins og ég sagði finnst mér þetta vera óðagot og mér þykir það mjög miður því að hér er verið að fjalla um afar víðtækt og mikilvægt mál sem ég held að þjóðin verðskuldi að fái betri umfjöllun um en hér virðist eiga að fást.“

  • Steingrímur J. Sigfússon: „En ég bara trúi því ekki að menn ætli að bera það á borð að örvæntingin í stjórnarherbúðunum, sem myndaðist á fáeinum sólarhringum fyrir og um flokksþing Framsóknarflokksins, sé gjaldgeng ástæða til þess að standa svona að málum, að umgangast stjórnarskrá og vandasöm viðfangsefni þar með léttúð af þessu tagi. Ég læt segja mér það þrisvar að menn ætli í raun og veru að gangast við því að slíkt sé verjanlegt og réttlætanlegt og fara þá leið allar götur til enda.“

    Það hefur nefnilega ekkert breyst nema vinstri menn eru komnir til valda. Maður hefði haldið að þá fyrst reyndu menn að standa á skoðunum sínum. En svo er alls ekki raunin í þessu máli. Þannig að þú þarft að koma með betri rök en þetta.

Ingólfur H Þorleifsson, 13.4.2009 kl. 14:27

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Það er ljóst að það verður ekki sátt um ýmis mál á Alþingi og tillögur um stjórnarskrárbreytingar eru meðal þeirra.  Þær breytingar sem nú er verið að stinga uppá fjalla fyrst og fremst um það að gera breytingar á stjórnarskránni mögulegar með öðrum hætti en nú tíðkast.  Núverandi fyrirkomulag er hrikalega seinlegt og xD og xB gátu ekki komið á bótum sín 16 ár að völdum.  Nú er gott tækifæri fyrst að boðað var til kosninga svo snemma og nú er tíðarandinn þannig að fólkið krefst breytinga í átt til bætts lýðræðis.  Með því að breyta þessu núna og samþykkja breytingarnar aftur í nýju þingi eftir kosningar er búið að áorka einhverju, í stað þess að láta þetta danka í 4 (+1) ár til viðbótar.  Slíkur hægagangur gengur ekki því stjórnarskráin er úrelt í marga staði. 

Bréfið sem Lögmannafélagið sendi Forseta Alþingis og Sjálfstæðismenn vitna nú grimmt í, er ekki einu sinni á vef Lögmannafélagsins.  Í því eru ýmis almenn viðvörunarorð en engin efnislega gagnrýni á tillögur ríkisstjórnarinnar.  Forsvarsmenn félagsins eru greinilega ósáttir við að ekki var leitað til þeirra við meðhöndlun lagafrumvarpa undanfarið og gera úr því mikla bólu.  Þeir telja að mikil verðmæti séu í húfi sem er vissulega rétt en hvar er álit þeirra á því að íslensk löggjöf um mannréttindi er 15 árum á eftir þeirri sænsku og hvar er álit þeirra á því að hér er brotið á lífsskoðunarfélögum öðrum en þjóðkirkjunni með stjórnarskrárvarinni mismunun?  Hvar er álit þeirra á hinum siðlausa dóm hæstaréttar á því að Ásatrúarfélagið megi ekki njóta fjármagns úr Jöfnunarsjóði kirkna þegar það stendur í 64. gr. stjórnarskrárinnar að ekki megi mismuna neinum á grunni trúar eða annarra hluta? 

Nú er þörf á hraða og röskri vinnu.  Sjálfstæðismenn geta notað tíma sinn til að ræða tillögurnar málefnalega eða eytt tíma sínum og Alþingis í málþóf.  Það er val þeirra sem flokkur í stjórnarandstöðu.

Svanur Sigurbjörnsson, 13.4.2009 kl. 15:30

9 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Það er bara málið að stjórnarflokkarnir þora ekki að ræða þetta í þinginu, helst vegna þess að þeir sjá sjálfir að þetta er valdníðsla og ekkert annað. Þeir eru líka í eðli sínu sammála því að þetta geti beðið fram á næsta þing. Vandamálið er bara að þeir lofuðu upp í ermina á sér að þetta kæmist í gegn á þessu þingi. Framsókn er með þá í þumalskrúfu.

Það eru fjölmörg mál sem liggja fyrir þinginu sem er mikið mun mikilvægari fyrir þjóðina að ræða.

Þetta á ekkert skylt við málþóf. Það sjá allir sem smá áhuga hafa á að sjá það.

Ingólfur H Þorleifsson, 13.4.2009 kl. 16:04

10 identicon

Ef það er verið að breyta stjórnarskránni á annað borð því þá ekki að uppfylla eitt af frumskilyrðum allra flokka um jafnrétti allra þegna þessa lands og jafna atkvæðarétt. Gera landið að einu kjördæmi.

Og setja síðan í stjórnarskránna bann við fjárhagsstuðningi fyrirtækja og allra lögaðila við stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn.

Síðan þarf náttúrulega að fylgja hlutunum eftir þannig að sama gildi um fjölmiðla að eignarhald sé dreift og kostun á þáttum sé bönnuð og auglýsingar í áskriftarfjölmiðlum bannaðar. Tryggja þarf að ekki sé hægt að efast um hlutleysi fjölmiðla í sinni umfjöllun.

Síðan er fáránlegt að menn skipaðir í kjörstjórn séu tengdir stjórnmálamönnum t.d. fyrrverandi makar. Hversu trúverðugt er það.

Þær breytingar sem liggja fyrir um stjórnarskránna og stjórnlagaþing eru illa unnar, en það góða er að stjórnlagaþing getur tekið valdið af Alþingi og komið með breytingar á stjórnaskrá sem snúa að því að gera landið að einu kjördæmi, fækka þingmönnum í 49, þingmenn segji af sér ef þeir verði ráðherrar og fara ekki inn aftur nema að þeir nái kjöri aftur. Ráðuneyti verði ekki fleirri en 8. Persónukjör þannig að hver kjósandi kjósi 1-49 af listum óháð lista númerað með atkvæðavægi. þannig að 1 sæti fá 49 atkv. og svo framvegis.  

Guðmundur (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 18:20

11 Smámynd: Halldór Halldórsson

Af um 40 umsögnum um stjórnarlagafrumvarpið eru TVÆR umsagnir meðmæltar breytingum.  ALLAR HINAR á móti!  Þessar tvær eru frá ASÍ og BSRB og hverjir skyldu nú vera pótintátarnir sem stjórna þeim apparötum? Halda einhverjir að þar séu kannski flokkspólitískir hagsmunir á ferðinni?

Halldór Halldórsson, 14.4.2009 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband