Varast xD - læknisfræðileg niðurstaða?
14.4.2009 | 17:28
Í 23. athugasemd við grein mína "Kæri sjálfstæðismaður - ertu sem límdur við brotna fjöl" vitnar Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir í næstsíðustu málsgrein mína þar sem ég segi:
"Sýndu mér fram á að xD sé sá kostur og ég skal skipta um skoðun, en þangað til verð ég að efast um heilbrigða dómgreind þess sem ætlar sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þann 25. apríl næstkomandi."
og spyr svo:
"Svanur er þetta læknisfræðileg niðurstaða þín?
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 13.4.2009 kl. 09:04"
Svar mitt:
Sæl Adda Þorbjörg - þetta er skemmtilega rugluð spurning hjá þér þar sem ég blanda ekki starfi mínu við stjórnmál, en ég ætla að svara þér af gamni (og smá alvöru).
Hugtakið "heilbrigð dómgreind" er stundum nokkuð sem læknar verða að velta vöngum yfir þegar spurning er um hvort að sjúklingur hafi misst tökin á raunveruleikanum og geti e.t.v. ekki tekið ákvarðanir um líf sitt og heilsu. Í slíku tilviki er verið að tala um ansi alvarlegt stig missis á heilbrigðri dómgreind og í reynd algeran missi á dómgreind (sturlun).
Í tilviki þess sem ætlar að kjósa xD eftir 18 ár af nýfrjálshyggju, græðgisvæðingu, sjálftöku, efnahagshruni og siðferðislegri spillingu á ýmsum sviðum stjórnmálanna og stjórnkerfisins, þá er um vægari skerðingu að ræða því viðkomandi er orðinn hlekkjaður hugarfarslega við þennan tiltekna flokk og hættur að beita heilbrigðri gagnrýnni hugsun varðandi val á stjórnmálaflokki. Í slíku tilviki er engu líkara en að flokkurinn sé heilagur og það sé óhugsandi að hugsa sér aðra og betri kosti.
Þetta er kannski ekki ólíkt fyrirbærinu meðvirkni. Sá meðvirki lætur tilfinningar og ástfóstri ráða frekar en skynsemi og framsýni. Sá meðvirki sér ekki að með því að styðja áfram þann sem er í ruglinu, heldur vandamálið áfram að grassera og versna. Það er því ekki góð dómgreind að mínu mati og óheilbrigð pólitískt séð þó ekki gangi ég svo langt að kalla hana óheilbrigða í læknisfræðilegum skilningi.
Fyrir fólk sem hefur sett mikið starf, tengsl og fjármuni í xD skil ég vel að það vilji halda áfram að byggja upp flokkinn sinn og hefja endurbætur, en fyrir hina sem eru óháðir kjósendur, ætti það ekki að vera spurning í ljósi atburða undanfarin ár að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hæfur til að sitja í ríkisstjórn næstu árin. Þar höfum við "greininguna" en "meðferðin" felst í að kjósa það illskásta sem er í boði núna, þ.e. xS, xVg eða jafnvel xO. Á vanda stjórnmálanna finnst engin fullkomin lausn líkt og svo oft með vandamál heilsunnar.
Ertu sátt við "greiningu og meðferð" Adda Þorbjörg?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll aftur Svanur. Mér sýnist sem svo að með þessari einu setningu minni hafi mér tekist að strjúka þér öfugt. Eitthvað slæm samviska?
Semsagt það er skoðun þín að ég sé í besta falli meðvirk eða með væga skerðingu og í versta falli á alvarlegu stigi missis heilbrigðrar dómgreindar? En samt ekki óheilbrigð í læknisfæðilegu tilliti? En í öllu lagi hlekkjuð hugarfarslega nema hvað. Allt þetta af því ég hef aðra pólítíska skoðun en þú? Af því að ég trúi og veit að 99% sjálstæðismanna er að megninu til með sömu skoðanir og ég og séu ekki glæpamenn? Að ég ætla að velja mér flokk eftir stefnuskrá og hugsjón en ekki taka þátt í múgæsingi? Hver er nú heilaþveginn?
Svanur ég mun aldrei kjósa flokk sem hefur stefnu sem ekki samrýmist skoðunum mínum. Ég myndi hika jafnvel þó að svo væri ekki því að mér hefur fundist Samfylkingin vera hópur sem skiptir um skoðun um leið og móti blæs og skoðanakannanir sveiflast á móti henni. Hver höndin upp á móti annarri og engiinn, alls enginn flokksagi. Þar með engin framtíð því fylkingin mun skríða í allar áttir.
Ég trúi því innilega að ef Ríkið ætlar að vasast í öllu þá verðum við miklu lengur að ná okkur upp úr þessu og að það verði ekki ríkið sem geri gjæfumuninn heldur einstaklingarnir ef þeir fá til þess tækifæri munu finna lausnir og stofna mörg sniðug fyrirtæki sem flýta fyrir okkur.
Persónulega finnst mér pólítíkin og drullukastið vera orðið risastór þröskuldur sem dregur alla uppbyggilega og jákvæða orku úr þjóðinni og heldur henni fastri í reiði, neikvæðni og niðurrifi. Sumir ættu bara að fá sér eina góða Sobril.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 14.4.2009 kl. 23:47
Ég bið þig ekki að kjósa móti samvisku þinni Adda Þorbjörg. Ef þú telur að xD sé enn sá flokkur sem treysta eigi, þá kýstu þá áfram. Það þarf meira en stefnuskrá til að flokkur gangi upp. T.d. er stefnuskrá Frjálslynda flokksins ljómandi góð en vegna ósættis og lélegrar stjórnunar hefur flokkurinn tapað því þokkalega trausti sem hann hafði. Flokksagi getur verið góður eins og þú segir, en hann getur einnig gengið of langt, þannig að skoðanir fái ekki að heyrast. Aginn getur þannig orðið vatn á myllu ofríkra einstaklinga og leitt til þess að flokkur verði stífur og vanþroska.
Já sumir gætu virst þurfa Sobril en vonandi halda stjórnmálamenn vöku sinni, ekki veitir af á þessum tímum. Kveðja - Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 15.4.2009 kl. 09:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.