Af EES, IceSave reikningum og ábyrgð

Jón Baldvin Hannibalsson skrifaði á dögunum ágætis grein um þann fjárglæfraleik sem IceSave ævintýrið var og setur hlutina í ákveðið samhengi - samhengi við fjármálaglæpamenn sem nú sitja fyrir dómstólum í Bandaríkjunum. 

Ég er langt kominn með lestur bókarinnar "Sofandi að feigðarósi" eftir Ólaf Arnarson og mæli ég hiklaust með lestri hennar.  Af þeim upplýsingum sem þar eru og því sem ég hef fengið annars staðar frá þá er það ljóst að IceSave innlánsreikningarnir voru bara hálmstrá sem náði ekki að bjarga Landsbankanum frá þeim offjárfestingum sem hann var kominn í.  Viðskiptamódel hans virkaði vel í gnægð lausafjárs en jafn illa í lausafjárskreppu sem hafði skollið á upp úr byrjun árs 2005. 

Davíð Oddsson seldi bankann mönnum sem kunnu að reka fjárfestingarfélag, en ekki viðskiptabanka sem á endanum væri uppá ábyrgð þjóðarinnar kominn.  Í stað erlendrar þekkingar inn í landið fékkst aðeins íslensk tilraunamennska í útrás þegar stærsti banki landsins var einkavæddur með því að selja hann Íslendingum en ekki erlendum aðilum í bland við dreifða íslensks eignaaðild. 

Með EES samningnum sem JBH og Davíð höfðu tryggt landinu sköpuðust skilyrði til að hreyfa fjármagn og afla sér menntunar og starfa um alla Vestur-Evrópu.  Það var var og er mikils virði.  EES samningurinn veitti frelsi, en er ekki orsök þess glapræðis sem fjárfestingarbankarnir leiddust út í.  Það er álíka vitlaust að segja að það að veita þræl frelsi sé hið sama og gera hann að glæpamanni, geri hann svo eitthvað af sér.  Frelsið gerir það að verkum að við berum ábyrgð á því sem við gerum, en það er svo siðferðisþroskinn og siðferðisþrekið sem segir til um það hvort að frelsið sé nýtt til góðra eða slæmra hluta.  Ásakanir sumra á blogginu og athugasemdum við grein Jóns Baldvins Hannibalssonar um að hann beri ábyrgð á hruninu með því að hafa verið forvígismaður þess að Ísland gerðist aðili að EES er því alger rökleysa.

Það eru fyrst og fremst fjárfestarnir sem bera ábyrgðina þó ekki beri þess merki eftir hrunið.  Eftirlits- og taumhaldsskylda stjórnvalda er einnig réttmætt skotmark gagnrýni, sérstaklega eftir að skýrslur hagfræðinga og stofnana báru þess merki að stormur væri í aðsigi.  Reynsluleysi og afneitun ráðamanna ásamt því að á lokastigunum fékk stjórnarformaður Seðlabankans að vaða yfir allt með sínum valdhroka og óvarkárni, setti svo punktinn yfir i-ið.  Tilraunin stóra hafði misheppnast og þjóðin þurfti nú að blæða fyrir sukkveisluna hrikalegu.  Verðum við að borga? Já, hvort sem okkur líkar betur eða verr.  Við verðum öll að bera byrðarnar.  Hlutverk stjórnvalda er einfaldlega að reyna að jafna þær yfir á sem flest bök og að enginn sleppi við að taka ábyrgð.  Einfalt hugtak en verulega flókið í framkvæmd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

já því miður er þetta rétt niðurstaða hjá þér og fleirum. Einkar góðar útskýringar hjá Gylfa Magnússyni í Kastljósinu í kvöld.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 23.6.2009 kl. 21:30

2 identicon

Sæll Svanur

Ekki má orðið minnast á galla á þessum EES-samninginn eða sem viðkemur þessu ICESAVE- máli, því  þessi  litla nice, nice Samfylking (fyrrum Alþýðuflokkur) er í því að kenna öðrum um (eða Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki) , því Jón Baldvin Hannibalsson og co sáu alls ekki neina galla EES  (eða þessum "eitraða koktail") nú á sem sagt að reyna heilaþvo okkur til þess að samþykkja ICESAVE- vitleysuna, og allt fyrir þessa inngöngu í  þetta ESB bákn. ESB ESB og ESB og ekki má minnast á hvað aðrir lögfræðingar hafa að segja eða hvað þá á þjóðrétt, dómstóla eða þjóðaratkvæðagreiðslu, því Samfylkingin ætlar inn í ESB og ekki má tala um annað.

Svo er maður að heyra það frá henni Jóhönnu að það verður ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB, því Samfylkingin ætlar inn í ESB 

Það verður ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um ICESAVE, því Samfylkingin ætlar inn í ESB.

Það mátti ekki fara dómsstólaleiðina með ICESAVE,  því Samfylkingin ætlar inn í ESB

Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 24.6.2009 kl. 09:37

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Þórdís Bára.  Já Gylfi Magnússon skýrði hlutina ákaflega vel út í Kastljósinu og kom fram af miklum heiðarleik og hugrekki.

Sæll Þorsteinn Sch.  Enginn samningur er gallalaus og ég hef ekki séð neinn Samfylkingarmann (þ.á.m. Jón Baldvin) halda því fram að EES eða ESB séu fullkomin bandalög.  Samfylkingin er ekki lítil lengur því hún er stærsti flokkur landsins.  Þú talar um heilaþvott og ICESAVE-vitleysuna og ESB bákn en hvar eru röksemdir þínar?  Vinsamlegast bentu mér á hvar Jóhanna á að hafa sagt að það verði ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB aðild?  Gylfi færði góð rök fyrir því í Kastljósinu í gær hvers vegna dómstólaleiðin væri ekki góð leið í IceSave málinu og það hefur ekkert með ESB aðild að gera.  Þú getur notað breiðletrun eins og þú vilt en án röksemda eru það bara köll út í loftið.

Svanur Sigurbjörnsson, 24.6.2009 kl. 13:35

4 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Svanur, grein þín er algerlega í takt við það hvernig ég skynja veruleikann.

Og auðvitað er fólk reittþ  En gæta verður sín á reiðinni, hún er vondur húsbóndi og hjálpar ekki til við að skilja raunveruleikann.  Mér finnst margir koma fram með upphrópanir sem hjálpa ekki til við að skilja ástandið eða greina til hvaða bragða er best að taka.

Verkefnið hlýtur að vera að vinna sem best má úr skelfilegri stöðu.  Og þar treysti ég núverandi stjórnvöldum best - þeim veitir ekki af traustinu.

Arfleifð Sjálfstæðismanna er því miður næsta ófyrirgefanleg.  Og rétt er það að mjög mikilvægt er að réttlætið nái fram að ganga hvað hina glæpsamlegu útrásaraðila varðar!

Eiríkur Sjóberg, 24.6.2009 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband