Segi upp Morgunblaðinu og hætti bloggi hér!

Þetta eru verulega slæm tíðindi.  Með fækkun blaðamanna og starfsfólks með áratuga reynslu við blaðið er vart von á bættum vinnubrögðum hjá því.  Mér sýnast þær blikur á lofti að Morgunblaðið sé að "lúta í gras" og það geti átt sér stað miklar breytingar á íslenskum dagblaðamarkaði næstu mánuðina.  Tap Morgunblaðsins mun varla minnka við þessa leikfléttu sem er í raun aðför að orðspori blaðsins.  Davíð Oddsson er maður sem beitir groddalegu máli og framkomu til að fá sitt fram hvarvetna sem hann starfar og hann er sá einstaklingur sem ég síst vildi sjá sem ritstjóra blaðs sem hefur gefið blaðamönnum sínum þó nokkuð frelsi í skrifum sínum undanfarna áratugi.  Með komu Davíðs litast blaðið af hinum afturhaldssama harðlínuvæng Sjálfstæðisflokksins og miðað við þær orðræður sem hann hefur flutt undanfarin ár, er ekki von á miklu öðru en ærumeiðandi skítkasti í allar áttir. 

Sterkustu hlutar Morgunblaðsins hafa verið þjónusta þess við lesendur með fréttum, aðsendum greinum, minningargreinum og fræðandi lesbókargreinum.  Það hefur haft á sér stílhreinan blæ og ljósmyndarar þess hafa getið sér gott orð.  Það hefur sérhæft sig í pólitískri umræðu en haldið í ljóta siði eins og skot úr myrkri dálka eins og Staksteinum og ritstjóragreinar hafa ekki verið merktar nafni þannig að lesendur hafa þurft að giska á hvort að Styrmir eða Matthías hafi skrifað.  Kannski ekki erfitt fyrir suma lesendur, en ósmekklegt eigi að síður af blaði sem síðan hefur bannað nafnlaus blogg við fréttir á vefmiðli blaðsins.  

Fréttir og umfjöllun blaðsins af heilbrigðismálum og heilsuvernd hefur verið ömurlega léleg undanfarin ár og æsifréttamennska og lúff fyrir auglýsendum gervilausna verið mjög ríkjandi.  Síðasta sérblað Mbl. um heilsu var hreint hræðilegt utan 3-4 greina (af tugum) sem eitthvað vit var í.  Sumar greinarnar voru hreinar auglýsingar þó að þær væru ekki merktar sem slíkar. 

Þá hefur ritstjórnarstefna þessa bloggs farið dálítið úrskeiðis með því að banna suma einstaklinga hér en leyft öðrum að vera, sem hafa sýnt af sér mikinn dónaskap.  Það hefur ekki gætt samræmis, þó að ég geti sýnt því skilning að slíkt sé erfitt í framkvæmd.

Ég get ómögulega stutt dagblað sem setur mann eins og Davíð Oddsson í ökumannssætið og því hef ég ákveðið að segja upp áskrift minni að blaðinu frá og með næstu mánaðarmótum.  Ég ætla að hætta að blogga hér einnig og finna mér annan vettvang. 

Ég vona að einhver góður hópur fólks í þjóðfélaginu rísi nú upp til að stofna nýtt dagblað sem hefur virðingaverðari sjónarmið að leiðarljósi en þau sem nú munu stýra Morgunblaðinu.  Það er þröngt á dagblaðamarkaði í jafn fámennu landi og Íslandi, en einhvern tíma verður betri sýn á hlutverki blaðs að ná fótfestu hér.  Ég skora á atvinnulausa blaðamenn og hugsuði í þjóðfélginu að nota nú hugvitið og skapa betra blað.  Nú er bæði þörf og nauðsyn!

Mér þykir leitt að skilja við Morgunblaðið, því að ýmislegt í gerð þess hefur verið ágætt í gegnum áratugina, en nú tók steininn úr og þessu vil ég ekki una. 

Ég þakka samfylgdina og þjónustuna hér hingað til.  Þá þakka ég sérstaklega þeim fjölda fólks sem hefur heimsótt blogg mitt og lagt orð í belg, bæði með og á móti mínum skoðunum. 

Verið sælir kæru bloggvinir.


mbl.is Davíð og Haraldur ritstjórar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

djöfull hlýtur Davíð að vera svekktur nuna

Jóhann (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 23:04

2 identicon

Vertu sæll.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 23:20

3 identicon

Þetta er ágætt fyrir okkur sjálfstæðismenn, að eygja nú að framundan sé stefnufestu Davíðs Oddsonar að finna á síðum þessa viðulegasta dagblaðs þjóðarinnar. Það verður ekki amalegt að hafa ötulasta baráttumann fullveldis og efnalegs sjálfstæðis okkar þjóðar í ritstjórastólnum. Þaðan á hann létt með að ná til lesenda blaðsins og láta rödd sína heyrast oftar í þjóðmálaumræðunni. Hvað varðar brotthvarf þitt úr áskrifendahópnum, þá er það leitt, er skiljanlegt miðað við fyrri skrif þín hér á blogginu. En ég kem í staðinn, fékk mér fulla áskrift að nýju um leið og ljóst var að þeir Davíð og Haraldur myndu stýra blaðinu.

Óttar Felix Hauksson (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 23:29

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

skil þig vel...er sjálf ekki áskrifandi!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 24.9.2009 kl. 23:42

5 Smámynd: Sigurjón

Sæll Svanur.

Ég ætla rétt að vona að ég geti lesið pistla eftir þig á öðrum vettvangi.  Þeir eru þarfir og góðir.

Kveðja, Sigurjón

Sigurjón, 24.9.2009 kl. 23:46

6 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Þar fór í verra.

Skjóttu á mig línu þegar þú finnur þér nýjan vettvang.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 24.9.2009 kl. 23:55

7 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Sæll Svanur. Vona að þú opnir síðu á öðrum vettvangi.Er sjálfur að íhuga stöðuna. Er á blogg gáttin, og með ónotaða síðu á visir.is "klakinn".Opnaði hana til öryggis ef mbl.is lokaði á mig vegna orðbragðsins. Fer að nota hana.

Kveðja.

Þráinn Jökull Elísson, 24.9.2009 kl. 23:57

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk kæru.  Hvað haldiði að sé áhugaverðasta og best stýrði bloggmiðillinn nú?  Það væri gott að fá ráðleggingar um það hvert maður á að fara með bloggið sitt.

Svanur Sigurbjörnsson, 25.9.2009 kl. 00:04

9 identicon

Vert þú blessaður Svanur. Ekki mun ég sakna þín. Það er eðlilegt að þið Samfylkingarmenn séuð óanægðir. Þið hafið verið klappstýrur útrásarliðsinns og  Fréttablaðið og DV eru ykkar Biblía. Far þú með friði.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 00:34

10 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sæll Svanur.

Ég er sjálf ekki búin að ákveða hvað ég geri, er að hugsa málið, en það verður leiðinlegt að missa af þér, svo endilega láttu mig vita hvar þú verður.  

Ég hef sjálf fengið að vera nokkuð óáreitt hér á moggablogginu, þrátt fyrir miklar trúarumræður og þegar ég hef haft samband við blog.is vegna níðskrifa annarra, þá hefur alltaf verið á mig hlustað.

Það hefur verið gaman að þessu bloggi hérna hjá mogganum og ef margir ætla að fara, þá verður það leiðinlegt.

En ég ætla aðeins að pæla í þessu.

Bestu kveðjur og takk fyrir allt hér Svanur.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 25.9.2009 kl. 00:39

11 Smámynd: Katrín Linda Óskarsdóttir

Mér finnst kjánalegt hjá fólki að ætla sér að hætta að blogga hér bara vegna þess að DO var ráðinn ritstjóri MBL ..... skil bara ekki þessa viðkvæmni. Davíð kemur örugglega ekki til með að skipta sér af því sem hér verður skrifað og hver veit nema að MBL verði forvitnilegt/ra lestrar núna þegar hann er kominn þar við stjórnvölinn   En bless Svanur og gangi þér þá bara vel hvert sem þú ferð

Katrín Linda Óskarsdóttir, 25.9.2009 kl. 00:51

12 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Sæll

Ég hef einnig ákveðið að flytja mig um set: bubot.blogg.is 

blogg.is er notendavinsamlegt svæði og mér líst vel á það.

Sem bloggvefsvæði hefur moggabloggið verið notendavinsamlegt og auðvelt að finna færslur um efni sem hafa vakið áhuga manns. Með notkun á google reader má hins vegar fylgjast með áhugaverðum bloggurum og einnig er blogg.gattin.is góð aðferð til að finna áhugavert efni.

Það er líf eftir moggablogg.

Þú ferð á google reader hjá mér og ég fylgist með.

Kveðja

Kristjana Bjarnadóttir, 25.9.2009 kl. 01:47

13 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Sæll Svanur - ég hef verið að benda öflugum bloggurum á Eyjuna - ekki það að ég hafi nein ítök þar, en það er áhugaverður kostur.

Svo er alltaf blogg.is og blogspot, fyrir utan wordpress, kaniku og fleiri.

Svala Jónsdóttir, 25.9.2009 kl. 01:51

14 identicon

Svanur

Er þetta ekki full mikil fljótfærni.  Hverjar þínar skoðanir eru hefur aldrei legið á milli hluta.  Sumar færslur þínar eru vandaðar og aðrar ansi þröngsýnar, svona besserwisserfílingur.  Það þýðir ekki að ég skoði þær ekki eða vilji loka á þær eða lesi aðra fréttamiðla þar sem þú bloggar ekki.  Þú gætir einnig orðið víðsýnni með tíð og tíma!!  Þú gerir þér fyrirfram skoðanir á hver fréttastjórn Moggans verður.  Mundu að "when you make an assumption, you make an ass out of u and mption".  Annars sé ég ekki að heimurinn breytist mikið þótt flestir bloggarar á mbl.is hætti þessari iðju.  Bon voyage,

Anton

Anton (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 02:20

15 Smámynd: Theódór Norðkvist

Nú tek ég undir með þér, Svanur.

Theódór Norðkvist, 25.9.2009 kl. 02:51

16 identicon

Bloggar.is er með fínt kerfi.

Elisa (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 02:55

17 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

BESTU BLOGARAR MBL.IS ERU AÐ HÆTTA HVERJIR AF ÖÐRUM...ÁN ÞESS AÐ MÆLAST UM ÞAÐ FYRIRFRAM!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 25.9.2009 kl. 03:11

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ég er hugsi yfir þessu öllu.  Gangi þér vel hvar sem þú berð niður. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.9.2009 kl. 08:45

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir kveðjur og ábendingar.  Auðvitað er Morgunblaðið meira en Davíð Oddsson, en ritstjórnin skiptir talsverðu máli.  Fari Davíð eða sýni einhvern þroska í starfi sínu, má auðvitað endurskoða málið síðar.  Það er einnig ágætt að gefa öðrum bloggmiðlum gaum og setja púður sitt þar.  Hér hefur verið ágætis bloggsamfélag og umræðan snúist mikið um lífsskoðanir, ekki síður en stjórnmál.  Það er því missir í því að taka ekki þátt í því, en hér eru seldar auglýsingar sem styðja undir Morgunblaðið, blað sem ég nú vil ekki styðja fjárhagslega með nokkru móti.

Svanur Sigurbjörnsson, 25.9.2009 kl. 09:54

20 identicon

Er innilega sammála þér, Svanur. Láttu okkur, lesendur bloggsins, vita hvert þú ferð, svo að við þurfum ekki að leita lengi að þér!

Ég sagði strax upp áskrift minni að Mogganum; ég kæri mig ekki um að greiða meira af launum Davíðs en ég geri nú þegar í gegn um skatta.

Guðbjörg (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 13:58

21 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Þá er bæði rétt og skylt siðferðilega vegna afstöðu þinnar til eigenda og nýrra ritstjóra Morgunblaðsins að þú lokir þessari bloggsíðu þinni þegar í stað. Ekki viltu hafa nafn þitt hér lengur - eða hvað ?

Annars bendir ferill Davíðs til að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af að hann hefti skoðanaskipti manna á blogginu - heldur þvert á móti.

Þetta felst meðal annars í orðum hans í viðtali sem tekið var við hann vegna þessa nýja starfsvettvangs hans.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 25.9.2009 kl. 14:54

22 Smámynd: Sigurður Rósant

Farið hefur fé betra

Annars held ég að það líði ekki langur tími þar til þú snýrð aftur, kurteisari og orðvararii en áður í garð meirihluta trúleysingja sem ekki eru í Vantrú, Siðmennt eða SAMT.

Þú lætur kannski ógert að eyða því sem þú hefur skrifað? Getur verið gagnlegt að vitna í skrif þín sem oft hafa verið fróðleg og málefnaleg.

Þú ert aðeins of ungur til að þekkja Davíð Oddson.

Hittumst síðar á mbl.blog.is

 

Sigurður Rósant, 25.9.2009 kl. 18:06

23 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Gott að heyra Guðbjörg. 

Ég er að spá í að blogga á Eyjunni.  Hef ekki gengið frá því alveg enn.

Predikari - Ég er ekki að hætta hér vegna þess að ég hafi áhyggjur af afskiptum nýrra ritstjóra af blogginu.  Það er ágætt að lesa það sem maður skrifar áður en þú gerir athugasemdir.  Hafðu ekki áhyggjur af því að ég verði hér með eitthvað hangandi óvirkt blogg.  Um leið og ég er búinn að ganga frá og flytja er ég farinn héðan alveg. 

Svanur Sigurbjörnsson, 25.9.2009 kl. 18:11

24 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sigurður Rósant

Ég læt staðar numið í deilu við þig.  Greinar mínar verða á www.svanursig.net síðar meir flokkaðar eftir málefnum.  Hluti greinanna er þar nú þegar. 

Kveðja

Svanur Sigurbjörnsson, 25.9.2009 kl. 18:19

25 Smámynd: Sævar Einarsson

Ég ætla að fá mér áskrift fyrst núna, það er á hreinu, bloggritskoðunarhentisemiskommatittirnir eru farnir að grenja á við heilt kvenfélag og hóta að loka bloggum sínum og færa sig annað, til Jóns Ásgeirs sem dæmi LOL, þvílík unun og Anna Benkovic Mikaelsdóttir, nei verstu bloggararnir eru að fara(ef þeir þá standa við stóru orðin, það er jú vont að falla af vinsældarlistanum)

Sævar Einarsson, 25.9.2009 kl. 22:38

26 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég hvet alla bloggara hér á blog.is til að fara að dæmi Svans og færa sig, á Wordpress eða eitthvert annað og hætta að fjármagna þessa blóðsugu, Morgunblaðið.

Það er ábyrgðarhlutur að styðja spillta fjölmiðla- og kvótakónga sem hafa kostað skattgreiðendur a.m.k. 3 milljarða og fóðra ritstjóra sem henti 350 milljörðum af skattfé út um gluggann sem seðlabankastjóri og er aðalhönnuður íslenska efnahagshrunsins sem forsætisráðherra.

Farið sam helst ekki úr öskunni í eldinn, til Jóns Ásgeirs á blogg.visir.is.

Theódór Norðkvist, 26.9.2009 kl. 00:36

27 Smámynd: Einar Karl

Heill og sæll Svanur!

Skil þig mætavel. Ég er farinn yfir á patentlausn.blogspot.com. Set þig á listann minn í blogggáttinni.

Bestu kveðjur

Einar Karl, 26.9.2009 kl. 01:06

28 Smámynd: Sævar Einarsson

Allir koma þeir aftur og enginn þeirra hló(dó)

Sævar Einarsson, 26.9.2009 kl. 01:27

29 Smámynd: Katrín Linda Óskarsdóttir

Ha ha ha ... .Sævarinn er góður   Hverjum er ekki sama um þó að Svanur og/eða einhverjir aðrir hætti hér ..... 

Katrín Linda Óskarsdóttir, 26.9.2009 kl. 03:35

30 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Theódór og Einar Karl.  Gangi ykkur vel.

Ég er að spá í að blogga á Eyjunni.is

Læt vita nánar síðar  - kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 27.9.2009 kl. 01:50

31 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég bið þig um að endurskoða þetta. Við þurfum málsvara eins og þig. Þú getur ekki verið þekktur fyrir pólitískt ofstæki, þegar þú berst svo hart gegn hinu trúarlega.  Bloggið er einunguis umræðu og tjáningarvettvangur og góður sem slíkur, hvað sem eigendum þess líður. Ef eitthvað er, þá er kannski aldrei mikilvægara en nú að standa vörð um málfrelsið.

Annars var ég að grúska smá, eftir umræðuna um Helga Hós. Ég fann það út að ef þú ert skírður, þá telst þú kristinn. Það að skrá sig úr þjóðkirkjunni breytir því ekki. Það eru aðeins táknræn mótmæli og formsatriði, sem engu breytir nema skattlagningu þinni.

Er ekki vert að Siðmennt kíki á þetta mál? Eru þaetta í raun samtök kristinna einstaklinga, sem halda sig vera ómerkt trúarbrögðum?

Það lítur þannig út.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.9.2009 kl. 07:20

32 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Jón Steinar

Pólitík og lífsskoðanir eru hvort tveggja mjög mikilvægt.  Varla getur það talist til "ofstækis" að ég segi upp Morgunblaðinu og hætti að blogga á vefmiðli þess.  Fjölmiðlar þrífast á þeim áhangendum sem þeir hafa.  Ef engin verður lesningin, falla fjölmiðlarnir.  Morgunblaðið er sjálfstæður fjölmiðill og rekur ákveðna pólitíska og trúarlega stefnu í gegnum ritstjóra sína.  Jafnframt heldur hann úti síðum og bloggi fyrir fólk til að tjá sig á, sem hefur verið að mörgu leyti vel heppnað.  Hingað til hef ég getað horft fram hjá því hverjir ritstjórar blaðsins eru, en með komu Davíðs Oddssonar er blaðið að setja mann í áhrifastöðu sem ég hef mjög lítið álit á og tel hafa skaðað þjóðfélag okkar verulega.  Fyrsta að svo er í pottinn búið get ég ómögulega aðhafst nokkuð sem styður óbeint það að áhrif Davíðs haldi áfram að sveima yfir vötnum.

Breytist forsendur er ég meira en tilbúinn að endurskoða þetta, en eins og er finnst mér réttast að leggja fram skrif mín annars staðar.

Það að maður teljist kristinn þó að maður skrái sig úr Þjóðkirkjunni, getur ekki talist svo nema í kirkjubókum þar sem væntanlega verður maður ekki skráður ógildur af skírninni eða fermingunni.  Það skiptir auðvitað máli að opinber skráning sé rétt og því er það sorglegt að margir trúlausir nenna ekki að skrá sig úr Þjóðkirkjunni og því er hlutfall kristinnna ofmetið.  Fólk er þeirrar skoðunar sem það segist vera og því breyta ekki gamlar skírnir.  Siðmennt er því auðvitað félag húmanista en ekki kristinna manna.  Annað er bara hártogun.  Er ég nokkuð að misskilja þig?

Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 27.9.2009 kl. 16:52

33 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég hef nú fengið inni á bloggi Eyjunnar

http://blog.eyjan.is/svanurmd/

og mun hefja greinaskrif þar innan nokkurra daga.

Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 4.10.2009 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband