Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Segi upp Morgunblaðinu og hætti bloggi hér!

Þetta eru verulega slæm tíðindi.  Með fækkun blaðamanna og starfsfólks með áratuga reynslu við blaðið er vart von á bættum vinnubrögðum hjá því.  Mér sýnast þær blikur á lofti að Morgunblaðið sé að "lúta í gras" og það geti átt sér stað miklar breytingar á íslenskum dagblaðamarkaði næstu mánuðina.  Tap Morgunblaðsins mun varla minnka við þessa leikfléttu sem er í raun aðför að orðspori blaðsins.  Davíð Oddsson er maður sem beitir groddalegu máli og framkomu til að fá sitt fram hvarvetna sem hann starfar og hann er sá einstaklingur sem ég síst vildi sjá sem ritstjóra blaðs sem hefur gefið blaðamönnum sínum þó nokkuð frelsi í skrifum sínum undanfarna áratugi.  Með komu Davíðs litast blaðið af hinum afturhaldssama harðlínuvæng Sjálfstæðisflokksins og miðað við þær orðræður sem hann hefur flutt undanfarin ár, er ekki von á miklu öðru en ærumeiðandi skítkasti í allar áttir. 

Sterkustu hlutar Morgunblaðsins hafa verið þjónusta þess við lesendur með fréttum, aðsendum greinum, minningargreinum og fræðandi lesbókargreinum.  Það hefur haft á sér stílhreinan blæ og ljósmyndarar þess hafa getið sér gott orð.  Það hefur sérhæft sig í pólitískri umræðu en haldið í ljóta siði eins og skot úr myrkri dálka eins og Staksteinum og ritstjóragreinar hafa ekki verið merktar nafni þannig að lesendur hafa þurft að giska á hvort að Styrmir eða Matthías hafi skrifað.  Kannski ekki erfitt fyrir suma lesendur, en ósmekklegt eigi að síður af blaði sem síðan hefur bannað nafnlaus blogg við fréttir á vefmiðli blaðsins.  

Fréttir og umfjöllun blaðsins af heilbrigðismálum og heilsuvernd hefur verið ömurlega léleg undanfarin ár og æsifréttamennska og lúff fyrir auglýsendum gervilausna verið mjög ríkjandi.  Síðasta sérblað Mbl. um heilsu var hreint hræðilegt utan 3-4 greina (af tugum) sem eitthvað vit var í.  Sumar greinarnar voru hreinar auglýsingar þó að þær væru ekki merktar sem slíkar. 

Þá hefur ritstjórnarstefna þessa bloggs farið dálítið úrskeiðis með því að banna suma einstaklinga hér en leyft öðrum að vera, sem hafa sýnt af sér mikinn dónaskap.  Það hefur ekki gætt samræmis, þó að ég geti sýnt því skilning að slíkt sé erfitt í framkvæmd.

Ég get ómögulega stutt dagblað sem setur mann eins og Davíð Oddsson í ökumannssætið og því hef ég ákveðið að segja upp áskrift minni að blaðinu frá og með næstu mánaðarmótum.  Ég ætla að hætta að blogga hér einnig og finna mér annan vettvang. 

Ég vona að einhver góður hópur fólks í þjóðfélaginu rísi nú upp til að stofna nýtt dagblað sem hefur virðingaverðari sjónarmið að leiðarljósi en þau sem nú munu stýra Morgunblaðinu.  Það er þröngt á dagblaðamarkaði í jafn fámennu landi og Íslandi, en einhvern tíma verður betri sýn á hlutverki blaðs að ná fótfestu hér.  Ég skora á atvinnulausa blaðamenn og hugsuði í þjóðfélginu að nota nú hugvitið og skapa betra blað.  Nú er bæði þörf og nauðsyn!

Mér þykir leitt að skilja við Morgunblaðið, því að ýmislegt í gerð þess hefur verið ágætt í gegnum áratugina, en nú tók steininn úr og þessu vil ég ekki una. 

Ég þakka samfylgdina og þjónustuna hér hingað til.  Þá þakka ég sérstaklega þeim fjölda fólks sem hefur heimsótt blogg mitt og lagt orð í belg, bæði með og á móti mínum skoðunum. 

Verið sælir kæru bloggvinir.


mbl.is Davíð og Haraldur ritstjórar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleyg orð Helga Hóseassonar

Í fyrradag fór útför Helga Hóseassonar (sem skrifaði eignarfall nafns síns með þremur essum "Hóseasssonar") fram og var hún haldin á veraldlegan máta í anda manngildis. 

Eftir að hafa kynnt mér ýmislegt það sem Helgi sagði og ritaði eru það eftirfarandi orð hans sem mér finnast einna best:

Ég reyni að nota glóruna.  Ég trúi ekki því sem ég get ekki fellt mig við eða skilið.  Ég leitast við að viðurkenna takmörk mín og fer ekki að búa til skáldskaparrauðgraut í það bil sem ég ekki skil í tilverunni.  Trú er forkastanlegt hugtak; ég leitast við að mynda mér skoðun á hverju og einu og haga mér samkvæmt henni.

Í senn eru þetta ákaflega hógvær og rökrétt orð.  Þau lýsa einnig miklum heiðarleik hans og samkvæmni.  Helgi var maður orða sinna og lifði eftir sannfæringu sinni.  Það og þrautsegja hans eru mikilvægar dygðir sem eru til eftirbreytni.  Hinn mikli baráttumaður er allur, en orðin lifa.

---

Sjá stuðningsmannasíðu á Fésbókinni


Styðjum baráttumál Helga Hóseassonar!

Nú er hinn aldni baráttumaður og hugsjónamaður Helgi Hóseasson allur.  Í lifanda lífi fékk hann blendnar móttökur og þótti undarlegur.  Nú vill fjöldi fólks reisa honum minnisvarða.  Hvers vegna?

Ég held að flestir vilji heiðra minningu manns sem gafst ekki upp og mótmælti allt til enda því ranglæti sem hann taldi sig hafa verið beittan.  Fjöldi fólks dáðist að baráttuþreki hans, burt séð frá því hvort að það væri sammála málstað hans eða ekki.  Helgi fékk síðan aukna athygli og fólk skyldi betur manninn eftir að um hann var gerð heimildamyndin "Mótmælandi Íslands".  Hann varð einhvers konar lifandi goðsögn hins ódrepandi mótmælanda, en sökum þess að hann var einfari og var sérlundaður var hann aldrei opinberlega viðurkenndur né fékk hann opinbera lausn á sínum umkvörtunum.

En var eitthvað vit í baráttumálum hans? 

Eitt helsta baráttumál Helga var að fá skírnarsáttmála sínum rift af yfirvöldum eða Þjóðkirkjunni, því að hann taldi sig "svotil blautur úr móður minni" hafa verið beittur órétti með því að vera skírður.  Hann tók skírnina alvarlega, nokkuð sem fólk mætti gera áður en það ákveður að viðhafa slíka athöfn, því að í henni felst innganga í kristinn söfnuð og sáttmáli við Guð.  Helgi var trúlaus og vildi ekki vera bundinn þessum sáttmála, sem hann hafði ekki haft tækifæri til að ákveða nokkuð um.  Hann bað því yfirvöld um að fá skírnarsáttmálanum rift. 

Ólafur Arnarson hagfræðingur skrifaði á Pressunni í fyrradag um þessi málaferli Helga í minningargrein um hann.  Ég leyfi mér hér að vitna í grein hans (sem má lesa alla hér):

Helsta baráttumál hans, lengst af, var að fá að rifta skírnarsáttmála sínum við guð. Helgi taldi sig ekki hafa gert þann sáttmála og því bæri að rifta honum. Ríkisvaldið og Þjóðkirkjan voru á annarri skoðun og aldrei var fallist á að Helgi fengi að rifta sáttmálanum. Ekki var talið að heimild væri í lögum stil slíkrar riftunar. Verður það að teljast einkennileg afstaða af hálfu ríkisvaldsins, að hafna því að almennur samningaréttur gildi um skírnarsáttmálann svo sem aðra samninga.

...

Ég þekkti ekki Helga Hóseasson, en hann leitaði til föður míns heitins, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, í raunum sínum og baráttu við kerfið. Þá munaði litlu að lausn fyndist, sem Helgi hefði orðið ánægður með og engan hefði meitt.

Ráðuneytisstjóri í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu var á þessum tíma Baldur Möller, skákmeistari, húmoristi og mannvinur. Pabbi og Baldur fundu lausn á málinu, sem fólst í því að ráðuneytið gæfi út yfirlýsingu svohljóðandi: „Dóms- og kirkjumálaráðuneytið staðfestir hér með að Helgi Hóseasson hefur tilkynnt ráðuneytinu að hann hafi fyrir sitt leyti rift skírnarsáttmála sínum.“

Lagalegt fordæmisgildi slíkrar yfirlýsingar var að sjálfsögðu ekkert, enda ekki hægt að rifta samningum einhliða. Ráðuneytið var ekki að staðfesta riftun. Þetta var hins vegar lausn, sem Helgi var sáttur við.

Þá brá svo við að Biskupsstofa, fyrir hönd Þjóðkirkjunnar, setti sig upp á móti þessari einföldu lausn, sem hefði róað mann, sem sannarlega taldi sig beittan ranglæti. Pólitísk yfirstjórn ráðuneytisins vildi ekki ganga gegn vilja kirkjunnar í málinu og því neyddist Helgi til að mótmæla til dauðadags.

Þessi saga kemur manni því miður ekki á óvart.  Þjóðkirkjan er ekki vön að láta eftir neitt af sínu og forystumönnum hennar hefur sjálfsagt þótt beiðni Helga í hæsta máta óvirðuleg og óviðeigandi.  Hann gat jú skráð sig úr Þjóðkirkjunni eins og aðrir, sem undu ekki hag sínum þar.  Hvers vegna ætti Þjóðkirkjan að gefa yfirlýsingu til Helga um að hann væri ekki lengur bundinn skírnarsáttmálanum?  Hvers vegna ekki, spyr ég á móti? 

Ef að prestar hennar trúa því virkilega að þarna sé um heilaga athöfn að ræða þá ættu þeir að skilja að Helgi hafi viljað afhelgast.  Það sést nefnilega að þegar Þjóðkirkjunni hentar, getur hún afhelgað hluti, en það gerir hún þegar gamlar kirkjur eru teknar úr notkun.  Fyrir trúfrían mann eins og mig er það frekar hláleg athöfn, svona líkt og þegar wodoo prestar taka svartagaldur til baka.   Hvað sem mínu áliti líður, þá er þarna fordæmi um að Þjóðkirkjan afhelgi.  Hvers vegna mátti það ekki gilda einnig um fólk? Sérstaklega fyrir aldraðan mann sem tók skírnina svona alvarlega.  Mátti ekki kveðja hann úr loforði við skírnina með handabandi og orðum um aflausn sáttmálans?  Mátti ekki sýna þá mannvirðingu, frekar en að hunsa hann sem óguðlegan og skrítinn sérvitrung? 

Þetta baráttumál Helga á sér hliðstæðu í dag hjá okkur sem eftir lifa, en það er nefnilega baráttan gegn því að nýfædd börn séu skráð sjálfkrafa í trúfélag móður.  Með því að gera slíkt er verið að gera nákvæmlega það sama þessum börnum og gert var við Helga, þ.e. að skrá börn í félag sem þau hafa ekkert vit á og stimpla þau þannig með lífsskoðun móðurinnar.  

Þann 1. desember 2008 sendi Jafnréttisstofa frá sér svohljóðandi tilkynningu um efnið: 

Jafnréttisstofa telur annmarka á þessu ákvæði laganna um skráð trúfélög. Í fyrsta lagi er það tæpast í samræmi við jafnréttislögin og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns að kyn þ.e. móðerni ráði því alfarið í hvaða trúfélag barn er skráð frá fæðingu. Löggjafinn hefur ekki fært fyrir því rök, eftir því sem best verður séð, af hverju nauðsynlegt er að barn sé skráð í sama trúfélag og móðir þess við fæðingu. Í öðru lagi er það sem Jafnréttisstofa telur mikilvægast í þessu máli sem er a ðekki er að sjá að það séu neinir hagsmunir,hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag, hvort sem það fylgir skráningu móður eða föður. Miklu eðlilegra, og í meira samræmi við jafnréttislög og anda þeirra laga,sem og jafnrétti og mannréttindi almennt, væri að forsjáraðilar tækju um það ákvörðun hvort, og þá hvenær skrá ætti barn í trúfélag. Samþykki beggja forsjáraðila ef þeir eru tveir, yrði þá að liggja fyrir til þess að barn yrði skráð í trúfélag þegar það er yngra en að því sé heimilt að sjá um slíkt á eigin forsendum.
 
Niðurstaða Jafnréttisstofu er því sú að endurskoða þurfi tilgreint ákvæði laganna um skráð trúfélög, og þá annað hvort færa fyrir því gild rök að fyrirkomulag sem nú er lögfest sé eðlilegt og samrýmist jafnréttislögum og mannréttindalöggjöf eða fella ákvæðið í 2. mgr. 8.gr. laganna brott, og breyta fyrirkomulagin í þá veru að forsjáraðilar taki sameiginlega ákvörðun um skráninu barns í trúfélag, þegar þeir svo kjósa.

Minning Helga Hóseassonar yrði best heiðruð með því að afnema þessi lög um sjálfkrafa skráningu barna í trúfélag móður.  Það á ekki að viðhafa skráningu barna upp að 16 ára aldri hjá ríkinu í trúarleg eða veraldleg lífsskoðunarfélög. 

Fyrir þessu berst Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi og það gengur með góðu fordæmi með því að skrá ekki börn í félagið. 

 

Helgi og Siðmennt 

Helgi grúskaði talsvert í ritum um lífsskoðanir og trúmál. Hann hafði kynnt sér siðrænan húmanisma á erlendum tungum þar sem talað var um "human etik" og "ethical humanism".  Reynir Harðarson einn af stofnfélögum í Siðmennt átti í samskiptum við Helga um það leyti sem stofna átti húmanískt félag í kringum Borgaralegar athafnir.  Hann kom auga á eina athugasemd í úrklippusafni Helga þar sem stóð: "Eftirtaldir menn aðhyllast siðmennt:...".  Reyni fannst þetta bráðsnjallt orð og stakk uppá því að félagið yrði kallað Siðmennt, og gekk það eftir. Um stuttan tíma uppúr stofnun Siðmenntar árið 1990 kom Helgi nokkrum sinnum á fundi hjá félaginu en svo skildu leiðir hans við félagið enda einfari mikill.

 

Ekki aðeins minnisvarða!

Mótmælandinn mikli er nú allur og hans baráttuþreks verður lengi minnst.  Hann barðist fyrir frelsi og gegn kúgun, en átti alltaf erfitt uppdráttar.   Ég votta aðstandendum hans og vinum samúð mína og vona að um hann rísi ekki einungis minnisvarði, heldur einnig varanleg bót á mannréttindum í anda þess sem hann barðist fyrir, þ.e. frelsi fólks til að hafa sína eigin sannfæringu og vera ekki innvígður opinberlega í trúfélag sem barn. 


mbl.is Vilja minnast Helga Hóseassonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér kom það helst í hug

Hughrif

 

Heilsaðu hafinu

haustflygsunum hreinu

Hvíldu hugarfylgsnin

úr hríminu heilu

 

Hafnaðu ei hjartanu

hógværðinni hjá

Hataðu helsið háa

heillin hringa Gná

 

Höggðu hismið

hrollbungan há

Hrattaðu hrynjanda

hringiðunni hvá

 

Hertu hugann

heljarragnið hráa

Helmingaðu hratið

ei helber hrif náa

--- SvS


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband