Færsluflokkur: Heimspeki

Fleyg orð Helga Hóseassonar

Í fyrradag fór útför Helga Hóseassonar (sem skrifaði eignarfall nafns síns með þremur essum "Hóseasssonar") fram og var hún haldin á veraldlegan máta í anda manngildis. 

Eftir að hafa kynnt mér ýmislegt það sem Helgi sagði og ritaði eru það eftirfarandi orð hans sem mér finnast einna best:

Ég reyni að nota glóruna.  Ég trúi ekki því sem ég get ekki fellt mig við eða skilið.  Ég leitast við að viðurkenna takmörk mín og fer ekki að búa til skáldskaparrauðgraut í það bil sem ég ekki skil í tilverunni.  Trú er forkastanlegt hugtak; ég leitast við að mynda mér skoðun á hverju og einu og haga mér samkvæmt henni.

Í senn eru þetta ákaflega hógvær og rökrétt orð.  Þau lýsa einnig miklum heiðarleik hans og samkvæmni.  Helgi var maður orða sinna og lifði eftir sannfæringu sinni.  Það og þrautsegja hans eru mikilvægar dygðir sem eru til eftirbreytni.  Hinn mikli baráttumaður er allur, en orðin lifa.

---

Sjá stuðningsmannasíðu á Fésbókinni


Hvers vegna að gagnrýna kukl og hindurvitni?

Ég var spurður að því hvort að heilaþvottur sé nokkuð verri meðferð en önnur ef að fólki líður vel af því. 

Það spyrja sig margir þessa eftir að þeir/þær gera sér grein fyrir því að kukl og trúarbrögð (ein gerð hindurvitna) snúast ekki um sannanlega hluti, heldur ímyndaðan hugarheim.  Á fræðimáli snýst þetta um það hvort að svokölluð "placebo" eða lyfleysuáhrif séu réttlætanleg eða ekki.  Er í lagi að ljúga til að ná tilætluðum árangri í meðferð eða boða lífsskoðun sem byggir á trú á ímyndaðar verur? 

Svar:  Almenna siðareglan sem ég tel að sé rétt, er að það sé ekki í lagi að nota lyfleysuáhrif viljandi (lygar um meðferð), en ég ætla ekki að útiloka að það geta komið upp ákveðin sjaldgæf neyðartilvik þar sem slík lygi gæti verið réttlætanleg um skamman tíma og þá er ég auðvitað ekki að tala um markaðssetngu eða boðun slíkra lyga til hópa fólks.  Ég hef aldrei talið mig þurfa að beita þessu og þetta er ekki leyft skv. siðareglum lækna.  Það er því mjög sterkt grundvallaratriði að blekkja ekki neinn hvað meðferðir varðar. 

Skaðinn af viljandi beitingu lyfleysuáhrifa og blekkinga til að ná ákveðnu meðferðarmarkmiði er eftirfarandi:

  1. Horft er framhjá metnaðarfyllri og raunsannri meðferð
  2. Horft framhjá því í sumum tilvikum að það er engin þekkt meðferð og því er aðlögun að þeim raunveruleika seinkað. 
  3. Mögulega skaðlegt heilsu þess sem fær kuklmeðferðina.  Margar kuklmeðferðir eru skaðlausar því að þær eru án virkni (t.d. hómeópatía) en sumar eru skaðlegar beint (sveltikúrar eða notkun hættulegra náttúruefna) eða óbeint (fólk missir af bjargandi meðferð).
  4. Eyðilegging á þekkingu, því kuklþekking breiðist út og elur á fordómum gagnvart vísindalegri þekkingu.
  5. Eyðilegging á mannauði.  Fólk sem lærir og svo iðkar kukl er oftast það fólk sem er mest blekkt og það eyðir tíma, fé og vinnu í að iðka það að gefa fólki "nýju fötin keisarans".  Það er sóun á kröftum fólks.
  6. Fjárhagslegt tap á ýmsa vegu.  Kostnaður við að læra kukl og svo eyðsla fólks í að kaupa gagnslausar kukllausnir.  Gagn af lyfleysuáhrifum þverra út á stuttum tíma.  Aukinn kostnaður í heilbrigðiskerfinu vegna skaðsemi kuklsins á heilsu fólks.  Alverst yrði ef kuklgreinar yrðu teknar upp á arma hins opinbera eða studdar af tryggingasjóðum.

Fleira mætti týna til en þetta eru aðalatriðin.  Heilmikið hefur verið skrifað um lyfleysuáhrifin og stundum eru þau notuð beinlínis til að skaða og heita þá nocebo, sbr fólk sem hræðir líftóruna úr fólki með því að spá fyrir um heilsutapi hjá því eða miklum náttúruhamförum.  Svartigaldur og woodoo eru þeirrar ættar.  Ég hvet til meiri umræðu um placebo áhrifin í þjóðfélaginu.

Góðar stundir!


Hið sammannlega og hamingjan - Dalai Lama, Barack Obama, A.H. Maslow og Aristóteles

Það er búið að vera athyglisvert að fylgjast með heimsókn Dalai Lama og horfa á það sjónvarpsefni sem bæði RÚV og Stöð 2 hafa boðið uppá um þennan merka mann.  Hann er vel að þeim heiðri kominn sem Parísarbúar eru nú að veita honum.

Í viðtali við hann í þætti RÚV sagði Dalai Lama eftirfarandi (endursagt):

Ég [Dalai Lama] er ein manneskja af 6 milljörðum sem byggja jörðina.  Mitt hlutverk í þessari röð eDalai_Lama_RUVr:

  1. Að öðlast innri frið og hjartahlýju.  Sýna samhygð (empathy) gagnvart öðru fólki.  Við erum félagsverur og hamingja okkar veltur mikið á því að gera vel við aðra.
  2. Að vera búddisti.
  3. Að rækta skyldur við þjóð mína, Tíbet og að vera þjóðinni Dalai Lama.  Ef í framtíðinni verður ekki þörf fyrir stofnunina Dalai Lama fyrir Tíbet þá verður hún lögð af, annars ekki.  Ég ákveð það ekki.

Það virðis í fljóti bragði að þetta séu sjálfsagðir hlutir, en svo er ekki og viskan í þessum orðum Dalai Lama felst fyrst og fremst í því hver forgangsröð þessara atriða er.  Hann setur manneskjuna fremsta og þann mikilvæga eiginleika að finna til samhygðar og hjartahlýju.  Leitin að innri gildum, frið og sátt við aðra er mikilvægust.  Þar á eftir koma hans eigin trúarbrögð, búddisminn og loks skyldur hans sem Dalai Lama gagnvart Tíbet.  Hann skynjar að staða hans er ekki endilega eilíf og sýnir þá auðmýkt og raunsæi að hugsanlega verður ekki embætti Dalai Lama í framtíðinni.  Hann setur því velferð annarra fram fyrir þörfina fyrir að viðhalda því embætti sem hann gegnir.  Þá sagði Dalai Lama að mikilvægt væri að láta skynsemina ráða í öllu því sem við gerum.

Í bók sinni: "The Dalai Lama, A Policy of Kindness" Dalai Lama 1990 bls. 52, segir hann:

Ég trúi að í sérhverju lagi samfélagsins - í fjölskyldunni, ættinni, þjóðinni og jörðinni - sé lykillinn að hamingjuríkari og árangursríkari heimi vöxtur væntumþykjunnar. Við þurfum ekki að verða trúuð og við þurfum ekki heldur að trúa á ákveðna hugmyndafræði. Það eina sem þarf er að hvert okkar þrói með sér okkar góðu mannlegu eiginleika.

Annað sem er sláandi (fyrir trúarleiðtoga), er að hann viðurkennir að fjárhagslegar þarfir (ytri gildi)eru eðlilegar, en á sama tíma vill brýna fyrir fólki að það megi ekki vanrækja hin innri gildi, sem nauðsynleg eru til að öðlast lífsfyllingu.  Hugsa þurfi allar ákvarðanir út frá stóru samhengi hlutanna, ekki aðeins þeim fjárhagslegu. 

Þetta er í samræmi við þann boðskap sem Barack Obama forseti Bandaríkjanna hefur flutt, en hann talar um að ekki þurfi einungis að stoppa í fjárlagagatið heldur þurfi ekki síður að leiðrétta "samhygðarhallann" (empathy deficit) í heiminum.  Lykillinn að betri heimi er að setja okkur í spor annarra.  Sjá umfjöllun á baráttuvefnum change.org

Bandaríski sálfræðingurinn Abraham Harold Maslow (1908-1970) var þekktur fyrir kenningar sínar á sviði húmanískrar sálfræði og var valinn húmanisti ársins árið1967 Abraham_maslowaf Húmanistafélagi Ameríku (Am. Hum. Assoc.).  Hans þekktasta tillegg er kenningin um þarfapýramídann 800px-Maslow's_hierarchy_of_needs_svgsem lýsir þörfum hverrar manneskju í 5 stigum þar sem fyrsta skrefið lýtur að þörfum líkamans fyrir fæði og vatn, annað stigið þörfin fyrir öryggi og húsaskjól, þriðja stigið þörfin fyrir ást og að tilheyra, fjórða stigið þörfin fyrir sérstaka virðingu og að afreka eitthvað, og loks fimmta stigið að öðlast lífsfyllingu (self-actualization, sjálf-raungervingu) gegnum siðferðilegan þroska, getu til sköpunar og lausnar á vandamálum, sátt við staðreyndir og hugsun án fordóma.  Mikilvægasta þörfin sé hin fimmta, en bæði fjórða og fimmta stigið lýsa fólki sem hugsa ekki síður um velferð annarra en sína eigin.  Síðari kennimenn hafa bent á að þessi röðun sé ekki endilega til staðar í lífi fólks, en hvað sem því líður, þá er þarfapýramídi Maslows athyglisvert módel til að skilja betur mismunandi ásigkomulag manneskjunnar og e.t.v. hvar hamingjuna er að finna. 

Forn-Grikkir; Sókrates sagði: "Hið órannsakaða líf er ekki þess virði að lifa" og Aristóteles sagði að hin vel ígrundaða manneskja sem ræktaði gáfur sínar ætti mestan möguleikann á hamingju.

Í fjallræðunni á Jesús að hafa sagt að kærleikurinn sé trúnni meiri.  Þetta er í raun það sem Dalai Lama er að segja, en vandi kristninnar er að þessi orð Jesú eru í mótsögn við margt annað sem stendur í Biblíunni.  Í henni er ítrekað því haldið fram að Guð sé kærleikurinn og aðeins í gegnum hann sé elskan möguleg.  Martin Luther (1483-1546), faðir mótmælendatrúarinnar sagði eitt sinn: "Tortíma skal allri skynsemi úr kristnu fólki".  Sem sagt manneskjan er ekki fær til að meta sjálf hvað sé henni fyrir bestu og allt þurfi að skoðast fyrst í gegnum gleraugu trúarinnar á guð.  Frjálslyndir mótmælendaprestar í dag lifa eftir kærleiksboðinu og leyfa sér að nota skynsemina í formi óyfirlýstrar manngildishyggju (t.d. Bjarni Karlson og Hjörtur Magni Jóhannsson), en biskupar á borð við Karl Sigurbjörnson hafa átalið manngildið og í ræðu sem hann nefndi "undan eða á eftir tímanum" og flutti í Hallgrímskirkju 2. desember 2007, sagði hann:

Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.

Þrátt fyrir ýmis orð í Biblíunni þar sem kristnir eru hvattir til að hugsa ekki, heldur treysta á Guð, vilja kristnir menn gjarnan eigna sér einum skynsemina einnig og þær framfarir sem vísindin og þróun félagslegs réttlætis sem áttu sér stað með tilkomu Endurreisnarinnar (1450-1550)og Upplýsingarinnar (upp úr 1650).  Karl Sigurbjörnsson skrifaði grein þess efnis sem hann nefndi "Sigur skynseminnar" 17. október 2006 og má lesa á tru.is ásamt fjölmörgum andsvörum, m.a. frá Steindóri Erlingssyni vísindasagnfræðingi.  Þessari eignun íslensku lútersku kirkjunnar á sögulegum áhrifum og siðferðisgildum, sér m.a. merki í útlistun fagsins "Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði" í aðalnámsskrá grunnskólanna frá 2007, því þar stendur í inngangi fagsins (bls. 5) (og á bls. 7 í inngangi núgildandi aðalnámskrár frá 14. febrúar 2009):

Mikilvægur þáttur uppeldismótunarinnar er siðgæðisuppeldið. Sérhvert þjóðfélag byggist á ákveðnum grundvallargildum. Skólanum er ætlað að miðla slíkum gildum. Í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur. Nægir þar að nefna virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum og helgi mannlegs lífs, umhverfinu og öllu lífi.

Takið eftir að engar aðrar rætur grundvallargildanna eru nefndar, svo sem ásatrúin og  manngildishyggjan (eða mannhyggjan), en hin síðarnefnda braut smám saman aftur valdakerfi konunga og biskupa og átti mestan þátt í því að réttindi einstaklinga, hinna almennu borgara fengu að líta dagsins ljós.  Á síðu íslensku wikipediunnar um Endurreisnartímann má sjá eftirfarandi umsögn um mannhyggjuna (húmanismann):

Ein mikilvægasta heimspeki tímabilsins var mannhyggjan eða „húmanisminn“ sem fólst í aukinni áherslu á mannlífið í stað þess að álíta heiminn fyrst og fremst áfanga á leið til handanlífs kristninnar.

Dalai Lama sagði að öll trúarbrögð heimsins hafi í sér möguleika á því að gefa af sér innri frið, en væntanlega gerist það ekki nema að hið sammannlega, samhygðin og hjartahlýjan sé sett í fyrsta sætið. 

Jákvæðni Dalai Lama er aðdáunarverð og eflaust má finna sannleikskorn í þessari túlkun hans á trúarbrögðunum, en því miður er það álíka markvisst að nota heybagga til að reka niður nagla í vegg, eins og að styðjast við trúarbrögð í siðrænni ákvörðunartöku, sérstaklega þeirrar flóknu á sviði stjórnmála, heilbrigðismála, viðskipta, alþjóðasamskipta og laga- og réttarkerfis.  Baggi hins óþarfa og óheilbrigða í stóru trúarbrögðum heimsins er það stór að hinn sammannlegi kjarni samhygðar og velvilja mannkynsins verður oft útundan í ákvörðunartöku trúaðra þrátt fyrir góðan ásetning. (T.d. vanþóknun páfa á notkun getnaðarvarna).

Af öllu þessu fólki má draga þann einfalda og áhrifamikla lærdóm að hin hugsandi manneskja (sbr. homo sapiens), sem metur samhygð og velvilja gagnvart samferðarfólki sínu á jörðinni, æðst allra gilda, sé sú sem líklegust er til að verða hamingjusöm og stuðla um leið að hamingju annarra. Hamingjan er lykillinn að friði og velferð (í víðasta skilningi þess orðs) í heiminum og því þurfum við öll að líta ábyrgum augum til þess sem Dalai Lama setur fremst í forgangsröðunina. 


mbl.is Dalai Lama heiðraður í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband