Söguleg stund

Í kvöld átti sér stað söguleg stund í Íslenskri stjórnmálasögu.   Margrét Sverrisdóttir lýsti því yfir í gærkveldi að hún væri hætt í flokknum sem hún hefur starfað svo ötullega fyrir frá stofnun hans.  Nær 30 manns í Frjálslynda flokknum komu saman undir forystu Margrétar Sverrisdóttur til að ræða pólitíska framtíð sína í kjölfar Landsþings sem verður minnst fyrir þær klúðurslegustu kosningar sem um getur hjá stjórnmálaflokki.  Öllu þessu fólki og fjöldi annarra hefur blöskrað atgangur forystumanna flokksins við að bola Margréti Sverrisdóttur frá framkvæmdastjórn flokksins og halda í völd með því að bindast bandalagi við fólk sem þeir kæra sig í raun ekkert um.  

Margir fundarmanna hafa setið í miðstjórn flokksins og verið mjög tryggir stuðningsmenn hans til fjölda ára.  Nú er svo komið að það telur ekki lengur mögulegt að halda áfram stuðningi við flokkinn vegna algers skipbrots á trausti því sem það bar áður til forystu hans.   Stuðningsmenn Margrétar gáfu frá sér yfirlýsingu í tíu fréttunum. 

 Hér að neðan lýsi ég hluta af aðdraganda þessa máls.

Ítrekað hafði Guðjón Arnar Kristjánsson formaður flokksins sagt við áhyggjufulla miðstjórnarmenn að hann sæi enga ástæðu til að óttast 50 manna smáflokk.  Þeir hefðu ekki styrkleika til að komast neitt innan flokksins.  Hann þoldi ekki að menn töluðu um Jón Magnússon - hann kæmi þessum málum ekkert við.  En hvað gerðist?  Hann lét teyma sig í kosningabandalag með Nýju afli til þess að Magnús Þór ynni Margréti.  Sjálfsagt hefur fokið í hann fyrst að Margrét vogaði sér að íhuga framboð í hans eigið embætti um tíma.  Það var ljóst að Margrét skyldi tapa, sama hvað það kostaði. 

Hálfum mánuði fyrir landsþing hélt Magnús Þór því fram við mig að klofningur með Margréti yrði svo lítill að það væri ekki hægt að kalla það klofning.  Ég bað hann um að fara ekki í framboð til varaformanns og sýna þannig stórmennsku og sáttavilja.  Þannig sýndi hann í verki jafnréttishugsun með því að hleypa jafningja af hinu kyninu að.  Hann yrði maðurinn sem hefði lykilinn að sátt í flokknum.   Hann hafnaði tillögu minni á þeirri forsendu að hún væri röng.   Fólkið í flokknum hefði rétt á því að velja milli þeirra í kosningum, og allt annað væri að möndla við úrslitin.  Það gætu þess vegna aðrir boðið sig fram.  Hvar Magnús Þór sá slíka frambjóðendur veit ég ekki en kannski hafði hann liðsmenn fyrrum Nýs afls í huga.  

Nú standa þeir félagar sem "sigurvegarar" smölunarkosninganna og hafa selt sig miðstjórn flokksins mönnum eins og Eiríki Stefánssyni, fyrrverandi Samfylkingarmanni, með atkvæðaskiptum.  Eiríkur þessi er sá sem með offorsi og gífuryrðum hefur nítt niður starf Frjálslynda flokksins og persónu Margrétar á fundum flokksins og endurtekið á Útvarpi Sögu.   Hann hafði við orð eins og "ekkert starf hefur verið unnið í Frjálslyndum til undirbúnings komandi kosningum" og gagnrýndi að Margrét væri á launum eftir að sáttanefnd miðstjórnar hafði lagt til að hún tæki launað leyfi frá störfum framkvæmdastjóra flokksins fram yfir landsþing.   Í fyrsta lagi var búið að vinna talsvert í sumum kjördæmunum að kosningarmálunum.  Í öðru lagi var það Margrét sem beðin að taka leyfi - það var ekki hennar val.   Á landsþinginu var greinilega stærsti kosningalistinn samansettur af helmingi fólks frá Nýju afli - Eiríki Stefánssyni og helming frá stuðningsmönnum Guðjóns Arnars og Magnúsar Þór.  Kosningabandalagið var augljóst og úrslitin staðfestu það. 

Í byrjun desember var Margréti ýtt út úr framkvæmdastjórastöðu flokksins af forystunni fyrir tilstuðlan sáttanefndar.  Ástæðan var sú að forystan treysti henni ekki fyrir því að taka við innskráningum í flokkinn.  Magnús Þór óttaðist að hún myndi misnota aðstöðu sína og afla sér fylgismanna á meðal nýrra flokksmanna.  Með því að þvinga hana í nafni sáttar til að taka sér leyfi, átti að fullnægja hlutleysi og eðlilegum framgangi á undirbúningi landsþings.  Þá átti þetta að hjálpa Margréti við að einbeita sér að kosningu á þing.  Hvílíkt göfuglyndi.  Einhvers staðar brást mér þó að gráta af hrifningu yfir þessari tillitssemi við Margréti.   Ég spurði á miðstjórnarfundinum umrædda hvort að hér væru menn ekki bara að sýnast því varla breytti þetta nokkru um raunverulega sátt.  Ég skyldi ekki svarið.  Ítrekað var að Nýtt afl væri ekki á leiðinni inní miðstjórnina og ekki fylgdi með í sáttinni hvernig átti að tryggja að Magnús Þór hefði ekki aðstöðumun og tögl og haldir á skrifstofu flokksins.  Í vikunni fyrir landsþingið reyndist það svo vera Magnús Þór sem svaraði á símasvara flokksins og bauð það velkomið.  Hann hafði umsjón með félagaskránni og hélt henni frá Margréti um nokkurra daga skeið. 

Magnús Þór og Guðjón Arnar héldu fundi í Vestmannaeyjum og kjördæmisfund Sunnlendinga ásamt Grétari Mar en á þessum fundum héldu þeir langar ræður og Magnús Þór hamraði á eigin ágæti.  Í ræðum sínum minntist hann ekki á Karen sem leiddi listann á Akranesi heldur eignaði sér kosningasigurinn þar aleinn.  Hann endurtók þessi sömu framkomu í Kastljósinu á móti Margréti og hún grillaði hann á því.  Daníel Helgason vogaði sér á Suðurlandsfundinum að minnast á að með Margréti sem varaformann yrði ásýnd og málefnastaða flokksins breiðari að Magnúsi ólöstuðum.  Þrátt fyrir þessa nærgætnu ræðu Daníels, trompaðist Magnús Þór og fékk að þruma út úr sér hversu mikill jafnréttissinni hann væri þó að mælendaskrá hefði verið lokað.   Sem flokksmaður en gestur á kjördæmisfundinum (er sjálfur í Suðvesturkjördæmi) lagði ég ýmislegt til málana á fundinum til hjálpar hvað starfsreglur kjördæmafélaga varðar en það féll í frekar grýttan jarðveg.   Grétar Mar lokaði skyndilega mælendaskrá með því að bera starfsreglurnar upp til atkvæða.  Einn fundarmanna reyndi að fá opnun á umræðu á ný en var sagt af Grétari Mar og Magnúsi Þór sameiginlega að það væri of seint.  Þá var mér nóg boðið og sagði "fundarstjórnina furðulega".  Magnús Þór sýndi mér þá, þá óvirðingu að spyrja mig háðulega "Hvers vegna komstu á þennan fund?".  Ég ákvað að fara ekki í orðarimmu við Magnús Þór til að fundurinn héldi smá virðingu og leystist ekki upp í deilur.  Baldvin Nielsen sveið þessi framkoma Magnúsar Þór og sagði "hann er nú miðstjórnarmaður!".  Annar gestur, Ragnheiður Fossdal, spurði Guðjón Arnar hvort að hann hefði einhvern tíma á þeim tíma eftir að ósættirnar byrjuðu reynt að tala einslega við Margréti.  Hann svaraði því að sáttanefndin hefði haft milligöngu.  

Eftir þessar ráðstafanir Guðjóns Arnars, Magnúsar Þórs og afvegaleidda sáttanefnd hafði Magnús Þór alla aðstöðu flokksins fyrir sig.  Ráðinn var mikill vinur Guðjóns Arnars sem starfandi framkvæmdastjóri fyrir flokkinn og utanflokkskona í stöðu framkvæmdastjóra þingflokks.  Fullkomið kosningahreiður.  Margrét þurfti að leita utan höfuðstöðva flokksins til að funda með sínu stuðningsfólki.  Um framhaldið þarf ekki að fjölyrða.  Kosningavél þingflokksins og fyrrum félaga Nýs afls með greiðan og mikinn aðgang að Útvarpi Sögu, tókst vel í smölun, prentuðu yfir 1000 kjörseðla og þóttust svo vera yfir sig hissa á mætingu uppá um 800 manns.  Lélegri skipulagningu að fjöldaviðburði hef ég aldrei séð. 

Málefni Frjálslynda flokksins eiga mikla framtíð fyrir sér.  Nú mun hefjast hrein samkeppni um það hvern fólk vill sem fánabera þeirra.   Ljóst er að Frjálslyndi flokkurinn verður ekki samur og hann mun blæða verulega af því fólki sem hefur verið hve ábyrgðafyllst og áhugasamast í trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.  Þjóðin mun kveða endanlega dóminn í kosningunum í vor hverjum það treystir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristin Á.Arnberg Þórðardottir

'Eg er þér hjartanlega sammála og forusta flokksins á svo sannarlega eftir að átta sig á því að það veit engin hvað átt hefur
 fyrr en mist hefur

Kristin Á.Arnberg Þórðardottir, 30.1.2007 kl. 08:18

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Kristín.  Já,  það verður fátæklegt í Frjálslynda flokknum eftir brotthvarf Margrétar og margra af þeim sem hafa verið með flokknum frá upphafi og skilað miklu starfi.

Svanur Sigurbjörnsson, 30.1.2007 kl. 09:22

3 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Góðar upplýsingar. Umræðan er samt að verða þreytandi, hætt við að hún  missi marks ef stríðsarmarnir halda áfram eins og verið hefur. Svona flokksátök í fjölmiðum ganga ekki upp til lengdar. Það er togstreyta og óheilindi í öllum flokkum en menn þurfa helst að hafa siðferðiðlegan styrk til að ná saman innan sinna raða. Það voru átök á Suðurlandi hjá Framsókn en þeim tókst að leysa sín mál með viðundandi hætti.

Kveðja

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 30.1.2007 kl. 17:22

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Sigríður Laufey

"...en menn þurfa helst.."  Það er ekkert "helst" með það.  Menn þurfa að hafa siðferðislega styrk til að sættast.  Takk fyrir athugasemd.

SS

Svanur Sigurbjörnsson, 30.1.2007 kl. 21:43

5 Smámynd: Kristján Pétursson

Þakka góða og sanna söguskýringu um atburðarás að klofningi Frjálslindafl.Ég hef einnig kynnt mér hana í stórum dráttum og fellur þín lýsing að minni niðurstöðu um aðdraganda að brotthvarfi Margrétar úr flokknum.Sökin er náttúrlega hjá formanni og varaformanni flokksins,sem létu stjórnast af  forráðamönnum í Nýju afli.Margrét býr yfir miklum hæfileikum,henni eru allir vegir færir,sem og hennar fylkismönnum.Magnús Þór og Jón Magnússon munu leiða flokkinn til slátrunar,öfgvastefna þeirra varðandi málefni útlendinga,frekja og yfirgangur í mannlegum samskiptum ,munu kippa undan þeim fótunum.Þeirra verður ekki saknað í stjórnmálum,það eitt er víst.

Kristján Pétursson, 30.1.2007 kl. 23:07

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Kristján.  Já haldi þeir áfram á sömu braut mun fylgið reitast af þeim meira en þegar er orðið.  Það kæmi mér verulega á óvart ef að við næstu könnum yrði fylgi xF hærra en 7-8%.  Það mun þó einnig fara eftir því hvort að annar betri valkostur verði ekki kominn á koppinn og kynntur þjóðinni.

Svanur Sigurbjörnsson, 31.1.2007 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband