Þúsundir vitringa vakna

Formáli:

Ég hef nær algerlega hætt að blogga á mbl.is en ætla að gera nokkrar undantekningar á því þetta árið.

Blogg um lífsskoðanir eru af einhverjum ástæðum betur niður komin hér en t.d. á Eyjunni. Kannski er það af því að rauða letrið fyrir ofan mig í rithamnum sem segir:

"Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is og Morgunblaðsins.", sem gerir það meira krassandi að skrifa um þessi mál hér. Það er ljóst af áratugalangri ritstjórnarstefnu og yfirbragði Morgunblaðsins að það er nánast hægri hönd Þjóðkirkjunnar.

Hins vegar má segja blaðinu til hróss að af og til hafa blaðamenn þess fengið að birta hlutlægar fréttir um trúmál. Aftur þegar biskupar og prestar telja sig í neyð og er mikið mál að verja kristina hafa þeir jafnan fengið feitt pláss í blaðinu með opnum í lesbókinni eða greinar birtar á ritstjórnarsíðunni, næst hjá pabba. Dæmi um þetta hrönnuðust upp t.d. þegar prófessor Richard Dawkins heimsótti Ísland sumarið 2006. 

Nú hafa þúsundir Íslendinga vaknað af þjóðkirkjusvefninum langa. Nánar tiltekið 5092 manns! Ég vil kalla þetta fólk vitringa nútímans. Þetta fólk tekur það alvarlega þegar það uppgötvar að leiðtogar þeirrar kirkju sem það var skráð í sem ómálga börn gera uppá bak af ósiðlegum feluleik og yfirhylmingum á kynferðisofbeldi fyrrum biskups apparatsins.  

Þetta fólk hefur gert sér grein fyrir því að það á ekki heima í trúarlegu lífsskoðunarfélagi sem telur sig njóta leiðsagnar ofurveru á himnum um hvað sé rétt og rangt, kærleikur eða illska, en getur í leiðinni ekki valið sér jarðneska leiðtoga sem hafa óbrenglaða siðferðiskennd eða hugrekki til að koma fram með sannleikann.

Þetta fólk hefur líklega vaknað við það að það nægir ekki að vera í félagi sem er ríkt af eignum, aðstöðu, fornri hefð, fallegu líni, söngvum og hljómfögrum orgelum.  Það þarf meira til, til þess að félag sem fjallar um siðferði, sé þess virði að bakka upp.   Úldið ket í fallegum umbúðum er bara úldið ket og það lyktar langar leiðir. Þó að saltað sé með þeim brotum í bókinni ofmetnu sem brúkleg eru, þá sleppur enginn við lyktina.  Þó þeir prestar sem bera þá gæfu til að nota fyrst og fremst skynsemi sína frekar en bókstafinn, klóri í bakkann fyrir þjóðkirkjuna, þá er það bara sem gegnsætt plast utan um skemmdina.  

 núverandi fyrirkomulag

 

Skematísk skýringarmynd af núverandi skipan mála.

Kirkja eða félag sem sýnir ekki meiri siðferðisþroska en lítið barn sem sér ekki út fyrir eigin þarfir er sem eitrað epli. Þjóðkirkjan situr á forréttindum sínum eins og ormur á gulli. Þrátt fyrir að um 70% (Capacent 2009) almennra meðlima hennar hafi þann siðferðisstyrk að vilja slíta hin óeðlilegu hagsmunatengsl hennar við ríkið, kýs forystusveit hennar að hunsa þennan vilja og halda áfram að verja óréttlætið með alls kyns þrætubókarlist.  Einn sá ósvífnasti fyrirslátturinn er sá að halda því fram að ríki og kirkja séu nú þegar aðskilin af því að Þjóðkirkjan hafi gert samning við ríkið sem tryggi henni sjálfstæði og eilífum greiðslum úr ríkiskassanum fyrir jarðir sem hún fékk flestar gefins af landsmönnum fyrr á öldum.  

Fjöldi fólks er bara menningarlega tengt kirkjunni, en er annað hvort trúlaust eða óvissusinnað (agnostic).  Því þykir gott að geta fengið þjónustu hennar þegar athafna er þörf.  Þessi tenging er nú óþörf því að Siðmennt, félag siðrænna húmanista hefur athafnarstjóra á sínum snærum sem hjálpa fólki að gera daginn sinn sem eftirminnilegastan.  

Í raun eru bara um 8-10% þjóðarinnar sem trúa á kjarna Kristinnar trúar, þ.e. upprisu Jesú, himnavistina og aðra yfirnáttúru.  Aðrir í kirkjunni virðast láta yfir sig ganga að þetta sé bara goðsögn líkt og um Óðinn og Seif.  Merkilegt nokk þykir þessu fólki í lagi að láta prest messa um þessar ofurhetjur; þríeininguna og englana á hátíðlegustu stundum lífs síns.  Heilinn er bara settur í eitthvern dí-dí-da-da-da ham þegar presturinn þusar og fer með bænir, ritningalestur og blessanir. Faðirvorið og trúarjátningin er svo þulin með álíka "sannfæringu" líkt og í trans.  Eins konar æfing í deyfingu skilningarvitanna og svæfingu gagnrýninnar hugsunar.

Sóknargjaldakerfið er ekki einföld miðlun félagsgjalda heldur trúarskattur 

Mismununin sem er látin viðgangast með lögum og stjórnarskrárákvæðum er lagaleg, fjárhagsleg og félagsleg.  Þjóðkirkjan nýtur mikilla fjárhagslegra sérkjara, lagalegrar verndunar og forréttinda í aðgangi að ríkisfjölmiðlum.  Hin trúfélögin fá sóknargjöld en veraldleg lífsskoðunarfélög fá ekkert.  

Þeir sem tilheyra veraldlegum lífsskoðunarfélögum (Aðeins eitt hér starfandi: Siðmennt) eru skráðir "utan trúfélaga", en þar eru líka þúsundir einstaklinga sem eru ekki í neinum lífsskoðunarfélögum.

Í fyrra ákvað ríkisstjórnin að jafnvirði sóknargjalda fyrir þennan hóp rynni ekki lengur til Háskóla Íslands, heldur gæti ríkið ráðstafað fénu eins og það vildi.  Hvað hefur þetta í för með sér?

 

  1. Trúlausir (fólk "utan trúfélaga) fá ekki að njóta sóknargjalda til félags sem þeir kunna að tilheyra og greiða því hærri skatta en trúað fólk. 
  2. Trúlaust fólk sem greiðir skatt, tekur þátt í því að greiða trúfélögunum sóknargjald fyrir þá meðlimi trúfélaganna sem eru með tekjur undir skattleysismörkum.  Trúlaust fólk í vinnu er því skyldað til að hjálpa við viðhald og uppbyggingu trúfélaga á meðan þeirra félag fær ekki að njóta neins.

 

Lítum aðeins á tölurnar í þessari töflu sem ég gat fengið hjá Hagstofu Íslands:

hagst-08-11-gj

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tölur frá Hagstofu Íslands.  

Taflan sýnir að 1. janúar 2011 voru 77,64% (-1.54%) í Þjóðkirkjunni en 4,42% (+1,17%) utan trúfélaga. Ástæðan fyrir því að fjöldi þeirra sem greiða sóknargjöld (194 þús) er hærri en fjöldi fólks 18 ára og eldri (186 þús) í Þjóðkirkjunni, er sá að sóknargjöld eru miðuð við 16 ára og eldri.  

Hversu margir má maður ætla að séu lágtekjufólk eða á bótum ríkisins á meðal Þjóðkirkjufólks?  Það er langtum stærri tala en sem nemur þessum 4,4% sem eru utan trúfélaga, líklega um 15-20% fólks (t.d. 8% atvinnulausir).  Það er því ljóst að jafnvirði sóknargjalda trúlausra fer allt í að greiða Þjóðkirkjunni sóknargjöld fyrir það fólk sem greiðir ekki skatt af ýmsum orsökum.  Trúlausir skattgreiðendur eru því skyldaðir til að taka þátt í því að viðhalda trúfélögum.  Þeir ríflega 300 á meðal þeirra sem eru Siðmennt greiða að auki þangað félagsgjald (kr 4.400) til að reka félagið.  Það er líklegt að fleiri gætu komið til liðs við Siðmennt ef að það nyti sömu kjara og trúfélögin hjá ríkinu, en þess í stað fá siðrænir húmanistar að finna að þeir séu settir skör lægra en trúaðir. 

Getur þetta kallast réttlæti og jafnræði?  Er þetta í anda jafnaðarstefnu? Að vísu er ekki gert upp á milli háskóla lengur, en er það skárra að enginn háskóli fái ígildi sóknargjalda trúlausra?

   samfelagssattmali

 

Skematísk mynd af þeirri skipan mála (secular) sem tryggir jafnræði.

Þessu ójafnræði þarf að linna.  Það verður aðeins gert með því að allir fái það sama og Þjóðkirkjan eða það sem skynsamlegra er, að útgjöld ríkisins til lífsskoðunarmála verði færð niður á einn lítinn grunn, t.d. helming þeirra sóknargjalda sem nú eru við lýði og gildi jafnt fyrir þau öll.  Félagsleg forréttindi verði jöfnuð út að sama skapi.  Ákvæði um þjóðkirkju tekið út úr stjórnarskrá (en til þess þarf þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 79. grein).  

Í maí í fyrra var lögð fram þingsályktunartillaga um jafnræði lífsskoðunarfélag og nú í apríl 2011 var lögð fram þingsályktunartillaga um aðskilnað ríkis og kirkju.  Þetta eru fyrstu skrefin á Alþingi en nú þarf að spýta í lófana og koma þessum mikilvægu réttlætismálum í verk.  Ofríki hinnar evangelísk-lúthersku kirkju þarf að linna.


mbl.is Fækkar í þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Frábær grein Svanur.  Nú þarf maður kannski að fara að blogga aftur :-) Ég átti varla orð þegar ég las um það að biskup Þjóðkirkjunnar var að væla yfir peningaleysi.  Hvernig væri að hann færi að borga leigu af höllinni sem hann býr í svo og aðrir prestar sem búa í niðurgreiddu húsnæði.  Greyin! 

Margrét St Hafsteinsdóttir, 14.4.2011 kl. 01:04

2 Smámynd: Ragnhildur Þórðardóttir

Mikið er ég glöð að sjá nýja færslu frá þér félagi, og það um jafn brýnt mál og þetta bákn sem Þjóðkirkjan er. Sem betur fer sagði ég skilið við þessa stofnun og allt þetta Halelúja bull fyrir mörgum árum en er samt að borga undir hallir og annan ósóma sem tilheyrir þeim. Skammarlegt!!

Ragnhildur Þórðardóttir, 14.4.2011 kl. 06:20

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir kæru Margrét og Ragnhildur.  Já það var biskupnum líkt.  Nokkrar kirkjur skulda víst hundruði milljóna vegna lána sem voru tekin í góðærinu.  Öll herlegheitin kosta náttúrlega óhemju mikið og þau 32% sem eru utan Þjóðkirkjunnar þurfa að greiða fyrir þetta.  Kirkjan bendir á að ríkið hafi fengið lóðir, en hversu lengi erum við að greiða fyrir þær?  Samkvæmt samningnum bilaða er það endalaust. 

Prestar í starfi hjá sóknum fá verulega góð föst laun (á við sérfræðilækna) og svo var ég að heyra dæmi þess að prestar tækju 9.900 kr í reiðufé utan kerfið fyrir fermingarathafnirnar.  Það væri fróðlegt að vita hversu útbreidd sú iðkun væri.

Já haltu endilega áfram að blogga Margrét.  Ekki veitir af skynsemisröddum :-)

Svanur Sigurbjörnsson, 14.4.2011 kl. 09:47

4 Smámynd: Freyr Bergsteinsson

Er ekki hægt að búa til "trúfélag" sem gerir ekkert annað en að endurgreiða "sóknargjöldin" til félaga sína? Mér skilst að til að fá að skrá trúfélag verður það að byggja á sögulegu þekktum átrúnaði - get ég ekki búið til Trúfélag Mammons eða eitthvað álíka?

Freyr Bergsteinsson, 14.4.2011 kl. 10:03

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Það er ekki hlaupið að því Freyr því að það tekur langan tíma að koma trúfélagi á fót og er eins konar "bragð á móti bragði-lausn" sem er vart góð til frambúðar.  Betra er að uppfræða þjóðfélagið og ráðamenn um óréttlætið og fá úr því bætt á siðaðan máta.  Það er það sem Siðmennt hefur verið að berjast við núna með virkum hætti frá 2005. 

Svanur Sigurbjörnsson, 14.4.2011 kl. 10:39

6 identicon

Að hindra aðgengi presta/trúboða að börnum er lykillinn að því að losa mannkynið undan trúargeðveikinni.
Trú er geðveiki, geðveiki sem fékk status virðingar, óvart.  Við vitum þetta öll, kirkjan veit þetta... meira að segja var/er geðveiki(Geðklofi) forsenda þess að menn nái langt í mörgum trúarbrögðum.
Allt sem menn eru að lesa í biblíu  var einmitt skrifað eða skráð eftir þrugli úr ofurgeðsjúklingum.

doctore (IP-tala skráð) 14.4.2011 kl. 11:59

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sigurður Hólm kom með athyglisverða skoðun á þessum tölum á bloggi sínu í fyrradag.

Svanur Sigurbjörnsson, 15.4.2011 kl. 01:22

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála þér að flestu leyti, Svanur. Haltu endilega áfram að blogga um þessi mál. Ekki veitir af. Ég er einn af þessum aðgerðarlausu sem ekki hafa sig í að gera neitt í málunum þó ég hafi lengi séð vitleysuna.

Sæmundur Bjarnason, 15.4.2011 kl. 10:04

9 Smámynd: Óskar Arnórsson

Stofnað hefur verið KristLam sem er göfugur félagsskapur kristinna og múslima á internetinu. Allir borga 10% af launum til prestsins sem vill ekki láta nafn síns getið, á PayPal.

Innifalið er í þessari trú 2 digital frelsanir á ári, ein skírn, ferming, gifting og skilnaður. Þetta verður mjög nýtískulegt með automatiskum játningaklefum þar sem allar syndir verða teknar upp á band, þær sorteraðar og reikningur sendur meðlimum eftir alvarleika syndanna.

Háhraðamessur verða haldnar fyrir þá sem eru mjög trúaðir og líka uppteknir af t.d. vinnu. Bók bókanna, KórBlan verður gefin í sprautuformi sem er efni með aragrúa af vísdómi og fróðleik um KristLam og hvað skeður og hvar meðlimir lenda ef meðlimagjöld eru ekki borguð á réttum tíma.

Sjónavrpsbingói verður útvarpað strax eftir 10 mín. messu og verður aðalvinningurinn flug´ferð í einkaþotu æðstaprestsins.

Með inngöngu sinni hafa allir meðlimir ánafnað KristLam öllum jarðneskum auðæfum sínum, enn eins og kunnugt er geta menn ekki tekið bankabókina með yfirum, enn presturinn getur í gegnum sambömd sín á himni gert vel við þá sem skilja mest eftir að loknu þessu lífi.... Allhmen

Óskar Arnórsson, 17.4.2011 kl. 05:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband