Hvað á maður að kjósa?
15.3.2007 | 15:26
Nú er síðasti dagur Alþingis á þessu kjörtímabili. Það er sorglegt til þess að vita að aðeins 29% þjóðarúrtaks Capacent Gallup segjast treysta Alþingi. Þetta er slæmur dómur og þá helst fyrir sitjandi stjórnarflokka því þeir bera jú hitann af því sem frá þinginu kemur. Engu að síður bera stjórnarandstæðuflokkarnir einnig ábyrgð á ímynd þingins. Skyldi það vera að fólk sé þreytt á því að alþingismenn tali til þjóðarinnar annað hvort með óskiljanlegu máli fjármála eða á barnalegan máta líkt og pirraðir krakkar í sandkassa sem sjá þingmenn annarra flokka sem sífelldan óvin.
Það er með ólíkindum að nú rétt fyrir þinglok hafi stjórnarflokkarnir beðið hina þingflokkana að sameinast um auðlindafrumvarp, svona rétt eins og þeir hafi ekki kannast við að hafa sniðgengið öll frumvörp stjórnarandstöðunnar s.l. 12 ár. Verum öll í skóginum vinir, eru skilaboðin allt í einu. Á þjóðin að halda að göfuglyndi xD og xB hafi alla tíð verið svona? Stjórnarflokkarnir hafa keppst við að efna kosningaloforðin undanfarna mánuði en þjóðin sér í gegnum þetta. Þrátt fyrir fjáraustrið og lækkun matarverðs á elleftu stundu er ljóst að "fólk er ekki fífl". Það er komið að því að skipta um ríkisstjórn sem er orðin of vön því að hafa völd. Það er kominn tími til að stokka uppá nýtt og gefa út ný og fersk spil. Tími afturhaldssemi í mannréttindamálum, stóriðjubrjálæðis, hömluleysis í efnahagsmálum, miðstýringar og seinagangs í heilbrigðiskerfinu, handónýts og óréttláts fiskveiðikerfis, uppihalds rándýrrar kirkjudeildar, skattpíningar með jaðarsköttum og tekjuskerðingar aldraðra er senn á enda.
Fyrst þarf að velja sér málefni, svo traust fólk til þess að flytja þau og koma í framkvæmd. Það er talsverð skörun á málefnastefnum flokkanna og nýir flokkar verða ekki undantekningar þar á. Hver flokkur mun þó hafa sína sérstöðu (eða sérstöðu í að vera sérstöðulaus) og þar liggur lykillinn að valinu. Ég skora á kjósendur að skoða mjög vel málefnin og gera upp við sig hver þeirra eru þeim dýrmætust. Sá flokkur sem hefur flest málefni sem passa við lífsskoðanir viðkomandi ætti væntanlega að verða fyrir valinu. Í annan stað skiptir miklu máli að forysta viðkomandi flokks / hreyfingar sé dugandi og verðug trausts. Lýðræðisleg vinnubrögð og hreinskipti við kjósendur skipta þar miklu máli.
Sumir flokkar hafa reynt mikið að rúma öll sjónarmið og úr því verður mikið moð og ekkert um framkvæmdir. Þetta virðist hafa komið fyrir Samfylkinguna og hún hefur misst sérstöðuna. Hins vega má hið sama segja um Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn en lengi vel hafa þeir komist upp með það. "Stétt með stétt" var fallegt slagorð Sjálfstæðismanna og það var með ólíkindum hversu margir verkamenn kusu þá. Eftir valdatíð þeirra nú er bilið á milli stétta mun meira en áður og þeir lægst launuðu hafa það verr en áður. Slagorðið er því í raun "Stétt yfir stétt". Framsókn hefur leikið með og ráðið sitt fólk hvarvetna í ríkiskerfið sem er orðið hið mesta bákn. Það sést best á miðstýringu þeirra á heilbrigðiskerfinu. Engu fé er varið til frumkvæðis á heilsugæslustöðvunum en aftur milljónum eytt í gagnslausar skoðanakannanir sem breyta engu um ákvarðanatakanir... eða hvar eru þær stöður lækna sem þarf til að anna eftirspurn hverfanna eftir læknisþjónustu? Hvar eru forvarnirnar? (2.6% af kostnaði kerfisins). Vinstri hreyfingin - grænt framboð er söm við sig og maður veit hvar maður hefur þá. Þeir eru því góður kostur fyrir þá sem vilja liggja til vinstri og fá hærri skatta. Feministar flokksins eru þó full örvæntingafullir þegar þeir/þær sögðust vilja lögbinda sæti kvenna á listum stjórnmálaflokka og stjórnum fyrirtækja.
Frjálslyndi flokkurinn hafði að mestu góða stefnuskrá en stjórnendur hans skildu sum málin útundan og svo klúðruðu þeir trúverðugleika sínum gjörsamlega með yfirgangi í valdabaráttu innan flokksins. Nær allar málsmetandi konur innan hans sögðu sig úr honum og formaðurinn hefur ekki sést eftir Landsþingið. Traust formannsins Guðjóns Arnars Kristjánssonar hefur hrunið úr 30% (þ.e. þeir sem vildu sjá hann sem forsætisráðherra) fyrir 4 árum niður í 13% nú og er ekki einu sinni þriðjungur fylgismanna flokksins sem vill sjá hann sem forsætisráðherra. Sömuleiðis hefur Magnús Þór Hafsteinson misst traust og nú hamast hann og Jón Magnússon við að segjast ætla að verja hagsmuni Íslendinga með því að hamla innstreymi útlendinga hingað inn, m.a. með því að endurskoða aðild okkar að Schengen samkomulaginu. Þetta ber vott um neyð, þ.e. neyð eftir atkvæðum því aðgerðir Magnúsar Þórs stýrast að miklu leyti eftir því. Fylgi flokksins er nú um 7% og er það mesta furða. Innflytjendamálin virðast því aðeins gefa þeim 3% ofan á þau 4% sem flokkurinn var að fá lengst af s.l. 2 ár. "Sprauturnar" Valdimar Leó, Kristinn og Jón virðast því ekki trekkja mikið að. Það var eftir Magnúsi Þór að taka við þingsæti Valdimars Leó án nokkurrar viðvörunar um að það gæti verið siðferðislega vafasamt. Hann gagnrýndi Gunnar Örn harkalega þegar hann fór með þingsæti xF í xD á sínum tíma en þegar skiptin hentuðu honum kom ekki stuna upp úr honum. Forystu xF er því miður ekki mikið treystandi. Það þarf aðra fánabera fyrir stefnu þeirra.
Hinn nýi flokkur, hvers nafn er ekki orðið opinbert enn, verður vonandi spennandi valkostur. Hann verður ekki skipaður valdavönu fólki en þess heldur miklu baráttufólki sem er tilbúið að hugsa hlutina uppá nýtt. Þau Margrét Sverrisdóttir og Ómar Ragnarsson hafa náð vel saman og sú grasrót sem þeim fylgir hefur unnið vel sína málefnavinnu. Það verður m.a. sagt nei við stóriðju og kvótakerfi. Stimpilgjöld skal leggja af og gæta skal þess að mennta- og heilbrigðiskerfið verði ekki kostnaðarbaggi á þeim sem á þurfa að halda. Hvatt verður til nýsköpunar og hlúð að vaxtarbroddum í atvinnulífinu, ekki síst á landsbyggðinni. Náttúran, manngildin og efnahagsleg hagsæld verða hornsteinarnir. Sótt verður þekking frá okkar besta fagfólki úr öllum þáttum þjóðlífsins og rík áhersla lögð á jafnrétti og jafnræði. Ég á von á því að tilkynnt verði um stofnun flokksins í vikunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.3.2007 kl. 16:02 | Facebook
Athugasemdir
Góð grein og athyglisverð. Þakka þér, Svanur!
Auður
Audur Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 11:57
Þú ert alltaf flottur
Baldvin Nielsen
Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 15:04
Þakkir - SS
Svanur Sigurbjörnsson, 16.3.2007 kl. 17:04
Þar sem ég sé að hér er verið að ráðast á okkur sem nú störfum í Frjálslynda flokknum, fyrst áður en önnur sjónarmið eru presenteruð, þá vil ég segja þetta.
Þar sem þú Svanur ákvaðst að yfirgefa Frjálslynda flokkinn eftir stutta viðdvöl innan hans, finnst þér ekki allt í lagi að hann sé starfandi stjórnmálaafl þar sem þú getur tekist á við hann um málefnaumræðu á réttum stað og réttum tíma í stað þess að reyna að henda fýlubombum fyrst í garð hans og taka síðan til við að útlista ágæti hins nýja framboðs sem þú ert að nefna ?
Hef annars lítið séð af þínum skrifum síðan þú gast ekki haft mig sem bloggvin lengur .
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 19.3.2007 kl. 01:51
Sæl Guðrún María
Góð mynd af þér - sú besta hingað til. Ég sé ekki tilgang í að svara þessari gagnrýni hjá þér. Hún fellur um sjálft sig og á henni og fyrri ómaklegum athugasemdum þínum við skrifum mínum sést hvers vegna ég kærði mig ekki lengur um að hafa þig sem bloggvin. Hafir þú eitthvað málefnalegt til málanna að leggja skal ég svara því efnislega en annars ekki.
kveðja - Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 19.3.2007 kl. 09:59
Takk Magga Ó.
Sömuleiðis - sjáumst fljótlega. :-) SS
Svanur Sigurbjörnsson, 19.3.2007 kl. 10:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.