Þvælið kosningakerfi - færum 5% niður í 2%

Það er ljóst að núverandi rétt eins og fyrrverandi kosningakerfi er þvælið og illskiljanlegt þeim sem ekki hafa sett sig djúpt í reglurnar.  Það er furðulegt að flokkur sem nær yfir 1.6% atkvæða fái ekki þingmann (100/63 eru 1.6%) og að Samfylkingin fái einum fleiri þingmenn en Sjálfstæðismenn í kjördæmi þar sem þeir síðar nefndu fá 7.2% meira fylgi.  Auðvitað eru ákveðnar jöfnunarreglur kerfisins sem gera þetta að veruleika en það er sárt fyrir Mörð sem var í 4. sæti í Reykjavík Suður að komast ekki á þing á meðan Ellert B Scram sem var í 5. sæti í Reykjavík Norður komst inn þegar munur á fylgi flokksins í kjördæmunum tveimur var bara 0.2% (29.2% og 29.0%). 

Svo er það auðvitað skiptingin í Reykjavík- norður og suður sem á nær engan málefnalegan eða hagsmunalegan grundvöll.  Það þarf að setjast undir feld og skoða kosningareglurnar uppá nýtt.  5953 kjósendur kusu og fengu ekki rödd á þingi.  E.t.v. er það talið að 1-2 þingmenn lítils flokks verði of einmanna á þingi eða það sé ekki húsnæði fyrir þá, nú eða að þeir gætu lent í oddaaðstöðu varðandi stjórnarmyndun og því hlotið of mikil völd.  Hvort að það sé raunveruleg hætta á því síðastnefnda veit ég ekki en það er verulegt álitamál hvort að þessir "gallar" á því að litlir flokkar komist á þing séu nógu stórir til að lýðræðislegur réttur allt að 9250 manna (4.99% af þeim 185.071 sem kusu) fái ekki að ná fram.  Mér finnst þessi tala allt of há og ekki réttlætanleg.  Ég sting uppá 2% sem þröskuld, þ.e. fylgi sem svarar til rúmlega eins þingmanns (ca 3700 atkvæði). 


mbl.is Lenti í 12. sæti í prófkjöri og komst á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eða bara 0% og landið eitt kjördæmi. Lýðræðið á að vera nákvæmlega í samræmi við atkvæðin, ekki beygja það með reglugerðum.

Geiri (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 19:03

2 identicon

Reykjavík á að sjálfsögðu að vera skipt í austur og vestur. Skipting í norður suður á enga hefð og landfræðilega fáránlegt.  Kjördæmin eru allt of stór. Eiga að færast aftur í sömu stæð og áður.  Svona ná þingmenn og frambjóðendur litlu sem engu sambandi við kjósendur.

Magnus (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 19:12

3 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ég botna bara ekkert í þessu. Það hlýtur að vera hægt að einfalda þetta kerfi svo allir skilji

Margrét St Hafsteinsdóttir, 14.5.2007 kl. 21:50

4 identicon

Mörður á a.m.k. skilið betra kerfi. Fann til með honum, verð bara að segja það :)

Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 23:26

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já það var virkilega leitt að missa Mörð af þingi.  Betri menn er vart hægt að finna. 

Ætli tillaga Geirs hér að ofan sé bara ekki best.  Þá þarf 1.6% til að ná inn manni.  Ég óttast reyndar að ef landið yrði eitt kjördæmi fengi landsbyggðin minni athygli en það er ekki endilega víst.  Það sem er víst, er að xB fengi þá enn færri þingmenn því þeir græða á því að vægi landsbyggðarinnar er talsvert meira með núverandi fyrirkomulagi. T.d. í Norðausturkjördæmi eru 27.888 kjósendur á 10 þingmenn eða 2788 atkvæði á hvern, en í Reykjavík-Norður eru 43.775 kjósendur á 11 þingmenn eða 3980 atkvæði á hvern þingmann.  Ef að alger jöfnuður á vægi atkvæða ætti að vera í núverandi kjördæmaskipan ætti Reykjavík-Norður að fá 16 þingmenn ef miðað er við óbreyttan fjölda þingmanna í Norðausturkjördæmi.  Það má einnig snúa dæminu við og þá ætti NA-kjördæmi aðeins að fá 6 þingmenn miðað við 11 í Rvk-Norður.   Það er engin furða þó xB vilji ekki breyta núverandi kerfi.

Svanur Sigurbjörnsson, 15.5.2007 kl. 00:46

6 identicon

Það væri líka sniðugt ef hægt væri að kjósa flokk til vara, og kæmu þau þá til talningar hjá þeim flokkum sem næðu ekki manni inn. Mjög ólýðræðislegt að búið er að gera okkur atkvæði sem kusum Íslandshreyfinguna, 6000 þús manns ógild. 

Björg F (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 01:10

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

"kjósa flokk til vara".  Já það myndi e.t.v. leysa fælingarvandann en breytir því ekki að 5% er talsvert mikið og vart sanngjarnt.

Svanur Sigurbjörnsson, 16.5.2007 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband