Sigur mannréttinda - dómurinn samantekinn

Hér að neðan er þýðing mín og samantekt úr lengri enskri opinberri samantekt Mannréttindadómstóls Evrópu (ME) í máli fimm norskra foreldra gegn norska ríkinu.

Mannréttindadómstóll Evrópu (ME) í Strasbourg  kvað upp sögulegan dóm í máli nokkurra norskra foreldra gegn norska ríkinu þann 29. júní s.l.  Um var að ræða 5 foreldra sem eru meðlimir í félagi húmanista í Noregi (Human-Etisk Forbund) og börn þeirra sem öll höfðu verið talin beitt misrétti vegna fyrirkomulags kennslu í kristinfræði, trúfræði og lífsskoðunum (KRL – kristendomskunnskap med religions- og livsynsorientering) í norska skólakerfinu að mati foreldrana.  Mál þessa 5 foreldra fyrir ME hefur staðið frá 20. febrúar 2002.  Málið hafði heitið "Folgerø and Others v. Norway" og er hægt að nálgast opinberu útgáfuna á ensku hér.

Niðurstaða

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að norska ríkið hefði brotið á rétti foreldrana til að börn þeirra fái tilhlýðilega menntun (lagagrein 2 í ákvæði nr 1), fái notið fulls trú- og samviskufrelsis (lagagrein 9) og sé ekki mismunað, (lagagrein 14) í tengslum við þessa kennslu.  Þessi dómur er í samræmi við ályktun Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna 25. mars 2002 í máli annarra fjögurra foreldra  frá Noregi sem kærðu norska ríkið fyrir að leyfa þeim ekki að gefa börnunum fulla undanþágu frá námi í kristinfræði sem þau töldu ekki nógu hlutlaust og skapa mismunun milli barna þeirra og kristinna foreldra.  Í dómnum nú fyrir ME segir að þrátt fyrir að markmið kennslulaga í Noregi frá 1998 hafi verið að tryggja góða og fjölmenningarlega kennslu í Kristinfræði, öðrum trúarbrögðum og heimspeki hafi bæði magn og gæði kennsluefnis hallað talsvert á önnur trúarbrögð og heimspeki.   Illfært hafi verið fyrir foreldra að fylgjast með því hvenær kennt yrði það efni sem þeim fannst ekki við hæfi fyrir börn sín og því hafi hin takmarkaða undanþága skv. lögunum frá kennslu í KRL ekki gagnast þessu fólki.    Þá kom fram að iðkun bæna, sálmasöngs, kirkjuþjónustu og trúarlegra skólaleikrita hafi farið fram og börnum þessara foreldra var ekki fyllilega leyft að forðast slíkt því þeim var gert skylt að vera viðstödd og horfa á.  Dómurinn taldi að undanþága með áhorfi  uppfyllti ekki fyllilega rétt þeirra til undanþágu að hluta.  Að auki var það kveðið hreint út að „Noregur hefur ekki gætt þess nægilega að upplýsingar og fræðsluefni það sem námsefnið innihélt væri borið fram á hlutlausan, gagnrýninn og fjölmenningarlegan máta“ og uppfyllti því ekki skilyrði lagagreinar 2, ákvæðis nr 1.

Túlkun

Dómur þessi hlýtur að þrýsta nú verulega á norsk stjórnvöld að endurskoða námsefni sitt í KRL og færa til hlutlausari og gagnrýnni  vegu.  Siðmennt og fleiri aðilar hérlendis hafa bent á sams konar galla á íslensku námsefni í þessum fögum og skort á fullkomnu hlutleysi í Námsskrá Grunnskóla, sem er nú í endurskoðun.   Verulega skortir á jafnvægi í námsefni yngri bekkjardeildana en það kemst fyrst jafnvægi á síðustu þrjú ár skólaskyldunnar.  Þá hefur Siðmennt og fleiri bent á að trúarlegar athafnir eins og bænir, kirkjuferðir og trúarleg leikrit og söngvar fari ekki saman með fjölmenningarlegu hlutleysi og aðskilnaði trúar og skóla.  Þessu tengist einnig starfsemi Þjóðkirkjunnar í nokkrum skólum með svokallaðri Vinaleið, sem getur ekki talist annað en trúarleg starfsemi og íhlutun.  Það er ljóst að dómur ME í máli þessa 5 foreldra frá Noregi rennur stoðum undir þessa gagnrýni hér á landi.  Það er von mín að stjórnvöld beiti sér fyrir því að bæta fyrirkomulag þessa mála svo ekki þurfi að koma til málareksturs gegn íslenska ríkinu einnig.

Niðurstaðan er fagnaðarefni og hafa þær fjölskyldur sem stóðu að málinu og félag húmanista í Noregi (Human-Etisk Forbund, HEF) fagnað að því loknu.  Dómarar voru 17 í málinu og málið tók yfir 5 ár og því má ætla að þetta sé verulega vel ígrunduð niðurstaða. Hér er mynd frá því þegar sækjendur málsins fengu fréttirnar.  Ég óska foreldrunum, HEF og öllum norðurlöndunum til hamingju með þessa niðurstöðu.

 Aðstandendur málsins fagna í Strasbourg

Fréttatilkynningu Siðmenntar má lesa í heild sinni hér.


mbl.is Mannréttindadómstóll gagnrýnir kristinfræðikennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Athyglisverðar fréttir sem vonandi verður tekið fullt mark á í menntamálaráðuneytinu. Þetta er hins vegar spurning um eðli kristindómsfræðslu en ekki magn. Ég hef haldið því fram að það þurfi að breyta kristinfræðikennslunni í menningarsögu eins og búið er að breyta ásatrúnni í námsefninu.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 9.7.2007 kl. 08:28

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Ingólfur Ásgeir.

Ég er sammála þér í því að eðli fræðslunar skipti mestu þó svo auðvitað verði að stýra magninu líka. 

 Ég er einnig sammála þér að hluta hvað kristinfræðikennsluna varðar.  Flest í Biblíunni í dag á lítið erindi til kristninnar eins og hún er stunduð í dag en auðvitað er það kirkjunnar að ákveða hvað hún telur við hæfi í þeim efnum.  Hver trúarflokkur og hvert lífsskoðunarfélag getur lagt til við hlutlausa námsskrárnefnd hvað viðkomandi félag telji sýna kenningu/skoðun og út frá því getur nefndin útbúið námsefni til endurspeglunar og fræðslu en ekki boðunar.

Svanur Sigurbjörnsson, 9.7.2007 kl. 16:32

3 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sæll Svanur. Athyglisvert að lesa þetta og ég vona að breytingar verði gerðar varðandi þessi mál í skólum hérna. Trúboð á alls ekki heima í skólum eða þá kristinfræði kennd í trúboðsstíl. Man hvað strákunum mínum fannst leiðinlegt að fara í þessar kirkjuferðir tengdar kristinfræðinni í skóla. Verður spennandi að sjá hvernig málin þróast hérna eftir þennan dóm Mannréttindadómstóls Evrópu.

P.s. er enn í fríi - bara að kíkja aðeins.  Kveðjur

Margrét St Hafsteinsdóttir, 10.7.2007 kl. 15:09

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Margrét.  Já ég vona að þetta eigi eftir að duga vel sem málgagn fyrir því að gera menntun á þessum sviðum fræðilegri og að Þjóðkirkjan hætti að troða sér inní skólana.  Ekkert trú- eða lífsskoðunarfélag á að hafa starfsemi í skólum ríkisins.

Hafðu það gott í fríinu.  Ég tek mér einnig blogghlé :-)

Svanur Sigurbjörnsson, 11.7.2007 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband