Fallnar hetjur
28.8.2007 | 12:00
Um miðbik 20. aldarinnar náði virðing almennings fyrir nútíma læknisfræði og vísindum hámarki. Stórfelldar framfarir urðu á sviðum skurðlækninga og smitsjúkdómalækninga og ungbarnadauði minnkaði á dramatískan máta. Læknar voru litnir á sem eins konar guðir því fólkið var þeim og vísindunum svo þakklátt og taldi þá vita best. Fólk sá að vísindin og rökhyggjan virkaði og bætti lífsgæði þeirra á mjög áhrifaríkan máta.
Nú 40-50 árum síðar er þetta óðar að gleymast. Fólk er vant því að fá hátækniþjónustu og að börnin þeirra vaxi úr grasi án teljandi áfalla. Fólk er farið að gleyma því af hverju það hefur það svo þægilegt í dag, af hverju það þarf ekki að hreinsa kamarinn sinn sjálft, af hverju það deyr ekki lengur úr lungnabólgu á besta aldri eða örkumlast hægt og rólega úr holdsveiki. Læknarnir og vísindamennirnir eru ekki lengur hetjur, heldur ófullkomnir heilbrigðisstarfsmenn sem verða á sífelld mistök og eru hluti af stóru bákni sem skilar "tapi" á ári hverju. Langur biðtími, hneyksli, lokanir, dýr lyf, hnýsni í persónuupplýsingar, mótsagnakenndar niðurstöður rannsókna og annað neikvætt er sífellt borið á borð almennings gegnum fjölmiðla landsins á meðan kuklarar fá ókeipis auglýsingu á remidíum sínum gegnum kynningar í blöðum og sjónvarpi. Kerfi kolbrenglaðra hugmynda um starfsemi líkamans og hvernig hægt sé að lækna fólk fær að flæða óhindrað og ógagnrýnt um upplýsingarásir þjóðfélagsins með þeim árangri að almenningur eyðir nú hundruðum milljóna árlega í argasta kukl sér til tímabundins hugarléttis. Krafan um viðurkenningu kuklins verður æ háværari og þær raddir hafa heyrst að ríkið eigi að reka kuklstofnanir líkt og Þjóðverjar eða Englendingar hafa leiðst út í, í einhverjum mæli. Ég sé fyrir mér að brátt verði ekki milljónum heldur milljörðum eytt í þessi endurgerðu "nýju föt keisarans" hér á landi. Þessi þróun er verulega varasöm og veldur ekki bara töf á greiningu sjúkdóma og einstaka sorgleikjum heldur einnig skemmdum á menntun þjóðarinnar.
Nýlega greindi ég útbreidda sveppasýkingu í húð barns, hvers foreldri hafði farið fyrst til hómeopata og fengið smyrsl hjá honum sem innhélt m.a. vaselín. Útbrotið stækkaði. Barnið vældi stanslaust á biðstofunni af vanlíðan. Sýkingin er auðveldlega meðhöndluð með réttri greiningu og lyfjafræðilega framleiddu lyfi úr apóteki. Ég get ekki álasað sterkt foreldrinu því hegðun þess er einungis einkenni þjóðfélags sem er orðið sjúkt af ranghugmyndum kuklsins.
Professor Richard Dawkins er einn af þeim vísindamönnum sem hefur tekið að sér að fjalla um þessi mál og vara við hættunni af þessari þróun. Í nýlegri tveggja þátta röð heimildamyndar sem hann kallar "Óvinir skynseminnar" tekur hann fyrir hjátrú og haldvillur kuklsins. Hér er hlekkur á upptöku af seinni þættinum. Það er öllum hollt að horfa á þessa mynd.
Athugasemdir
Gott og vel Svanur; En þér láist að nefna þó ógrynnin öll af tilfellunum sem ég og aðrir snilldar kuklarar fáum á borð til okkar af einstaklingum sem hafa verið byrluð ólyfjan á ólyfjan ofan og versna bara og versna..
Ég held að margir nútíma læknar þó þú sért undanskilinn reyndar séu farinn að sjá hvað mikið meira er hægt að gera ef náttúruvísindin og læknavísindin myndu vinna saman en ekki á móti hvert öðru. Náttúruvísindin eru með margar takmarkanir eins og læknavísindin en saman í sæng væru þau sterkari. Ekki má þó gleyma því að ábyrgð heilbrigðar liggur hjá einstaklingnum sjálfum en ekki lækni, ´heilbrigðisstétt eða hómeopata..
Björg F (IP-tala skráð) 28.8.2007 kl. 15:20
Sæl Björg. Þú segir "sem hafa verið byrluð ólyfjan..." Já, það er ljóst hvaða álit þú hefur á læknum. Þú virðist telja að þeir byrli sjúklingum sínum ólyfjan. Hvað segir það mér um mat þitt? Það segir mér að þú hafir ákaflega brenglaðar hugmyndir um tilgang lyfjagjafa lækna og hvað lyfin gera.
Nei, það eru ekki margir læknar sem "sjá hvað mikið meira er hægt að gera ef náttúruvísindin og læknavísindin myndu vinna saman...", a.m.k. ekki neinir sem ég þekki persónulega og hef ég þekkt þá mjög marga í gegnum þau 20 ár sem ég hef haft kynni af þeim. Það var einn læknir hér fyrir um áratug sem þvoði hár sitt með hlandi og var uppfullur af alls kyns kukli. Sá læknir var ekki í háum faglegum metum hjá læknum. Kuklarar hafa reynt að troða inn kukli í kennslu læknadeilda víða um heim en þeim hefur ekki verið ágengt í því, því fræði þeirra standast hvorki rökfræðilega skoðun né rannsóknir af fullum gæðum. "Náttúruvísindi" eru ekki kukl og því ert þú að ræna því hugtaki. Kukl er ekki vísindi og því er það og verður aldrei náttúruvísindi né önnur vísindi. Náttúruvísindi er ekki skylt náttúrulækningum. Auðvitað getur þú misnotað hugtakið líkt og "kinesiologia" er misnotuð. Það er dapurt ef kuklgreinar geta ekki einu sinni haft hugmyndaflug til að finna eigin nöfn á kuklinu.
Vissulega ber hver manneskja ábyrgð á eigin heilsu, það þarf vart að nefna. Ertu að ýja að því að græðarar/kuklarar þurfi ekki að bera ábyrgð geri þeir mistök og valdi skjólstæðingum sínum skaða? Þegar sjúklingur leitar ráða hjá lækni tekur læknirinn ákveðna ábyrgð á sig, þ.e. að hann sé að ráðleggja eftir sinni bestu þekkingu og hafi gætt þess að ráðleggja aðeins það sem búið er að sannreyna, ellegar vara sjúklinginn við því að ekki sé nægilegur vísindalegur stuðningur við ráðlagða meðferð. Læknirinn ber því alltaf ákveðna ábyrgð.
Saman í sæng yrðu kukl og læknisfræði aldrei annað en kukl. Kukl er ekki byggt á sannreyndum vísindum og því væri það alger kokrenna fyrir lækni eða vísindamann í raungreinum að ætla sér að starfa eftir gervifræðum græðara. Til þess að samstarf væri mögulegt þyrfti græðarinn að læra stóran grunn í efnafræði, lífefnafræði, lífeðlisfræði, líffærafræði, vísindalegri aðferðafræði og tölfræði, faraldursfræði, líffræði, lyfjafræði og sjúkdómafræði. Þetta tekur 2-3 ár.
Svanur Sigurbjörnsson, 28.8.2007 kl. 19:25
ha ha ha.. ég bara get ekki annað en brosað þegar ég les svarið þitt. Ekki illa meint Svanur minn. Það er bara ekki hægt að svara þér, að mínu áliti þá finnst mér þú rökstyðja mál þitt á trúarhugmynd (ofstæki) svona eins og Jón Valur. Þannig er það bara og ekki fyrr en þú getur horfst í augu við þá staðreynt þá væri kannski hægt að fara í rökræður við þig sem byggðust á einhverju viti.
Annars þakka ég fyrir ítarlegt og langt svar. Þú bregst ekki þar frekar en þann fyrri. Þangað til næst..
p.s. Ég veit um marga... og ég endurtek.. marga lækna sem eru þér ósammála.. og ég veit líka að það eru margir sem ekki vilja viðurkenna það opinberlega vegna þess að þeir eru hræddir við "læknamafíuna".. Vonandi að þetta lagast með tíð og upplýstari tíma..
Björg F (IP-tala skráð) 28.8.2007 kl. 20:52
Sæll Svanur.
Góður pistill og ég skil þig alveg að vilja benda á þessi mál og ég er sammála mörgu sem þú segir. Ég sjálf hef skoðað talsvert "óhefðbundnar hliðar" á ýmsum málum og var að vinna um tíma í Heilsuhúsinu og hafði gagn og gaman að því.
Mér finnst persónulega margt í þessum heilbrigðisgeira afar skrítið og varasamt þegar kemur að óhefðbundnu hliðinni og mér finnst ekki í lagi að fólk sem hefur þar einhver óskilgreind "réttindi" til að meðhöndla fólk og veikindi þeirra telur sig jafnvel geta læknað öll mein. Síðan er líka margt í heilbrigðismálum sem fólk getur tileinkað sér og þarf ekki að leita endalaust til lækna með allt kvabb eins og ég kalla það. Kvef sem dæmi. Hægt að fá sér bara hressandi te við kvefi
Ég lenti sjálf í alvarlegum veikindum fyrir nokkrum árum og varð að fara á lyfjameðferð í marga mánuði sem var mjög erfið. Þá sagði við mig kona sem er mikið að vinna sem einhvers konar meðferðaraðili innan óhefðbundna geirans að það sem að mér var væri ólæknandi og ég gæti gert ýmislegt til að létta mér lífið og t.d. senda erlendis blóðprufu í gegnum hana svo hægt væri að fara nákvæmilega í það hvað ég ætti að taka inn af bætiefnum sem dæmi. Prufan átti að kosta mig 50-100 þús. Ég auðvitað tók ekkert mark á konunni og fannst skrítið af henni að segja þetta við mig, þar sem byrjað var að setja fólk sem fékk þennan sjúkdóm í lyfjameðferðir með nokkuð góðum árangri. En ég losnaði við þennan sjúkdóm eftir lyfjameðferðina og er alveg útskrifuð. Á meðan ég var í meðferðinni tók ég vítamín en bar allt svoleiðis undir læknirinn sem ég var hjá. Eftir meðferðina tók ég áfram vítamín og steinefni og fitusýrur, omega 3 og járnkraft, þar sem ég var mjög lág í járni og b-12. Tel það hafi hjálpað mér mikið enda var ég lystalaus og slöpp og svo borðaði ég sem mest af lífrænum mat og lítið unnum mat.
Ég tel að vítamín og steinefni geti hjálpað okkur mikið þegar við þurfum á þeim að halda og það geri engum illt að taka vítamín reglulega, sérstaklega þegar fólk fer að eldast. Ég hef líka góða reynslu af ýmsum te-tegundum. Piparmyntute svínvirkar við magaverkjum sem dæmi
Yngri sonur minn er afar góður í líffræði og eðlisfræði og er mjög vísindalega sinnaður og ég spyr hann oft um ýmislegt þegar ég er að pæla
Kveðjur.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 28.8.2007 kl. 23:33
Takk fyrir þessa frásögn Margrét. Það hafa komið upp alls kyns próf sem eiga að segja til um næringarástand, þ.á.m. könnun á steinefnum í hári. Þessi próf reyndust vera lélegur mælikvarði á næringarástand þegar þau voru skoðuð betur og lognuðust útaf nema hjá einhverjum sem voru ekki að meðtaka niðurstöður rannsókna. Það er í góðu lagi að taka 1-2 fjölvítamín töflur daglega þar sem ekki er víst að fæðið sé nægilega fjölbreytt hjá öllum. Grænmetisætur þurfa að passa sérstaklega uppá B12 því það er nær eingöngu í kjöti og þeir sem borða lítið grænmeti þurfa að passa uppá fólinsýru. Allir Íslendingar þurfa að taka lýsi eða fjölvítamín með D-vítamíni daglega yfir veturinn því hlutfallslegur skortur á D-vítamíni er algengur hér í sólarleysinu. Skortur á D-vítamíni veldur beinþynningu og getur verið á bak við einkenni eins og sífelldri þreytu og sleni.
Ýmislegt í jurtum hefur líffræðilega virkni þannig að ég útiloka aldrei að extrökt úr þeim geti haft lyfhrif. Hins vegar er það ekki alltaf gefið að þau séu til staðar og ekki endilega þess eðlis sem fólk staðhæfir. Þá er ekki víst að hið virka efni sé í nægilegu magni til að hafa gagnleg áhrif. Jurtalækningar er eitt af því fáa sem ég tel að hafi einhverja framtíð fyrir sér af greinum græðara eða náttúrulækna.
Svanur Sigurbjörnsson, 29.8.2007 kl. 10:54
Björg
Þú sagðir "Það er bara ekki hægt að svara þér, að mínu áliti þá finnst mér þú rökstyðja mál þitt á trúarhugmynd (ofstæki) svona eins og Jón Valur."
Merkilegt, því ég hef þessa sömu hugmynd um þinn málflutning varðandi þína græðaragrein nema að ég fer nú ekki að líkja þér við Jón Val. Sá maður er sér á parti (sæll Jón Valur). Það er ljóst að við getum ekki bæði haft rétt fyrir okkur og því fer það eftir umhverfinu (áliti annarra) hver áhrif skoðana okkar verða.
Það er nánast alveg nýtt fyrir mér að viðurkennd raunvísindi séu kölluð "trúarhugmynd" en það var fávitur maður á sviði lækninga sem stundar "Bowen tækni" sem sagði Kastljósviðtali s.l. vetur með einhverju ólýsanlegu glotti að í raun væru hefðbundnar lækningar "óhefðbundnar" því þær væru yngri en þær óhefðbundnu. Maður gapti af undrun yfir þessari heimsku. Þessi maður og þú virðast vera á svipaðri línu og þykir mér það dapurt.
lifðu heil! (ekki með heilun þó).
Svanur Sigurbjörnsson, 29.8.2007 kl. 17:20
Sæll Helgi
Já það er leitt að sjá hugtök misnotuð og þvæld í fórum fólks sem virðist eiga erftitt með að skilja skilgreiningar og eðlilega notkun hugtaka.
T.d. sagði biskup lúthersku kirkjunnar hér að siðferði þjóðarinnar væri ógnað af "herskáum trúleysingjum". Hann þorði ekki að nefna þessa aðila beinum orðum en hann átti augljóslega við virka meðlimi Vantrúar, sem hvað harðast hafa gagnrýnt trú hér á landi. Hér misnotar Karl hugtakið "herskár" því Vantrúarmenn eru sauðmeinlausir og hafa orðin og rökin ein að vopni. Hvað kallar Karl þá skæruliðasveitir Íslamista? Hefur hann sterkara orð en "herskáir" um þá? Þetta orðaval Karls er náttúrulega ætlað að sverta trúleysingja og gera grýlu úr þeim. Lýsingin er lygi en sjálfsagt getur Karl snúið sér útúr því með því að segja að hann hafi verið að nota orðið sem samlíkingu til að leggja áherslu á orð sín. En kannski hefur hann aðrar hugmyndir um það hvað "herskár" merkir?
Svanur Sigurbjörnsson, 29.8.2007 kl. 17:29
Takk Svanur fyrir athugasemdina við mínu innskoti.
Langar nú aðeins að segja smá við Helga Briem. "Draugatrúarvitleysingarnir" eru stór hluti þjóðarinnar. Ég aðhyllist ekki kukl ef út í það er farið, þ.e. að fólk sé að fikta við hluti sem það hefur litla sem enga þekkingu á. Það er hinsvegar til fólk sem hefur talsvert vit og þekkingu á "andlegum málefnum" og gerir sér fulla grein fyrir því sem ber að varast þar. Eru þín "andlegu málefni" eitthvað skárri en andlegu málefni "draugatrúarvitleysinganna" eins og þú kallar stóran hluta þjóðarinnar? Ert þú ekki bara jafn vitlaus og það fólk ef þú aðhyllist andleg málefni? Telur þú þig þekkja andleg málefni út og inn og um hvað þau snúast?
Svanur: Það sem ég sagði um piparmyntuteið og magaverkina, er ég að sjálfsögðu að tala um magaverki vegna ofáts, vindgangs og svoleiðis vandræðagangs Varðandi það sem ég sagði um konuna sem var með fólk í meðhöndlun við ýmsum kvillum og sjúkdómum, þá fannst mér svo skrítið að hún skyldi ekki fylgjast með hefðbundnum læknavísindum og hvað væri að gerast þar. Hún vissi greinilega ekkert um lyfjameðferðina við sjúkdómnum sem ég fékk en samt skrifaði hún sig sem ótrúlega færa í meðhöndlun sjúkdóma. Mér finnst mjög óábyrgt að haga sér svona.
Kveðjur.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 29.8.2007 kl. 22:03
Margrét
Já ég er sammála þér. Því miður halda græðarar að þeir þurfi ekki að læra hin viðurkenndu grunnvísindi (eða átta sig ekki á því) og fara því á mis við þá menntun og þjálfun sem nauðsynleg er til að taka skynsamlega afstöðu til faglegra hluta í heilbrigðisþjónustunni. Því miður eru til einstaka hefðbundið menntaðir einstaklingar sem hafa ekki náð að skilja mikilvægi og eðli vísindalegra aðferða og mæla því einhverju kukli bót. Sem betur fer eru þetta undantekningar.
Margrét og Helgi
Varðandi "andleg málefni". Mér finnst hin hefðbundna notkun á orðinu "andlegur" ekki gagnleg, þ.e. ég vil frekar nota orðin "hugræn", "huglægur" eða "hugfræði" þegar tala á um hluti sem koma hugsun eða andlegum vanda við. Að sama skapi er ég ekki hrifinn af "sál-" orðum þar sem sál er í raun ekki til og hin seinni tíma yfirfærsla á hugtakinu yfir á hug eða hugsun fólks finnst mér einungis til þess fallin að flækja fyrir. Mér er því sama þó drauga- og álfakuklarar eins og Magnús Skarphéðinsson noti "anda-"orð sér til andlegrar fróunar.
Svanur Sigurbjörnsson, 30.8.2007 kl. 01:06
Svanur: Málið er að það er ekki hægt að rökræða við þig um þetta því þú fullyrðir um hluti sem þú veist ekkert um.. hvernig get ég svarað slíku? Þú ert alltaf að vitna í mín fræði og talar um að það verði að vera grunnvísindi í líffræði og etc til staðar. Ég er alveg sammála þér. Enda hef ég þau.. Þú ert að ásaka mig og aðra í þessum fræðum fyrir að vera vitleysingar... hvernig er hægt að svara því? Nema að vera endalaust í vörn? Mér bara leiðist svona málflutningur sem byggist á að heill her af fólki er dæmdur sem eitthvað eitt og allt sett undir sama hatt. Margt er misjafnt og misjafn er sauður..
Þú segir að ég hafi ekki mikið álit á læknum? Þá ertu að gera mig að þér.. Ég hef ekki eina skoðun á læknum. Þeir eru misjafnir eins og þeir eru margir. Læknavísindin eru stórkostleg en þau eru líka takmörkuð.. Og margir læknar eru takmarkaðir.. Þetta veistu..
Nei ég vinn ekki við heilun og hef ekki hundsvit á því... og þ.a.l. enga skoðun.. mér dettur samt ekki í hug að fara að úthrópa það fag.. það væri heimskulegt.
Góðar stundir og lif þú heill með Guði og mönnum
Björg F (IP-tala skráð) 30.8.2007 kl. 13:15
Mig langar að segja varðandi "draugatrúarvitleysingana", að það er staðreynd að fjöldi fólks hefur séð eða telur sig hafa séð eitthvað sem öðrum er hulið. Það væri kannski aðeins heilbrigðara að rannsaka þau mál út frá þeim staðreyndum, en að reyna að klekkja á fólki og telja það hina mestu hálfvita.
Það þarf semsagt að rannsaka mannshugann betur og rannsaka hvað liggur á bak við meintar sýnir fólks og reyna að leita að skilningi á þessum málum. Það er engin lausn að segja..... Af því bara eða Þetta er bara ruglað lið.
Ímyndunaraflið hjá fólki er mismikið það vita allir. Margt fólk hugsar mjög myndrænt og myndbirtir gjarnan atburði og upplifanir og telur það jafnvel vera eitthvað yfirnáttúrulegt, og gerir sér ekki grein fyrir því að þarna er ímyndunaraflið að verki. Þess vegna segi ég, það þarf að rannsaka þessi mál á annan hátt svo einhverjar vitrænar niðurstöður fáist.
Það þarf ekki annað en að tala við mörg skáld til að skilja það að þeir tengja sig oft viðfangsefni sínu á "andlegan hátt". Segja að "sögupersónan" hafi birst þeim og eins og yfirtaki þá á meðan þeir skrifa.
Sjálf hef ég talist til þessara "draugatrúarvitleysinga" en ég er með þeim ósköpum fædd að sjá og skynja hluti á annan hátt en margir aðrir og hef því lagt mig í líma við að reyna að skylja hlutina og hefur það auðvitað hjálpað mér mikið að vera mikil efasemdarmanneskja og ekki keypt allt hrátt ef ég hef séð "draug" sem dæmi.
Mín "andlega leit" hefur aftur á móti gert mig trúlausa hvað trúarbrögð varðar en hefur líka elft skilning minn og sannfæringu og hinu "andlega valdi" sem margir eru undir og hvað í raun er að gerast í hugarheimi fólks sem ánetjast trúarofstæki eða andlegu kukli sem yfirtekur líf þeirra og veldur aðeins ranghugmyndum um lífið og tilveruna.
Varðandi læknavísindin, þá finnst mér að þeir aðilar sem vinna við það að hjálpa fólki með heilsuna, eigi að hafa til þess góða kunnáttu og skilning. Eins er með "óhefðbundnu andlegu málin". Þ.e. fólk sem leitast við að hjálpa fólki sem hefur lent í vanda í þeim málum, verður að hafa kunnáttu og skilning á þeim málum svo raunhæf hjálp fáist.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 30.8.2007 kl. 14:57
Takk fyrir góð innlegg öll.
Björg. Það er ekki af óathuguðu máli sem ég kalla þá grein sem þú hefur lært, "kinesiologi", kukl og á ekkert skylt við raunverulega kinesiology sem er viðurkennd fræðigrein um hreyfingu liðamóta og hvernig vöðvarnir vinna í hverri gráðu. Í bloggviðræðum okkar í vor bentir þú á nokkrar heimildir,þ.e. vefsíður sem áttu að bera faginu þínu gott vitni. Ég skoðaði innihald þeirra vandlega og komst að þeirri niðurstöðu að ekkert vísindalegt væri þarna á ferðinni og þessi "fræði" í raun bara sjálfsblekking og kukl. Því miður. Ég kem ekki með það álit af gamni mínu og geri mér grein fyrir því að það sé erfitt fyrir þig að kyngja því ef þú hefur lært þessa hluti í langan tíma. Af þeirri umræðu sem fór fram þá get ég ekki séð að það hafi tilgang að ræða það hér frekar þar sem slíkt tæki endalaust pláss. Ég get frekar hitt þig einhvern tíma og rökrætt við þig og farið í gegnum ákveðna hluti. Ég dæmi ekki hluti fyrirfram og reyni að halda opnum huga en samt ekki svo opnum að heilinn detti út.
Svanur Sigurbjörnsson, 30.8.2007 kl. 16:18
Ég var reyndar að starfa með einum sem lærði þína kinesiolgy i Kanada í fjögur ár núna í sumar.. Það var ekki mikið bil á milli okkar og við vógum vel upp hvert annað..
Já og Svanur ég hef boðið þér að koma í tíma til mín og ekki bara það ég hef líka boðist til þess að þú fáir að rannsaka mínar aðferðir í þaula, bak og fyrir og sjá og skoða ástæðuna fyrir því AF HVERJU þær virka.. ´
Ég skal gefa þér smá innsýn.. Sjúkdómur í líkama myndast ekki bara "allt í einu"
kinesiologi er mjög góð þegar ójafnvægi líkamans hefur ekki náð yfir 70-80%. Eftir það taka læknavísindin við, þar eru þau betri. Þegar alvarleg einkenni eiga sér stað.
Fyrir þann tíma gefur líkaminn frá sér margar viðvaranir.. auma vöðva t.d. og þreytu. Hver einasti vöðvi í líkamanum er tengdur einhverju ákv. líffæri. Ef maður þekkir tungumál líkamans þá er hægt að bregðast við mun skjótar en gert er í dag í hinum hefðbundnu læknavísindum..
jæja.. þú færð bara að prufa sjálfur og sjá.. farin að sækja dótturina úr píanótíma..
Björg F (IP-tala skráð) 30.8.2007 kl. 17:41
Er ekki vandin að í nútíma lýðræðisþjóðfélagi getur engin í raun haft vit fyrir fullorðnu fólki. Og þegar einhver reynir slíkt líta þeir sem ekki kaupa rök viðkomandi á slíkt sem frekju og yfirgang.
Nú ætla ég ekki að segja neitt annnað um þetta mál en að mér finst þú einfalda þetta um of- það er ekki óalgeng skoðun að læknum hætti til ofstækis í þessum efnum. Að lokum þetta-Það er auðvita rétt að við stöndum í mikill þakkarskuld við nútíma læknisfræði, enda væru við mörg ekki í lifandi tölu ef hún væri hún ekki jafn öflug og raun ber vitni- en það gefur hinsegar ekki læknum rétt á að líta á okkur sem liti börn.
Guðjón Eyjólfsson (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 16:00
Góð skrif hjá þér Svanur, bæði upphaflega greinin og svo svörin við athugasemdum
Baldvin Z, 31.8.2007 kl. 20:00
Sæll Guðjón
Nú orðið sættir fólk sig ekki við að aðrir hafi vit fyrir því nema að takmörkuðu leyti. Það er góð þróun að mörgu leyti en jafnframt fylgja því þeir agnúar að þeir sem eru blekktir af alls kyns samtökum og einkaaðilum, hætta að treysta á þann staðfasta grunn sem búið er að skapa t.d. í raunvísindum og læknisfræði. Tortryggni er sáð í huga fólks og útkoman er útbreiddur smáiðnaður lyfleysufræða (kukls) sem bæði mergsígur fjárhag og tíma þeirra sem óafvitandi halda sig fá bata af slíku eða eru í "það sakar ekki að prufa" hugleiðingum.
Það er rétt, reyni maður að skrifa á móti kuklinu með hófsömum en ákveðnum hætti er litið á það sem yfirgang manns úr kerfinu sem með hroka sínum þarf alltaf að hafa rétt fyrir sér. Ég hef ákveðið að láta það ekki á mig fá. Einhver þarf að berjast fyrir því að mennta- og heilbrigðiskerfið verði ekki eyðilagt eða bitinn stór biti af því til að fullnægja vel meinandi fólki (og loddurum) á rangri braut.
Hvaða "ofstækis" ert þú að tala um Guðjón? Ég hef ekki séð það en auðvitað hef ég ekki séð allt sem fer frá læknum. Oft þegar talað er um ofstæki er verið að tala um eitthvað sem fólk er ekki sammála í stað þess að tala um jaðarskoðun eða skoðun sem verður til þess að einhver skaðist. Hugtakið "ofstæki" er þannig oft gagnslaust í viðræðum því fólk skilgreinir það svo mismunandi.
Sammála þér um þakkarskuldina. Ég er einnig mjög þakklátur forfeðrum mínum hér á Íslandi og því fólki sem tók upp flagg lýðræðis og tækifæri á atkvæði og menntun fyrir alla. Ég væri ekki menntaður maður í dag nema fyrir allt það hugsjónastarf.
Ég efast um að læknar almennt telji sig geta litið á annað fólk sem lítil börn vegna þess fólk eigi í þakkarskuld við þá og heilbrigðiskerfið. Slíkt væri náttúrulega rangt. Það eru til lært fólk í öllum stéttum og fögum sem eru haldnir einhverjum menntahroka og sýna öðrum sem minna kunna ekki tillitssemi. Hins vegar er það ekki hroki að leiðrétta og reyna að hafa áhrif á annað fólk til betri vegar á þeim vettvangi sem fólk býður upp á samtal eða skoðanaskipti á t.d. þessum bloggsíðum.
Svanur Sigurbjörnsson, 31.8.2007 kl. 21:01
Takk kærlega Baldvin
Svanur Sigurbjörnsson, 31.8.2007 kl. 21:01
Ég held að það væri ganlegt að kanna vísindaleg afstöðu íslendinga til þessara mála og umfang þessara starfsemi, hafi það ekki verið gert.
Guðjón Eyjófsson (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 09:32
Ég tek undir það Guðjón. Maður gengur einnig með heimildarmynd í maganum.
Svanur Sigurbjörnsson, 1.9.2007 kl. 09:57
að sama skapi væri gagnlegt að kanna hug lækna til þessara mála, þar sem þeir fengju að tjá sig undir nafnleynd..
Björg F (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 22:26
Hmm, kannski fullseint að vera að kommenta núna, en ég læt nú samt vaða. Pistillinn þinn er ágætur svo langt sem hann nær, að vísu finnst mér þú skella fullmikilli skuld á vondu fjölmiðlana sem koma óorði á góðu læknana og heimska almenninginn sem kann ekki fótum sínum forráð og lætur vondu kuklarana plata sig. Ég held reyndar að flestum sé treystandi til að taka nokkuð yfirvegaðar ákvarðanir um líf sitt og líkama. Hluti af vandamálinu er líka sá að fólk fer jafnan ekki til læknis fyrr en það er orðið veikt, í stað þess að vinna með læknum að fyrirbyggjandi aðgerðum í mataræði og lífsstíl. Í raun ætti þetta að vera eins með tannlækna, fara reglulega í tékk þar sem sjúklingur og læknir fara yfir málin og læknirinn getur þá bent á áhættuþætti og annað slíkt. Þetta er gert við nýfædd börn, af hverju ekki halda því áfram alla ævi? Þar held ég að dágóður peningur sparaðist í heilbrigðiskerfinu.
Fjölmiðlar draga svo auðvitað dám af því samfélagi þar sem þeir eru við lýði, og í dag virðist fólk almennt leita "náttúrulegri" leiða, og þá ekki endilega til að ráða bót á sjúkdómum heldur til að finna fyrirbyggjandi aðferðir (helst svolítið í hendur við líkamsræktaræðið allt saman). Stór hluti af skýringunni held ég að með stórkostlegum uppgötvunum í læknis-, efna- og lyfjafræði á síðustu öld jókst oftrú á "vísindalegar úrlausnir" sem voru svo e.t.v. eftir á að hyggja vanhugsaðar. Það átti að vera hægt að leysa allt með lyfjum og efnafræðilegum kúnstum. Afleiðingar af þessu er t.d. ofnotkun á sýklalyfjum sem var mjög til umræðu fyrir nokkrum árum (ég man t.d. eftir að hafa farið til læknis rétt fyrir 1990 með hálsbólgu, var þá sagt að þetta væri veirusýking en var samt látinn hafa lyfseðil fyrir pensilíni), og ekki er ýkja langt síðan að hálf þjóðin bruddi prósak í tíma og ótíma til halda hressleikanum (og þurftu lyfseðil til). Varla finnst matur í verslunum nema búið sé að bæta alls kyns aukaefnum í hann, efnum sem eru líklega ekki mjög skaðleg en gera samt líkamanum ekkert gagn og eru almennt til trafala í meltingarkerfinu, þótt fólk sé eðlilega misviðkvæmt fyrir slíku. Matur án aukaefna heitir "lífrænn" sem er frekar kjánalegur stimpill en kannski óhjákvæmilegur. Þannig að það er kannski ekki skrýtið að fólk reyni að hamla gegn þessu á einhvern hátt, og auðvitað spretta upp ýmsir misjafnir sauðir í kringum þetta sem reyna að hafa sér allt að féþúfu. En þessi áhugi á "náttúrulegum" lækningum, lífrænu mataræði og öðru slíku er í þessu ljósi ósköp eðlilegt (en kannski ófullkomið) viðbragð.
Ég ætla svosem ekki að dæma allar "náttúrulækningar", hef ekki kynnt mér þær allar til hlítar. Við barnsmóðir mín höfum þó leitað ýmissa leiða fyrir son okkar sem er með Tourette (ég bloggaði um það <a href="http://gvendarbrunnur.blogspot.com/2007/08/tourette.html">hér</a> og ætla ekki að endurtaka það hérna), það gerðum við þó í samráði við heimilislækni. Málið er að ég held að læknar verði að sætta sig við það að fólk vill ráða sínu lífi sjálft og koma til móts við þessa þörf. Þá er ég ekki að segja að læknar þurfi að taka upp "kukl" eða annað slíkt, heldur veita fólki ráðgjöf um hvað getur hugsanlega komið að gagni, hvað getur verið skaðlegt og annað eftir því. Það sem fólk leitar að í "náttúrulækningum" er m.a. leið til að virkja líkamann til að lækna sig sjálfur, sem þú myndir líklega kalla "placebo" áhrif, án þess að verða fyrir hugsanlegum skaða. Lyf hafa nefnilega oftast aukaverkanir og margar þeirra neikvæðar og jafnvel skaðlegar og eðlilegt að fólk vilji forðast þær. Persónulega tek ég helst ekki lyf nema í ýtrustu neyð, því ég vil að líkaminn nái að vinna á hlutunum sjálfur. Reyndar er ég svo heppinn að hafa sterkt ónæmiskerfi þannig að flensurnar mínar standa aldrei nema í ca. 1 dag (og kallast því varla flensur). Meðvitund um gott mataræði og góða andlega heilsu gera ekki annað en hjálpa til.
Guðmundur (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 19:47
Sæll Guðmundur
Takk fyrir skrifin. Ég mun svara þér hér á eftir.
Svanur Sigurbjörnsson, 9.9.2007 kl. 13:31
Hmm, kannski fullseint að vera að kommenta núna, en ég læt nú samt vaða. Pistillinn þinn er ágætur svo langt sem hann nær, að vísu finnst mér þú skella fullmikilli skuld á vondu fjölmiðlana sem koma óorði á góðu læknana og heimska almenninginn sem kann ekki fótum sínum forráð og lætur vondu kuklarana plata sig.
Ég notaði ekki orðin „vondu“, „góðu“ eða „heimska“. Það er röng túlkun þín á skrifum mínum. Ég lít ekki á fjölmiðla, lækna eða fólk sem einhver svart-hvít fyrirbrigði sem eru annað hvort vond eða góð, vitur eða heimsk. Það breytir því ekki að ég gagnrýni fjölmiðla fyrir að standa sig ekki í því að miðla efni á gagnrýninn máta. Við það stend ég. Ég get bætt því við að læknar ættu að taka meira til sín og gagnrýna kuklið í stað þess að horfa á það.
Ég held reyndar að flestum sé treystandi til að taka nokkuð yfirvegaðar ákvarðanir um líf sitt og líkama.Það held ég líka en hins vegar eru það heilbrigðisstarfsmenn sem mest vit hafa á heilsutengdum málefnum í flestum tilvikum.
Hluti af vandamálinu er líka sá að fólk fer jafnan ekki til læknis fyrr en það er orðið veikt, í stað þess að vinna með læknum að fyrirbyggjandi aðgerðum í mataræði og lífsstíl. Í raun ætti þetta að vera eins með tannlækna, fara reglulega í tékk þar sem sjúklingur og læknir fara yfir málin og læknirinn getur þá bent á áhættuþætti og annað slíkt. Þetta er gert við nýfædd börn, af hverju ekki halda því áfram alla ævi? Þar held ég að dágóður peningur sparaðist í heilbrigðiskerfinu.Hvaða vandamál ertu að tala um? Menningarsjúkdómana? Ég var að gagnrýna uppgangs kukls og hindurvitna í minni grein. Annars hljómar þetta vel og ég er sammála.
Fjölmiðlar draga svo auðvitað dám af því samfélagi þar sem þeir eru við lýði, og í dag virðist fólk almennt leita "náttúrulegri" leiða, og þá ekki endilega til að ráða bót á sjúkdómum heldur til að finna fyrirbyggjandi aðferðir (helst svolítið í hendur við líkamsræktaræðið allt saman). Stór hluti af skýringunni held ég að með stórkostlegum uppgötvunum í læknis-, efna- og lyfjafræði á síðustu öld jókst oftrú á "vísindalegar úrlausnir" sem voru svo e.t.v. eftir á að hyggja vanhugsaðar. Það átti að vera hægt að leysa allt með lyfjum og efnafræðilegum kúnstum.
Já fólk veit ekki alltaf hvar takmarkanir lyfja læknisfræðilegra aðferða liggja og því er hætt við oftrú í einhverjum tilvikum. Ég hef ekki orðið var við að þetta hafi verið mikið vandamál hins vegar. Vantrú fólks á vísindalegar leiðir og leit þess í kolruglað kukl sem kuklarar bera á borð sem vísindalegan sannleik er aftur mun alvarlegra. Það er vandamál þegar fólk skilur ekki takmarkanir og telur að aðilar sem hafa tekið helgarnámskeið í heilun eða lært um ævafornar „orkulækningar“ hafi lausnir á vandamálum þess. Of margir skilja ekki hvað gagnslaust kukl er. Þar hefur menntakerfið okkar brugðist okkur.
Afleiðingar af þessu er t.d. ofnotkun á sýklalyfjum sem var mjög til umræðu fyrir nokkrum árum (ég man t.d. eftir að hafa farið til læknis rétt fyrir 1990 með hálsbólgu, var þá sagt að þetta væri veirusýking en var samt látinn hafa lyfseðil fyrir pensilíni), og ekki er ýkja langt síðan að hálf þjóðin bruddi prósak í tíma og ótíma til halda hressleikanum (og þurftu lyfseðil til). Varla finnst matur í verslunum nema búið sé að bæta alls kyns aukaefnum í hann, efnum sem eru líklega ekki mjög skaðleg en gera samt líkamanum ekkert gagn og eru almennt til trafala í meltingarkerfinu, þótt fólk sé eðlilega misviðkvæmt fyrir slíku. Matur án aukaefna heitir "lífrænn" sem er frekar kjánalegur stimpill en kannski óhjákvæmilegur. Þannig að það er kannski ekki skrýtið að fólk reyni að hamla gegn þessu á einhvern hátt, og auðvitað spretta upp ýmsir misjafnir sauðir í kringum þetta sem reyna að hafa sér allt að féþúfu. En þessi áhugi á "náttúrulegum" lækningum, lífrænu mataræði og öðru slíku er í þessu ljósi ósköp eðlilegt (en kannski ófullkomið) viðbragð.Sammála nema að aukaefnin eru mörg hver til þess að auka geymslutíma matvæla og koma í því í veg fyrir að við veikjumst af sýktum mat.
Ég ætla svosem ekki að dæma allar "náttúrulækningar", hef ekki kynnt mér þær allar til hlítar. Við barnsmóðir mín höfum þó leitað ýmissa leiða fyrir son okkar sem er með Tourette (ég bloggaði um það <a href="http://gvendarbrunnur.blogspot.com/2007/08/tourette.html">hér</a> og ætla ekki að endurtaka það hérna), það gerðum við þó í samráði við heimilislækni.Ég las grein barnsmóður þinnar í Morgunblaðinu og fannst ýmislegt athugavert við hennar ályktanir en fer ekki það hér. Sé eitthvað í mataræði til bóta fyrir börn með Tourette sdr þarf að rannsaka það skipulega en ekki draga of stórar ályktanir út frá einu tilviki.
Málið er að ég held að læknar verði að sætta sig við það að fólk vill ráða sínu lífi sjálft og koma til móts við þessa þörf.Auðvitað meina læknar ekki fólki að ráða lífu sínu sjálft og gagnrýna þann rétt ekki. Fullorðið fólk hefur rétt til að haga sinni heilsugæslu eftir eigin vali en þær leiðir sem það velur og ráðleggur öðrum eru ekki hafnar yfir gagnrýni. Ég hef rétt á því að gagnrýna t.d. homeopathiu en get ekki bannað fólki að leita til homeopata.
Þá er ég ekki að segja að læknar þurfi að taka upp "kukl" eða annað slíkt, heldur veita fólki ráðgjöf um hvað getur hugsanlega komið að gagni, hvað getur verið skaðlegt og annað eftir því.Já sammaála.
Það sem fólk leitar að í "náttúrulækningum" er m.a. leið til að virkja líkamann til að lækna sig sjálfur, sem þú myndir líklega kalla "placebo" áhrif, án þess að verða fyrir hugsanlegum skaða. Lyf hafa nefnilega oftast aukaverkanir og margar þeirra neikvæðar og jafnvel skaðlegar og eðlilegt að fólk vilji forðast þær. Persónulega tek ég helst ekki lyf nema í ýtrustu neyð, því ég vil að líkaminn nái að vinna á hlutunum sjálfur. Reyndar er ég svo heppinn að hafa sterkt ónæmiskerfi þannig að flensurnar mínar standa aldrei nema í ca. 1 dag (og kallast því varla flensur). Meðvitund um gott mataræði og góða andlega heilsu gera ekki annað en hjálpa til.Fólk er ekki meðvitað að leita að placebo áhrifum því varla vill maður borga þúsundir króna fyrir nýju fötin keisarans. Vissulega er gott að reyna að leita annara leiða til að halda betur heilsu en með lyfjum en fólk sem er komið með langvinn vandamál hefur oft ekki skárri kosti en að taka lyf. T.d. kólesteróllækkandi lyf hafa lengt líf margra. Það er mikil fáfræði í gangi um lyf og hvernig eigi að meta kosti þeirra og galla. Margir Íslendingar eru haldnir óraunhæfri hugmynd um að lyf eigi að forðast undir öllum kringumstæðum og séu bara síðasta úrræði. Það sést á þínu viðhorfi. T.d. er blóðþrýstingsmeðferð með lyfjum hjá fólki í kjörþyngd og með 2°-3°háþrýsting mjög mikilvæg og getur lengt líf og varðveitt lífsgæði þess fólks til mikilla muna. Hér er það aftur menntakerfið sem hefur brugðist. Fólk í framhaldsskólum landsins ætti að læra eitthvað um lyf. Ég lærði t.d. nánast ekki neitt á mínum menntaskólaárum um lyf.
Svanur Sigurbjörnsson, 9.9.2007 kl. 19:57
Sæll, og takk fyrir svarið. Ég kannski orðaði þetta fullgassalega í upphafi og biðst afsökunar á því, auðvitað er þetta ekki svarthvítt og ég skildi svarið þitt ekki heldur þannig. Ég vildi bara benda á þann pól að þetta bakslag, ef við getum kallað það svo, í átt að "kukli" er í sjálfu sér viðbragð við öðrum þáttum, m.a. ofuráherslu á lyfjafræðilegar lausnir í heilbrigðisgeiranum. Mér sýnist við vera á svipuðu róli þar, miðað við þitt svar.
Varðandi tourette og mataræði er ég fullkomlega sammála þér að það ætti að rannsaka skipulega. En sem foreldri barns með Tourette get ég ekki beðið eftir því, ég þarf að taka ákvörðun um hvort ég set drenginn minn á sterk geðlyf með tilheyrandi persónuleikabreytingum og aukaverkunum eða leita fyrst annarra leiða. Og í okkar tilviki virkuðu þessar aðrar leiðir vel, en við gerðum þetta svosem ekki út í loftið heldur ráðfærðum okkur bæði við heimilislækni og samtökin sem ég minnist á á blogginu mínu. Og í okkar tilviki var þetta kannski auðvelt val, þar sem ekki er um lífshættulegan sjúkdóm að ræða og lyfin sem í hlut eiga eru sterk og með miklar aukaverkanir. Ef þessu hefði verið öfugt farið hefðum við aldrei tekið áhættuna. Og ef lífsstílsbreytingin hefði ekki breytt neinu vorum við sammála um að reyna lyfjaleiðina, við höfðum í sjálfu sér engu að tapa. Annars virðast læknar ekki hafa haft mikinn áhuga hingað til á því að rannsaka tengsl Tourette og umhverfisþátta (t.d. mataræðis) miðað við það sem ég hef náð að kynna mér, en þetta kann þó vera eitthvað að breytast, sbr. rannsóknina í Lancet um tengsl ofvirkniseinkenna og litarefna í sælgæti. En það er önnur umræða, sem væri reyndar spennandi að eiga þátt í (annars mæli ég með þessari bók ef þú vilt kynna þér umfjöllun um Tourette og "náttúrulegar" meðferðir: http://www.amazon.com/Tics-Tourettes-Breakthrough-Discoveries-Treatments/dp/0976390906/ref=pd_bbs_sr_2/002-1605251-9337657?ie=UTF8&s=books&qid=1189380404&sr=8-2. Ágætt yfirlit, en reyndar skrifuð fyrir almenning, þannig að ég veit ekki hversu djúpt er farið í hlutina, svona frá sjónarhóli lækna).
Og varðandi það að forðast lyf, þá var ég meira að hugsa um "hversdagslegri" lyf eins og sýklalyf. Ef líf mitt lægi við myndi ég auðvitað ekki hika. Ég er kannski efasemdarmaður, en ég er ekki heimskur (vona ég...)
Guðmundur (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.