Ég mótmæli!

Ég mótmæli þeirri misnotkun á ráðherravaldi sem Árni Mathiesen beitti við veitingu héraðsdómarastöðu nýverið.  Af öllum þeim upplýsingum (bæði á prenti og af persónulegum vitnisburði) sem ég hef séð og heyrt um málið þykir mér ljóst að það er mikill munur á reynslu og hæfni þeirra þriggja sem dæmdir voru best hæfir af dómnefndinni og þeim sem stöðuna fékk.  Sá munur er ekki stöðuþega í hag.

Hingað og ekki lengra!

Þessari geðþóttamennsku í stjórnmálum verður að linna og fólk sem kosið hefur verið til hárra embætta verður að taka ábyrgð á svona dómgreindarleysi með því að stíga til hliðar.  Kannski var þetta eitt hliðarspor á annars ágætum ferli Árna, en hvert er traust þjóðarinnar til hans nú?  Sorgleg staða en engu að síður óumflýjanleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Sammála þér, ég mótmæli líka.  Enn kerfið okkar er svo siðblindt og kanski ekkert nýtt af nálinni , því ef þú ert sonur /dótir     einhvers ráðamanns í hærri stéttum ss á Alþingi eða tengist þar inn, þá færðu starfið,   hvort sem að aðrir eru hæfari eður ei.

Svona er Ísland,,,,,,,,,,,, eilíf siðblinda og spilling, ekki bara á Alþingi heldur líka í okkar sveitarfélögum, víðsvegar um land.

Erna Friðriksdóttir, 17.1.2008 kl. 17:37

2 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Eru stjórnvöld ekki bara í eigin Glerhúsi. Stöðuveitingar, Evran á leiðinni inn bakdyramegin, stóriðjustopp hver kannast nú við það??

Erna Bjarnadóttir, 17.1.2008 kl. 20:18

3 Smámynd: Þorbjörg Ásgeirsdóttir

Það hefur nú alltaf verið mikið um pólitískar stöðuveitingar á Íslandi, hjá öllum stjórnmálaflokkum........  En þetta mál með ráðningu Þorsteins Davíðssonar er svo borðleggjandi rangt að ég held að þjóðinni bara ofbjóði.  Málflutningur Árna Matt er beinlínis móðgandi, og að mínu mati beint úr smiðju Davíðs Oddsonar.......það var nú ekki ósjaldan sem valdahrokinn lak af málflutningi Davíðs, þegar hann var við völd..........og hann virðist ennþá vera doninn í mafíu sjálfstæðisflokksins.

Þorbjörg Ásgeirsdóttir, 17.1.2008 kl. 21:01

4 identicon

Hlægilega hallærislegt mál og víst það ljótasta sem Dabbi hefur séð á sínum ferli sagði hann í fréttum í kvöld

DoctorE (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 23:36

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Aristoteles áleit að siðferði og stjórnmál væru órofa heild, þ.e. að stjórnmálin væru í raun bara tæki til að koma hinu góða og vitra áleiðis út þjóðfélagið.  Einhvers staðar á leiðinni þessi 2600 ár síðan hefur þetta gleymst og ekki tekist að framkvæma á sannfærandi máta þrátt fyrir talsverðar framfarir síðustu 4 aldir. 

Enn halda margir stjórnmálamenn að leika megi á skammtímaminni og eftirtektarleysi hins almenna borgara og spila leiki fyrirgreiðslusemi og sérréttinda sér og sínum "liðsmönnum" til bóta.  Menn keppast nú við að segja að mat Árna sé hans heiðarlega mat og að hann hafi verið í fullum rétti til að fara eftir sinni samvisku - meira að segja bara skylda til þess.  Þannig afsakast hann gagnvart nefndinni í þeirra augum.  Ef það er rétt (sem ég treysti mér ekki til að segja) þá afsakar það hann samt ekki frá þeim rökum sem liggja fyrir varðandi starfshæfni umsækjandanna og ekki frá þeirri ákvörðun sem hann endanlega tekur.  Sú ákvörðun þarf að standast hlutlægt mat og byggjast á þekkingu á því hvaða bakgrunnur og hæfileikar henti best í starfi héraðsdómara.  Frá því verður ekki flúið og gögnin benda ekki til þess að mat hans hafi verið réttmætt.

Já ljótt var það í augum Davíðs, en bara út frá öðru sjónarhorni.  Engin rök, bara sterk fordæming. 

Svanur Sigurbjörnsson, 18.1.2008 kl. 00:06

6 identicon

Samkvæmt fréttum 20.desember síðastliðinn var Þorsteinn ráðinn frá og með 1. janúar 2008. Og hann er byrjaður í nýja starfinu sínu. Hvers vegna gerast ráðningar þegar ráðherrar eru í formlegu jólafríi?

Hvernig er þessum málum háttað á opinberum stofnunum í sambandi við uppsögn? Nægir tíu daga uppsögn hjá opinberu fyrirtæki eða hvernig er hægt að skýra þetta.

ee (IP-tala skráð) 18.1.2008 kl. 00:33

7 Smámynd: haraldurhar

   Jæja ég segi nú bara batnandi mönnum er bezt að lifa:  Þar kom að því að augu Davíðs opnuðust fyrir heimsku Árna, betra seint en aldrei.

haraldurhar, 18.1.2008 kl. 00:46

8 identicon

Rakst á þetta:

Úr frumvarpi til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, er rökstuðningur fyrir tilveru nefndarinnar sem meta á hæfi umsækjenda um dómarastöður.

Í frumvarpinu segir:

„Í 2. mgr. er nýmæli, en þar er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra skipi sérstaka dómnefnd sem fjalli um umsóknir um embætti héraðsdómara. Í nefndinni skulu sitja þrír menn og er einn tilnefndur af Hæstarétti og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Annar nefndarmaður skal tilnefndur úr hópi héraðsdómara og þriðja nefndarmaðurinn skal tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands. Nefndin skal gefa skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur.

Í 3. mgr. er dómsmálaráðherra heimilað að setja nánari reglur um störf nefndarinnar. (reglurnar sem fyrirskipa nefndinni til dæmis að raða umsækjendum í hæfisröð, innsk HV)

Tillaga um slíka dómnefnd hefur áður komið fram, en það var í stjórnarfrumvarpi, sem fram var lagt á Alþingi 1975--1976. Í athugasemdum við það frumvarp eru rakin ýmis dæmi um svipað fyrirkomulag í öðrum ríkjum, en megintilgangur ákvæðisins er að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins. Ekki er að efa að tilvist umsagnarnefndarinnar verður auk þess hvatning fyrir lögfræðinga, sem hyggja á starfsferil sem dómara, til að afla sér framhaldsmenntunar og leggja stund á fræðistörf á sviði lögfræði.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 18.1.2008 kl. 10:22

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sterkasti apinn ræður ferðinni nafni. Þetta er félagslegur Darwinismi í hnotskurn. Siðlaust en löglegt og ef það er ólöglegt er hægt að breyta lögunum eða hreinlega virða þau að vettugi, sértu nógu stór og sterkur til þess að komast upp með það. 

Aristoteles var eiginlega eini gríski heimspekingurinn sem kristnir menn gátu skammlaust tekið upp á sína arma vegna þess að hann sá siðferðiskenndina og siðferðið sem undirstöðu þjóðfélagsins. Hann gaf sér líka tíma til að skilgreina hvað var gott og viturt og forsendur þess sem taldi Metaphysiskar eða Guð sem "vera verunnar" og Actus Purus.

Svanur Gísli Þorkelsson, 18.1.2008 kl. 17:09

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir innlegg

Góð ábending og fróðleg Þorsteinn Úlfar.  Skipan Árna þvert ofan í ráðleggingar nefndarinnar sem skipuð var til að auka sjálfstæði dómstóla fer akkúrat á móti þeim tilgangi. 

Sósíalískur (félagslegur) Darwinismi er nokkuð sem ætti ekki að vera kennt við Darwin enda úrkynjun á hans vísindastarfi.  Hins vegar skil ég vel punkt þinn nafni og því miður hefur maður séð talsvert af "sterkra manna og kvenna" ákvörðunum í pólitík hérlendis s.l. ár.  Var ekki Plató í meira uppáhaldi hjá Kristnum því hann hafði eiginlegri trú á yfirnáttúrulegt almætti og skilgreindi hina huglægu ást (platónsk ást) æðri hinni líkamlegu?  Hvað er átt við með "Actus Purus"?  (Hreinn verknaður?)

Svanur Sigurbjörnsson, 19.1.2008 kl. 13:16

11 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Til hvers eru þessar nefndir ef ekkert er farið eftir ályktunum þeirra?  Allt of margir í stjórnmálum sem eru með hugsunina "ég ræð en ekki þið".  Klíkuskapur á Íslandi er alltof mikill.  Ég mótmæli líka!

Margrét St Hafsteinsdóttir, 19.1.2008 kl. 17:10

12 identicon

Hér eru allir alveg ótrúlega sammála,  óréttlætinu í þjóðfélaginu sem við búum í, og ótéttmæti ákvarðana þeirra sem við höfum kosið til að taka ákvarðanir fyrir okkur. Af hverju eruð þið ekki í þessu hlutverki að sjá til þess að réttlætið nái fram að ganga í þjóðfélagi okkar - og bjóðið ykkur fram í þessi embætti og sjáið um að vinna þessi annars aumu skitverk. Ætli þið mynduð nenna því að standa í eldlínunni ár eftir ár og .... taka réttlátar réttar ákvarðanir, öllum til heilla. Þeir sem hafa fullvissu fyrir því að þeir viti betur en aðrir, séu réttlátari í skiptingu auðlinda og hafi réttari mynd af því hvernig stjórna beri þessu landi okkar en þeir sem við stjórnvölinn eru, eru í raun skyldugir til að ganga fram fyrir skjöldu og axla þá ábyrgð sem þeir eru að tala fyrir. Ég skora á ykkur, skoðanaglaða og réttláta fólk, sem berið manngildissjónarmið ofar öllu að ganga fram fyrir skjöldu og taka ykkur þá stöðu sem þið hafið verið kölluð til - að bjóða ykkur opinberlega fram til þess að taka ávkarðanir fyrir þá sem fávísari eru um réttlæti í stjórnmálum. 'I stað þess að skýla ykkur bak við blogg og skrif á baksíðum netmoggans. Gangið fram fyrir skjöldu, takið ykkur stand opinberlega og gefið fólkinu í landinu það val sem þa'ð hefur svo lengi beðið eftir. Hlýtur að vera meirihluti fyrir réttlæti í landinu. Ég mun áfram kjósa sjálfstæði einstaklingsins (X-D) og trúa á Jesú Krist, og reyna að fremsta megni að ganga þann veg sem Drottinn minn hefur varðað mér. Gangi ykkur vel i réttlætisbaráttunni.

Gugga (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 20:01

13 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hæ, ég ætlaði ekki að þekkja þig Sigríður.  Nýja myndin er ekki lík þér ;-)

Hvað skal gera spyrðu.  Hér þarf að byrja nýtt hugsjónastarf í stjórnmálum og hið innra starf flokkana að vera tekið til gagngerra endurbóta.  Frjálslyndi flokkurinn ýtti á opið fjárbókhald flokkanna og takmarkanir á gjafir til þeirra og fékk undirtektir hjá síðustu ríkisstjórn þannig að ný lög voru samin um fjárveitingar og hámarks styrki frá einkaaðilum.  Það var spor til framfara en þeir ríkisstyrkir sem settir voru inn í staðinn eru e.t.v. ekki réttlátir gagnvart flokkum sem hafa ekki komið inn manni á þing.  Þannig er hætt við að komið sé í veg fyrir aðhald utan frá og núverandi flokkar bara treysti sig í sessi.   Skoða þarf tilhögun kosninga innan flokka þ.e. hvernig fólk velst til stjórnunarstarfa því prófkjör hafa tilhneigingu til að enda í skrípaleik.  Stjórnmálaflokkar þurfa að semja sínar eigin siðareglur og hækka sína staðla hvað mannréttindi, tillitssemi og sanngirni í starfsreglum varðar.  Veljast þarf fólk til stjórnunar sem hefur þessi atriði að leiðarljósi.  Innra starfið þarf að þroskast.  Margt þarf að koma til, t.d. aukin menntun um nauðsyn þess að dreyfa valdi og að markmið stjórnmála sé ekki að skapa stórar kökur fyrir sjálfan sig og vini sína, heldur byggja upp réttlátara og gjöfulla samfélag fyrir okkur öll.  Það er leiðin til hins góða lífs. 

Svanur Sigurbjörnsson, 21.1.2008 kl. 09:26

14 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Elmar

Ef að málið væri þannig að Þorsteinn hefði verið dæmdur hæfastur af nefndinni en ekki fengið stöðuna, þá væri hann að fá að þjást vegna hverra manna hann er, en dæmið er öfugt í því sem gerðist í raun.  Blasir þetta öðru vísi við hjá þér?

Svanur Sigurbjörnsson, 21.1.2008 kl. 13:02

15 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Gugga, ef ég býð mig fram til þings í næstu kosningum, treysti ég á að þú kjósir mig og minn flokk fyrst að þú ert að skora á mig.  Geturðu lofað mér því svo ég fái tækifæri til að axla ábyrgð?

Svanur Sigurbjörnsson, 21.1.2008 kl. 17:00

16 identicon

Fyrir það fyrsta þá er það fremur klaufalegt að mínu mati að sérstök nefnd meti hæfni umsækjenda sérstaklega í ljósi þess að ráðherra er ekki bundinn af áliti hennar. Í lögum um dómstóla nr 15/1998 2. mgr. 12. gr. eru að finna í  hæfisskilyrði héraðsdómara, öll mjög almenns eðlis og af lögunum má dæma að hver sá sem uppfyllir þau skilyrði geti gegnt stöðu héraðsdómara.

Eina þörfin á einhverju sérstöku mati væri þá hvort umsækjendur uppfylli þau skilyrði, sem í sjálfu sér þarf ekki að vera mjög flókin athugun.

Mér persónulega finnst ekkert athugunarvert við val ráðherra á meðan hæfisskilyrðum laganna er uppfyllt, því ákvörðunin er alfarið hjá ráðherra og eftir atvikum hans persónulegu skoðunum.

Svo er það allt annað mál hvort ráðherra eigi að hafa slíkt vald og val dómara skyldi bundið við umsækjendur nefndarinnar. Það væri mun gagnsærra og tryggði betur aðskilnað framkvæmdarvalds og dómsvalds.

Hundurinn er grafinn í því að auðvitað á ráðherra ekki að hafa fullt vald um skipan dómstóla, alveg eins og ráðherrar ættu ekki að sitja á alþingi með atkvæðarétt.  Þrígreining ríkisvaldsins er í þessu tilfelli engin, dómsmálaráðherra situr með puttana í löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og stýrir dómsvaldinu.

Það þýðir því ekki að vera fetta fingur út í þessa tilteknu skipun, hún er lögmæt. Það þarf lagabreytingu fyrst. Ég skil heldur ekki hvernig það kemur mönnum alltaf á óvart að ábendingum og hæfnismat sé hundsað í hvert sinn sem dómarar eru skipaðir hvort sem er í héraði eða hæsta rétti, þetta er alltaf svona. Það þarf bara kjósa fulltrúa á alþingi sem eru tilbúnir til þess að breyta þessu, ef ráðherra á að vera bundinn af einhverjum meðmælum.  :)

kveðja,
Magnús Fannar

Magnús Fannar Sigurhansson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 16:06

17 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir þessar góðu ábendingar Magnú Fannar

Þó að athæfi sé löglegt, getur það verið siðlaust og það er sjálfsagt að mótmæla slíku, því æðstu embættismenn þjóðarinnar eiga að hafa þroska til að mismuna ekki fólki eftir tengslum, kyni, fötlun o.s.frv.  Það skiptir miklu máli fyrir hamingju eínstaklinga og þjóðar að þegnarnir fái að njóta hæfileika, menntunar og reynslu sinnar að verðleikum, en séu ekki sífellt látnir sitja á hakanum eða fram hjá þeim gengið vegna eigingirni ráðamanna.   Það er því rétt hjá þér að það þarf lagabreytingu til að koma betra siðferði til skila.  Því miður er það svo að ýmsir stjórnmálamenn fara eftir mottóinu "Ef ég get það án þess að brjóta lögin, þá geri ég það".

Svanur Sigurbjörnsson, 24.1.2008 kl. 16:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband