Björninn í dvala

Það er skammt á milli stórra tíðinda í stjórnmálabaráttu borgarinnar.  Nú er Björn Ingi búinn að binda sinn endahnút, þessi bjarti drengur með baugana sem með mikilli elju og nokkrum klókindum tókst að koma Framsókn á blað í borginni eftir hræðilegar niðurstöður í skoðanakönnunum nokkrum mánuðum fyrir síðustu kosningar.  Ég sé ekki í fljóti bragði að öðrum framsóknarmanni hefði tekist þetta, enda kom þarna ferskur vindur úr annars stöðnuðu apparati. 

 Veturinn 2005-2006 var ég með vikulegan útvarpsþátt á Útvarpi Sögu og var m.a. með umfjöllun um staðsetningu flugvallarins í Reykjavík áður en flokkarnir voru farnir að virkilega gera upp hug sinn fyrir kosningarnar í því máli, sem hafði náð að sofna um hríð.  Aðeins Frjálslyndir voru harðákveðnir í að halda Flugvellinum í Vatnsmýrinni og kom þar Sveinn Aðalsteinsson (kosningarstjóri F-listans) og talaði fyrir þeirra hönd.  Björn Ingi kom fyrir Framsókn og talaði mjög hreinskilningslega um þessi mál.  Hann sagðist ekki vera kominn með ákveðna staðsetningu í huga á þeim tíma.  (síðla hausts 2005).   Mér fannst hann koma vel fyrir og svara skynsamlega en umræðan kom m.a. inná sjúkraflutningana og flugöryggi í landinu.  Mér fannst þetta efnilegur stjórnmálamaður en vissulega voru kynnin of stutt til að sjá manninn allan.

Í þeirri mjög svo grafísku og lifandi kosningaherferð sem hann og flokkur hans stóðu svo fyrir fyrir kosningarnar 2006, lenti Björn í flugvallarmálinu uppá Lönguskerjum.  Einhvern veginn fannst mér eins og þessi stefna væri bara í raun stefna til að skapa sér sérstöðu frekar en alvara væri á baki en margt var á huldu um kosti og galla þess kosts á þeim tíma.  Ákvörðunin var þó hentug kosningastefna því óákveðni í þessu máli boðaði ekki á gott. 

Söguna síðan þekkjum við og því miður virðist Birni Inga hafa fatast flugið á einhvern hátt.  Mér þótti afar sérkennilegt (lesist óskynsamlegt) af honum að koma fram skælbrosandi og áhyggjulítill þegar REI deilan stóð sem hæst og vera svo kominn í nýtt stjórnarsamstarf morguninn eftir.  Það hefur dregið dilk á eftir sér og virðist sem ýmsir hafa reynt að finna höggstað á honum síðan.  Þá hafa ýmis innri mál í Framsókn hafa orðið þrúgandi og þetta fatamál hefði varla komið upp nema af þvi að eitthvað annað liggur undir.  

Enn og aftur molast úr Framsóknarflokknum.  Vandamál þess forna bændaflokks virðast hvergi nærri til lykta leidd og djúpstæður ágreiningur virðist plaga hann.  Ég óska staðgengli Björns Inga góðs gengis og einnig Birni Inga í lífi sínu utan hringiðu stjórnmálanna.  Hann hefur alla vega lagt hér eitthvað af mörkum undir lokin til að skapa frið í kringum starfið í borginni.


mbl.is Björn Ingi hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband