Feginn að vera ekki feigur

Ég var ásamt kærustu minni í Jaipur um síðustu jól. Þetta er falleg borg og full af listum og lífsgleði.   Borgarbúar elska kvikmyndir og mörg bíóhús í gamalklassískum stíl eru þar.  Þarna fá Indverjar margir satt draumum um frelsi í ástum og hetjudáðir sem birtast í Bollywood myndunum. 

Bíóhús í Jaipur

Gamli hluti Jaipur er frá um 1850 þegar konungur Rajasthan ákvað að reisa nýja borg á nokkrum árum með stærðfræðilegu fyrirkomulagi gatna hornréttra á hvor aðra og breiðu markaðsstræti í miðjunni.  Steinar bygginganna báru bleikan lit og því var hún kölluð "Bleika borgin" (Pink city). 

jaipur-bazaar

 

 

Konungur þessi var mjög kænn því honum tókst að halda samstarfssamningi við hina herskáu Mógóla (Muhgals) sem frá 16. öld höfuð sölsað undir sig nær allt Indland og áttu sér höfuðstað í Dehli á þessu tíma en hún er um 200 km norðan við Jaipur.   Hann byggði eina stærstu stjörnuskoðunarstöð heims í Jaipur og er þar enn stærsta sólúr í heimi. 

 

Við fengu leiðsögn um þröng hliðarstræti Jaipur af ljósmyndara sem við hittum þar.  Hann rak eina elstu ljósmyndastofu borgarinnar og átti enn stóru ljósmyndavélina sem afi hans, stofnandi stofunnar, tók myndir með af hermönnum konungs.  Hann sýndi okkur gamlar negatífur máli sínu til sönnunar.  Við fórum uppá þak í húsi frænda hans, sem var málari.  Auðvitað urðum við að kaupa eina mynd af honum til að þakka fyrir túrinn en þannig er það oftast í Indlandi.  Enginn ókunnugur er raunverulega að gefa þér nokkuð eða sýna þér um hverfið af góðviljanum einum.  Lífsbaráttan er svo hörð að hver rúpí er kreistur úr hverjum túrista.  Á húsþökunum voru börnin að æfa flugdrekaflug en 14. janúar hvert ár verður allt vitlaust í Jaipur á degi flugdrekans. Ljósmyndarinn og gamla vélin hans

Þegar ég elti þennan vinsamlega indverja gegnum öngstrætin leið mér ekki of vel.  Það var ekki sú öryggistilfinning sem maður hafði á ferðalagi um Nýja Sjáland tveimur mánuðum síðar.  Maður var frekar smeikur um öryggi sitt.   Nú kemur í ljós að maður hefði getað orðið hryðjuverkum að bráð þarna.  60 manns létu lífið!  Óskemmtileg tilhugsun.  Þetta verður allt miklu raunverulega þegar maður hefur gengið þessar götur.  Ljósmyndarinn sagði okkur af því að menn brenndu stundum konur sínar ef þær kæmu ekki með nægum heimamund.  Hræðilegt ranglæti ætti sér stað.  Hver ætli hugi að sárum þessarra 150 sem særðust í sprenguárásinni?  Það er ekkert opinbert heilbrigðiskerfi. 

Við gengum út úr búð í Jaipur með súkkulaðistöng í hendinni.  Hópur götudrengja gerði aðsúg að okkur og vildu fá súkkulaðið.  Þeir voru frekir og dónalegir og því gáfum við ekki súkkulaðið.  Hvaða framtíð skyldu þeir eiga fyrir sér?  Þó einhverjir þeirra væru klárir ættu þeir litla möguleika á því að brjótast upp úr stétt sinni.  Lægst setta stéttin í Indlandi, dalmítarnir fá að eiga og reka svín sér til lífsviðurværis.  Rétt eins og þeir, voru svínin merkt sem óæðri.  Hugarfarslegir og efnahagslegir múrar eru reistir í kringum þá. 

Skyldi Höll vindanna hafa sprungið?  Það væri sjónarsviptir en hinn dýrmæti friður í Jaipur er þó meira virði.

Höll vindanna - Jaipur

 


mbl.is Útgöngubann í Jaipur á Indlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið get ég skilið þessa óöryggistilfinningu hjá þér.  Það hvarflar stundum að manni, þegar maður er að ferðast á eigin vegum um svæði sem eru okkur framandi, og við fáum leiðsögumann innfæddan, sem við vitum enginn deili á.  Að auðvitað getur allt gerst.   En þvílíkt sem það er öðruvísi og skemmtilegra að ferðast svona og skynjunin verður allt önnur á nándin við land og þjóð.  Þetta er eins og munurinn á því að fara akandi um landið og að fara á puttanum, eða hjólandi. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.5.2008 kl. 10:23

2 Smámynd: Le Betiz

Þessir götudrengir eiga klárlega enga framtíð fyrir sér. Leitt til þess að hugsa. En það er bara full vinna að ferðast um svona slóðir. Skammarlegt að menn hegði sér svona

Le Betiz, 20.5.2008 kl. 00:42

3 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Frábært að lesa þessa frásögn.  Ég hef aldrei komið til Indlands en mig langar þangað, en ég er ekkert sérlega hrifin af því að vera í miklu kraðaki af fólki  þannig ætli ég fari ekki bara einn daginn í eitthvað afskekkt þorp þar

Ömurlegt hvað lífskjörum er víða misskipt.  Í Bollywood myndunum eru allir aðalleikararnir ljósir á hörund og einu hlutverkin sem dekksta fólkið fær er hlutverk vinnufólks, fátæklinga og glæpahyskis. Vinkona systur minnar var í Indlandi í 6 mánuði ekki alls fyrir löngu og henni var boðið hlutverk í Bollywood mynd og hefði getað gert það gott þar en hún er ljóshærð og bláeygð.  Hún afþakkaði hlutverkið.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 20.5.2008 kl. 02:35

4 Smámynd: Sigurður Rósant

Já, þessi lýsing minnir mig á það sem ég upplifði fyrir 22 árum, eða í desember 1986 í Nýju Delhi.

Kunnugir segja mér að mikið hafi breyst síðan þá, en ég á nú bágt með að trúa því. Enn eru um 5000 brúðarbrennur á hverju ári, andlit kvenna eyðilögð með því að skvetta saltsýru eða álíka óþverra í andlit þeirra. Börn notuð til að skera út skrautmuni úr marmara eða vefa bænamottur handa ferðamönnum. Smástúlkur notaðar í vændi o.s.frv.

Þessi vandamál þessarar fjölmennu þjóðar eru yfirþyrmandi og spurning hvort nokkuð mannlegt geti nokkurn tímann gert ástandið þarna í þá veru sem við þekkjum hér á Vesturlöndum.

Sigurður Rósant, 20.5.2008 kl. 11:53

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Ásthildur Cesil

Já það er allt annað að kynnast fólkinu en að þjóta hjá í einkabíl.  Við fórum einnig í brúðkaup í Kolkata og er það önnur saga.

Já ekki til eftirbreytni Le Betiz en hryðjuverkin eru öllu alvarlegri.

Takk Margrét.  Indverjar laðast að öll ljóshærðu eins og flugur í mykjuskán.  Flestir þeirra hafa aldrei komið til útlanda og ekki séð vestrænar bíómyndir heldur.  Þeir stara því á ljóshærðar konur og vilja fá myndir teknar af sér með þeim.  Soffía mín var mjög vinsæl þarna he he.

Sæll Sigurður.  Já ég var nú búinn að gleyma þessu með sýruna í andlitið og það er næstum því ljótari glæpur en morð því þannig er verið að eyðileggja líf þessara kvenna til frambúðar.  Því miður gætir ekki mikið visku Gandhis hjá hinum almenna Indverja og sums staðar er grunnt á því góða.  Þú segir að "spurning [sé] hvort nokkuð mannlegt geti nokkurn tímann gert ástandið þarna í þá veru sem við þekkjum hér á Vesturlöndum."  Ég vil svara því til að ef það verður ekki eitthvað mannlegt sem mun hjálpa Indverjum, þá verður það ekkert annað.  Við mennirnir erum smiðir okkar eigin hamingju og velferð - enginn annar eða annað mun koma þar í staðinn.

Svanur Sigurbjörnsson, 20.5.2008 kl. 18:23

6 Smámynd: Sigurður Rósant

"Ég vil svara því til að ef það verður ekki eitthvað mannlegt sem mun hjálpa Indverjum, þá verður það ekkert annað.  Við mennirnir erum smiðir okkar eigin hamingju og velferð - enginn annar eða annað mun koma þar í staðinn."

Svarti dauði var nú ekki af mannlegum toga, en hann hjálpaði okkur Evrópubúum mjög fyrir 666 árum, en þá fækkaði okkur úr 150 milljónum í 75 milljónir. Kannski leikur lánið við Þessi offjölgunarsvæði líka í náinni framtíð, þó ljótt sé að segja þetta á þennan máta. Vissulega máttum við Íslendingar ekki við þvílíkum viðbjóði á þeim tímum, en kannski önnur svæði í Evrópu. Þekki það ekki svo vel.

Sigurður Rósant, 20.5.2008 kl. 20:07

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Jú auðvitað geta bæði pestir og náttúröfl haft mikil áhrif á líf okkar og við reynum að sporna við þeim en ytri aðstæður breyta ekki nema að litlum hluta hver við erum að upplagi.   Hugmyndakerfi okkar um rétt og gott siðferði hljóta að hafa þar úrslitaáhrif.  Hugsanlegt er að grimmd aukist í fátækt en það er ekki alltaf þannig.  Grimmd hefur jafnvel verið meiri hjá þjóðfélögum sem hafa notið efnahagslegrar velgengni.

Svanur Sigurbjörnsson, 21.5.2008 kl. 12:20

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

He he Elmar þarna gómaðir þú mig glóðvolgan eða hvað..?  Er það að vera feigur eitthvað annað en að vera dauður?  Er það að vera gott sem dauður?  Hafði ekki hugsað út í þetta.

Svanur Sigurbjörnsson, 26.5.2008 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband