Sóknarfærin hans Karls biskups í fullri sveiflu

Í þessari frétt Mbl.is af Kirkjuþingi unga fólksins hjá Þjóðkirkjunni segir:

Á þinginu kom einnig fram hvatning til að efla boðun kirkjunnar í framhaldsskólum, með vísan til mikilvægis þess að sjónarmið kirkju og trúar þyrftu einnig að heyrast þar.

Það er greinilega ekkert launungamál hjá þeim að boða á kristni í framhaldsskólum rétt eins og ekkert væri sjálfsagðara í opinberum skólum allra landsmanna.  Það er ekki einu sinni reynt að sýna þá tillitssemi að nefna þetta fræðslu.  Nei það skal efla BOÐUN kirkjunnar í framhaldsskólum.

Svo segir í fréttinni:

Þá lagði þingið til að  Þjóðkirkjan marki sér stefnu í æskulýðsstarfi í minni söfnuðum, með það í huga að vinna í samvinnu við  sveitarfélögin og stofnanir þess. 

Ég beini athyglinni að: "...að vinna í samvinnu við sveitarfélögin og stofnanir þess".  Þetta er alveg makalaust.  Þetta þýðir ekkert annað en að Þjóðkirkjan vill nýta sér opinbera aðstöðu og fé annarra stofnana en sinna eigin til að boða trú sína.  Margir þjóðkirkjuprestar verða æfir ef sagt er að hún sé "ríkiskirkja" því hún þykist vera svo sjálfstæð og óháð ríkinu.  Hún er það vissulega en algerlega á sínum skilmálum, þ.e. hún þiggur sóknargjöld, full laun handa prestum sínum (og ekki af verri endanum), menntun og húsbyggingar auk stjórnarskrárlegrar verndar og sérstakrar heiðursstöðu við upphaf hvers þings Alþingis.  Fleira mætti tína til en á móti hlýtur að vera lágmarkskrafa stjórnvalda og opinberra stofnana að kirkjan komi ekki með virkt trúboð inní þær.  Um 20% þjóðarinnar "trúa ekki" á æðri mátt (Gallup 2004) og að megin uppbyggingu er þetta land byggt upp á veraldlegan máta þannig að mennta- og heilbrigðisstofnanir, dómskerfi og framkvæmdavald þurfi ekki að lúta kirkjulegu valdi eða áróðri við sín störf. 

Ósvífni Þjóðkirkjunnar við að brjóta á þessari megin reglu sem er í fullum takti við ákvæði mannréttindasáttmála um "jafna meðferð" allra þegna innan hins opinbera geira, er með ólíkindum og ætlar ekki að taka enda þrátt fyrir mótmæli víða að síðastliðin ár.  Í krafti stærðar sinnar, peninga og vissu um réttmæti boðunar sinnar inní alla kima þjóðfélagsins ætlar Þjóðkirkjan sér að vera allsráðandi.  Siðmennt hefur mótmælt þessari stefnu Þjóðkirkjunnar og fyrir það fékk félagið einkunnina "hatrömm samtök" úr munni Karls Sigurbjörnssonar biskups, boðara kærleiks Krists, fyrir um ári síðan.  Slík orð eru ekkert grín fyrir félag sem hefur borðið ábyrgð á kennslu um þúsund ungmenna fyrir Borgaralega fermingu undanfarin 20 ár og hefur ábyrga umfjöllun um siðfræði sem eitt af sínum megin markmiðum. 

Nú furða sig eflaust margir yfir því hvers vegna maður fettir fingur út í boðun kristinnar trúar í framhaldsskólum.  Ástæðan er tvíþætt. 

  • Í fyrsta lagi tel ég að lífsskoðunarfélög (bæði trúarleg og veraldleg) eigi að tilheyra einkageiranum því um þau verður aldrei nægilegt samkomulag um eina skoðun eða lífssýn, til að taka megi eitt eða nokkur þeirra út fyrir og gefa forréttindi innan opinbera geirans.  Hér gildir einu hvort að eitthvað félag er í meirihluta eða ekki því mannréttindi eru gerð til að vernda hag minnihlutahópa.  Mannréttindi eru samin til að tryggja öllum jafnan aðgang og frið frá áróðri og boðun utanaðkomandi hópa innan kerfa eins og hins almenna menntakerfis. 
  • Í öðru lagi tel ég að það sé til betri lífsskoðun en sú trúarlega og því finnst mér slæmt ef prestar fá að boða og innræta trú sína í opinberum skólum.  Að sama skapi skil ég að prestum þætti slæmt ef ég fengi að boða lífsskoðun mína í opinberum skólum og því er best að hvorugur fái aðgang að skólunum nema rétt til að kynna einstöku sinnum skoðanir á fræðslufundum utan skólatíma, fyrir börn ekki yngri en 13 ára. 

Ekkert lífsskoðunarfélag á að fá að dreifa boðunarritum sínum ókeypis í barnaskólum.  Skólar eru ekki vettvangur gjafa frá trúfélögum eða klúbbum tengdum þeim.  Ef foreldrar telja að börn sín hefðu gott af því að lesa eitthvað trúarrit þá er það þeirra að útvega þeim það eða biðja trúfélag um að gefa barninu það.  Skólar landsins eiga ekki að koma í staðinn fyrir það uppeldi foreldra sem þeir hafa val um að gefa barni sínu um siðferði, trú, lífsskoðanir og stjórnmál.  Hlutverk skólanna er að fræða á hlutlægan máta og sú fræðsla á að koma frá kennurunum og menntakerfinu en ekki hagsmunasamtökum úti í bæ. 

Nú á tímum naflaskoðunar á lífi okkar og siðferði í kjölfar efnahagslegs hruns stærstu fyrirtækja landsins og hagkerfisins, er einnig tími til að efla rökhyggju og raunsæi á öllum sviðum.  Þjóðin þarf ekki á aðilum eða samtökum að halda sem ýkja og tala upp ímyndað mikilvægi sitt og verðmæti, hvorki á efnahagslega sviðinu né hinu siðferðislega (andlega, trúarlega eða hugarfarslega).  Slíta þarf hin óeðlilegu fjárhagstengsl ríkis og kirkju og spara þannig milljarða á ári hverju.  Þegar Þjóðkirkjan er orðin bara hin Evangelísk-Lúterska kirkja á Íslandi, rekin af eigin verðleikum og félagsmönnum sem ekki lengur yrðu skráðir sjálfkrafa við fæðingu eða skírn, heldur þegar þeir taka upplýsta ákvörðum við 16-18 ára aldurinn óski þeir þess, þá kæmi í ljós hinn raunverulegi stuðningur við hana.  Ég efast ekki um að hann yrði talsverður því þrátt fyrir guðsþrugl þá gerir kirkjan margt gott en ég efast ekki heldur um að hún myndi missa umtalsverðan fjölda félagsmanna og yrði að komast af án launa til presta sinna sem eru hærri en margir sérfræðimenntaðir læknar fá hjá ríkinu.   Hún yrði að reiða sig á eigin fætur í stað þess að mergsjúga ríkið og allan almenning.   Af öllum viðbrögðum þjóna hennar virðist Þjóðkirkjunni er þó alveg sama um þetta því þó að hún þykist vera sjálfstæð og vera ekki "ríkiskirkja" nýtur hún þess að  maka krókinn líkt og áhættufjárfestar á meðan vel árar og seilist í meira en hún á skilið svo lengi sem aðstaðan er fyrir hendi og flestir þegja.  Hún gefur ekki neitt eftir þó að sumir innan hennar viti órétt hennar.  Slíkt er ekki siðaðra manna siður, en líkt og Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra sagði þegar hann var spurður að því hvað væri "kristilegt siðgæði" í Kastljósinu, þá virðist það einkennast helst að því "að vernda Þjóðkirkjuna".

Ólafur Stefánsson handboltakappi og heimspekipælari sagði nokkuð merkilegt í viðtali sínu við Evu Maríu í gærkveldi á RÚV.  Inntak orða hans var að valdafígúrur kæmust upp með slæma hluti á meðan fólk væri upptekið við afþreyingarefni ýmiss konar í stað þess að nýta tíma sinn til að öðlast þekkingu á þjóðfélaginu.  Hann sagðist frekar lesa Laxnes en að tala við hinn heimsfræga Djorkowitz handboltakappa. Þarna virðist mér að Ólafur vera að lýsa sinnuleysingjum þjóðfélagsins gagnvart pólitík og af mínum athugunum sýnist mér að hið sama eigi við um stóran hluta þjóðarinnar gagnvart trúmálum eða lífsskoðunarmálum.  Þjóðkirkjan nýtur þess að hafa alið upp margar kynslóðir Íslendinga (m.a. með valdi sínu á kennsluefni í trúarbragðafræði í skólum) sem hafa nær enga gagnrýna og hlutlæga þekkingu á hugmyndasögunni og tilurð trúarbragða eða þeim áhrifum sem órökræn trúarhugsun getur haft á gjörðir manna.  Fólk veit almennt t.d. ekkert um húmanisma og sáralítið um Upplýsinguna.  Í þessum málum ríkir nær algert naívitet í landinu og fólk lætur mata sig á Trúarjátningunni og Faðir vorinu líkt og heiladauðir svefngenglar, löngu eftir að afsökunin um eðlilega trúgirni í æsku er runnin út. 

Er ekki kominn tími til að stoppa þessum svefngengilshætti á öllum sviðum mannlífsins?  Er ekki kominn tími til að stefna svolítið hærra og um leið mannlegar?  Er ekki kominn tími til að hætta að láta mata okkur af barnalegum hugmyndum í pólitík, efnahagsmálum, heilsufræðum kuklara og aldagamalli hugsanalögreglu í nafni guða frá botni Miðjarðarhafs þar sem mönnum blæðir reglulegar og meira en víðast annars staðar allt frá uppfinningu þessa gerræðislegu stjórnkerfa?  Þjóðin á nú að segja nei takk við þessu og taka upp ábyrga siðferðisstefnu byggða á velvilja, mannvirðingu, ábyrgð, raunsæi og faglegri þekkingu.

 


mbl.is Ungt fólk þingaði um málefni kirkjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nú fara hrægammarnir á flug og hvað er vænlegra til bráðar en veikburða ungviðið? Mér verður illt.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.10.2008 kl. 03:11

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

"Við höfum aldrei verið auðugri", sagði biskup. Hann var væntanlega að vísa til sín og svartstakka sinna. Nú ber vel í veiði hjá mínum. Ekki minnst á aldraða nema þá í framhjáhlaup kannski. Skipta minna máli en kirkjan, enda framlög til öldrunarmála þrisvar sinnum lægri en til kirkjunnar. Nú skal krækt í börnin á meðan kvíðinn fyllir heimilin og fólk er veikt fyrir.   "Nú er auðsældarkreppa en ekki örbirgðarkreppa."

Veit einhver af hvaða plánetu þetta dæmalausa fífl er?

Jón Steinar Ragnarsson, 27.10.2008 kl. 03:18

3 identicon

Ég hef einmitt verið að setja út á þessi mannréttindabrot ríkidæmiskirkjunnar.... þessir skrattar soga til sín þúsundir milljóna.. margir með ~millu á mánuði þvert ofan í það sem biblían segir um peninga.
Hver sá sem skráir sig ekki út úr þessari hræsni og hjátrú er óvnur þjóðarinnar... já ég segi það og skrifa, hver sá sem skráir sig ekki úr þessu rugli er óvinur okkar allra.
Setjum þessa peninga í fólkið, í alvöru lausinir fyrir alvöru vandamál... ekki hjátrúarfullar manneskjur í furðufötum sem tilbiðja ímyndaðan fjöldamorðingja

DoctorE (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 06:45

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já, kirkjan hefur aldrei verið auðugri.  Tveimur öldum eftir kristnitöku var Kirkjan búin að sölsa undir sig þriðjungi landeigna á Íslandi.  Hún situr enn á þeim feita hesti sem hún í skjóli hótana frá Noregskonungum og helvítisótta komst yfir.  Ef að biskup var vísa til siðferðislegra auðæfa þá skjátlast honum.  Kreppan er einmitt afleiðing hömluleysis og peningagræðgi og siðferðisbrestir sums staðar í stórnkerfum landsins eins og í Reykjavíkurborg hafa náð nýjum hæðum þessi árin.  Framlög til öldrunarmála eru þrisvar sinnum lægri en til kirkjunnar segirðu Jón Steinar.   Þetta er sorgleg staðreynd og enn sorglegra að fólkið í landinu kyngir þessum fjáraustri í kirkjuveldið án efasemda. 

Svanur Sigurbjörnsson, 27.10.2008 kl. 12:45

5 identicon

Bara að gefa þér smá innlitskvitt og ég bið Guð að blessa þig, umvefja og leiða sinn veg í öllum kringumstæðum kæri Svanur!!

Þín bloggvinkona Ása.

Ása (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 14:21

6 Smámynd: Sigurður Rósant

Voða eruð þið orðnir orðljótir kæru trú- nei ég meinti vantrúarbræður.

Ég minnist þess er ég var í KÍ fyrir um 38 árum eða svo að haldinn var skyggnilýsingarfundur fyrir húsfylli í einni nýbyggingu skólans. Miðillinn rumdi með sinni draugalegu röddu um að hann sæi eitt og annað úti í sal og fólk fylltist lotningu og undrun. Sumir fengu þarna heimsókn látinna ástvina þeim algjörlega að óvörum. Á meðan báðu Hvítasunnumenn fyrir fundarfólki en stigu aldrei fæti inn fyrir þröskuld dyranna að salnum.

Ég geri ráð fyrir því að biskup sé að gæla við þá hugmynd að  fá að hleypa KFUM og KSS mönnum inn fyrir dyr framhaldsskólanna til að skemmta nemendum á ofangreindan hátt. Hvað er svona slæmt við það kæru -bræður?

Sigurður Rósant, 27.10.2008 kl. 21:29

7 identicon

Hvað eigum við trúlausir eiginlega að gera? Það er ráðist á börnin okkar í hvert skipti sem maður lítur undan. Það er óþolandi að þessi ríkiskirkja sé með fingurna inn í skólum landsins. Eitthvað myndu foreldrar segja ef stjórnmálaflokkar færu að troða pólitískri rétthugsun í sex ára gömul börn. það sama ætti að vera uppi varðandi þetta óþolandi brölt kirkjunnar.  Þetta gengur allt út á það hjá kirkjunni að koma inn velvilja hjá börnunum til framtíðar svo áframhaldandi fjáraustur ríkisins verði ekki stoppað. Þannig geta þeir halað inn jábræður sem í ftramtíðinni munu samþykkja útgjöld í miljarðatali til kirkjunnar. þannig geta þeir haldið áfram að byggja hallir og skipt afgangnum á milli sín sem laun. Ég gæti ælt.

Valsól (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 11:51

8 Smámynd: Óli Jón

Í mínum huga er það skömminni skárra að hin boðandi Ríkiskirkja leiti sér sauða í framhaldsskólum frekar en meðal leik- og grunnskólabarna. Krakkar í framhaldsskólum hafa þó einhverja getu til þess að greina tilboð hennar með gagnrýnum hætti meðal leik- og grunnskólabörnin geta það ekki. Í raun á Ríkiskirkjan þó ekki að herja á fólk undir sjálfræðisaldri með skipulögðum hætti. Það er hreinlega rangt. Ætti reglan ekki að vera sú að kirkjan megi ekki herja á fólk sem fellur undir ramma laga um útivistartíma? Er það ekki sanngjarnt og eðlilegt?

Annars finnst mér alltaf jafn sorglegt, fyrir hönd Ríkiskirkjunnar, að hún telji sig þurfa að sækja stíft í leik- og grunnskólabörnin til að nýliða inn í raðir sínar. Hún virðist algjörlega handviss um að enginn muni leita í faðm hennar af sjálfsdáðum. Það þarf að innræta börnum trúna eftir öllum leiðum því annars sjá þau aldrei ljósið.

Ég hef nokkrum sinnum spurt hvort þetta sé virkilega málið, en aldrei fengið svör. Treystir Ríkiskirkjan ekki á eigin verðleika? Treystir hún ekki eigin aðdráttarafli? Treystir hún ekki eigin stefnuskrá? Svo virðist ekki vera. Stærstu vantrúarseggirnir virðast því vera í röðum forsvarsmanna Ríkiskirkjunnar. Ekki aðeins fær hún forgjöfina með skylduskráningu í trúfélög, heldur krefst hún líka einkaaðgangs að börnum í leik- og grunnskólum. Það er aumt!

Á félag, sem þarf slíkar for- og meðgjafir, sér tilverurétt?

Óli Jón, 28.10.2008 kl. 12:47

9 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir að vekja athygli á þessari frétt, hún hefði annars farið framhjá mér (í flóði frétta af öðrum atburðum  ).

Kristjana Bjarnadóttir, 28.10.2008 kl. 17:24

10 Smámynd: persóna

Þú ert almesta krúttið á blogginu.

persóna, 29.10.2008 kl. 15:36

11 Smámynd: Sigurður Rósant

Sveitarfélög og ríki boða fljótlega niðurskurð til reksturs skólanna. Kennslustundum verður fækkað og vonandi verður kristinfræðin afnumin í sparnaðarskyni.

Sigurður Rósant, 29.10.2008 kl. 19:23

12 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

http://www.youtube.com/watch?v=YjZ-lSn0A3M

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.11.2008 kl. 16:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband