Framboðsgreinar - hluti II: Lýðræði og kosningar
2.3.2009 | 15:47
Eins og í sagði í síðasta bloggi mínu, þá býð ég mig fram í 3-6. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi 12-14. mars. Rétt til að kjósa í prófkjörinu hafa skráðir félagsmenn xS í kjördæminu og svo fólk sem skráir sig á lista stuðningsmanna Samfylkingarinnar á www.samfylkingin.is frá og með 4. mars.
Lýðræði og kosningar
Við búum við fulltrúalýðræði á Íslandi. Nánast engar þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni fara fram þannig að kjörnir þingmenn ráða málum eftir að þeir hafa náð kjöri. Í stóru flokkunum er ákveðið í tiltölulega smáum prófkjörum hverjir fá að fara á þing og þingkosningarnar sjálfar hafa nær ekkert um það síðan að segja, hvernig röð manna er. Útstrikanir á nafni Björns Bjarnasonar í síðustu kosningum höfðu t.d. ekkert að segja og maðurinn var meira að segja gerður að ráðherra eftir þá útreið sem hann fékk í kosningunum. Flokksforystan gaf kjósandanum fingurinn.
Prófkjör geta farið sæmilega fram, en oftar en ekki fara þau herfilega fram. Þeir ríkustu og frekustu smala saman fólki sem þekkir frambjóðandann aðeins af afspurn eða á sameiginlegt póstnúmer með viðkomandi, og massa inn atkvæðum frá fólki sem nýgengið er í flokkinn. Þetta eru ekki upplýstar ákvarðanir sem þarna eru teknar, heldur breytast stjórnmálin þarna í eins konar íþrótt og smölunarlist. Í ljósi þess hversu mikilvægar ákvarðanir eru teknar í prófkjörum og með hliðsjón af þessum alvarlegu vanköntum þeirra er vald þeirra of mikið. Ég er því hlyntur því að ekki séu birtir listar með númerum (þó raðað sé skv. prófkjöri) á kosningaseðlunum, heldur geti kjósandi viðkomandi flokks breytt röðun kjörmanna í kosningunum sjálfum. Einfaldar meirihlutareglur gildi þar, þ.e. ef meira en 50% kjósenda vill einhvern mann niður um sæti (eða upp), gildi það, en ekki útkoma prófkjörs. Í þingkosningum er ekki hægt að smala á sama máta og við prófkjör og því er þetta mun lýðræðislegri máti. Einnig eru frambjóðendur búnir að fá lengri tíma til að kynna sig.
Annað sem ég vil breyta varðandi kosningar er sá þröskuldur framboða sem þarf til að ná manni á þing. Í dag þarf 5% fylgi sem þýðir að ná þarf a.m.k. þremur mönnum inn til að ná einhverjum á þing. Nóg ætti að vera að geta náð einum manni inn því þannig er í raun verið að leyfa visst form af einstaklingsframboði sem svo margir hafa óskað eftir. Vissulega geta stakir þingmenn skapað ákveðin vandamál í myndun ríkisstjórna, en ég tel að það vandamál skipti minna máli en réttur manna til að njóta sannmælis af fylgi sínu.
Þjóðaratkvæði - þau á að gera mögulegri.
Stjórnarkreppa eða umboðskrísa. Til þurfa að vera viðmiðunarreglur um það hvenær ríkisstjórn hafi misst traust og eigi að boða til nýrra kosninga. Það má ekki gerast að stjórnir þaulsitji eins og steinrunnir þursar þegar mikilvægar forsendur kosningar þeirra á alþingi eru brostnar.
Flokkaskipti þingmanna. Skoða þarf af alvöru slík mál. Það er mótsögn í því að þingmaður fari með fylgi sitt í allt annan flokk en kaus hann. Þarna þarf nýjar viðmiðunarreglur og þætti mér ekki óeðlilegt að slíkt sé leyfilegt 4-6 mánuðum fyrir lok kjörtímabils, en ekki fyrr.
Meira síðar. Hvað finnst þér?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Svanur, því miður varst þú ekki á fundinum í Kópavogi í gærkvöldi þar sem var troðfullt hús. Það skiptir öllu máli að vera á þeim fundum sem boðaðir eru en ef ekki er heimangengt er nauðsynlegt að boða forföll.
Mér líst ágætlega á hugmyndir þínar sem þú setur fram hér en í mínum huga áttu nokkuð undir högg að sækja vegna fjarverunnar í gær.
Ingibjörg Hinriksdóttir, 3.3.2009 kl. 11:40
Sæll Haukur
Það er vissulega sú hætta við smáu framboðin sem þú nefnir Haukur, sérstaklega þegar fáir fulltrúar eru kjörnir í heild, líkt og í sveitarstjórnum. Rétturinn til jafnræðis hlýtur þó að vega ansi þungt. Dæmið um Hitler á nú ekki við þar sem í því tilviki kom svo margt annað inní myndina sem skapaði það valdarán sem hann kom í kring á endanum.
Sæl Ingibjörg
Nei því miður komst ég ekki á fundinn í gær vegna vaktar á Slysa- og bráðamóttöku Lsh í Fossvoginum. Reyndar hafði ég ekki góðar upplýsingar um formið þar sem ég hélt að aðeins frambjóðendum frá Kópavogi væri boðið að tala þarna. Ég mun komast á alla aðra framboðsfundi þannig að vonandi bætir það úr þó auðvitað hafi verið slæmt að missa af tækifæri til að tala við fróma Kópavogsbúa.
Svanur Sigurbjörnsson, 3.3.2009 kl. 14:21
Ég er semsagt skráð í Samfylkinguna og hef verið í nokkur ár
Margrét St Hafsteinsdóttir, 3.3.2009 kl. 21:30
Ég vil kjósa fólk en ekki flokka á þingið. Það leysir vandamálið með að þingmenn vilji ekki vera í flokkunum.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 07:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.