Framboðsgreinar: hluti V - yfirlitsgrein áherslumála minna
10.3.2009 | 01:35
Hér að neðan fer yfirlit þeirra mála sem ég stend fyrir í stjórnmálum og baráttu fyrir mannréttindum.
Kæru kjósendur!
Ég heiti Svanur Sigurbjörnsson og er 44 ára læknir sem starfar á heilsugæslustöð Mosfellsbæjar og Slysa- og bráðamóttöku Lsh í Fossvogi. Ég er giftur Soffíu Lárusdóttur, viðskiptafræðingi og á uppkomna dóttur í háskólanámi. Ég hef starfað víða á landsbyggðinni og 7 ár erlendis.
Ég sækist eftir 3.-6. sæti á lista flokksins í SV-kjördæmi.
Stefnumál mín eru flest í samræmi við stefnuskrá Samfylkingarinnar og helstu áhersluatriði mín eru:
· Endurreisa efnahaginn með leikreglum sem gæta jafnvægis í bæði frelsi og taumhaldi, þannig að óvarleg áhættusækni verði ekki verðlaunuð, en frumkvæði fái að njóta sín.
· Nýta alla möguleika til greiðsluaðlögunar og sveigjanleika fyrir heimilin og fyrirtæki sem hafa ekki fyrirgert öllum möguleikum á því að rétta úr kútnum.
· Byggja upp atvinnuvegi sem skaða ekki land eða lungu. Stóriðjustopp takk!
· Fara í aðildarviðræður við ESB. Meta kosti og galla og ganga svo til þjóðaratkvæðagreiðslu.
· Bæta siðferði í stjórnmálum og stjórnsýslu. Þróa og koma í kring þroskaðra lýðræði.
o Minnka vald prófkjara. Röð megi breyta í alþingiskosningum.
o Stjórnlagaþing kjörið á 8 ára fresti til að endurskoða stjórnarskrána. Þjóðaratkvæði.
o Endurskoða ráðherravaldið og starfsreglur ríkisstjórnarinnar leggja af ráðstöfunarfé ráðherra. Takmarka meira ráðningavald ráðherra í dómstóla.
o Afnema 5% kjörþröskuld flokka. Segjum nei við dauðum atkvæðum.
· Mannréttindamál:
o Útrýma launamisrétti og ráðningamisrétti kynjanna.
o Eina hjónabandslöggjöf takk.
o Samræmda löggjöf gegn mismunun. Gera fólki betur kleift að sækja mál.
· Afnám stöðu evangelísk-lútersku kristnu kirkjunnar sem þjóðkirkja.
o Afnema ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni þessu má breyta með lagabreytingu. Forsetinn sé ekki verndari kirkju og Alþingi hefjist ekki í kirkju. Árið er 2009 en ekki 1609!!
o Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga gagnvart ríkinu. Leggja af sérréttindi og fyrirgreiðslur þjóðkirkjunnar (jöfnunarsjóð og laun) ellegar veita öðrum félögum hið sama. Spara má 2-3 milljarða með þessu sem nýta má til heilbrigðis- og menntamála.
o Afnema ýmis bönn í lögum tengd helgidögum þjóðkirkjunnar. Afnema guðlastslög. Afnema aðgang þjóðkirkjunnar að leik- og grunnskólum.
o Viðurkenna veraldleg lífsskoðunarfélög (Siðmennt) og gefa lagaréttindi til jafns við trúfélög. Bæta hlutlausan húsakost til útfara í Fossvogskirkjugarði.
o Leggja af Guðfræðideild HÍ og stofna þess í stað fag í trúarbragðafræðum almennt. Efla hlutlausa trúarbragðafræði og heimspeki í grunnskólum.
· Menntamál. Auka veg kennara og efla kennslu í siðfræði, heimspeki, rökfræði, samskiptum, stjórnmálafræði og hugmyndasögu. Auka úrræði gegn einelti og félagslegri einangrun.
· Heilbrigðismál
o Reka metnaðarfullt heilbrigðiskerfi sem nýtur ákveðins forgangs í fjárlögum.
o Spara með því að ríkið greiði niður valdar lyfjategundir. Bæta fjármálastjórnun svo heilbrigðisstofnanir borgi ekki milljónir í dráttarvexti vegna vanskila við byrgja.
o Stefna að sameiningu bráðamóttöku og bráðadeilda stóru spítalanna, en gera það með varanlegum hætti í nýjum spítala. Milliplön kosta mikið.
o Bæta heimaþjónustu og byggja næg hjúkrunarrými fyrir aldraða. Slíkt sparar mikið og greiðir fyrir þjónustu bráðasjúkrahúsanna.
o Tvo forvarnardaga á ári í formi opinna laugardaga á heilsugæslustöðvum. Byggja upp heilsteyptari áætlun forvarna, t.d. gagnvart ristilkrabba sem verði á leitarstöð, en annað í gegnum heilsugæsluna. Vernda bólusetningakerfið frá áróðri gervivísinda.
o Möguleika á 15 tímum á ári hjá sálfræðingi gegn tilvísun frá heilsugæslulækni. Þetta gæti stuðlað að minni notkun geðlyfja og bættri geðheilsu.
o Bæta tannvernd
· Landbúnaður Minnka miðstýringu. Auka möguleika á milliliðalausri sölu afurða til fólks.
· Sjávarútvegsmál nú er lag til að leiðrétta það misrétti sem felst í kvótakerfinu.
· Unga fólkið Á krepputíma þarf styðja við fjölbreytta menntun, ekki síst verklega. Innganga í ESB stuðlar að þeim stöðuleika sem þarf til að afnema verðtryggingu lána.
Ég stend fyrir vönduðum málflutningi og vinnubrögðum innan flokks sem utan og hafna óhóflegri flokkspólitík því það er sama hvaðan gott kemur.
Ég set málefnin ofar valdabrölti og eiginhagsmunapoti. Ég vil stuðla að aukinni stjórnmálalegri þekkingu og bættri lýðræðisþróun.
Stuðningur við framboð mitt gefur skilaboð um að ofangreind málefni eigi að njóta stuðnings og að mér sé treystandi til að framfylgja þeim á Alþingi. Ég óska eftir því trausti frá þér og stuðningi til að hljóta 3.-6. sætið í prófkjöri SV-kjördæmis Samfylkingarinnar.
Baráttukveðjur
Svanur Sigurbjörnsson
- - -
Prófkjörið er haldið 12.-14. mars með netkosningu eða með kosningu á kjörstöðum 14. mars í Hafnarfirði, Kópavogi eða Mosfellsbæ. Það er opið félagsmönnum og skráðum stuðningsmönnum Samfylkingarinnar, sem þurfa ekki að ganga í flokkinn við það tækifæri. Hægt er að skrá sig á www.samfylkingin.is á þar til gerðu formi í síðasta lagi 10. mars. Skráðir félagar og stuðningsmenn fá úthlutað lykilorði í gegnum heimabanka. Nánari leiðbeiningar eru á samfylkingin.is
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:39 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir þetta Svanur. Við deilum mörgum skoðunum t.d. í jafnréttismálum auk þess sem ég er sammála því að þjóðaratkvæðagreiðsla varðandi ESB er eina raunhæfa lausnin þó svo að ég hafi enga ákvörðun tekið fyrir mig hvort ráðlegt sé að ganga í sambandið eða ekki. Ég tel einfaldlega réttast að þjóðin eigi þar lokaorðið. Einnig fagna ég baráttu þinni fyrir unga fólkið okkar.
Hilmar Gunnlaugsson, 10.3.2009 kl. 02:47
Takk sömuleiðis Hilmar. Sammála þér um ESB. Já, maður má aldrei gleyma því hvernig það er að vera í kringum tvítugt og þurfa að lifa af námslánum eða vera í basli við að koma sér upp heimili. Það þarf að vera hægt að gera ungu fólki kleift að spara og kaupa svo íbúð án þess að eiga það á hættu að tvennan verðbólga og verðtrygging geri eignamyndun þeirra að engu.
Svanur Sigurbjörnsson, 10.3.2009 kl. 09:03
"Möguleika á 15 tímum á ári hjá sálfræðingi gegn tilvísun frá heilsugæslulækni."
Af hverju heilsugæslulækni?
Júlíus Valsson, 10.3.2009 kl. 09:37
Sæll Júlíus. Samkvæmt núverandi kerfi gæti það alveg eins verið sérfræðilæknir. Ég nefndi heilsugæslulækni því þeir þekkja oftast fólkið best út frá öllum hliðum og hafa alla heilsufarssögu þess hjá sér. Stundum er þessu öfugt farið hjá fólki sem sér nær eingöngu sérfræðinga.
Ég hef ákveðna skoðun á verkskiptingu lækna og fjárhagslegt hagræði sem þannig getur orðið, sem ég get skýrt út síðar.
Svanur Sigurbjörnsson, 10.3.2009 kl. 09:47
"Ég hef ákveðna skoðun á verkskiptingu lækna og fjárhagslegt hagræði sem þannig getur orðið, sem ég get skýrt út síðar."
Betra að útskýra það strax
Júlíus Valsson, 10.3.2009 kl. 10:04
Sérfræðiþjónusta er talsvert dýrari en þjónusta heilsugæslulækna og er það rétt því bæði er menntun undirgreinasérfræðinga meiri í þeirra sérfagi og ábyrgðin stundum meiri þar sem þeir þurfa að eiga lokaorðið í ýmsum erfiðum greiningum og meðferðum.
Það er nokkuð um það að fólk sé alfarið hjá sérfræðingi í meðferð sem heilsugæslulæknir eða almennur lyflæknir gæti séð um alfarið eða í samvinnu við sérfræðingi. Þetta er kostnaðarsamt fyrir heilbrigðiskerfið og kemur niður á annarri þjónustu á endanum.
Ég vil því kerfi sem ég vil kalla verkskiptingakerfi, sem virkar á þann máta að TR gefi út ákveðnar línur í samráði við sérfræðinga um það hvernig verkskiptingu almennra og sérhæfðra lækna skuli hagað. Það þurfi ekki endilega tilvísun til sérfræðings en viðkomandi sérfræðingur eigi að sýna fram á að hann sé að vinna með sérhæfð eða erfið vandamál á hans sviði hjá sjúklingum sínum. Þannig þurfi ekki manneskja með 3-4°hjartabilun og óstöðugan kransæðasjúkdóm ekki sérstaka tilvísun en aftur hraust manneskja með 1°háþrýsting geti ekki sótt meðferð hjá t.d. hjartasérfræðingi nema að greiða fyrir það fullt gjald. Ég vil setja í þetta skynsamlegri línur en eru í dag og nýta krafta almennra lyflækna á heilsugæslustöðum eða á stofum fyrir fullorðna sem hluta af "primary care" í ódýrara kerfi en hjá undirgreinasérfræðingum.
Lang flestir sérfræðilæknar gæta hófs í þessum efnum en ég held að það megi stokka þetta talsvert betur upp og nýta betur almenna kerfið.
Hvað segirðu um þetta Júlíus?
Svanur Sigurbjörnsson, 10.3.2009 kl. 10:48
Sæll Svanur! Það sem þú ræðir hér með heilsugæslulækna og sérfræðinga, er í raun það sem ég var að tala um í verkskiptingu hjfr. og sjúkraliða. Við eigum að velja mátulega hæft fólk til að gera verkið. Það er óhagkvæmt fjárhagslega og skilar sér ekki endilega sem aukin gæði þegar maður notar of hæft starfsfólk.
Ásta Kristín Norrman, 10.3.2009 kl. 12:10
Oft eru vissar stéttir í betri aðstöðu til að passa uppá sitt. Ég veit ekki hvernig það er meðal heilsugæslulækna og sérfræðinga, en ég veit að Hjúkrunarfélagið sleppir ekki svo auðveldlega hendinni af ýmsum verkefnum sem sjúkraliðar ættu að "eiga" og þarf þess vegna að stýra þessu.
Ásta Kristín Norrman, 10.3.2009 kl. 12:13
Hvað varðar sálfræðiþjónustuna, er ég alveg sammála þér. Ég mundi bara líka vilja auka þá þjónustu á sjúkrahúsunum. Sjúklingar, aðstandendur og starfsfólk getur fengið viðtal við prest þegar veruleikinn er of erfiður innan sjúkrahúsins. Mér finnst allt í lagi að hafa þá þjónustu áfram, en finnst að trúfélögin eigi að kosta og skipuleggja þá þjónustu sem þau vilja hafa. Aftur á móti finnst mér mikilvægt að sjúkrahúsin veiti aðstoð í þessum tilfellum, en sé þá meira fagleg en er í dag þegar prestar veita þessa þjónustu.
Ásta Kristín Norrman, 10.3.2009 kl. 12:16
Sæl Ásta
Já, akkúrat. Þetta snýst um að ekki sé verið að greiða dýrustu starfskröftunum fyrir störf sem þeir sem hafa minni sérhæfingu geta gert alveg jafn vel og með sama öryggi. Þannig næst mun betri nýting.
Gott dæmi um þetta er það hraðafgreiðslukerfi sem tekið var upp á Slysamóttöku Lsh í Fossvogi í fyrra. Þar starfa læknir, hjúkrunarfræðingur, ritari og starfsmaður í teymi við að afgreiða allt það sem einfaldara er og hægt að ljúka innan nokkurra mínútna eða einnar klukkustundar. Allir gegna því hlutverki sem þeir eru bestir í og nýtast best í og þannig meiri afköst.
Svanur Sigurbjörnsson, 10.3.2009 kl. 13:48
Gangi þér vel Svanur.
Baráttukveðjur að vestan.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.3.2009 kl. 14:04
Sæl Ólína
Kærar þakkir og til hamingju með góða kosningu í NV-kjördæmi!
Svanur Sigurbjörnsson, 10.3.2009 kl. 16:22
Tek undir flest, nema að leggja niður guðfræðideildina, mætti frekar útvíkka hana og sama ætti að gera við læknadeildina, útvíkka þá deild þar sem allar lækningar væru kenndar jafnt, hefðbundnar sem óhefðbundnar; höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun, Bowen tækni, heilun, nálastungur, hómópatía o.s.frv...
Reyndar væri líklegast best að sameina guðfræði-og læknadeild í kraftaverkadeild!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.3.2009 kl. 17:36
"Já, akkúrat. Þetta snýst um að ekki sé verið að greiða dýrustu starfskröftunum fyrir störf sem þeir sem hafa minni sérhæfingu geta gert alveg jafn vel og með sama öryggi. Þannig næst mun betri nýting."
Þar hitturðu naglann á höfuðið enn sem áður Svanur minn. Þetta er breyting sem þarf að verða bæði til að efla þjónustu og til að spara fjármuni.
Hilmar Gunnlaugsson, 10.3.2009 kl. 17:51
Ég er skeptískur á tillögu þína um að leggja guðfræðideildina niður. Frekar vildi ég sjá guðfræði-og trúarbragðadeild sem legði áherslu á kristni vegna menningarsvæðis okkar, þó án þess að nemendum yrðu kenndur messusöngur og annað slíkt í kapellunni í aðalbyggingu Háskólans, sem er augljós tímaskekkja. Sú deild ætti að vera mun hlutlausari en núverandi kennslufyrirkomulag gefur til kynna. Þjóðkirkjan ætti að undirbúa prestefni sín sjálf.
Kristján Hrannar Pálsson, 11.3.2009 kl. 17:07
Sæl Jóhanna
Ekki gæti ég samþykkt að setja almannafé í kennslu á kukli en greinar eins og hómeopatía og höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun er ekkert annað en það. Þetta eru greinar byggðar á óskhyggju og fantasíu um að hægt sé að gera hitt og þetta án þessa að færa sönnur á virknina. Þetta eru nýju fötin keisarans og slíkt myndi ég aldrei kaupa fyrir þjóðina eða kenna. Fólki er frjálst að eyða tíma sínum í þetta í sínum einkatíma og einkaskólum.
Sæll Kristján Hrannar
Það á ekkert að leggja áherslu á kristni í HÍ þó að kristni sé algeng hér. Þegar fólk er komið í háskóla velur það sjálft sitt nám og ef að það fer í trúarbragðafræði lærir það væntanlega um öll trúarbrögð. Það getur svo tekið sérgrein í kristni eða einhverju öðru, t.d. með meistaranámi eða doktorsnámi. Annars er ég sammála hugmynd þinni og held að við séum að tala um sama hlutinnn með bara aðeins öðrum nöfnum. ;-)
Svanur Sigurbjörnsson, 11.3.2009 kl. 19:21
Ég held ég sé sammála þér í öllum málum og líkar áherslur þínar. Þú færð mitt atkvæði í prófkjörinu. Vonandi gengur þér vel.
Ibba Sig., 12.3.2009 kl. 09:27
Sæl Ibba
Kærar þakkir fyrir stuðningsyfirlýsinguna. Gott að hafa góðar konur með sér í liði þessara málefna. Bryndís Scram sagðist styðja mig eftir að hún las stefnumálin mín. Nú er prófkjörið byrjað og smá fiðringur í maganum er yfir því hvernig fer. ;-)
Kær kveðja - Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 12.3.2009 kl. 09:32
Sammála þér með guðfræðideildina. Og í raun er óþarfi að breyta henni í Trúarbragðadeild, frekar mætti færa þann hluti inn í aðrar deildir eins og t.d. mannfræði, með möguleika á námskeiðum í öðrum deildum, t.d. heimspeki, sagnfræði og sálfræði, jafnvel stjórnmálafræði (enda trúarbrögð hápólitísk fyrirbæri, eins og dæmin sanna)
Guðmundur (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 11:12
Sæll Svanur og takk fyrir svarið. Ég er nú ekki viss um að fólk sem hefur lært þessar lækningaaðferðir sem þú kallar "kukl" og þeir sem hafa notið góðs af þeim lækningum taki undir skoðun þína á þessu. Það er alltaf erfitt að sanna lækningar sem tengjast andlegri líðan. Minni á að sálfræði er kennd á háskólastigi.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 12.3.2009 kl. 18:10
Takk sömuleiðis Jóhanna
Það kann að virðast hart að kalla þessar aðferðir kukl, en eftir vel athugað mál komst ég að þeirri niðurstöðu. Það er einfaldlega þannig að sumt það sem manneskjan finnur uppá er tóm blekking. Heilu þjóðirnar hafa verið blekktar og þurft að blæða fyrir það í stórum straumum.
Sálfræði sem klínísk grein er allt annar handleggur en bull eins og handayfirlagningar, reiki, lithimnulestur, spald og höfuðbeinabull, logandi kerti í eyrað, Bowen tækni, applied kinesiology o.s.frv. Það er löngu búið að yfirgefa Freudíska ruglið og taka skipulega og vísindalega á fræðum hugans. Hugræn atferlismeðferð klínískra sálfræðinga byggir á raunverulegum viðbrögðum heilans við hinum og þessum aðstæðum, sem orsaka kvíða og vanlíðan. Ég vil einmitt að ríkið greiði niður 15 tíma á ári hjá sálfræðingi gegn tilvísun frá læknir. Það er jafn nauðsynlegt og að fá 15 tíma hjá sjúkraþjálfara fyrir þá sem eiga við viss hugarmein.
Kukl getur fært vellíðan eða tímabundinn létti á alls kyns kvillum því að trúi maður að eitthvað hafi gerst sem skilaði lækningu, er líklegt að manni líði eitthvað betur. Þú nærð þessum árangri ekki með sjúkdóma eins og botnlangabólgu eða nýrnasteina, því lyfleysur hafa lítið að segja við verulegum verkjum. Kuklarar eru oft hlýjar manneskjur og það veitir vellíðan. Hins vegar er sárt að missa mörg þúsund krónur úr veskinu fyrir nýju fötin keisarans. Dæmi eru um að seldir séu "lækningaseglar" fyrir hátt í 20 þúsund krónur og kuklarar greina "ofnæmi" fyrir 6 þúsund. Þeir vita ekki einu sinni hvað ofnæmi er. Nei takk - aldrei kukl fyrir almannafé!
Svanur Sigurbjörnsson, 14.3.2009 kl. 03:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.