Skref í rétta átt!
12.3.2009 | 10:07
Það var ekki fyrr en árið 2006 að ég áttaði mig á því að sú hefð að skrá ómálga börn í trúfélög er fásinna og brot á rétti þeirra til að vera ekki stimpluð af skoðunum foreldra þeirra. Engum dettur í hug að skrá börn í stjórnmálaflokka eða kalla þau eftir þeim, t.d. sjálfstæðisbarn eða samfylkingarbarn. Ég hafði ekki hugsað út í þessa hluti og það var heimildamynd Richard Dawkins um trúarbrögð sem vakti athygli mína á þessari stimplun barna.
Börn eiga að hafa frelsi til að móta sínar eigin skoðanir og þurfa ekki að mæta þrýstingi til að skrá sig í félög sem lúta að flóknum hugmyndakerfum eins og lífsskoðunarfélög (trúarleg eða veraldleg) eða stjórnmálafélög innihalda. Hjá Siðmennt er ekki tekið við skráningum í félagið fyrr en við 16 ára aldur. Ungmenni í borgaralegri fermingu þurfa því ekki að ganga í félagið og þurfa ekki að játa neina lífsskoðun umfram aðra. Það er til mikils ætlast af 13-14 ára ungmenni að játast trúarleiðtoga en í kristinni fermingu er tekið af þeim heitið: "Vilt þú leitast við að að gera Jésu Krist að leiðtoga lífs þíns?" Þetta eru stór orð og óeðlileg að mínu mati. Hvers vegna ætti nokkur manneskja að gera einhverja eina aðra manneskju að "leiðtoga lífs síns" og bugta sig fyrir fulltrúa hans? Í kringum siðaskiptin um miðja 16. öld var til kristin deild manna sem lét ekki skírast fyrr en á fullorðinsaldri. Þetta voru svokallaðir anababtistar. Þetta hugnaðist ekki kaþólsku kirkjunni og var þessu fólki því útrýmt í Evrópu með fjöldamorðum. Lúther skrifaði þeim til varnar í byrjun, en gerði ekkert meir.
Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra ætlar að láta velferð barnsins ráða í þessu máli. Ég vona að svo verði og að hún geri sér ljóst að ríkið á ekki að taka þátt í því að skrá börn í trúfélög og að sú sjálfkrafa skráning í trúfélag móður sem nú á sér einnig stað er einnig brot á rétti foreldrisins til að taka meðvitaða ákvörðun um það hvort að það vill skrá barnið eða ekki.
Endurskoða sjálfkrafa skráningu í trúfélög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er ótrúlegt árið 2009. Þegar ég átti minn fyrsta dreng árið 1967, og ætlaði ekki að skýra hann, var hann skráður óskírður í Þjóðskránni þrátt fyrir að ég hefði gefið honum nafn. Nei hann fengi ekki nafnið skráð þar fyrr en það kæmi frá prestinum. Svona höfum við þó smáþokast í rétta átt, en betur má ef duga skal.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.3.2009 kl. 10:53
18 ára aldurstakmark á trúfélagsskráningar er það sem þarf að gera.
Krakkar hafa ekki þroska til þess að skrá sig í svona... verða forrituð ..
Ég er mjög glaður þessa dagana, kristni er á hröðu undanhaldi á flestum stöðum.. nema vanþróuðum löndum, það þarf að stoppa trúarnötta af í að forrita fólk í þeim löndum
DoctorE (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 12:59
Börn eiga að hafa frelsi til að móta sínar eigin skoðanir .... og vera laus undan íþyngjandi áhrifum og skoðunum - og ekki minnst lífskoðunum foreldra sinna! Hafið þið heyrt hann betri??
Guðmundur Pálsson, 12.3.2009 kl. 13:02
Guðmundur, þú ert að klína út mál mitt og setur ekki skil á milli þess sem ég skrifa og þú. Ég talaði ekki um "íþyngjandi áhrif eða skoðanir" eða restina af því sem þú skrifar. Það er sitt hvor hluturinn að fræða barn um skoðanir sínar sem foreldri og aftur að skrá það síðan í trúfélag og kalla það kristið eða annað í þeim dúr.
Svanur Sigurbjörnsson, 12.3.2009 kl. 13:12
Ekki þvinga ég mínum skoðunum ofan í mín börn, ég kenni þeim að hafa gagnrýna hugsun.. QUESTION EVERYTHING.
Ég hef sama og ekkert talað um trúmál við þau.. í dag eru drengirnir 12/17 ára, þeir trúa ekki á galdra eða galdrakarla.
Foreldri sem matar börn á brjáluðum guðum sem hata og myrða, kenna börnum sínum að trúa á hluti sem engar sannanir eru fyrir, hafa brugðist hlutverki sínu sem foreldrar.
DoctorE (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 13:18
Ég fagna þessari endurskoðun og tel hana styrkja trúfrelsi.
Hilmar Gunnlaugsson, 12.3.2009 kl. 15:33
Það er auðvitað grátlegt að þú skulir leggja það að jöfnu að vera skráður í stjórnmálaflokk og að vera skráður í trúfélag, mig grunar að það segi meira um þig heldur en nokkuð annað.
Magnús V. Skúlason, 12.3.2009 kl. 16:26
Magnús minn.. trúarbrögð eru pólitík, "formaðurinn" er ósýnilegur.. reyndar er hann ekki til, en hann má ekki gagnrýna, eða öllu heldur má ekki gagnrýna flokkinnn og sjálfskipaða umboðsmenn hans.
Að þú vitir þetta ekki segir miklu meira um þig en þú heldur.
DoctorE (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 17:21
Magnús: Svo það er eðlilegt að segja barn kristið eða Múslima en ekki að kalla það Marxista? Útskýrðu.
Páll Jónsson, 12.3.2009 kl. 17:46
Magnús, gætirðu útskýrt hvers vegna það er grátlegt að líkja þessu saman?
Hjalti Rúnar Ómarsson, 12.3.2009 kl. 21:33
Auðvitað er það ekki það sama að vera skráður í lífsskoðunarfélag (trúarlegt eða veraldlegt) eða stjórnmálaflokk, en það er nógu líkt til þess að ég telji að börn eigi ekki að vera skráð í þau. Hvað er líkt? Ég skal svara því þó að spurningunni hafi verið beint til Magnúsar v.
Lífsskoðunarfélög, hvort sem að þau eru trúarleg eða veraldleg, eru flókin fyrirbæri og hafa áhrif á fólk. Þau eru boðandi og það getur haft talsverð áhrif á líf fólks hvaða lífsskoðunarfélag það velur til að fylgja. Það er einnig mikilvægt að gleyma því ekki að rétt eins og fólki er heimilt að standa utan stjórnmálaflokka er því einnig heimilt að standa utan lífsskoðunarfélaga. Fólk hefur sínar lífsskoðanir þó að það sé ekki í félagi og það á að vera grunskipanin, þ.e. að einstaklingurinn (sér í lagi barnið) á að vera frjálst af því að vera í lífsskoðunarfélagi og ekki skráð í slíkt félag af öðrum. Skráning í lífsskoðunarfélög og stjórnmálaflokka á að vera byggð á sjálfstæðri, upplýstri ákvörðun einstaklings sem hefur náð því að teljast fullorðinn. Sá aldur er oftast talinn vera á bilinu 16-18 ára, og tel ég að ekki megi fara neðar en 16 ára.
Svanur Sigurbjörnsson, 13.3.2009 kl. 11:35
Mjög góð rök Svanur.
Ég skil ekki hvað Magnús er að tala um að það sé "grátlegt" að líkja trúarbrögðum við stjórnmálaflokka. Trúarbrögð hafa ákveðnar skoðanir, og með því að skrá barnið í það (t.d. ef þú skráir barnið í trú sem trúir á biblíuna) þá ertu á vissan hátt að segja að barnið þitt telji konur á blæðingum óhreinar og að maður sem liggi hjá öðrum manni viðurstyggð. Ég hef aldrei séð 2 ára barn tala með hatri.
Getur einhver svarað mér hvað í ósköpunum er að því að leyfa barninu að velja þegar það hefur aldur til (eins og með margar aðrar stórar ákvarðanir; kosningar, reykingar, giftingu)?
Baldur Blöndal (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 20:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.