Mannréttindi í öndvegi!

Enn á fjöldi skráðra kjósenda hjá Samfylkingunni í SV-kjördæmi eftir að skila inn sínu atkvæði í prófkjörið.  Í dag 14. mars er síðasti dagur kosningarinnar og fyrir þá sem eru að skoða fyrir hvað frambjóðendurnir standa þá vil ég kynna fyrir hvað ég stend.  Eftirfarandi eru mín áhersluatriði og eru manréttindi höfð í öndvegi.

Hið Nýja Ísland á að byggjast á endurreisn siðferðisins á öllum sviðum þjóðfélagsins og sérstök áhersla verði lögð á kennslu siðfræði og heimspeki í skólum landsins.   Þetta var megin niðurstaða opins vinnufundar á vegum Háskóla Íslands í febrúar þar sem saman voru komnir fulltrúar fjölmargra frjálsra félagasamtaka og fræðimenn úr háskólanum.  Ég vil að þetta verði að veruleika og legg að auki til að:    

Byrja á því að bæta siðferði í stjórnmálum og stjórnsýslu.  Þróa og koma í kring þroskaðra lýðræði.  Tryggja meiri valddreifingu.

  • Minnka vald prófkjara.  Röð megi breyta í alþingiskosningum. 
  • Stjórnlagaþing kjörið á 8 ára fresti til að endurskoða stjórnarskrána.  Þjóðaratkvæði. 
  • Endurskoða ráðherravaldið og starfsreglur ríkisstjórnarinnar – leggja af „ráðstöfunarfé ráðherra“.  Takmarka meira ráðningavald ráðherra í dómstóla.
  • Afnema 5% kjörþröskuld flokka.  Segjum nei við dauðum atkvæðum.
Mannréttindi snúast um að gefa öllum jöfn tækifæri og þegar misrétti er leiðrétt veldur það oft þeim sem nýtur forréttinda, óþægindum vegna minnkaðra fjárhagslegra gæða, áhrifa og valda.  Þetta fólk vill gjarnan ekki missa ofurlaunin sín eða skinhelgi sína og mun koma með óvægna gagnrýni á þá sem óska eftir jafnrétti.  Þetta þekki ég af eigin reynslu og er tilbúinn í baráttuna.Við höfum náð langt í land með sumt, en enn vantar að:

Útrýma launamisrétti og ráðningamisrétti kynjanna.

Sameina öll ástarsambönd í eina hjónabandslöggjöf.  

Í öðru höfum við vart byrjað að vinna í og löngu kominn tími til að sýna kjark með því að:
  •  Afnema stöðu evangelísk-lútersku kristnu kirkjunnar sem þjóðkirkja.   Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga gagnvart ríkinu.  
  • Leggja af sérréttindi og fyrirgreiðslur þjóðkirkjunnar (jöfnunarsjóð og laun) ellegar veita öðrum félögum hið sama.  Afnema opinbera skráningu barna í trúfélög.  Spara má 2-3 milljarða með þessu sem nýta má til heilbrigðis- og menntamála. 
  • Viðurkenna veraldleg lífsskoðunarfélög (Siðmennt) og gefa lagaréttindi til jafns við trúfélög.  Bæta hlutlausan húsakost til útfara í Fossvogskirkjugarði.  
  • Afnema ýmis bönn í lögum tengd helgidögum þjóðkirkjunnar.  Afnema guðlastslög. 
  • Afnema einkaaðgang þjóðkirkjunnar að leik- og grunnskólum.  Samkvæmt grunnskólalögum eru skólar ekki trúboðsstofnanir.  Banna dreifingu trúarrita í skólum.
  • Afnema einkaaðgang þjóðkirkjunnar að alþingismönnum við setningu Alþingis og að þjóðinni með reglubundnum messum í ríkisútvarpi og sjónvarpinu á tyllidögum. 
  • Færa aðalnámskrá í Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði í hlutlægt form þannig að í henni sé ekki þær stórkostlegu ýkjur fyrir mikilvægi kristninnar á kostnað annarra lífsskoðana eins og nú er þar ritað.

Eftirfarandi verður heldur ekki of oft kveðið:

  • Færa auðlindir sjávarins aftur í fang þjóðarinnar.  Afnema kvótakerfið.       
  • Samræma löggjöf gegn mismunun og auðvelda einstaklingum að sækja mál.     
  • ESB aðildarviðræður – mannréttindalöggjöf ESB er til fyrirmyndar og langtum fremri okkar.
  • Uppbygging fjölbreytts atvinnulífs án þess að skaða landið – ekki fleiri álver!
Ég vil vera kyndilberi ofangreindra mála á Alþingi til aukins jafnréttis á Íslandi.  Siðaðra og betur upplýst þjóðfélag í samfélagi vinaþjóða er ein farsælasta leiðin til meiri hamingju okkar allra.

Ég óska eftir stuðningi skráðra kjósenda í  3.-6. sæti á lista Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi.   

---

PS:  Skráðir félagar í Samfylkinguna sem búa í SV-kjördæmi geta vitjað lykilorðs í heimabankanum sínum undir "Rafræn skjöl".  Sé ekki til staðar skjal með lykilorðinu þar má heimsækja síðunu www.vefprofkjor.is, velja kjördæmi og slá inn kennitöluna sína.  Þar er hægt að velja "endursenda lykilorð" og vitja þess á ný í heimabankanum.  Það ætti ekki að taka nema 2-3 mínútur.  Látum atkvæðin tala og veljum gott fólk til forystu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TARA

Allt er þetta ósköp gott og sennilega það sem flestir vilja...en það hefur alltaf orðið minna um framkvæmdir og efndir þegar á hólminn er komið.

Af hverju ætti fólk að trúa þessu núna ? Annars veit ég um nokkra sem voru að kjósa þig Svanur og ertu áreiðanlegavel að þeim atkvæðum kominn.

TARA, 14.3.2009 kl. 16:16

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Tara

Þú kemur réttilega inná hlut sem á líklega stóran þátt í því að trausts fólks á Alþingi og alþingismönnum er takmarkað.  Það er þetta með efndirnar.  Fallegar málefnaskrár sem verður lítið úr.  Ég held að það sé ýmislegt sem geti orsakað þetta. 

  • Þingmaður sem heldur ekki baráttuþreki fyrir mikilvægum málum og sveiflast eftir því sem er vinsælast og háværast hverju sinni.
  • Ólýðræðisleg vinnubrögð í ríkissjórn og á Alþingi.  Hinn almenni þingmaður er bara peð.
    • Ráðherrar ráða því hvaða frumvörp fá brautargengi.  Þetta hefur valdið því að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hefur mátt telja þau þingmannamál sem hafa fengið að ná til atkvæðagreiðslu innan þingsins á fingrum annarar handar á hverju kjörtímabili og alls engin frá stjórnarandstöðu. 
    • Nefndavald.  Allherjarnefnd og alls kyns nefndir undir ráðuneytunum taka mál fyrir og sitja á þeim í marga mánuði.  Þetta getur verið kostur þegar vanda þarf mál og ná fram ólíkum sjónarmiðum en getur líka bara tafið fyrir og svæft mikilvæg mál.
  • Stjórnarsamstarf.  Sum mál ná aldrei fram vegna andstöðu einhvers flokks í stjórnarsamstarfi.  T.d. fyrirheit um aðildarviðræður við ESB gætu þannig kafnað ef stærri flokkurinn í ríkisstjórn vill ekki hefja þær.

Ég set ekki fram mín stefnumál sem loforð heldur sem baráttumál.  Þegar ég tala um að það þurfi að leyfa niðurgreiðslu á 15 tímum til sálfræðings á ári gegn tilvísun læknis, þá er ég að segja að ég vilji setja slíkt í forgang og gera mitt besta til að fá fram hagræðingu í ríkisfjármálunum svo það líti dagsins ljós.  

Hvort að þú eða aðrir vilji trúa því að þetta sé minn einlægur vilji og ásetningur verður bara að koma í ljós.  Það er ekki sjálfgefið og ég þarf að sýna og sanna að ég sé sá baráttumaður að atkvæðinu sé vel í mig varið.  Ég er nýr í framboði og mér finnst eðlilegt að kjósendur taki sinn tíma til að kynnast mér og vega mig og meta.  Baráttan nú fyrir þessum málum er bara eitt skref af mörgum og það er samstarfið sem er mikilvægast. 

Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 14.3.2009 kl. 16:41

3 Smámynd: TARA

Sæll Svanur og takk fyrir svarið...það hefur sést á öllum þínum skrifum að þú ert samkvæmur sjálfum þér og stefnumál þín góð og gild og ég virði þau. Ég skil auðvitað að þú getur ekki lofað neinu sem einn maður, allt verður þetta að vera samþykkt af heildinni í flokknum.

Og ég er nokkuð viss um að þú skiptir ekki um skoðun eftir því hvað er vinsælt eða óvinsælt. En ég styð þig í því að hafa þessi mál sem forgangsmál og bestu baráttukveðjur. Og satt að segja hef ég alltaf haft mikla trú á Samfylkingunni

TARA, 14.3.2009 kl. 17:10

4 Smámynd: Róbert Björnsson

Enn og aftur segi ég að ég vildi að ég hefði getað kosið þig - er frekar ósáttur með úrslitin úr prófkjöri Samfylkingarinnar í mínu kjördæmi en ég vona að þú náir settum markmiðum í Kraganum.  

Það er leiðinlegt að sjá að víða eru þekktustu andlitin og þau sem hafa verið lengi í flokkastarfinu virðast allsstaðar ná topp-sætunum.  Endurnýjunin er alls ekki nógu mikil.

Róbert Björnsson, 14.3.2009 kl. 21:21

5 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Mannréttindi eru einmitt mikilvægasta málið og fagnaðarefni að reynt verði að bæta þar úr t.d. með að tryggja sama rétt samkynhneigðra til hjónabands og útrýma launamisrétti en einnig með að jafna launamun fólks. Góður pistill!

Hilmar Gunnlaugsson, 14.3.2009 kl. 21:45

6 Smámynd: TARA

Sameina öll ástarsambönd í eina hjónabandslöggjöf.  

Ég staldraði nokkra stund við þessa setningu. Þú ert væntanlega að tala um að samkynhneygðir fái kirkjuvígslu alveg eins og allir aðir sem eiga að teljast jafnir fyrir manna og guðs lögum, en eru það ekki.

Fyrir það skal ég flytja í Kópavog og kjósa þig það sem eftir er ævinnar. Mér finnst það nefnilega mjög brýnt að allir verði jafnir, því erum við ekki öll börn guðs og sköpuð í hans mynd ? S

vo var mér að minnsta kosti sagt þegar ég var að alast upp. Það hefur þó breyst eitthvað í áranna rás.

TARA, 14.3.2009 kl. 22:01

7 Smámynd: Sigurður Rósant

Ja, eða bara sameina öll ástarsambönd í eitt allsherjar hjónaband?

Sigurður Rósant, 14.3.2009 kl. 23:11

8 Smámynd: TARA

LOL  ROTFL 





TARA, 14.3.2009 kl. 23:19

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hæ Tara, Róbert og Hilmar 

Takk fyrir stuðninginn.

Í dag hafa samkynhneigðir  í staðfestri samvist sömu stöðu og gagnkynhneigðir í hjónabandi hvað lagaleg réttindi varðar, en með því að hafa sitt hvora löggjöfina og kalla hjónaband samkynhneigðra eitthvað annað en hjónaband er í raun verið að mismuna þeim félagslega.  Þetta er ekki mjög fjarri því sem gert var við svarta í USA fyrir byltingu þeirra með Martin Luther King jr í fararbroddi, en þá voru svartir sagðir vera "jafnir en aðskildir" hvítum.  Þessi aðskilnaður varð síðan í raun til þess að svartir urðu aldrei jafnir hvítum og voru útskúfaðir hvarvetna.  Það að kalla hjónaband samkynhneigðra eitthvað annað en hjónaband er ekkert annað en útskúfun og tilraun til að setja eina tegund sambands á stall ofar hinni.  Orðasambandið "staðfest samvist" er álíka orðskrípi eins og að nota orðin "samlífi til reynslu" yfir par. 

Hæ Siggi - ástin lengi lifi!  en, vonandi ekki með okkur öll í einni kássu.

Svanur Sigurbjörnsson, 15.3.2009 kl. 01:27

10 Smámynd: TARA

Tek undir þetta með þér Svanur. Ég er mjög mikið á móti svona orðskrúði sem ætlað er að fela lélegt og löngu úrelt sjónarmið okkar ágætu kirkju. Það eiga allir að geta gift sig eins og þeir kjósa.

TARA, 15.3.2009 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband