Styðjum baráttumál Helga Hóseassonar!

Nú er hinn aldni baráttumaður og hugsjónamaður Helgi Hóseasson allur.  Í lifanda lífi fékk hann blendnar móttökur og þótti undarlegur.  Nú vill fjöldi fólks reisa honum minnisvarða.  Hvers vegna?

Ég held að flestir vilji heiðra minningu manns sem gafst ekki upp og mótmælti allt til enda því ranglæti sem hann taldi sig hafa verið beittan.  Fjöldi fólks dáðist að baráttuþreki hans, burt séð frá því hvort að það væri sammála málstað hans eða ekki.  Helgi fékk síðan aukna athygli og fólk skyldi betur manninn eftir að um hann var gerð heimildamyndin "Mótmælandi Íslands".  Hann varð einhvers konar lifandi goðsögn hins ódrepandi mótmælanda, en sökum þess að hann var einfari og var sérlundaður var hann aldrei opinberlega viðurkenndur né fékk hann opinbera lausn á sínum umkvörtunum.

En var eitthvað vit í baráttumálum hans? 

Eitt helsta baráttumál Helga var að fá skírnarsáttmála sínum rift af yfirvöldum eða Þjóðkirkjunni, því að hann taldi sig "svotil blautur úr móður minni" hafa verið beittur órétti með því að vera skírður.  Hann tók skírnina alvarlega, nokkuð sem fólk mætti gera áður en það ákveður að viðhafa slíka athöfn, því að í henni felst innganga í kristinn söfnuð og sáttmáli við Guð.  Helgi var trúlaus og vildi ekki vera bundinn þessum sáttmála, sem hann hafði ekki haft tækifæri til að ákveða nokkuð um.  Hann bað því yfirvöld um að fá skírnarsáttmálanum rift. 

Ólafur Arnarson hagfræðingur skrifaði á Pressunni í fyrradag um þessi málaferli Helga í minningargrein um hann.  Ég leyfi mér hér að vitna í grein hans (sem má lesa alla hér):

Helsta baráttumál hans, lengst af, var að fá að rifta skírnarsáttmála sínum við guð. Helgi taldi sig ekki hafa gert þann sáttmála og því bæri að rifta honum. Ríkisvaldið og Þjóðkirkjan voru á annarri skoðun og aldrei var fallist á að Helgi fengi að rifta sáttmálanum. Ekki var talið að heimild væri í lögum stil slíkrar riftunar. Verður það að teljast einkennileg afstaða af hálfu ríkisvaldsins, að hafna því að almennur samningaréttur gildi um skírnarsáttmálann svo sem aðra samninga.

...

Ég þekkti ekki Helga Hóseasson, en hann leitaði til föður míns heitins, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, í raunum sínum og baráttu við kerfið. Þá munaði litlu að lausn fyndist, sem Helgi hefði orðið ánægður með og engan hefði meitt.

Ráðuneytisstjóri í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu var á þessum tíma Baldur Möller, skákmeistari, húmoristi og mannvinur. Pabbi og Baldur fundu lausn á málinu, sem fólst í því að ráðuneytið gæfi út yfirlýsingu svohljóðandi: „Dóms- og kirkjumálaráðuneytið staðfestir hér með að Helgi Hóseasson hefur tilkynnt ráðuneytinu að hann hafi fyrir sitt leyti rift skírnarsáttmála sínum.“

Lagalegt fordæmisgildi slíkrar yfirlýsingar var að sjálfsögðu ekkert, enda ekki hægt að rifta samningum einhliða. Ráðuneytið var ekki að staðfesta riftun. Þetta var hins vegar lausn, sem Helgi var sáttur við.

Þá brá svo við að Biskupsstofa, fyrir hönd Þjóðkirkjunnar, setti sig upp á móti þessari einföldu lausn, sem hefði róað mann, sem sannarlega taldi sig beittan ranglæti. Pólitísk yfirstjórn ráðuneytisins vildi ekki ganga gegn vilja kirkjunnar í málinu og því neyddist Helgi til að mótmæla til dauðadags.

Þessi saga kemur manni því miður ekki á óvart.  Þjóðkirkjan er ekki vön að láta eftir neitt af sínu og forystumönnum hennar hefur sjálfsagt þótt beiðni Helga í hæsta máta óvirðuleg og óviðeigandi.  Hann gat jú skráð sig úr Þjóðkirkjunni eins og aðrir, sem undu ekki hag sínum þar.  Hvers vegna ætti Þjóðkirkjan að gefa yfirlýsingu til Helga um að hann væri ekki lengur bundinn skírnarsáttmálanum?  Hvers vegna ekki, spyr ég á móti? 

Ef að prestar hennar trúa því virkilega að þarna sé um heilaga athöfn að ræða þá ættu þeir að skilja að Helgi hafi viljað afhelgast.  Það sést nefnilega að þegar Þjóðkirkjunni hentar, getur hún afhelgað hluti, en það gerir hún þegar gamlar kirkjur eru teknar úr notkun.  Fyrir trúfrían mann eins og mig er það frekar hláleg athöfn, svona líkt og þegar wodoo prestar taka svartagaldur til baka.   Hvað sem mínu áliti líður, þá er þarna fordæmi um að Þjóðkirkjan afhelgi.  Hvers vegna mátti það ekki gilda einnig um fólk? Sérstaklega fyrir aldraðan mann sem tók skírnina svona alvarlega.  Mátti ekki kveðja hann úr loforði við skírnina með handabandi og orðum um aflausn sáttmálans?  Mátti ekki sýna þá mannvirðingu, frekar en að hunsa hann sem óguðlegan og skrítinn sérvitrung? 

Þetta baráttumál Helga á sér hliðstæðu í dag hjá okkur sem eftir lifa, en það er nefnilega baráttan gegn því að nýfædd börn séu skráð sjálfkrafa í trúfélag móður.  Með því að gera slíkt er verið að gera nákvæmlega það sama þessum börnum og gert var við Helga, þ.e. að skrá börn í félag sem þau hafa ekkert vit á og stimpla þau þannig með lífsskoðun móðurinnar.  

Þann 1. desember 2008 sendi Jafnréttisstofa frá sér svohljóðandi tilkynningu um efnið: 

Jafnréttisstofa telur annmarka á þessu ákvæði laganna um skráð trúfélög. Í fyrsta lagi er það tæpast í samræmi við jafnréttislögin og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns að kyn þ.e. móðerni ráði því alfarið í hvaða trúfélag barn er skráð frá fæðingu. Löggjafinn hefur ekki fært fyrir því rök, eftir því sem best verður séð, af hverju nauðsynlegt er að barn sé skráð í sama trúfélag og móðir þess við fæðingu. Í öðru lagi er það sem Jafnréttisstofa telur mikilvægast í þessu máli sem er a ðekki er að sjá að það séu neinir hagsmunir,hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag, hvort sem það fylgir skráningu móður eða föður. Miklu eðlilegra, og í meira samræmi við jafnréttislög og anda þeirra laga,sem og jafnrétti og mannréttindi almennt, væri að forsjáraðilar tækju um það ákvörðun hvort, og þá hvenær skrá ætti barn í trúfélag. Samþykki beggja forsjáraðila ef þeir eru tveir, yrði þá að liggja fyrir til þess að barn yrði skráð í trúfélag þegar það er yngra en að því sé heimilt að sjá um slíkt á eigin forsendum.
 
Niðurstaða Jafnréttisstofu er því sú að endurskoða þurfi tilgreint ákvæði laganna um skráð trúfélög, og þá annað hvort færa fyrir því gild rök að fyrirkomulag sem nú er lögfest sé eðlilegt og samrýmist jafnréttislögum og mannréttindalöggjöf eða fella ákvæðið í 2. mgr. 8.gr. laganna brott, og breyta fyrirkomulagin í þá veru að forsjáraðilar taki sameiginlega ákvörðun um skráninu barns í trúfélag, þegar þeir svo kjósa.

Minning Helga Hóseassonar yrði best heiðruð með því að afnema þessi lög um sjálfkrafa skráningu barna í trúfélag móður.  Það á ekki að viðhafa skráningu barna upp að 16 ára aldri hjá ríkinu í trúarleg eða veraldleg lífsskoðunarfélög. 

Fyrir þessu berst Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi og það gengur með góðu fordæmi með því að skrá ekki börn í félagið. 

 

Helgi og Siðmennt 

Helgi grúskaði talsvert í ritum um lífsskoðanir og trúmál. Hann hafði kynnt sér siðrænan húmanisma á erlendum tungum þar sem talað var um "human etik" og "ethical humanism".  Reynir Harðarson einn af stofnfélögum í Siðmennt átti í samskiptum við Helga um það leyti sem stofna átti húmanískt félag í kringum Borgaralegar athafnir.  Hann kom auga á eina athugasemd í úrklippusafni Helga þar sem stóð: "Eftirtaldir menn aðhyllast siðmennt:...".  Reyni fannst þetta bráðsnjallt orð og stakk uppá því að félagið yrði kallað Siðmennt, og gekk það eftir. Um stuttan tíma uppúr stofnun Siðmenntar árið 1990 kom Helgi nokkrum sinnum á fundi hjá félaginu en svo skildu leiðir hans við félagið enda einfari mikill.

 

Ekki aðeins minnisvarða!

Mótmælandinn mikli er nú allur og hans baráttuþreks verður lengi minnst.  Hann barðist fyrir frelsi og gegn kúgun, en átti alltaf erfitt uppdráttar.   Ég votta aðstandendum hans og vinum samúð mína og vona að um hann rísi ekki einungis minnisvarði, heldur einnig varanleg bót á mannréttindum í anda þess sem hann barðist fyrir, þ.e. frelsi fólks til að hafa sína eigin sannfæringu og vera ekki innvígður opinberlega í trúfélag sem barn. 


mbl.is Vilja minnast Helga Hóseassonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Prýðis drengur hann Helgi. Gott að við skulum eiga menn sem segja skoðanir sínar á frumlegan og skemmtilegan hátt. Ísland þarf menn sem eru velviljaðir og sjá út fyrir eigið líf. Taka mið af öðru fólki og örva fólk og hvetja. Nú þarf að sjá skóginn fyrir trjánum og ekki hvetja fólk sem rífur og slítur, skammast og níðir heldur hina sem sameina. Við þurfum að heiðra þá sem eru starfsamir, sjálfslausir, æðrulausir og þolnir.

Guðmundur Pálsson, 8.9.2009 kl. 10:14

2 Smámynd: Púkinn

Að skrá börn sjálfkrafa í trúfélag móður er vona álíka fáránlegt og að skrá þau sjálfkrafa í stjórnmálaflokk föður.

Púkinn, 8.9.2009 kl. 10:44

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Góð og viðeigandi skrif. Það setti að mér trega. Þetta baráttumál Helga var svo sjálfsagt og að baki því lágu flóknara og umfangsmeira inntak. Sjálfsákvörðunarrétturinn og andlegt frelsi.  Af hverju stendur það svona í þessum trénuðu stofnunum.

Þennan málstað þarf að sækja af hörku með heilbrigða skynsemi og einstaklingsrétt að leiðarljósi. Ekki eftir uppdiktuðum leikreglum lögjafans og sjálfskipaðra metafýsískra  leiðtoga sem grípa rök sín ofan jarðlífs og náttúru.

Ég legg hreinlega til að farið verði í saumana á sáttmálum um mannréttindi og persónufrelsi og út frá þvví verði þjóðkirkjunni og ríkinu stefnt. Málinu verði síðan áfríað í þaula til allra þeirra dómstóla og dómsstiga, sem finnast hér á jörð.  Það eru engir dómstólar utan hennar, eins og þessir tréhestar hengja sig í.

Kirkjan er ekkert annað en þykistuleikur fullorðinna manneskja, sem aldrei hafa náð að þroskast úr barndómi sínum. Leynifélag stórra stráka með dulkóðaða stefnuskrá og ritúal, sem er í engu ólíkt leynifélögum smástráka.

Rökin eru líka á "liggaliggalá" stiginu og diktuð upp með túlkunum, sem henta hversju málefni og niðurstaðan ávallt "afþví bara", "kjaftaðiggi meðanðúveistðaeggi."

Það er söknður blandinn biturð  að sjá eftir þeim góða dreng sem Helgi var. Hann var Íslenska þrautsegjan holdi klædd. Megi hann vera fyrirmynd okkur á viðsjártímum.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.9.2009 kl. 10:59

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hann var ekki Kristinnar trúar né játaðist undir neina stofnanavædda yfirnáttúru, en hann átti sterkari trú og staðfestu en flestir sem ég hef kynnst. Hann átti líka dýpri kærleik, hógsemd og auðmýkt þeir sem reyna að mála sig þeim litum útávið.  Í myndinni um hann sáum við hvernig hann bar önn frá morgni til kvölds fyrir helsjúkri eiginkonu sinni þar til hún andaðist. Þá sýndi hann einnig þá djúpu drenglund að virða hennar lífsýn og trú og var hún jarðsett að þeim sið.

Helgi var ekki skrítinn. Það erum við  sem erum skrítin.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.9.2009 kl. 11:04

5 identicon

Helgi var langt á undan sinni samtíð, fyrir ekki svo mörgum árum töldu margir hann vera klikkaðan... sem er alger fjarstæða.

Ég bloggaði einmitt fyrir stuttu(Áður en lokað var á mig) áskorun á biskup og kufla með að uppfylla ósk Helga áður en hann myndi deyja... nú er hann fallin frá og kirkjan.

Sýnum Helga stuðning með að segja okkur úr þjóðkirkju.. sýnum þjóðinni að við stöndum saman... neitum að afhenda þjóðkirkju ~6000 milljónir af almannafé árlega.

Sýnið nú einu sinni að við getum staðið saman sem fólk, sem bræður og systur.

Eins og staðan er í dag þá borga trúfrjálsir meira til uppbyggingar íslands en þeir trúuðu, skatturinn hjá okkur fer í ríkiskassann.. skattur trúaðra fer í kufla og til annarra hjátrúarseggj.

Takið líka eftir því að samkvæmt biblíu þá eiga allir sem vilja vera 100% jesúfrík að selja allt sem þeir eiga... Guddi hatar peninga... þannig að þegar þú skráir þig út þá ertu að gera biskup og öðrum mikin greiða... faktískt að auka líkur á það þeir komist til himnaríkis.

Disclaimer
Það er ekkert himnaríki :)

DoctorE (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 11:54

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil blanda mér í þessa umræðu hér á þann hátt að vísa til bloggpistils míns um þetta efni frá því í gærkvöldi, þar sem ég færi að því rök að hér sé um mannréttindamál að ræða.

Ómar Ragnarsson, 8.9.2009 kl. 13:36

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mjög góð grein hjá þér, ég er margs vísari. Takk kærlega fyrir og ég tek heilshugar undir það að Helgi hljóti virðingarsess meðal okkar. Maðurinn var sjálfum sér samkvæmur allt sitt líf.

Ásdís Sigurðardóttir, 8.9.2009 kl. 14:33

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Góður pistill en hörmlegt að lesa þetta um afstöðu Þjóðkirkjunnar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.9.2009 kl. 23:21

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir athugasemdir öll

DoktorE sagði:

Takið líka eftir því að samkvæmt biblíu þá eiga allir sem vilja vera 100% jesúfrík að selja allt sem þeir eiga... Guddi hatar peninga... þannig að þegar þú skráir þig út þá ertu að gera biskup og öðrum mikin greiða... faktískt að auka líkur á það þeir komist til himnaríkis

Þetta er perla (þó pínu hrá ha ha) hjá DoktornumE.  Það sem ég hef lesið í NT er akkúrat þetta.  Kristið fólk á ekki að safna auði á jörðu, heldur himni, segir þar margítrekað.  Kristin kirkja hefur gert þveröfugt allt frá stofnun sinni og komu til trúarlegra valda í Róm á 4. öld.  Með gríðarlegri eignasöfnun og pólitísku valdi tókst henni að útrýma annarri trú í nánast allri Evrópu.  

Auðvitað er það andstætt skynsemi að lifa í fátækt, en hver er þá skynsemin í því að lifa eftir bók sem er uppfull af úreltum markmiðum og aldagömlum fordómum?  Spurningunni er aðallega beint til þín kæri Ómar ;-)

Í bloggi þínu Ómar, segir þú að kristnin hafi öðrum trúarbrögðum fremur átt þátt í því að breiða út mannréttindi í heiminum.  Þú tiltekur sem betur fer aðeins trúarbrögðin, því að mín skoðun er sú að það séu alls ekki trúarbrögðin sem hafi staðið sig best í að breiða út mannréttindi og oftar en ekki hafa þau (kristni ekki undanskilin) staðið gegn bæði vísindum og mannréttindum, frekar en stutt þau. Þó að ýmsir kristnir einstaklingar eða einstaka prestar hafi gegnt mikilvægum hlutverkum í mannréttindabaráttu gegnum aldirnar hafa biskupar og páfar ekki verið sérstakir frumkvöðlar í þeim efnum.  Það fólk sem breytti hugsunargangi og færði okkur í átt til mannúðar og mannréttinda voru heimspekingar og stjórnmálamenn eins og Thomas Jefferson. 

Takk annars fyrir stuðning við þessi mikilvægu réttindi sem hvert barn á að fá að njóta, þ.e. að velja fyrir sig þegar það hefur aldur til.

Svanur Sigurbjörnsson, 9.9.2009 kl. 00:10

10 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Það er einfaldlega sorglegt að Helgi Hóseasson hafi dáið án þess að sjá ósk sína uppfyllta.  Hvað er að þessu fólki?  Af hverju var ekki hægt að koma til móts við manninn?

Það er eitthvað að.  Kerfinu er sama um fólk.  Þetta hef ég reynt á sjálum mér og maður sér þetta daglega.  Maður vill trúa því að með því að vera íslendingur, þá sé maður í enskonar hreiðri, sem sjái um mann ef á bjátar.  En það er ekki þannig.  Kerfinu er alveg sama um þig.  Þú ert bara númer.

Theódór Gunnarsson, 9.9.2009 kl. 01:28

11 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Skemmtilegt að vita að nafnið Siðmennt sé komið frá Helga. Minning hans mun vonandi aldrei deyja þó hann sé allur.

Kristján Hrannar Pálsson, 11.9.2009 kl. 18:03

12 Smámynd: Sigurður Rósant

Barátta Helga Hósessonar fyrir afskírn (afhelgun) var í raun dauðadæmd frá sjónarhóli kristinna manna um skírn og merkingu hennar. Hvergi er gert ráð fyrir afskírn eða afhelgun í kenningum kristinna eftir því sem ég man best.

En það mætti í framtíðinni leysa þessi mál með því að slá 3 flugur í einu höggi. Banna með lögum umskurð og skírn barna undir lögræðisaldri. Sömuleiðis að skrá þau í trúfélög eða innræta þeim einhverja trú umfram aðra. Þá sitja Gyðingar, kristnir og muslimar við sama borð og börn þeirra njóta aukinna mannréttinda.

Sigurður Rósant, 13.9.2009 kl. 21:14

13 identicon

Skiptir skírnin máli fyrir þá sem ekki trúa á hana, er það ekki bara eins og að skvetta vatni á gæs? Heldur hún vatni?

Halda Wathne (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 22:49

14 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Góð pæling Svanur.

Magnús Óskar Ingvarsson, 17.9.2009 kl. 18:44

15 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll öll

Ég er sammála þér Theodór.  Kirkjan afhelgar byggingar sem hún hættir að nota en gat ekki veitt Helga smá skjal þess efnis að hann væri frjáls af skírnarsáttmálanum.

Já minning Helga á að lifa Kristján Hrannar því að hann iðkaði svo sannarlega siðmennt og var trúr eigin sannfæringu.

Tek undir með þér Sigurður R, en þetta með umskurðinn er dálítið flóknara því að hætt er við því að ættingjarnir geri það annars heima hjá sér og skaði barnið. 

Takk Magnús Óskar.

Fréttir:  Í dag stýrði ég útför Helga Hóseassonar í fallegum sal í Fákafeni í Reykjavík.  Bálför fer fram þriðjud. 22. sept og munu minningargreinar birtast daginn eftir í fjölmiðlum.  Ösku Helga verður dreift á óbyggt svæði nærri æskuslóðum hans í Breiðdal. 

Kveðja

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 17.9.2009 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband