Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Nei, hann er það alls ekki - einföldum lífið!

Guð er ekki nauðsynlegur frekar en snuð ungabarni eða tálsýn týndum manni.  Hugmyndin um guð flækist bara fyrir fólki og býr til gerviheim sem er líkt og að synda í grjónagraut. 

Franski stjörnufræðingurinn og eðlisfræðingurninn Pierre Laplace (1749-1827) fékk athugasemd frá Napoleon Bonaparte keisara eftir að honum var kynnt bók LaPlace, Himnesk gangverk, sem útskýrði alheiminn algerlega út frá náttúrulegum forsendum án þess að minnst væri einu orði á guð.  Napoleon hafði gaman að því að koma með athugasemdir sem gætu komið flatt upp á fólk eða það átt í vandræðum með að svara: 

"Þeir segja mér að þú hafir skrifað þessa stóru bók um alheiminn, en hvergi minnst á Skaparann í henni" sagði Napoleon

Laplace svaraði: "Ég hafði enga þörf fyrir þá tilgátu!" 

Napoleon hafði gaman af svarinu og sagði ítalska stærðfræðingnum og stjörnufræðingnum Lagrange frá þessu.  Lagrange sagði þá: "Ah, það er fín tilgáta.  Hún útskýrir svo margt".   Þ.e. tilgátan um að engin þörf sé fyrir guð, útskýri margt.

Þetta fellur að öðru heimspekilegu hugtaki sem kallast Rakvélablað Occams, (William Occam 1285-1349) sem útskýrir að óþarfa viðbætur við tilgátur gera þær ekki réttari eða betri en þær sem innihalda einungis kjarna málsins.  T.d. bætir það ekki neinu við skilning okkar á eðli siðferðis eða sporgöngu himintunglanna að bæta við einhverri veru í útskýringuna, þegar tilgátur byggðar á náttúrulegu eðli nægja fyllilega. 

Í þessari umræðu er mikilvægt að skilja á milli guðshugmyndarinnar og trúarsamfélags sem inniheldur margvíslega mannlega og félagslega þætti sem koma að gagni.  Þeir þættir þurfa ekki raun guðinn þegar betur er að gáð.  Samhjálp, samhugur, samhyggð, samábyrgð, stuðningur við hvort annað og velvilji er allt sem þarf.  "All you need is love" sungu Bítlarnir.  Höldum þessu einföldu takk! Wink


mbl.is Er Guð nauðsynlegur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins! loksins! loksins!

Þetta er stórkostlegt.  Loksins kemst fulltrúi minnihlutahóps að í forsetastól USA og loksins erum við laus við Republikana úr Hvíta húsinu.  Fyrir utan þennan sannfærandi (næsta öruggan) sigur Obama, þá er öldungaþingdeildin einnig að að skipta um meirihluta yfir til Demokrata þannig að nú er von á meiriháttar breytingum á valdahlutföllum í bandarískri pólitík.

Ég tel þetta fremstu von heimsins til aukins friðar og endurreisnar efnahagskerfa hins vestræna heims eftir kæruleysi og barnaskap nýfrjálshyggjunnar undanfarinn áratug.  Ég hlakka til þess að fylgjast með Obama í forsetastólnum.  Það er von mín að með honum og breyttum áherslum í stjórnmálum vesturveldanna til meiri samábyrgðar, verði sú siðferðislega endurnýjun sem við þurfum virkilega á að halda. 

Ég er á því að það eigi að kjósa til alþingis á ný hérlendis fljótlega eftir áramót.  Hinar pólitísku forsendur fyrir þeim þingsætum sem margir Sjálfstæðismenn verma í dag eru gjörbreyttar og forysta flokksins hefur beðið mikinn hnekki, þó Geir Haarde hafi í sjálfu sér gert lítið rangt annað en að hafast ekki að í ákveðnum málum.  Þá er sú stefna xD að halda í ónýtan gjaldmiðil og vilja ekki skoða nánar inngöngu í ESB sem tryggja myndi landinu meiri stöðugleika og nánari vináttu, einnig að grotna í fanginu á flokknum.  Aðeins elstu kjósendurnir eru enn hollir xD skv. Gallup könninni sem birt var í Mbl síðasta sunnudag.  Eitt af merkjum þess hversu forysta xD er orðin stöðnuð, mátti sjá þegar Birgir Ármannsson (xD) formaður Allsherjarnefndar, sagðist hafa kosið John McCain í könnun kosningavöku bandaríska sendiráðsis á Grand Hótel í gærkveldi.  Hann var einn af 7% sem gerðu það, en 85% kusu Obama.  Mikið af hæfileikaríku fólki á besta aldri er í xS og xVg, og er það að standa sig afar vel í fjölmiðlum og hvarvetna þar sem það kemur fram.  Það eru breyttir tímar framundan.  Þjóðin á skilið umturnun í stefnu og valdhöfum stjórnmála landsins.

Ég óska bandarísku þjóðinni, Íslendingum og heiminum öllum til hamingju með Barack Obama, næsta forseta USA! LoL


mbl.is Obama með 200 kjörmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband