Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Brotið á hvaða lögum?
22.4.2008 | 20:40
Nú hef ég ekki kynnt mér mikið skrif Skúla á bloggi hans sem er nú horfið, en ljóst er að hann gagnrýndi þar talsvert Íslam og hryðjuverk sem framin eru í nafni þeirrar trúar. Hann gerði stundum athugasemdir við mín skrif, sérstaklega þegar ég var að skrifa um Íslam. Þar var hann jafnan sammála mínum skrifum og bætti við að hann teldi kristni fremri íslamstrú. Hans "gullni staðall" var því kristnin á meðan minn er húmanismi.
Nú veit ég ekki hvort að skrif Skúla voru óvægin eða hlaðin gífuryrðum eða hreinlega bara sterk málefnaleg gagnrýni þar sem berar staðreyndir voru settar fram eftir heimildum sem hann taldi góðar og gildar. Merkilegt er að ritstjórn mbl.is nefndi víst ekki nein dæmi þegar hún kvartaði við Skúla. Hvernig átti hann því að verja sig? Einnig er merkilegt að í frétt mbl.is af málinu er ekki nefnt hvaða lög Skúli átti að hafa brotið að mati lögmannsins. Þetta hlýtur að vera lykilatriði málsins.
Ef við gefum okkur að Skúli hafi gerst "brotlegur" við lögin um bann við guðlasti sem eru einn af steingervingum íslenskra laga, þá verður það að teljast með ólíkindum að mbl.is hafi látið undan þrýstingi kvartana um að um guðlast (hæðni eða óvirðing sýnd trúarbrögðum) væri þarna á ferðinni. Guðlast er ákaflega huglægt hugtak. Hvað er guðlast? Er það guðlast að segja "Guð er ekki til!" eða er það guðlast að segja "kenningar Íslam eru fullar af ofbeldi!"? Er það guðlast að gagnrýna ákveðna trúarhópa og kenningar þeirra, þó að umræðan sé málefnaleg og studd góðum rökum?
Enginn er bættur af því að beita illkvitni og niðrandi orðum um þann sem viðkomandi er að gagnrýna en hvenær eru orð niðrandi? Var það niðrandi af breska barnakennaranum að nefna tuskubangsa barnanna "Múhameð"? Átti hún skilið fangelsi fyrir það? Hvers vegna lögðu Brétar nýverið niður guðlastslöggjöf sína? Það er vegna þess að það er of huglægt hvað kallast guðlast og hvað ekki. Einnig hefur það runnið upp fyrir mönnum að fólk trúar og trúarkenningar eru ekki heilagar og eiga ekki að vera undanþegnar gagnrýni eða sérstaklega verndaðar umfram aðrar skoðanir.
Aðgerð mbl.is sýnist mér vera aðför að málfrelsinu. Þetta er naivisminn í hnotskurn. Það er látið eftir æstu fólki sem kvartar bak við tjöldin með vísun í úrelt guðlastslög sem stangast á við málfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta er akkúrat það sem Karen Jespersen og Ralf Pittelkow vara við í bók þeirra "Íslamistar og naívistar". Hver verður næst látinn taka poka sinn? Ég hef nú verið að undirbúa grein um uppgangsár Múhameðs spámanns í Arabíu en þær heimildir sem ég hef hafa nokkuð aðra mynd af manninum en birt var á dögunum í tímaritinu "Sagan öll". Á ég ekki að þora nú að birta greinina? Gæti ég átt von á símhringingu frá lögmanni mbl.is?
Athugið:
"Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins."
Bara til að hafa það á hreinu
Óánægja með lokun umdeilds bloggs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (52)
Ómannúðlegir dómar
10.4.2008 | 12:12
Smygl, dreyfing og sala á eiturlyfjum til óharðnaðra unglinga og barna er alvarlegur glæpur en jafnvel þó að um ákveðinn þrýsting eða brögð sé að ræða þegar efnin eru seld eða gefin í byrjun til að koma fólki á bragðið, þá er ábyrgðin alltaf talsverð á notandanum einnig. Það má segja að hún sé jafnvel meiri hjá þeim sem kaupir. Enginn í dag ætti að vera svo illa upplýstur að halda að það sé bara gott mál að taka eiturlyf.
Löng einangrunarvist eða dómar uppá meira en 4 ár ættu ekki að viðgangast fyrir það eitt að smygla. Lengsti dómurin í þessu svokallaða Pólstjörnumáli var 9.5 ár! 9.5 ár! Borið saman við menn sem myrða fólk köldu blóði og fá 12-16 ár er þetta út í hött. Nú þekki ég ekki alla málavöxtu í þessu tiltekna máli og ætla ekki að úthrópa þetta meira án frekari skoðunar, en það er samt ljóst út frá þeim tilfellum sem maður hefur heyrt af að dómar við sölu og smygli eiturlyfja eru talsvert harðir.
Ætlum við nú að fylla fangelsin af eiturlyfjaglæponum? Við, sem eigum ekki einu sinni fangelsi í miðbænum með lágmarks stöðlum hvað aðbúnað varðar og Litla Hraun er ákaflega lítilfjörlegt svo vægt sé til orða tekið. Hvað með nauðgara og morðingja? Eigum við að hleypa þeim út svo við getum komið inn fleiri sölumönnum kókaíns, líkt og staðan er orðin í USA?
Það þarf að endurskoða refsilöggjöfina rækilega. Notum fangelsin fyrir þá sem þar eiga heima.
Löng einangrunarvist Íslendings óviðunandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)