Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Stórkostleg frammistaða

Það var unun að fylgjast með strákunum okkar í handboltanum á Ól 2008. 

Hvað skóp þennan sigur?

Ég held að skellurinn gegn Makedóníu hafi gagnast þeim vel, þ.e. þær ákvarðanir sem Guðmundur þjálfari tók með liðinu eftir þá tvo leiki fyrir Ólympíuleikana.  Sú reynsla hlaut að hafa gert þeim ljóst að fastur varnarleikur væri lykilatriði fyrir árangur á Ól í Bejing.  Þeir hugsuðu, leystu og framkvæmdu.

Þá var ljóst að sú mistök fyrri tíma að treysta bara á fáa menn til að spila í gegnum heilt stórmót, voru viðurkennd og Guðmundur treysti nú á breiddina í hópnum.  Bestu menn verða ekki bestu menn þegar búið er að nota þá í tætlur.  Hinn breiði hópur nú, sem allur vissi sitt hlutverk gekk beint til verks.  Þá var skynsamlegt að slaka á í leiknum gegn Egyptum.  Það er "stríðið" sem átti að sigra, ekki endilega hverja orustu.  Þeir hugsuðu, leystu og framkvæmdu.

Áberandi var hversu jákvæðir allir leikmenn voru garð hvors annars, sama á hverju gekk.  Ljóst var að það átti ekki að tapa niður því trausti sem menn höfðu á hverjum öðrum með gremju yfir tímabundnum erfiðleikum.  Menn fengu boltann strax eftir að þeir gerðu mistök og það var einfaldlega bara reynt aftur.  Leikmönnum eins og Snorra Steini, Arnóri, Guðjóni Vali og Loga var sýnt fullt traust í því að láta vaða á markið, aftur og aftur.  Þeir sköpuðu mörk upp úr því sem kallast ekki-færi.  Fyrir svona leikmenn og reyndar alla er mjög mikilvægt að vita að þeir hafa veiðileyfi og fullan stuðning.  Þeir hugsuðu hratt, leystu og skoruðu.

Sterkur hugur og einbeiting skóp þennan silfur-sigur umfram allt annað.  Þeir höfðu tæknina og líkamlegu getuna fyrir og e.t.v. aðeins franska liðið skákar þeim hvað það varðar.  Þess utan er það þekking, afstaða, hugrekki, samvinna, leikútfærsla og einbeiting sem skapar sigur í svo flókinni og hraðri flokkaíþrótt sem handboltinn er.  Hér skiptir ekki öllu máli stærð þeirrar þjóðar sem að baki liggur.  Hið sama höfum við upplifað í skákinni og nokkrum öðrum íþróttum.  Sjálfstraustið byggist á því að ná fram þeirri hámarks getu sem einstaklingarnir og hópurinnn með samspili sínu getur mögulega átt inni.  Ótta og efasemdum þarf að ýta til hliðar og baráttan þarf að vera allsráðandi, hvað sem dynur á.  Íslenska handboltaliðið hefur oft komist langt á þessu og spilað á stundum umfram getu, en hefur aldrei átt þennan stöðugleika og festu sem það sýndi nú.  Þekking og hugarfar liðsins er komið upp á þróaðra stig en áður.  Þeir sýndu einurð, þrautseigju og þroska.

Að öðrum ólöstuðum var Ólafur Stefánsson sá klettur sem setti eitt besta fordæmið.  Hans stóíska ró og sjálfsöryggi smitaði út frá sér.  Það var ljóst að andstæðingunum fannst hann vera lykilleikmaður íslenska liðsins því hann var tekinn úr umferð um tíma í nær hverjum einasta leik mótsins.  Gífurleg reynsla hans, yfirsýn og heimspekileg nálgun að leiknum er nú að skila sér til alls liðsins.  Hann og liðið hafa vaxið saman eins og óaðskiljanleg líffæri.  Það var unun að sjá hvernig hann leysti hraðupphlaupin.  Þá tókst honum einnig að blanda saman eigin gegnumbrotum eða uppstökkum með skoti á mark og því að gefa frábærar stoðsendingar.  Þannig hámarkaði hann þá ógnun sem stóð af honum sem sóknarleikmanni.   Ég hef aldrei séð hann ná þessu svo vel sem hann gerði nú og er það einnig frábærum meðspilurum hans að þakka sem nú gjörþekkja hann.  Ólafur sýndi forystu, öryggi og festu.

Hvar má gott bæta?

Hvíld og góður svefn milli leikja er það sem skiptir höfuðatriði fyrir einbeitingu hvers leiks.  Ég velti því fyrir mér hvort að svefnleysi og spenna hafi valdið því að liðið átti svo lítið í Frakkana í úrslitaleiknum.  Í einni frétt var sagt frá einum leikmanni sem kom ekki dúr á auga eftir sigurleikinn gegn Spáni.  Ég velti því fyrir mér hvort að það hafi átt við um fleiri leikmenn.  Fengu þeir frið fyrir velunnurum, ættingjum, vinum, frétttamönnum og öðrum í kringum sig til að hvílast?  Varð æsingurinn og eftirvæntingin eftir úrslitaleiknum of mikil?  Til þess að eiga séns í lið Frakka sem er skipað hástökkvurum í hverri einustu stöðu þarf algera einbeitingu.  Hún náðist greinilega ekki.  Hið svokallaða dagsform er flókið fyrirbæri í handknattleik og þar getur einbeitt og samstillt lið sigrað tæknilega betra og líkamlega sterkara lið með fullkomnum undirbúningi. 

Hermann Gunnarsson og fleiri hafa spekúlerað á þá leið að eftir sigurinn í undanúrslitunum hafi orðið spennufall og liðið hafi einfaldlega ekki hungrað nóg í að vinna úrslitaleikinn.  Svona eins konar "ég hef unnið nóg nú þegar" hugsun hafi náð yfirhöndinni og lokaneistann hafi vantað.  Ég held að þessu hafi verið öfugt farið.  Spennandi tilhugsunin, dagdraumarnir og gífurleg löngun þeirra og hungur eftir gullinu gæti hafa skemmt undirbúning þeirra fyrir úrslitaleikinn.  Í stað þess að líta á leikinn sem hvern annan leik, var æðið í kringum þetta að þrýsta á þá til að líta á þetta sem úrslitaleik.. og hvað þýðir það?  Það þýðir kitlingur í magann, taugaspenna, valkvíði og óróleiki.  Það þýðir að einbeitingin er á hugsuninni um stærð leiksins en ekki nóg á leiknum sjálfum.  Fyrir góðan ræðumann á ekki að skipta máli varðandi flutninginn hvort að talað er fyrir 20 manns eða 20.000, en ef spenna og kvíði nær yfirhöndinni aukast líkur á mistökum.  Landsliðið skorti reynslu í að vera í þessari stöðu og það kann að hafa haft áhrif.  Augnablikið var hugsanlega of stórt í hugum þeirra.  Þá skorti ekki vilja eða "hungur" til að vinna og fara alla leið.  Þá skorti einbeitingu til að hámarka möguleika sína á lokasprettinum hver sem orsökin kann að vera. 

Þakkir

Ég vil þakka landsliðinu fyrir einstaka framistöðu og íþróttamennsku.  Ég óska þess innilega að það hugarfar handboltalandsliðsins og sú nálgun sem frábært lið þjálfara, ráðgjafa, heilbrigðisstarfsfólks þeirra og stjórnanda HSÍ geti skilað einhverju til KSÍ, þ.e. landsliðs okkar í fótbolta, sem nú er í einni þeirri mestu lægð sem það hefur átt í frá upphafi.  Vonandi smitar þessi árangur handboltaliðsins rækilega út frá sér og verður öðrum íþróttum til hvatningar og betra gengis.  Áfram Ísland!


mbl.is Á verðlaunapallinum - myndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband