Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Framboðsgreinar - hluti II: Lýðræði og kosningar

img_3683-ptrt-adj-400sh.jpgEins og í sagði í síðasta bloggi mínu, þá býð ég mig fram í 3-6. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi 12-14. mars.  Rétt til að kjósa í prófkjörinu hafa skráðir félagsmenn xS í kjördæminu og svo fólk sem skráir sig á lista stuðningsmanna Samfylkingarinnar á www.samfylkingin.is frá og með 4. mars.

Lýðræði og kosningar

Við búum við fulltrúalýðræði á Íslandi.  Nánast engar þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni fara fram þannig að kjörnir þingmenn ráða málum eftir að þeir hafa náð kjöri.  Í stóru flokkunum er ákveðið í tiltölulega smáum prófkjörum hverjir fá að fara á þing og þingkosningarnar sjálfar hafa nær ekkert um það síðan að segja, hvernig röð manna er.  Útstrikanir á nafni Björns Bjarnasonar í síðustu kosningum höfðu t.d. ekkert að segja og maðurinn var meira að segja gerður að ráðherra eftir þá útreið sem hann fékk í kosningunum.  Flokksforystan gaf kjósandanum fingurinn.

Prófkjör geta farið sæmilega fram, en oftar en ekki fara þau herfilega fram.  Þeir ríkustu og frekustu smala saman fólki sem þekkir frambjóðandann aðeins af afspurn eða á sameiginlegt póstnúmer með viðkomandi, og massa inn atkvæðum frá fólki sem nýgengið er í flokkinn.  Þetta eru ekki upplýstar ákvarðanir sem þarna eru teknar, heldur breytast stjórnmálin þarna í eins konar íþrótt og smölunarlist.  Í ljósi þess hversu mikilvægar ákvarðanir eru teknar í prófkjörum og með hliðsjón af þessum alvarlegu vanköntum þeirra er vald þeirra of mikið.  Ég er því hlyntur því að ekki séu birtir listar með númerum (þó raðað sé skv. prófkjöri) á kosningaseðlunum, heldur geti kjósandi viðkomandi flokks breytt röðun kjörmanna í kosningunum sjálfum.  Einfaldar meirihlutareglur gildi þar, þ.e. ef meira en 50% kjósenda vill einhvern mann niður um sæti (eða upp), gildi það, en ekki útkoma prófkjörs.  Í þingkosningum er ekki hægt að smala á sama máta og við prófkjör og því er þetta mun lýðræðislegri máti.  Einnig eru frambjóðendur búnir að fá lengri tíma til að kynna sig.

Annað sem ég vil breyta varðandi kosningar er sá þröskuldur framboða sem þarf til að ná manni á þing.  Í dag þarf 5% fylgi sem þýðir að ná þarf a.m.k. þremur mönnum inn til að ná einhverjum á þing.  Nóg ætti að vera að geta náð einum manni inn því þannig er í raun verið að leyfa visst form af einstaklingsframboði sem svo margir hafa óskað eftir.  Vissulega geta stakir þingmenn skapað ákveðin vandamál í myndun ríkisstjórna, en ég tel að það vandamál skipti minna máli en réttur manna til að njóta sannmælis af fylgi sínu.

Þjóðaratkvæði - þau á að gera mögulegri.

Stjórnarkreppa eða umboðskrísa.  Til þurfa að vera viðmiðunarreglur um það hvenær ríkisstjórn hafi misst traust og eigi að boða til nýrra kosninga.  Það má ekki gerast að stjórnir þaulsitji eins og steinrunnir þursar þegar mikilvægar forsendur kosningar þeirra á alþingi eru brostnar.

Flokkaskipti þingmanna.  Skoða þarf af alvöru slík mál.  Það er mótsögn í því að þingmaður fari með fylgi sitt í allt annan flokk en kaus hann.  Þarna þarf nýjar viðmiðunarreglur og þætti mér ekki óeðlilegt að slíkt sé leyfilegt 4-6 mánuðum fyrir lok kjörtímabils, en ekki fyrr. 

Meira síðar.  Hvað finnst þér?


Býð mig fram í 3-6. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi!

Kæru lesendur moggabloggs

Ég hef skráð mig í prófkjör Samfylkingarinnar á Kraganum sem mun fara fram með netkosningu félaga og skráðra stuðningsmanna Samfylkingarinnar dagana 12.-14. mars (fim-lau) nk.

Svanur SigurbjörnssonÞetta er í fyrsta sinn sem ég býð mig fram á lista til alþingiskosninga, en áður kom ég að stjórnmálastarfi í Frjálslynda flokknum og Íslandshreyfingunni.  Það kom aldrei til þess að ég byði mig fram með þessum flokkum því mér leist ekki nógu vel á gang mála hjá þeim þegar dró nær kosningum.  Valdabarátta og ósætti gekk að þeim fyrrnefnda nær dauðum og hinn þjáðist af óskipulagi og ólýðræðislegum vinnubrögðum.  Ég gekk því í Samfylkinguna 1 mánuði fyrir kosningarnar fyrir 2 árum.   Samfylkingin hefur höfðað til mín frá því að hún var stofnuð, en ég var ekki nógu sáttur við að mér fannst skorta á baráttu gegn kvótakerfinu og jafnræði lífsskoðunarfélaga (t.d. afnám ríkistrúar).  Þó að enn skorti þar á, hefur flokkurinn alla möguleika á því að bæta þar um og sá mannauður sem þar er, er grundvallarforsenda þess að hægt sé að koma góðum málum gegnum Alþingi.  Þau tæpu 2 ár nú sem ég hef verið í Samfylkingunni hafa sannfært mig um að hér sé flokkur sem hafi mestu möguleikana á því að gera þjóðinni hve mest gagn næstu árin.  Í framboði nú í prófkjörinu í SV-kjördæmi er jafnt hlutfall kvenna og karla, en það ber því vitni að flokkurinn hefur náð þeim þroska að hann höfðar jafnt til beggja kynja.  Þetta er einn sá besti gæðastimpill sem flokkur eða félag getur fengið. 

Í mínum huga eru það tvenns konar málefni sem skipta okkur mannfólkið mestu.   Það eru annars vegar lífsskoðunarmál og hins vegar stjórnmál.  Þessi mál skarast oft og eru hver öðru háð.

Lífsskoðunarmálin varða siðferði okkar, tengsl, fjölskyldulíf og hverju við trúum að sé gild þekking.  Þau snúast einnig um félög og leiðtoga tengdu þessu.  Trúarleg lífsskoðunarfélög eru fjölmennust og trú á guð eða guði hefur ráðið hugum margs fólks með góðu eða illu um þúsundir ára.  Veraldleg lífsskoðunarfélög (húmanistar, efahyggjufólk, skynsemishyggjufólk o.fl.) hafa fengið að anda frjálst í aðeins nokkra áratugi þó hugmyndafræði þeirra sé miklu eldri og má t.d. rekja til ýmissa hugsuða Forn-Grikkja.  Lífsskoðunarmálin eru f.o.f. mikilvæg því þau taka afstöðu til þess hvernig við breytum siðferðilega og innifala spurningar og svör um það hvaðan siðferði okkar kemur.  Lög og mannréttindi byggja algerlega á siðferðinu og því hafa lífsskoðanir veruleg áhrif á þjóðfélagsgerðina og réttarfarið.  Þær eru því valdamiklar og afdrifaríkar, rétt eins og stjórnmálaskoðanir.  Það vald sem þær fela í sér er best aðskilið frá öðrum valda- og menntastofnunum ríkisins, því út á það gengur trygging lýðræðisins.  Valddreifingin er líflína siðaðs þjóðfélags og forsenda þess að ekki skapist spilling.  Við Íslendingar stöndum okkur ekki nógu vel í þessu tilliti.

Stjórnmálin ganga út á það hvernig við getum lifað farsællega saman í landfræðilega afmörkuðum hrærigraut og í sátt við aðra grauta heimsins.  Í gegnum mannkynssöguna er afrekalisti okkar mannanna hreint hörmulegur.  Það er mesta furða að við höfum ekki endanlega tortímt hvort öðru og miklu af öðru lífi jarðarinnar með.  Þrátt fyrir djúpa efnahagskreppu nú hafa síðastliðin 64 ár friðar á milli stórvelda gefið tilefni til bjartsýni og ástæðu til að brosa (sjá mynd af mér ;-)  Hugmyndum okkar um mannréttindi og framkvæmd þeirra hefur fleygt fram, en því miður hefur mikill fjölda þjóða utan hins vestræna heims ekki notið ávaxtanna af þessu.  Við skynjum æ meir að mannkynið er ein heild og afdrif fátækra í Afríku eða Indlandi varða okkur öll.  Við viljum geta skoðað alla náttúru heimsins og ferðast án þess að óttast um öryggi okkar.  Siðferðisvitund okkar krefst þess nú að við kaupum ekki bara kaffi á hræódýru verði því kaffibóndinn í Guatemala á ekki að vera þræll, heldur njóta sanngirni og virðingar eins og við teljum sjálfsagt hér heima.  Slíkt minnkar einnig áhuga þeirra á því að rækta plöntur fyrir eiturlyf og það minnkar líkur á notkun eiturlyfja hér heima. 

Stjórnmálin ganga út á að:

  • Halda vörð um dýrmæt siðferðisgildi, t.d. verndun lífs, frelsis og eigna fólks með lögum og réttarkerfi.  Gæta mannréttinda.
  • Búa til samtryggingu
    • Fjárhagsleg - varasjóðir, félagsaðstoð, húsnæðiskerfi
    • Heilsufarsleg - heilbrigðiskerfi, hreinlæti o.s.frv.
    • Menntunarleg - fólk geti menntað sig óháð efnahag.
    • Menningarleg - verndun og vöxtur menningu.  Söguritun og fornleifar.
  • Byggja upp sameiginlega aðstöðu til að ferðast og koma saman.  Samgöngukerfi.
  • Reka eða styðja við ákveðna atvinnuvegi - stundum bara til að koma á legg, stundum alla tíð.
  • Tryggja samráðsvettvang og fjölmiðlun - flæði upplýsinga til allra
  • Hafa samskipti og samvinnu (og viðskipti) við aðrar þjóðir og bandalög þjóða.
  • Vernda umhverfið og hindra spillingu landsins.   Gæta að öðru dýralífi. ;-)
  • Tryggja dreifingu valds og stefna að sem mestri hamingju fyrir sem flesta. 

Síðast en ekki síst er það stjórnmálanna að greina á milli þess sem ríkið á að skipta sér af eða tengjast og þess sem það á að láta vera utan sinna anga.  Þetta er mikilvægt bæði vegna þess að ríkið á ekki að láta fé í starfsemi sem á að vera rekin af óháðum aðilum og vegna þess að ríkið þarf að halda jafnræði og hlutleysi gagnvart ólíkum þegnum sínum. 

Ríkið á fyrst og fremst að tryggja farvegi og aðstöðu, en ekki vera handbendi eða sjóður fyrir forréttindahópa.  Það virðist sem að þetta ættu allir að skilja, en raunveruleikinn er annar í íslensku þjóðfélagi.  Hér ríkir mismunun á ýmsum sviðum:

  • Launamisrétti kvenna og karla - enn eigum við nokkuð í land, heil 15% eða svo.
  • Atvinnuréttindi í sjávarútvegi - kvótakerfi í bága við mannréttindi (skv. MRNSÞ)
  • Hagkerfi sem þjónar vel fyrirtækjum en illa einstaklingum.  Fólkið situr í súpunni og þarf að greiða alls kyns gjöld tengd lánum og húsnæðiskaupum.  Launafólkið ber skattbyrðarnar.
  • Undanfarin 17 ár hafa stöðuveitingar verið veittar flokksgæðingum xD og xB.  Gengið fram hjá hæfu fólki sem stöðuveitinganefndir hafa mælt með. 
  • Lífsskoðunarfélögum mismunað og haldið uppi ríkistrú.  Ímyndið ykkur að einn stjórnmálaflokkur yrði sérstaklega verndaður með stjórnarskrárákvæði, sem "þjóðflokkurinn" og um hann mætti aldrei kjósa því hann hefði flesta skráða félaga frá fæðingu.  Það er ekki siðaðri þjóð sæmandi að hafa ríkistrú í formi þjóðkirkju, sem auk milljarða króna í fyrirgreiðslum og launum, fær sérstakan aðgang að hugum þingmanna fyrir hverja þingsetningu.  Trúarleg lífsskoðunarfélög utan þjóðkirkjunnar fá smá kökubotn (sóknargjöld) en veraldleg lífsskoðunarfélög (aðeins Siðmennt nú) fá ekki einu sinni mylsnu.  Ljótt mál!
  • Jafnréttislöggjöf á Íslandi er um 15 árum á eftir ESB og það vantar skilvirkt eftirlitskerfi t.d. stjórnsýslustofnun sambærileg við Jafnréttisstofu.  Tryggja þarf betri og auðveldari aðgang að dómskerfinu.  Lög þurfa að ná til fjölþættrar mismununar og fleiri jaðarhópa.
  • Innleiða þarf alla ESB löggjöfina um bann við mismunun en ríkisstjórnir xD hafa talið það óþarfa í sinni valdatíð.

Úr þessum málum og fleirum vil ég að bætt verði úr.  Ég mun útlista það frekar í blogggreinum og víðar á næstu 2 vikum.   Af mörgu er að taka og siðferði stjórnmálanna sjálfra er eitt af þeim mikilvægustu málum sem taka þarf til hendinni í.  Vinnubrögð ríkisstjórna, ráðherraveldið og fleira þarf gagngera endurskoðun. 

Ég leita eftir stuðningi félaga í Samfylkingunni (eða skráðra stuðningsmanna) í SV-kjördæmi til að berjast fyrir þessum málum á Alþingi og til þess þarf að kjósa mig í 3-6. sæti í prófkjörinu, helst 4. eða 5. sæti. 

Hér má sjá nánar um reglur og fyrirkomulag prófkjörsins ásamt lista yfir alla frambjóðendur.

Svanur Sigurbjörnsson


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband