Færsluflokkur: Heimsspeki og siðfræði

Kompás leiðir líkur að stórfelldu misferli af hálfu stjórnanda á meðferðarheimilinu Byrginu

Það er stórvafasamt fyrir fjölmiðla að vasast í möguleg sakamál en ég skil samt löngun þeirra að Guðmundur Jónssson forstöðumaður Byrgisinsvilja fletta ofan af einhverju sem lítur ekki vel út.   Hættan við þetta er sú að sýnd séu gögn í röngu samhengi þannig að sök gæti virst mun stærri en í raun er, nú eða einhver bendlaður við mál að ósekju.  Dóm götunnar er erfitt að taka til baka.  Í svona málum þarf mikillar nákvæmni við og gæta þess að allar upplýsingar séu réttar og metnar út frá vitnisburði allra.  Þetta ætti því að vera í höndum rannsóknarlögreglu.

En hvað á að gera ef stjórnendur svona stofnunar, starfandi fagaðilar þar, heilbrigðisyfirvöld, fjármálaeftirlit og lögregluyfirvöld standa sig ekki?  Hvað á að gera ef það er ekki hlustað á þetta fólk sem kvartar?  Ef enginn þorir að kæra þó nægar ástæður séu fyrir hendi?  Verða þá ekki einkaaðilar með hjálp fjölmiðla að grípa inní?  Einhvers staðar þarf að byrja baráttuna og fjölmiðlar hafa geysilegan áhrifamátt og því óbeint vald til þess að hreyfa við hlutum.   Ég er ekki viss um að það sé alltaf hægt að álasa fjölmiðlum fyrir svona umfjöllun.  Fjölmiðlar eru nokkurs konar sjáaldur þjóðarinnar og þessar fréttir hljóta að hafa nokkurn fælimátt gagnvart illvirkjum.

Í kjölfar svona frétta hefur skort vitræna siðferðislega umræðu um hlutverk fjölmiðla og fólk hefur varpað fram ásökunum fram og til baka.  Það er auðvelt að áfellast fjölmiðla, sérstaklega ef sá aðili sem um er rætt fremur sjálfsmorð, en ég held að hvert tilfelli verði að skoða fyrir sig.  Málfrelsi þarf að koma með ábyrgð og hina ýmsu siðferðislegu verðmæti eða hagsmuni þarf að meta hverju sinni.  Ég sé t.d. ekki tilgang í því að birta frétt um útbrunninn glæpamann sem er hættur að vera nokkrum ógnun en meti þáttagerðamaður það svo að efnið sé áríðandi vegna tregðu í löggæslu- og réttarkerfinu, neyðar þolenda og hugsanlegrar áframhaldandi hættu af brjótanda, get ég hugsanlega séð að varfærin frétt um málið þjóni tilgangi og geti verið til gagns þegar á heildina er litið.  Í því sambandi þarf að taka í reikninginn að ættingjar brjótanda geta liðið fyrir fréttina og því þarf ástæðan fyrir birtingunni að vera þeim mun sterkari. 

Í þessu tilviki þar sem maðurinn er umsjónarmaður meðferðarheimilis er um mjög stóra hagsmuni að ræða, þ.e. hagsmuni mikils fjölda fólks.  Heilsa og líðan margra til ófyrirséðrar framtíðar er í húfi.  Þá virðast einnig miklir fjárhagslegir hagsmunir í veði.  Sé um mikla sóun á fé ríkisins til meðferða að ræða er það stóralvarlegt mál.  Margar heilbrigðisstofnanir eru sveltar fjárveitingum og þurfa sífellt að skera við nögl og takmarka starfsemi sína.  Það er verulega alvarlegt mál ef tugum milljóna króna er skotið undan af ófaglæruðum aðilum sem byggja meðferðir á halelújasamkomum og múgsefjun.   Þetta er bæði fjárhagslegt og faglegt ábyrgðarleysi af hálfu yfirvalda.  Svona starfsemi á ríkið ekki að styðja. 

Guðmundur leggur hendur á í ByrginuÞað þarf að koma trúarofstæki út úr áfengis- og fíkniefnameðferðum.   Það samræmist ekki mannréttindum né faglegum starfsaðferðum að fólk sé ítrekað hvatt til að trúa á æðri mátt í svokallaðri tólf spora meðferð sem ekki virðist mega hreyfa við.  Það er margt gott í þessum sporum og víkur það að innri skoðun og breytingu á hegðun en tengingu þeirra við trúarbrögð þarf að linna.  Í byrginu virðist hafa farið fram öfgakennd útgáfa af þessum tólf sporum og kristni.  Það er stutt í öfgarnar þegar opnað er á "fagnaðarerindið".   Sjálfmiðað fólk getur notfært sér veikleika eiturlyfjaneytenda og notað erindi í biblíunni til að véla fólk til ákveðinna skoðana og hegðunar.  Þegar trúariðkun er í höndum slíkra glæpamanna er ekki spurt "af hverju".  Fólkið bara fylgir og hlýðir.

Vonandi kemur eitthvað jákvætt út úr þessari frétt Kompás þó mörg munu tárin falla.  Það er deginum ljósara að meðferðarkerfi fíkla þarf að skoða vandlega og ríkið og heilbrigðiskerfið þarf að taka fulla ÁBYRGÐ!

 

 


Frjálslyndir sættast

Í gær tókust sættir á milli þingmanna og framkvæmdarstjóra (og ritara) Frjálslynda flokksins á góðum miðstjórnarfundi á Kaffi Reykjavík.  Þar sem framundan er landsþing í lok janúar og líklegt að Margrét Sverrisdóttir bjóði sig fram til varaformanns eða jafnvel formanns var talið rétt af sáttanefnd að Margrét tæki sér leyfi sem framkvæmdarstjóri flokksins fram yfir landsþingið í því skyni að jafna aðstöðu forystumanna flokksins í þeirri kosningabaráttu.  Þó að ekki væri endilega ljóst hvernig Margrét hefði af því sérstakan hag að vera í framkvæmdastjórastöðu flokksins eða hvort að líklegt væri að hún myndi nokkurn tíma misnota slíka aðstöðu, þá féllst Margrét á tillögu sáttanefndar miðstjórnar.  Að auki benti sáttanefndin á að það þjónaði einnig hagsmunum Margrétar að vera laus við skyldur sem framkvæmdastjóri flokksins þennan tíma.  Guðjón Arnar taldi fjármálum flokksins samt best falið í hennar höndum áfram og bað hana um að sinna því áfram þó hún færi í leyfi.  Hún samþykkti það enda alltaf öll af vilja gerð að taka á sig ábyrgð og sinna mikilvægum málum fyrir flokkinn.  Það fer svo eftir úrslitum kosninga á landsþingi hvort að Margrét heldur áfram sem framkvæmdastjóri eða annar forystumaður flokksins að því loknu.

Margrét verður áfram í framkvæmdastjórn flokksins sem kosinn ritari hans og mun þannig koma að undirbúningi landsþingsins.  Þá mun það lenda óhjákvæmilega á henni að þjálfa nýjan starfsmann í stöðu framkvæmdarstjóra þingflokks.  Engin ráðning liggur fyrir að svo komnu.  Þessi starfsmaður mun væntanlega einnig fá verkefni við að undirbúa landsþingið en það liggur e.t.v. ekki ljóst fyrir nú.  Miðstjórnin skipaði undirbúningsnefnd fyrir landsþingið sem skipuð er af Guðjóni Arnari Kristjánssyni formanni, Sólborgu Öldu Pétursdóttur og Eyjólfi Ármannssyni miðstjórnarmönnum. 

Þrátt fyrir að betri skilningur og ró hafi komist á í miðstjórninni er framundan kosningarbarátta sem gæti haft talsverð áhrif á flokkinn, sérstaklega ef Margrét byði sig fram í sæti formanns.  Þar sem ákveðið traust hefur byggst upp að nýju og öldurnar hefur lægt tel ég farsælast fyrir flokkinn og málefnabaráttu hans að ekki verði farið í kapp um formannssætið.  Hvað sem verður vona ég að allir aðilar fari fram á eigin verðleikum og sýni ítrustu sanngirni í allri umfjöllun um keppinautinn.  Hér er allt fært fólk á ferðinni sem á að þola samkeppni. 

Vera mín í miðstjórn Frjálslyndra frá því ég var kosinn í hana á landsþinginu 2005 hefur verið mjög ánægjuleg.  Miðstjórnin er mjög samstillt og nú í þessum erfiðu málum í kjölfar aðkomu Jóns Magnússonar að flokknum og breytilegra viðbragða flokksmanna við því hefur hún sýnt að styrkur hennar til að takast á við ágreining af ábyrgð og festu, er mikill. 

Ljóst er að baráttumál Frjálslynda flokksins eru aðal atriðið.  Við höfum ekki efni á því að tvístra baráttunni í margar fylkingar.  Mikilvægast er að viðhalda lýðræðislegum vinnubrögðum og þroska siðferði í stjórnmálum, ekki síst í innra starfi flokkanna.  Forystufólk á að velja eftir getu þeirra til samstarfs, málefnalegs þroska og getu til málflutnings, skrifa og lýðræðislegrar stjórnunar.   Fólk sem býður sig fram verður að muna að það er ekki öllu fórnandi fyrir embætti.  Tilgangur stjórnmála er m.a. að bæta siðferði og skyldi hver og einn byrja á siðferðislegri tiltekt í eigin túni.


Siðmennt aðili að Mannréttindaskrifstofu Íslands

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

---------------------------------------------------

Siðmennt aðili að Manréttindaskrifstofu Íslands

Aðalfundur Mannréttindaskrifstofu Íslands MRSÍ, sem haldinn var í byrjun desember, samþykkti að veita Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi, aðild að samtökunum.

Starf MRSÍ að mannréttindamálum fellur vel að grundvallar baráttumálum húmanista sem flest snerta mannréttindi á einn eða annan hátt. Starfssemi MRSÍ, sem óháðs aðila, hefur verið ein af meginstoðum mannnréttindastarfs á Íslandi en þrátt fyrir það hefur starfssemin ekki notið óskoraðs stuðnings stjórnvalda til þess að sinna mikilvægu hlutverki sínu.

Starf húmaniskra samtaka eins og Siðmenntar hefur fyrst og fremst snúið að grundvallar mannréttindum s.s. lýðræði, trúfrelsi m.a. baráttu fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og baráttu gegn trúboði í skólum, jafnræði samkynhneigðra í þjóðfélaginu, jafnræði lífsskoðanna, jöfnum réttindum kvenna og karla, réttindi fatlaðra á við aðra í þjóðfélaginu svo stiklað sé á nokkrum baráttumálum. Þá hefur Siðmennt hvatt til að heimilaðar verði stofnfrumrannsóknir til þess að nýta megi vísndauppgötvanir til þess að auka möguleika á því að minnka þjáningar fólks sem veikist af alvarlegum sjúkdómum eins og Alzheimer, Parkinsonsveiki og aðra alvarlega sjúkdóma. Helsta baráttumál Siðmenntar nú er að félagið öðlist jafnan rétt á við önnur trúar- og lífsskoðunarfélög með lagasetningu þar um.

Aðalfulltrúi Siðmenntar í stjórn MRSÍ er Bjarni Jónsson en Hope Knútsson er varafulltrúi.

----------------------------------------------------------------------

Húmanistaviðurkenningin 2006Ég fagna með Siðmennt í tilefni þessa góða áfanga í starfi félagsins.  Siðmennt hefur nú í tvö ár veitt sérstaka húmanistaviðurkenningu þeim sem hafa skarað fram úr í mannréttindabaráttu á Íslandi.  Í fyrra var Samtökunum '78 veitt viðurkenningin fyrir ötula baráttu fyrir samkynhneigða og í ár var Ragnari Aðalsteinssyni hdl veitt viðurkenningin fyrir áralanga mannréttindabaráttu á lagasviðinu.  

Það er von mín að ríkistjórnin rétti hlut MRSÍ og veiti þeim mun meira fjármagn til rekstrar en áður hefur verið.  MRSÍ er undirmönnuð en þar er unnið mikið og gott starf undir framkvæmdastjórn Guðrúnar D Guðmundsdóttur.  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband