Færsluflokkur: Húmanismi

Lífsskoðanir – hvað er húmanismi?

Húmanistar eru þeir einstaklingar sem aðhyllast svokallaðan húmanisma (manngildishyggju) en hann hefur í raun fylgt manninum frá örófi alda þó að skilgreiningin sjálf sé ekki nema um 150 ára gömul.  Húmanismi birtist t.d. í því að manneskjan hefur þurft að reiða sig á rökvísi sína, fyrirhyggju og jákvætt samstarf við annað fólk til þess að komast af.  Þegar við lýsum tegundinni manninum (homo sapiens) sem „hinum viti borna manni“ erum við í raun að höfða til kjarna húmanismans.  Það er geta mannsins til að skoða umhverfið og finna í því eiginleika sem eru jafnvel utan beinnar skynjunar skilningarvitanna og nota þá sér í hag.  það er hin greinandi hugsun og getan til að búa til verkfæri og flytja þekkinguna á milli kynslóða.

Lífsskoðanir  (life stance) eru samansafn þeirra hugmynda sem líta að því hvernig við horfum á heiminn, hvernig við útskýrum lífríkið og náttúruna og hvaða aðferðum við viljum beita til að afla nýrrar þekkingar (þekkingarfræði) og vita hvernig við eigum að hegða okkur gagnvart hvert öðru og umhverfi okkar (siðfræði).   Þá eru menningarlegar hugmyndir um framkvæmd mannfagnaða vegna persónulegra lífsáfanga og tryggðarbanda oft samofinn hluti af lífsskoðunum fólks.  

Þekkingarfræði húmanista byggir á því að notast einungis við rökfræðilegar (vísindalegar) aðferðir og tilraunir á hinum þekkta efnisheimi til að afla staðreynda um heiminn, lífið og tilveruna.  Húmanismi (manngildishyggja) byggir á mannvirðingu, einstaklingsfrelsi, samábyrgð, lýðræði og vísindalegri aðferðafræði.  Skynsemishyggja (rationalism) og veraldarhyggja (secularism) eru ríkir þættir í húmanisma. 

lífsskoðunarfélögum má skipta í annars vegar trúfélög og svo aftur veraldleg félög sem ekki trúa á guð eða guði eins og Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi.   Hin almenna skilgreining á trú er sú að fylgjandinn trúi á einhvers konar æðri mátt eða guðlegan anda.  Húmanistar eru því ekki trúaðir og eiga það sameiginlegt með trúleysingjum  (non-believers) og guðleysingjum (atheists).   Guðleysi og trúleysi eru hins vegar mun afmarkaðari hugtök en manngildishyggja því þau skilgreina í raun einungis að manneskjan sé ekki trúuð, burt séð frá öðrum lífsskoðunum hennar.  Það eru því til trúleysingjar sem gætu ekki talist til húminasta þó trúleysið sé þeim sameiginlegt.  

Á meðal lífsskoðana má einnig telja skoðanir fólks á stjórnmálum þó svo flest lífsskoðunarfélög (þ.m.t. trúfélög) taki oftast ekki sterka pólitíska afstöðu.   Það er þó ljóst að trúfélög hafa áhrif á stjórnmál  því siðferðislegar hugmyndir eru nátengdar pólitík og lagagerð.   Húmanistar styðja lýðræðislega skipan þjóðfélaga, jafnrétti kynjanna, trú- , tjáningar- og lífskoðunarfrelsi, jafnan rétt til náms og afnám dauðarefsingar.    

Þá telja húmanistar að veraldlegur (secular) grunnur laga, stjórnskipulags, dómskerfis, menntunar og heilbrigðiskerfis verði að vera fyrir hendi til að tryggja jöfnuð og trúarlegt hlutleysi hins opinbera.   Sagan hefur sýnt að trú og stjórnmál eru ákaflega ófarsæl blanda sem leitt hefur til alls kyns ójöfnuðar og tíðra stríða milli þjóða eða þjóðarbrota.  Í Tyrklandi nútímans má sjá baráttu hins veraldlega og betur menntaða hluta þjóðarinnar við hin trúarlegu afturhaldsöfl sem hafa náð þar völdum.  

Í mörgum samfélögum hafa  „veraldleg“ og „húmanísk“ viðhorf í flestum tilvikum farið saman.   Á því eru þó undantekningar og það má segja með nokkru réttu að kommúnisminn hafi verið veraldlegur þar sem hann byggði ekki á trú.  Hann var hins vegar alls ekki húmanískur því hann gekk á móti mikilvægum siðferðisgildum eins og lífsskoðunarfrelsi, tjáningarfrelsi og lýðræði.   Það þarf því meira en veraldlega skipan (skipulag án trúar) hins opinbera til að skapa réttlátt og siðferðislega þroskað þjóðfélag.   

Veraldleg skipan verður þó alltaf hornsteinn þess að vernda þegnana gegn kreddufullum trúarkenningum og trúboði.  Ísland öðlast ekki fyllilega veraldlega skipan fyrr en við hættum að halda þjóðkirkju og afnemum forréttindi trúarbragða úr lögum og stjórnarskrá landsins.  Aðskilja ber ríki og trú, opinbera starfsemi og kirkju.

  Þessi grein var birt í Fréttablaðinu 13. september en í styttri útgáfu án samráðs við mig.  Ég kann Fréttablaðinu því 2/3 þakkir fyrir birtinguna.  Wink  Hér geta áhugasamir lesið greinina alla. 


Til útskýringar á hugtökum og orðum

Undanfarin blogg hafa mörg hver innihaldið myndbönd þar sem umræða um trúarbrögð (religion) og hinar ýmsu lífsskoðanir og hugtök þeim tengd hafa komið fram á ensku.  Fyrir þá sem eru ekki vanir að hlusta á ensku sem tengist þessum málum getur verið erfitt að skilja öll þau orð og hugtök sem notuð eru í þessum myndböndum.  Ég ætla því að setja hér nokkrar þýðingar og útskýringar á nokkrum þeirra.

Religion - trúarbrögð, faith - trú

Life stance organization - lífsskoðunarfélag, þ.e. félag sem hefur ákveðnar stefnur í lífsskoðunum eins og hvað sé gott siðferði, hvernig heimsmyndin sé (útskýring á lífríkinu og stöðu jarðarinnar í alheiminum) og hvernig þekkingu sé best aflað (vísindalega eða með öðru móti), hvort yfirskilvitegar verur eða æðri verur / guðir / guð sé til og hvernig fagna eigi ýmsum áföngum í lífinu (nefning, ferming, gifting) og kveðja / minnast hinna látnu (útför).  Lífsskoðunarfélögum má skipta í tvo megin flokka, annars vegar trúfélög og hins vegar veraldleg félög með sömu viðfangsefni.  Siðmennt, félag siðrænna húmanista, er dæmi um hið síðar nefnda.  Lífsskoðunarfélög eru ekki valdafélög eins og stjórnmálaflokkar en geta haft talsverð áhrif á lífssýn fólk hvað stjórnun og lagagerð varðar.  Það er því talsverð skörun á sviði stjórnmálaflokka og lífsskoðunarfélaga.

Islam - Íslam, þ.e. annað hvort hin íslamska trú sem slík eða samheiti yfir öll þau landssvæði í heiminum þar sem íslömsk trú (múhameðstrú) er iðkuð.  Á arabísku þýðir orðið "undirgefni" eða alger hlýðni við Guð múhameðs spámanns.  Fylgjendur Íslam eru kallaðir múslimar.

Islamist - Íslamisti, er komið af orðinu islamism eða íslamshyggja sem byggir á því að áhrifa Islam eigi ekki bara að gæta í trúarlífinu heldur einnig í pólitík og stjórnarfari íslamskra þjóða.  Íslamistar eru þeir/þær því kallaðir sem fylgja slíku og vilja halda uppi trúarlögum Íslam í stað veraldlegra þingsettra laga.  Lög Islam kallast sharia.  Íran er dæmi um land þar sem sharia lög eru við lýði.  Tyrkland hefur aftur haldið þeim að mestu frá.

Hijab, burka - arabísk orð yfir trúarklæði kvenna á meðal múslima.  Burkan hylur allt nema augun.  Veil - blæja eða hula.

Intimidation - það að draga kjark úr með hótunum eða ógnunum

Secularism / secularity - veraldarhyggja, þ.e. sú stefna að trúarbrögð og kirkjudeildir séu aðskilin frá hinu opinbera og hafi ekki pólitísk völd í þjóðfélögum.  Sönn veraldarhyggja kveður á um að trúarleg starfsemi fari ekki fram í menntakerfinu, dómskerfinu, heilbrigðiskerfinu, lagakerfinu, þinghaldi og öllum opinberum rekstri. 

secular - veraldlegur.  Lýsingarorð yfir starfsemi, stofnanir, þjóðfélög, lífsskoðanir og aðra þá hluti sem eru ekki trúarlegir og byggja ekki á trú.  Dæmi: secular funeral - veraldleg jarðarför.  Secular socitey - veraldlegt þjóðfélag.   Secular þjóðfélög eru ekki endilega án starfandi trúfélaga en eru alveg eða að mestu byggð á stjórnskipan og valdakerfi sem starfa óháð trúarbrögðum eða kirkjudeildum. 

Transgression - brot gegn ríkjandi lögum. 

misogynist religion/society - trúarbrögð eða þjóðfélög sem beita konur misrétti

Apologist - Afsakandi eða verjandi, þ.e. persóna sem heldur uppi vörnum fyrir stefnu, trú eða lífsskoðanir sem sæta mikilli gagnrýni.  Orðið er jafnan notað af þeim sem heldur uppi gagnrýninni.

Atheist - Guðleysingi eða trúleysingi.  Manneskja sem trúir ekki á tilvist æðri máttarvalds.  Það er algengt á vesturlöndum að trúleysingjar séu einnig húmanistar en það fer ekki alltaf saman.

Humanist - húmanisti, manngildishyggjumaður, þ.e. persóna sem er trúleysingi en jafnframt fylgjandi lífsskoðunum sem byggja á mannvirðingu, einstaklingsfrelsi, samábyrgð, lýðræði og vísindalegri aðferðafræði.  Skynsemishyggja (rationalism) og veraldarhyggja (secularism) eru ríkir þættir í húmanisma.  Maryam Namazie er húmanisti og virkur meðlimur í Breska húmanistafélaginu.   Siðmennt er félag siðrænna húmanista á Íslandi.  Hope Knútsson er formaður þess.

Cultural relativism - Menningarleg afstæðishyggja, eða moral relativism - siðferðisleg afstæðishyggja, þ.e. sú skoðun að siðferði fari eftir menningarheimum og að það sé afstætt hvað sé rétt eða rangt á hverjum stað.  Fylgjendur þessarar stefnu eru oft á móti því að gagnrýna aðra menningarheima og segja að það sé t.d. ekki okkar í hinum vestræna heimi að skipta okkur af venjum og lífsmáta t.d. austurlandabúa.  Það sé jafnvel ekki okkar að hafa nokkuð um það að segja hvernig menningarhópar í sérstökum hverfum hér hagi sínum málum, svo lengi sem það hafi ekki áhrif út fyrir þeirra raðir.  Þessi stefna er oft kennd við svokallaðan póstmodernisma.

Universal values, universal rights, natural rights - algild siðferðisgildi eða réttindi um allan heim, eða náttúruleg réttindi allra manna.  Þessi hugtök þróuðust í upplýsingunni og boðuðu að allt fólk óháð stétt eða stöðu ætti ákveðin réttindi.  Afkvæmi þessa voru mannréttindin.  Þessi stefna er ólík afstæðishyggjunni því hér er talið að allir eigi ákveðin grundvallarréttindi óháð menningu, þjóðerni eða trúarsamfélagi.   Húmanistar (þ.á.m. Maryam Namazie) eru þessu fylgjandi.

Þetta eru mikilvægustu hugtökin en sjálfsagt má bæta eitthvað við.  Vonandi kemur þetta einhverjum að gagni t.d. við lestur greina í The International Humanist News, en það er geysilega gott rit um baráttu húmanista um allan heim fyrir bættum mannréttindum og brotthvarfi hindurvitna.  Í marsblaði 2006 eru margar greinar um Islam og í nýjasta blaðinu, ágúst 2007 er fullt af greinum um mannréttindamál kvenna, m.a. grein Maryam Namazie um blæjuna.


Spurningar til Maryam Namazie í Odda 6. sept 07

Hér fer video frá fyrirspurnartímanum eftir fyrirlestur Maryam Namazie í Odda þann 6. september s.l.  Þar ber margt á góma og var ánægjulegt að sjá að hún fékk stuðning á meðal Írana sem voru þar að hlusta á.  Í lokin svaraði hún spurningunni "Er nokkur von?" á skemmtilegan máta.  

Þetta er síðasta myndbandið frá heimsókn Maryam Namazie hingað.  Hún er að mínu viti en merkasta baráttumanneskja fyrir mannréttindum sem ég hef séð hin síðari ár og það gladdi mig mikið að fá að njóta þess að hlusta á hana hér heima.  Heimurinn í dag þar sem trúarbrögð eru álitin yfir gagnrýni hafin kann eflaust ekki fyllilega að meta hana en ég á von á því að það muni breytast talsvert á næstu 5-10 árum.  Kynnið ykkur boðskap þessarar merku konu.


Fyrirlestur Maryam Namazie í Odda 6. sept 2007

Hér að neðan fer upptaka mín á fyrirlestri Maryam Namazie í Odda, Háskóla Íslands, þann 6. september s.l.

Fyrirlestur hennar fjallaði m.a. um Ráð fyrrum múslima, baráttuna gegn pólitísku Íslam og réttinn til þess að láta af trú.  Henni var ákaflega vel tekið á þessum fundi sem fór frami fyrir troðfullum sal.  Ég birti fyrirspurnartímann síðar.


Stórmerk baráttukona heimsækir Ísland

Í byrjun september mun baráttukonan og húmanistinn Maryam Namazie heimsækja Ísland í boði Alþjóðamálastofnunar Hí, Siðmenntar og Skeptikus. Hún mun halda hér tvo opinbera fyrirlestra dagana 5. og 6. september.

Sá fyrri verður þann 5. september í boði Kvenréttindafélags Íslands sem stendur fyrir s.k. súpufundi kl. 12:00 í samkomusal Hallveigastaða. Á fundinum mun Maryam Namazie flytja erindi er nefnist: "Women´s Rights, the Veil and Islamic Rule", sem á íslensku merkir "Réttindi kvenna, blæjan og íslamskt yfirvald".

Sá síðari verður þann 6. september kl. 12:15-13:15 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, flytur hún fyrirlesturinn "Afneitun trúarinnar, fyrrum múslímar og áskoranir pólitísks islams"
Maryam Namazie flytur erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar, Siðmenntar og Skeptíkusar. Maryam Namazie fjallar um afneitun trúarinnar, fyrrum múslima og þær áskoranir sem pólitískt islam stendur frammi fyrir. Hér fjallar hún um uppgang pólitísks íslams í Evrópu og leiðir til að sporna gegn því.

Maryam Namazie

Maryam Namazie er baráttukona, álitsgjafi og útvarpskona um málefni Írans, Austurlanda nær, kvenréttinda, menningarlegrar afstæðishyggju, veraldarhyggju, húmanisma, trúarbragða, Íslams og hins pólitíska Íslams.

Hún er talsmaður Ráðs fyrrum múslima í Brétlandi. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir sleitulaus störf sín í þágu mannréttinda.

Maryam Namazie fæddist í Íran en fluttist síðar með fjölskyldu sinni til Bretlands. Hún hlaut síðar menntun sína í Bandaríkjunum þar sem hún bjó um nokkurt skeið. Hún er nú búsett á Bretlandi og hefur látið mjög að sér kveða í gegnum tíðina hvað varðar mannréttindi kvenna, Íslam, flóttamenn, Íran og. fl.

Frekari upplýsingar um Namazie er að finna á heimasíðu hennar og bloggsíðu

Í tilefni komu þessarar aðdáunarverðu konu hef ég þýtt grein hennar

Blæjan og ofbeldi gagnvart konum í íslömskum þjóðfélögum

með leyfi útgefanda úr International Humanist News, ág. 2007 og birt í fullri lengd á vef Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi.

Hér fer kröftug ræða hennar á blaðamannafundi þegar Ráði fyrrum múslima í Brétlandi var ýtt úr vör

 


Hefði gert slíkt hið sama

Það er ekki tilviljun að Björn Bjarnason fékk svona margar yfirstrikanir.  Það er ekki einungis Jóhannes í Bónus sem er ósáttur við hans gjörðir.  Ég er ósáttur við að Björn hefur ekki sýnt réttindabaráttu húmanista á Íslandi neinn skilning.  Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur tvisvar sótt um sömu réttindi og trúfélög fá, þ.e. að fá skráningu og sóknargjöld gegnum ríkið en var hafnað af nefnd dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.  Björn sýndi engan skilning.  Svo frá janúar 2006 hefur Siðmennt reynt að fá í gegn lagabreytingartillögu þess efnis að lífsskoðunarfélög eins og Siðmennt (þ.e. félag sem hefur siðferðisboðsskap og lífssýn, sér um félagslegar athafnir eins og fermingar og hefur sýnt fram á samfellu og staðfestu í starfi) fái sömu lagalegu stöðu og trúfélög.  Til þess að fá fram lagabreytingu þarf að fara í gegnum stjórnarflokkana og bað Siðmennt Allsherjarnefnd að taka upp lagatillöguna en nefndin sýndi henni takmarkaðan áhuga en nokkurn skilning.  Siðmennt bað Björn Bjarnason um það sama en hann sendi svarbréf þar sem hann sagði að Siðmennt gæti starfað eins og hvert annað félag í landinu og hann hefði annað við tímann að gera.  Sem sagt hin kristni Björn sýndi réttindamálum húmanista engan áhuga og algert skilningsleysi. 

Þó að Siðmennt sé lítið félag eða með rétt rúmlega 200 skráða félaga, er það nálægasti lífsskoðunarfulltrúi um 19.1% (+/- 2.6%) landsmanna sem telja sig "ekki trúaða" (könnun Gallup feb-mars 2004 um trúarlíf Íslendinga).   Flestir trúleysingjar eru húmanistar í lífsskoðun, þ.e. treysta á siðferði reist á rökum og skynsemi en ekki heilögum bókum eða æðri mátt.  

Þjóðfélagið er í heild sinni að mestu veraldlegt og er það vegna þjóðfélagslegra framfara sem af stórum hluta má rekja til hugmynda húmanista um vísindi og lýðræði.  Vissir forn-Grikkir (sjöttu öld f. at.) eins og Þales ("þekktu sjálfan þig"), Anaxagóras (fyrsti fríþenkjarinn, lagði grunn að vísindum), Prótogóras og Demókrítus sem gerðu sér ljóst að siðferðishugsun byggðist ekki á trú á hið yfirnáttúrulega.  Períkles var nemandi Anoxogórasar og hann hafði áhrif á þróun hugmynda um lýðræði, hugsanafrelsi og afhjúpun hjátrúar og hindurvitna.  Það var svo með endurreisnartímunum á níundu, tólftu og fjórtándu öld að smám saman tókst að brjótast undan skoðanakúgun kristninnar og menn eins og Kópernikus (sólarmiðjan), Galileo Galilei (jörðin hnattlaga) og Desiderius Erasmus (Hollandi, mannvirðing) og fleiri lögðu grunninn að húmanískri hugmyndafræði.  Upplýsingin á 18. öld, iðnbyltingin, franska byltingin, stjórnarskrá Bandaríkjanna og svo þróunarkenning Darwins voru allt hlutir sem kenndu fólki að hugsa út fyrir ramma trúarbragðanna og smám saman urðu þjóðfélög hins vestræna heims og síðar Austu-Asíu að mestu leyti veraldleg (secular).  Þetta var og er húmanismi en af því að húmanistar hafa ekki skipulagt sig mikið í sérstaka hópa sem slíkir hafa þeir ekki verið sérlega áberandi fyrr en síðari ár. 

Í Noregi er lang stærsta húmanistafélag í heimi miðað við íbúafjölda en í Human Etisk Forbund (HEF) eru um 70 þúsund félagar og HEF hefur verið skráð sem jafngilt trúfélögum þar í landi allar götur frá 1979.  Nokkur þúsund ungmenna ferma sig árlega á vegum HEF í Noregi.  Siðmennt og HEFeru aðilar að International Humanist and Ethical Union (IHEU) sem er alþjóðafélag humanista og nýtur það mikillar virðingar sem álitsgjafi hjá ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna, þ.á.m. UNICEF og UNESCO.  Fyrsti forseti IHEU var einmitt einnig fyrsti forseti UNESCO, Julian Huxley.  Margir af merkustu hugsuðum síðustu aldar voru húmanistar og má þar nefna Albert Einstein (hann var í ráðgjafanefnd The First Humanist Society of New York) og Englendinginn Bertrand Russell en hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1950 fyrir þýðingarmikil skrif í þágu baráttu fyrir hugsanafrelsi og mannúðarstefnu. 

Það er ljóst að Siðmennt er mikilvægt lífsskoðunarfélag á Íslandi og það er mjög miður að þjóðin skuli hafa haft dóms- og kirkjumálaráðherra sem sýnir því engan skilning.  Ef ég hefði kosið xD hefði ég einnig strikað út nafn Björns Bjarnasonar á kjörseðlinum, ekki spurning.

 


mbl.is Rúmlega 2500 strikuðu yfir nafn Björns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ákvörðun gegn stjórnarskrá landsins

Í gær ákvað mikill meirihluti presta og guðfræðinga (66) á Prestaþingi Íslands á Húsavík, að styðja ekki tillögu 22 presta sem fóru þess á leit við prestaþingið að það styddi lagafrumvarp það sem fékk ekki afgreiðslu í vetur og var á þá leið að heimila ætti trúfélugum að gefa saman samkynhneigð pör

Þarna braut trúfélag sem nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskránni á ákvæðum hennar um jafnrétti. 

Þetta varðar hreinlega þau mannréttindi að allir söfnuðir megi taka sína sjálfstæðu ákvörðun um það hvort þeir vilji gefa saman samkynhneigða eða ekki.  Ef frumvarpið fengi brautargengi og samþykkt á Alþingi næsta haust mætti Þjóðkirkjan eftir sem áður ákvarða sjálf hvort hún vilji gefa saman samkynhneigða.  Hins vegar verður "Þjóðkirkja" að standa undir nafni og því yrði það erfiðara fyrir forystu hennar að neita samkynhneigðum um vígslu sé lagaheimild til þess til staðar.  Forysta kirkjunnar ákveður því að letja stjórnvöld í þessum efnum svo að hún þurfi ekki að taka ákvörðun sjálf.  Þetta er með því lágkúrulegra sem hægt er að hugsa sér, hvað varðar sjálfsábyrgð og hugrekki til að standa á eigin spýtur við eigin skoðanir og ákvarðanir.  Nei, meirihluti presta á prestaþingi getur ekki unað trúfélögum á Íslandi að hafa sjálfákvörðunarrétt í málinu, til þess að geta varpað ábyrgðinni á löggjafann.  Vissulega liggur ábyrgðin nú í höndum löggjafans en í vetur guggnaði ríkisstjórnin á því að láta þetta mál fram ganga, eftir að Karl Sigurbjörnsson biskup, bað um frest í áramótaræðu sinni.  Það er augljóst að 66:22 meirihluti er ekki neitt á leiðinni að breyta skoðun sinni og því er ekki um frest að ræða.  Landsþing Sjálfstæðisflokksins ályktaði að það myndi styðja tillöguna á komandi þingi.  Ekki man ég eftir því að landsþing Framsóknarflokksins hafi gefið frá sér neitt slíkt, enda er hæsta hlutfall trúaðra þar innanborðs á meðal stjórnmálaflokka. 

Enn og aftur kemur það í ljós hversu óeðlilegt það er að trúfélag, þó að það sé það elsta og stærsta, sé verndað af stjórnarskráratkvæði og hafi þannig óeðlileg völd innan stjórnkerfi landsins.  Sú sama stjórnarskrá kveður á um að fólki sé ekki mismunað á grundvelli kynhneigðar eða trúar, en Þjóðkirkjan er það afl á Íslandi í dag sem stendur fyrir hve mestu misrétti og misnotkun á stöðu sinni í þjóðfélaginu í dag.  Ákvörðun prestaþingsins er ekki einungis móðgun gagnvart samkynhneigðum heldur einnig brot á trúfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt trúfélaga.  Þau lög sem eru í gildi í dag eru mannréttindabrot.  Það eru mannréttindabrot að meina trúfélögum að gefa saman fólk óháð kynhneigð.  Það er hin skýlausa húmaníska krafa nútímans að þessi mannréttindi séu virt.

Ríkisstjórnin og Þjóðkirkjan hafa einnig brotið á siðrænum húmanistum, þ.e. fólki sem aðhyllist nútíma siðferði án trúar á persónulegan guð eða yfirnáttúru.  Það er brotið á jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar með því að gefa lífsskoðunarfélögum ekki sömu réttindi og trúfélögum.   Lífsskoðunarfélög fjalla um siðferði, heimsmyndina og félagslegar athafnir rétt eins og trúfélög, en innihalda ekki átrúnað á yfirnátturlega hluti.   Í dag er aðeins eitt slíkt félag starfandi á Íslandi en það er Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi.   Samkvæmt stórri könnun Capacent Gallup í lok árs 2004 töldu um 19% landsmanna sig trúlausa.  (Um 75% töldu sig trúaða en aðeins 49% töldu sig kristna.  Þrátt fyrir þetta voru um 84% landsmanna í Þjóðkirkjunni)  Trúlausir hafa ekki skipulagt sig í hópa eða fyrr en nýlega.  Siðmennt var stofnað árið 1990 og hefur haldið borgaralegar fermingar árlega. 

Það er einkum tvennt sem Siðmennt vantar uppá til að fá sömu réttindi og trúfélög.  Í fyrsta lagi þarf félagið að fá skráningu hjá ríkinu og í öðru lagi þau réttindi sem skráningunni fylgja.   Trúfélög skrá sig hjá ríkinu skv. lögum um skráningu trúfélaga sem voru endurskoðuð árið 1999.  Til þess að fá skráningu þarf að uppfylla eftirfarandi og vitna ég hér í lögin:

"Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú sem tengja má við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur.
Enn fremur er það skilyrði skráningar að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem reglulega iðka trú sína í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld."

Siðmennt uppfyllir öll ofangreind skilyrði utan þess að það er ekki trúfélag, heldur lífsskoðunarfélag.  Af ofangreindu má sjá að það geta ekki hvaða félög sem er sótt um skráningu.  Siðmennt fékk Oddnýju Mjöll Árnadóttur, lögfræðing og sérfræðing í mannréttindamálum til að gera greinagerð um málið og var það niðurstaða hennar að Siðmennt uppfyllti þann kjarna málsins að byggja starfsemi sína á siðferðislegri sannfæringu sem hefði alþjóðlega tilvísan í viðurkennda heimsspeki / lífsskoðun og væri því sambærilegt trúfélagi.  Lífsskoðunarfélög ættu að njóta sömu stöðu og trúfélög hjá ríkinu.  Í Noregi hefur eitt stærsta húmanistafélgag heims, Human Etisk Forbund, notið þessarar stöðu allar götur frá 1979. 

Eftir að hafa verið neitað tvö ár í röð um skráningu, leitaði Siðmennt eftir lagabreytingu í allan s.l. vetur og fór fyrir Allsherjarnefnd Alþingis með kynningarerindi s.l. haust.  Lagabreytingin fólst í því að bæta inn ákvæðum um lífsskoðunarfélög þannig að þau fengju bæði skráningu og sóknargjöld.  Með skráningunni fengi Siðmennt væntanlega einnig rétt til að halda löggiltar nafngiftir og giftingar.  Siðmennt hefur lýst því yfir að það gæfi saman samkynhneigða fáist til þess nauðsynlegar lagabreytingar.  Erindi Siðmenntar fékk ekki afgreiðslu hjá Allsherjarnefnd og síðar hafnaði Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra beiðni Siðmenntar um að bera fram lagatillöguna á Alþingi.  Hann sagði í svarbréfi sínu að Siðmennt gæti starfað eins og hvert annað félag í landinu og hann hefði öðru þarfara að sinna.  

Þetta er sú virðing sem Siðmennt fékk frá dóms- og kirkjumálaráðherra, félag sem hefur fermt yfir 900 börn í þessu landi, gefið álit sitt á fjölda siðferðislegra álitamála (nú síðast frumvarpinu um rannsóknir á stofnfrumum) fyrir nefndir borgar og alþingis, barist fyrir réttindum samkynhneigðra og fjölda annarra minnihlutahópa í landinu (m.a. innflytjenda) og er beint eða óbeint málssvari mjög stórs hóps góðra og gildra Íslendinga sem trúa ekki á guð eða yfirnátturu.  Nú stendur málið þannig að nýr lögmaður Siðmenntar undirbýr lögsókn gegn íslenska ríkinu.  Það er dapurlegt en ítrekaðar tilraunir til að fara siðmenntaðar leiðir samræðunnar hafa mætt skilningsleysi hjá stjórnarflokkunum, rétt eins og réttarstaða samkynhneigðra til að giftast, hjá forystu Þjóðkirkjunnar.

Skyldi engan undra að ég styð ekki þessa ríkisstjórn og ekki eru þessir hlutir ekki eina ástæðan.  Kjör aldraðra og öryrkja, miðstýring og fjársvelti heilbrigðiskerfisins, með tilheyrandi biðlistum, stimpilgjöld, óábyrg stóriðjustefna (setja ábyrgðina á sveitarfélögin ein), óbjóðandi aðstaða fyrir fanga og fangaverði, kæruleysi í innflytjendamálum, ómannúðleg innflytjendalöggjöf ("24 ára" reglan) og áframhaldandi kvótakerfi í fiskveiðistjórnun eru meðal annarra ástæðna. 

Allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lýst yfir stuðningi við Siðmennt og ég þykist viss um að þeir vilji leyfa trúfélugum að ráða sínum málum hvað giftingar varðar.  Í þágu bættra mannréttinda í landinu þarf að koma þessari ríkisstjórn frá.  Hún getur ekki einu sinni haldið á vel efnahagsmálunum en það hefur verið helsta hnoss hægrimanna fram til þessa.  Ég hvet fólk til að kjósa annan hvorn stóru stjórnarandstöðuflokkanna.  Það er besta tryggingin fyrir nýrri ríkisstjórn.   Frjálslyndir eru best úti því þeir væru vísir til að fara í stjórnarsamstarf með xD og xB.   Íslandshreyfingin, þrátt fyrir góða stefnuskrá er hreinlega ekki tilbúin og því er hætt við að atkvæði til hennar fallli dauð niður og gagnist helst ríkisstjórnarflokkunum. 

Það þarf að setja aðskilnað ríkis og kirkju á dagskrá í stjórnmálum.  Ég auglýsi eftir þeim stjórnmálaflokki sem hefur þann kjark að setja málið hátt á dagskrá og af miklum dug.  Sjaldan hefur það verið jafn augljóst og nú að "Þjóðkirkjan" er bara forneskjulegur trúarklúbbur sem vill einungis fara sínar eigin leiðir, óháð meirihluta fólks í trúfélaginu.  Sjaldan hefur það verið jafn augljóst að prestar hennar eiga að vinna fyrir eigin brauði, hjá söfnuði sem vill mæta í kirkju hjá þeim og skrá sig inn við 18 ára aldur en ekki sjálfkrafa við fæðingu.  Sjaldan hefur það verið jafn ljóst að ríkið á ekki að halda uppi skóla trúfélags í Háskóla Íslands og hafa svo presta á himinháum launum um allar trissur.  Þjóðkirkjan kostar okkur 3.5 milljarð á ári plús kostnað við Guðfræðideildina.  Hér er ekki um lífsnauðsynlega starfsemi að ræða og hún ætti að vera einkamál hvers og eins utan þess að eðlilegt getur talist að ríkið komi að kostnaði og skipulagi við jarðsetningu / líkbrennslu látinna. Það er kominn tími til að einkavæða víðar en í bankakerfinu.   Ætli margir fjárfestar myndu flykkjast að til að kaupa hlut í prestakalli?


mbl.is Tillaga um hjónavígslu samkynhneigðra felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðin er okkar, ekki vætta

Í gegnum aldirnar hefur þorra fólks, almúganum verið stýrt af valdi og hugmyndum sem setja því skorður og stað fyrir neðan þá sem fara með völdin.   Bestu stjórnendunum varð ljóst að ekki dugði að hóta valdi einu sér heldur varð að fanga hugann líka.   Þannig náði Hitler til dæmis tvöföldu valdi yfir þorra Þýsku þjóðarinnar.  Þessar hugmyndir hafa jafnan krafist algerrar hlýðni og aðdáunar á foryngjanum.  Ekkert svigrúm var leyft fyrir efasemdir eða mótbárur.  Fylgja eða falla, voru kostirnir.  Á miðöldum var tvennt sem hafði slíkt ægivald yfir fólki, kirkja og konungsríki.  Kirkjan var meistari í að hlekkja hugarfarið.  Engar aðrar trúarhugmyndir voru leyfðar og trúin var alger.   Konungar urðu að leika með og vald þeirra var talið koma beint frá guði.  Þetta hentaði þeim vel því engar aðrar ástæður eða réttlætingar þurfti. 

Þessar forsendur tóku að bresta eftir því sem frjálsum hugum fjölgaði í Evrópu og uppgötvanir á sviði eðlisfræði, efnafræði, stjörnufræði, líffræði og verkfræði tóku að gjörbreyta heimsmyndinni og færa fólki verkfæri og nýjar aðferðir til að komast betur af.  Aldrei hafði kirkjan stuðlað að slíku þó svo einstaka munkar eins og Mendel hafi iðkað vísindi í einangrun sinni.  Þá urðu lýðræðishugmyndir til í Frakklandi sem byggðu á hugmyndum heimsspekinga um náttúrulega skipan í þjóðfélaginu og draumurinn um jöfnuð stétta og kynja tók sín fyrstu spor í raunveruleikanum.  Þetta var húmanismi.  Kirkjan barðist á móti en fræði vísindamannanna voru of nákomin afkomu og líðan fólksins þannig að bylgja þessarar endurreistu rökhugsunar og veraldlegs lífsviðhorfs varð ekki stöðvuð.   Kirkjan og kreddur kristinnar trúar urðu fyrir hverju áfallinu og ósigrinum á fætur öðrum.  Jörðin var ekki lengur 6000 ára, maðurinn var skyldur apanum en ekki guði, sólin var í miðju heimsins og jörðin ekki flöt, ungt fólk fór að velja sér maka sjálft, kynlíf var ekki lengur skítugt og sjálfsfróun blindaði engan, skírlífi úreltist, konur máttu kjósa og vera prestar, hjón máttu skilja, konur fengu yfirráð yfir líkama sínum, siðfræðin þroskaðist í takt við rökfræðina og mannréttindasáttmálar óháðir trú og menningu litu dagsins ljós.  Þetta gerðist þrátt fyrir trúarbrögðin og á meðan tregu hopi þeirra stóð en ekki vegna þeirra eins og margir trúarleiðtogar vilja telja okkur trú um í dag. 

Eftir seinni heimsstyrjöldina og sérstaklega uppúr hippatímabilinu og byltingu í kynlífsviðhorfum urðu kirkjudeildir hins vestræna heims einungis máttlausir skuggar af því sem þær voru áður.   Eftir stóð að kirkjan hélt velli vegna trúarlegra athafna sem höfðu heilmikið félagslegt gildi.  Þetta voru skírnir (nafngiftir), fermingar (viðurkenning unglinga, manndómsvígsla), giftingar (staðfesting sambands og fjölskyldugleði) og jarðarfarir (huggun og kveðja).  Söfnuðir svartra í USA tóku þetta skrefi lengra og með söng og baráttumessum voru kirkjur þeirra bæði skemmtun og pólitískt hæli.   Almennar guðsþjónustur hinna hvítu voru hrikalega leiðinlegar og eru víða enn.  Aðeins örfáir fóru í messur. 

Í dag notar kirkjan tölur úr alls kyns samkomum sem hýstar eru í kirkjunum til að bæta hina tölfræðilegu ásýnd.   Kirkjan lifði af sinn versta tíma og hefur nú potað sér inn í líf fólks á öðrum forsendum.   Eftir að prestar uppgötvuðu að þeir höfðu ekki föðurlegt vald yfir fólkinu þurfti að endurskipuleggja krossförina.  Guð er nú einungis með í aftursætinu (eða falinn í skottinu).  Nú hefur kirkjunnar fólki tekist að skapa þá ímynd að þjónusta þeirra og nærvera sé til mikilla bóta fyrir "andlegt ástand" alls fólks í neyð og hvarvetna geti prestar þjónað hlutverki sem að öllu jöfnu hefur talist atvinna sálfræðinga og geðlækna.  Tólf spora meðferð AA-samtakana hefur átt drjúgan þátt í þessari endurreisn trúarinnar.   Trúarleiðtogar víða um heim hafa uppgötvað að með því að blanda saman vísindum og trú eða hreinlega sannfæra fólk um að trú sé vísindi, er hægt að fá drjúgan fjölda fólks til liðs við sig.  Þetta hefur gerst hér heima í auknu mæli.  Hver man ekki eftir rannsókn Gunnjónu á bæninni.  Hún taldi sig hafa sýnt fram á vísindalega að bænin virkaði.  Ég las rannsóknina og sá fljótt að á henni voru stórir gallar og niðurstaðan markleysa.  Morgunblaðið hampaði samt þessum "vísindum" í hástert með áberandi greinum og sterkum fyrirsögnum. 

Niðurstaða könnunar sem Þjóðkirkjan fékk gerða hjá Capacent Gallup árið 2004, kom í ljós að um 75% þjóðarinnar sögðust trúa á einhvern æðri mátt.  Um 49% sögðust vera kristnir.  Um 19% sögðust vera trúlausir.  Aðeins 8% sögðust trúa því að himnaríki tæki við eftir dauða sinn.    Um 84% voru þá í Þjóðkirkjunni en það hlutfall hefur lækkað í um 82% á síðasta ári.  Það er því ljóst að það eru ekki nærri allir kristnir sem eru í Þjóðkirkjunni og ég veit um fullt af fólki sem heldur sig þar eingöngu vegna hins félagslega þáttar.

Þurfum við trúna?  Þurfum við kirkjubyggingar og kirkjuleg félagsheimili sem kosta okkur hundruðir milljóna?  Þurfum við kirkjudeild sem kostar 3.5 milljarð á ári í rekstri og fær að auki fé til að reka sinn prestaskóla, þ.e. Guðfræðideild innan Háskóla Íslands?  Til samanburðar má nefna að rekstur HÍ kostar um 4 milljarða á ári.  Mánaðarlaun sóknarpresta eru á milli 400-500 þúsund plús tekjur af vissum athöfnum og grunnlaun biskups eru um 880 þúsund.   Kirkjan fær ríflega 800 krónur á hvert "sóknarbarn" mánaðarlega og að auki tekjur úr "jöfnunarsjóði" sem er ætlaður uppbyggingu á húsnæði hennar.  Eru greiðslur þegnanna til þjóðkirkjunnar í samræmi við það mikilvægi sem hún er talinn hafa af þorra fólks?  Viljum við þetta?  Viljum við borga fyrir rekstur kirkna sem standa oftast tómar?    Hversu mikið vill kristið fólk greiða fyrir hina "guðdómlegu blessun"?  Hefur það rétt til að nota svo mikið af almannafé í þessa starfsemi? 

Þið vitið hverju ég svara.  Hér liggja mikil tækifæri til að spara og beina fé okkar til uppbyggingu hugvísinda og þeirra sífjölgandi meðferðarúrræða sem heilbrigðisvísindin færa okkur með hverju árinu sem líður.   Samfélög trúaðra eða ótrúaðra, t.d. húmanista eiga að vera einkarekin og njóta sömu meðferðar af hálfu ríkisvaldsins.   Það er tímaskekkja að halda sérstakri vernd yfir einu trúfélagi og leyfa því að hafa forgang eða sérstakan aðgang að stofnunum og nefndum á vegum ríkisvaldsins.  Mannréttindi snúast ekki um það hver sé í meirihluta, heldur að tryggja að allir hafi jafna aðstöðu.  Á Íslandi skortir þessi mannréttindi og það er brotið á minnihlutanum.  Trúlausir fá ekki að skrá félag sitt og njóta "sóknargjalda"  og ásatrúarmenn fá ekki úthlutað úr jöfnunarsjóði.  Stjórnvöld hlýða biskupi líkt og hann sé "fjórða valdið" og þingmenn láta leiða sig undir flaggi kreddufestu eins og félaga í trúarkölti inní kirkju til blessunar frá þjóni guðs fyrir setningu þings sem er algerlega veraldlegt (secular) í eðli sínu.  Frakkar afnámu þetta fyrir 100 árum og því var fagnað innilega árið 2005.  Hvar erum við stödd?

Ég virði skoðanafrelsi og trúfrelsi og mun því aldrei meina fólki um að trúa hverju því sem það vill.  Hins vegar tel ég ekki allar skoðanir jafn góðar og mun berjast fyrir þeim skoðunum sem ég tel bestar fyrir mína nánustu og þjóðina.  Sú barátta hlýtur einnig ákveðnum skoðunum (reglum) og ég samþykki ekki baráttu hroka, yfirgangs, valdnýðslu eða ofbeldis.  Ég aðhyllist samtalið frekar en þögnina.  Ég sætti mig ekki við stöðnun og rökleysur.  Að heiminum steðjar ein sú hræðilegasta rökleysa sem maðurinn hefur nokkru sinni fundið upp, en það er trú.  Trú á hið yfirnáttúrlega, hið almáttuga og hið óvéfengjanlega.   Í innsta hring er öfgatrúarfólkið en utan um, í æ minna trúarlega sterkum lögum eru hinir óviljandi hlífðarskildir, hóftrúarfólkið og fólkið með "barnatrúnna".   Í stað þess að öfgatrúarmenn standi naktir og einir uppúr sléttu skynseminnar með sínar banvænu trúarkreddur og guðshræðslu, er urmull af hófsemisfólki þétt við hlið þeirra (hugmyndafræðilega) og afsakar guð þeirra.  Munum að guð Abrahams er hinn sami leiðtogi Osama Bin Ladens og Karls Sigurbjörnssonar biskups.  Páfinn er einnig trúbróðir biskups.  Biskup lofaði páfa þrátt fyrir að páfinn boði enn að eigi skuli nota getnaðarvarnir og halda úti klaustrum og skírlífi presta (ævarandi uppspretta pedophilu) .   Sameinaðir undir vættinum "guði" afsaka trúarbrögðin hvort annað og valda því hugmyndafræðilegum skaða um heim allan. 

Það er tími til að breyta þessu og heiminum smám saman í leiðinni.  Við hér á þessari afskekktu eyju eigum að gera okkar besta til að vera til fyrirmyndar.  Við höfum með okkar litla þjóðfélagi tækifæri til að vera í fararbroddi mannréttinda í heiminum.  Byggjum framtíðina á heilbrigðum skoðunum, ekki ævagömlum stofnunum sem halda í kreddur.  Þorum að breyta og nota aðeins það besta okkur til leiðsagnar.   Aðskilnaður ríkis og kirkju er frekar flókin framkvæmd, rétt eins og afnám kvótakerfisins yrði, en hver segir að lífið sé auðvelt?  Hér þarf að byrja að taka fyrstu skrefin og stefna í rétta átt.  Ég hef sagt minn frið í dag.


Siðmennt aðili að Mannréttindaskrifstofu Íslands

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

---------------------------------------------------

Siðmennt aðili að Manréttindaskrifstofu Íslands

Aðalfundur Mannréttindaskrifstofu Íslands MRSÍ, sem haldinn var í byrjun desember, samþykkti að veita Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi, aðild að samtökunum.

Starf MRSÍ að mannréttindamálum fellur vel að grundvallar baráttumálum húmanista sem flest snerta mannréttindi á einn eða annan hátt. Starfssemi MRSÍ, sem óháðs aðila, hefur verið ein af meginstoðum mannnréttindastarfs á Íslandi en þrátt fyrir það hefur starfssemin ekki notið óskoraðs stuðnings stjórnvalda til þess að sinna mikilvægu hlutverki sínu.

Starf húmaniskra samtaka eins og Siðmenntar hefur fyrst og fremst snúið að grundvallar mannréttindum s.s. lýðræði, trúfrelsi m.a. baráttu fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og baráttu gegn trúboði í skólum, jafnræði samkynhneigðra í þjóðfélaginu, jafnræði lífsskoðanna, jöfnum réttindum kvenna og karla, réttindi fatlaðra á við aðra í þjóðfélaginu svo stiklað sé á nokkrum baráttumálum. Þá hefur Siðmennt hvatt til að heimilaðar verði stofnfrumrannsóknir til þess að nýta megi vísndauppgötvanir til þess að auka möguleika á því að minnka þjáningar fólks sem veikist af alvarlegum sjúkdómum eins og Alzheimer, Parkinsonsveiki og aðra alvarlega sjúkdóma. Helsta baráttumál Siðmenntar nú er að félagið öðlist jafnan rétt á við önnur trúar- og lífsskoðunarfélög með lagasetningu þar um.

Aðalfulltrúi Siðmenntar í stjórn MRSÍ er Bjarni Jónsson en Hope Knútsson er varafulltrúi.

----------------------------------------------------------------------

Húmanistaviðurkenningin 2006Ég fagna með Siðmennt í tilefni þessa góða áfanga í starfi félagsins.  Siðmennt hefur nú í tvö ár veitt sérstaka húmanistaviðurkenningu þeim sem hafa skarað fram úr í mannréttindabaráttu á Íslandi.  Í fyrra var Samtökunum '78 veitt viðurkenningin fyrir ötula baráttu fyrir samkynhneigða og í ár var Ragnari Aðalsteinssyni hdl veitt viðurkenningin fyrir áralanga mannréttindabaráttu á lagasviðinu.  

Það er von mín að ríkistjórnin rétti hlut MRSÍ og veiti þeim mun meira fjármagn til rekstrar en áður hefur verið.  MRSÍ er undirmönnuð en þar er unnið mikið og gott starf undir framkvæmdastjórn Guðrúnar D Guðmundsdóttur.  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband