Færsluflokkur: Lífsskoðanir

Í átt til aukins jafnréttis og jafnræðis

Það er fagnaðarefni að nú skuli vera unnið að frumvarpi í Innanríkisráðuneytinu sem miðar að því að veraldleg lífsskoðunarfélög fái sömu þjónustu frá ríkinu og þau trúarlegu. Hvað er annars lífsskoðunarfélag?

Lífsskoðunarfélag er það sem á enskunni er kallað "life stance organization" og er félag sem hefur það að megin verkefni að fjalla um siðfræði og siðferði og skapa í kringum það sinn lífsmáta eða menningu. Það birtist aðallega í því að á vegum slíks félags fara fram hugvekjur og tímamótaathafnir fjölskyldna. Sum þessi félög hafa einnig stefnur á sviði þekkingarfræðinnar, stundum nefnt við heimsmyndina og er þar skýrasta dæmið útskýringar á tilurð heimsins og mannsins.

Hin trúarlegu lífsskoðunarfélög sækja jafnan siðfræði sína að hluta eða alveg í trúarrit sem útskýra vilja almættisins og stundum er einnig trúað á útskýringar á heimsmyndinni þar.

Hin veraldlegu lífsskoðunarfélög sækja aftur siðfræði sína í aðferðir heimsspekinnar og þá þróun sem varð í siðfræði með skrifum hugsuða upplýsingarinnar og síðar. Heimsmyndin byggist á vísindalegri þekkingarfræði.

Bæði trúarleg og veraldleg lífsskoðunarfélög vilja gjarnan fagna hlutum saman og hafa sínar athafnir, hugvekjur og hátíðir á sinn máta. Þó ólík séu er ljóst að þarna eru sömu viðfangsefnin á ferðinni og því er hægt að setja þau undir þetta sama heiti: lífsskoðunarfélög.

Ríkið á í raun ekki að veita skattfé til þessara prívatfélaga, nema að þjóðin hafi tekið málið til rækilegrar umfjöllunar og vilji veita einhvern smá grunnstyrk til þeirra allra. Það er of dýrt að reka ríkissjóð til þess að við förum að útdeila miklu fé í þessa sjálfstæðu starfsemi sem er mikilvæg en í raun ekki neitt sem hinn sameiginlegi vettvangur þarf að standa undir.

Fyrst að við erum enn að bera arfleifð einokunartrúar sem heimtaði beintengingu við skattkerfið eftir að tíundin var lögð niður og fær ótal aðrar sérgreiðslur, þá þarf að reyna að laga ójafnvægið.

Eftirfarandi þarf að gera:

1. Losa fornu einokunarkirkjuna (Þjóðkirkjuna) undan spenanum og hætta launagreiðslum og veitingu sérstyrkja til hennar (nema til að varðveita viss menningarverðmæti). Gera upp "jarðamálið" í eitt skipti fyrir öll.  

2. Losa þjóðina undan sóknargjaldakerfinu (best) eða laga það á eftirfarandi máta:

  • Börn séu ekki skráð sjálfkrafa í lífsskoðunarfélag móður
  • Fullveðja einstaklingur (að lágmarki 16 ára) þurfi að skrá sig í lífsskoðunarfélag hafi viðkomandi áhuga á því. Það megi haka við það á skattskýrslunni eða skrá sig í Þjóðskrá.
  • Sem fyrr að sóknargjöld miði aðeins við 16 ára (eða 18 ára) og eldri.
  • Að sóknargjöld séu aðeins greidd þegar skráður einstaklingur hefur nægar tekjur til að greiða tekjuskatt, sem nær að minnsta kosti hálfri milljón króna yfir árið. (óeðlilegt að t.d. sóknargjald upp á 10 þús. kr. x12 mán, samtals 120 þús kr sé greitt þegar heildarskatturinn rétt nær þeirr upphæð.  Meirihluti skattfés á að fara í aðra þarfari hluti.)
  • Að sóknargjald sé ekki greitt fyrir þá einstaklinga sem lifa eingöngu á bótum frá ríkinu (fyrir utan ellilífeyri).  Slíkt sóknargjald kæmi aðeins úr vasa þeirra sem greiða skatta af eigin vinnu.
Smám saman er þjóðin og stórnmálamenn hennar að gefa þessu meiri gaum og sjá að núverandi fyrirkomulag er orðið úrelt sérréttindafyrirkomulag sem þjónar bara trúarlegu lífsskoðunarfélögunum og þá sér í lagi einu þeirra, þeirri fornu einokunarkirkju sem kallast Þjóðkirkja.  
 
Það er kominn tími á tiltekt og útdeilingu sleikipinnanna til allra barnanna.  Það er ljótt að skilja eftir útundan, segjum við við börnin og við fullorðna fólkið þurfum að sýna þeim að við séum virkilega til eftirbreytni.
 
Góðar stundir. 

 


mbl.is Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veraldlegar lífsskoðanir í sókn

Þann 6. júní 2011 gerði Gallup opinberar helstu niðurstöður úr síðasta þjóðarpúls sem í þetta skiptið innihélt einnig spurningar um lífsskoðanir.  Gallup kallar það reyndar trúmál því að líkt og með svo marga hefur fyrirtækið ekki gert sér grein fyrir því að þeir sem trúa ekki hafa nafn yfir sínar skoðanir.  Samheiti trúarlegra og veraldlegra skoðana um siðferði er lífsskoðanir (life stance).  Það snýst ekki allt um trú.

Hér er helsta niðurstaða könnunarinnar:

----

ÞJÓÐARPÚLSINN

TRÚMÁL

06.06.2011

Trú á æðri máttarvöld, framhaldslíf og himnaríki/helvíti

Meirihluti Íslendinga segist trúa á guð eða önnur æðri máttarvöld. Hátt í 13% aðspurðra tóku ekki afstöðu til þess hvort þeir tryðu á æðri máttarvöld eða ekki, en af þeim sem tóku afstöðu sögðust rúmlega sjö af hverjum tíu trúa á æðri máttarvöld á móti tæplega þremur sem sögðust ekki trúa. (71% og 29% samkvæmt grafi).

Niðurstöður sem hér birtast um trúmál eru úr netkönnun Capacent Gallup gerði dagana 5. til 19. maí 20 11. Heildarúrtaksstærð var 1.380 einstaklingar 16 ára eða eldri af öllu landinu ogsvarhlutfall var 57,7%.  Í úrtakinu voru einstaklingar valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup.

----

Mig langar nú að bera saman þessa niðurstöðu við dálítið stærri könnun sem var gerð í febrúar-mars 2004 hjá Capacent Gallup fyrir Biskupsstofu.  Í þeirri könnun voru 1428 í endanlegu úrtaki og fjöldi svarenda 60.4% (862). Könnunin frá 2004 er því mjög svipuð að stærð og könnunin í ár.

Áður en ég fer í niðurstöðurnar frá 2004 þarf ég að setja tölurnar frá 2011 í sömu tölfræðilegu framsetninguna, sem tekur tillit til þeirra sem tóku ekki afstöðu:

Ertu trúaður?

2011:  13% taka ekki afstöðu, 61.8% segjast trúaðir en 25.2% segjast ekki trúa á æðri mátt.

2004: 12.9% tóku ekki afstöðu, 68.3% sögðust trúaðir en 18.8% sögðust ekki trúa á æðri mátt.

Reyndar kemur fram í nákvæmri skýrslu með könnuninni 2004 að hópnum sem gaf ekki afgerandi svar var skipt í óákveðna (11.5%) og tóku ekki afstöðu (1.4%).  (Þessi "tóku ekki afstöðu" hópur var tekinn útfyrir í prósentureikni niðurstaðna en ég hef reiknað þann hóp inn aftur hér).  Það eru samtals 12.9% þannig að hlutfallið er nánast hið sama og núna 2011, sem ég geri ráð fyrir að sé þessi sameinaði hópur.

Hlutfall trúaðra hefur því lækkað úr 68.3% í 61.8% eða um - 6.5%

Hlutfall fólks með veraldlega lífsskoðun (trúa ekki) hefur því hækkað úr 18.8% í 25.2% eða + 6.4%

Ef að við skiptum aftur yfir í hlutfall af þeim sem gáfu ákveðið svar kemur út að:

2011:  71% trúa á æðri mátt en 29% ekki.

2004: 78.5% trúðu á æðri mátt en 21.5% ekki.

Meðal ákveðinna hefur trúuðum fækkað um 7.5% prósentustig en trúlausum fjölgað um 7.5%.

Hvað segir þetta okkur?

Mér sýnist að sú þróun sem mér fannst að væri til staðar í kjölfar aukinnar umræðu um lífsskoðanir, að trú á æðri mátt væri á undanhaldi, sé raunin.  Það er ámælisvert að birta niðurstöður í sjónvarpi með einungis 71/29 prósentuviðmiðin því að þau er endurútreikningur þegar búið er að henda út þeim óákveðnu (13%).

Það eru ekki 71% þjóðarinnar trúaðir, heldur 61.8% og 25.2% eru trúlausir, ekki 29%.

Það er réttlætanlegt að tala um ákveðna kjósendur í könnunum um fylgi flokka því að það eru aðeins þeir ákveðnu sem munu ráða um úrslitin, en í könnun sem þessari um ákveðnar skoðanir, er það ekki réttlætanlegt (nema sem algert aukaatriði).

Aldursmunur

Áberandi er einnig að hópurinn undir 30 ára er í vaxandi mæli fylgjandi veraldlegri lífsskoðun, eða 47.9% (55% ákveðinna) nú en var um 29% (18-24 ára) árið 2004.  Þetta er að gerast þrátt fyrir aukna sókn Þjóðkirkjunnar inn í skólana síðustu 20 ár.

Kynjamunur

Þá er merkilegt að bilið milli kynjanna hvað trú eða trúleysi varðar hefur stækkað.

2004:  konur trúðu í 77% tilvika, voru trúlausar í 13% tilvika en 11% voru óákveðnar. (86.5 % ákveðinna trúa)

2004:  karlar trúðu í 61% tilvika, voru trúlausir í 26% tilvika en 13% voru óákveðnir.  (70.1% ákveðinna trúa)

Nú hef ég ekki tölur um hlutfall óákveðinna hjá konum og körlum fyrir 2011 og verð að notast við það hlutfall ákveðinna kvenna og karla sem var gefið upp.

2011: 84% ákveðinna kvenna eru trúaðar. (74.8% ef 11% kvenna eru óákveðnar líkt og 2004, niður 2.2%)

2011: 58% ákveðinna karla eru trúaðir. (50.5% ef 13% karla eru óákveðnir líkt og 2004, niður 10.5%)

Af þessu sést að á meðal þeirra sem gefa ákveðið svar hefur trúuðum konum fækkað um 2.5 prósentustig, en trúuðum körlum um 12.1 prósentustig.  Munurinn milli kynjanna hefur aukist úr 16.4 í 26 prósentustig. Aukning trúleysis er því mun hraðari hjá körlum en konum á Íslandi.

---

Af þessum könnunum og tölum Hagstofunnar yfir sömu ár er ljóst hvert stefnir.  Trúuðum fækkar og fólki í Þjóðkirkjunni hlutfallslega mest.  Fríkirkjusöfnuðirnir sækja þó á samkvæmt skýrslu Hagstofu í byrjun apríl (fyrir árið 2010).

Trúlausum fjölgar stöðugt og eru nú um 1/4 þjóðarinnar.   Aðeins 4.14% eru þó skráð utan trúfélaga.  Tæp 50% ungra fullorðinna (undir þrítugu) aðhyllist veraldlegar lífsskoðanir.  Elsta fólkið trúir mest.  Merkir þetta að ungt fólk verði einfaldlega trúað þegar það eldist eða er um raunverulega breytingu að ræða.  Hlutfall trúlausra undir 30 ára fór hækkandi milli 2004 og 2011 þannig að hér virðist vera um raunverulega breytingu að ræða.

Af þeim 61.8% sem segjast vera trúaðir vitum við ekki hversu margir telja sig kristna, en árið 2004 voru það um 3/4 hlutar trúaðra.  Um 1/5 hluti trúaðra sögðust eiga sína persónulegu trú.  Ef við gefum okkur að hlutfall kristinna hafi ekki lækkað að marki eru það (3/4 * 61.8%) aðeins um 46% þjóðarinnar sem telja sig kristna.  Samt eru 77.6% hennar skráð í Þjóðkirkjuna.

Viðhorfin eru að breytast frekar hratt en mikið af fólki sem trúir ekki á hinn kristna guð (eða engan guð) er samt skráð í Þjóðkirkjuna eða aðra kristna söfnuði.  Þetta fólk virðist sætta sig við að hlusta á kristna presta tala um guð sinn og frelsarann Jesú án þess að trúa á þá.  Liggja praktískar ástæður að baki? skeytingarleysi? tímaleysi? sjálfvirk skráning kornabarna í trúfélag móður?  Svörin eru eflaust mörg og eru efni í aðra í grein.

Ég læt hér staðar numið og vona að þessi greining sé lesendum hjálpleg.

---

PS: Vinsamlegast látið mig vita ef að þið teljið að einhverjar villur séu í þessu.


Þúsundir vitringa vakna

Formáli:

Ég hef nær algerlega hætt að blogga á mbl.is en ætla að gera nokkrar undantekningar á því þetta árið.

Blogg um lífsskoðanir eru af einhverjum ástæðum betur niður komin hér en t.d. á Eyjunni. Kannski er það af því að rauða letrið fyrir ofan mig í rithamnum sem segir:

"Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is og Morgunblaðsins.", sem gerir það meira krassandi að skrifa um þessi mál hér. Það er ljóst af áratugalangri ritstjórnarstefnu og yfirbragði Morgunblaðsins að það er nánast hægri hönd Þjóðkirkjunnar.

Hins vegar má segja blaðinu til hróss að af og til hafa blaðamenn þess fengið að birta hlutlægar fréttir um trúmál. Aftur þegar biskupar og prestar telja sig í neyð og er mikið mál að verja kristina hafa þeir jafnan fengið feitt pláss í blaðinu með opnum í lesbókinni eða greinar birtar á ritstjórnarsíðunni, næst hjá pabba. Dæmi um þetta hrönnuðust upp t.d. þegar prófessor Richard Dawkins heimsótti Ísland sumarið 2006. 

Nú hafa þúsundir Íslendinga vaknað af þjóðkirkjusvefninum langa. Nánar tiltekið 5092 manns! Ég vil kalla þetta fólk vitringa nútímans. Þetta fólk tekur það alvarlega þegar það uppgötvar að leiðtogar þeirrar kirkju sem það var skráð í sem ómálga börn gera uppá bak af ósiðlegum feluleik og yfirhylmingum á kynferðisofbeldi fyrrum biskups apparatsins.  

Þetta fólk hefur gert sér grein fyrir því að það á ekki heima í trúarlegu lífsskoðunarfélagi sem telur sig njóta leiðsagnar ofurveru á himnum um hvað sé rétt og rangt, kærleikur eða illska, en getur í leiðinni ekki valið sér jarðneska leiðtoga sem hafa óbrenglaða siðferðiskennd eða hugrekki til að koma fram með sannleikann.

Þetta fólk hefur líklega vaknað við það að það nægir ekki að vera í félagi sem er ríkt af eignum, aðstöðu, fornri hefð, fallegu líni, söngvum og hljómfögrum orgelum.  Það þarf meira til, til þess að félag sem fjallar um siðferði, sé þess virði að bakka upp.   Úldið ket í fallegum umbúðum er bara úldið ket og það lyktar langar leiðir. Þó að saltað sé með þeim brotum í bókinni ofmetnu sem brúkleg eru, þá sleppur enginn við lyktina.  Þó þeir prestar sem bera þá gæfu til að nota fyrst og fremst skynsemi sína frekar en bókstafinn, klóri í bakkann fyrir þjóðkirkjuna, þá er það bara sem gegnsætt plast utan um skemmdina.  

 núverandi fyrirkomulag

 

Skematísk skýringarmynd af núverandi skipan mála.

Kirkja eða félag sem sýnir ekki meiri siðferðisþroska en lítið barn sem sér ekki út fyrir eigin þarfir er sem eitrað epli. Þjóðkirkjan situr á forréttindum sínum eins og ormur á gulli. Þrátt fyrir að um 70% (Capacent 2009) almennra meðlima hennar hafi þann siðferðisstyrk að vilja slíta hin óeðlilegu hagsmunatengsl hennar við ríkið, kýs forystusveit hennar að hunsa þennan vilja og halda áfram að verja óréttlætið með alls kyns þrætubókarlist.  Einn sá ósvífnasti fyrirslátturinn er sá að halda því fram að ríki og kirkja séu nú þegar aðskilin af því að Þjóðkirkjan hafi gert samning við ríkið sem tryggi henni sjálfstæði og eilífum greiðslum úr ríkiskassanum fyrir jarðir sem hún fékk flestar gefins af landsmönnum fyrr á öldum.  

Fjöldi fólks er bara menningarlega tengt kirkjunni, en er annað hvort trúlaust eða óvissusinnað (agnostic).  Því þykir gott að geta fengið þjónustu hennar þegar athafna er þörf.  Þessi tenging er nú óþörf því að Siðmennt, félag siðrænna húmanista hefur athafnarstjóra á sínum snærum sem hjálpa fólki að gera daginn sinn sem eftirminnilegastan.  

Í raun eru bara um 8-10% þjóðarinnar sem trúa á kjarna Kristinnar trúar, þ.e. upprisu Jesú, himnavistina og aðra yfirnáttúru.  Aðrir í kirkjunni virðast láta yfir sig ganga að þetta sé bara goðsögn líkt og um Óðinn og Seif.  Merkilegt nokk þykir þessu fólki í lagi að láta prest messa um þessar ofurhetjur; þríeininguna og englana á hátíðlegustu stundum lífs síns.  Heilinn er bara settur í eitthvern dí-dí-da-da-da ham þegar presturinn þusar og fer með bænir, ritningalestur og blessanir. Faðirvorið og trúarjátningin er svo þulin með álíka "sannfæringu" líkt og í trans.  Eins konar æfing í deyfingu skilningarvitanna og svæfingu gagnrýninnar hugsunar.

Sóknargjaldakerfið er ekki einföld miðlun félagsgjalda heldur trúarskattur 

Mismununin sem er látin viðgangast með lögum og stjórnarskrárákvæðum er lagaleg, fjárhagsleg og félagsleg.  Þjóðkirkjan nýtur mikilla fjárhagslegra sérkjara, lagalegrar verndunar og forréttinda í aðgangi að ríkisfjölmiðlum.  Hin trúfélögin fá sóknargjöld en veraldleg lífsskoðunarfélög fá ekkert.  

Þeir sem tilheyra veraldlegum lífsskoðunarfélögum (Aðeins eitt hér starfandi: Siðmennt) eru skráðir "utan trúfélaga", en þar eru líka þúsundir einstaklinga sem eru ekki í neinum lífsskoðunarfélögum.

Í fyrra ákvað ríkisstjórnin að jafnvirði sóknargjalda fyrir þennan hóp rynni ekki lengur til Háskóla Íslands, heldur gæti ríkið ráðstafað fénu eins og það vildi.  Hvað hefur þetta í för með sér?

 

  1. Trúlausir (fólk "utan trúfélaga) fá ekki að njóta sóknargjalda til félags sem þeir kunna að tilheyra og greiða því hærri skatta en trúað fólk. 
  2. Trúlaust fólk sem greiðir skatt, tekur þátt í því að greiða trúfélögunum sóknargjald fyrir þá meðlimi trúfélaganna sem eru með tekjur undir skattleysismörkum.  Trúlaust fólk í vinnu er því skyldað til að hjálpa við viðhald og uppbyggingu trúfélaga á meðan þeirra félag fær ekki að njóta neins.

 

Lítum aðeins á tölurnar í þessari töflu sem ég gat fengið hjá Hagstofu Íslands:

hagst-08-11-gj

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tölur frá Hagstofu Íslands.  

Taflan sýnir að 1. janúar 2011 voru 77,64% (-1.54%) í Þjóðkirkjunni en 4,42% (+1,17%) utan trúfélaga. Ástæðan fyrir því að fjöldi þeirra sem greiða sóknargjöld (194 þús) er hærri en fjöldi fólks 18 ára og eldri (186 þús) í Þjóðkirkjunni, er sá að sóknargjöld eru miðuð við 16 ára og eldri.  

Hversu margir má maður ætla að séu lágtekjufólk eða á bótum ríkisins á meðal Þjóðkirkjufólks?  Það er langtum stærri tala en sem nemur þessum 4,4% sem eru utan trúfélaga, líklega um 15-20% fólks (t.d. 8% atvinnulausir).  Það er því ljóst að jafnvirði sóknargjalda trúlausra fer allt í að greiða Þjóðkirkjunni sóknargjöld fyrir það fólk sem greiðir ekki skatt af ýmsum orsökum.  Trúlausir skattgreiðendur eru því skyldaðir til að taka þátt í því að viðhalda trúfélögum.  Þeir ríflega 300 á meðal þeirra sem eru Siðmennt greiða að auki þangað félagsgjald (kr 4.400) til að reka félagið.  Það er líklegt að fleiri gætu komið til liðs við Siðmennt ef að það nyti sömu kjara og trúfélögin hjá ríkinu, en þess í stað fá siðrænir húmanistar að finna að þeir séu settir skör lægra en trúaðir. 

Getur þetta kallast réttlæti og jafnræði?  Er þetta í anda jafnaðarstefnu? Að vísu er ekki gert upp á milli háskóla lengur, en er það skárra að enginn háskóli fái ígildi sóknargjalda trúlausra?

   samfelagssattmali

 

Skematísk mynd af þeirri skipan mála (secular) sem tryggir jafnræði.

Þessu ójafnræði þarf að linna.  Það verður aðeins gert með því að allir fái það sama og Þjóðkirkjan eða það sem skynsamlegra er, að útgjöld ríkisins til lífsskoðunarmála verði færð niður á einn lítinn grunn, t.d. helming þeirra sóknargjalda sem nú eru við lýði og gildi jafnt fyrir þau öll.  Félagsleg forréttindi verði jöfnuð út að sama skapi.  Ákvæði um þjóðkirkju tekið út úr stjórnarskrá (en til þess þarf þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 79. grein).  

Í maí í fyrra var lögð fram þingsályktunartillaga um jafnræði lífsskoðunarfélag og nú í apríl 2011 var lögð fram þingsályktunartillaga um aðskilnað ríkis og kirkju.  Þetta eru fyrstu skrefin á Alþingi en nú þarf að spýta í lófana og koma þessum mikilvægu réttlætismálum í verk.  Ofríki hinnar evangelísk-lúthersku kirkju þarf að linna.


mbl.is Fækkar í þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleyg orð Helga Hóseassonar

Í fyrradag fór útför Helga Hóseassonar (sem skrifaði eignarfall nafns síns með þremur essum "Hóseasssonar") fram og var hún haldin á veraldlegan máta í anda manngildis. 

Eftir að hafa kynnt mér ýmislegt það sem Helgi sagði og ritaði eru það eftirfarandi orð hans sem mér finnast einna best:

Ég reyni að nota glóruna.  Ég trúi ekki því sem ég get ekki fellt mig við eða skilið.  Ég leitast við að viðurkenna takmörk mín og fer ekki að búa til skáldskaparrauðgraut í það bil sem ég ekki skil í tilverunni.  Trú er forkastanlegt hugtak; ég leitast við að mynda mér skoðun á hverju og einu og haga mér samkvæmt henni.

Í senn eru þetta ákaflega hógvær og rökrétt orð.  Þau lýsa einnig miklum heiðarleik hans og samkvæmni.  Helgi var maður orða sinna og lifði eftir sannfæringu sinni.  Það og þrautsegja hans eru mikilvægar dygðir sem eru til eftirbreytni.  Hinn mikli baráttumaður er allur, en orðin lifa.

---

Sjá stuðningsmannasíðu á Fésbókinni


"Ef við sleppum hendinni af rótum okkar í Biblíunni..."?

Í vor sýndi RÚV fréttaskýringaþátt í umsjón Boga Ágústssonar sem fjallaði um ýmis vandamál sem steðja að ensku Biskupakirkjunni, en hún varð til við klofning Hinriks 8. frá Kaþólsku kirkjunni og uppkomu mótmælendahreyfingarinnar á 16. öld.  Í Englandi varð ekki til evangelísk-lútersk grein líkt og á Norðurlöndunum heldur sérstök útgáfa mótmælendatrúar í formi Biskupakirkjunnar. Enska Biskupakirkjan á sér ekki neinn yfirbiskup og ákvarðar sín mál með þingum biskupa frá breska Samveldinu og greinum Biskupakirkjunnar í Bandaríkjunum og Afríku. 

Biskupakirkjan hefur ekki fylgt eins vel þeim endurbótum sem mótmælendakirkjur á Norðurlöndum og Norðvestur-Evrópu, hafa komið á að nokkru leyti, t.d. varðandi vígslu kvenna í biskupsembætti og aukna sátt við samkynhneigð.  Í Bandaríkjunum gerðist það í frjálslyndu norðaustur fylki að samkynhneigður prestur var vígður til biskupdóms þar af Biskupakirkjunni amerísku.  Þetta olli miklum skjálfta og deilum innan alþjóðlega hlutans og var þessu ákaft mótmælt á þingi þeirra í Bretlandi.  Sumir biskuparnir ákváðu að sniðganga þingið í mótmælaskyni.  Mikilar deilur urðu innan Biskupakirkjunnar og voru skiptar skoðanir.  Ýmsir kirkjumeðlimir gerður aðkast að bandaríska samkynhneigða biskupnum á fundi og þeir tjáðu óánægju sína með hann í viðtölum.  Hvort að þessir meðlimir eru hinir dæmigerðu veit ég ekki, en ljóst er að þeir eiga stuðning hjá ýmsum biskupum. 

Að mörgu leyti minnti þetta mig á vandræðagang og kirkjuþingsdeilur innan íslensku þjóðkirkjunnar þegar það þurfti mikil átök til að fá meira bókstafstrúaðan hluta hennar til að slaka á kreddu sinni gagnvart vígslu samkynhneigðra para.  Það mál er ekki enn til lykta leitt því útgáfa þjóðkirkjunnar á hjónaböndum samkynhneigðra sem "staðfest samvist" er ekkert annað en mismunun.  Báðir stjórnarflokkarnir hafa séð í gegnum þetta og samþykktu á síðustu landsþingum sínum að lögin í landinu skyldu kveða á um eina hjónabandslöggjöf.  Eftir að búið er að ganga frá IceSave málinu, verður vonandi hægt að snúa sér að gerð laga um bætt mannréttindi á landinu.

Aftur að Biskupakirkjunni.  Hvers vegna sætta margir biskupar hennar og meðlimir sig ekki við samkynhneigðan biskup?  Þegar grannt er skoðað, snýst málið um hvað er siðferðislega rétt og rangt í þeirra huga.  Þetta er skólabókardæmi um muninn á siðferði byggðu á guðfræði og trú annars vegar og hins vegar mannvirðingu og skynsemi einni saman. 

Skoðum þetta nánar:

Kirkjugestur Biskupakirkjunnar í Englandi var spurður álits af fréttamanni RÚV um þessi mál:

kirkjugestur

Konan, sem augljóslega er kristin lýsti áhyggjum sínum og skoðun:  "Ef við sleppum hendinni af rótum okkar í Biblíunni, hvað stendur þá eftir?  Bara skoðanir fólks.. og Biblían er mjög skýr í sambandi við samkynhneigð."

Það þarf ekki vitnanna við um að konan, sem endurspeglar áhyggjur biskupanna einnig, er hér að koma að kjarna þess máls og dregur fram tvo mjög mikilvæga guðfræðilega punkta:

  1. "Bara skoðanir fólks.."  Samkvæmt kristinni kenningu eru skoðanir Guðs mikilvægari en skoðanir fólks og því er konan trú sinni trú.  Ef þið trúið mér ekki, gluggið þá aðeins í Biblíuna.
  2. "Og Biblían er mjög skýr í sambandi við samkynhneigð."  Um þetta standa reyndar talsverðar deilur innan kristinna trúfélaga og utan.  Fólk sem tekur alla Biblíuna alvarlega er flest sammála þessari konu, en þeir sem jafnan líta á kristni sem nær eingöngu orð Jesú Krists, eru snöggir að benda á að hann hafi ekki látið nein styggðaryrði falla í garð samkynhneigðra.  Reyndar eru engin orð um samkynhneigð eignuð Jesú í Biblíunni, hvorki neikvæð né jávæð, þannig að það er skiljanlegt að fólk sem leitar til Biblíunnar í leit að leiðsögn um afstöðu gagnvart samkynhneigð taki orð Páls postula sem hina gildu kristnu afstöðu.  Rómverjabréfið 1:26-28

Þess vegna hefur Guð ofurselt þá [mennina] svívirðilegum girndum.  Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.

Í bréfi Páls postula til Korintumanna segir (6:9-10):

Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífsmenn, né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.

Það fer því ekki milli mála að Páll postuli, sem á mikinn hluta efnis Nýja Testamentsins og einn helsti frumkvöðull kristninnar, telur samkynhneigð svívirðilega girnd, skömm, villu, kynvillu og saurlifnað.  Er því nokkuð óeðlilegt að kristið fólk sem vill taka orð Biblíunnar alvarlega og haga sér orðinu samkvæmt, skuli fordæma samkynhneigð?  Eins og kristna konan hér að ofan spyr, stendur þá nokkuð annað eftir en "bara skoðanir fólks" ef ekki er farið eftir boðun Guðs samkvæmt Páli postula í Biblíunni?

Dæmið um samkynhneigð er ekki hið eina sem sýnir að boðun Biblíunnar er á skjön við ýmsar þær húmanísku eða heimspekilegu skoðanir sem flest vestræn (sk. þróuðu löndin) þjóðfélög nútímans aðhyllast.  T.d. eru kvenréttindi, réttur til fóstureyðinga, réttur til að trúa ekki á Guð, réttur allra til frelsis yfir líkama sínum (afnám þrælahalds), mynd okkar af heiminum (ekki sköpunarverk), traust á læknisfræði (ekki bænir eða kraftaverk), samviskufrelsi (laus við erfðasynd og helvíti), siðfræði (t.d. nytjahyggjan), söfnun fjárs (frjáls markaður) og fleira komin til vegna frjálsrar hugsunar byggða á manngildi (húmanisma) óháð trúarlögmálum. 

Það er í raun ógerlegt fyrir siðaða manneskju nútímans að ætla sér að fylgja Biblíunni utan ákveðinna almennra grundvallaratriða í henni sem hvort eð eru sammannleg, eins og:

  • Góðvilji og hjálpsemi - kærleikur.  Gullna reglan.  Setja sig í spor annarra.
  • Sigra illt með góðu (gengur ekki allt upp þó). Sbr "mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði" (Orðskv. 15:1).
  • Gefa glaður (sælla er að gefa en þiggja)
  • Hógværð - enga fégirni, frekar andlega fjársjóði.  
  • Monta sig ekki af góðverkum (ekki beint stefnan í dag).
  • Gestrisni
  • Virðing fyrir verkamönnum
  • Elska náungann - huga að hag annarra
  • Gefast ekki upp - barátta (Leitið og þér munið finna).
  • Nota tímann viturlega
  • Minnast þjáninga bandingja - minnsti bróðurinn
  • Virða stjórnvöld og að þau hafi sérstakt vald (guðsríki nær því ekki yfir öll svið, sbr. "Gjalda keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er")
  • Þreytast ekki að gera (rétt) gott, þ.e. þolgæði.
  • Æðruleysi - hafa ekki áhyggjur af morgundeginum.  Stóismi Forn-Grikkja og Rómverja 1-2. aldar var háþróuð heimspeki æðruleysis og því var æðruleysið ekkert nýtt.
  • Lof barna eftirsóknarvert.  Barngæska.
  • Miskunnsemi - æri misjöfn þó í Biblíunni og talsverð dómharka í sumu.
  • Huga að bágstöddum - ein af rósum frumkristninnar í Róm, sem vann henni hve mest fylgi.
  • Heill hinum réttlátu - réttlætishungur.
  • Vera seinn til reiði, þ.e. taumhald skapsmuna, en ekki tókst mörgum kristnum leiðtogum vel upp í þessu í gegnum aldirnar.
  • Jafnræði - "það rignir yfir réttláta sem rangláta" - dæma ekki of hart.  Aftur, talsverðir misbrestir hafa orðið á þessu.
  • Annar séns gefinn - "sæll er sá er afbrotin eru hulin".
  • Friður metinn - "sælir eru friðflytjendur".  Aftur - ýmislegt sem boðaði eða réttlætti stríð þó.
  • Virða eignarétt - "þú skalt ekki stela".
  • Virða líf
  • Virða loforð um trúsemi við maka

Þessi listi sýnir e.t.v. best af hverju kristið siðgæði er auðugt af ýmsu góðu og hefur lifað af gegnum aldirnar, en þegar jákvæða leiðbeiningu ritningarinnar skortir eða að orð hennar eru hreinlega andstæð nútíma hugmyndum okkar um mannvirðingu, jafnrétti, jafnræði, einstaklingsfrelsi og siðferðilegar ákvarðanir í flóknum siðferðilegum álitamálum (fóstureyðingar, líknardráp, ákvarðanir í réttarkerfinu, refsingar og margt fleira), vandast málið verulega fyrir kristnar manneskjur.

Í stórum könnunum (Gallup og Félagsvísindastofnun HÍ) hérlendis hefur komið í ljós að aðeins 8-10% Íslendinga trúa á hinn guðfræðilega kjarna kristninnar (allt "guðstalið" eins og það er gjarnan kallað), eins og trú á upprisun, meyfæðinguna eða líf í himnaríki eftir dauðann.  Þó að um 50% segjast vera kristnir og um 90% séu skráðir í kristin trúfélög, virðast samkvæmt þessu aðeins um 8-10% sem nota bókstaf Biblíunnar til að leiðbeina sér.  Með öðrum orðum; 9 af hverju 10 í kristnum söfnuðum (en 1/5 þeirra sem skilgreina sig kristna), eru líklegir til að velja sér hin almennu siðaboð kristninnar (í listanum hér að ofan) samkvæmt því sem á hljómgrunn í almennri skynsemi þeirra og passar við prófun við raunveruleikann, frekar en að fylgja boðun Biblíunnar í einu og öllu sem þar er skrifað.  Flestir í kristnum söfnuðum eru því það sem má segja "menningarlega" kristnir og fylgja í raun bara tíðaranda þjóðfélagsins í heild og eigin dómgreind hvað siðferðilega leiðbeiningu varðar.  Þetta er að mestu húmanískt viðhorf, þ.e. að skynsemi og raunsæi sé það sem mestu skipti.  Merkilegt er að þetta passar einnig við hina svokölluðu Fjallræðu Jesú þar sem hann átti að hafa sagt að kærleikurinn sé trú og von fremri.  Hin húmaníska útgáfa er sú að velviljinn sé lykilatriði í siðferðinu og saman með frelsi, mannvirðingu og samábyrgð. 

Það er því margt líkt með kristni og húmanisma, en guðstrúin hefur "yfirbyggingu" sem manngildishyggjan sér ekki þörf fyrir eða tilgang með.  Í kristni er siðferðið útskýrt með því að það komi frá yfirvaldinu "Drottni almáttugum, skapara himins og jarðar" og þarfnast það því ekki eiginlegs rökstuðnings.  Sem betur fer eru mörg hin almennu siðaboð kristninnar í ágætu samræmi við skynsemishyggju húmanismans og almenna raunhyggju í þjóðfélaginu, en þegar siðaboð kristninnar gera það ekki (t.d. varðandi samkynhneigð), vandast málið, vegna upprunans.  Eins og kirkjugesturinn hér að ofan segir, þá standa bara eftir "skoðanir fólksins".  Það er ekkert grín fyrir hinn sanntrúaða og leggja nákvæm orð Drottins til hliðar og fylgja túlkun hinna frjálslyndu (menningarlega kristnu) um að Jesú hefði viljað slaka á málum í nafni kærleikans.  Slíkt myndar stóra holu óöryggis og ótta um að kirkjan sé að spillast.  Hinn sanntrúaði (trúir samkvæmt bókstafnum) á ekki þann valkost að hugsa siðferðisleg álitamál út frá eigin skynsemi því siðfræði kristninnar byggir ekki á rökleiðslu eða stefnumiðaðri skoðun (T.d. nytjahyggjan setur stefnuna á hámörkun hamingjunnar) málanna, heldur eingöngu því að fylgja orði Guðs eins og það er ritað í hinni heilögu ritningu. 

Hinn sannkristni einstaklingur hefur því læst sig í endalausa klemmu milli orða Guðs og tíðaranda samtímans sem kemst að nýrri niðurstöðu vegna sífelldrar endurskoðunar mála og þróun rökræðunnar (hin vísindalega og skynsama nálgun).  Þannig hefur kristnin orðið að gefa bókstafinn (sértækar leiðbeiningar ritninganna) smám saman upp á bátinn vegna þrýstings frá húmanískri þróun, sérstaklega í vestrænum þjóðfélögum.  Þetta gerist með eftirfarandi móti:

  • Kirkjan segir að Biblían hafi verið rangtúlkuð.  T.d. Páll postuli tali ekki fyrir munn kristinna í máli samkynhneigðra og almennur kærleiksboðskapur Jesú sé það sem gildi.
  • Kirkjan segir að ákveðinn hluti Biblíunnar sé í rauninni ljóð eða líkingarmál, sbr. sköpunarsagan, sem af "sjálfsögðu" útskýri ekki þróun lífvera eða tilurð mannsins.  Samt hætta þeir ekki að þylja upp orð eins og "sköpunarverkið" og "skapari himins og jarðar".
  • Kirkjan segir að um þýðingarvillur sé að ræða, eða hreinlega breytir Biblíunni undir yfirskyni "nýrrar þýðingar" til að gera hana boðlegri samtímanum.  T.d. breyting á persónufornöfnum í nýjustu "þýðingunni" til þess að höfða til beggja kynja, í stað einungis karlmanna.
  • Kirkjan segir að Gamla Testamentið (sem er fullt af hinum reiða, hefnigjarna Guði og ýmsu ofbeldi) sé hluti af gamalli arfleifð en ekki í raun (hin siðbætta) kristni samkvæmt Frelsaranum.
  • Kirkjan gefur eftir án sérstakra útskýringa. Stundum verður biskup að segja af sér eða annar trúarleiðtogi nær yfirhöndinni, til þess að breytingin nái í gegn. 

Það er ljóst að boðorðasiðfræði (guðfræði: The Divine Command Theory) trúarbragða gengur aldrei upp til lengdar.  Það er vissulega til mikillar einföldunar fyrir marga að eitthvað sé bara "bannað af Guði" og þannig þurfi ekki að blanda neinum tilfinningum í málið eða efast um hlutlægni þeirra sem taka ákvarðnir skv. boðorðum Guðs.  Ef allir fara eftir lögmáli Guðs virðist ekki vera gert upp á milli fólks.  Þá helgast meðalið af því að uppskera verðlaun á himnum á efsta degi.  Hinn trúaði þarf ekki að leita annars tilgangs fyrir því að gera rétt. 

Sé þessi guðfræðilega forsenda siðferðis samþykkt lendum hins vegar við í alvarlegri þversögn sem t.d. Forn-Grikkinn Sókrates koma auga á löngu áður en kristnin fæddist.  (Boðorðanotkun trúarbragða var ekki ný á nálinni í kristninni)  Lítum á valkosti hins trúaða til útskýringar á siðferði samkvæmt boðskap Biblíunnar:

  1. Við eigum að vera sannsögul því að guð fyrirskipar það.  Sannsögli er því mögulega hvorki góð né slæm, heldur einungis rétt af því að guð setti fram boðorð um hana.  Guð getur búið til boðorð eftir eigin vilja og gæti því skipað fólki að ljúga.  Lygin yrði þannig að dygð ef hún væri skipuð af Guði.  Geðþótti Guðs ræður (eins og afstaða hans til samkynhneigðar) og það á að vera gott það sem hann boðar hvort sem að það er sannsögli eða lygar.   Með þessu fellur hugmyndin um óbrigðula "gæsku Guðs" því það gengur ekki upp að Guð sé jafn lofsverður fyrir að fyrirskipa sannsögli eða lygar. 
  2. Guð segir okkur að segir okkur að segja satt af því að það er rétt.  Guð sem er alvitur veit að sannsögli er betri en fals og því eru ákvarðanir hans ekki háðar geðþótta.  Um hann má því segja að hann sé góður.  Þetta virðist hafa leyst allan vanda guðfræðinnar en í raun hafnar þetta hinum guðfræðilega skilningi á réttu og röngu.  Með þessu erum við að segja að það sé til mælikvarði á það hvað sé rétt og rangt óháð vilja Guðs.  Það að guð viti eða sjái að sannsögli er réttari en fals, er allt annað en að segja að hann geri hana rétta.  Þannig að ef að við viljum vita af hverju við eigum að vera sannsögul, er ekki mikið vit í svarinu "af því að Guð skipar svo fyrir".  Það má þá spyrja áfram; "af hverju skipar Guð svo fyrir".

Frá trúarlegu sjónarmiði er vart hægt að sætta sig við að boðorð Guðs byggist á geðþótta og að gæska Guðs sé ekki til staðar (1) og því verður að fallast á að til sé mælikvarði á rétt og rangt, sem sé óháður vilja Guðs (2).  *

Þessi rökleiðsla sýnir að siðferði byggt á boðorðasiðfræði (boðorðakenning) lendir í andstöðu við hugmyndina um gæsku Guðs (og dómgreind) og því er það guðlaus mælikvarði sem í raun er viðmiðið.  Þetta hafa frægir guðfræðingar (d.d. Tómas frá Aquino) viðurkennt, en ýmsir aðrir maldað í móinn og sagt að samt komi Guð einhvern veginn inní það hvað sé rétt og rangt.  Málið fer þá bara í endalausa hringi.  Rétt eins og það er ekki hægt að sýna fram með neinum rökum að Guð sé til, þá er ekki hægt að sýna fram á það með rökum að siðferði geti byggt á skipunum algóðs Guðs. 

Til þess að lifa af og falla ekki í djúpa ónáð hjá íbúum vestrænna þjóða þarf kirkjan að fallast á hinn óguðlega mælikvarða góðs og ills, rétts og rangs (veraldlegur mælikvarði skynsemishyggju og manngildis) og nota þær afsakanir (sjá að ofan) sem hún hefur svo oft notað í "ósigrum" sínum frá því að Upplýsingin með húmanismanum tók að breyta heiminum frá miðri 16. öld.  Til þess að sundrast ekki og missa ekki alla fylgjendur sína þarf kirkjan að fylgja hinum móralska tíðaranda.  Hún hefur sjaldnast sjálf átt frumkvæði að breytingum því að lögmál Guðs Biblíunnar um að hún sé heilög festir kirkjuna í kreddufestu og íhaldssemi.  Bókstafurinn tapar því á endanum, ellegar tapar kirkjan fólkinu.  Þesskonar eftirgjöf verður því í raun "sigur" kirkjunnar því að hún verður húmanískari og meira í sátt við hinn almenna meðlim í kjölfarið.

Það er því innbyggð hræsni (eða siðferðileg mótsögn) í kristni og þeim trúarbrögðum sem byggja á boðorðasiðferði.  Þegar boðin og bönnin ganga ekki upp, er þeim kastað burt til að halda í vinsældir, lifibrauð og völd yfir hugarfari og siðferði fólks.  Sagan er jafnvel fölsuð og framfarirnar þakkaðar eingöngu umbótaeðli kristninnar, þegar í raun varð kristnin að gefa eftir vegna þróunar í húmanísku siðferði.  (Sjá má slíka sögufölsun í inngangi Aðalnámsskrár í kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði þar sem sagt er að siðferðisgildi þjóðarinnar séu upprunin úr kristni en ekki minnst á t.d. ásatrú eða húmaníska heimspeki. Sjá gagnrýni mína nánar hér) Forsendur siðferðis geta aldrei verið vegna "algóðs Guðs" eins og hér hefur verið rakið.  Í hinum endurbætta siðferðiskjarna er síðan áfram haldið að klæða hann guðfræðilegum búningi með skrautlegum seremóníum, fallegum trúarbyggingum, bænum og fögru orðagjálfi um sköpunarverkið og að Guð sé kærleikur sem gæði lífið æðri tilgangi.  Áfram er haldið uppi blekkingunni um að allt eigi upphaf í Guði, þrátt fyrir að hafa fallist á annað í raun.  Þessum leik er síðan haldið uppi af ríkinu.

Án samfélagsins, þ.e. meðlima sinna væri kristin kirkja lítið annað en úrelt lífsskoðunarkerfi sem hugsanlega hafði ýmsar framfarir að færa fyrstu 1200 útbreiðsluárin sín til þjóðfélaga sem skorti t.d. skipulega hjálp til bágstaddra í menningu sína, en hefur um leið verið helsti dragbítur framfara (einstaka prestar þó góðar undantekningar) og sérstaklega síðustu 800 ár sín eða svo.  Þvert ofan í boðskap eigin ritningu hefur hún safnað gríðarlegum auði og situr á öllum sérréttindum sem hún hefur aflað sér eins og ormur á gulli.  Eins og listi hins góða boðskaps kristninnar hér að ofan gefur til kynna þá hefur hún stuðlað að ýmsu góðu, en það er kominn tími til að þróa okkur áfram og yfirgefa hina óþörfu og ímynduðu hugmynd um "Guð" þar sem hún hjálpar okkur ekki til að vita muninn á réttu og röngu.  Fyrir þjóðfélög að burðast með trúarbrögð er eins og að reyna að aka inní framtíðina með handbremsuna á.  Guðshugmyndin er ekki bara óþörf, heldur er hún einnig til travala.

Á endanum eru það "bara skoðanir fólks" sem bera okkur inní framtíðina því það er í raun ekkert "bara".  Skoðanir okkar, fólksins, eru ein dýrmætasta eign okkar og við þurfum að halda flækjustiginu sem minnstu og sem flestum upplýstum til að skapa betra líf.  Vanmetum ekki hugann og það sem við getum áorkað með velvilja og raunsæi að leiðarljósi!

Góðar stundir og þakkir fyrir að hafa þolinmæði til að lesa þetta langa grein!

* Sjá nánar í bókinni Straumar og stefnur í siðfræði, kafli 4; Eru trúarbrögð forsendur siðferðis, höf. James Rachels (þýð. Jón Á Kalmannsson), Siðfræðistofnun HÍ og Háskólaútgáfan 1997.


Sannir ameríkanar eru enn til!

Hverjum þykir sinn fugl fagur og nú hef ég fundið fallegan amerískan örn sem talar undurfagra tónlist í mín eyru.  Hlustið kæru! Hlustið!

Húmanistinn Pete Stark er fyrsti þingmaður Bandaríkjanna til að lýsa því yfir opinberlega að hann sé guðlaus.  Þetta er greinilega hinn vænsti maður og amerísk hetja í sinni sönnu mynd.  Hann veit hvað landsfeðurnir, Thomas Jefferson og félagar áttu við með aðskilnaði ríkis og kirkju.  Verst að íslensk stjórnvöld hafa aldrei skilið það fyllilega, en það er ekki öll von úti. ;-)

Eftir að hafa lesið um viðbjóðsleg sæmdarmorð í Jórdaníu (og Norðurlöndunum þar áður) og séð kvenhatara og ofbeldisseggi í sænsku krimmamyndinni "Karlar sem hata konur", voru það Leifur Geir og Pete Stark sem björguðu deginum. 


Hreinn viðbjóður - og viðurkenndur í þokkabót

Mál af þessu tagi fylla mann óhug og viðbjóði yfir menningu sem getur látið svona sæmdarsvik og sæmdarmorð líðast.  Það er eitthvað mikið að í þjóðfélagi sem leggur það að jöfnu að hlaupast undan ráðhag foreldra um að giftast manni eftir þeirra vilja og að fyrirgera rétti sínum til lífs.  Fari allur postmodernismi (menningarleg afstæðishyggja í siðferði) fjandans til því svona hluti er aldrei hægt að réttlæta.  Fari þessar testósterónfnykjandi karlveldisbullur norður og niður, því verri verður ekki kúgun kvenna en þetta. 

Læknir (karlmaður um þrítugt) frjá Jórdaníu sem ég kynntist í New York í sérnámi mínu þar á árunum 1998 - 2001, sagði mér frá ýmsum háttum í menningu sinni.  Hann útskýrði að hann myndi ekki taka konu sína til baka í þriðja sinn ef að hann myndi fyrirgefa henni tvisvar fyrir "misgjörðir".  Þriðja skiptið væri alger skilnaður og þá ætti hún enga möguleika á því að giftast aftur, hvorki honum né öðrum körlum.  Ég lýsti yfir undrun minni á þessu og þá sagði hann þessi "gullnu" orð sem ég gleymi seint:

Mannréttindin eru ágæt en þau eru ekki fyrir okkur

og hló svo við af miklu sjálfsöryggi.  Hann eignaðist skömmu síðar stúlku með konu sinni og sagði brosandi að faðir hans hefði sagt:

Þú gerir bara betur næst!

Þá talaði hann um hversu Ísraelsmenn væru slæmir og hefðu rekið föður hans og fjölskylduna af landi þeirra í Palestínu.  Það væri ekki þeirra val að vera Jórdanir nú.  Ég átti bágt með að vökna um augun, þó að í þeim efnum hefði hann ýmislegt til síns máls.

Viðbjóður!  Það er bara ekkert annað orð betra um þessi smánarlegu morð sem kennd eru við heiður.  Hvaða heiður? 


mbl.is Myrti systur sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrar tilvitnanir til heiðurs skynseminni

Það er gott að orna sér stundum við hnyttin eða skörp orð fólks sem vissi hvað það söng, ekki síst nú á tímum þegar þrátt fyrir allt upplýsingaflæðið, vaða hindurvitnin og sjálfsblekkingarnar um allt.  Hér fara nokkrar tilvitninar í merka menn sögunnar.

Thomas Jefferson, 3. forseti Bandaríkjanna er í miklu uppáhaldi hjá mér.  Hann skrifaði í bréfi einu til yngri manns sem hann var að gefa ráðleggingar:

Með djörfung skaltu draga í efa jafnvel tilveru guðs; því ef slíkur er til, þá hlýtur hann að halda í heiðri notkun skynseminnar, frekar en að blinda hana með ótta.

Rithöfundurinn George Bernard Shaw skrifaði:

Sú staðreynd að hinn trúaði sé hamingjusamari en efahyggjumaðurinn er engu nær lagi en sú staðreynd að drukkinn maður er hamingjusamari en sá allsgáði.

Stærðfræðingurin, heimspekingurinn, sagnfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Bertrand Russell sagði:

Eftirsóknarverður er ekki viljinn til að trúa, heldur löngunin til að finna út um hlutina, sem er alger andstæða þess.

Hér er eitt snoturt frá Charles Darwin, sem átti 200 ára fæðingarafmæli fyrr á árinu:

Ég get ekki sannfært sjálfan mig um að góðviljaður og almáttúgur Guð hefði með hönnun skapað ... það að kettir skuli leika sér að músum.

Rokkarinn kunni og háðfuglinn Frank Zappa sagði:

Munurinn á trúarbrögðum (religions) og sértrúarsöfnuðum (cults) ræðst af því hversu miklar fasteignir þeir eiga.

Ég gef svo Benjamin Franklin einum af "landsfeðrum" Bandaríkjanna, síðasta orðið:

Eina leiðin til að opna augun fyrir trú er að loka augum skynseminnar

 

Góðar stundir!

Svanur


Hið sammannlega og hamingjan - Dalai Lama, Barack Obama, A.H. Maslow og Aristóteles

Það er búið að vera athyglisvert að fylgjast með heimsókn Dalai Lama og horfa á það sjónvarpsefni sem bæði RÚV og Stöð 2 hafa boðið uppá um þennan merka mann.  Hann er vel að þeim heiðri kominn sem Parísarbúar eru nú að veita honum.

Í viðtali við hann í þætti RÚV sagði Dalai Lama eftirfarandi (endursagt):

Ég [Dalai Lama] er ein manneskja af 6 milljörðum sem byggja jörðina.  Mitt hlutverk í þessari röð eDalai_Lama_RUVr:

  1. Að öðlast innri frið og hjartahlýju.  Sýna samhygð (empathy) gagnvart öðru fólki.  Við erum félagsverur og hamingja okkar veltur mikið á því að gera vel við aðra.
  2. Að vera búddisti.
  3. Að rækta skyldur við þjóð mína, Tíbet og að vera þjóðinni Dalai Lama.  Ef í framtíðinni verður ekki þörf fyrir stofnunina Dalai Lama fyrir Tíbet þá verður hún lögð af, annars ekki.  Ég ákveð það ekki.

Það virðis í fljóti bragði að þetta séu sjálfsagðir hlutir, en svo er ekki og viskan í þessum orðum Dalai Lama felst fyrst og fremst í því hver forgangsröð þessara atriða er.  Hann setur manneskjuna fremsta og þann mikilvæga eiginleika að finna til samhygðar og hjartahlýju.  Leitin að innri gildum, frið og sátt við aðra er mikilvægust.  Þar á eftir koma hans eigin trúarbrögð, búddisminn og loks skyldur hans sem Dalai Lama gagnvart Tíbet.  Hann skynjar að staða hans er ekki endilega eilíf og sýnir þá auðmýkt og raunsæi að hugsanlega verður ekki embætti Dalai Lama í framtíðinni.  Hann setur því velferð annarra fram fyrir þörfina fyrir að viðhalda því embætti sem hann gegnir.  Þá sagði Dalai Lama að mikilvægt væri að láta skynsemina ráða í öllu því sem við gerum.

Í bók sinni: "The Dalai Lama, A Policy of Kindness" Dalai Lama 1990 bls. 52, segir hann:

Ég trúi að í sérhverju lagi samfélagsins - í fjölskyldunni, ættinni, þjóðinni og jörðinni - sé lykillinn að hamingjuríkari og árangursríkari heimi vöxtur væntumþykjunnar. Við þurfum ekki að verða trúuð og við þurfum ekki heldur að trúa á ákveðna hugmyndafræði. Það eina sem þarf er að hvert okkar þrói með sér okkar góðu mannlegu eiginleika.

Annað sem er sláandi (fyrir trúarleiðtoga), er að hann viðurkennir að fjárhagslegar þarfir (ytri gildi)eru eðlilegar, en á sama tíma vill brýna fyrir fólki að það megi ekki vanrækja hin innri gildi, sem nauðsynleg eru til að öðlast lífsfyllingu.  Hugsa þurfi allar ákvarðanir út frá stóru samhengi hlutanna, ekki aðeins þeim fjárhagslegu. 

Þetta er í samræmi við þann boðskap sem Barack Obama forseti Bandaríkjanna hefur flutt, en hann talar um að ekki þurfi einungis að stoppa í fjárlagagatið heldur þurfi ekki síður að leiðrétta "samhygðarhallann" (empathy deficit) í heiminum.  Lykillinn að betri heimi er að setja okkur í spor annarra.  Sjá umfjöllun á baráttuvefnum change.org

Bandaríski sálfræðingurinn Abraham Harold Maslow (1908-1970) var þekktur fyrir kenningar sínar á sviði húmanískrar sálfræði og var valinn húmanisti ársins árið1967 Abraham_maslowaf Húmanistafélagi Ameríku (Am. Hum. Assoc.).  Hans þekktasta tillegg er kenningin um þarfapýramídann 800px-Maslow's_hierarchy_of_needs_svgsem lýsir þörfum hverrar manneskju í 5 stigum þar sem fyrsta skrefið lýtur að þörfum líkamans fyrir fæði og vatn, annað stigið þörfin fyrir öryggi og húsaskjól, þriðja stigið þörfin fyrir ást og að tilheyra, fjórða stigið þörfin fyrir sérstaka virðingu og að afreka eitthvað, og loks fimmta stigið að öðlast lífsfyllingu (self-actualization, sjálf-raungervingu) gegnum siðferðilegan þroska, getu til sköpunar og lausnar á vandamálum, sátt við staðreyndir og hugsun án fordóma.  Mikilvægasta þörfin sé hin fimmta, en bæði fjórða og fimmta stigið lýsa fólki sem hugsa ekki síður um velferð annarra en sína eigin.  Síðari kennimenn hafa bent á að þessi röðun sé ekki endilega til staðar í lífi fólks, en hvað sem því líður, þá er þarfapýramídi Maslows athyglisvert módel til að skilja betur mismunandi ásigkomulag manneskjunnar og e.t.v. hvar hamingjuna er að finna. 

Forn-Grikkir; Sókrates sagði: "Hið órannsakaða líf er ekki þess virði að lifa" og Aristóteles sagði að hin vel ígrundaða manneskja sem ræktaði gáfur sínar ætti mestan möguleikann á hamingju.

Í fjallræðunni á Jesús að hafa sagt að kærleikurinn sé trúnni meiri.  Þetta er í raun það sem Dalai Lama er að segja, en vandi kristninnar er að þessi orð Jesú eru í mótsögn við margt annað sem stendur í Biblíunni.  Í henni er ítrekað því haldið fram að Guð sé kærleikurinn og aðeins í gegnum hann sé elskan möguleg.  Martin Luther (1483-1546), faðir mótmælendatrúarinnar sagði eitt sinn: "Tortíma skal allri skynsemi úr kristnu fólki".  Sem sagt manneskjan er ekki fær til að meta sjálf hvað sé henni fyrir bestu og allt þurfi að skoðast fyrst í gegnum gleraugu trúarinnar á guð.  Frjálslyndir mótmælendaprestar í dag lifa eftir kærleiksboðinu og leyfa sér að nota skynsemina í formi óyfirlýstrar manngildishyggju (t.d. Bjarni Karlson og Hjörtur Magni Jóhannsson), en biskupar á borð við Karl Sigurbjörnson hafa átalið manngildið og í ræðu sem hann nefndi "undan eða á eftir tímanum" og flutti í Hallgrímskirkju 2. desember 2007, sagði hann:

Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.

Þrátt fyrir ýmis orð í Biblíunni þar sem kristnir eru hvattir til að hugsa ekki, heldur treysta á Guð, vilja kristnir menn gjarnan eigna sér einum skynsemina einnig og þær framfarir sem vísindin og þróun félagslegs réttlætis sem áttu sér stað með tilkomu Endurreisnarinnar (1450-1550)og Upplýsingarinnar (upp úr 1650).  Karl Sigurbjörnsson skrifaði grein þess efnis sem hann nefndi "Sigur skynseminnar" 17. október 2006 og má lesa á tru.is ásamt fjölmörgum andsvörum, m.a. frá Steindóri Erlingssyni vísindasagnfræðingi.  Þessari eignun íslensku lútersku kirkjunnar á sögulegum áhrifum og siðferðisgildum, sér m.a. merki í útlistun fagsins "Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði" í aðalnámsskrá grunnskólanna frá 2007, því þar stendur í inngangi fagsins (bls. 5) (og á bls. 7 í inngangi núgildandi aðalnámskrár frá 14. febrúar 2009):

Mikilvægur þáttur uppeldismótunarinnar er siðgæðisuppeldið. Sérhvert þjóðfélag byggist á ákveðnum grundvallargildum. Skólanum er ætlað að miðla slíkum gildum. Í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur. Nægir þar að nefna virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum og helgi mannlegs lífs, umhverfinu og öllu lífi.

Takið eftir að engar aðrar rætur grundvallargildanna eru nefndar, svo sem ásatrúin og  manngildishyggjan (eða mannhyggjan), en hin síðarnefnda braut smám saman aftur valdakerfi konunga og biskupa og átti mestan þátt í því að réttindi einstaklinga, hinna almennu borgara fengu að líta dagsins ljós.  Á síðu íslensku wikipediunnar um Endurreisnartímann má sjá eftirfarandi umsögn um mannhyggjuna (húmanismann):

Ein mikilvægasta heimspeki tímabilsins var mannhyggjan eða „húmanisminn“ sem fólst í aukinni áherslu á mannlífið í stað þess að álíta heiminn fyrst og fremst áfanga á leið til handanlífs kristninnar.

Dalai Lama sagði að öll trúarbrögð heimsins hafi í sér möguleika á því að gefa af sér innri frið, en væntanlega gerist það ekki nema að hið sammannlega, samhygðin og hjartahlýjan sé sett í fyrsta sætið. 

Jákvæðni Dalai Lama er aðdáunarverð og eflaust má finna sannleikskorn í þessari túlkun hans á trúarbrögðunum, en því miður er það álíka markvisst að nota heybagga til að reka niður nagla í vegg, eins og að styðjast við trúarbrögð í siðrænni ákvörðunartöku, sérstaklega þeirrar flóknu á sviði stjórnmála, heilbrigðismála, viðskipta, alþjóðasamskipta og laga- og réttarkerfis.  Baggi hins óþarfa og óheilbrigða í stóru trúarbrögðum heimsins er það stór að hinn sammannlegi kjarni samhygðar og velvilja mannkynsins verður oft útundan í ákvörðunartöku trúaðra þrátt fyrir góðan ásetning. (T.d. vanþóknun páfa á notkun getnaðarvarna).

Af öllu þessu fólki má draga þann einfalda og áhrifamikla lærdóm að hin hugsandi manneskja (sbr. homo sapiens), sem metur samhygð og velvilja gagnvart samferðarfólki sínu á jörðinni, æðst allra gilda, sé sú sem líklegust er til að verða hamingjusöm og stuðla um leið að hamingju annarra. Hamingjan er lykillinn að friði og velferð (í víðasta skilningi þess orðs) í heiminum og því þurfum við öll að líta ábyrgum augum til þess sem Dalai Lama setur fremst í forgangsröðunina. 


mbl.is Dalai Lama heiðraður í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að loknum landsfundum - hjónabandslöggjöf og lífsskoðunarfélög

Hjónabandslöggjöfin og samkynhneigðir

Fyrst skulum við skoða baráttuna fyrir því að í landinu ríki aðeins ein hjúskaparlög, þ.e. að samkynhneigðir verði ekki lengur meðhöndlaðir sem annars flokks þegnar með því að kalla hjónaband þeirra "staðfesta samvist" .  

Það er gleðilegt frá því að segja að Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn hafa allir ályktað að

  • Sameina eigi hjónabandslöggjöfina í ein lög.  

Í stefnuskrá Frjálslynda flokksins er ekki ritað sérstaklega um þetta en sagt í almennri yfirlýsingu að samkynhneigðir eigi að njóta sömu mannréttinda og jafnréttis og aðrir (fann ekkert nýrra á vefsíðu þeirra).

Samfylkingin ályktaði til viðbótar:

  • Að flokkurinn skuli taka til við að endurskoða hjónabandslögin varðandi eðli þess sem borgaraleg stofnun þannig að hugsanlega eigi lagalegi hluti þess að vera alfarið í höndum sýslumanna.

Þessi tillaga var sett á dagskrá hjá Sjálfstæðismönnum en okkur er ekki kunnugt um afdrif hennar.  Ýmsir guðfræðingar í flokknum andmæltu henni hart á spjallvef flokksins.  Nokkrir guðfræðingar í Samfylkingunni andmæltu þessu einnig.

Jafnræði lífsskoðunarfélaga.

Leggja niður þjóðkirkjuskipanina

Aðeins Frjálslyndi flokkurinn hefur það í stefnuskrá sinni frá stofnun flokksins að stefna skuli að aðskilnaði ríkis og kirkju.  Flokkurinn hefur lítið unnið að þessu mikilvæga máli, en formaður þess hafði þó smíðað tillögu þess efnis sem fékk ekki brautargengi á Alþingi í tíð stjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Stórtíðindi!

Vinstri grænir ályktuðu á sínu landsþingi í ár að:

  • Stefna skuli að aðskilnaði þjóðkirkju og ríkisvalds. Mikilvægt er að stuðla að víðtækri sátt í þjóðfélaginu um samstarf ríkis og trúfélaga.

Þeir eru nú stærsti stjórnmálaflokkurinn sem hefur sent frá sér ályktun um aðskilnað þjóðkirkju og ríkisvalds.

Önnur mikilvæg mál lífsskoðanafrelsis og jafnræðis

Vinstri grænir og Samfylkingin hafa samþykkt á landsfundum sínum í ár, eftirfarandi:

  • Hætta skal sjálfkrafa skráningu barna í trúfélag móður
  • Veraldleg lífsskoðunarfélög öðlist sömu lagaleg réttindi og þau trúarlegu.  Þetta mun þýða að Siðmennt fái skráningu sem lífsskoðunarfélag og fái að njóta sóknargjaldakerfis ríkisins.
  • Virða beri réttindi foreldra til þess að ráða trúaruppeldi barna sinna.  Trúboð eða trúarlega starfsemi eigi því ekki að leyfa í leik- eða grunnskólum.

Vinstri grænir ályktuðu að auki:

  • Afnema skuli 125. grein almennra hegningarlaga um guðlast.   Samfylkingin beindi þessari tillögu til framkvæmdarstjórnar.

Samfylkingin ákvað að skoða nánar lög um helgidagafrið og guðlastslögin hjá framkvæmdastjórn.  Sömuleiðis var tillögu um að leggja niður 62. grein stjórnarskrárinnar um að hin evangelísk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja, vísað til framkvæmdarstjórnar.  Málið var talið of skammt komið í umræðunni til að greiða um það atkvæði, en finna mátti á mörgum landsfundarfulltrúum að málið átti hljómgrunn.

Hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn ályktuðu um þessi mál og þeir hafa ekki látið frá sér aðrar yfirlýsingar en að styðja eigi við þjóðkirkjuna og önnur trúfélög.  Ekkert minnst á að laga þurfi þá mismunun sem ríkir eða viðurkenna veraldleg lífsskoðunarfélög.

Nýju flokkarnir; Borgarahreyfingin (xO), Fullveldissinnar (xL) og Lýðræðishreyfingin (xP), taka ekki afstöðu til þessara mála enda yfirlýst stofnaðir til að taka á afmarkaðri stórmálum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband