Í átt til aukins jafnréttis og jafnræðis
19.9.2011 | 11:44
Það er fagnaðarefni að nú skuli vera unnið að frumvarpi í Innanríkisráðuneytinu sem miðar að því að veraldleg lífsskoðunarfélög fái sömu þjónustu frá ríkinu og þau trúarlegu. Hvað er annars lífsskoðunarfélag?
Lífsskoðunarfélag er það sem á enskunni er kallað "life stance organization" og er félag sem hefur það að megin verkefni að fjalla um siðfræði og siðferði og skapa í kringum það sinn lífsmáta eða menningu. Það birtist aðallega í því að á vegum slíks félags fara fram hugvekjur og tímamótaathafnir fjölskyldna. Sum þessi félög hafa einnig stefnur á sviði þekkingarfræðinnar, stundum nefnt við heimsmyndina og er þar skýrasta dæmið útskýringar á tilurð heimsins og mannsins.
Hin trúarlegu lífsskoðunarfélög sækja jafnan siðfræði sína að hluta eða alveg í trúarrit sem útskýra vilja almættisins og stundum er einnig trúað á útskýringar á heimsmyndinni þar.
Hin veraldlegu lífsskoðunarfélög sækja aftur siðfræði sína í aðferðir heimsspekinnar og þá þróun sem varð í siðfræði með skrifum hugsuða upplýsingarinnar og síðar. Heimsmyndin byggist á vísindalegri þekkingarfræði.
Bæði trúarleg og veraldleg lífsskoðunarfélög vilja gjarnan fagna hlutum saman og hafa sínar athafnir, hugvekjur og hátíðir á sinn máta. Þó ólík séu er ljóst að þarna eru sömu viðfangsefnin á ferðinni og því er hægt að setja þau undir þetta sama heiti: lífsskoðunarfélög.
Ríkið á í raun ekki að veita skattfé til þessara prívatfélaga, nema að þjóðin hafi tekið málið til rækilegrar umfjöllunar og vilji veita einhvern smá grunnstyrk til þeirra allra. Það er of dýrt að reka ríkissjóð til þess að við förum að útdeila miklu fé í þessa sjálfstæðu starfsemi sem er mikilvæg en í raun ekki neitt sem hinn sameiginlegi vettvangur þarf að standa undir.
Fyrst að við erum enn að bera arfleifð einokunartrúar sem heimtaði beintengingu við skattkerfið eftir að tíundin var lögð niður og fær ótal aðrar sérgreiðslur, þá þarf að reyna að laga ójafnvægið.
Eftirfarandi þarf að gera:
1. Losa fornu einokunarkirkjuna (Þjóðkirkjuna) undan spenanum og hætta launagreiðslum og veitingu sérstyrkja til hennar (nema til að varðveita viss menningarverðmæti). Gera upp "jarðamálið" í eitt skipti fyrir öll.
2. Losa þjóðina undan sóknargjaldakerfinu (best) eða laga það á eftirfarandi máta:
- Börn séu ekki skráð sjálfkrafa í lífsskoðunarfélag móður
- Fullveðja einstaklingur (að lágmarki 16 ára) þurfi að skrá sig í lífsskoðunarfélag hafi viðkomandi áhuga á því. Það megi haka við það á skattskýrslunni eða skrá sig í Þjóðskrá.
- Sem fyrr að sóknargjöld miði aðeins við 16 ára (eða 18 ára) og eldri.
- Að sóknargjöld séu aðeins greidd þegar skráður einstaklingur hefur nægar tekjur til að greiða tekjuskatt, sem nær að minnsta kosti hálfri milljón króna yfir árið. (óeðlilegt að t.d. sóknargjald upp á 10 þús. kr. x12 mán, samtals 120 þús kr sé greitt þegar heildarskatturinn rétt nær þeirr upphæð. Meirihluti skattfés á að fara í aðra þarfari hluti.)
- Að sóknargjald sé ekki greitt fyrir þá einstaklinga sem lifa eingöngu á bótum frá ríkinu (fyrir utan ellilífeyri). Slíkt sóknargjald kæmi aðeins úr vasa þeirra sem greiða skatta af eigin vinnu.
Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heimsspeki og siðfræði, Lífsskoðanir | Breytt s.d. kl. 11:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.