Landið okkar

Ég er einn af þeim fjölmörgu sem vilja nú vernda náttúru landsins í auknu mæli.  Ég ólst upp við mikla náttúruunun móður minnar og afa.  Þær fjölmörgu ferðir sem ég fór á barnsaldri á áttunda áratugnum, í háfjallarútum í Þórsmörk, norður Sprengisand, suður Kjöl, Álftavatn og fleiri staði, voru mér ógleymanlegar.  Ég hafði einnig unun af því að keyra fjölfarnar leiðir eins og yfir Hellisheiðina eða skoða svæðin kringum Vatnsendahæð og Elliðavatn. 

Nú hefur gleði mín minnkað yfir því að eiga heima á okkar ótrúlegu eyju.  Þegar ég fer austur fyrir fjall blasa við mér hræðilega ljót og áberandi risastór rör við rætur Hengilsvæðisins og á fjallshryggjum má sjá fjöldan allan af mannvirkjum.  Allt í kringum Vatnsendahæð og nánast ofan í Elliðavatn og Rauðhóla er nú byggð, þannig að svæðið hefur misst talsvert af sjarma sínum.  Hin fallega hlíð ofan Rauðavatns er nú sjónmenguð af stórhýsi Morgunblaðsins.  Búið er að planta iðnaðarhúsum langt inní hið dásamlega Hafnarfjarðarhraun.  Nú á að reisa byggð í fagurgrænum hlíðum Helgafells ofan við Kvosina í Reykjadal, Mosfellsbæ og ég sé fram á það að missa þetta fagra útsýni þaðan sem ég bý hinum megin í dalnum. 

Ef til vill er þetta alger tilfinningasemi í mér og ég ætti að skilja að með auknum fólksfjölda verður að breiða út byggðina.   Einnig ætti ég að skilja að kall á aukna velmegun ekki seinna en í gær, hefur í för með sér úrræði eins og aukna stóriðju og tilheyrandi virkjanaframkvæmdir.  Samt líður mér ekkert betur með þetta.  Ég fylgist bara með landinu hverfa undir steinsteypu, malbik, rör, gufumekki og háspennumöstur.  Ég fer að spyrja mig (og aðra), er þetta óumflýjanlegt?  Er græðgi okkar og velmegunarþrá svo takmarkalaus að við viljum engu fórna fyrir ósnert land?  Þurfum við að byggja í hverja einust hlíð sem okkur er næst?  Þurfum við að virkja hvert einasta fljót eða háhitasvæði bara af því að við getum það?

Ég vil leyfa mér að segja að svarið hljóti að geta verið nei.  Nú er nauðsyn að staldra við og hugsa.  Byggðarþróun þéttbýliskjarna verður að snúa frá núverandi kapphlaupi um fallegustu staðina.   Hús koma ekki í staðinn fyrir óspillt land.  Þó að byggðin verði eitthvað sundurlaus, þá verður að hlífa náttúruperlum nágrenisins.   Stöðva þarf þessa gegndarlausu stóriðjustefnu þrátt fyrir að vatnsaflsvirkjanir séu ekki efnamengandi.  Álverin menga loft og land auk þess að vera lýti.  Það yrði t.d. mikill missir af því að höfn yrði reist í Straumsvíkinni sjálfri.  Svæðið þar er geysilega fallegt.

Ómar Ragnarson, Andri Snær, Vinstri grænir og fleiri hafa vakið þessu máls.  Þessi uppvakning verður að halda áfram og þróast.  Við höfum nægar heilafrumur við Íslendingar til þess að finna aðrar lausnir á "velmegunarvanda" okkar.    Áframhaldandi uppbygging í vistvænum ferðamannaiðnaði á eftir að skila okkur miklu.  Landið okkar er auglýsingin okkar.  Ekkert kemur þar í staðinn.  Sýnum þolinmæði og þrautsegju svo afkomendur okkar geti borið okkur vel söguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Komdu fagnandi Svanur.  Þótt seint sé er þjóðin að vakna og fleiri og fleiri láta umhverfismálin til sín taka hvar í flokki sem þeir standa.  Nú ríður á að sameinast í þessari nýju breiðfylkingu og jafnvel með nýju framboði.  Við skulum þó ekki vanmeta það fólk sem berst fyrir málstaðnum innan gömlu flokkanna.

Í Framtíðarlandinu er rúm fyrir alla umhverfisvernarsinna hvar í flokki sem þeir standa en miðað við stöðuna held ég að nauðsyn sé á nýju framboði þar sem þessi mál verða í fyrirúmi.  Það er enginn vandi að koma saman stefnuskrá þar sem ný hugsun og það besta úr eldri hugmyndafræði um landsmálin almennt verður nýtt.  Viðbúið er að þar verði þó einhverjir að slá striki yfir liðna tíma og leggja deilumál til hliðar á grundvelli nýrrar stefnuskrár.  Hugtök um hægri, vinstri og miðju eiga þar ekki heima þótt hugmyndafræði og fylgi sé sótt á alla kanta.

Hér á síðunni hans Ómars hefur ótrúlegri orku og tíma verið varið í að verja stóriðjustefnuna og oft erfitt að sitja undir þeim málflutningi sem þar á sér stað.  Auðvitaðð hefur fólk rétt á að hafa sínar skoðanir en margt af þessum málflutningi dæmir sig best sjálfur og er varla svara verður.  Ég er þó einn þeirrra sem hef ekki getað setið á mér og snúist til varnar. Nú er ég farinn að átta mig á að þetta eru örfáir einstaklingar sem skrifa gegn umhverfisverndinni aftur og aftur og eru fastir í gamla farinu. Ég held það fari best á því að leyfa þeim að lifa í sínu draumlandi, en snúa okkur í þess stað af alefli gegn landsspjöllum og stóriðjuhugmyndunum og byggja upp bjartari framtíð.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 11:42

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir góðar athugasemdir Jón Kristófer og Snorri.  Fræðandi skrif hjá þér Jón Kristófer á blogginu þínu.  Velkominn í bloggið.

Ég er innilega sammála þér Snorri varðandi nauðsyn á nýju framboði og úreldingu hægri eða vinstri umræðu.  Hér þarf einfaldlega að notast við það besta úr hverri hugmyndafræði og hnýta við það skynsamlega auðlinda- og umhverfisstefnu.  Höfum endilega samband.  Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 15.2.2007 kl. 15:48

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Vekur upp hjá mér spurningar þegar svona ákvarðanir eru teknar hverjir sitja i þeim nefndum. Eiga allir sér málsvara þar? Náttúran, maðurinn, umhverfisfræðingar, arkitektar, listamenn og fleiri. Hef setið ráðstefnur í Oxford þar sem verið var að stofna tengslanet þar sem hver hópur hefur sína rödd og málefnið skoðað frá mörgum ólíkum sjónarhornum. Að skoða og skilgreina þarfir hvers hóps fyrir sig og hver sé besta lausnin fyrir alla.Mér er spurn þegar ný hverfi rísa hvaða viðmið séu höfð og hverjir koma að þeim málum. Eiga allir sér málsvara sem að koma að málinu?

Takk fyrir góða grein.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 15.2.2007 kl. 18:52

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir Katrín Snæhólm.  Þetta er góð spurning.  Skipulagsáform eru auglýst að því er ég best veit og fólki gefst tækifæri til að koma með athugasemdir til sveitafélaga.   Það virðist hins vegar vera þannig að annað hvort eru þessar athugasemdir svona máttlausar eða fólk sinnir ekki málunum (stundum bara á síðustu stundu), því áfram er náttúran á undanhaldi.  Hér þarf því vakningu eins og í svo mörgu.  E.t.v. yrði fastmótað kerfi eins og þú ert að lýsa, til þess að breyting verði á.  Þetta þarf að skoða út frá öllum mögulegum hliðum.  Kv. - SS

Svanur Sigurbjörnsson, 16.2.2007 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband