Hitnun jarðar - dæmin eru allt í kring
30.4.2007 | 01:51
Ég horfði í kvöld á heimildarmyndina "an inconvenient truth" sem útleggst á íslensku "óþægilegur sannleikur". Myndin er um hitnun jarðar og skilaboðin eru gefin af fyrverandi varaforseta Bandarríkjanna, Al Gore á mjög skýran, vísindalegan og sjónrænan máta. Ég er mjög gagnrýninn á allt sem rétt er að mér þegar kemur að rannsóknum og vísindum, og oft finn ég galla á staðhæfingum manna, t.d. of mikið lagt upp úr vissum rannsóknum eða þær hreinlega ekki túlkaðar rétt. Al Gore fer ekki nákvæmlega í aðferðafræði eða einstaka vísindavinnu en þau sönnunargögn sem hann kynnir eru úr svo mörgum áttum og frá svo mörgum aðferðum að þau eru mjög líkleg til að standast og þá meina ég MJÖG.
Nýlega var frétt af dönskum vísindamanni sem hélt því fram að hitnun jarðar væri líklega af öðrum orsökum (breyting á sólinni) en aukinni losun koltvísýrlings. Jafnvel þó að sá danski hefði rétt fyrir sér eða rétt að hluta, hefur mynd Al Gore sannfært mig um að við höfum hreinlega ekki tíma né efni á (þá á ekki bara við fjárhagslegt "efni á") því að bíða eftir því að sjá hvort hann hafi rétt fyrir sér. Eftir 30-50 ár í viðbót af sömu lifnaðarháttum og orkustefnu heimsbyggðarinnar verða þegar orðnar verulega skaðlegar breytingar.
Verðum við ekki að skipta um orð, þ.e. velja eitthvað annað en "gróðurhúsaáhrif" yfir þessa skelfilegu þróun, t.d. "ofhitunaráhrif" eða "svækjuáhrif". A.m.k. þarf orðið að vekja fólk til umhugsunar. Í mínum huga eru gróðurhús þar sem ég fæ ljúfengar gúrkur og banana.
Ég hef ekki kynnt mér hitnun jarðar neitt að ráði en hef samt vitað af tilgátum þess eðlis frá því að ég var í menntaskóla (22 ár síðan). Mér brá talsvert árið 2003 (minnir mig) þegar fréttir bárust þess efnis að skip (ísbrjótur) hafi í fyrsta sinn komist inn á miðjan Norðurpólinn. Fréttir af hopandi jöklum á Íslandi og hvert hitametið af fætur öðru. Svo bara fyrir 3 dögum sá ég að grasið var allt í einu orðið grænt!! Ég er ekki náttúrufræðingur en þau 30 ár eða svo sem ég hef tekið eftir náttúrunni í kringum mig man ég ekki eftir grænum túnum í apríl á höfuðborgarsvæðinu. Svo þetta í gær, óhugsandi 22,6 gráðu hiti á Norðurlandi (Ásbyrgi) og um 20° á Skagaströnd hjá tengdapabba (verðandi ) Það er hætt að snjóa af einhverju viti á veturna o.s.frv. Frá 1970 hafa orðið meiriháttar breytingar á veðurfari. Allt þetta staðfesti Al Gore í heimildarmynd sinni.
Nú, ég hef nú ekki tekið þessa jarðarhitnun of alvarlega. Hugsanir manns hafa verið dálítið í áttina til hmm... "það væri nú gott að fá heitari sumur á klakanum svo maður þurfi ekki að fara til sólarlanda alltaf hreint" eða "æ, ekki saknar maður þungra snjóvetra - maður fer bara á skíði í ölpunu... brekkurnar eru hvort eð er alltof litlar hérna". Eitthvað í þessa veru. Vissulega var maður farinn að hafa áhyggjur af hugsanlegri hækkun sjávar um 1 m eða svo, og svo aukinni tíðni hvirfilbylja í útlöndum, en Ísland er svo hátt yfir sjávarmáli og langt frá "hvirfilbyljalandi". Eftir að hafa séð þau gögn sem Al Gore kynnti fyrir mér í kvöld, líður mér eins og fávísum hálfvita og með vissri réttu. Hvers vegna hafði maður ekki kynnt sér þetta áður? Hvers vegna hafði maður ekki skoðað betur mikilvægi Kyoto samningsins?
Hætturnar sem steðja að hitnun jarðar eru mun meiri en ég hafði nokkru sinni gert mér í hugarlund og á mun fleiri sviðum en ég gat ímyndað mér. Hér erum við að tala um 6 metra hækkun á yfirborði sjávar (bráðnun helmings Grænlandsjökuls og álíka svæðis úr Suðurskautsjöklinum) sem þýðir að heimili um 100 milljón manna færi á kaf og líklega yrði Vesturbær Reykjavíkur að eyju. Það mætti því t.d. hætta að hugsa um framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni því hún yrði "Sjómýrin". Við fengjum Mosquito flugur til Íslands með tilheyrandi sjúkdómum. Lúsin sem nú hefur skemmt mikið af grenitrjám borgarinnar færi hamförum (hún drepst í góðu frosti). Meiri háttar breytingar yrði á lífríkinu og meiriháttar faraldrar nýrra sjúkdóma gætu breiðst út. Við höfum nú þegar dæmi; SARS og West Nile Virus heilahimnubólgan en hún byrjaði í NY borg þegar ég var þar 1998 og hefur nú breiðst um öll Bandaríkin. Þessi veirusýking berst með mosquitoflugunum og er banvæn í frekar háu hlutfalli þeirra sem veikjast. Engin lækning er til. Sem betur fer er þessi faraldur lítill enn sem komið er.
Á Íslandi getum við gert margt til að minnka losun á koltvísýrlingi og við þurfum að taka verulega ábyrga afstöðu þó að við séum ekki meðal þeirra sem menga mest. Bandaríkjamenn og Ástralir hafa ekki skrifað undir Kyoto samþykktina. Við þurfum að þrýsta á þessar þjóðir því Bandaríkjamenn menga þjóða mest. Ég skora á alla sem þetta lesa að fara út í næstu myndbandaleigu og horfa á mynd Al Gore, "óþægilegan sannleik" frá byrjun til enda. Þetta er mynd sem varðar trúlega það sem mestu skiptir fyrir alla okkar framtíð og framtíð komandi kynslóða. Mér er talsvert niðri fyrir. Vanti okkur raunverulegt baráttumál, góðu bloggarar, þá er það hér á þessum vettvangi. Hitnun jarðar verður að snúa við!
Upplýsingar um þessa mikilvægu heimildarmynd (sem fékk Óskarsverðlaunin í ár) og hætturnar af hitnun jarðar má finna hér
Hér að neðan er hlekkur að pdf skjali með upptalningu á 10 atriðum sem einstaklingar geta framkvæmt til að minnka losun "gróðurhúsalofttegunda" (sem mætti frekar kalla "ofhitunargös"). Sumt af þessum atriðum á frekar við um aðstæður í Bandaríkjunum en ábendingarnar eru góðar og gildar engu að síður.
Hitinn í 23°C í Ásbyrgi samkvæmt sjálfvirkum mæli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:33 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Svanur. Langar að benda þér á umfjöllun um þetta á minni bloggsíðu HÉR
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.4.2007 kl. 02:49
Fín pæling Svanur, ég fyrirverð mig niður í tær að vera ekki búinn að sjá þessa umtöluðu mynd. Verð að vinna bráðan bug á þessu, svo ég geti skipst á skoðunum af viti um málið. Hlakka til að verða viðræðuhæfur.
P.S. Takk fyrir kveðjuna á síðunni minni. Svo er margt skinnið sem sinnið og húmorinn ríður ekki við einteyming, svo ekki sé meira sagt.
Viðar Eggertsson, 30.4.2007 kl. 03:17
Já e.t.v. er ég of fljótur á mér að skrifa svo sterkt um þessi mál eftir að hafa séð heimildamynd Al Gore en málflutningur hans var það sannfærandi að ég set traust mitt á það mat sem hann setti fram. Þar er ljóst að vandinn er fyrir hendi og ef hægt er þó ekki væri nema að hluta hægt að snúa hlýnuninni við með lækkun á koltvísýrlingi, væri mikið unnið. Á síðunni þinni Gunnar er bent á vefritið "Er jörðin að hlýna" og þar tekur höfundur undir að hlýnunin hljóti að vera að hluta a.m.k. af völdum gróðurhúsalofttegunda. Viljum við áframhaldandi fellibyli á borð við Katrínu sem rústaði New Orleans eða gera okkar besta til að draga úr þessari ofhitun?
Svanur Sigurbjörnsson, 30.4.2007 kl. 03:36
Takk Viðar. Hlakka til að heyra þitt innlegg.
Svanur Sigurbjörnsson, 30.4.2007 kl. 03:39
Verður að fara að gera eitthvað í þessum málum. Allir voða uppteknir af þessum hitametum sem eru slegin hér hægri vinstri og finnst þetta jafnvel bara skondið. Hér þurfa stjórnvöld svo sannarlega að taka við sér.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 30.4.2007 kl. 11:35
He he "amerísku tilfinningarúnki". Já það er vissulega slæmt að láta tilfinningar ráða í málum sem skipta miklu. Ég gat þó ekki séð að það væri róið á slík mið í mynd Al Gore. Hann notaði myndmálið vel og setti á svið smá "show" þegar hann fór í palllyftuna til að ná upp í efsta hluta línuritsins en mér fannst það réttlætanlegt og þjóna þeim tilgangi að virkilega ná athygli fólks án þess að ýkja neitt í framsetningu tölulegra gagna. Hann var virkilega yfirvegaður alla myndina og nálgaðist málið frá víðum sjónarhóli.
Bruni á skógum var eitt af því sem hann nefndi sem mikilvægan þátt í myndun CO2. Sinubruni gerir eflaust það sama og við ættum að hamla gegn því hér á landi. Skóglendi minnkar CO2 og því er mikilvægt að auka skógrækt.
Svanur Sigurbjörnsson, 2.5.2007 kl. 00:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.