Hvað höfum við lært?

Eins og hjá svo mörgum er 11. september 2001 mér ógleymanlegur.  Atburðirnir voru svo ótrúlegir, svo grimmir og hörmulegir að maður átti erfitt með að virkilega trúa sínum eigin augum. 

Ég bjó í New York borg þennan dag, nánar tiltekið talsvert norðarlega á Manhattan, móts við 171. stræti á 26. hæð turnbyggingar.  Rétt eftir kl 09 þennan morgun stoppaði umferðin á hraðbrautinni og lögreglan tók að blikka ljósum sínum.  Í útvarpinu var þáttastýrandi sem lýsti í hálfgerðri vantrú að flugvél sem líktist e.t.v. herflugvél hefði flogið inn í annan Tvíburaturninn og hann stæði í ljósum logum.  Íbúðin mín snéri í norður og ég sá að hin risavaxna G.Washington brú var auð, auð í fyrsta sinn frá því að hún var opnuð.  Lögreglan hafði lokað útgönguleiðum af Mannhattan. Tilkynnt var að önnur vél hefði flogið inn í hinn turninn og ég fór yfir til nágranna sem sá til turnanna í fjarska um suðurglugga.  Við vissum ekki hvað við áttum að halda.  Ég tók nokkrar myndir með 200 mm linsu.

WTC loga

Á innan við einni stundu hrundu svo turnarnir en á því átti ég ekki vona á.  Ég hafði farið að horfa á sjónvarpsútsendinguna og kom til baka og tók þessa mynd hér að neðan.  Ég teiknaði útlínur turnanna þar sem þeir stóðu.  Reykmökkurinn var ógurlegur, nærri því eins og við eldgos.

 WTC turnarnir fallnir

Fljótlega varð ljóst hvað hafði gerst eða laust eftir kl 10.  Hið óhugsandi hafði átt sér stað og í fyrsta sinn í sögunni höfðu Bandaríki nútímans orðið fyrir meiriháttar árás á þeirra eigin grundu.  Það var þó ekki fyllilega ljóst hverjir stóðu að árásinni fyrr en síðla dags.  Mig grunaði strax að lítið væri hægt að hjálpa til því annað hvort hefði fólk komist t.t.l. heilt út eða dáið undir byggingunum.  Ég fór þó og skráði mig á lista blóðgjafa á St. Lukes spítala á 115. stræti.  Annað gat maður ekki gert og ekki vildi ég fara að snuðra í kringum staðinn og vera fyrir því fólki sem stóð í björgunarstörfum.  Á setustofu stúdenta við Columbia háskóla sátu allir stjarfir og hljóðir af óhugnaði.   Ég vonaði að ég myndi vakna daginn eftir og að allt hefði verið slæmur draumur.

Ættingjar heima reyndu að ná í mig en það náðist ekki samband í nokkrar klukkustundir vegna álags.  Loks náðist það gegnum landlínu og það var andað léttar.  Auðvitað var ekki mikill möguleiki á því að maður hefði verið í WTC og farist en samt ekki útilokað.  Veturinn áður hafði ég sótt fyrirlestur þar og átt góðan kvöldverð á veitingastað efstu hæðar syðri turnsins sem hét "Windows on the World".  Maturinn og þjónustan var í meðallagi en útsýnið,... já útsýnið var ólýsanlegt.

Næstu dagar og öll vikan ætlaði aldrei að líða.  Allt farþegaflug lamaðist í nokkra daga.  Maður fylgdist með angist ættingja og ástvina þeirra sem fórust reyna að finna þá en enginn fannst utan einhverjir örfáir í byrjun.  Langar biðraðir mynduðust við gömlu aðal lögreglustöðina í Lower East. Fólk tók að safnast saman ofan við 14. stræti þar sem miðbærinn var girtur af og hugga sig með söng og listrænni tjáningu um allt Union torg.  Áberandi voru myndir um allt sem fólk hafði dreyft um hverfið í þeirri veiku von að einhver myndi þekkja ástvini þeirra á þeim og tilkynna að þeir væru á lífi.  Dag og nótt hélt fólk sig á torginu og miklar kertaborgir urðu til í kringum ljósastaura.  Allar stéttir voru þaktar krítarmyndum  og styttur alsettar álímdum miðum, myndum og áletrunum.  Aðra eins allsherjar sorg og opinbera tjáningu tilfinninga hef ég aldrei séð fyrr né síðar.

Sorgarvaka á Union Square

Óttast var að æstur múgur myndi ráðast á múslima í USA en bandaríkjamenn sýndu mikla stillingu og aðeins fá atvik komu upp þar sem múslimar eða einhverjir sem líktust þeim (t.d. shikar) urðu fyrir árásum.  Rudy Giuliani borgarstjóri stóð sig vel í að sefa fólkið og telja í það kjark og velja uppbyggjandi leiðir fyrir reiði sína og tilfinningu um hjálparleysi.  Skyndilega var fólki ljóst að það var ekki lengur öruggt fyrir hryðjuverkamönnum handan við höfin miklu.  Ekkert var öruggt lengur.  Sýn Bandaríkjamanna á heiminn var breytt endanlega.

Höfum við lært eitthvað af þessum viðburðum?  Höfum við gert okkur grein fyrir alvarleika þess að milljónir manna, ríkra og fátækra eru aðhyllendur og auðsveipir þjónar trúarbragða sem kenna fyrirlitningu, kúgun, réttdræpi og sjálfsögð yfirráð yfir þeim sem ekki þjóna guði þeirra eða ógna útbreiðslu kenninga spámanns þeirra?  Gerum við okkur grein fyrir því að fólk alið í sterkri trú hegðar sér eftir bókstafnum, ekki eftir því sem okkur vesturlandabúum þykir skynsamlegt og sjálfsagt?  Gerum við okkur grein fyrir því að við þurfum að verja veraldleg siðferðisgildi okkar umfram allt annað?

Lítum á þessa mikilfenglegu sjón sem ég fangaði sumarið 1999 á siglingu niður Hudson fljót og spyrjum okkur hvað við þurfum að gera til þess að slíkir hlutir verði ekki teknir aftur frá okkur í framtíðinni.

WTC og kennsluskúta á Hudson fljóti 1999


mbl.is Þess minnst að sex ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Elmar.  Já þetta er átakanlegt. 

Það var einnig dapur veruleiki að sjá hermenn með hríðskotarifla gæta lestarstöðva næstu tvö árin á eftir.  Af og til eftir það hafa hermenn verið á verði.  Atvikin í London og Madrid hafa sýnt að þessi varðstaða var ekki af ástæðulausu.

Svanur Sigurbjörnsson, 12.9.2007 kl. 10:22

2 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Takk fyrir þennan frábæra pistil Svanur. Kveðjur.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 15.9.2007 kl. 00:18

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Margrét. Bestu kveðjur

Svanur Sigurbjörnsson, 17.9.2007 kl. 00:50

4 identicon

Góður pistill. Takk fyrir hugvekjuna.

SG (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 16:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband