Magni! Gneisti!
6.10.2007 | 02:14
Í Fréttablaðinu í gær 5. okt 07, á bls 24 var birt grein Sr. Hjartar Magna Jóhannssonar sóknarprests í Fríkirkjunni sem bar heitið "Eru húmanistar óvinir Krists?" Í greininni ræðir hann um það hversu jákvæð lífsskoðun húmanista sé og að hún eigi samleið með þeim boðskap Krists í að "reis[a] upp þá niðurbeygðu og ger[a] heila og mynduga þá sem á vegi hans verða". Þessu er ég algerlega sammála. Mannvirðingin er í kjarna húmanisma og þessa boðskapar Krists. Hjörtur Magni lýsir þeirri kristni sem hann aðhyllist og hún er greinilega umburðarlynd og stefna sameiningar um góða hluti, ekki sundrungar og fráhrindinga. Hjörtur Magni er sá veglyndasti og siðferðislega þroskaðisti prestur sem ég hef kynnst og fylgst með.
Í Blaðinu í gær á bls 15 skrifar Óli Gneisti Sóleyjarson um þá gagnrýni sem prestar Þjóðkirkjunnar höfðu uppi um gifinguna á vegum Siðmenntar í Fríkirkjunni í síðasta mánuði í greininni "Um guðs hús, krónur og aura". Hann veltir því fyrir sér hvort að prestarnir séu argir út í Siðmennt vegna þess að þeir sjái fram á tekjutap við að athafnir færist yfir til Siðmenntar. Ég hef ekki heyrt neinn prest kvarta yfir því beinum orðum, en e.t.v. er þetta einhver minni ástæða sem þeir hafa ekki nefnt. Hins vegar ósköpuðust þeir mikið yfir því að þetta væri vanhelgi. Óli Gneisti bendir réttilega á að Siðmennt hafi enga eigin aðstöðu eins og er, og því ættu prestar að styðja félagið í að fá skráningu sem lífsskoðunarfélag og sömu réttindi og trúfélög. Þannig yrði félagið smám saman fært um að koma sér upp sínu eigin húsnæði.
Um 19.1% þjóðarinnar (+/- 2.5%) segjast "ekki trúaðir" samkvæmt stórri könnun Gallup árið 2004. Er ekki kominn tími til að þessi 1/5 hluti þjóðarinnar fái tækifæri til að skrá sín "sóknargjöld" í það lífsskoðunarfélag sem höfðar mest til hans?
Meginflokkur: Lífsskoðanir | Aukaflokkar: Heimsspeki og siðfræði, Mannréttindi, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:21 | Facebook
Athugasemdir
Þetta sýnst sem sagt um krónur og aura eins og alltaf ég hélt að húmanismi væri að allir ættu rétt á góðu og áhyggjulausu (litlu) lífi. En ef það á að fara að verða lífsviðurværi einhverra spekinga þá er það dettur þetta í sama drullupollinn og önnur trúfélög.
Einar Þór Strand, 6.10.2007 kl. 13:36
Einar Þór. Þú sem sagt telur að félagasamtök sem fólk hafi atvinnu af séu óumflýjanlega siðspillt? Ég get nú ekki samþykkt það. Ef við getum ekki tekið ábyrgð á atvinnustarfsemi á sómasamlegan máta er eins gott fyrir allt þjóðfélagið að leggjast í helgan stein.
Svanur Sigurbjörnsson, 6.10.2007 kl. 15:10
Hæ Svanur.
Verð að kíkja í Fréttablaðið. Er alltof löt að lesa blöðin hef nokkrum sinnum lent í því að það er vitnað í bloggin mín í dagblöðum og þá hef ég frétt það í gegnum aðra
Ég held að húmanistar hafi það fram yfir marga trúmenn að umhyggja þeirra fyrir öðrum er ekki skilyrt. Trúmenn eru svo oft háðir boðun trúarrita með það að lífstíll fólks sé syndsamlegur og guði ekki þóknanlegur og því vill oft brenna við að umhyggja þeirra er háð skilyrðum.
Kveðjur.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 6.10.2007 kl. 22:11
Ég vil öll félög hvort sem það eru trúfélög og eða trúleysisfélög af ríkisspenanum, ég tel mig til trúfrjálsra en vil ekki skrá mig í neitt slíkt félag, veit ég vel að það getur verið erfitt að berjast fyrir ofurrétti sumra trúfélaga en ég er með það nokkuð á tæru að trúarsöfnuðir séu nokkuð einfærir um að jarða sjálfa sig með smáslettu af skrifum trúfrjálsra sem benda á ruglið, það er ekki The End Of Days sem er að bresta á heldur er það trúfrelsis vakning sem er á hraðri uppleið í heiminum
Ef einhverjir vilja halda uppi félagsskap trúaðra/trúfrjálsra þá geri þeir það á eigin kostnað án íhlutunar ríkis
DoctorE (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 11:11
Ég er undrandi á því að húmanistar (trúleysingjar ef hægt er að gefa sér slíkann stimpil) séu að blanda sér í þras um peninga og gjöld. Ég held að sá hópur geti leyst það sín á milli. Hvað varðar þennan hlut opinberra gjalda, þá má eins þrátta um óeyrnarmerkt fé sem fer í önnur málefni sem við styðum ekki eða viljum lúta. Nefnum t.d Inngöngu í öryfggisráðið, viðskipta og menningartengsl við Kína, Víkingasveitina, gróðursetning lúpínu, vegaspottar, sem við aldrei ökum, kvikmyndastyrkir, listamannalaun og hvað þetta nú allt heitir. Ég er að vísu algerlega sammála um að samspyrðing ríkis og kirkju eigi að heyra fortíð og fáfræði til, en svona er þetta nú eins og er, en með aukinni upplýsingu og vonandi gagnrýnni hugsun, þá mun þetta breytast í tímans rás. Slíku verður ekki breytt í einni svipan án þess að valda s´rindum og úlfúð og það er ekki í anda mannúðarstefnu að gera slíkar byltingar. Eða hvað?
Nú hvað varðar það að taka upp ritúal og formlegheit við gerð hjónabandssamnings og þurfa undir það sérstakt húsnæði (kirkju í þessu tilfelli) finnst mér lýsa hálfgerðum tvískinnungi og hálfvelgju. Skildiu húmanistar koma á sínu eigin Dogma og ritúali með tíð og tíma? Blysgöngur eða kertafleytingar í nafni friðar eða minningarathafnir um stríðhörmungar, (sem mér finnst ákveðin ofbeldishylling). Ég tel þetta vert hugleiðingar. Húmanistar eru ekki bara á móti trúardogma, heldur boða þeir eigin hugmyndafræði og hafa á vörum ansi mikla sleggjudóma varðandi "fávísi" trúaðra. Við skulum varast að halda að okkar hugsun, sé sú eina rétta. Það er komin árþúsunda reynsla á slíkt.
Höldum okkur utan við forsjárhyggjumjálmið, fórnarlambagrátinn og metinginn um keisarans klæði og ræktum hið góða í hljóði. Það kann góðri lukku að stýra að vinna sér fylgi með aðlöðun frekar en áróðri.
Annars skoðanabróðir í flestu.
Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2007 kl. 00:54
Sæll Jón Steinar
Hvað áttu við með "Ég held að sá hópur geti leyst það sín á milli" ? Ég hreinlega skil ekki í samhengi við hvað þú ert að skrifa.
Auðvitað má einnig þrátta um óeyrnarmerkt fé og það er ekkert að því. Þetta er þó ekki óeyrnamerkt. Það eru reglur um það hvað skráð trúfélög fá fyrir hvern meðlim og því er engin óvissa um það ár frá ári hvað hvert trúfélag fær undir eyrnamerkingunni "sóknargjöld". Hins vegar finnst mér að lífsskoðunarfélög, þ.m.t. trúfélög eigi ekki að njóta neinna skatta frá ríkinu og því ætti Siðmennt e.t.v. frekar að berjast fyrir afnámi þessarar ríkisíhlutunar frekar en að komast á sama kopp og trúfélög.
Slíku veðrur ekki breytt nema með "særindum og úlfúð" segir þú og að slikt sé ekki mannúðlegt. Neðar segir þú m.a. "ræktum það góða í hljóði". Ég spurði sjálfan mig lengi vel framan af ævinni, þ.e. hvort að best væri ekki að koma góðu til leiðar með því að gefa gott fordæmi en vera ekki að skipta mér af öðrum. Niðurstaða mín er sú að það er ekki nóg. Vitur maður sagði (Voltaire minnir mig) að "slæmir hlutir gerast þegar góðir menn aðhafast eigi" og sagan er til vitnis um það. Fasistar og nasistar hafa komist til valda í þjóðfélögum sem áttu að vita betur. Ef góða fólkið réttir alltaf hina kinnina þá verður það e.t.v. bara rekið í gegn næst. Baráttan fyrir siðaðra þjóðfélagi og viðhaldi þeirra vermætu gilda sem við höfum tileinkað okkur verður ekki háð með því að halda kjafti. Daglega eru verði laganna að beita ákveðnu valdi til að fólk framfylgi lögum og ofgeri ekki rétti annarra með óábyrgri iðkun frelsis síns. Hlutleysi leiðir aldrei til góð til lengdar.
Varðandi athöfnina. Við lifum ekki í fullkomnum heimi og við þurfum að gera ýmislegt við aðstæður sem eru ekki okkar fyrsta val. Fríkirkjan var val brúðhjónanna eftir að hafa m.a. verið synjað að Salnum í Kópavogi. Það er ekki á stefnuskrá Siðmenntar að halda athafni í kirkjum en það geta komið upp þær aðstæður að annað verði ekki í boði. Kapellan í Fossvogi er ætluð öllum óháð trú eða lífsskoðun, en er samt kölluð kapella. Líklegt er að Siðmennt muni sjá um veraldlegar útfarir þaðan í framtíðinni. Ég vona að þú munir ekki dæma það sem tvískinnung.
Varðandi "dogma", þ.e. kreddur eða kreddufestu. Kreddur eru hugmyndir sem haldið er fram, sérstaklega af ákveðnum yfirvöldum eða trúfélögum, sem eiga sér ekki sérlega styrkar stoðir í rökfræðilegum skilningi. Dæmi um kreddu er t.d. trúarhugmynd Páfa og Kaþólsku kirkjunnar um að eiðni hafi komið fram til að refsa mannkyni fyrir lauslátt kynlíf og að kynlíf eigi einungis að þjóna tilgangi æxlunar. þú spyrð "Skyldu húmanistar koma á sínu eigin Dogma og ritúali með tíð og tíma?" Í þessu felst ákveðin svartsýni og ótti sem ég deili ekki með þér. Húmanískar hugmyndir, þ.e. raunsæi, skynsemishyggja, þekking byggð á vísindum, siðferði byggt á rökhyggju og ræktun félagslegra athafna til fagnaðar eða styrks í sorgum, þ.e. uppbygging húmanískrar menningar, hafa haft áþreifanleg áhrif á mitt líf og reyndar líf okkar allra. Án vísindalegrar nálgunar værum við enn á stigum forneskju og hefðum ekki komist út úr Afríku, hugsanlega löngu útdauð. Vissulega munum við hafa rangt fyrir okkur í einhverjum tilvikum og eldri fræði munu víkja fyrir nýjum og endurbættum en það samansafnaða sem felst í húmanismanum er það besta sem við höfum í dag. Það fallega við húmanismann er einmitt það að hann hvetur til gagnrýnnar hugsunar og viðræðna - hvað annað getur verið sterkara gegn myndun kreddufestu?
Ef þú aðhefst ekki, mótar þér ekki skoðanir á vissum föstum í lífinu, þá verður þú lamaður félagslega og einnig persónulega því það felst mikið frelsi og fróun í því að trá óhikað skoðanir sínar. Ef þú þorir ekki að hafa áhrif á aðra vegna þess að þú lifir í ótta þess að skoðun þín eða hugsun sé ekki sú eina rétta, ertu að dæma sjálfan þig aðgerðarleysis alla ævi. Vissulega þarf maður að íhuga mjög vandlega hlutina og leggja mikla vinnu í að móta sér heilbrigðar skoðanir, en aðgerðaleysi í ljósi mikillar vissu á skoðun sinni og þegar lífsmáta okkar og siðferðisgæði þjóðfélagsins stafar ógn af er ein sú hættulegasta haldvilla sem fólk getur ratað í og því miður ein algengasta birtingarmynd óafvitandi aumingjaskapar mannfólks.
Maður vinnur sér hugsanlega eitthvað fylgi með aðlögun (umburðarlyndi) og vissulega með uppbyggingu góðra hluta og valkosta en lífið er eins og skákin, það þarf bæði vörn og sókn. Vörnin felst í því að reyna að hafa áhrif á fólk í kringum sig og viðhalda heilsteyptri þekkingu í þjóðfélaginu. Þetta virðast eflaust vera nær sjálfvirkir hlutir en það er ekki raunin. Sókn hindurvitna og ranghugmynda er alltaf í gangi og það þarf að berjast gegn þeim með leikreglum lýðræðis og frjálsra skoðanaskipta. Áróður er annað en gagnrýni og það að láta aðra heyra skoðun manns. Áróður er það þegar valtað er yfir einkarými fólks með óhróðri og þegar notaðir eru klækir, lygar og skítkast til að niðra skoðanir andstæðinga og upphafningar á eigin ágæti og skoðunum. Ég vona að þú teljir ekki Siðmennt standa fyrir slíku.
Svanur Sigurbjörnsson, 10.10.2007 kl. 18:44
Ég væni siðmennt ekki um klæki lygar og skítkast og er hissa á hvað þér er heitt í hamsi. Velti upp spurningum, sem mér finnst þú svara ágætlega án þess að ég ætli að hengja mig í stagl. Allavega ert þú ekki að vísa í ritningu máli þínu ril stuðnings þegar gagnrýnt er. Kristnir menn detta nefnilega í þá gryfju að vísa í ritningarstaði máli sínu til stuðnings, þegar menn voga sér að gagnrýna umrædda ritningu. Það er eins og að reyna að halda uppi vitrænu samtali við geðklofasjúkling. Það með að leysa þetta sín á milli er að þið kostið samtakamátt ykkar og félagslíf sjálfir en farið ekki fram á það sama og þið viljið í öðru orðinu afleggja, en það er að komast á ríkisjötuna. Ég er meðmæltur aðskilnaði ríkis og kirkju og því er ég undrandi á að þið skulið gefa í skyn að þið ættuð af hafa þennan rétt á stuðningi frá hinu opinbera.
Varðandi giftingar og kirkjur, þá set ég svosem ekkert út á það hvar þið haldið athafnir. Það er ekki mitt að hafa skoðun á. Mér finnst þó að þið séuð bæði að halda og sleppa með að viðhafa athafnir í kringum hjónabandssáttmála, fermingar og athafnir, sem eru launskyldar því sem þið fordæmið. Er ekki nóg að fólk sammælist um sambúð og gangi frá skilmálum hennar með lögfræðingi. Hvað er þetta með borgaralega fermingu? Er það til þess að krakkarnir verði ekki af peningunum og gjöfunum? Rétt finnst mér að minnast látinna formlega og hafa svipaðan hátt á og margir hafa með að leyfa aðstandendum að stíga á stokk og minnast hins látna. Drekka honum skál og gera eitthvað gott til að minnast viðkomandi. Það sem ég er að segja er að það er vert að hugleiða þennan skyldleika við það sem andmælt er og hvers vegna og hvaðan sú þörf kemur. Húmanisminn er mótuð hugmyndafræði, ég var í því samhengi að velta fyrir mér hvort hún yrði svo fast mótuð að rit og höfundar þeirra yrðu með tíð og tíma svipaður bókstafur og meðal trúaðra. Sjálfsgagnrýni og sjálfskoðun ætti að vera fagnað í ykkar hópi, svo hann klofni ekki upp í fylkingar og endi í stagli um afstæðan sannleika eins og trúarhreyfingar gerast sekar um. Bara vangaveltur og eins og ég sagði. Skoðanabróðir þinn í flestu annars.
Friður með yður.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.10.2007 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.