Metnaður sums fólks til valda og fallegra titla fyrir sjálfan sig á sér fá takmörk og ákaflega slök siðferðisleg landamæri. Í dag kl 19 horfðum við uppá eina þá mestu valdanauðgun sem átt hefur sér stað í íslenskum stjórnmálum hin síðari ár þegar Ólafur F. Magnússon, nýupprisinn oddviti gamla F-listans (og óháðra), tekur upp á sitt einsdæmi að yfirgefa fyrirvaralaust samstarfið við borgarstjórnarmeirihlutann til þess að verða borgarstjóri Reykjavíkur.
Ólafur F er ekki vitgrannur þó þessi liðsfórn hans til tímabundins ávinnings í pólitísku valdatafli sé algerlega siðlaus fyrir margar sakir. Hann veit að hann þarf stóra gulrót til að sefa borgarbúa og með loforðum um frítt í strætó fyrir öryrkja og aldraða (auk barna og unglinga), 100 ný hjúkrunarrúm á hverju ári, skjótri ákvörðun um Sundabraut, varðveislu 19. aldar myndar laugavegsins og svo stóru loforði um að ekki verði tekin ákvörðun um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar á kjörtímabilinu, þykist hann hafa réttlætt þennan rýting sem hann setti í bakið á Degi, Svandísi, Birni Inga og Margréti Sverrisdóttur, sem stóð vaktina fyrir hann af miklum dugnaði á meðan hann var ófær um að sinna því dapurlega starfi að vera í minnihluta í borgarstjórn í um hálft ár.
Framboð F-listans og óháðra fékk um 10% fylgi og átti með rétti að fá tækifæri til að vinna með xD að nýrri borgarstjórn strax eftir kosningar. Sjálfstæðismenn vildu ekki Ólaf og xF þó að þannig væri meirihluti atkvæða kjósenda á bakvið meirihlutann. Í sjálfu sér var ekki meiri málefnaágreiningur á milli xD og xF heldur en xD og xB. Góður árangur xF í þeim kosningum var hlunnfarinn.
Sjálfstæðismenn gera alvarleg mistök í rekstrarmálum orkufyrirtækja og missa völdin sökum trúnaðarbrests bæði innan flokks og milli þeirra og Björns Inga. Borgarbúar horfa á sirkusinn í forundran og varpa öndinni léttar þegar nýr meirihluti tekur til starfa. Björn Ingi selur ekki siðferði sitt eða starfsheiður með því að heimta borgarstjórastöðu, heldur tekur til starfa með nýjum meirihluta á jafningjagrundvelli og til samstarfs um málefnin. Skyndileg umskipti hans voru þó frekar vafasöm en í ljósi þess óróa sem á undan gekk verður að telja að það geti notið ákveðins skilnings. Dagur B Eggertsson tók rösklega til starfa og blés mikilli orku og persónutöfrum í borgarstjórastarfið. Ljóst var að ekki átti að taka ákvörðun á tímabilinu um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar því rannsóknir á veðurfari á Hólmsheiði standa yfir og lýkur ekki í bráð. Ekki heyrðist neitt af óánægju frá hinum nýja forseta borgarstjórnar Ólafi F Magnússyni og borgarbúar horfðu loks fram í pólitískan frið og stöðugt starfsumhverfi í stjórnkerfinu fram til næstu kosninga. Eðlilegt var að Vilhjálmur Þ og xD tækju sínu hlutskipti af rósemi og festu og öxluðu þannig ábyrgð af mistökum sínum. Starfsfriður í borginni hlyti að skipta miklu máli út kjörtímabilið sem er nú nær hálfnað... eða hvað?
Nei, Vilhjálmur Þ og félagar sáu sér leik á borði. Samkvæmt því sem fram kom á fréttafundinum áttu sjálfstæðismenn frumkvæði að því að tala við Ólaf F Magnússon. Nú var tækifæri til að ná aftur völdum og þó að það gæti kostað verulega eftirgjöf í baráttumálum þeirra og gjöf borgarstjórastöðunnar til Ólafs F í eitt ár eða svo, væri það þess virði. Ekkert er jú meira niðurlægjandi en að vera valdalaus, hvað þá valdalaus eftir klúður. Hví skyldi Ólafur F ekki semja við þá. Hann var að vísu niðurlægður af þeim eftir kosningarnar en það var ekkert sem góðir plástrar gætu ekki bætt.
Hér er það sem blasir við:
- Ólafur F yfirgefur eigið bakland og sinn dygga stuðningsmann og baráttukonu Margréti Sverrisdóttur til þess að taka einhliða upp samstarf við xD og fá að vera Borgarstjóri.
- Ólafur ber fyrir sig að hann hafi ekki fengið málefnum sínum framgengt undir "góðri stjórn Dags B Eggertssonar". Trompið hans í síðustu kosningum - flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni er sett fram sem mál sem gangi nú í gegn en í raun átti hvort eð er ekki að taka ákvörðun um staðsetninguna á þessu kjörtímabili. Alger núll-punktur.
- Ólafur kemur fram sem bjargvættur aldraðra og öryrkja í strætómálum.
- Ólafur kemur fram sem bjargvættur almannaeignar borgarbúa á orkufyrirtækjum þeirra.
- Ólafur segir að fulltrúar F-listans hafi ekki fengið nægilega marga fulltrúa sem skyldi í ráðum og nefndum borgarinnar. Nú hefur hann enga fulltrúa frá xF með sér og hvernig ætlar hann því að bæta úr þessu?
- Ólafur reyndi ekki að lýsa óánægju sinni eða fá fram breytingar á málefnum með afgerandi hætti dagana áður en hann sökkti skyndilega skipinu. Passar það við mann sem setur málefnin á oddinn og gætir heiðarleika í samstarfi?
- Ólafur nær að verða Borgarstjóri með aðeins um 10% atkvæða borgarbúa á bak við sig. Sjálfstæðismenn beygja sig undir þetta til þess að ná völdum á ný og halda andlitinu sem hinn ráðandi flokkur. Hvað með starfsfriðinn í borginni? Hvað með kjósendur xD. Vilja þeir völd undir hvaða formerkjum sem er og undir stjórn Ólafs F Magnússonar? Vilja þeir Vilhjálm Þ. aftur sem borgarstjóra?
- Ólafur fær borgarstjórastólinn feita en hvaða vini á hann? Formaður Frjálslyndra er ánægður með hann og hann tekur honum eflaust fagnandi aftur inn í flokkinn, en mun það bæta mannorð Ólafs og tryggja honum pólitíska framtíð? Ólafur gæti nú eflaust runnið "ljúft" inn í Sjálfstæðisflokkinn rétt eins og Gunnar Örn Örlygsson gerði hér um árið, en verður hann annað en peð í þeim flokki og getur xD stillt honum upp sem trúverðugum frambjóðanda?
Þetta er að mínu mati eitt hið dapurlegasta pólitíska "sjálfsmorð" sem ég hef séð en jafnframt eitt það dramatískasta. Ólafur hefur tryggt stað sinn í sögubókunum sem borgarstjóri Reykjavíkur, en hvernig munum við minnast hans sem manneskju? Hvernig fordæmi teljum við Ólaf vera að setja fyrir ungt fólk í landinu? Mun þessi valdaleikur hans hvetja heiðarlegt og dugmikið fólk til að taka þátt í stjórnmálum? Hvernig mun Reykjavík taka þessari stjórnfarslegu nauðgun?!!
Það mátti skilja orð Dags að nýtt samstarf S, B, V og óháðra / Íslandshreyfingarinnar væri möguleiki í stöðunni. Reynsla borgarbúa af stökum sætum í borgarstjórn er ekki góð nú og spurning er hvort endurreistur R-listi verði íhugaður af alvöru á ný. Úr því sem komið er verður hlutskipti hins venjulega Reykvíkings að fylgjast með þriðja borgarstjóra kjörtímabilsins og hinna bláu vina hans uppfylla öll loforðin.
Nýr meirihluti í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Heimsspeki og siðfræði | Breytt 22.1.2008 kl. 08:57 | Facebook
Athugasemdir
Hæ Magga. Hann er í Borgarstjóraflokknum
Svanur Sigurbjörnsson, 21.1.2008 kl. 23:07
Sérlega skilmerkilegur og góður pistill hjá þér Svanur og hafðu þökk fyrir.
Þorkell Sigurjónsson, 21.1.2008 kl. 23:20
Einstaklega góð samantekt og vel mælt. Lýsir deilunni í hnotskurn.
Mér finnst líka að það megi vekja athygli á því að Reykjavík mun borga þessum 3 borgarstjórum laun út kjörtímabilið sem hlýtur að teljast vera sóun á almannafé.
Gunnþóra (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 23:20
Takk Þorkell og Gunnþóra
Góður punktur Gunnþóra. Sérkennileg regla. Er þetta svona í stað "starfslokasamnings"? Skiljanlega ef borgarstjóri verður að hætta vegna veikinda, þá ætti hann rétt á bótum í einhvern tíma líkt og aðrir, en hvers vegna er borgarstjóri sjálfkrafa á 4 ára launum? Það væri fróðlegt að heyra rökin fyrir þessum sérréttindum.
Svanur Sigurbjörnsson, 21.1.2008 kl. 23:40
Sæll Svanur,
I. Það er svosem ekki óeðlilegt að ef Ólafur metur það svo að hann geti komið fleiri af sínum stefnumálum í verk í nýjum meirihluta en þeim gamla að hann skipti. Hann ber auðvitað fyrst og fremst skyldur gagnvart sínum kjósendum, þ.e. að koma í verk þeim málum sem hann var kosinn til.
II. Hafi hann slitið samstarfinu út af flugvallarmálinu, sem mun ekki koma til framkvæmdar fyrr en eftir 5-10 ár, þá er hann enn furðulegri en ég hélt.
III. Mér fannst líka æpandi þögnin í málefnum OR/REI á fundinum. Þar ætlar nýi meirihlutinn að fyrra sig allri ábyrgð og gera Svandísi að andliti REI-málsins (klúðursins) sem hún á vissulega skilið en þó ekki ein. Þetta er auðvitað aumingjaskapur hinn mesti. Nú er hins vegar algerlega útilokað að spá fyrir um endalok þess máls. Ég taldi alltaf að markmiðið með starfsemi vinnuhópsins væri það að bjarga andliti Svandísar í málinu án þess að drepa útrásina.
Hver niðurstaðan verður núna er gjörsamlega útilokað að henda reiður á þar sem Sjálfstæðismenn vildu fyrir þremur mánuðum selja draslið, færa OR aftur til baka um tíu ár og gera það að gömlu afdönkuðu veitufyrirtæki af gamla skólanum. Guð forði okkur frá því.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 21.1.2008 kl. 23:56
Hann er kominn heim! ...eða eins og segir í vísunni:
"Afhvarf mikið
er til ills vinar,
þótt á brautu búi.
En til góðs vinar
liggja gagnvegir,
þótt hann sé firr farinn."
Júlíus Valsson, 22.1.2008 kl. 00:08
Sæll Siggi
I. Já auðvitað hefur hann skyldur við kjósendur sína og ef þeim líður stórkostlega núna með það að hann hafi náð borgarstjóraembættinu án samþykkis sætis nr 2 og 3 á listanum hefur þetta verk hans skilað einhverjum ánægðum, a.m.k. í bili. Honum tókst að yfirbjóða það sem verið var að gera í borgarstjórn með hrossakaupum við xD en með þessu klauf hann eigin borgarstjórnarflokk í herðar niður og gefur skít í það fylgi sem kom vegna Margrétar, Guðrúnar Ásmundsd, Ástu og fleiri. Málefnum verður ekki framfylgt nema með samstarfi öflugs baráttufólks sem starfar saman að heilindum. Hvar mun flugvallarmálið standa eftir þetta kjörtímabil? Verður Ólafur F. líklegur oddviti sterks framboðs fyrir því máli eða öðrum málum? Hver mun treysta honum? Hver getur borið virðingu fyrir svona framkomu?
II. Já það heldur ekki vatni. III. Athyglisvert - ég hef ekki sett mig inní þau mál.
Já, ætli guð grípi inní? Hvar var guð í dag? Ég bara spyr.
Svanur Sigurbjörnsson, 22.1.2008 kl. 00:16
Snilldarpistill hjá þér. Tengi í hann, prontó, ef ég má.
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 22.1.2008 kl. 00:48
Takk og af sjálfsögðu Hildigunnur
Svanur Sigurbjörnsson, 22.1.2008 kl. 01:22
Vilhjálmur er rúinn trausti, Ólafur F ´líka eftir þetta. Þetta eru ekki skákmenn sem sjá fram í tímann.
Hólmdís Hjartardóttir, 22.1.2008 kl. 01:51
Frábær pistill hjá þér Svanur eins og við var að búast.
Ótrúlegt hvað margt fólk er vitlaust sem kemst til valda í pólitíkinni. Það heldur að við, kjósendur séum fávitar, sem við kannski mörg erum, þ.e. ef við látum bjóða okkur svona farsa. Maður fer í leikhús til að sjá farsa.
Varðandi strætómálin, þá er að sjálfsögðu gott að bjóða börnum og unglingum frítt í strætó, en ég veit ekki hversu mikinn hag aldraðir og öryrkjar hafa af fríum strætóferðum, vegna þess að stór hluti þess hóps hefur ekki heilsu eða burði til að hlaupa á eftir strætó eða standa úti norpandi í strætóskýli að bíða eftir strætó. Það er ekki gott aðgengi heldur fyrir hjólastóla í strætó.
Á svo Villi að vera hálfur borgarstjóri á móti Ólafi? Var ekki búið að segja nei við Villa? Þetta er nú meira bullið
Svo kemur Ólafur allt í einu eftir fjarveru og rýkur í borgarstjórastólinn með látum!
Stjórnmál á Íslandi eru orðin meira en lítið dularfull
Margrét St Hafsteinsdóttir, 22.1.2008 kl. 01:55
Ekki ætla ég að bera í bætifláka fyrir Ólaf og Vilhjálm. En hins vegar sé ég engan stórvægilegan mun á þessum farsa og þeim er átti sér stað fyrir 100 dögum. Hjá þessu fólki snýst þetta allt um völd, en þar sem þú ert sennilega sósíalisti, sérðu Dag B. og Svandísi í öðru ljósi heldur en fólk með heilbrigða dómgreind.
Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 02:31
Sæll meistari,
þetta er snilldar úttekt hjá þér þar sem sanngirni og sannleikur mynda heildstæða mynd. Gaman væri að sjá þig túlka afstöðu Geirs Hilmar til málsins!!?
Þorsteinn Egilson, 22.1.2008 kl. 06:54
Mjög góður pistill og algjörlega sá besti sem um þetta mál hefur verið skrifað..
Hafðu þökk fyrir hann..
Björg F (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 08:54
Takk Margrét, Þorsteinn og Björg F.
Já, ef til vill lítill hópur hjá öldruðum og öryrkjum sem geta nýtt sér frían strætó, en e.t.v. í góðu lagi að sá hópur njóti frírra gjalda.
Já reyni að finna afstöðu Geirs Hilmars.
Sigurður Jónsson - Ég er í Samfylkingunni en var í tæp 2 ár í Frjálslynda flokknum (í miðstjórn) þannig að ég þekki nokkuð vel til ýmissa mála í þessu. Ertu að segja að þú sért með heilbrigða dómgreind en aðrir sem eru t.d. í xS séu það ekki? Ertu ekki kominn aðeins út fyrir þetta efni og farinn að slá sleggjudóma? Það er talsverður munur á þessum tveimur "hallarbyltingum" en ég hef aldrei mælt hinni fyrri sérstaklega bót. Ég skrifaði ekki um hana.
Svanur Sigurbjörnsson, 22.1.2008 kl. 09:09
Þetta kjörtímabil er ónýtt útaf endalausum mannabreytingum. Mjög kostnaðarsömum mannabreytingum. Biðlaun, skrifstofuhrókeringar, breytingar á bréfsefnum o.fl., o.fl. Þeir sem hafa verið stungnir í bakið eru borgarbúar sem treysta þessu fólki til að vinna í sína þágu. Það hefur ekki verið vinnufriður útaf valdabrölti nokkurra einstaklinga og mikilvæg málefni setið á hakanum. Hversu mikið af tíma borgarbúa hefur farið í þetta baktjaldamakk og hversu mikil starfsorka lýðræðislega kjörinna fulltrúa okkar fór í þessa rökleysu. Allt þetta fólk á að sjá sóma sinn í því að biðjast fyrirgefningar á því tjóni sem þessar aðgerðir hafa kostað borgarbúa og gefa okkur 15% yfirvinnu af þeim sökum.
Páll Geir Bjarnason, 22.1.2008 kl. 09:18
Ég er ekki búin að átta mig á þessu ennþá...er hálffegin að búa ekki í Reykjavík, minnir mig á suðurameríkustjórnmál!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.1.2008 kl. 10:00
Já eða stjórnmál Ítala sem skiptu ríkistjórnir og forsætisráðherra næstum því eins oft og nærbuxur
Svanur Sigurbjörnsson, 22.1.2008 kl. 10:10
Flott úttekt á þessu sorglega máli!
Guðrún Helgadóttir, 22.1.2008 kl. 11:56
Takk Guðrún. Ég sá á blogginu þínu að þú vitnaði í orð Steingríms J, en fréttin hefur eftirfarandi eftir honum:
Ég er sammála þessum hugrenningum. Því miður er siðferðisleg afturför í þeirri ábyrgð sem einstaklingar taka á sig þegar þeir starfa með öðrum í flokki í íslenskum stjórmálum í dag.
Svanur Sigurbjörnsson, 22.1.2008 kl. 12:13
"Sérlega skilmerkilegur og góður pistill hjá þér Svanur og hafðu þökk fyrir."
"Ég er ekki búin að átta mig á þessu ennþá...er hálffegin að búa ekki í Reykjavík, minnir mig á suðurameríkustjórnmál!"
þér er vonandi sama en ég kóperaði bara komment Þorkels (3) og Önnu (18), þau segja hug minn allan varðandi þetta mál - eina sem kom uppí hugann á mér í gær varðandi þetta er að nú hefur sá siðblindi loksins sótt hin siðblindu heim. Og aumingja borgarbúar að hafa misst Svandísina sína
halkatla, 22.1.2008 kl. 12:18
Þakka kærlega fyrir greinargóðan pistil og skilmerkileg svör við athugsemdum. Ég er einn þeirra sem velti þessari revíu fyrir mér og finnst eins og aðalleikararnir séu komnir verulega út fyrir handritið.
Ólafur var ekki kosinn í borgarstjórn sem einstaklingur, heldur sem 1/15 af framboðslista, sem jafnframt hafði jafn marga varamenn. Fulltrúavaldið sem hann fékk með kosningu, veitir honum afar lítið persónuvald og ef hart væri gegnið fram gæti framboðslistinn (væri þar meirihluti fyrir því) látið ógilda þennan gjörning hans. Svo virðist sem hann hafi ekki samþykki framboðsins fyrir þessum gjörðum sínum, svo á þeim forsendum eru þær tvímælalaust ólögmætar.
En, höfum við ekki upplifað það aftur og aftur að pólitíkusar kunni ekki að vinna á lýðræðisgrundvelli?
Guðbjörn Jónsson, 22.1.2008 kl. 13:02
Góð grein. Já það er sorglegt þegar menn leggjast jafn lágt til að ná í völd og gert er í þessu tilfelli. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn svo spilltur að hann svífist einskis til að ná sínu fram. En hugsið ykkur að Ólafur skyldi láta Sjálftökuflokkinn halda fram á síðustu stundu að Margrét væri með í málum, græðgin í stólinn var svo mikil að allt annað var látið hjá líða.
Valsól (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 14:07
,,Björn Ingi selur ekki siðferði sitt eða starfsheiður með því að heimta borgarstjórastöðu, heldur tekur til starfa með nýjum meirihluta á jafningjagrundvelli og til samstarfs um málefnin. "
Þér er nú ekki alvara?
Dagur B Eggertsson tók rösklega til starfa og blés mikilli orku og persónutöfrum í borgarstjórastarfið.
Hver með sinn smekk.
Sjálfstæðismenn gera alvarleg mistök í rekstrarmálum orkufyrirtækja og missa völdin sökum trúnaðarbrests bæði innan flokks og milli þeirra og Björns Inga.
Þetta er í grundvallaratriðum rangt. Fulltrúar Dlistans í Orkuveitunni settu REI á koppinn til þess, að lágmarka hugsanlegt tap af útrásinni. Björn Ingi, gæti sýnt þér í skilaboðaskjóðu símans hans, hvar skilaboð bárust frá einum ,,playernum" og stóð eitthvað á þessa leið ,,besta pólitíska move ever" um sameiningu REI og GGE, með fylgjandi klásúlum. Vonandi segir hann þér einnig frómt frá hvað hann setti sem skilyrði í endurskoðun samningsins. Ekki fer hann að ,,selja starfsheiur sinn" fyrir annað en sammleikann???
Um kosningaloforðin sem þú tíundar hér að ofan og gerir lítið úr er það að segja, að frítt í strætó var tilraun, hún gafst vel og nú er ekkert því til fyrirstöðu, að útvíkka hana enn frekar, með von um, að það minnki álagið á háannatíma í umferðinni.
100 rúm fyrir veikt fólk var komið í undirbúning og framkvæmd á fyrri tíma Dlistans, enda eitt helsta áhugamál Vilhjálms og það sem tók afar mikinn tíma frá öðru á fyrstu dögum hans sem borgarstjóri. ÞEtta ætti þér að vera kunnugt um, sem læknis og ætti að vera hæg heimatökin, væri sannleksástin þitt helsta kennimerki, að taka bara upp síman til kollega þinna í öldrunarlækningum og inna þá eftir því öllu saman.
Í tí ð R-listan var EINUNGIS KLÁRAÐAR ÖRFÁAR ÍBÚÐIR F. ALDRAÐA OG ÖRYRKJA nánast þær einu sm ÁÐUR var hafin undirbúningur eða byggingar á. ÞEtta geta þinir kollegar alltsaman staðfest.
Ég hef lesið afar margt eftir þig og talið þar fara nokkuð rólyndan mann og horskann en svona er það nú.
Ef þér er annt um, að leita að egósentrískum stjórnamálamönnum, sem að vísu er nokkuð framboð af, er einna helst að líta til Samfó, þar eru stórkarlaleg exampler af slíku. Nú síðast var formaður samtíningsins að tjá sig um starfhæfi meirihlutans og annað því tengt. Hún þarf mjög mikið á betra minni að halda um eigin gerðir og yfirlysingar, efndir allar og starfhæfisvottorð til handa hinum aðskiljanlegu meirihlutum, starfandi og sprungnum á þessu kjörtímabili hvar hennar lið stóð að brotum eða myndun.
Ég er alinn upp þannig, að geta viðurkennt misfellur í mínum ranni en einnig að það er kennimark horskra manna, að fjölyrða EKKI um sjúkdóma, annarra, þar sem þeir geta lítið við það ráðið (er ekki sjálfrátt) en það á einnig við sjúkdóm sem ekki er til lyfjameðferð við það er psykopatar og þeir verstu eru egósentrískir.
Með kærum þökkum fyrir oftast rólegt og stemmt blogg og von um að nú vori vel í Rvík
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 22.1.2008 kl. 14:58
Takk Anna Karen, Guðbjörn og Valsól - góð innlegg.
"nú hefur sá siðblindi loksins sótt hin siðblindu heim" - Ég var einmitt að hugsa þetta Anna Karen. Þarna fara saman þeir sem þrá mest völdin, valdanna vegna eða í blindu sinni yfir því að leikreglur réttlætis og siðaðs lýðræðis byggja ekki á því að ná völdum með hælkrókum þó að einhver liggi vel við bragði.
Góður punktur til að ítreka Guðbjörn. Með þessum einleik er Ólafur í reynd að segja sig úr flokki með sínum áður nánustu samstarfsmönnum og næsta fólki á listanum sem saman voru í þessu undir flagginu "óháðir". Til þess að breiða yfir það gæti hann gengið aftur í Frjálslynda, sem mér kæmi ekki á óvart að hann geri. Þar á hann nú nýja aðdáendur sem finnst hann hafa spilað þetta "snilldarlega" og vilja hann sem formann flokksins á landsfundi 2009. (sjá blogg Sigurjóns Þórðarsonar og Jens Guð). Þú segir að framboðslistinn geti látið ógilda gjörning Ólafs. Það sé ég ekki að sé hægt þar sem hann var kosinn í sætið en ekki aðrir á listanum. Hann hefur leyfi til að fara að "sannfæringu" sinni. Þannig geta þessar stöður komið upp undir núverandi lögum. Hefurðu einhverjar aðrar upplýsingar um þessi mál?
Já Valsól það var augljóst að Ólafur laug því til að hann vissi ekki fyllilega afstöðu Margrétar. Spurning hvort að hann hafi sagt Villa að hann hefði fullan stuðning. Það hefur líklega ekki andað sérlega hlýju á milli þeirra eftir að hann reis upp úr "veikindum" sínum 5 vikum eftir að Margrét varð forseti borgarstjórnar og tók við því embætti sjálfur. Þrátt fyrir þá erfiðleika sé ég ekki að það réttlæti þessi umskipti. Maður fellur ekki borgarstjórn til þess að losna úr samstarfi við varamanninn sinn. Nú hefur hann engann varamann sem styður ákvarðanir xD og hans. Geti Ólafur F ekki greitt atkvæði verður Margrét í hans sæti og getur fellt tillögur meirihlutans. Þetta á eftir að verða skrautlegt.
Svanur Sigurbjörnsson, 22.1.2008 kl. 15:50
Þetta kúpp snýst allt um REI og afsali almannaeigna til einkaaðila. Ólafur og co eru bara einfeldningslegir leiksoppar þessarar leikfléttu, sem stefnir að því einu að klára þetta fordæmi um breytingu eignarhalds á almenningseig. SDómurinn í máli Hitaveitu Suðurnesja ver það sem þurfti tiæl að ryðja burt fyrirstöðunni. Ná má raunar það sem ekki mátti þá. Þetta er valdarán a la Bush. Við getum kysst lýðræðið og síðan sjálfstæðið bless ef þessi fordæmi fá að viðgangast. Lög um þessa hluti eiga að samræmast lögum um alþingi. Frumkvæðið verður að koma frá sitjandi meirihluta að rjúfa samstarf og efna til kosninga. Hér þarf að gera endurbætur á lögum og á stjórnarskrá, sem er raunar alveg blönk á þetta atriði. Svo segir Geir að þetta komi ríkistjórn við og þetta hafi ekki áhrif á stjórnarsamstarfið? Ingibjörg segir þetta hinsvegar sorglegt dæmi um það hve menn eru tilbúnir að leggjast lágt í valdsókn sinni (með glott á vör) Að vísu rétt hjá henni, þó þetta hafi hljómað ánalega úr hennar glerhúsi, en svona afgreiðir maður ekki alvarleg lýðræðisbrot og gengur svo glottandi burt. Geir finnst þetta algerlega OK. Nú hafa þeir algerlega gengið frá almennu trausti á fulltrúa stjórnsýslunnar og þetta traust verður endurgoldið með vanvirðingu fyrir lögum og rétti almennt. Hér horfir fram á mikla hningnun.
Almenningur er algerlega sambandslaus við lýðræðishætti hér. Á ég að fara í eigin persónu og kæra gjörninginn? Á ég í eigin persónu að krefjast álits umboðsmanns alþingis? Hvar er tenging okkar við lögjafann og framkvæmdavaldið þegar fulltrúar okkar á þingi þegja þunnu hljóði og yppta öxlum? Það er þeirra að bregðast við fyrir okkar hönd, annars eru þeir samsekir í glæpnum. Kannski að við þurfum að fá úrskurð um þetta frá Haag eða UN eins og einatt?
Jón Steinar Ragnarsson, 22.1.2008 kl. 16:19
Það mætti kannski taka vægara til orðs varðandi dómgreind þína, segja t.d. að hún sé bjöguð, þar sem þú er svona týpískur aðili sem sérð flísina í augun annarra en ekki bjálkann í eigin auga. Fyrir mig sem hlutlausan áhorfanda eru skrif þín ómerkilegt lýðskrum.
Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 16:57
Það er dapurlegt að sjá Sjálfstæðismenn notfæra sér veiklyndi Ólafs til valdaráns. Ábyrgð stjórnmálamanna er mikil, líka hvað varðar að virða leikreglur. Hér var ekki framið lögbrot en siðleysið var algert og sorglegt að sjá Ólaf vera leiksopp þess. Það er ekki með nokkru móti hægt að líkja þessu ferli við það sem gerðist í haust þar sem um var að ræða alvarlegan trúnaðarbrest milli aðila eins og þú rekur. Enginn málefnaágreiningur var milli Ólafs og fyrri meirihluta, einungis boð um borgarstjóraembætti virðist hafa kippt honum til Sjálfstæðisflokksins. Allir sem standa að nýjum meirihluta bera mikla ábyrgð á því að minnka tiltrú almennings á stjórnmálamönnum. Það er það sem mér er efst í huga í dag og finnst verulega alvarlegt.
Kristjana Bjarnadóttir, 22.1.2008 kl. 17:40
Viðar. Hve bitur verður þú eftir næstu kosningar. FF hefur gersamlega fyrirgert trúverðugleika sínum og á ekki möguleika lengur og ekki voru þeir glæsilegir fyrir. Sigurður Jónson er væntanlega bitur Sjálfstæðismaður, sem fagnar nú þessu valdaráni og réttlætir það kannski með því að vegna þess að hinir gerðu þetta, þá sé ekkert upp á þessi vinnubrögð að klaga. Annars erfitt að lesa út úr svo málefnalegu og hrekjandi innslagi. Ekki ólíkt hringrökum trúaðra. Kannski er hann það líka. Maður spyr sig.
Jón Steinar Ragnarsson, 22.1.2008 kl. 19:09
Annars held ég að Ólafur F. sé bara leiksoppur í valdatalfli sjálfstæðisflokksins. Tek undir með Jóni Steinari.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 22.1.2008 kl. 19:35
Það er ljótt að plata veikgeðja menn
Jón Ingi Cæsarsson, 22.1.2008 kl. 19:37
Sigurður Jónsson
Komdu með rök fyrir máli þínu. Bentu okkur á lýðskrumið? Kannski sérðu eitthvað sem ég sé ekki. Hvernig væri að byrja á því að færa rök fyrir máli sínu áður en þú kemur með persónudóma um dómgreind mína. Látum svo lesendur ákveða hvar dómgreindin liggur.
Viðar Helgi
Bitur? Reyndu öllu heldur reiður. Reyndu sársvekktur yfir framferði Ólafs. Reyndu hneykslaður. Ég þekki þig ekki. Hef aldrei talað við þig en var í miðstjórn xF áður en þú komst þar nærri nokkrum ábyrgðarstöðum. Ég ber engan biturleika til fólks í Frjálslynda flokknum þó að ég telji margt athugavert við það sem þar gekk á og tel flokkinn ekki þann vettvang sem ég gæti hugsað mér að koma að eða ráðlagt öðrum að treysta. Það eru enn ágætis málefni á stefnuskrá flokksins en það virðist vera að breytast með nýju fólki. Fer ekki nánar út í það hér enda utan efnis þessa pistils.
Svanur Sigurbjörnsson, 22.1.2008 kl. 20:42
Hvet fólk til að skrifa undir mótmæli gegn þessu valdabrölti sem ég vil kalla sápuóperu frá helvíti.
http://www.petitiononline.com/mod_perl/signed.cgi?nogbodid&1Jón Helgi Gíslason (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 21:28
Svanur! Það er afar útbreiddur misskilningur að FULLTRÚi, geti upp á sitt eindæmi tekið ákvarðanir sem ekki hafi verið ræddar í þeim hópi sem hann er fulltrúi fyrir.
Fulltrúavald er með allt öðrum hætti en sjálfstætt presónulegt vald. Persónulegt vald heyrir eingöngu til þess valds sem viðkomandi getur framfylgt innan eigin fjárhags og á eigin persónulega ábyrgð. Fulltrúavald felst í því að vera málssvari hóps, t. d. stjórnmálaflokks, framboðslista, fyrirtækis e. þ. h. og hafa þar verið kjörinn til að tala fyrir og framkvæma vilja hópsins. Það leiðir af sjálfu sér að fulltrúavaldi fylgir EKKERT persónulegt vald; einungis það vald sem fulltrúanum er fengið frá hendi hópsins, því það er jú hópurinn sem ber ábyrgðina. Grunnreglan er sú, að þar sem ábyrgðin er, þar er einnig valdið.
Dæmi um þetta er t. d. stofnun REI. Einstaklingar sem borgarstjórn fól að sitja f. h. borgarstjórnar í stjórn OR fyrirtækis borgarinnar, taka persónulega ákvörðun um að stofna REI. Þeir leita ekki fyrirfram samþykkis borgarstjórnar fyrir þessari ákvörðun sinni, þess vegna er borgarstjórn á engan hátt skuldbundin eða ábyrg vegna ákvarðana þeirra. Sú ábyrgð er enn alfarið á persónuábyrgð þeirra einstaklinga sem ákörðunina tóku, því hún hefur ekki verið samþykkt í borgarstjórn. Þess vegna var kappkostað að ógilda ákvörðunina um stofun REI, fyrst borgarstjórn mundi ekki staðfesta eftirá hinar ólögmætu gjörðir fulltrúa sinna í stjórni OR.
Samskonar dæmi er uppi varðandi Ráðstefnu- og tónlistarhúsið. ALLIR samningar um það eru einungis á persónuábyrgð þeirra ráðherra sem undirrituðu samningana, því þessi samningur hefur aldrei verið lagður fyrir Alþingi. Í fjárreiðulögum kemur skýrt fram að ENGINN hefur heimild til að skuldbinda ríkissjóð, nema Alþingi. Ef ráðherrarnir hefðu viljað gera þennan samning á kostnað ríkissjóðs, hefðu þeir FYRST, áður en þeir undirrituðu hann, þurft að fá hann samþykktan á Alþingi.
Líkt og með sniðgöngu við þrískiptingu valdsins í stjórnskipulagi okkar, hefur þjóðinni verið innprentuð ranghugmynd um valdmörk fulltrúavaldsins. Mönnum virðist ekki falla vel við að vera fulltrúi/þjónn fólksins og hafa bara sambærilegt vald og t. d. framkvæmdastjóri fyrirtækis, en sú er nú einmitt raunin með fulltrúavaldið. Framkvæmdastjórinn er einmitt fulltrúi, rétt eins og ráðherrann, eða borgarfulltrúinn.
Ég er ekkert hissa á þó fólki finnist einkennilegt að horfa á þetta frá þessum sjónarhól, eftir að hafa í áratugi verið talin trú um allt annað. En, er ekki að koma tími til að breyta þessu og hafa valdmörkin í réttu formi? Það mundi tvímælalaust bæta siðferðið.
Guðbjörn Jónsson, 22.1.2008 kl. 22:04
Já ég hvet Reykvíkinga til að fara að dæmi Jóns Helga og skrifa undir þennan mótmælalista. Listinn mun sjálfsagt ekki breyta neinu öðru en því að sýna að fjöldi fólks vill ekk sjá svona valdapólitík, en það er mikilvægt að láta álit sitt í ljós.
Skiljanlegar spurningar Elmar.
Guðbjörn. Mér sýnist allt rétt sem þú ert að segja um stjórnsýsluna. Ég veit hins vegar ekki alveg af hverju þú ert að útskýra þessar reglur þegar engar slíkar giltu hjá "óháðum" sem var ekki formlegur stjórnmálaflokkur og því frjáls af félagslögum sem t.d. gilda í Frjálslyndum, um að ekki megi efna til stjórnarsamstarfs við þingflokka án þess að hafa umboð miðstjórnar. Stjórnmálaflokkarnir búa sér til reglur sjálfir varðandi hvernig þeir haga samstarfi við aðra flokka, efna til þess eða slíta. Ég veit ekki til þess að neitt sé um slíkt í landslögum. Óháðir höfðu ekki nein flokkslög og því var Ólafur bara bundinn samvisku sinni og siðferðismati. Hann lét það greinilega ekki binda sig og fór sínu fram án samkomulags við Margréti eða Guðrúnu. Hins vegar kom fram í máli Guðjóns Arnars að hann hefði vitað að viðræðunum við xD þannig spurning er hvort að Ólafur hafi borið sig upp við hann þó að hann væri ekki í xF.
Svanur Sigurbjörnsson, 22.1.2008 kl. 23:43
Hvað sem segja má um lög og reglur stjórnsýslunnar þá situr Ólafur í borgarstjórn í krafti kjósenda FF. Eflaust voru margir þeirra að kjósa Ólaf persónulega, en aðrir geta hafa kosið flokkinn vegna stefnumála hans og enn aðrir vegna álits þeirra á öðrum frambjóðendum, þ.á.m. Margréti Sverrisdóttur.
Hvort sem Ólafur er að leika þennan einleik í rétti eða órétti og hvort sem tilgangurinn með þessu brölti hans var að pota sér í valdastöður eða koma stefnumiðum Frjálslynda flokksins í framkvæmd þá er hann að vanvirða lýðræðið með þessum gjörningi.
Það er mjög ólýðræðislegt að maður sem nýtur í mesta lagi trausts 10% kjósenda sé orðinn borgarstjóri og það er ólýðræðislegt að flokkur sem nýtur 10% fylgis hafi náð 70% af stefnumálum sínum inn í málefnasamning nýja meirihlutans.
Ef einungis 10% kjósenda kusu flokkinn má álykta að einungis 10% kjósenda séu samþykkir stefnuskrá hans.
Theódór Norðkvist, 23.1.2008 kl. 00:40
Verulega góðar hugleiðingar hjá þér Jón Steinar í færslu 27. Með stjórnmálaflokka fulla af framagosum sem svífast einskis til að ná valdastólum þarf að skoða hvort ekki sé hægt að færa fólk betur til ábyrgðar á gerðum sínum sem sveitarstjórnarfulltrúar eða alþingismenn með sértækari lögum. Auðvitað þarf að fara mjög varlega í lög sem hugsanlega geta skert frelsi fólks til ákvarðana en lögin þyrftu helst að hafa ákvæði sem koma í veg fyrir svona skrípaleik. Því miður virðist ekki hægt að treysta á siðferðisþroska kjörinna fulltrúa í dag.
Svanur Sigurbjörnsson, 23.1.2008 kl. 00:56
Þitt lið verður að bjóða fram í næstu kosningum Svanur, þó það væri ekki nema til að sýna fram á að allir verða ekki apar við að komast í einhverja stóla :)
DoctorE (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 09:22
Fyrirkomulag um setu ríkistjórnar verndar lýðræðið. Í stað þess að menn geti í bakherbergjum kollvarpað ríkistjórn og klofið án vitundar nokkurra, þá kveða lög á um að stjórnarflokkar fallist í sameiningu á stjórnarslit í kreppu og boði til kosninga. Á meðan situr sameiginlega kjörin bráðabyrgðastjórn. Stjórn, sem ekki er komin að fyrir eigið frumkvæði eða markmið, heldur stjórn, sem setur sér að framfylgja lögjafarvaldinu eins og það er, fram að myndun nýrrar stjórnar. Í reykjavík geta ókjörnir fulltrúar eða fulltrúar með nánast ekkert atkvæðavægi labbað inn og steypt meirihlutanum. Nú er sjálfstæðisflokkurinn nánast einráður og það var ekki það sem kom upp úr kössunum. Óli var blekktur með gylliboðum og situr nú einn og skelfdur og spyr sig: ""Hvað hef ég gert?" Þeir eru ekki borubrattir að sjá þessir tveir leppar Villi og hann, enda eru þeir aðeins fórnarket á altari dýpri markmiða sjálfstæðismanna. Verst er að forsætisráðherranum finnst þetta bara í fína og raunar fagnaðarefni. Gaman væri að vita hvort hann hafi vitað af þessu fyrirfram og lagt blessun sína yfir gerninginn. Allavega væri gaman að heyra hann neita því.
Ef eitthvað á að vera grundvallarmál í næstu kosningum er það það að styrkja og breyta lagasetningum um sveitastjórnarkosningar og riftingu samstarfs í borgar og bæjarstjórnum. Það sér hver maður að við getum ekki byggt á frumskógarlögmálinu í þessum efnum.
Jón Steinar Ragnarsson, 23.1.2008 kl. 12:02
Annars má lesa hér hve gersamlega ófullnægjandi stjórnsýslulög eru varðandi það sem snýr að stjórnsýslunni sjálfri, setu og lögmæti fulltrúa: Smella hér.
Hér er að mestu talað um prótokoll við afgreiðslu erinda, vanhæfi stjórnenda til úrskurðar í málum, Kærur og kærufrest varðandi erindi borgara. Í raun snýr þestta mest að rétti borgara í almennum málefnum en ekki hvað varðar grundvöll stjórnsýslunnar. þEtta er raunar hlálegt plagg.
Jón Steinar Ragnarsson, 23.1.2008 kl. 12:43
Algjörlega sammála þér Jón Steinar. Ég leit yfir þessi lög og fann ekkert sem kemur að gagni varðandi stjórnarmyndanir í sveitastjórnum.
DoctorE - Ég hef f.o.f. áhuga á siðferðis-, mannréttinda-, mennta-, heilbrigðis og stjórnarfarsmálum, þ.e. málum sem hafa stærri vettvang á alþingi. Þá finnst mér mjög mikilvægt að hið innra starf stjórnmálaflokkanna taki á sig siðaðri mynd og markmiðin snúist um að koma málefnunum áfram með samvinnu og deilingu ábyrgðar. Þá finnst mér það veikleiki margra stjórnmálamanna og flokka að geta aldrei tekið undir góð málefni annarra. Óttinn við að missa völdin eða álit sem hinn ráðandi aðili er oft heilbrigðri mannvirðingu og þverpólitísku samstarfi sterkari. Ég gekk í Samfylkinguna 4 vikum fyrir síðustu kosningar og er nú aðeins byrjaður að starfa í málefnanefndum þar. Ég hef áhuga á því að bjóða mig fram til alþingis en það mun velta á ýmsu hvort að það verði kostur sem ég tel álitlegan. Ég hef mín baráttumál sem sum eru ekki sérlega vinsæl umræðuefni eða líkleg til vinsælda. Populismi er mér ekki að skapi og stend ég eða fell með þeim málum sem ég tel mikilvæg.
Svanur Sigurbjörnsson, 23.1.2008 kl. 14:09
Það væri gaman að bera þennan gjörning við kristileg siðgæðisnorm Guðna Ásmundarsonar og Bjarnar Bjarnasonar. Það hlýtur að vera einhver lúppa þar, sem réttlætir þetta. Er það ekki?
Jón Steinar Ragnarsson, 23.1.2008 kl. 17:30
ég ætla hérmeð að taka til baka það sem ég sagði um að Ólafur væri siðblindur, nenni ekki að fara útum alla bloggheima til að gera það og læt þetta duga (þið megið samt alveg segja fólki frá því...) öll sökin er hjá sjálfstæðismönnum auðvitað og svo nenni ég ekki að pæla í þessu meir, adios!
halkatla, 23.1.2008 kl. 22:32
Af sjálfsögðu er ekki öll sökin hjá sjálfstæðismönnum Anna Karen. Ábyrgðin liggur hjá báðum og mun meira hjá Ólafi F því hann er sá sem þetta valt allt á. Hvort að þú vilt kalla hann siðblindan er svo annað mál en þetta verður seint talið til siðaðra stjórnmála.
Svanur Sigurbjörnsson, 23.1.2008 kl. 23:04
smá ýkt hjá mér - en samt satt í grundvallaratriðum, auðvitað bera allir sína ábyrgð
halkatla, 25.1.2008 kl. 08:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.