Betur má ef duga skal

Það er vissulega fagnaðarefni að nú skuli trúfélögum heimilt að gefa saman samkynhneigða í staðfesta samvist.

Svona er breytingartillagan sem var samþykkt nú í lok þings:

Lög


um breytingu á lögum um staðfesta samvist, nr. 87/1996,
með síðari breytingum.


1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „framkvæma staðfestingu á“ í 1. mgr. kemur:  staðfesta.
  2. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga er hafa vígsluheimild skv. 17. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, er heimilt að staðfesta samvist.
  3. Í stað orðanna „framkvæmd staðfestingar“ í 2. mgr. kemur: staðfestingu samvistar.
 
2. gr.
Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig geta prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga leitað um sættir.
3. gr.
Lög þessi öðlast gildi 27. júní 2008.

Það er athyglisvert að lesa þær umsagnir sem bárust til allsherjarnefndar á lokastigum meðhöndlunar ríkistjórnarinnar á frumvarpinu.  Þær eru nær allar með tillögum um enn frekari bætur á lögunum og telja að þetta breytingarfrumvarp gangi ekki nógu langt til að tryggja algert jafnrétti.  Ég sagði - nær allar - því umsagnir frá Biskupsstofu og Prestafélagi Íslands hljóðuðu uppá stuðning við frumvarpið óbreytt og án athugasemda. 

Hvað var það sem stungið var uppá í hinum umsögnunum?  Hér að neðan fer efnisleg samantekt úr þeim:

A.  Samtökin '78, Samtök foreldra og aðstandenda samkynhneigðra (FAS) og Félagsráðgjafafélag Íslands bentu á: 

Að nýju lögin leyfi prestum Þjóðkirkjunnar að neita samkynhneigðum pörum um þjónustu, en það samrýmist ekki sérstakri stöðu hennar og presta sem opinberra starfsmanna.  Þetta hljóti að brjóta í bága við jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar. 

B. Samtökin '78, FAS og Siðmennt bentu á:

Sameina þarf alla hjúskaparlöggjöfina í ein lög til að það sé fyllilega ljóst að jafnræði eigi að ríkja.  Samtökin'78 lögðu ríka áherslu á þetta í lok umsagnar sinnar.

C. Samtökin '78, FAS og Félagsráðgjafafélag Íslands bentu á:

Í stað þess orðanna "staðfesta samvist" ætti að standa "vígja samvist" þar sem prestar framkvæma vígslur en ekki staðfestingar í gagnkynhneigðum hjónaböndum.

D.  Siðmennt benti á:

Í stað þess að kalla þetta staðfesta samvist ætti að kalla athöfnina giftingu og að samkynhneigð pör gengju því í hjónaband rétt eins og gagnkynhneigð pör gera.  Það er mismunun að viðhafa önnur nöfn fyrir gift samkynhneigð hjón. 

Siðmennt átaldi löggjafann fyrir að hugsa meira um hagsmuni eins trúfélags en að koma á fullum mannréttindum.  Orðrétt stendur í umsögn félagsins:

Alþingi á ekki að lúta vilja einstaka trúfélaga, óháð stærð þeirra, um það hvernig mannréttindum er útdeilt á Íslandi.  Löggjafavaldið á í ákvörðunartökum sínum að vera algerlega aðskilið trúarlegum hagsmunahópum og gæta þess að allir séu jafnir fyrir lögunum.   Skylda löggjafans er fyrst og fremst til mannréttinda, ekki til trúarhópa.  Kirkja á að vera aðskilin ríki og löggjafinn óháður og frjáls til þess að stuðla að lagabótum eins fljótt og auðið er.   Hvert trú- og lífsskoðunarfélag hefur svo frelsi til að fylgja sinni eigin sannfæringu svo lengi sem hún brýtur ekki á frelsi og réttindum annarra.

E. Samtökin'78 bentu einnig á:

Í nýja frumvarpið vantar heimild fyrir sendiráðspresta og ræðismenn Íslands erlendis (eða erlenda presta og sendiherra hérlendis) til að vígja samkynhneigða í samvist.

Pæling

Umsagnirnar bárust á dögunum 5-19. maí 2008 og því gafst ákaflega lítill tími til að vinna úr þeim og koma með breytingartillögur á frumvarpinu.  Hvað gerðist?  Ekki var tekið tillit til neinna af óskum þessara ofangreindra aðila og frumvarpið fór í gegn óbreytt.  Er það eðlilegt?  Nei, það finnst mér ekki því það er alveg ljóst að það var hægt að gera miklu betur.

Það er einnig alveg ljóst að löggjafinn fór hér algerlega eftir (nauðbeygðum) vilja Þjóðkirkjunnar og í athugasemdum þeim sem fylgdu til útskýringar á lögunum var sagt að frumvarpið væri komið til vegna nýrrar sáttar innan Þjóðkirkjunnar.  Kannski er þetta skrifað í þeirri kænsku að láta Þjóðkirkjuna halda að hún stjórni þessu en það lítur samt þannig út að löggjafinn gangi aðeins svo langt í að veita samkynhneigðum full mannréttindi eins og Þjóðkirkjan er samþykk. 

Á löggjafinn að taka tillit til stærsta og elsta samfleitt starfandi trúfélags landsins? Vissulega, en sú tillitssemi getur aðeins gengið að því marki að sjálfsagt frelsi og réttindi fólk sé ekki fótum troðið.  Það er ekki hlutverk löggjafans að kalla hjónabönd samkynhneigðra eitthvað annað en hjónaband eða nota yfir giftingu þeirra orðskrípi eins og "staðfest samvist".   Þjóðkirkjan básúnar oft að hún sé sjálfstæð, ráði sér sjálf í sínum innri málum og sé þannig ekki "ríkiskirkja".   Þá á hún að axla ábyrgð samkvæmt því og ef að hún vill kalla hjónabönd samkynhneigðra eitthvað annað eða staðfesta þau í stað þess að vígja, er það algerlega hennar.  Löggjafinn á ekki að skipta sér af slíku og einungis veita nauðsynlegar heimildir og stuðla að lagaramma sem tryggir þeim trúfélögum sem vilja tækifæri til að gefa samkynhneigðum algerlega sömu þjónustu og öðrum. 

Þá eiga lög framtíðar að gera ráð fyrir að bæði trúarleg og veraldleg lífsskoðunarfélög séu skráð og hafi heimild til að vígja eða leiða saman pör, óháð kynhneigð, til hjónabands.  Það óréttlæti ríkir nú að Siðmennt hefur ekki heimild til að ganga frá lagalega hluta giftingarinnar því lög gera einungis ráð fyrir því að trúarleg lífsskoðunarfélög séu til í landinu.   Í athöfnum Siðmenntar er parið leitt saman til heityrða en ekki vígt, þar sem vígsla er trúarlegt hugtak.  Í lögum framtíðar þarf að taka tillit til þessa. 

Þetta nýja frumvarp sem var nú samþykkt er stór framför í átt til bættra mannréttinda og því ber að fagna.  Ég óska trúfélögum og samkynhneigðum félögum þeirra til hamingju með þetta nýfengna frelsi. 

Ég tel þó að okkur beri að spyrja hvort að svona afgreiðsla á lagafrumvörpum er það sem viljum sjá í framtíðinni, þ.e. að allar ábendingar þeirra sem eiga undir högg að sækja og þeirra sem vilja ganga alla leið til þeirra mannréttinda sem við þekkjum best, séu einungis til málamynda, en að eitt trúfélag sem er stærst og samvaxið ríkinu á naflanum fái að hafa síðasta orðið?  Hvað heldur ríkisstjórnin að sé vilji þjóðarinnar í þessum efnum?  Fer vilji þjóðarinnar saman við vilja Þjóðkirkjunnar?  Á ríkisstjórnin að fara eftir sinni bestu samvisku, bestu ábendingum, vilja þjóðarinnar eða Þjóðkirkjunni í mannréttindamálum?

 


mbl.is Eitt erfiðasta deilumál kirkju og samfélags til lykta leitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Andinn sem er í okkur í dag er alveg jafn merkilegur og andinn sem var í körlunum sem skrifuðu Biblíuna. Guðs andi er í þér og mér ekkert síður en Páli Postula. Biblían er skrifuð á hverjum degi, Biblían er skrifuð núna.

Að lifa í kærleika, hugsa í kærleika, trúa í kærleika og framkvæma í kærleika - það er mín einlæg ósk að mannfólkið geti gert. Það er mín kirkja og ég trúi að það  Í þessari kirkju giftum við þá/þær/þau sem elska hvert annað og þrá að vera í vígðum hjúskap, hvers kyns eða kynþáttar sem fólkið er. Gagnkvæm ást/virðing og vilji tveggja lögráða aðila til að lifa saman í blíðu og stríðu á að vera nóg forsenda.

Forsendan þarf ekki að vera að fólk eigi að fjölga sér. Ef ég gifti mig á morgun er það ekki til að eiga fleiri börn,  enda (vonandi) komin úr barneign, en það setur mér örugglega enginn stólinn fyrir dyrnar né verður mér boðin II. flokks hjónavígsla = staðfest samvist,  af þeim orsökum! ..

Þetta er mín skoðun.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 11.6.2008 kl. 10:36

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Jóhanna

Þú segir: "Gagnkvæm ást/virðing og vilji tveggja lögráða aðila til að lifa saman í blíðu og stríðu á að vera nóg forsenda."

Þessu er ég algerlega sammála því þetta er kjarni málsins.  Takk.

Svanur Sigurbjörnsson, 11.6.2008 kl. 11:14

3 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sæll Svanur.

Takk fyrir þennan pistil.  Það er gott að eiga bloggvin sem er eins skynsamur og þú og tekur svona á málunum. Bendir á svart á hvítu hvernig að þessu er staðið

Margrét St Hafsteinsdóttir, 11.6.2008 kl. 13:29

4 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Sæll Svanur! Ja það er hryggilegt að gerð séu lög sem heimila trúfélögum að brjóta önnur lög. Eða er ekki hægt að ætlast til þess að trúfélög sem fá leyfi til að framkvæma veraldlegar athafnir, fari að veraldlegum lögum og geri ekki greinamun á fólki.

Ef leikskóli sem fær opinbera styrki, telur það ekki rétt að blanda saman börnum af mismunandi kynþáttum og meinaði þannig svörtum börnum almennan aðgang að skólanum, væru allir sammála um að það væri brot á mannréttindum.

Ég held það væri réttaast að trúfélög sem treysta sér ekki til að gera öllum, sem á annað borð hafa rétt samkvæmt veraldlegum landslögum til að gifta sig, jafn hátt undir höfði, ættu þau trúfélög að afsala sér rétti til að gifta fólk. Þau geta haft sínar reglur um sínar serimoniur, en fólk fengi löglega giftingu hjá aðilum sem treysta sér til að fara eftri landslögum.

Annars er kannske ekki skrítið að almenningur á Íslandi telji það álitamál hvort eigi að fara eftir lögum eða ekki. Löggjafavaldið virðist ekki hafa svo mikla virðingu fyrir lögunum eins og sjá má bæði í þessu máli og lögleysunni með "kristilega arfleið", fyrir utan að uppeldisstofnanir í landinu leita sífellt leiða til að komast hjá því að fylgja lögum um trúfrelsi. Börnin læra nefninlega meira á hvað við gerum en hvað við segjum.

Ásta Kristín Norrman, 13.6.2008 kl. 18:46

5 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Kristið hjónaband er að mínu áliti einungis milli karls og konu. Þetta er vegna kenningar Krists og kirkjunnar sem varðveitir kjarna þessa boðskapar. Hjónabandið er td. að skilningi kaþólskra manna eitt af sjö sakramentum kirkjunnar. Stofnað af sjálfum Kristi og þarmeð heilagt. Þetta er ekki nokkur leið að sniðganga. Jafnvel trúaðir lúterskir menn skilja þetta og sjá fegurðina í þessu. Það þarf ekki að setja sig nema ofurlítið inn í sögu kristninnnar til að skilja þetta sjónarmið.

Stærstu kirkjudeildir veraldar hafa fyrir löngu leitt þetta mál til lykta með sögulegum, trúarlegum  og félagslegum rökum og ég held það sé óhætt að taka það alvarlega. Trúi maður hinsvegar ekki og jafnvel fyrirlítur kristna kenningu finnst mér skjóta skökku við að þvinga upp á þessa sömu kirkju nýja skipan. Enda er það ekki hægt.

Hér er vert að bæta við að kristin kirkja hafnar ekki samkynhneigðum, aðeins athöfnum þeirra. Sumir lobbíistar samkynhneigðra telja sér trú um að þeir séu að brjóta blað og skapa einhvers konar byltingarástand innan kirkjunnar, og reynar þjóðfélagsins alls: endurskilgreina kynlífið, samlíf manna, fjölskylduna og trúfestu milli kynjanna, enda er það þeirra helsta markmið. Kemur það skírlega fram á alþjóðlegum síðum hversu agressífur hópurinn er í raun.  Menn eru rammskyggnir á það sem er að gerast. Heimskirkjan mun ekki haggast í þessum efnum.  Hitt er annað að samkynhneigðir geta "gefið sig saman" á veraldlegan hátt og fengið viðurkenningu, skilning og velvilja þjóðfélagsins alls. Þeir geta stofnað sínar sérkirkjur og eru í raun frjálsir eins og ýmsir hagsmunahópar í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Guðmundur Pálsson, 16.6.2008 kl. 14:12

6 Smámynd: Kolgrima

Guðmundur, hvar er þessa kenningu Krists að finna?

Kolgrima, 18.6.2008 kl. 02:28

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Guðmundur

Mér sýnist á öllu að séra Karl Sigurbjörnsson yrði harla glaður með skrif þín hér.  Það að setja hjónaband gagnkynhneigðra í sakramenti og heilagleika en hjónaband (já, hjónaband) samkynhneigðra í óheilagt eða vanheilagt samband er höfnun á þeim náttúrulega eiginleika, þ.e. vísun kynhneigðar þeirra, sem þessir einstaklingar hafa og verður ekki breytt, ...meira að segja þó að þú leggist á bæn það sem eftir er ævi þinnar. Kynhneigð fólks er ákaflega stór og mikilvægur þáttur í lífi þess og höfnun á samkynhneigð sem einhverju sem er guði hins kristilega samfélags ekki þóknanleg eða lægra sett er lítið skárra en alger útskúfun.  Kannski verra í sumum tilvikum því baktalið og falsið sem slíkt skapar er niðurlægjandi og mannskemmandi.

Tal þitt um hversu "agressífur hópur" sumir lobbíistar samkynhneigðra eru mótast auðvitað af andstöðu þinni við málstað þeirra.  "Endurskilgreina" segir þú.  Hvað er að því?  Ert þú fastur í 2000 ára gömlu hjólfari? Hefurðu ekki þann sveigjanleika að skoða hlutina raunsætt og vita hvort ekki megi bæta gamlar skilgreiningar mæli það ekki mót skynsemi og sé stutt góðum rökum. 

Í mínum huga er samkynhneigð náttúrlegt fyrirbæri en ekki endilega heppileg eða það besta miðað við þau kynfæri sem karl og kona geta fullnægt hvort öðru með og eignast afkvæmi.  Hins vegar þegar heilinn laðast að sama kyni, nær það útfyrir gerð kynfæranna og ræður ferðinni.  Svipgerð (phenotype) heilans hefur úrslitavald. Þetta er líffræðilega áskapað og því ekki spurning um siðferðislega afstöðu eða sjálfstæða ákvörðun einstaklingsins.  Þó að gagnkynhneigðu fólki finnist samkynhneigð fráhrindandi fyrir sjálft sig þá er engin ástæða til að gera hana að siðferðislegu álitamáli.  Það er alger forneskja að byggja skoðun sína á samkynhneigð og viðurkenningu sambanda þeirra með vísun í syndir og hvað sé guði þóknanlegt samkvæmt Biblíunni. 

Þú vilt halda að þú getir aðskilið trúnna frá réttindabaráttu samkynhneigðra og samt sem áður sagt að þú hafir ekkert á móti samböndum þeirra eða kallað þau einhverjum öðrum nöfnum en hinu heilaga hjónabandi eins og "staðfest samvist".  Þetta gengur ekki því trúin, sama hversu heilög þú heldur að hún sé, kemst ekki hjá því að axla ábyrgð gagnvart öllum, líka þeim sem hún vill ekki sjá.  Lausnin felst ekki í því að segja samkynhneigðum að stofna sína eigin trúflokka því þá ertu bara að skapa aðskilnað á grunni mismununar.  Alveg sama mismunun er í gangi gagnvart konum innan Kaþólsku kirkjunar og er ekki enn til fullnustu farin úr kirkjum mótmælenda. 

Það er rétt að trúfélög eru frjáls samtök (nema Þjóðkirkjan) og því geta menn valið og hafnað þar eins og forystan eða trúarritin segja til um.  Þú vilt ekki samkynhneigða í þinni kirkju, ekki nema að þeir sætti sig við að vera annars flokks miðað við hina heilögu hjónabönd gagnkynhneigðra, en þá ertu í leiðinni að setja þig út í horn sem sértrúarmann eftir því sem almenningsáltið mjakast meir og meir í átt með málstað samkynhneigðra.  Þú getur þá notið frelsi þíns en það verða með tímanum æ færri til að samgleðjast þér.  Hér geri ég ráð fyrir að málstaður "agressífu lobbíistanna" vinni á meir og meir, enda bendir sagan sem betur fer ekki til annars. 

Svanur Sigurbjörnsson, 18.6.2008 kl. 12:06

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Margrét og ég tek heils hugar undir mál Ástu Kristínar og Hauks.  Takk fyrir.

Svanur Sigurbjörnsson, 18.6.2008 kl. 12:12

9 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Að "vígja samvist" eða "staðfesta samvist" þar liggur munurinn. Mér finnst skynsamlegt af þjóðkirkjunni að gera þennan mun. Með því að staðfesta stígur kirkjan út úr sínu guðlega hlutverki og tekur að sér embættishlutverk. Presturinn ræður svo að hve miklu leiti hann blessar vináttu þessarra einstaklinga. Á sama hátt og ég gæti td. gengið til prests ásamt bróður eða frænda mínum og spurt hann hvort hann vilji blessa vináttu okkar og eindregna samstöðu td í einhverju máli. Hann myndi gera það.

Grundvallarafstaða mín eins og ég greindi frá hér að ofan er kaþólskrar ættar. Kaþólskir menn þurfa þó ekkert að fylgja kaþólskri kenningu í einu og öllu, en þar er margt gott innan um.  Þetta er gamalt klassiskt stuff sem lætur ekki undan tískusveiflum og tækifærismennsku eins og maður segir. Fráleitt væri að menn tækju nærri sér sérútgáfur af kynfýsnum manna og kvenna og byggi svo nýjar stofnanir þjóðfélagsins á því, eða endursmíði gamlar. Þó er kynlífið mjög mjög mikilvægt. En það á að vera í sínum farvegi ( horft út frá hagsmunum samfélagsins, sérl. kvenna og barna) og menn eiga að vita að það leitar útrásar með ólíklegasta hætti. Kynlífsvæðing nútímans ruglar menn í ríminu.

Hjónabandið sem sakramenti eins og ég sagði áður (færsla 6) er lang glæsilegasti skilningur sem ég hef rekist á hingað til, í senn guðlegur og rómantískur, jarðneskur, fagur og eilífur. Menn geta lesið um það ef þeir nenna. Þjóðkirkjan okkar lúterska vill halda í þann skilning um að hjónabandið sé heilög stofnun.

Fjölskyldan er mjög mikilvæg eining í kristinni lífssýn. Og samstaða stórfjölskyldunnar. Hún er grundvöllur þjóðfélagsins og trúmennska milli einstaklinga kjarnaatriði. Börn eru blessun og guðsgjöf og hin hæsta hamingja auðvitað. Milli hjóna er jafnræði en þau eru vitaskuld ólík. Ég skal ekki stinga undir stól að kristnir menn og þá sérstaklega kaþólskir eru margir tradisjónalistar. Það er um eða yfir einn milljarður manna kaþólskir og sem stofnaður var af Kristi sjálfum. Það ríkir yfir þessari stofnun sértök fágun, menning og umburðarlyndi. Eins og reyndar okkar góðu þjóðkirkju.  Það er sérviska í heimskirkjunni að menn eru ekkert að óþörfu að experimentera með ný sambúðarform, skilnaði, sundrungu og leiðindi milli kynjanna, þó allt geti auðvitað gerst. En intensjónin er á hreinu.  Mörgum finnst nú bara nóg komið af því glassúrfyllta heimabakkelsi. Því óneitanlega er margt samfélagsrótið sem sem okkur finnst svo dásamlegt sl. 30 árin eða svo, ekkert annað en heimasmíðaðar hörmungar.

Guðmundur Pálsson, 19.6.2008 kl. 01:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband