Biblían bókstaflega á 5 mínútum - í boði Þjóðkirkjunnar

Hjalti Rúnar Ómarsson er með athyglisverða umfjöllun á Vantrú um bók sem kom nýlega út á vegum Skálholtsútgáfunnar, útgáfufélagi Þjóðkirkjunnar.  Þetta er bókin "Fimm mínútna Biblían" sem er þýdd úr norsku og á að gefa fólki greiða leið til að kynna sér efni Biblíunnar með 5 mínútna lestri daglega.  Það er norskur prestur sem skrifar bókina og túlkar hann Biblínua fyrir lesandann. 

Þetta væri e.t.v. ekki fréttnæmt í þjóðfélagi þar sem fólk lætur skrá börn sín sjálfkrafa við fæðingu af ríkisstofnunum í félag sem trúir á ímyndaða himinveru, nema fyrir þær sakir að sú túlkun sem ræður ríkjum í bókinni er alls ekki "hógvær kristni" eins og verjendur Þjóðkirkjunnar telja hana standa fyrir og vera nauðsynlegan stuðpúða svo bóksstafstrú vaxi ekki fiskur um hrygg hérlendis.  Nei í þessari bók er t.d. gengið út frá því að Satan og hans djöflapakk séu allt staðreyndir og að Guð hafi komið því í kring að María móðir Jesú hafi verið mey þrátt fyrir fæðingu á Jesú.  Orðrétt segir:

En ef þú trúir á Guð á annað borð þá veistu að það er ekkert mál fyrir hann að koma því svo fyrir að ung kona ali barn en haldi þó meydómi sínum.

Á maður að gráta eða hlæja? ...eða hvort tveggja? 

Þá mælir höfundur bókarinnar með tungutali (speaking in tongues, glossolalia) en það er svona orðasalat sem fólk fer með í múgsefjun og trúartrans á samkomum hjá bóksstafstrúuðum, t.d. í "Jesus camp" hjá evangelistum í USA.  Allt sérlega nútímalegt og í anda hógværar trúariðkunar hinnar evangelísk-lútersku Þjóðkirkju á Íslandi eða hvað? 

Hvernig má það vera að hún gefi svona bók út á sínum vegum?  Er þetta inní framtíðartrúarstefnu Þjóðkirkjunnar? Sjáum við bráðum börn falla í trúartrans á KFUM/K fundum eða sumarbúðum Þjóðkirkjunnar? 

Kíkið endilega á nánari umfjöllun Hjalta Rúnars.  Það var verulega þarft að vekja athygli á þessu og á hann þakkir skilið fyrir það.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ja hérna

" En ef þú trúir á Guð á annað borð þá veistu að það er ekkert mál fyrir hann að koma því svo fyrir að ung kona ali barn en haldi þó meydómi sínum."

Það er munur að fá að sænga hjá guði

Mér finnst "orðasalat" algjört snilldarorð um svokallað "tungutal".  

Ég man eftir því þegar ég var krakki þá vorum ég og vinkona mín að þykjast tala einhverju útlensku og við sátum og spjölluðum á þessari útlensku okkar, sem hvorug okkar skyldi en höfðum mjög gaman að þessu, þar sem við þóttumst vera í útlöndum í leiknum. ( þetta var fyrir tíma sjónvarpsins á Seyðisfirði )  Eins gott að enginn "trúaður" heyrði til okkar.  Þá væri örugglega búið að umvefja okkur einhverri helgiimynd

Ætla að kíkja á pistilinn hans Hjalta.  

Margrét St Hafsteinsdóttir, 9.9.2008 kl. 19:10

2 Smámynd: Skeggi Skaftason

Ja hérna hér!

Skemmtileg og góð greining hjá Hjalta, takk fyrir að benda á hana. Ég hef einmitt séð þessari bók hampað í gluggum Jesú-búðarinnar fyrir neðan Biskupsstofu. Eins og þú segir er það útgáfufélag Þjóðkirkjunnar sem gefur bókina út og segir um hana á heimasíðu sinni:

Þessi bók er mjög nútímaleg og gerir efni Biblíunnar ótrúlega aðgengilegt og vekur áhuga lesandans á að lesa í sjálfri Biblíunni. Öllu efni bókarinnar er skipt niður í hæfilega stutta kafla fyrir hvern dag ársins. Fjölmargar hugleiðingar, stuttar og eftirminnilegar, fylgja hverjum degi.

Framsetning bókarinnar gerir lesturinn einstaklega áhugaverðan og skemmtilegan því höfundur notar oft beinskeytta kímni til að skýra málin. Á hverjum degi er lesandinn í aðalhlutverki. Eftir lestur biblíutextans snýr höfundur bókarinnar, Knut Tveitereid sér að lesandanum. Hann útskýrir textann með lífið hér og nú og Jesú sjálfan sem útgangspunkt og tengir þannig veruleika lesandans í nútímanum og kristna trú.
Það er gert á spennandi og hressilegan hátt.

Lestur hvers dags tekur örstuttan tíma – eina mínútu – og fimm mínútur í viðbót ef lesandinn fær löngun til að lesa aðeins meira! Þessar fimm mínútur til viðbótar geyma þá 365 texta Biblíunnar sem eru að áliti höfundar mikilvægustu hlutar hennar. Hver dagur er 1440 mínútur. Það nær enginn að kynnast heiminum á einni mínútu en með Fimm mínútna Biblíunni kemst lesandinn í kynni við fleira en hann getur ímyndað sér.

Þótt Fimm mínútna Biblían auðveldi lesturinn á sjálfri Biblíunni er hún þó sjálfstæð bók. Hún er skrifuð til þess að við áttum okkur á spennandi sögu sem snertir okkur öll. Sögu þar sem meistarinn frá Nasaret er ekki langt undan. Með því að lesa um hann kynnumst við sjálfum okkur og lífinu hér og nú.

Hún er ætluð ungu fólki hvað aldur varðar en líka þeim sem ung eru í anda. Og hver er það ekki? Hún getur því nýst öllum aldurshópum sem áhuga hafa á því að kynnast bók bókanna, Biblíunni, í hröðum nútímanum.

Skeggi Skaftason, 9.9.2008 kl. 22:16

3 identicon

Ég held að best væri fyrir kufla að gefa sem minnst út af þessu rugli.. svona ef þeir eru að spá í eigin atvinnuöryggi.
Smá hissa samt.. svona vegna þess að kuflarnir hafa alla tíð verið að modda biblíu að tíðarandanum... nú síðast með samkynhneigða.
Það var ekki biblían og kirkjurnar sem mótuðu vesturlönd... vesturlönd fóru fyrst að þokast á rétta braut þegar ofurvald kirkju var brotið á bak aftur, síðan það gerðist hefur kirkja og kuflar verið að modda biblíu, passa sig á að segja okkur ekki frá hryllingnum... reynt að telja okkur í trú um að siðgæði okkar í dag sé þeim að þakka... sem er ekkert nema LYGAR, mannlegt siðgæði er ljósárum framar en það sem biblían og geimgaldrakarlinn boðar

Auðvitað fagna ég öllu svona því fólk verður að kynnast því sem það játar að trúa á, það verður að kynnast því að biblían er ekki bara hlægilega barnaleg, hún er einnig mikið hryllingsverk.. þar sem fjöldamorð og barnsmorð eru meðöl hins ímyndaða geimgaldrakarls sem er svo kærleiksríkur og miskunnsamur.

DoctorE (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 22:48

4 identicon

Af hverju fyrirlíta svona margir húmanistar kristna menn og kristna kenningu?  Stafar ykkur einhver ógn af henni?  Eða eru allir sem aðhyllast aðra trú og heimsýn en þú bara heimskir. Hvað er eiginlega málið?

Heiðrún (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 00:28

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Skeggi

"Eftir lestur biblíutextans snýr höfundur bókarinnar, Knut Tveitereid sér að lesandanum. Hann útskýrir textann með lífið hér og nú og Jesú sjálfan sem útgangspunkt og tengir þannig veruleika lesandans í nútímanum og kristna trú."

Já akkúrat - veruleikinn

Svanur Sigurbjörnsson, 10.9.2008 kl. 02:19

6 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Takk fyrir mig, gott að þið höfðuð gaman af greininni. Ég á eftir að skrifa um Alfa-námskeiðisbókina og hver veit nema ég kíki á 100 mínútna biblíuna.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 10.9.2008 kl. 02:30

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Heiðrún

Þó að hér sé gagnrýni á guðstrú og sérstaklega bókstaflegar trúarkenningar, þá er ekki þar með sagt að maður fyrirlíti kristna menn eins og þú orðar það.  Þú skalt fara varlega í að nota sterk orð.  Húmanistar eiga margt sameiginlegt með hinum almenna kristna manni hérlendis og því skal aldrei gleyma þrátt fyrir ólíkar skoðanir um almætti. 

Ég er ekki hér að dæma neinn heimskan eða ekki.  Ég gagnrýni þá hugmyndafræði sem mér finnst röng og geta leitt til rangra siðferðilegra ákvarðana.  Ég gagnrýni það að taka inná sig hugmyndir sem hafa ekki staðist raunveruleikaathugun og þegar á botninn er hvolft hafa engann tilgang - bæta ekki skilning á lífinu og efla ekki hugarfar né hamingju þegar til lengri tíma er litið. 

Já, okkur stafar ógn af bókstafstrúarkristni, m.a. vegna þess að hún vill grafa undan vísindaþekkingu og kennslu á þróunarkenningunni.   Trú getur verið allt frá því að vera skaðlítið lyfleysumeðal yfir í að vera lífshættuleg alræðisstefna og hindrun framfara í þjóðfélögum.  Kíktu á færsluna hér á undan um rannsóknina sem sýnir að því trúaðri sem þjóðfélög eru því meira "dysfunctional" eru þau.  Hefurðu eitthvað hugsað út í þetta Heiðrún?

Hvar stendur þú Heiðrún?  Ert þú þeirrar skoðunar að trú sé skinhelg og megi ekki gagnrýna?  Á maður ekki að skoða trú annarra og gagnrýna hana?  Á maður að láta sér nægja að hrista höfuðið í hljóði svo öðrum líði alltaf vel með allt það sem þeir/þær bera fram fyrir almenning, jafnvel þó að það sé kostað af almannafé? 

Svanur Sigurbjörnsson, 10.9.2008 kl. 02:38

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Hjalti Rúnar - það væri fróðlegt að sjá umfjöllun um Alfa-námskeiðsbókina. 

Svanur Sigurbjörnsson, 10.9.2008 kl. 02:43

9 identicon

Heiðrún við erum að tala núna þegar við getum gagnrýnt dæmið sem ekki mátti gagnrýna í árþúsundir.

Kristnir eru kannski ekki heimskir... það er bara að sjálfselska þeirra og sjálfsumhyggja er að blokka á vitrænu stöðvarnar.
Aldrei hefur það verið mikilvægara en akkúrat núna að gagnrýna kristni og önnur bronsaldar vísindi

DoctorE (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 11:14

10 identicon

Jú sem betur fer er öllum frjálst að gagnrýna kristna trú. En þið bullið bara. Þið kennið kristinni trú og trú almennt um allt sem aflaga fer í heiminum. Bókstafstrú er hættuleg segirðu.  Það hefur aldrei verið minna um bókstafstrú í t.d. Evrópu en akkúrat núna. Og ég veit ekki betur en að vandamálin séu enn til staðar. Húmanisminn og trúleysið er nefnilega ekki heldur að frelsa heiminn.

Heiðrún (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 23:05

11 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Heiðrún: En þið bullið bara.

Hvað í greininni minni er bull?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 10.9.2008 kl. 23:23

12 identicon

Hjalti:  Ég hef ekki lesið bókina sem þú varst að gagnrýna og tel þig ekki hafa verið að bulla í sambandi við hana. Ég átti nú meira við að Svanur og Dr.E væru bullarar á köflum, allavega þegar þeir alhæfa um kristna trú.

En mér sýnist samt að umrædd bók sé nokkurn veginn að boða kristna kenningu eins og hún er boðuð í flestum kirkjudeildum. T.d. varðandi meyfæðinguna (María var að sjálfsögðu ekki lengur mey eftir að hafa fætt Jesú, svo átti hún að hafa eignast syni með sínum manni seinna meir).

Það er rétt hjá þér að þjóðkirkjan hefur ekki viljað kannast við sjálfsagða Biblíulega hluti eins og tungutal og fleira og virðist samt vera að gefa út þessa bók. Kannski hafa þeir ekki lesið hana sjálfir??

Heiðrún (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 00:00

13 identicon

Hjalti:  Ég hef tekið eftir því að þér er mikið í mun að sanna að mennirnir sem eru skráðir fyrir hinum ýmsu bókum í Biblíunni hafi í raun ekki skrifað þær. Einhver annar en Pétur skrifaði víst bréfið sem hann er skráður fyrir og sömu sögu er að segja um Lúkas og einhver bréfa Páls er það ekki og kannski bara flestar bækurnar. Ok. Gott mál. Ef þú kemst að því hvaða snillingur skrifaði þessar bækur og eignaði öðrum heiðurinn, láttu mig þá vita.

Heiðrún (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 00:17

14 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Heiðrún: María var að sjálfsögðu ekki lengur mey eftir að hafa fætt Jesú, svo átti hún að hafa eignast syni með sínum manni seinna meir.

Flestir kristnir menn (amk ef við gerum ráð fyrir að meðlimirnir trúi því sem kirkjurnar þeirra boða) trúa því að María hafi alltaf verið hrein mey. Wikipedia fjallar um þetta.

Heiðrún: Ég hef tekið eftir því að þér er mikið í mun að sanna að mennirnir sem eru skráðir fyrir hinum ýmsu bókum í Biblíunni hafi í raun ekki skrifað þær.

Heiðrún, mér er ekki "mikið í mun" að sanna þetta. Raunin er bara sú að það eru nánast allir fræðimenn sammála því að 2. Pétursbréf er fölsun (í þeim skilningi að Pétur er ekki höfundurinn).  Sama er að segja um hin svokölluðu hirðisbréf Páls og það er deilt um Ef, 2Þess og Kól. Þetta er bara niðurstaða fræðimanna. Hefur ekkert með löngun einhverra ofsatrúleysingja að gera.

Heiðrún: Ef þú kemst að því hvaða snillingur skrifaði þessar bækur og eignaði öðrum heiðurinn,...

Heiðrún, þeir sem skrifuðu guðspjöllin eignuðu engum öðrum heiðurinn, þau eru nafnlaus.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 11.9.2008 kl. 00:37

15 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Heiðrún

Þú kemur með einfaldar staðhæfingar um gagnrýni mína á trú.   Þú segir:

"Þið kennið kristinni trú og trú almennt um allt sem aflaga fer í heiminum.

Vinsamlegast bentu mér á eitthvað sem ég hef skrifað þar sem ég kenni trú almennt um allt sem aflaga fer í heiminum.  Þú talar um að ég alhæfi um trú en svo alhæfir þú um mínar skoðanir án þess að færa fyrir því nokkrar heimildir.  Ég tel trú og þá sérstaklega bókstafstrú vera vandamál í heiminum en ekki færi mig að dreyma um að það væri eini vandi heimsins.   Þú mátt ekki láta það rugla þig að þó að ég skrifi mikið um trúarvandann að þá gefur það ekki á nokkurm máta í skyn að ég telji ekki heiminn hafa önnur vandamál.

Þú segir að húmanisminn og trúleysið séu ekki heldur að frelsa heiminn.  Veistu hvað húmanismi er?  Trúleysi er ekki lífsstefna, það er bara það að vera laus við það að trúa á guð rétt eins og Þór eða Seif.   Það er þó ágætis hluti af lífsstefnu eða lífsskoðunarkerfi og fer oft saman með því að trúa ekki á aðra ólíklega og ósannaða hluti.  Þú virðist ekki vita hvaðan þú fékkst þá velferð sem við búum við í dag.  Ef það væri ekki fyrir endurreisnartímann og svo upplýsinguna sem hvort tveggja færðu hin vestrænu lönd út úr kreddum og ómannúð miðalda og ínní tíma manngildis (húmanisma) og fjarlægðar frá bóksstafstrú, hjátrú, stéttskiptingu og alræðishyggju.  Þjóðkirkjan vill láta okkur halda að framfarirnar séu lútherskri kristni að þakka en eina þökkin sem sú trú á skilið er að hafa gefið eftir og leyft framfaraöðlunum á endanum að sigra.  Þjóðkirkjan er enn á þessu undanhaldi frá bókstafnum sínum sem sést á því hvernig hún af neyð frekar en vilja sættist á að gefa samkynhneigðum eins konar hjónastöðu sem er skör lægri að virðingu enda kölluð "staðfest samvist".  Eftir 10-15 ár þegar kirkjan hefur orðið að gefa alveg eftir hvað þetta varðar og leyfa meiri völd kvenklerka mun hún þakka sér mannréttindi samkynhneigðra og kvenna.  Þekkirðu sögu kosningarréttar kvenna Heiðrún?  Baráttan fyrir kosningarétt (sufrige) kvenna fékk hve hörðustu andstöðu úr röðum kirkjudeilda beggja vegna Atlantshafsins.   Er það nú allt gleymt, þ.e. hefur fólk ekki dregið af því þann lærdóm að bókstafur Biblíunnar er ekki leiðarvísir að siðferðilegum framförum og bættum mannréttindum?

Hvað heldur þú annars að muni hjálpa heiminum mest Heiðrún? 

Svanur Sigurbjörnsson, 11.9.2008 kl. 00:48

16 identicon

Sveinn:  Ég er ekkert að útiloka að manngildisstefnan hafi haft mikil og góð áhrif á heiminn okkar og er ég sjálf mjög undir áhrifum hennar þó að kristin sé. En ég tel ekki að hægt sé að útiloka góð áhrif kristninnar þó að sumar stofnanir kirkjunnar hafi á köflum verið hálf djöfullegar í gegnum aldirnar.

Það sem ég held að muni hjálpa heiminum mest er sannur kærleikur manna á milli. Það er þegar fólk eins og ég og þú getum virt hvort annað og rökrætt málin af virðingu sem ég tel reyndar að við séum að gera. Það þýðir ekki að við þurfum að vera sammála.

Heiðrún (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 01:14

17 identicon

Hjalti:  Kaþólska kirkjan hefur haft aðeins aðra sýn þegar kemur að Maríu og er hún álitin mjög heilög og ábyggilega mey enn þann dag í dag ef því er að skipta. En guðspjöllin tala um að Jesú hafi verið getinn af Heilögum anda og að móðir hans hafi verið ung kona og hrein mey að auki. Seinna meir átti hún börn á náttúrulegan hátt og getur því varla talist mey samkvæmt þeirri skilgreiningu sem við notum.

Í sambandi við bækur Biblíunnar var ég að reyna að koma því á framfæri að nöfnin sem um ræðir urðu fræg í kjölfar bókanna en ekki bækurnar út af nöfnunum. Er orðin nokkuð þreytt og á kannski erfitt með að koma þessu almennilega frá mér. Það eru bækurnar sem eru svo mikil snilld. Menn bera því virðingu fyrir þessum Páli sem skrifaði bókina. Þannig að þó að einhver annar en Páll hafi í raun skrifað hana stendur hún fyrir sínu.  Fræðimenn eru sko langt frá því að vera sammála um þessa hluti.

Heiðrún (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 01:41

18 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Heiðrún

Þú segir:

Það sem ég held að muni hjálpa heiminum mest er sannur kærleikur manna á milli. Það er þegar fólk eins og ég og þú getum virt hvort annað og rökrætt málin af virðingu sem ég tel reyndar að við séum að gera. Það þýðir ekki að við þurfum að vera sammála.

Þarna erum við algerlega sammála þó svo við höfum líklega dálítið mismunandi skoðanir á því hvernig kærleiknum sé best skilað.   Takk.

Svanur Sigurbjörnsson, 11.9.2008 kl. 02:23

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Til hvers ætlastu af Þjóðkirkjunni? Að hún kenni það, sem er gegn Nýja testamentinu? Það er alveg á tæru þar í fleiri en einu og fleiri en tveimur ritum, að María var hrein mey og að þau Jósef höfðu aldrei átt kynmök, þegar Jesús varð til í móðurlífi hennar; það er mjög skýrt tekið fram. Að Guði sé þetta fært, er þér eitthvert háðsefni, en sá, sem skapað hefur heiminn og sjálfan þig, getur annað eins.

Kristnir lesendur, við tökum lítið mark á Svani með sína fordóma, nema hvað þeir birta okkur næsta vel, að honum er við núverandi aðstæður ómögulegt að trúa. Þær aðstæður hans geta þó breytzt.

Og þótt Þjóðkirkjuþingin ýmis séu skammarlega treg til að trúa Nýja testamentinu á síðustu árum, standa rétttrúaðir kristnir menn í öllum megin-kirkjusamfélögum sameinaðir um þessi atriði hennar og trúarjátninganna. Engin blygðunarefni þar fyrir þá, sem trúa á hinn krossfesta og upprisna.

Jón Valur Jensson, 11.9.2008 kl. 06:34

20 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Jón Valur

Ég er ekki í Þjóðkirkjunni þannig að ég get ekki beint ætlast neins til af henni.  Helst vildi ég að hún og önnur trúarbrögð legðust af smám saman, en raunsærri von í augnablikinu er að hún leggi áherslu á kærleiksboðskap, umburðarlyndi og mannúð en láti fáránlegar kreddutrúr Biblíunnar í saltið.  Það væri t.d. talsverð afturför ef að hún færðist í átt að kaþólskunni þinni Jón Valur, þó ýmis önnur afbrigði kristninnar séu til verri.  Lengi getur vont versnað eins og þar stendur.

Svanur Sigurbjörnsson, 11.9.2008 kl. 09:16

21 Smámynd: Sigurður Rósant

Ef þessi lýsing er rétt á innihaldi þessa nýja ýtarefnis í kristnum fræðum grunnskólabarna, þá má búast við að börn taki fyrr en ella afstöðu gegn kristinni trú.

Svona kver virkar sem bólusetning gegn innrætingu sem kæmi síðar.

Hins vegar vil ég stinga upp á að kristinfræðikennsla verði alveg lögð niður í grunnskólum til að byrja með. Síðar má fella út pistla, kafla og sögur sem hafa í för með sér trúarinnrætingu.

Annars er kaþólskur siður allur að mildast og styttist í það að sá siður samþykkir nútíma getnaðarvarnir og alls kyns sorteringar í móðurkviði.

Sigurður Rósant, 11.9.2008 kl. 16:12

22 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svanur, á þá rétta, álíka 'partisan' svarið til þín að vera: Ég vona, að Siðmennt og Vantrú leggist smám saman af og að meðlimirnir þar verði betur upplýstir og losni við alla sína fordóma á trú og kirkju?

Það mætti halda það eftir þínu gefna fordæmi. 

Jón Valur Jensson, 11.9.2008 kl. 22:28

23 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ja, hvað finnst þér í raun Jón Valur?  Viltu ekki að við í Siðmennt tökum trú líkt og þú? Þarftu eitthvað að fela þá ósk?  Félög deyja út ef hugmyndafræði þeirra deyr út þannig að það þarf ekki að vera nein slæm meining á bak við slíkt.  Þó að ég vilji að trúfélög leggist af er ég ekki að vilja félagsmönnum þeirra "að leggjast af".  Það hugmyndafræðin um æðri mátt sem ég vil að fólk leggi af og hegði sér samkvæmt því. 

Vinsamlegast skilgreindu "partisan" fyrir mér.  Ertu farinn að fylgjast svona stíft með stjórnmálunum í USA? Ef þú átt við hugsun eftir flokkadráttum þá er ekki alveg sömu að jafna, stjórnmálaflokkum og lífsskoðunarfélögum.  Ég óska ekki eftir því að trúfélög leggist af til þess að Siðmennt fái eitthvað út úr því, heldur til þess að allt þjóðfélagið verði heilbrigðara.  Félög munu koma og fara en mestu skiptir að góðar hugmyndir og lífsstefnur lifi af.  Það er markmiðið og býst ég við það það sé ekki ósvipað hjá þér - þú aðhyllist bara aðrar leiðir en ég.  Hvað segirðu um þetta Jón Valur?

Svanur Sigurbjörnsson, 12.9.2008 kl. 01:36

24 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Heiðrún: En guðspjöllin tala um að Jesú hafi verið getinn af Heilögum anda og að móðir hans hafi verið ung kona og hrein mey að auki. Seinna meir átti hún börn á náttúrulegan hátt og getur því varla talist mey samkvæmt þeirri skilgreiningu sem við notum.

Getur guð ekki látið hana verða hreina mey áfram?

Heiðrún: Í sambandi við bækur Biblíunnar var ég að reyna að koma því á framfæri að nöfnin sem um ræðir urðu fræg í kjölfar bókanna en ekki bækurnar út af nöfnunum.

Og af hverju segirðu það? Það hefði nú verið erfitt fyrir höfunda guðspjallanna að verða fræga út af þeim þar sem nöfnin þeirra eru hvergi í þeim.

Heiðrún: Fræðimenn eru sko langt frá því að vera sammála um þessa hluti.

Þegar kemur að t.d. 2. Pétursbréfi, þá eru fræðimenn almennt sammála um þessa hluti.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 12.9.2008 kl. 02:50

25 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér fannst nú heiðarlegt af manninum að benda á að það væri jafn vitlaust að trúa á guð eins og að trúa að ung kona hafi alið sjálfsprottið barn og haldið meydómi sínum, sem hver heilvita maður veit að er algerlega ómögulegt.

Sætt að sjá kostina setta svona opinberandi á blað af presti.  Sýnir að það er ekki nokkur leið að snúa sig út úr fabúlunni.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.9.2008 kl. 04:50

26 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Varðandi óljósar blammeringar vindmilluriddarans Jóns Vals, þá er það í sjálfu sér markmið vantrúarsamtaka að leggjast af, þegar áreitinu, sem vöktu þau er eytt.  Það er ekki sama um trúarstofnanir að segja.

Kirkjan er aksjón, vantrúarsamtök reaksjón. Þegar engu er við að bregðast, þá hverfur tigangurinn. Það verður vonandi sem fyrst.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.9.2008 kl. 04:55

27 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sælir Sigurður og Jón Steinar

Já það má segja það að framsetning hins norska prests geri það að verkum að barn sem hefur lært að trúa ekki hlutum nema að fyrir þeim séu einhver rök eða a.m.k. bíða með að trúa þeim ef þeir passa ekki við það sem það hefur talið í samræmi við raunveruleikann, muni verða afhuga því að trúa á guð, sbr. bólusetningslíkinguna þína Sigurður.

Hins vegar fyrir barn sem hefur lært að trúa öllu sem kemur frá fullorðnum, sérstaklega ef það er skrifað í bók frá þekktri stofnun, þá er aldrei að vita nema að slíkt barn verði bókstafstrúa.  Þannig býr Þjóðkirkjan í haginn fyrir bókstafstrú fyrir ákveðinn hluta barna.

Ég vil taka fram til að fyrirbyggja misskilning, að Siðmennt eru ekki vantrúarsamtök nema að hluta til, þ.e. trúleysi er bara einn hluti af mörgum stefnum félagsins.  Það er gott að vera laus við trú á ímyndaðar verur en það er langt í frá að það eitt sé grundvöllur fyrir heilsteyptri lífsskoðun.  Siðmennt tekur fyrir siðferði varðandi allt mögulegt í mannlegum samskiptum á ákveðinn máta og er sú stefna kennd við húmanisma.  Þannig verður áfram tilgangur fyrir húmanisma og Siðmennt þó að trú og trúfélög leggðust af. 

Lífsskoðunarfélög geta haft sannfæringu byggða á trú (trúfélög) eða veraldlegu raunsæi (t.d. Siðmennt).  Trúfélög hafa ákveðinn siðferðisboðskap sem af einhverju leyti má skoða óháð guðstrúnni þannig að ef þau breyttust þannig að trúin yrði yfirgefin en siðferðisboðskapurinn ekki, þá yrðu þau áfram lífsskoðunarfélög með veraldlegan siðaboðskap.  Það væri bara ekki hægt að kalla þau trúfélög lengur.

Svanur Sigurbjörnsson, 12.9.2008 kl. 12:41

28 identicon

Hjalti:  Getur guð ekki látið hana verða hreina mey áfram?

Það er auðvitað augljóst að Guð hlýtur að geta gert það sem hann vill þar sem hann er Guð.  En þá hefur hann orðið að gera kraftaverk á konunni í hvert skipti sem hún átti barn.  Af hverju hefði hann svo sem átt að gera það?  Það er ekki eins og mæður séu óhreinar eða óheilagar.  Það var nú einu sinni Guð sem skapaði kynlíf.  Það er aldrei minnst á það seinna meir í guðspjöllunum að María hafi verið mey.  Yfirleitt er talað um Maríu móður Jesú eða Maríu.  Það skiptir samt máli að hún hafi verið mey í upphafi til að hægt sé að tala um að barnið sé getið af Heilögum anda.  Annars hefur Jósef verið pabbinn og barnið Jesú ekki verið sonur Guðs.

Og af hverju segirðu það? Það hefði nú verið erfitt fyrir höfunda guðspjallanna að verða fræga út af þeim þar sem nöfnin þeirra eru hvergi í þeim.

 Nöfnin Páll, Pétur og Jóhannes urðu fræg í kjölfar mikillar útbreiðslu Biblíunnar um heiminn.

Ef Páll, Pétur og félagar skrifuðu ekki umrædd bréf þá gerði það einhver annar. Og það breytir ekki innihaldi bréfanna eða boðskap. Sá boðskapur hefði samt farið eins og eldur í sinu um heiminn.

Af hverju hefði einhver átt að vilja breyta nöfnunum og hverju breytir það í dag?

Ef Halldór Laxness hefði ekki skrifað bækurnar sínar sjálfur og það kæmi í ljós að konan hans hefði skrifað þær, væru bækurnar þá allt í einu orðnar ómerkilegar?

Ertu kannski að gefa í skyn að Biblían á náttborðinu mínu sé bara ímyndun?

Heiðrún (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 13:57

29 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Heiðrún, þú verður að spyrja kaþólikka út í það hvers vegna þeir vilja endilega láta Maríu vera hreina mey áfram (þeir trúa því reyndar ekki að hún hafi eignast fleiri börn).

Heiðrún: Nöfnin Páll, Pétur og Jóhannes urðu fræg í kjölfar mikillar útbreiðslu Biblíunnar um heiminn.

Já, þau urðu fræg um "heiminn", en ég skildi þig þannig að nöfnin hafi verið óþekkt þegar þau voru tengd ritunum, t.d. hafi "Pétur" verið óþekktur þegar 2Pét var skrifað.

Heiðrún: Ef Páll, Pétur og félagar skrifuðu ekki umrædd bréf þá gerði það einhver annar. Og það breytir ekki innihaldi bréfanna eða boðskap. Sá boðskapur hefði samt farið eins og eldur í sinu um heiminn.

Af hverju hefði einhver átt að vilja breyta nöfnunum og hverju breytir það í dag?

Það breytir reyndar boðskapnum t.d. þegar höfundur 2Pét segist hafa sjónarvottur og að hann hafi ekki skáldað neitt, þá veit maður að hann er klárlega lygari.

Fólk hefði sett nöfn frægra manna til þess að auka hróður ritanna, t.d. ef ég myndi skrifa skáldsögu og myndi setja nafnið "Halldór Laxness" við hana til þess að fólk myndi frekar lesa hana.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 12.9.2008 kl. 15:27

30 identicon

Hjalti.  Sumir þessara manna voru þekktir í samtíma sínum.  En ég efast um að við hefðum heyrt um þá ef ekki hefði verið fyrir Biblíuna og útbreiðslu kristinnar trúar.  Páll var t.d. þekktur fyrir að vera strangtrúaður gyðingur sem ofsótti kristna þannig að ólíklegt er að einhver hefði sett hans nafn undir kristna kenningu.

Halldór Laxness var kannski ekki besta dæmið hjá mér þar sem hann er svo frægur hér.  En segjum að þú skrifaðir frábæra bók og kenndir hana svo við Halldór Laxness til að ná bókinni út.  Svo yrði bókin svo heimsfræg og yrði talin með þeim bókum sem hafa haft hvað mest áhrif á heiminn og 2000 árum seinna væri fólk ennþá að blogga um hana. Þá væri það leiðinlegt fyrir þig að hafa ekki sett rétta nafnið undir. En bókin stæði fyrir sínu.  Einhver upplifði frumkristnina og skráði hana niður. 

Heiðrún (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 18:10

31 identicon

Hjalt.  Ég skil samt hvað þú ert að segja í sambandi við meintar lygar.  Höfundur rita Páls lagði mikla áherslu á að hann væri Páll.

Heiðrún (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 18:34

32 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Heiðrún:Páll var t.d. þekktur fyrir að vera strangtrúaður gyðingur sem ofsótti kristna þannig að ólíklegt er að einhver hefði sett hans nafn undir kristna kenningu.

Þegar hirðisbréfin voru skrifuð, þá var Páll ekki þekktur fyrir að vera "strangtrúaður gyðingur".

Hjalti Rúnar Ómarsson, 13.9.2008 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband