Írak og friðarríkið Ísland
19.12.2006 | 18:51
Það er með ólíkindum hversu lengi við Íslendingar ætlum að velta okkur uppúr ólýðræðislegri ákvörðun Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar að styðja Bandaríkjamenn og Bréta til stríðs í Írak. Það er ljóst að margar þjóðir voru blekktar til að taka þátt í lista "hinna viljugu þjóða" út frá röngum upplýsingum frá leyniþjónustu Bandaríkjanna um að brjálæðingurinn Saddam Hussein hefði kjarnorkuvopn í fórum sínum. Er fólk búið að gleyma því hversu mikill fantur hann var? Það kom í ljós að Saddam talaði fjálglega um hugsanlega vopnaeign til þess eins að ögra vesturlöndum og sýnast kaldur karl í arabaheiminum. Hann hélt að CIA hefði njósnara á meðal hans og myndi því aldrei trúa orðum hans. Annað kom á daginn. Leyniþjónusta USA (CIA) hafði ekki neinar almennilegar njósnir og studdi grun sinn um hugsanleg gjöreyðingarvopn Saddams því mest megnis á getgátum. Saddam kom ekki til hugar að Bandaríkjamenn gerðu alvöru úr viðvörunum sínum og það reyndist hans banabiti.
Margir hérlendis segja að innrásin í Írak hafi verið hvílík heimska því vitað væri að svona myndi fara. Ég tel að þessi gagnrýni sé ekki alls kostar sanngjörn. Það var langt í frá að það væri álit allra málsmetandi manna að útkoman yrði blóðugt stríð milli trúarhópa og ný uppeldisstöð fyrir hryðjuverkamenn. Margir héldu að fátt gæti verið verra en Saddam Hussein og fólk var þreytt á því að heyra fregnir af sífelldum morðum mannsins og ólifnaði og grimmd sona hans tveggja. Var það ekki þess virði að reyna að steypa morðóðum einræðisherra af stóli og bjóða Írak lýðræðislega stjórnarhætti? Ég bjó í New York í aðdraganda innrásanna í Afganistan og Írak og gat ekki séð að þar ríkti vissa meðal færustu fréttaskýrenda eða annarra fræðinga um að innrás í Írak væri fyrirfram glötuð. Mér fannst reyndar alltaf furðulegt að það væru ekki neinar áberandi raddir á meðal Íraka sjálfra um að fá Saddam steypt af stóli. Ég kynntist Íröskum lækni þar sem átti móður og systur í Írak og hann studdi innrásina. Gat ég vitað betur en hann? Vissu aðrir betur en hann? Mér fannst þetta alls ekki ljóst og mig grunar að svo hafi verið um marga íslenska ráðamenn.
Margir málsmetandi menn í dag, þ.á.m. Kofi Annan fráfarandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna telja ástandið verra í dag en í tíð Saddams Hussein og má vissulega færa fyrir því sterk rök. Mér sýnist að almenningur og trúarleiðtogar í Írak hafi ekki raunverulegan skilning á því hvað lýðræði er. Þekkingargrunnurinn og reynslan eru hreinlega ekki fyrir hendi og því hangir þetta allt á bláþræði og lýðræðinu er haldið uppi með valdi yfir fólki sem vill lifa eftir lögum Islam. "Ó, hvað við vorum vitlaus!", er auðvelt að segja núna. Hvað mun það sama fólk segja eftir 20 ár ef raunverulegt lýðræði kemst á í Írak? Trúlega þarf það ekki að hafa áhyggjur því líkurnar virðast ekki miklar. Það verður ekki raunverulegt lýðræði þar nema með hægfara hugarfarsbreytingu og frekari lendingu Islam á jörðina. Það þarf "operation Itsjeehad", þ.e. herferð um gagnrýna hugsun innan Islam til að þessi heimshluti breytist.
Nokkrar hetjur boða þennan nýja hugsunarhátt og siðabót innan Islam. Fremst í flokki má telja Afrísk-kanadíska múslimann og lesbíuna Irshad Manji sem kynnti þessa hugmynd í bók sinni "The problem with Islam today" en sú bók hefur vakið mikla athygli fyrir raunsæi og hreinskilna gagnrýni á hugsunarhátt og hegðun þeirra múslima í heiminum í dag sem fylgja þeirri stefnu sem hún kallar "foundamentalism" og hefur tröllriðið íslömskum meningarheim undanfarna áratugi. Í grein í New York Times var hún kölluð "versta martröð Osama Bin Laden" og verð ég að taka undir það því eftir lestur bókar hennar er enginn spurning að hér er á ferðinni sterk kona með hugann á réttum stað.
Nýlegan og merkilegan baráttumann má nefna hin danska Naser Khader sem ritað hefur "tíu boðorð lýðræðisins" (á ensku) fyrir múslima. Margir spá honum frama í stjórnmálum í Danmörku. Nýlega stóð hann fyrir ráðstefnu um skopmyndamálið þar sem Irshad Manji og fleiri framfarasinnar múslima tóku þátt. Ég bíð spenntur að vita hvernig þessum nýju hugarfarslegu leiðtogum múslima mun vegna í framtíðinni. Árangur þeirra mun skipta sköpum um horfur friðar í heiminum næstu áratugina.
Við Íslendingar þurfum að halda áfram og rannsaka vandamál dagsins í dag í stað þess að sýta endalaust ákvarðanir farinna stjórnmálamanna. Eyðum orkunni í að taka betri ákvarðanir í dag og til framtíðar. Það er sjálfsagt að við segjum aldrei neinni þjóð stríð á hendur að fyrra bragði en ef við tökum þátt í varnarbandalögum kemur að því að við þurfum að taka ákvörðun með eða á móti vinþjóðum okkar sem eiga í stríði. Þar getur ekki alltaf dugað að vera hlutlaus. Hvað segðum við t.d. ef Rússar réðust inn í Noreg að ósekju? Myndum við ekki styðja Noreg og NATO?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heimsspeki og siðfræði, Lífsskoðanir, Mannréttindi, Trúmál og siðferði | Breytt 20.12.2006 kl. 09:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.