Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
Varnarleysi
22.6.2007 | 15:13
Ein megin ógæfa mannkyns (og þess sem verður fyrir barðinu á því) er varnarleysi mikils þorra fólks gagnvart snjöllum málabrellumönnum. Þessir snillingar eru meistarar í hártogunum, útúrsnúningum, málaflækjum, rökflækjum, rökbrellum og snjöllum en blekkjandi röksemdafærslum. Yfir þetta háttarlag er til hugtak sem heitir á lélegri íslensku sófismi (sbr. sophism).
Þeir sem rituðu Biblíuna og Kóraninn voru að mörgu leyti meistarar í sófisma. Með uppbyggingu hugsanakerfis sem fékk fólk til að trúa á guðdómlega veru, ellegar kveljast í helvíti, komast ekki til himnaríkis eða uppskera fordæmingu samfélagsins, gátu þessir meistarar stýrt fólki eins og vel tömdum hundum - og jafnvel betur. Þrátt fyrir það frelsi sem húmanísk hugsun manna eins og Thomas Jefferson færði okkur stendur heiminum enn mikil hætta af bókstafstrú sem nærist m.a. í jarðvegi hófsemdartrúar og misskilnings á hugtakinu umburðarlyndi.
Í athugsemdum við síðasta bloggi mínu benti Jón Frímann á hlekk til vefsíðu þar sem Steven nokkur Schaferman skrifar um rökbrellur og málaflækjur sköpunarsinna sem reyna að finna þróunarkenningunni allt til foráttu. Ég fór að kynna mér manninn nánar og ljós kemur að hann er steingervingafræðingur (paleontologist) að mennt og starfi. Hann er einnig húmanisti og opinber mótmælandi gervivísinda. Heimasíða Stevens, freeinquiry.com er full af fróðleik og gagnlegum greinum. Rétt er að taka fram að síðan er ekki rekin af Council for Secular Humanism sem gefur út tímaritið Free Inquiry. Steven mælir þó (eðlilega) með heimsókn þangað á sinni síðu.
Í framhaldi af tali mínu um sófista (sem margir hverjir eru trúlega ekki sófistar vegna heimsku eða illgirni, heldur vegna óhepplegrar upptöku gallaðra hugmynda sem geta af sér aðrar stórgallaðar) vil ég vekja athygli á fyrirlestri Richard Dawkins uppúr nýjum formála kiljuútgáfu bókar hans "The God Delusion" og fyrirlestri Christopher Hitchens um skaðsemi trúarbragða og þá sérstaklega herskárrar Íslam. Christopher Hitchens gaf nýlega út bók sem heitir "God is not great".
Í fyrirlestri Dawkins vil ég vekja sérstaka athygli á því sem hann segir um þá málaflækju þegar fólk sakar áhugasaman húmanista / trúleysingja um bókstafstrú vegna hins mikla áhuga sem viðkomandi sýnir á málefninu. Sama hefur t.d. verið sagt um áhuga fólks á fótbolta, þ.e. að það séu líkt og trúarbrögð. Þetta var náttúrulega meint í upphafi sem grín en margir nota þessa hugsun sem röksemdafærslu. Sorglegt.
Skynsemin sigri!
Afturför
8.6.2007 | 23:18
Þegar ég var unglingur 1978-84 lærði ég um þróunarkenninguna, fyrst í gagnfræðiskóla og síðar meira í menntaskólanum. Á þeim tíma var óhugsandi í mínum huga að einhver tryði rykfallinni biblíusögu um gráhærðan mann á himnum sem átti að hafa búið til jörðina og himininn og allt líf á 6 dögum.. og hvílt sig þann sjöunda. Hvílík fantasía! Ég man eftir því að hafa séð gamla svart-hvíta bíómynd (Inherit the Wind, 1960) þar sem deilt var um þetta fyrir rétti og niðurstaðan var óumræðanlega sú að sköpunarsinninn reyndist vera kreddufullur og heimskur bókstafstrúarmaður. Ég prísaði mig sælan fyrir að búa ekki í slíkum heimi og hugsaði hlýtt til þeirra góðu kennara sem ég fékk að njóta gegnum skólagönguna.
Bandaríkjamenn eiga tækniframförum og lýðræðisskipan að þakka fyrir þau lífsgæði sem þeir njóta, allt komið af sama hugsunarhætti og Charles Darwin beitti þegar hann vó og mat skoðun sína á nátttúrunni á fleyingu MS Beagle fyrir um 150 árum síðan. Trú á sköpunarkenninguna (sem er í raun bara saga, ekki kenning) og kennsla hennar sem sannleik í barnaskólum Bandaríkjamanna er móðgun við þessa hugsun og hugsjónina um að leita staðreynda og þekkingar úr náttúrunni óháð trúarsetningum. Bókstafstrúin í Bandaríkjunum er verulega hættuleg því sú þjóð hefur gífurleg áhrif á alþjóðavettvangi og á yfir að ráða stærsta og öflugasta her í heimi. Ég vil ekki hugsa til þess hvað gæti gerst ef einfeldingar mið- og suðurríkjanna næðu algerum völdum þar í landi. Sem betur fer er sterkur menntahópur í strandríkjunum og norðaustur horninu sem mun ekki láta þennan bjánaskap viðgangast endalaust. Svo eru bestu grínistar Bandaríkjanna sem betur fer mjög skynsamir og gera óspart grín af vitleysunni. Ég mæli t.d. með atriði George Carlin þegar hann fækkar boðorðunum 10 í tvö.
Þróunarkenningin og sköpunarkenningin báðar réttar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt 9.6.2007 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Þrýstum á stóru iðnríkin
7.6.2007 | 12:58
Með hverjum deginum sem líður verður ljósara að hlýnun jarðar er óeðlilega mikil og hraði hennar eykst. Djúpir fossar eru komnir í jökulstál Grænlandsjökuls og hætt er við að eftir 150-200 ár verði hann allur líkt og Vatnajökull. Í mynd Al Gore, "An inconvenient truth" eru leiddar líkur að því að með bráðnun Grænlandsjökuls og álíka stórs svæðis á Suðurskautslandinu muni yfirborð sjávar hækka um 6 metra. Ég endurtek 6 METRA!!! Með þessu áframhaldi getum við hætt að hafa áhyggjur af Kvosinni, Reykjavíkurflugvelli og gamla miðbænum kringum Lækjargötu því hann yrði hreinlega undir sjó.
Það er ekki mikið sem við Íslendingar setjum í andrúmsloftið af koltvísýrlingi (CO2) og því er mjög mikilvægt að þrýsta á lönd eins og Bandaríkjamenn, Rússland og Kína til að minnka þeirra losun. Ingibjörg Sólrún, ef þú lest þetta, vinsamlegast sendu þessum þjóðum kveðju.
Íslenskir jöklar horfnir eftir 200 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Áhyggjur af trúarinnrætingu í barnaskólum
6.6.2007 | 13:42
Það er dapurt að í dag þurfa þeir sem ekki trúa á stokka og steina, álfa og dverga, kukl og guði að hafa áhyggjur af því að börnin þeirra sem hafið hafa nám í grunnskóla gætu átt í vændum einhverja trúarinnrætingu af hálfu kennara eða starfandi presti í skólanum.
Í góðri grein á vantrú.is lýsir Ásta Norrman reynslu sinni og dóttur af íslenska skólakerfinu. Athugasemdir lesenda eru ekki síður athyglisverðar og lýsa þar fleiri sinni reynslu eða færa fram rök í málinu.
Trúleysi, hindurvitnaleysi, hjátrúarleysi og kuklleysi á að vera normið. Það er hinn eini sanni samnefnari því það er eins alls staðar. Siðferði á að byggja á rökrænni hugsun, ekki bókstaf. Við búum í þessari dásamlegu veröld og veraldleg hugsun er kjarninn í afkomu okkar og lífsgæðum. Ímyndunaraflið má nota m.a. til skemmtunar og til þess að skapa huglægar myndir af því sem vísindin segja okkur að sé langt út fyrir okkar skynjun (bylgjur, atóm, segulsvið, útfjólublátt o.s.frv.), en ekki til að búa til "staðreyndir" til að trúa. Ég tel að trúarbrögðin séu aukaafurð ímyndunarafls okkar og hafi þjónað tilgangi barnalegrar huggunar í litlum heimi. Við höfum stækkað, "fjölguðatrú"varð að "einguðstrú" og vonandi innan tíðar "núllguðstrú".
Eins og sauðir í rétt
1.6.2007 | 15:56
Þingmenn ganga til kirkju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Loksins reykfrí - til hamingju Ísland!
1.6.2007 | 10:00
Til hamingju Íslendingar! Mér er mikil gleði í huga yfir þessum degi vegna gildistöku framkvæmdar laga um reykingabann á veitinga- og skemmtistöðum. Bann af þessu tagi hefur nú verið í gildi í nokkur ár á stöðum eins og New York bork, Noregi og Írlandi og hefur heppnast sérlega vel. Michael Bloomberg borgarstjóri New York borgar kom banninu á í sinni borg árið 2003 (ef mig minnir rétt) og bjóst maður við því að rekstur veitingahúsa biði afhroð. Annað kom á daginn og eftir 2-3 vikur var sami fjöldi fólks kominn á staðina á ný. Fyrir mig reyklausan manninn er þetta bann kærkomið og mikil hvatning til að fara oftar út að skemmta mér. Það er talsvert fælandi að skreppa á bar og verða að setja öll föt í þvott eða hreinsun vegna reykingalyktar, auk þess sem reykmökkurinn er ákaflega pirrandi í öndunarfærum og augum.
Eftir sambærilegt reykingabann í Írlandi fækkaði reykingarfólki um 14% í heildina. Það er mikill árangur og kom mér að sjálfu sér ekkert á óvart. Margir byrja að reykja á skemmtistöðum og margir falla á reykbindindi eftir að hafa fengið sér í glas og hafa reykinn fyrir vitunum. Ég hef trú á því að hér sé því um mikið framfaraskref að ræða hvað heilsufar þjóðarinnar varðar. Hér á ekki við að réttur til einstaklingsfrelsis reykingafólks vegi meira en hinna því reykurinn pirrar, óhreinkar og skaðar aðra, sérstaklega starfsfólk staðanna sem fá þannig talsverðar óbeinar reykingar. E.t.v. vantar eitthvað uppá að rannsóknir á óbeinum reykingum hafi sýnt fram á óyggjandi skaðsemi, en sá efi á að vera hinum reyklausu í hag.
Enn og aftur - til hamingju með heilbrigðara Ísland!
Engin útköll vegna breytinga á lögum um tóbaksvarnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)