Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
Stórmerk baráttukona heimsækir Ísland
30.8.2007 | 01:32
Í byrjun september mun baráttukonan og húmanistinn Maryam Namazie heimsækja Ísland í boði Alþjóðamálastofnunar Hí, Siðmenntar og Skeptikus. Hún mun halda hér tvo opinbera fyrirlestra dagana 5. og 6. september.
Sá fyrri verður þann 5. september í boði Kvenréttindafélags Íslands sem stendur fyrir s.k. súpufundi kl. 12:00 í samkomusal Hallveigastaða. Á fundinum mun Maryam Namazie flytja erindi er nefnist: "Women´s Rights, the Veil and Islamic Rule", sem á íslensku merkir "Réttindi kvenna, blæjan og íslamskt yfirvald".
Sá síðari verður þann 6. september kl. 12:15-13:15 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, flytur hún fyrirlesturinn "Afneitun trúarinnar, fyrrum múslímar og áskoranir pólitísks islams"
Maryam Namazie flytur erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar, Siðmenntar og Skeptíkusar. Maryam Namazie fjallar um afneitun trúarinnar, fyrrum múslima og þær áskoranir sem pólitískt islam stendur frammi fyrir. Hér fjallar hún um uppgang pólitísks íslams í Evrópu og leiðir til að sporna gegn því.
Maryam Namazie er baráttukona, álitsgjafi og útvarpskona um málefni Írans, Austurlanda nær, kvenréttinda, menningarlegrar afstæðishyggju, veraldarhyggju, húmanisma, trúarbragða, Íslams og hins pólitíska Íslams.
Hún er talsmaður Ráðs fyrrum múslima í Brétlandi. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir sleitulaus störf sín í þágu mannréttinda.
Maryam Namazie fæddist í Íran en fluttist síðar með fjölskyldu sinni til Bretlands. Hún hlaut síðar menntun sína í Bandaríkjunum þar sem hún bjó um nokkurt skeið. Hún er nú búsett á Bretlandi og hefur látið mjög að sér kveða í gegnum tíðina hvað varðar mannréttindi kvenna, Íslam, flóttamenn, Íran og. fl.
Frekari upplýsingar um Namazie er að finna á heimasíðu hennar og bloggsíðu
Í tilefni komu þessarar aðdáunarverðu konu hef ég þýtt grein hennar
Blæjan og ofbeldi gagnvart konum í íslömskum þjóðfélögummeð leyfi útgefanda úr International Humanist News, ág. 2007 og birt í fullri lengd á vef Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi.
Hér fer kröftug ræða hennar á blaðamannafundi þegar Ráði fyrrum múslima í Brétlandi var ýtt úr vör
Heimsspeki og siðfræði | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fallnar hetjur
28.8.2007 | 12:00
Um miðbik 20. aldarinnar náði virðing almennings fyrir nútíma læknisfræði og vísindum hámarki. Stórfelldar framfarir urðu á sviðum skurðlækninga og smitsjúkdómalækninga og ungbarnadauði minnkaði á dramatískan máta. Læknar voru litnir á sem eins konar guðir því fólkið var þeim og vísindunum svo þakklátt og taldi þá vita best. Fólk sá að vísindin og rökhyggjan virkaði og bætti lífsgæði þeirra á mjög áhrifaríkan máta.
Nú 40-50 árum síðar er þetta óðar að gleymast. Fólk er vant því að fá hátækniþjónustu og að börnin þeirra vaxi úr grasi án teljandi áfalla. Fólk er farið að gleyma því af hverju það hefur það svo þægilegt í dag, af hverju það þarf ekki að hreinsa kamarinn sinn sjálft, af hverju það deyr ekki lengur úr lungnabólgu á besta aldri eða örkumlast hægt og rólega úr holdsveiki. Læknarnir og vísindamennirnir eru ekki lengur hetjur, heldur ófullkomnir heilbrigðisstarfsmenn sem verða á sífelld mistök og eru hluti af stóru bákni sem skilar "tapi" á ári hverju. Langur biðtími, hneyksli, lokanir, dýr lyf, hnýsni í persónuupplýsingar, mótsagnakenndar niðurstöður rannsókna og annað neikvætt er sífellt borið á borð almennings gegnum fjölmiðla landsins á meðan kuklarar fá ókeipis auglýsingu á remidíum sínum gegnum kynningar í blöðum og sjónvarpi. Kerfi kolbrenglaðra hugmynda um starfsemi líkamans og hvernig hægt sé að lækna fólk fær að flæða óhindrað og ógagnrýnt um upplýsingarásir þjóðfélagsins með þeim árangri að almenningur eyðir nú hundruðum milljóna árlega í argasta kukl sér til tímabundins hugarléttis. Krafan um viðurkenningu kuklins verður æ háværari og þær raddir hafa heyrst að ríkið eigi að reka kuklstofnanir líkt og Þjóðverjar eða Englendingar hafa leiðst út í, í einhverjum mæli. Ég sé fyrir mér að brátt verði ekki milljónum heldur milljörðum eytt í þessi endurgerðu "nýju föt keisarans" hér á landi. Þessi þróun er verulega varasöm og veldur ekki bara töf á greiningu sjúkdóma og einstaka sorgleikjum heldur einnig skemmdum á menntun þjóðarinnar.
Nýlega greindi ég útbreidda sveppasýkingu í húð barns, hvers foreldri hafði farið fyrst til hómeopata og fengið smyrsl hjá honum sem innhélt m.a. vaselín. Útbrotið stækkaði. Barnið vældi stanslaust á biðstofunni af vanlíðan. Sýkingin er auðveldlega meðhöndluð með réttri greiningu og lyfjafræðilega framleiddu lyfi úr apóteki. Ég get ekki álasað sterkt foreldrinu því hegðun þess er einungis einkenni þjóðfélags sem er orðið sjúkt af ranghugmyndum kuklsins.
Professor Richard Dawkins er einn af þeim vísindamönnum sem hefur tekið að sér að fjalla um þessi mál og vara við hættunni af þessari þróun. Í nýlegri tveggja þátta röð heimildamyndar sem hann kallar "Óvinir skynseminnar" tekur hann fyrir hjátrú og haldvillur kuklsins. Hér er hlekkur á upptöku af seinni þættinum. Það er öllum hollt að horfa á þessa mynd.
Heilsa | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
Harður veruleiki
21.8.2007 | 13:02
Þessi frétt er augljóslega að mestu sögð út frá sjónarmiði konunnar. Lögreglan hefur skyldu til að fá blóð- og þvagsýni þegar rannsaka þarf bæði áfengismagn (blóðið) og leita að eiturlyfjum/róandi lyfjum (í þvagi), þegar hún hefur í varðhaldi manneskju sem liggur undir þeim grun að hafa ekið undir áhrifum. Það þýðir ekki að bjóða manneskjunni að koma síðar, þ.e. eftir hennar/hans hentugleika, því sum lyfin og áfengið renna úr líkamanum innan sólarhrings. Það er enginn beittur valdi við töku þessara sýna nema viðkomandi neiti sýnatökunni án haldbærra ástæðna. Það eru ákaflega fáar aðstæður sem gætu gefið hinum grunaða undanþágu en þær yrðu að vera læknisfræðilegar, eins og t.d. veruleg nýrnabilun þar sem viðkomandi framleiddi hreinlega ekki þvag. Lögum og reglugerðum samkvæmt ber lögreglu og því heilbrigðisstarfsfólki sem fengið er til að biðja um sýnatökuna og framkvæma hana, skylda til að fá sýnin með góðu eða eins litlu valdi og mögulegt er. Það er algengt að halda þurfi ölvuðu fólki við blóðtöku en í þessu tilviki þurfti að halda konu við ísetningu þvagleggs og töku þvagsýnis, sem að sjálfsögðu er viðkvæmara mál þar sem þvagfæri og kynfæri eru á sama svæði. Konan hafði í raun ekki val hér samkvæmt lögunum, annað en að láta af hendi þvagið með góðu eða sæta þessari valdbeitingu af hálfu framkvæmdaraðila laganna.
Það er mjög alvarlegt mál að aka undir áhrifum áfengis eða eiturlyfja. Það er dauðans alvara. Brjóti maður þannig á lögunum og stofni lífi annarra vegfarenda þannig í hættu, er maður ekki í sömu réttarstöðu og aðrir. Manni ber að gera allt það sem eðlilegt þykir að lögregla biðji mann, ellegar sæta ákveðinni valdbeitingu sem getur falið í sér t.d. sýnatöku með valdi, fangelsun, forræðissviptingu (t.d. fólk í sturlunarástandi eða maníu) og innlögn á spítala með gæslu allan sólarhringinn. Þetta er því miður nauðsynleg valdbeiting því annars væri ekki hægt að framfylgja lögum, koma á ró og reglu, fá sönnunargögn, vernda saklausa borgara frá ofbeldisseggjum eða koma sjúku fólki (í óráði eða öðru dómgreindarleysi) undir læknishendur. Þetta er mjög þungbært bæði lögreglu og heilbrigðisstarfsfólki, og alls ekki gert að nauðsynjalausu. Miðað við það sem ég hef upplifað í USA í starfi mínu sem læknir er valdbeiting hér á landi mun minni og betur farið með það fólk sem þarf að svipta frelsi tímabundið. Lögregla og heilbrigðisstarfsfólk þarf oft að þola miklar svívirðingar og stundum árásir af hálfu fólks undir áhrifum áfengis og/eða lyfja. Um það er ekki mikið fjallað og þetta fórnfúsa starfsfólk fer ekki með slíkt í blöðin enda þarf að gæta trúnaðar við fangann/sjúklinginn þrátt fyrir slæma hegðun hans.
Ég hvet fólk til að dæma ekki of hart í þessu máli í skrifum sínum og velta fyrir sér ofangreindu. Nú veit maður ekki nákvæm málsatvik og því er best að segja sem minnst um þetta mál á þessu stigi. Það er í höndum þess vel þjálfaða og menntaða fólks sem fer með dómsvaldið í þessu landi að kveða upp sinn úrskurð.
-----------
Viðbót 23.08.07
Hér að ofan sagði ég " Konan hafði í raun ekki val hér samkvæmt lögunum, annað en að láta af hendi þvagið með góðu eða sæta þessari valdbeitingu af hálfu framkvæmdaraðila laganna. "
Ég vil taka það fram að ég tel ekki eðlilegt eða rétt að þessi sýnataka á þvagi með þvaglegg með valdbeitingu í fangelsi og í viðurvist lögreglumanna fari fram. Það geta þó verið tilvik þar sem í ljósi einhvers afbrots þurfi úrskurð dómara til að leyfa slíka sýnatöku en hún ætti þá að fara fram á spítala við bestu aðstæður og hugsanlega gerð í svæfingu. Allt sem ég segi hér er þó með þeim fyrirvara að trúlega eru manni ekki öll rök í málinu kunn og því gæti álit manns breyst að einhverju leyti í ljósi nýrra upplýsinga.
Konu haldið niðri og þvagsýni tekið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.8.2007 kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (50)
Kominn úr bloggfríi
17.8.2007 | 13:54
Nú er bloggfríi mínu lokið enda búinn að hlaða á batteríin eftir ferðir sumarsins á hálendið. Ég gekk í góðu föruneyti Fimmvörðuhálsinn, Laugaveginn og Öskjuveg. Þá fór ég í skemmtilega jepplingaferð með minni heittelskuðu um Snæfellsnesið. Það nes hættir aldrei að koma mér á óvart hvað fegurð varðar. Nýji þjóðgarðurinn yst á nesinu er til fyrirmyndar hvað merkingar varðar og það gerði ferðina skemmtilegri. Snæfellsnesið skartar miklu fuglalífi og þar hafði krían greinilega nóg æti.
Nú stendur Græna ljósið fyrir kvikmyndahátíð í Regnboganum og mun þar sýna m.a. góðra mynda, nýjasta afsprengi baráttumannsins Michael Moore sem heitir "Sicko". Myndin fjallar um kosti og galla Bandaríska heilbrigðiskerfisins og ber hann það einkum saman við hið Kanadíska. Á netinu rakst ég á umfjöllun Kanadísks fréttablaðs um læknisfræði um myndina en það fékk nokkra sérfræðinga þar í landi til að gefa álit sitt. Myndinni var bæði hælt og gefin gagnrýni. Athyglisvert er að einn viðmælandanna heitir Adalsteinn Brown.
Í ritstjórnargrein New York Times 12. ágúst s.l. er fjallað í góðu en gagnorðu yfirliti um takmarkanir Bandaríska heilbrigðiskerfisins. Greinin heitir "World's best medical care?". Ýmislegt í greininni kannaðist ég við frá því að ég starfaði í New York árin 1998-2004. Þó að ýmsir gallar séu á kerfinu þeirra má margt læra af Bandaríkjamönnum, eins og t.d. öguð vinnubrögð og viðhald lágmarks staðla í umönnun án undantekninga. Hér á ég við hluti eins og að leggja aldrei bráðveikt fólk inn á ganga legudeilda og koma öldruðu fólki fyrir á hjúkrunarheimilum í stað langlegu á bráðadeildum. Í fátækasta hverfi NY borgar, The Bronx var betur staðið að þessum málum en í Reykjavík.
Ég vona íslenskt heilbrigðisstarfsfólk og stjórnendur í kerfinu okkar sjái "Sicko" því myndin er prýðis hugvekja um þessi mál.
Heilsa | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)