Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Ábyrgðin er okkar, ekki vætta
20.3.2007 | 18:13
Í gegnum aldirnar hefur þorra fólks, almúganum verið stýrt af valdi og hugmyndum sem setja því skorður og stað fyrir neðan þá sem fara með völdin. Bestu stjórnendunum varð ljóst að ekki dugði að hóta valdi einu sér heldur varð að fanga hugann líka. Þannig náði Hitler til dæmis tvöföldu valdi yfir þorra Þýsku þjóðarinnar. Þessar hugmyndir hafa jafnan krafist algerrar hlýðni og aðdáunar á foryngjanum. Ekkert svigrúm var leyft fyrir efasemdir eða mótbárur. Fylgja eða falla, voru kostirnir. Á miðöldum var tvennt sem hafði slíkt ægivald yfir fólki, kirkja og konungsríki. Kirkjan var meistari í að hlekkja hugarfarið. Engar aðrar trúarhugmyndir voru leyfðar og trúin var alger. Konungar urðu að leika með og vald þeirra var talið koma beint frá guði. Þetta hentaði þeim vel því engar aðrar ástæður eða réttlætingar þurfti.
Þessar forsendur tóku að bresta eftir því sem frjálsum hugum fjölgaði í Evrópu og uppgötvanir á sviði eðlisfræði, efnafræði, stjörnufræði, líffræði og verkfræði tóku að gjörbreyta heimsmyndinni og færa fólki verkfæri og nýjar aðferðir til að komast betur af. Aldrei hafði kirkjan stuðlað að slíku þó svo einstaka munkar eins og Mendel hafi iðkað vísindi í einangrun sinni. Þá urðu lýðræðishugmyndir til í Frakklandi sem byggðu á hugmyndum heimsspekinga um náttúrulega skipan í þjóðfélaginu og draumurinn um jöfnuð stétta og kynja tók sín fyrstu spor í raunveruleikanum. Þetta var húmanismi. Kirkjan barðist á móti en fræði vísindamannanna voru of nákomin afkomu og líðan fólksins þannig að bylgja þessarar endurreistu rökhugsunar og veraldlegs lífsviðhorfs varð ekki stöðvuð. Kirkjan og kreddur kristinnar trúar urðu fyrir hverju áfallinu og ósigrinum á fætur öðrum. Jörðin var ekki lengur 6000 ára, maðurinn var skyldur apanum en ekki guði, sólin var í miðju heimsins og jörðin ekki flöt, ungt fólk fór að velja sér maka sjálft, kynlíf var ekki lengur skítugt og sjálfsfróun blindaði engan, skírlífi úreltist, konur máttu kjósa og vera prestar, hjón máttu skilja, konur fengu yfirráð yfir líkama sínum, siðfræðin þroskaðist í takt við rökfræðina og mannréttindasáttmálar óháðir trú og menningu litu dagsins ljós. Þetta gerðist þrátt fyrir trúarbrögðin og á meðan tregu hopi þeirra stóð en ekki vegna þeirra eins og margir trúarleiðtogar vilja telja okkur trú um í dag.
Eftir seinni heimsstyrjöldina og sérstaklega uppúr hippatímabilinu og byltingu í kynlífsviðhorfum urðu kirkjudeildir hins vestræna heims einungis máttlausir skuggar af því sem þær voru áður. Eftir stóð að kirkjan hélt velli vegna trúarlegra athafna sem höfðu heilmikið félagslegt gildi. Þetta voru skírnir (nafngiftir), fermingar (viðurkenning unglinga, manndómsvígsla), giftingar (staðfesting sambands og fjölskyldugleði) og jarðarfarir (huggun og kveðja). Söfnuðir svartra í USA tóku þetta skrefi lengra og með söng og baráttumessum voru kirkjur þeirra bæði skemmtun og pólitískt hæli. Almennar guðsþjónustur hinna hvítu voru hrikalega leiðinlegar og eru víða enn. Aðeins örfáir fóru í messur.
Í dag notar kirkjan tölur úr alls kyns samkomum sem hýstar eru í kirkjunum til að bæta hina tölfræðilegu ásýnd. Kirkjan lifði af sinn versta tíma og hefur nú potað sér inn í líf fólks á öðrum forsendum. Eftir að prestar uppgötvuðu að þeir höfðu ekki föðurlegt vald yfir fólkinu þurfti að endurskipuleggja krossförina. Guð er nú einungis með í aftursætinu (eða falinn í skottinu). Nú hefur kirkjunnar fólki tekist að skapa þá ímynd að þjónusta þeirra og nærvera sé til mikilla bóta fyrir "andlegt ástand" alls fólks í neyð og hvarvetna geti prestar þjónað hlutverki sem að öllu jöfnu hefur talist atvinna sálfræðinga og geðlækna. Tólf spora meðferð AA-samtakana hefur átt drjúgan þátt í þessari endurreisn trúarinnar. Trúarleiðtogar víða um heim hafa uppgötvað að með því að blanda saman vísindum og trú eða hreinlega sannfæra fólk um að trú sé vísindi, er hægt að fá drjúgan fjölda fólks til liðs við sig. Þetta hefur gerst hér heima í auknu mæli. Hver man ekki eftir rannsókn Gunnjónu á bæninni. Hún taldi sig hafa sýnt fram á vísindalega að bænin virkaði. Ég las rannsóknina og sá fljótt að á henni voru stórir gallar og niðurstaðan markleysa. Morgunblaðið hampaði samt þessum "vísindum" í hástert með áberandi greinum og sterkum fyrirsögnum.
Niðurstaða könnunar sem Þjóðkirkjan fékk gerða hjá Capacent Gallup árið 2004, kom í ljós að um 75% þjóðarinnar sögðust trúa á einhvern æðri mátt. Um 49% sögðust vera kristnir. Um 19% sögðust vera trúlausir. Aðeins 8% sögðust trúa því að himnaríki tæki við eftir dauða sinn. Um 84% voru þá í Þjóðkirkjunni en það hlutfall hefur lækkað í um 82% á síðasta ári. Það er því ljóst að það eru ekki nærri allir kristnir sem eru í Þjóðkirkjunni og ég veit um fullt af fólki sem heldur sig þar eingöngu vegna hins félagslega þáttar.
Þurfum við trúna? Þurfum við kirkjubyggingar og kirkjuleg félagsheimili sem kosta okkur hundruðir milljóna? Þurfum við kirkjudeild sem kostar 3.5 milljarð á ári í rekstri og fær að auki fé til að reka sinn prestaskóla, þ.e. Guðfræðideild innan Háskóla Íslands? Til samanburðar má nefna að rekstur HÍ kostar um 4 milljarða á ári. Mánaðarlaun sóknarpresta eru á milli 400-500 þúsund plús tekjur af vissum athöfnum og grunnlaun biskups eru um 880 þúsund. Kirkjan fær ríflega 800 krónur á hvert "sóknarbarn" mánaðarlega og að auki tekjur úr "jöfnunarsjóði" sem er ætlaður uppbyggingu á húsnæði hennar. Eru greiðslur þegnanna til þjóðkirkjunnar í samræmi við það mikilvægi sem hún er talinn hafa af þorra fólks? Viljum við þetta? Viljum við borga fyrir rekstur kirkna sem standa oftast tómar? Hversu mikið vill kristið fólk greiða fyrir hina "guðdómlegu blessun"? Hefur það rétt til að nota svo mikið af almannafé í þessa starfsemi?
Þið vitið hverju ég svara. Hér liggja mikil tækifæri til að spara og beina fé okkar til uppbyggingu hugvísinda og þeirra sífjölgandi meðferðarúrræða sem heilbrigðisvísindin færa okkur með hverju árinu sem líður. Samfélög trúaðra eða ótrúaðra, t.d. húmanista eiga að vera einkarekin og njóta sömu meðferðar af hálfu ríkisvaldsins. Það er tímaskekkja að halda sérstakri vernd yfir einu trúfélagi og leyfa því að hafa forgang eða sérstakan aðgang að stofnunum og nefndum á vegum ríkisvaldsins. Mannréttindi snúast ekki um það hver sé í meirihluta, heldur að tryggja að allir hafi jafna aðstöðu. Á Íslandi skortir þessi mannréttindi og það er brotið á minnihlutanum. Trúlausir fá ekki að skrá félag sitt og njóta "sóknargjalda" og ásatrúarmenn fá ekki úthlutað úr jöfnunarsjóði. Stjórnvöld hlýða biskupi líkt og hann sé "fjórða valdið" og þingmenn láta leiða sig undir flaggi kreddufestu eins og félaga í trúarkölti inní kirkju til blessunar frá þjóni guðs fyrir setningu þings sem er algerlega veraldlegt (secular) í eðli sínu. Frakkar afnámu þetta fyrir 100 árum og því var fagnað innilega árið 2005. Hvar erum við stödd?
Ég virði skoðanafrelsi og trúfrelsi og mun því aldrei meina fólki um að trúa hverju því sem það vill. Hins vegar tel ég ekki allar skoðanir jafn góðar og mun berjast fyrir þeim skoðunum sem ég tel bestar fyrir mína nánustu og þjóðina. Sú barátta hlýtur einnig ákveðnum skoðunum (reglum) og ég samþykki ekki baráttu hroka, yfirgangs, valdnýðslu eða ofbeldis. Ég aðhyllist samtalið frekar en þögnina. Ég sætti mig ekki við stöðnun og rökleysur. Að heiminum steðjar ein sú hræðilegasta rökleysa sem maðurinn hefur nokkru sinni fundið upp, en það er trú. Trú á hið yfirnáttúrlega, hið almáttuga og hið óvéfengjanlega. Í innsta hring er öfgatrúarfólkið en utan um, í æ minna trúarlega sterkum lögum eru hinir óviljandi hlífðarskildir, hóftrúarfólkið og fólkið með "barnatrúnna". Í stað þess að öfgatrúarmenn standi naktir og einir uppúr sléttu skynseminnar með sínar banvænu trúarkreddur og guðshræðslu, er urmull af hófsemisfólki þétt við hlið þeirra (hugmyndafræðilega) og afsakar guð þeirra. Munum að guð Abrahams er hinn sami leiðtogi Osama Bin Ladens og Karls Sigurbjörnssonar biskups. Páfinn er einnig trúbróðir biskups. Biskup lofaði páfa þrátt fyrir að páfinn boði enn að eigi skuli nota getnaðarvarnir og halda úti klaustrum og skírlífi presta (ævarandi uppspretta pedophilu) . Sameinaðir undir vættinum "guði" afsaka trúarbrögðin hvort annað og valda því hugmyndafræðilegum skaða um heim allan.
Það er tími til að breyta þessu og heiminum smám saman í leiðinni. Við hér á þessari afskekktu eyju eigum að gera okkar besta til að vera til fyrirmyndar. Við höfum með okkar litla þjóðfélagi tækifæri til að vera í fararbroddi mannréttinda í heiminum. Byggjum framtíðina á heilbrigðum skoðunum, ekki ævagömlum stofnunum sem halda í kreddur. Þorum að breyta og nota aðeins það besta okkur til leiðsagnar. Aðskilnaður ríkis og kirkju er frekar flókin framkvæmd, rétt eins og afnám kvótakerfisins yrði, en hver segir að lífið sé auðvelt? Hér þarf að byrja að taka fyrstu skrefin og stefna í rétta átt. Ég hef sagt minn frið í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.3.2007 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Hvað á maður að kjósa?
15.3.2007 | 15:26
Nú er síðasti dagur Alþingis á þessu kjörtímabili. Það er sorglegt til þess að vita að aðeins 29% þjóðarúrtaks Capacent Gallup segjast treysta Alþingi. Þetta er slæmur dómur og þá helst fyrir sitjandi stjórnarflokka því þeir bera jú hitann af því sem frá þinginu kemur. Engu að síður bera stjórnarandstæðuflokkarnir einnig ábyrgð á ímynd þingins. Skyldi það vera að fólk sé þreytt á því að alþingismenn tali til þjóðarinnar annað hvort með óskiljanlegu máli fjármála eða á barnalegan máta líkt og pirraðir krakkar í sandkassa sem sjá þingmenn annarra flokka sem sífelldan óvin.
Það er með ólíkindum að nú rétt fyrir þinglok hafi stjórnarflokkarnir beðið hina þingflokkana að sameinast um auðlindafrumvarp, svona rétt eins og þeir hafi ekki kannast við að hafa sniðgengið öll frumvörp stjórnarandstöðunnar s.l. 12 ár. Verum öll í skóginum vinir, eru skilaboðin allt í einu. Á þjóðin að halda að göfuglyndi xD og xB hafi alla tíð verið svona? Stjórnarflokkarnir hafa keppst við að efna kosningaloforðin undanfarna mánuði en þjóðin sér í gegnum þetta. Þrátt fyrir fjáraustrið og lækkun matarverðs á elleftu stundu er ljóst að "fólk er ekki fífl". Það er komið að því að skipta um ríkisstjórn sem er orðin of vön því að hafa völd. Það er kominn tími til að stokka uppá nýtt og gefa út ný og fersk spil. Tími afturhaldssemi í mannréttindamálum, stóriðjubrjálæðis, hömluleysis í efnahagsmálum, miðstýringar og seinagangs í heilbrigðiskerfinu, handónýts og óréttláts fiskveiðikerfis, uppihalds rándýrrar kirkjudeildar, skattpíningar með jaðarsköttum og tekjuskerðingar aldraðra er senn á enda.
Fyrst þarf að velja sér málefni, svo traust fólk til þess að flytja þau og koma í framkvæmd. Það er talsverð skörun á málefnastefnum flokkanna og nýir flokkar verða ekki undantekningar þar á. Hver flokkur mun þó hafa sína sérstöðu (eða sérstöðu í að vera sérstöðulaus) og þar liggur lykillinn að valinu. Ég skora á kjósendur að skoða mjög vel málefnin og gera upp við sig hver þeirra eru þeim dýrmætust. Sá flokkur sem hefur flest málefni sem passa við lífsskoðanir viðkomandi ætti væntanlega að verða fyrir valinu. Í annan stað skiptir miklu máli að forysta viðkomandi flokks / hreyfingar sé dugandi og verðug trausts. Lýðræðisleg vinnubrögð og hreinskipti við kjósendur skipta þar miklu máli.
Sumir flokkar hafa reynt mikið að rúma öll sjónarmið og úr því verður mikið moð og ekkert um framkvæmdir. Þetta virðist hafa komið fyrir Samfylkinguna og hún hefur misst sérstöðuna. Hins vega má hið sama segja um Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn en lengi vel hafa þeir komist upp með það. "Stétt með stétt" var fallegt slagorð Sjálfstæðismanna og það var með ólíkindum hversu margir verkamenn kusu þá. Eftir valdatíð þeirra nú er bilið á milli stétta mun meira en áður og þeir lægst launuðu hafa það verr en áður. Slagorðið er því í raun "Stétt yfir stétt". Framsókn hefur leikið með og ráðið sitt fólk hvarvetna í ríkiskerfið sem er orðið hið mesta bákn. Það sést best á miðstýringu þeirra á heilbrigðiskerfinu. Engu fé er varið til frumkvæðis á heilsugæslustöðvunum en aftur milljónum eytt í gagnslausar skoðanakannanir sem breyta engu um ákvarðanatakanir... eða hvar eru þær stöður lækna sem þarf til að anna eftirspurn hverfanna eftir læknisþjónustu? Hvar eru forvarnirnar? (2.6% af kostnaði kerfisins). Vinstri hreyfingin - grænt framboð er söm við sig og maður veit hvar maður hefur þá. Þeir eru því góður kostur fyrir þá sem vilja liggja til vinstri og fá hærri skatta. Feministar flokksins eru þó full örvæntingafullir þegar þeir/þær sögðust vilja lögbinda sæti kvenna á listum stjórnmálaflokka og stjórnum fyrirtækja.
Frjálslyndi flokkurinn hafði að mestu góða stefnuskrá en stjórnendur hans skildu sum málin útundan og svo klúðruðu þeir trúverðugleika sínum gjörsamlega með yfirgangi í valdabaráttu innan flokksins. Nær allar málsmetandi konur innan hans sögðu sig úr honum og formaðurinn hefur ekki sést eftir Landsþingið. Traust formannsins Guðjóns Arnars Kristjánssonar hefur hrunið úr 30% (þ.e. þeir sem vildu sjá hann sem forsætisráðherra) fyrir 4 árum niður í 13% nú og er ekki einu sinni þriðjungur fylgismanna flokksins sem vill sjá hann sem forsætisráðherra. Sömuleiðis hefur Magnús Þór Hafsteinson misst traust og nú hamast hann og Jón Magnússon við að segjast ætla að verja hagsmuni Íslendinga með því að hamla innstreymi útlendinga hingað inn, m.a. með því að endurskoða aðild okkar að Schengen samkomulaginu. Þetta ber vott um neyð, þ.e. neyð eftir atkvæðum því aðgerðir Magnúsar Þórs stýrast að miklu leyti eftir því. Fylgi flokksins er nú um 7% og er það mesta furða. Innflytjendamálin virðast því aðeins gefa þeim 3% ofan á þau 4% sem flokkurinn var að fá lengst af s.l. 2 ár. "Sprauturnar" Valdimar Leó, Kristinn og Jón virðast því ekki trekkja mikið að. Það var eftir Magnúsi Þór að taka við þingsæti Valdimars Leó án nokkurrar viðvörunar um að það gæti verið siðferðislega vafasamt. Hann gagnrýndi Gunnar Örn harkalega þegar hann fór með þingsæti xF í xD á sínum tíma en þegar skiptin hentuðu honum kom ekki stuna upp úr honum. Forystu xF er því miður ekki mikið treystandi. Það þarf aðra fánabera fyrir stefnu þeirra.
Hinn nýi flokkur, hvers nafn er ekki orðið opinbert enn, verður vonandi spennandi valkostur. Hann verður ekki skipaður valdavönu fólki en þess heldur miklu baráttufólki sem er tilbúið að hugsa hlutina uppá nýtt. Þau Margrét Sverrisdóttir og Ómar Ragnarsson hafa náð vel saman og sú grasrót sem þeim fylgir hefur unnið vel sína málefnavinnu. Það verður m.a. sagt nei við stóriðju og kvótakerfi. Stimpilgjöld skal leggja af og gæta skal þess að mennta- og heilbrigðiskerfið verði ekki kostnaðarbaggi á þeim sem á þurfa að halda. Hvatt verður til nýsköpunar og hlúð að vaxtarbroddum í atvinnulífinu, ekki síst á landsbyggðinni. Náttúran, manngildin og efnahagsleg hagsæld verða hornsteinarnir. Sótt verður þekking frá okkar besta fagfólki úr öllum þáttum þjóðlífsins og rík áhersla lögð á jafnrétti og jafnræði. Ég á von á því að tilkynnt verði um stofnun flokksins í vikunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.3.2007 kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Skíðaparadísir - eingöngu erlendis?
13.3.2007 | 14:40
Nú hef ég ekkert bloggað í rúma viku enda best á stundum að segja minna en meira. Ég fór í vikulangt skíðaferðalag í Selva (Wolkenstein) í ítölsku ölpunum. Svæðið var áður undir stjórn Austurríkis og hét þá Suður-Týról. Þar er enn mikið töluð þýska en flestir tala svokallað ladino sem er sérstakt latneskt tungumál með ítölskun og þýskum áhrifum. Ferðin er farin á vegum Úrval-Útsýn og var fararstjórnin til mikils sóma.
Bærinn er í 1560 metra hæð og flestar brekkur byrja í 2200-2500 metra hæð þannig að það snjóar í þeim þó að vor sé komið í neðri byggðir. Reyndar voru hlýindin það mikil í lok febrúar að snjóinn tók nær alls staðar upp nema á brautunum sem eru fylltar af framleiddum snjó á næturna. Það er því tryggt að maður skíði ekki á grasbala í ferðinni. Skíðapassinn veitir manni óheftan aðgang að svæði sem spannar tugi ef ekki nokkur hundruð kílómetra og í lokinn getur maður skoðað á netinu hvar og hversu hátt maður fór og hversu mikið maður hafði skíðað. Ég lauk um 160 km á 6 dögum í um 91 lyftuferðum. Toppurinn á ferðinni var að ferðast með þyrlu uppá jökultopp sem kallast því skemmtilega nafni Marmolada og er í um 3400 m hæð. Þaðan var skíðað og tók ferðin heim á hótel allan daginn. Það er sem sagt hægt að skíða á svæðinu allan daginn án þess að fara nokkru sinni tvisvar í sömu brekku. Eftir ferð í þetta draumaland var ekki laust við að manni væri hugsað til okkar litlu Bláfjalla. Hvað er hægt að gera til að kreista út nokkur ár til viðbótar áður en hitnun jarðar gerir út af við skíðaiðkun hér?
Í nýlegri grein í mbl stakk starfsmaður svæðisins uppá því að reistar yrðu snjófoksgirðingar víðar á svæðinu til að binda snjóinn en hann fýkur annars bara burt. Það væri ekki mikið vit í því að hefja snjóframleiðslu sem svo fyki burt. Ég verð að segja að þetta hljómar mun viturlegra en að halda áfram að hrúga niður lyftum á svæðið. Það þarf að gera eitthvað traust og árangursríkt fyrir skíðasvæðið, annars er þetta búið spil. Hér þurfa okkar bestu verkfræðingar að leggja hausinn í bleyti og koma með góðar lausnir. Þó að það sé dásamlegt að fara til fjarlægra landa til að skíða, verður að reyna eitthvað raunsætt til að halda í skíðaiðkun hérlendis. Þessi íþrótt er einfaldlega of góð og skemmtileg til að missa af henni alfarið hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.3.2007 kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fín grein um náttúrulyf
1.3.2007 | 10:50
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tekist á um Vinaleiðina
27.2.2007 | 16:17
Á fimmtudaginn n.k. verður haldinn málþing um Vinaleiðina á vegum félags SUS, Huginn í Garðabæ. Fundarstaður verður í Tónlistarhúsi Garðabæjar að Kirkjulundi 11 (hljómar eins og heimavöllur Þjóðkirkjunnar), kl 20:00. Þingið er opið öllum.
Til máls í framsögu taka Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, f.h. Þjóðkirkjunnar og Bjarni Jónsson, f.h. Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi. Þessir sömu ræðumenn voru meðal mælenda á málþingi sem félag nemenda í Kennaraháskóla Íslands héldu fyrir nokkrum vikum.
Trúarleg starfsemi í skólum er alvarleg tímaskekkja. Mismunun gagnvart minnihlutahópum er tímaskekkja. Við höfum vel flest okkar vaxið uppúr þessum rangindum á síðasliðnum 60 árum eða svo og siðferði nútímamannsins hefur þróast með þeirri jarðbindingu gildismatsins sem húmanisminn í kjölfar Frönsku borgarabyltinganna hafði í för með sér. Sex af fyrstu forsetum Bandaríkjanna voru svokallaðir "deistar" og trúðu ekki á guð nema að því leiti að eitthvað guðlegt gæti hafað hafið allt saman en síðan hefði náttúran tekið við. Deistar trúðu ekki á persónulegan guð og Thomast Jefferson frægasta dæmið. Annar merkur maður var Abraham Lincoln en hann sagði Biblíuna ekki sína bók.
Allar framfarir í mannréttindum síðustu alda og áratuga hafa byggt á því að rökstuðningur sigraði kreddur og lýðræðishugmyndin spratt uppúr heimsspekinni. Upp úr myrkri miðalda stigum við m.a. vegna þess að kirkjan var aðskilin frá ríkisvaldinu. Framfarirnar urðu þrátt fyrir afturhaldssemi kirkjudeilda en ekki vegna framfara innan þeirra sjálfra. Framfarir vestrænna kirkjudeilda fylgdu svo í kjölfarið vegna þess að kenningar eins og þróunarlögmál Darwins brutu niður hindurvitni eins og sköpunarsöguna og þar með stóran hluta af heimsmynd trúaðra. Lengi vel þráuðust trúarleiðtogar við og deildu hart á þróunarkenninguna, en til þess að halda velli og einhverri virðingu urðu kirkjurnar að gefa eftir. Þannig er saga stóru kirknanna s.l. 2-3 aldir. Bókstafurinn hefur vikið fyrir húmanískum viðmiðum sem smám saman hafa orðið hornsteinn nútíma siðferðis.
Það er því alger tímaskekkja að kirkjan vaði á ný inn í ríkisstofnanir (aðrar en sína eigin) með afkárleika eins og upprisuna, kraftaverkalækningar og meyfæðingar í farteskinu. Það þarf ekki persónudýrkun á sögupersónunni Jésú til að skilja væntumþykju og tillitssemi. Nútíma sálfræði / hugfræði / hegðunarfræði byggir á mun flóknari og þróaðri hugsun en er að finna í Biblíunni eða námsefni presta í HÍ. Prestar eða djáknar eru ekki fagfólk nema í guðfræði og eiga ekki faglegt erindi við börn nema að foreldrar þeirra vilji tala við þá í kirkjum landsins um trúarlegt uppeldi.
Prestarnir segja; "á forsendum barnanna" eða "á forsendum skólanna". Hvernig í ósköpunum eiga börnin að fara í viðtal við fulltrúa trúarbragða á eigin forsendum? Getum við ætlast til að börn hafi mótaðar skoðanir og prestar gæti sín að ýta ekki við þeim? Getum við ætlast til að barni sem líður illa stýri viðtali á sínum forsendum? Það er leiðbeinandans, þ.e. þeim fagaðila sem treyst er fyrir barninu, að stýra viðtalinu og hjálpa barninu á þeim forsendum sem viðkomandi telur barninu fyrir bestu. Þannig eiga "forsendur skólanna" að virka. Skólinn á ekki að sætta sig við neitt nema fullnumið fólk í klínískri sálfræði, félagsfræðinga og námsráðgjafa til þess að ráðleggja foreldrum, börnum og stundum kennurum um það sem börnunum er fyrir bestu.
Þjóðkirkjan getur ekki troðið sér inn í skólanna af því að hún er enn stærst. Það er með ólíkindum sá félagslegi vanþroski og skortur á réttsýni sem forysta Þjóðkirkjunnar hefur sýnt í þessu máli. Hún neitar að sjá að skólar eru ekki vettvangur trúarlegrar þjónustu eða starfsemi, sama hver á í hlut. Hið veraldlega húmaníska umhverfi verður að vernda í skólum landsins því það er hið eina umhverfi sem er trúarlega hlutlaust. Líkt og með stjórnmálaskoðanir á hvert barn rétt á því að fá skólagöngu og opinbera þjónustu í friði frá trúarskoðunum. Það þýðir ekki fyrir kirkjuna að segja að þeir tali ekki um trú í Vinaleiðinni. Það er aldrei hægt að líta á starfsemi presta eða djákna, í störfum á vegum kirkjunnar sem annað en trúarlega og er því beint eða óbeint trúboð í eðli sínu.
Vinaleiðin og trúarleg starfsemi í skólum skal út. Byggja þarf upp stuðningskerfi skólanna með faglegum leiðum og er það hlutverk yfirvalda og skólanna. Bjóðum börnunum aðeins upp á það besta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Duga góðar meiningar?
27.2.2007 | 02:03
Í liðinni viku veitti Fréttablaðið í annað sinn félagasamtökum og einstaklingum viðurkenningar og verðlaun fyrir framúrskarandi störf í þágu samfélagsins. Veitt voru verðlaun í ýmsum flokkum eins og "uppfræðari ársins", "framlag til æskulýðsmála", "hvunndagshetjan", "til atlögu gegn fordómum", "samfélagsverðlaun" og "heiðursverðlaun". Veittar voru viðurkenningar fyrir 3 útnefningar og svo valinn einn verðlaunahafi þeirra á meðal. Ég var viðstaddur athöfnina og var þetta sérlega ánægjuleg stund. Ljóst var að reynt var að styðja grasrótina í þjóðfélaginu og fólk sem hefur haft hugsjónir að leiðarljósi varð fyrir valinu.
Fátt kom mér sérlega á óvart varðandi útnefningarnar nema að maður nokkur fékk verðlaun "hvunndagshetjunnar" fyrir að brugga og gefa lúpínuseyði til handa krabbameinsveikum til fjölda ára. Einnig kom mér á óvart að eigendur náttúrulækningabúðarinnar Yggdrasil, fengu tilnefningu í einum flokknum fyrir það að hafa þraukað í 25 ár og komið fólki til hjálpar með aðferðum sínum (eða eitthvað á þá leiðina). Þessi tvö fannst mér hafa fengið viðurkenningar fyrir það eitt að hafa sýnt viljan fyrir verkið en vissulega má segja að slíkt sé til vissrar eftirbreytni.
Mér fannst það verulega dapurt að sjá það enn aftur að ósannaðar aðferðir fólks sem hefur heilsubót að áhugaefni en lítinn vísindalegan grunn, fái athygli og viðurkenningu. Hvað með allt það góða vísindastarf sem er í gangi í landinu? Mátti ekki verðlauna faglært fólk? Stóð virkilega ekkert uppúr í vísindastarfi? Voru ekki neinar hetjur þeirra á meðal? Eru vísindamenn ekki hvunndagslegir? Trúlega ekki.
Hvað verður næst? Fær konan sem vill bjarga fólki úr klóm myglusveppanna verðlaun næst? eða konan sem hlustar á blómin? Kukl er vaðandi í fjölmiðlum og fjölmiðlafólk og almenningur er farinn að trúa á það blint. Þessi viðburður sýndi enn aftur hversu langt við erum leidd í kuklvæðingunni. Við þessu þarf að sporna til þess að endurheimta virðingu fólks og skilning á vísindum. Kukl er bara hindurvitni en ekki valkostur til að byggja framtíðina á. Til þess að við förum ekki tvö skref afturábak meðan við tökum þrjú fram, þarf að huga að rökfræðimenntun þjóðarinnar. Við getum ekki látið vel markaðssettar blekkingar frá USA og víðar, stjórna lífi okkar. Sá tími og fé sem einstaklingar tapa daglega á þessu hérlendis er nú þegar umtalsverður og á eftir að verða geigvænlegur með þessu áframhaldi. Dæmi; maður borgar 5000 kr fyrir að láta "græðara" greina sig með einhverjum rafblöðkum og tölvuforriti að hann hafi ofnæmi fyrir fjölmörgum fæðutegundum. Það kostar svo margar læknisheimsóknir og hugsanlega raunverulegt ofnæmispróf til að sannfæra viðkomandi að ekkert ofnæmi sé á ferðinni. Miklum tíma og fé þessa einstaklings og skattgreiðenda er þannig varið í vitleysu.
Vissulega var það krúttlegt að maðurinn gaf sín lúpínuseyði veiku fólki og kannski er hann að vissu leyti hvunndagshetja en... stöldrum við og hugsum um fordæmisgildið áður en við förum að verðlauna slíkt opinberlega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góður mánudagur á Alþingi
19.2.2007 | 23:49
Í dag tók Sigurlín Margrét sæti á alþingi í stað Gunnars Örns Örlygssonar sem tók sér barneignarfrí. Það er sérlega ánægjulegt að það virðist ætla að nást þverpólitísk samstaða úr öllum flokkum um að styðja frumvarp Sigurlínar Margrétar um táknmálið. Hún situr á þingi óháð og er það eflaust málinu til hjálpar. Hins vegar er hún þannig persóna að hún á virðingu allra og þarf ekki "óháða" stöðu til. Við, samherjar hennar og Margrétar Sverrisdóttur getum brosað breitt því Sigurlín Margrét verður framarlega í okkar framboðshóp í komandi kosningum. Það er vel því hinn nýi flokkur verður skipaður mörgum sterkum konum og málefni minnihlutahópa verða í hávegum höfð. Við fögnum því í dag og mig grunar að það verði ekki í síðasta sinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvort sem okkur líkar betur eða verr
18.2.2007 | 13:31
Nú er í hámælum haft að erlent fyrirtæki auglýsi ferð til landsins í vafasömum tilgangi. Af heimasíðu snowgathering.com að dæma þá er um að ræða 4-5 daga ferð til Íslands til þess að klæmast á snævi þöktu hálendi Íslands. Af dagskránni að dæma er ekki að sjá neina fundi eða ráðstefnu heldur ferðir um náttúru Íslands og svo út á skemmta sér á kvöldin, m.a. á "striptease", þ.e. nektarstað. Ég get því ekki séð annað en að þetta sé fyrirtæki í klámiðnaðnum sem er að skipuleggja einkaskemmtiferð fyrir klámfíkna karla og með þeim komi konur með til að veita þeim "showið" en það er ekki neitt í dagskránni um skipulögða ráðstefnu til að ýta undir klám, eins og mér hefst virst á fréttum. Kannski hafa menn aðrar upplýsingar en liggja fyrir á þessari heimasíðu.
Nú getur manni verið í nöp við nektarklúbba, klámblöð og auglýstar nektarsýningarferðir en það er tjáningafrelsi við lýði í landinu og fólk hefur frelsi til að gera ýmislegt í sínum einkatíma sem maður er ekki beinlínis hrifinn af. Það er þó ekki hægt að banna slíkt nema ákveðið sé með lögum að fara útí slík afskipti. Á móti geta þeir sem eru andsnúnir þeirri hegðun fólks að bera sig gegn gjaldi, mótmælt og það kröftuglega - ekkert nema sjálfsagt við það. Það má líka reyna að fá lögum breytt og taka þann slag með rökræðu hvort að slíkt sé nauðsyn. Hins vegar er EKKI hægt að krefjast þess að stjórnvöldum nú að gripið sé inní frelsi fólks til að ráðstafa eigin fé og tíma hér að hluta til í klám. Slíkt væri yfirgangur og óeðlileg beiting valds.
Þjóðkirkjan lætur nú hátt og mótmælir komu þessa fólks í náttúru- og klámferð. Hún hvetur stjórnvöld til að grípa inní. Forráðamenn Þjóðkirkjunar eru sem sagt að biðja yfirvöld um að skerða frelsi þessa fólks án þess að hafa til þess lagalegan ramma.
Ég vil minna á að þetta er ekki í fyrsta sinn sem kirkjan fer fram á skerða frelsi fólks og nýlegt dæmi í því samhengi var beiðni biskups til löggjafavaldsins að gefa ekki trúfélugum leyfi til að gefa saman samkynhneigð pör. Sú beiðni var virt af sitjandi sjórnarflokkum og setti það skugga á annars góðar lagabreytingar í jafnréttisátt fyrir samkynhneigða. Nú er ég ekki að segja þessi mál séu sambærileg að eðli en í báðum tilvikum er kirkjan að fara fram á óeðlileg afskipti stjórnvalda.
Svona er þetta, hvort sem okkur líkar betur eða verr.
![]() |
Þjóðkirkjan og prestafélag Íslands harma klámráðstefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nýyrði: smalræði
17.2.2007 | 16:46
Í ljósi viðburða síðustu mánaða legg ég til að orðið "smalræði" verði tekið upp sem hugtak yfir aðferðir þeirra sem mest geta smalað fólki til að kjósa sjálfan sig í hæfileikakeppnum eða til ábyrgðarstarfa í félagasamtökum eða stjórnmálaflokkum. "Smalræðið" er ólíkt lýðræðinu að því leyti að sérstakir áhangendahópar og jafnvel keypt atkvæði ráða mestu um úrslitin. Þegar lýðræði virkar rétt, eru það þorri manna sem ekki á tilfinningaleg tengsl við keppandann eða frambjóðandann og hafa ekki orðið fyrir einhliða áeggjan einhvers eins, sem ráða úrslitum í kosningunni.
Smalræði er raunverulegt vandamál á Íslandi og víðar í heiminum í dag. Lýðskrumarar notfæra sér smalræðið og fólk í sjálfbyrgingslegu framapoti leitar skjóls í því. Hver þorir orðið að standa á eigin verðleikum? Án stuðningsmannavélar telur fólk sig glatað og er það því miður með vissri réttu í þessum óbilgjarna heimi. Það þarf að taka prófkjör og kosningamál til alvarlegrar endurskoðunar. Viljum við áfram sjá hina hæfileikaríku og ábyrgðarfullu fótum troðna? Ekki ég.
Keppandinn minn - kosningaskrípaleikur X-factor
17.2.2007 | 14:34
Það var átakanlegt að sjá Sigurð Ingimarsson, þ.e. Sigga, kosinn af símakosningu í annað af neðstu sætunum og svo dæmdan út af Ellý í X-factor í gærkveldi. Þjálfararnir Einar Bárðarsson og Páll Óskar héldu höndum fyrir vitin af óhug yfir þessari niðurstöðu. Það voru sjálfsagt blandaðar tilfinningar hjá Páli Óskar því stelpurnar hans, GÍS-dúettinn, voru einnig neðstar og rétt sluppu við fallexina.
Það vakti FORUNDRUN mína að það þessi tvö voru mjög frambærileg og a.m.k. fjórir flytjendur sem stóðu sig verr. Að mínu mati voru Gylfi, Jóhanna, Inga og Allan með lakari flutning. Áberandi best voru Jógvan, Guðbjörg og Siggi. Hara systurnar og GÍS voru mitt á milli.
Hvað gerðist? Það virðist deginum ljósara að þeir keppendur sem eiga duglegustu stuðningsmennina komast áfram og gildir þá einu hversu vel þeir eru að því komnir að fá brautargengi. Áhugi fólks sem ekki þekkir keppendur á því að eyða fé í að kjósa er takmarkaður og því eru það f.o.f. stuðningsmannahóparnir sem kjósa og gera það margoft. Þetta er því enn eitt dæmið um skrípaleik smalamennskunnar, brotalöm á því sem annars gæti kallast eðlilegur vilji fjöldans.
Það er ábyrgðarhlutur að halda svona keppni, þó svo hér sé f.o.f. um skemmtun að ræða. Keppendur og leiðbeinendur þeirra leggja mikið á sig til að gera sitt besta og setja sig í þá viðkvæmu aðstöðu að hljóta dóm áhorfenda og dómara úr öðru liði. Það er hlutverk þeirra sem halda keppnina að gæta þess að kosningarfyrirkomulagið sé þannig úr garði gert að ekki geti komið upp veruleg "áhangendaskekkja" en slíkt er kallað "bias" í tölfræðinni. Það er ekki sjálfgefið að kosningakerfi sem notað er hjá milljónaþjóðum virki á okkar litla Íslandi. Hér er hættan á því að áhangendahóparnir hafi veruleg áhrif á niðurstöðuna.
Niðurstaðan í gær setti þessa keppni verulega niður. Markmið þessarar keppni var m.a. það að fólk á öllum aldri gæti látið ljós sitt skína. Það er ljóst að Siggi leið fyrir að vera af léttasta skeiði og syngja lög sem eru ekki í tísku í dag. Hann höfðaði því ekki til æskunnar sem hringir hve mest inn til að kjósa. Inga er enn inni en hún nýtur góðs af því að vera krúttleg, jákvæð og brosandi. Hún hefur staðið sig mjög vel en hefur ekki það "talent" sem Siggi augljóslega hefur.
Það var aðdáunarvert af hve mikilli hógværð og yfirvegun Siggi tók þessari óréttlátu niðurstöðu. Salurinn stóð upp og klappaði fyrir honum. Einar Bárðar, þjálfari hans var sleginn og sagðist efast stórlega um dómgreind Ellýar á söngvurum eftir þetta. Ellý hafði orðið fyrir gagnrýni stelpnanna í GÍS í þættinum áður og var e.t.v. hrædd við að ef hún hefði sent þær út, hefði hún fengið ásakanir fyrir að taka ákvörðun út frá persónulegum nótum.
Eftir stendur að ekki er hægt að ákvarða hvar Siggi stóð meðal þeirra bestu. Það var tekið af honum það tækifæri að fá að standa eftir meðal fjögurra bestu og sýna sig og sanna enn frekar. Hann á eflaust eftir að fá mikla samúðarbylgju og nú er það hans að berjast áfram og gera það sem hann elskar að gera. Þrátt fyrir allt hefur keppnin sýnt þjóðinni að hér fer mikið efni og ég vona að ég eigi eftir að njóta söngs hans í framtíðinni. Gangi þér allt í haginn Siggi! Frábær framistaða og framkoma til mikillar fyrirmyndar!