Færsluflokkur: Heilsa

Heilsubrunnur?

Með Morgunblaðinu í morgun var óvæntur glaðningur: Vikan

Já, Vikan var gefins og boðið uppá sérstakt áskriftartilboð.  Vikan er eitt elsta tímarit landsins og trúlega langsamlega langlífasta vikuritið.  Lífdagana á það trúlega að þakka víðrar skírskotunar til landsmannna og þá sérstaklega kvenna.  Þetta blað er engin undantekning og í því er fullt af ýmsu jákvæðu og skemmtilegu efni.  Vikan hefur ekki farið slúðurblaðsleiðina sem betur fer.  En...já trúlega býst þú lesandi góður við að ég komi með gagnrýni og ég ætla ekki að bregðast þér.

Það hefur verið ljóður á ráði Vikunnar síðasta áratugar að vera málpípa alls kyns kukls og ég hef ekki litið í Viku án þess að í því sé ítarleg umfjöllun um eitthvert kraftaverkagras, brjálaða myglusveppi eða annað nýaldarmoð.  Allt í hinum vinalegasta búningi, það hefur ekki vantað.  Þessi ókeypis Vika brást mér ekki hvað þetta varðar og fletti ég henni spenntur til að vita af hvaða kukli ég gæti átt von á nú... og viti menn, á bls 48-49 blasti við mér dýrðin.

Solla heilsubrunnur

Vá! Mikilvæg lesning... "Heilsubrunnur Sollu!  Basískt fæði - Eitt það heitasta [wow, hot] í heilsuheiminum í dag.  Rétt sýrustig getur skipt sköpum hvað varðar heilsu sem og holdafar." - Sólveig Eiríksdóttir (aka Solla)

Af hverju hef ég misst af þessu? Woundering Hvers vegna hef ég ekki lært um þetta í 10 ára námi í læknisfræði og á öllum lestri mínum um sérstök áhugamál mín, innkirtlafræðina og nýrun, þau fög sem fjalla dýpst um sýru-basa jafnvægi líkamans og sjúkdóma því tengdu?  Skyldi hún Solla luma á einhverju leyndarmáli sem er haldið frá læknum?  Lítum nú á innihaldið:

"Til að losna við fituna verður kroppurinn að verða basískariAuðveldasta aðferðin er að breyta mataræðinu þannig að það verði 70-80% basamyndandi." - rétt er:  Losun á fitu kemur stýringu á sýrustigi líkamans ekkert við.  Að sjálfsögðu þarf líkaminn að viðhalda réttu sýrustigi til þess að viðahalda því umhverfi efnaskipta sem frumur líkamans þurfa til að starfa rétt en stýring á því er ekki vandamálið hjá offeitu fólki og aðferðir til að möndla við það jafnvægi eru mjög varasamar.

"...,því líkaminn notar fituna sem lagergeymslu fyrr alla umframsýru."  - rétt er:  Þetta er algert bull.  Fita er ekki hlaðin sameind og gagnast því ekki við að binda sýru sem er plús hlaðin.  Það eru aftur próteinsameindir og elektrólýtar (málmsölt) sem binda umfram sýru.  Síðan er það hlutverk nýrnanna að losa umfram sýru (í formi prótóna) og því er þvagið yfirleitt súrt og með pH stig í kringum 5.5 (pH stig undir 7 er súrt, yfir 7 er basískt, ekki öfugt eins og hún Solla fræðir lesendur Vikunnar um).   Líkaminn notar einnig öndunina (loftskipti CO2) til að leiðrétta sýru-basa ójafnvægi.

"Einnig hjálpar hreyfing okkur til að verða basískari sem og jákvætt hugarfar, slökun og heilbrigðir lífshættir almennt" - kanntu annan?   Rétt er: Við góða hreyfingu myndast mjólkursýra og niðurbrotsefni sem auka sýrustigið tímabundið og er ekki hættulegt.  Líkaminn losar sig fljótt við sýruna.  "jákvætt hugarfar"  hætti nú alveg, ekki má gleyma alheimslækningunni jákvæðu hugarfari - hvað getur jákvætt hugarfar ekki gert???   Það er nú hið fyrsta af "Geðorðunum 10".   En mikið hrikalega er ég neikvæður að gagnrýna jákvætt hugarfar.  Mér verður ekki bjargað.

Almennt:  Það er minna skaðlegt fyrir líkamann að vera örlítið súr frekar en basískur miðað við það jafnvægi sem hann heldur yfirleitt við 7.4  og hann þolir mun betur langtíma ójafnvægi í átt að súru en of basísku ástandi.  T.d. sjúklingum á öndunarvél er frekar haldið smávegis súrum en basískum.  Hvað segir það þér lesandi góður um basaæði Sollu og "sérfræðinga" hennar?

Áfram hélt Solla með fræðin sín:  "Eðlilegt sýrustig þvags og munnvatns er á milli 7.0 og 7.5"  Kolrangt!  Rétt er:  Sýrustig þvags er eðlilegt í kringum 5.5 en ef það fer yfir 6.5 getur það verið merki um ákveðna nýrnasjúkdóma eða efnaskiptasjúkdóma.

Og meira bull:  "Þegar talað er um basamyndandi mat er ekki verið að tala um sýrustig sjálfrar matvörunnar..., heldur hvaða áhrif maturinn hafi á líkamann þegar hann hefur verið meltur. T.d. eru sítrónur mjög basamyndandi í líkamanum, þrátt fyrir að vera sérlega súr ávöxtur."  Rétt er:  Sítrónur innihalda mikið af sýru, m.a. vegna þess að í þeim er mikið af C-vítamíni sem er súrt.  Þessi sýra skilar sér í blóðið og er því áfram súr, ekki basísk.  Líkaminn bufferar (bindur við basískar sameindir) sýruna í blóðinu, notar sumt af henni en losar svo í þvaginu.  Þess vegna eru súrir ávextir þvaglosandi.  Það er eins og að þessir lygalaupar sem hún Solla hefur fræðin eftir, reyni að ljúga ósennilega, því oft er ósennileg lygi meira sannfærandi, rétt eins og þarna væri einhver frábær nýr sannleikur á ferðinni.

Svo heldur Solla áfram við að telja upp fæði sem er basamyndandi, hlutlaust og loks sýrumyndandi, og gettu nú... Hvað heldurðu að sé hin "sýrumyndandi" fæða?  Hverjir eru vondu karlarnir?, "the usual suspects?" svo ég sletti nú aðeins.  Jú, auðvitað "Hvítur sykur, gervisæta, einföld kolvetni, t.d. hvítt hveiti, hvítt pasta o.s.frv., ..."  Þetta passar við almenn heilsuráð og kemur sýru-basa jafnvægi ekkert við.   Að auki er hveiti ekki einföld kolvetni, hvorki hvítt hveiti né brúnt.  Þetta veit fólk sem er með pínulitla menntun í næringarfræði.  Þetta vissi ég 13 ára eftir lestur bókarinnar "Hollusta og næring" eftir Jón Óttar Ragnarsson, sem ég las utan námsefnis í den.

"Græni liturinn er minn uppáhalds" er síðasta millifyrirsögn Sollu.  Gee! Jí!

Skýringin: "...borða mikið af grænu salati með hverri máltíð..."  og áfram "Munið að við erum að tala um 20-30% súrt og 70-80% basískt.  Þetta er ekkert nýtt, þetta talaði Hippókrates um á sínum tíma svo hér er eingöngu verið að dusta rykið af vel þekktum fræðum."   Þarf hún að draga Hippókrates inní þetta rugl?  Hann var mikilvægur heimsspekingur og siðfræðingur í sögunni en er ekki þekktur fyrir lækningaaðferðir sem við höfum mikil not af í dag utan jú skemmtilegrar aðferðar til að setja í axlarlið.  Hvers vegna halda kuklarar að því eldri sem fræðin sem þeir dusta rykið af eru, því betri séu þau?  Því er yfirleitt öfugt farið.  Við köstum út gömlu og úreltu en byggjum á því sem hægt hefur verið að staðfesta og þróa enn betur.  Sýru-basa fræðin eru mjög ný og skilningur manna á mikilvægi þess í mannslíkamanum var á algeru frumstigi þar til fyrir um 150 árum að hann tók að þróast jafnhliða byltingu í þekkingu á lífefnafræði og blóðrásarkerfinu.  Enginn vísindamaður með meira en baun í hausnum vitnar í Hippokrates sem heimild fyrir sýru-basa fræðum.  Leyfum minningu hans að njóta þess sem var hans.

Neðanmáls gefur Solla upp heimildir sínar um sýru-basa-fæði:

"The pH Miracle" eftir Robert O. Young.  Hvaða vísindamaður skýrir bók sýna "...kraftaverk"?  Á vefsíðum skottulæknavaktarinnar www.quackwatch.org má finna eftirfarandi lýsingu á þessum kappa:

Robert O. Young, author of The pH Miracle, The pH Miracle for Diabetes, and The pH Miracle for Weight Loss, claims that health and weight control depend primarily on proper balance between an alkaline and acid environment that can be optimized by eating certain foods. These claims are false [8].Young offers educational retreats that include a private blood cell analysis and "nutritional consultation" at his 45-acre estate in Valley Center, California. In 1996, under a plea bargain, Young pleaded guilty to a misdemeanor charge of attempted practice of medicine without a license and was promised that the charge would be dismissed if he stayed out of trouble for 18 months. Young claimed that he had looked at blood samples from two women and simply gave them nutritional advice [9]. The blood test he advocates (live-cell analysis) has no scientific validity [10]. Young's "credentials" include doctoral degrees in nutrition, science, and naturopathy from the American Holistic College of Nutrition. His Web site claims that he "has been widely recognized as one of the top research scientists in the world," and his book states that he "has gained national recognition for his research into diabetes, cancer, leukemia, and AIDS." Yet he, too, has had nothing published in a recognized scientific journal.

"Alkalize or Die" eftir Dr. Theodore A. Baroody - Það munar ekki um það.  Skelfandi titill, ekki laust við að maður byrji að skjálfa í hnjánum.  Grípið mig!!  Sjáið þið fyrir ykkur Laufeyju Steingríms öskra á næringarfræðifyrirlestri "étið meira grænmeti ellegar deyið!!!"  Hér má sjá heimasíðu þessa kíropraktors og Naturopaths (Dr. hér merkir ekki læknir).  Það er dásamlegt hversu ófagmannlegir bókatitlar kuklara eru, þannig að maður þarf ekki einu sinni að líta inn fyrir kápuna. 

"The Acid-Alkaline Diet" eftir Christopher Vasey.  Annar Naturopath en það er víst fínn titill í kuklinu.

Rúsínan í pulsuendanum:  Í appelsínugula "Vissir þú..." dálknum auglýsir Solla "Alkalive green" duftið með mynd af dollunni og segir hvar það fæst.  Inntaka græna duftsins í vatni á að vera "...ótrúlega auðveld og fljótleg leið" til að verða basískari.   Af hverju finnst kuklurum sjálfsagt að auglýsa vörur um leið og þeir fræða fólk um heilsufræði sín?  Hvað yrði sagt um lækni sem auglýsti sýklalyf um leið og hann fræddi fólk um sýkingar?  Læknirinn yrði ásakaður harðlega fyrir að skorta hlutleysi og gera sig sekan um að hygla lyfjaframleiðendum.  Mál hans biði hnekki þar sem ekki væri ljóst hvort að tilgangur hans væri að fræða eða selja.  Siðareglur lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks leyfa þetta ekki.  Hvers vegna ætti annað fólk sem fjallar um heilsu að leyfa sér þetta?  Er fólk í náttúrulækningum einhvers annars eðlis siðferðislega?  Byggir trúverðugleiki þeirra á einhverju allt öðru en fagmannlegum vinnubrögðum? 

Ég leyfi Sollu að eiga síðustu orðin:

"..., ég skal segja þér allt um himalayakristallinn í næsta blaði ... "  

 


Loksins loksins! Pétur Tyrfingsson formaður Sálfræðingafélags Íslands andmælir kuklinu

Pétur Tyrfingsson sálfræðingur og formaqður Sálfræðingafélags Íslands stóð sig frábærlega í viðtali sem tekið var við hann í Kasljósi gærdagsins.  Þar færði hann afar sannfærandi og fjölmörg rök fyrir því af hverju hlutir eins og höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun, homeopathia, lithimnulestur, Bowen-tækni og fleira í sama dúr eru algerar staðleysur og því kukl, sem hafi möguleika á því að skaða fólk tilfinningalega og eigi ekkert erindi inní heilbrigðiskerfið.  Meðferð fagaðila með slíkum aðferðum sé óafsakanleg og brjóti í bága við starfsreglur fagstétta.  Ósannaðar og umdeildar aðferðir sé ekki hægt að nota og staðhæfa að lækni eða bæti heilsu.  Sönnunarbyrðin liggi hjá þeim sem komi með hina nýju aðferð rétt eins og við allar nýjar aðferðir sem kynntar eru í hinu hefðbundna vísindasamfélagi.  Viðtalið kom í kjölfar greinar Gunnars Gunnarssonar sálfræðings í Mbl um ágæti höfðuðbeina- og spjaldhryggsjöfnunar við einvherfu og svargreinar Péturs í Mbl s.l. sunnudag.

Pétur benti t.d. á að kuklið á ekkert skylt við heilbrigða skynsemi og jafnvel gömul ömmuráð við kvillum væru mögulega gagnlegri og ekki uppfull af fölskum loforðum.  Sú ógrynni af sjúkdómum sem höfuð- og spjaldhryggjajöfnun ætti að geta læknað væri fjarstæða og fræði þessarar greinar stæðust ekki samanburðarrannsóknir.  Staðhæfingar um að hægt væri að hreyfa við mænuvökvanum með því að snerta ímyndað orkusvið í kringum höfuðið eða mænuna standast ekki vísindalega skoðun og falla ekki að neinni viðurkenndri þekkingu á lífeðlisfræði líkamans. 

Ég prufaði að leggjast á bekk hjá höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara á heilsusýningu í Egilshöll 2005.  Ég gerði þetta til að vera jákvæður og gefa viðkomandi tækifæri til að reyna að sannfæra mig um eitthvað sem ég hafði ekki minnstu ástæðu til að halda að gæti gerst út frá þeim forsendum sem voru gefnar í fræðum þeirra.  Aðferðin átti að laga m.a. þunglyndi og mér átti að líða betur eftir meðferðina.  Upplifunin var nákvæmlega engin - reyndar var hún sú að meðferðaraðilinn hélt sig hafa fært heilahimnu mína um 1 cm !!?? með því að halda höndunum rétt utan við höfuð mitt.  Líffærafræðilega og samkvæmt öllu því sem við vitum um byggingu heilans er slíkt ómögulegt nema með því að rífa heilann úr skorðum sínum, kremja og slíta frá heilastofninum.  Sem sagt vel heppnuð heilahimnufærsla en dauður sjúklingur.  Ég þurfti að gæta mín að fara ekki hreinlega að skellihlæja yfir trú höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnarans, sem var ákaflega elskuleg manneskja og vel meinandi.  Ég hugsaði með hryllingi til alls þess tíma og fjármuna sem hún og þau fjölmörgu ungmenni sem eru nú í kuklinu hafa eytt í að læra þetta bull og iðka nú líkt og óafvitandi klæðskerar nýju fata keisarans. 

Fagmennska og rökfesta Péturs var með eindæmum góð og það var ljóst að hann hafði kynnt sér málin ákaflega vel.  Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé fagmanneskju í heilbrigðiskerfinu koma fram í sjónvarpi og ekki aðeins gagnrýna tiltekna kuklaðferð, heldur fletta ofan af allri slíkri starfsemi með framúrskarandi málflutningi og festu.  Ég hvet alla til að hlusta á viðtalið.  Upplýsingar um einstaka kuklgreinar má finna á quackwatch.org og í greinum um hindurvitni og kukl á síðum Vantrúar.

Nú á ég mér nýja hetju og hún heitir Pétur  Wink

 


Fallnar hetjur

Um miðbik 20. aldarinnar náði virðing almennings fyrir nútíma læknisfræði og vísindum hámarki.  Stórfelldar framfarir urðu á sviðum skurðlækninga og smitsjúkdómalækninga og ungbarnadauði minnkaði á dramatískan máta.  Læknar voru litnir á sem eins konar guðir því fólkið var þeim og vísindunum svo þakklátt og taldi þá vita best.  Fólk sá að vísindin og rökhyggjan virkaði og bætti lífsgæði þeirra á mjög áhrifaríkan máta. 

Nú 40-50 árum síðar er þetta óðar að gleymast.  Fólk er vant því að fá hátækniþjónustu og að börnin þeirra vaxi úr grasi án teljandi áfalla.  Fólk er farið að gleyma því af hverju það hefur það svo þægilegt í dag, af hverju það þarf ekki að hreinsa kamarinn sinn sjálft, af hverju það deyr ekki lengur úr lungnabólgu á besta aldri eða örkumlast hægt og rólega úr holdsveiki.  Læknarnir og vísindamennirnir eru ekki lengur hetjur, heldur ófullkomnir heilbrigðisstarfsmenn sem verða á sífelld mistök og eru hluti af stóru bákni sem skilar "tapi" á ári hverju.  Langur biðtími, hneyksli, lokanir, dýr lyf, hnýsni í persónuupplýsingar, mótsagnakenndar niðurstöður rannsókna og annað neikvætt er sífellt borið á borð almennings gegnum fjölmiðla landsins á meðan kuklarar fá ókeipis auglýsingu á remidíum sínum gegnum kynningar í blöðum og sjónvarpi.   Kerfi kolbrenglaðra hugmynda um starfsemi líkamans og hvernig hægt sé að lækna fólk fær að flæða óhindrað og ógagnrýnt um upplýsingarásir þjóðfélagsins með þeim árangri að almenningur eyðir nú hundruðum milljóna árlega í argasta kukl sér til tímabundins hugarléttis.  Krafan um viðurkenningu kuklins verður æ háværari og þær raddir hafa heyrst að ríkið eigi að reka kuklstofnanir líkt og Þjóðverjar eða Englendingar hafa leiðst út í, í einhverjum mæli.   Ég sé fyrir mér að brátt verði ekki milljónum heldur milljörðum eytt í þessi endurgerðu "nýju föt keisarans" hér á landi.  Þessi þróun er verulega varasöm og veldur ekki bara töf á greiningu sjúkdóma og einstaka sorgleikjum heldur einnig skemmdum á menntun þjóðarinnar. 

Nýlega greindi ég útbreidda sveppasýkingu í húð barns, hvers foreldri hafði farið fyrst til hómeopata og fengið smyrsl hjá honum sem innhélt m.a. vaselín.  Útbrotið stækkaði.  Barnið vældi stanslaust á biðstofunni af vanlíðan.  Sýkingin er auðveldlega meðhöndluð með réttri greiningu og lyfjafræðilega framleiddu lyfi úr apóteki.  Ég get ekki álasað sterkt foreldrinu því hegðun þess er einungis einkenni þjóðfélags sem er orðið sjúkt af ranghugmyndum kuklsins.

Professor Richard Dawkins er einn af þeim vísindamönnum sem hefur tekið að sér að fjalla um þessi mál og vara við hættunni af þessari þróun.  Í nýlegri tveggja þátta röð heimildamyndar sem hann kallar "Óvinir skynseminnar" tekur hann fyrir hjátrú og haldvillur kuklsins.  Hér er hlekkur á upptöku af seinni þættinum.  Það er öllum hollt að horfa á þessa mynd.


Kominn úr bloggfríi

Nú er bloggfríi mínu lokið enda búinn að hlaða á batteríin eftir ferðir sumarsins á hálendið.  Ég gekk í góðu föruneyti Fimmvörðuhálsinn, Laugaveginn og Öskjuveg.  Þá fór ég í skemmtilega jepplingaferð með minni heittelskuðu um Snæfellsnesið.  Það nes hættir aldrei að koma mér á óvart hvað fegurð varðar.  Nýji þjóðgarðurinn yst á nesinu er til fyrirmyndar hvað merkingar varðar og það gerði ferðina skemmtilegri.  Snæfellsnesið skartar miklu fuglalífi og þar hafði krían greinilega nóg æti.

Nú stendur Græna ljósið fyrir kvikmyndahátíð í Regnboganum og mun þar sýna m.a. góðra mynda, Michael Moorenýjasta afsprengi baráttumannsins Michael Moore sem heitir "Sicko".  Myndin fjallar um kosti og galla Bandaríska heilbrigðiskerfisins og ber hann það einkum saman við hið Kanadíska.  Á netinu rakst ég á umfjöllun Kanadísks fréttablaðs um læknisfræði um myndina en það fékk nokkra sérfræðinga þar í landi til að gefa álit sitt.  Myndinni var bæði hælt og gefin gagnrýni.  Athyglisvert er að einn viðmælandanna heitir Adalsteinn Brown.

Í ritstjórnargrein New York Times 12. ágúst s.l. er fjallað í góðu en gagnorðu yfirliti um takmarkanir Bandaríska heilbrigðiskerfisins.  Greinin heitir "World's best medical care?".  Ýmislegt í greininni kannaðist ég við frá því að ég starfaði í New York árin 1998-2004.  Þó að ýmsir gallar séu á kerfinu þeirra má margt læra af Bandaríkjamönnum, eins og t.d. öguð vinnubrögð og viðhald lágmarks staðla í umönnun án undantekninga.  Hér á ég við hluti eins og að leggja aldrei bráðveikt fólk inn á ganga legudeilda og koma öldruðu fólki fyrir á hjúkrunarheimilum í stað langlegu á bráðadeildum.  Í fátækasta hverfi NY borgar, The Bronx var betur staðið að þessum málum en í Reykjavík.

Ég vona íslenskt heilbrigðisstarfsfólk og stjórnendur í kerfinu okkar sjái "Sicko" því myndin er prýðis hugvekja um þessi mál. 


Þrýstum á stóru iðnríkin

Með hverjum deginum sem líður verður ljósara að hlýnun jarðar er óeðlilega mikil og hraði hennar eykst.  Djúpir fossar eru komnir í jökulstál Grænlandsjökuls og hætt er við að eftir 150-200 ár verði hann allur líkt og Vatnajökull.   Í mynd Al Gore, "An inconvenient truth" eru leiddar líkur að því að með bráðnun Grænlandsjökuls og álíka stórs svæðis á Suðurskautslandinu muni yfirborð sjávar hækka um 6 metra.  Ég endurtek 6 METRA!!!   Með þessu áframhaldi getum við hætt að hafa áhyggjur af Kvosinni, Reykjavíkurflugvelli og gamla miðbænum kringum Lækjargötu því hann yrði hreinlega undir sjó.

Það er ekki mikið sem við Íslendingar setjum í andrúmsloftið af koltvísýrlingi (CO2) og því er mjög mikilvægt að þrýsta á lönd eins og Bandaríkjamenn, Rússland og Kína til að minnka þeirra losun.  Ingibjörg Sólrún, ef þú lest þetta, vinsamlegast sendu þessum þjóðum kveðju.


mbl.is Íslenskir jöklar horfnir eftir 200 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindi eða gervivísindi - þekkjum þau í sundur

VísindiGervivísindi (kukl)
Niðurstöður þeirra eru f.o.f. birtar í vísindatímaritum sem taka aðeins við efninu eftir rýni nefndar óháðra vísindamanna og viðhalda ströngum stöðlum um heiðarleika og nákvæmni.Niðurstöður þeirra eru birtar í ritum sem beint er að almenningi. Það er engin rýni annarra, engir staðlar, engin leit að staðfestingu frá öðrum rannsóknum, og engar kröfur um nákvæmni.
Krafist er að hægt sé að endurtaka rannsóknina með sömu niðurstöðu; skýra þarf mjög nákvæmlega frá rannsóknaraðferðum svo þær megi framkvæma annars staðar og þær endurbættar.Niðurstöðurnar er ekki hægt að endurtaka eða sannreyna af öðrum. Rannsóknaraðferðunum, ef til staðar, er iðulega svo óljóst lýst að er ekki hægt að skilja hvernig þær fóru fram eða út á hvað þær gengu.
Horft er eftir villum eða neikvæðum niðurstöðum og þær rannsakaðar áfram því rangar tilgátur geta oft leitt til annarra réttra ályktana með endurskoðun hlutanna.Horft er framhjá neikvæðum niðurstöðum eða þær afsakaðar, faldar, logið um þær, minnkaðar, gefnar gerviskýringar, látnar líta út eðlilegar eða látnar gleymast hvað sem það kostar.
Með tímanum er meira og meira lært um þau efnislegu ferli sem rannsökuð eru.  Búin eru til tæki (t.d. rafeindasmásjá) byggð á því sem lærst hefur.Engin efnisleg fyrirbæri eða ferli finnast eða eru rannsökuð.  Engar framfarir verða; ekkert haldbært er lært.  Engin tæki eru smíðuð út frá þeim
Sannfæra með vísun í rannsóknargögn, með rökræðu sem byggist á rökrænni og/eða stærðfræðilegri málfærslu, að því marki sem gæði gagnanna leyfa. Þegar nýjar niðurstöður eru betur studdar en þær gömlu, eru þær nýju teknar upp og þær gömlu aflagðar.Sannfæra með vísun í trú og traust. Gervivísindi hafa sterkan trúarlegan blæ: þau reyna að snúa, en ekki sannfæra. Maður á að trúa þeim þrátt fyrir staðreyndir málanna, ekki vegna þeirra.  Upphaflega hugmyndin er aldrei aflögð, sama hvað staðreyndirnar segja.

Vísindamaður vinnur ekki við, mælir með, né markaðssetur ósannaða vöru eða þjónustu. 

Hann segir frá bæði kostum og göllum meðferðarúrræða.

Gervivísindamaður (kuklari) vinnur fyrir sér að hluta eða að fullu með því að selja vafasamar heilsuvörur  (t.d. bækur, námskeið, og fæðubótarefni) og/eða þjónustu (t.d. ofnæmisgreiningu, persónulestra og skilaboð að handan).  Hann segir ekki frá göllum/ takmörkunum vörunnar eða þjónustunnar.

Skíðaparadísir - eingöngu erlendis?

Nú hef ég ekkert bloggað í rúma viku enda best á stundum að segja minna en meira.  Ég fór í vikulangt skíðaferðalag í Selva (Wolkenstein) í ítölsku ölpunum.  Svæðið var áður undir stjórn Austurríkis og hét þá Suður-Týról.  Þar er enn mikið töluð þýska en flestir tala svokallað ladino sem er sérstakt latneskt tungumál með ítölskun og þýskum áhrifum.   Ferðin er farin á vegum Úrval-Útsýn og var fararstjórnin til mikils sóma. 

Bærinn er í 1560 metra hæð og flestar brekkur byrja í 2200-2500 metra hæð þannig að það snjóar í þeim þó að vor sé komið í neðri byggðir.  Reyndar voru hlýindin það mikil í lok febrúar að snjóinn tók nær alls staðar upp nema á brautunum sem eru fylltar af framleiddum snjó á næturna.  Það er því tryggt að maður skíði ekki á grasbala í ferðinni.  Skíðapassinn veitir manni óheftan aðgang að svæði sem spannar tugi ef ekki nokkur hundruð kílómetra og í lokinn getur maður skoðað á netinu Marmoladahvar og hversu hátt maður fór og hversu mikið maður hafði skíðað.  Ég lauk um 160 km á 6 dögum í um 91 lyftuferðum.  Toppurinn á ferðinni var að ferðast með þyrlu uppá jökultopp sem kallast því skemmtilega nafni Marmolada og er í um 3400 m hæð.  Þaðan var skíðað og tók ferðin heim á hótel allan daginn.   Það er sem sagt hægt að skíða á svæðinu allan daginn án þess að fara nokkru sinni tvisvar í sömu brekku.   Eftir ferð í þetta draumaland var ekki laust við að manni væri hugsað til okkar litlu Bláfjalla.   Hvað er hægt að gera til að kreista út nokkur ár til viðbótar áður en hitnun jarðar gerir út af við skíðaiðkun hér?

Í nýlegri grein í mbl stakk starfsmaður svæðisins uppá því að reistar yrðu snjófoksgirðingar víðar á svæðinu til að binda snjóinn en hann fýkur annars bara burt.  Það væri ekki mikið vit í því að hefja snjóframleiðslu sem svo fyki burt.  Ég verð að segja að þetta hljómar mun viturlegra en að halda áfram að hrúga niður lyftum á svæðið.   Það þarf að gera eitthvað traust og árangursríkt fyrir skíðasvæðið, annars er þetta búið spil.  Hér þurfa okkar bestu verkfræðingar að leggja hausinn í bleyti og koma með góðar lausnir.  Þó að það sé dásamlegt að fara til fjarlægra landa til að skíða, verður að reyna eitthvað raunsætt til að halda í skíðaiðkun hérlendis.  Þessi íþrótt er einfaldlega of góð og skemmtileg til að missa af henni alfarið hér.

 


Kompás leiðir líkur að stórfelldu misferli af hálfu stjórnanda á meðferðarheimilinu Byrginu

Það er stórvafasamt fyrir fjölmiðla að vasast í möguleg sakamál en ég skil samt löngun þeirra að Guðmundur Jónssson forstöðumaður Byrgisinsvilja fletta ofan af einhverju sem lítur ekki vel út.   Hættan við þetta er sú að sýnd séu gögn í röngu samhengi þannig að sök gæti virst mun stærri en í raun er, nú eða einhver bendlaður við mál að ósekju.  Dóm götunnar er erfitt að taka til baka.  Í svona málum þarf mikillar nákvæmni við og gæta þess að allar upplýsingar séu réttar og metnar út frá vitnisburði allra.  Þetta ætti því að vera í höndum rannsóknarlögreglu.

En hvað á að gera ef stjórnendur svona stofnunar, starfandi fagaðilar þar, heilbrigðisyfirvöld, fjármálaeftirlit og lögregluyfirvöld standa sig ekki?  Hvað á að gera ef það er ekki hlustað á þetta fólk sem kvartar?  Ef enginn þorir að kæra þó nægar ástæður séu fyrir hendi?  Verða þá ekki einkaaðilar með hjálp fjölmiðla að grípa inní?  Einhvers staðar þarf að byrja baráttuna og fjölmiðlar hafa geysilegan áhrifamátt og því óbeint vald til þess að hreyfa við hlutum.   Ég er ekki viss um að það sé alltaf hægt að álasa fjölmiðlum fyrir svona umfjöllun.  Fjölmiðlar eru nokkurs konar sjáaldur þjóðarinnar og þessar fréttir hljóta að hafa nokkurn fælimátt gagnvart illvirkjum.

Í kjölfar svona frétta hefur skort vitræna siðferðislega umræðu um hlutverk fjölmiðla og fólk hefur varpað fram ásökunum fram og til baka.  Það er auðvelt að áfellast fjölmiðla, sérstaklega ef sá aðili sem um er rætt fremur sjálfsmorð, en ég held að hvert tilfelli verði að skoða fyrir sig.  Málfrelsi þarf að koma með ábyrgð og hina ýmsu siðferðislegu verðmæti eða hagsmuni þarf að meta hverju sinni.  Ég sé t.d. ekki tilgang í því að birta frétt um útbrunninn glæpamann sem er hættur að vera nokkrum ógnun en meti þáttagerðamaður það svo að efnið sé áríðandi vegna tregðu í löggæslu- og réttarkerfinu, neyðar þolenda og hugsanlegrar áframhaldandi hættu af brjótanda, get ég hugsanlega séð að varfærin frétt um málið þjóni tilgangi og geti verið til gagns þegar á heildina er litið.  Í því sambandi þarf að taka í reikninginn að ættingjar brjótanda geta liðið fyrir fréttina og því þarf ástæðan fyrir birtingunni að vera þeim mun sterkari. 

Í þessu tilviki þar sem maðurinn er umsjónarmaður meðferðarheimilis er um mjög stóra hagsmuni að ræða, þ.e. hagsmuni mikils fjölda fólks.  Heilsa og líðan margra til ófyrirséðrar framtíðar er í húfi.  Þá virðast einnig miklir fjárhagslegir hagsmunir í veði.  Sé um mikla sóun á fé ríkisins til meðferða að ræða er það stóralvarlegt mál.  Margar heilbrigðisstofnanir eru sveltar fjárveitingum og þurfa sífellt að skera við nögl og takmarka starfsemi sína.  Það er verulega alvarlegt mál ef tugum milljóna króna er skotið undan af ófaglæruðum aðilum sem byggja meðferðir á halelújasamkomum og múgsefjun.   Þetta er bæði fjárhagslegt og faglegt ábyrgðarleysi af hálfu yfirvalda.  Svona starfsemi á ríkið ekki að styðja. 

Guðmundur leggur hendur á í ByrginuÞað þarf að koma trúarofstæki út úr áfengis- og fíkniefnameðferðum.   Það samræmist ekki mannréttindum né faglegum starfsaðferðum að fólk sé ítrekað hvatt til að trúa á æðri mátt í svokallaðri tólf spora meðferð sem ekki virðist mega hreyfa við.  Það er margt gott í þessum sporum og víkur það að innri skoðun og breytingu á hegðun en tengingu þeirra við trúarbrögð þarf að linna.  Í byrginu virðist hafa farið fram öfgakennd útgáfa af þessum tólf sporum og kristni.  Það er stutt í öfgarnar þegar opnað er á "fagnaðarerindið".   Sjálfmiðað fólk getur notfært sér veikleika eiturlyfjaneytenda og notað erindi í biblíunni til að véla fólk til ákveðinna skoðana og hegðunar.  Þegar trúariðkun er í höndum slíkra glæpamanna er ekki spurt "af hverju".  Fólkið bara fylgir og hlýðir.

Vonandi kemur eitthvað jákvætt út úr þessari frétt Kompás þó mörg munu tárin falla.  Það er deginum ljósara að meðferðarkerfi fíkla þarf að skoða vandlega og ríkið og heilbrigðiskerfið þarf að taka fulla ÁBYRGÐ!

 

 


Frægir í form - síðasti þátturinn fór í loftið í gær

previewFifNú er þáttunum "Frægir í form" lokið og var fimmti og síðasti þátturinn sýndur á Skjá einum í gærkveldi.   Ég var ánægður með þáttinn og fannst hann skila jákvæðni og hvatningu.  Í heild vantaði e.t.v. eitthvað uppá að serían skilaði skýrari heilsufarsstefnu en ég vona t.d. að þau skilaboð að þyngdin er ekki eini mælikvarðinn á heilsufar hafi skilað sér.  Hinn útreiknaði ástandsaldur sýndi t.d. að Ragnheiður Sara var betur sett eftir þessar 6 vikur þrátt fyrir að vigtin sýndi sömu þyngd.   Hún hafði skipt út fitu fyrir vöðvamassa og aukinn forðasykur í lifur og vöðvum.   Það var ákaflega gott að vinna með öllum þátttakendunum og þau sýndu mikinn dugnað og áræði.  Það er ekki auðvelt að setja heilsufarsvandamál sín á borð fyrir alla landsmenn. 

Ykkur til upplýsingar þá er ástandsaldurinn reiknaður út frá samanteknum upplýsingum um lífaldur, hæð, þyngd, blóðþrýsting, blóðfitur, reykingasögu, næringarsögu og venjur, svefnvenjur og stress, aðlögunarhæfni og svo getu í þolprófi, þremur styrktaræfingum og liðleikamælingu.  Lokamarkmið hvers og eins er að ná mínus 10 árum í ástandsaldri miðað við sinn raunverulega lífaldur. 

Hvað finnst lesendum um þættina Frægir í form? 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband