Færsluflokkur: Ferðalög

Átti krók á móti bragði þjófs í Barcelona

Ákaflega sjaldan hef ég lent í því að vera rændur og aldrei svo ég viti til af vasaþjófi, en sú lukka rann út að morgni dags í Barcelona fyrir um viku síðan. 

Ég fór með spússu (esposa) minni og vinum til Barcelona til þess m.a. að fara á U2 tónleika.  Morgun einn fyrir um viku síðan fórum við í lestarferð með neðanjarðarkerfinu og var margt um manninn.  Þegar ég kom inn í lestina náði ég að grípa um stöng sem stóð fyrir miðju gólfi, beint fyrir framan útgöngudyrnar.  Ég var klæddur í rúmlega hnésíðar stuttbuxur með víðum hliðarvösum og geymdi veskið mitt hægra megin í vasa sem lokað var aftur með smellu.  Síðastur farþega inní lestina var ungur sólbrúnn maður, vel til hafður, sem vildi ná taki á miðjustönginni sem ég og fleiri héldu í.  Eftir að lestin fór af stað skipti hann um hendi og tók með þeirri vinstri í súluna og var þá klesstur upp við mig á afkárlegan máta.  Ég sá að hann hefði auðveldlega getað tekið í handfang við hurðina og leiddist þetta.  Ég sagði því við hann á ensku: "Pardon, but I suggest that you use your right hand to hold onto the pole"  því staða hans inní þvögunni var mun betur til þess fallin að hann notaði þá hægri.  Hann gerði það og svo leið nokkur stund þar til að lestin staðnæmdist við næstu stöð. 

Hurðin opnaðist og fóru margir úr lestinni og þar á meðal þessi ungi maður (líklega liðlega tvítugur) með vandræðaganginn.  Skyndilega verður mér ljóst að eitthvað gæti verið að og ég þreifa niður í buxnavasann og finn strax að veskið mitt er farið.  Ég beið ekki boðanna og rauk út á eftir unga manninum.  Hann var rétt kominn út og viti menn, hann hélt á veskinu mínu fyrir framan sig þannig að ég þekkti það strax.  Ég hrifsaði það hratt úr höndunum á honum og fór rakleiðis aftur inní lestina.  Ég rétt sá svipinn á þjófnum og var hann frekar svipbrigðalaus og reyndi hann ekki að beita neinu ofbeldi og var hálf lamaður þarna á stöðvarpallinum í smá stund.  Líklega hefur hann óttast að ég reyndi að kalla í lögreglu, en þetta gerðist hratt þannig að ég geri mér ekki grein fyrir því hvað hann gæti hafað hugsað.  Feginleikinn yfir því að hafa endurheimt veskið (með peningum og kortum í) var mikill og ég prísaði mig sælan yfir því að þetta endaði ekki illa.

Eftirá að hyggja held ég að þetta hugboð mitt um að maðurinn væri að stela af mér hafi byggst á því að ég lærði á 7 ára dvöl minni í New York (1998-2004) að maður yrði alltaf að hafa varann á sér varðandi eitthvað sem gæti gerst misjafnt eða ógnað manni í umhverfinu.  Þá var þjófnaður á hjóli dóttur minnar úr lokaðri hjólageymslu á Rekagranda ári áður, einnig til þess að ýta undir varkárni hjá manni hvað þetta varðar.  Þjófurinn í Barcelona leit ekki út fyrir að vera fátækur maður eða einhver krimmi.  Hann var ósköp venjulegur að sjá og því var ekkert sem varaði mann við annað en frekar sérkennilegur vandræðagangur hans með að koma sér fyrir í lestinni. 

Ég segi því:  Varið ykkur í mannþröng í útlöndum, sérstaklega í lestarkerfunum þar sem þjófar geta notfært sér það að maður uppgötvi þjófnaðinn ekki fyrr en lestin er farin af stað á ný.  

Tónleikar U2 voru svo af sjálfsögðu alveg frábærir og gleðin var óspillt fyrst að þessu eina atviki var forðað frá því að gera ferðina að hrakför.


Ferðasaga - boðið í brúðkaup til Indlands

Síðustu tvær vikur síðasta árs fórum við Soffía til Indlands m.a. til að þiggja boð í brúðkaup í Kolkata (hét áður Calcutta).  Þetta var tilboð sem var ekki með góðu móti hægt að hafna.  Mann hafði bara dreymt dagdrauma um að sjá undur Indlands, landið sem ól af sér Gandhi og hafði margoft töfrað okkur allri þeirri fjölbreyttu menningu sem þar er.  Einnig vissi maður af allri fátæktinni og misrétti borgara og kvenna sem kraumar þarna undir.

Við skrifuðum ferðasögu Indlandsferðarinnar og var hún fyrst birt í ársriti Austur-Húnvetninga, Húnavöku 2008.

Nú hef ég sett upp ferðasöguna með fullt af myndum á heimasíðuna mína.  Bon voyage!


Esjusótt

Ég er veikur.  Ég er heltekinn af Esjusótt.  Fjórum sinnum hefur mig slegið niður með sóttinni og engin lækning er í sjónmáli.  Ég hef myndað einkennin í gríð og erg - alveg sjúkt.  Móðir mín hefur áhyggjur af öryggi mínu og hún Soffía mín hefur lýst yfir því að ég sé "ekki eðlilegur" eftir að hafa séð hve mikið ég mynda sjúkdómsvaldinn. 

Í dag var einstakt veður og sérlega tært loftið.  Skýin voru há og lág.  Þau tóku þátt í litrófinu og afkvæmi þeirra snjórinn, freðinn á fjallstoppnum endurvarpaði enn öðrum bylgjulengdum. 

Af Þverfellshorni 11-03-08

Mun ég ná mér? Wink


Snjógervingar í Esjuhlíðum

Kannski er það bara þjóðarrembingur í mér en hvergi hef ég fundið ferskara loft en á Íslandi, sem gjarnan leikur um á mildum vetrardegi eins og 3. mars s.l. þegar ég gekk mér til ánægju á Esjuna.  Það er einhver sérstök fersk blanda í loftinu, e.t.v. örlítið sölt, sem hressir mann verulega og nærir hugann.  Þau 14 önnur lönd sem ég hef heimsótt um ævina hafa ekki gefið mér þessa tilfinningu.

Myndin hér að neðan er frá Esjugöngunni en þennan mánudag hafði aðeins einn maður farið á toppinn á undan mér ef marka má ný spor í snjónum.  Hins vegar voru einkennileg merki gamalla spora, nokkurs konar snjógervingar þeirra þar sem laus snjór í kringum þau hafði fokið burt. 

Snjógervingar


Dularfull óvissuferð

Eldsnemma í fyrramálið fæ ég og mín kjereste símtal.  Ég veit að við fáum símtalið en ekki frá

Í dimmu Drekagili - eintóm hamingjahverjum.  Okkur verður sagt hvert við eigum að fara.  Fyrir mánuði síðan fengum við ómerkt og óundirritað boðskort um að okkur væri boðið í óvissuferð.  Dagurinn er runninn upp og við höfum ekki guðmund um það hver bauð okkur.  Spennandi... eða e.t.v. dálítið krípí.  Hvað ef þetta er bara hrekkur eða einhver brjálæðingur ætlar að ræna okkur?  Hljóma ég paranoid? Crying

Á maður að fara í svona ferð vitandi ekki neitt hver lagði á ráðin og hvað er í vændum?  Jú, annað væri púkó.  Við tökum stökkið.  Ég lofa ferðasögu komist ég aftur heim.  dadodado...darumdarumm..twilight zone...

 

 

 

Farskjótinn

 

 


Kominn úr bloggfríi

Nú er bloggfríi mínu lokið enda búinn að hlaða á batteríin eftir ferðir sumarsins á hálendið.  Ég gekk í góðu föruneyti Fimmvörðuhálsinn, Laugaveginn og Öskjuveg.  Þá fór ég í skemmtilega jepplingaferð með minni heittelskuðu um Snæfellsnesið.  Það nes hættir aldrei að koma mér á óvart hvað fegurð varðar.  Nýji þjóðgarðurinn yst á nesinu er til fyrirmyndar hvað merkingar varðar og það gerði ferðina skemmtilegri.  Snæfellsnesið skartar miklu fuglalífi og þar hafði krían greinilega nóg æti.

Nú stendur Græna ljósið fyrir kvikmyndahátíð í Regnboganum og mun þar sýna m.a. góðra mynda, Michael Moorenýjasta afsprengi baráttumannsins Michael Moore sem heitir "Sicko".  Myndin fjallar um kosti og galla Bandaríska heilbrigðiskerfisins og ber hann það einkum saman við hið Kanadíska.  Á netinu rakst ég á umfjöllun Kanadísks fréttablaðs um læknisfræði um myndina en það fékk nokkra sérfræðinga þar í landi til að gefa álit sitt.  Myndinni var bæði hælt og gefin gagnrýni.  Athyglisvert er að einn viðmælandanna heitir Adalsteinn Brown.

Í ritstjórnargrein New York Times 12. ágúst s.l. er fjallað í góðu en gagnorðu yfirliti um takmarkanir Bandaríska heilbrigðiskerfisins.  Greinin heitir "World's best medical care?".  Ýmislegt í greininni kannaðist ég við frá því að ég starfaði í New York árin 1998-2004.  Þó að ýmsir gallar séu á kerfinu þeirra má margt læra af Bandaríkjamönnum, eins og t.d. öguð vinnubrögð og viðhald lágmarks staðla í umönnun án undantekninga.  Hér á ég við hluti eins og að leggja aldrei bráðveikt fólk inn á ganga legudeilda og koma öldruðu fólki fyrir á hjúkrunarheimilum í stað langlegu á bráðadeildum.  Í fátækasta hverfi NY borgar, The Bronx var betur staðið að þessum málum en í Reykjavík.

Ég vona íslenskt heilbrigðisstarfsfólk og stjórnendur í kerfinu okkar sjái "Sicko" því myndin er prýðis hugvekja um þessi mál. 


Skíðaparadísir - eingöngu erlendis?

Nú hef ég ekkert bloggað í rúma viku enda best á stundum að segja minna en meira.  Ég fór í vikulangt skíðaferðalag í Selva (Wolkenstein) í ítölsku ölpunum.  Svæðið var áður undir stjórn Austurríkis og hét þá Suður-Týról.  Þar er enn mikið töluð þýska en flestir tala svokallað ladino sem er sérstakt latneskt tungumál með ítölskun og þýskum áhrifum.   Ferðin er farin á vegum Úrval-Útsýn og var fararstjórnin til mikils sóma. 

Bærinn er í 1560 metra hæð og flestar brekkur byrja í 2200-2500 metra hæð þannig að það snjóar í þeim þó að vor sé komið í neðri byggðir.  Reyndar voru hlýindin það mikil í lok febrúar að snjóinn tók nær alls staðar upp nema á brautunum sem eru fylltar af framleiddum snjó á næturna.  Það er því tryggt að maður skíði ekki á grasbala í ferðinni.  Skíðapassinn veitir manni óheftan aðgang að svæði sem spannar tugi ef ekki nokkur hundruð kílómetra og í lokinn getur maður skoðað á netinu Marmoladahvar og hversu hátt maður fór og hversu mikið maður hafði skíðað.  Ég lauk um 160 km á 6 dögum í um 91 lyftuferðum.  Toppurinn á ferðinni var að ferðast með þyrlu uppá jökultopp sem kallast því skemmtilega nafni Marmolada og er í um 3400 m hæð.  Þaðan var skíðað og tók ferðin heim á hótel allan daginn.   Það er sem sagt hægt að skíða á svæðinu allan daginn án þess að fara nokkru sinni tvisvar í sömu brekku.   Eftir ferð í þetta draumaland var ekki laust við að manni væri hugsað til okkar litlu Bláfjalla.   Hvað er hægt að gera til að kreista út nokkur ár til viðbótar áður en hitnun jarðar gerir út af við skíðaiðkun hér?

Í nýlegri grein í mbl stakk starfsmaður svæðisins uppá því að reistar yrðu snjófoksgirðingar víðar á svæðinu til að binda snjóinn en hann fýkur annars bara burt.  Það væri ekki mikið vit í því að hefja snjóframleiðslu sem svo fyki burt.  Ég verð að segja að þetta hljómar mun viturlegra en að halda áfram að hrúga niður lyftum á svæðið.   Það þarf að gera eitthvað traust og árangursríkt fyrir skíðasvæðið, annars er þetta búið spil.  Hér þurfa okkar bestu verkfræðingar að leggja hausinn í bleyti og koma með góðar lausnir.  Þó að það sé dásamlegt að fara til fjarlægra landa til að skíða, verður að reyna eitthvað raunsætt til að halda í skíðaiðkun hérlendis.  Þessi íþrótt er einfaldlega of góð og skemmtileg til að missa af henni alfarið hér.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband