Færsluflokkur: Lífsskoðanir
Eru sáðkorn villimanna á meðal vor?
2.9.2007 | 17:52
Titillinn er minn en ég vil með þessari færslu vísa á grein Sam Harris, The sacrifice of Reason, í The Washington Post nýlega. Þar rekur hann hvernig fornir menningarheimar hafa jafnan fórnað mannslífum til að þóknast guðunum og hvernig kristnin nýtti sér þá hugmynd einnig. Þá vitnar hann í nýleg bréf "Móður Theresu" sem nýlega hafa verið gerð opinber, en í þeim lýsir hún djúpum efa um tilvist Guðs og að hún í raun trúi á hann. Lokasetning Sam Harris er hreint frábær.
Ég las bók hans "The End of Faith" og mæli ég með henni fyrir þá sem vilja kynna sér gagnrýni á trúarbrögð frekar.
Afturför
8.6.2007 | 23:18
Þegar ég var unglingur 1978-84 lærði ég um þróunarkenninguna, fyrst í gagnfræðiskóla og síðar meira í menntaskólanum. Á þeim tíma var óhugsandi í mínum huga að einhver tryði rykfallinni biblíusögu um gráhærðan mann á himnum sem átti að hafa búið til jörðina og himininn og allt líf á 6 dögum.. og hvílt sig þann sjöunda. Hvílík fantasía! Ég man eftir því að hafa séð gamla svart-hvíta bíómynd (Inherit the Wind, 1960) þar sem deilt var um þetta fyrir rétti og niðurstaðan var óumræðanlega sú að sköpunarsinninn reyndist vera kreddufullur og heimskur bókstafstrúarmaður. Ég prísaði mig sælan fyrir að búa ekki í slíkum heimi og hugsaði hlýtt til þeirra góðu kennara sem ég fékk að njóta gegnum skólagönguna.
Bandaríkjamenn eiga tækniframförum og lýðræðisskipan að þakka fyrir þau lífsgæði sem þeir njóta, allt komið af sama hugsunarhætti og Charles Darwin beitti þegar hann vó og mat skoðun sína á nátttúrunni á fleyingu MS Beagle fyrir um 150 árum síðan. Trú á sköpunarkenninguna (sem er í raun bara saga, ekki kenning) og kennsla hennar sem sannleik í barnaskólum Bandaríkjamanna er móðgun við þessa hugsun og hugsjónina um að leita staðreynda og þekkingar úr náttúrunni óháð trúarsetningum. Bókstafstrúin í Bandaríkjunum er verulega hættuleg því sú þjóð hefur gífurleg áhrif á alþjóðavettvangi og á yfir að ráða stærsta og öflugasta her í heimi. Ég vil ekki hugsa til þess hvað gæti gerst ef einfeldingar mið- og suðurríkjanna næðu algerum völdum þar í landi. Sem betur fer er sterkur menntahópur í strandríkjunum og norðaustur horninu sem mun ekki láta þennan bjánaskap viðgangast endalaust. Svo eru bestu grínistar Bandaríkjanna sem betur fer mjög skynsamir og gera óspart grín af vitleysunni. Ég mæli t.d. með atriði George Carlin þegar hann fækkar boðorðunum 10 í tvö.
Þróunarkenningin og sköpunarkenningin báðar réttar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífsskoðanir | Breytt 9.6.2007 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Hefði gert slíkt hið sama
16.5.2007 | 14:10
Það er ekki tilviljun að Björn Bjarnason fékk svona margar yfirstrikanir. Það er ekki einungis Jóhannes í Bónus sem er ósáttur við hans gjörðir. Ég er ósáttur við að Björn hefur ekki sýnt réttindabaráttu húmanista á Íslandi neinn skilning. Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur tvisvar sótt um sömu réttindi og trúfélög fá, þ.e. að fá skráningu og sóknargjöld gegnum ríkið en var hafnað af nefnd dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Björn sýndi engan skilning. Svo frá janúar 2006 hefur Siðmennt reynt að fá í gegn lagabreytingartillögu þess efnis að lífsskoðunarfélög eins og Siðmennt (þ.e. félag sem hefur siðferðisboðsskap og lífssýn, sér um félagslegar athafnir eins og fermingar og hefur sýnt fram á samfellu og staðfestu í starfi) fái sömu lagalegu stöðu og trúfélög. Til þess að fá fram lagabreytingu þarf að fara í gegnum stjórnarflokkana og bað Siðmennt Allsherjarnefnd að taka upp lagatillöguna en nefndin sýndi henni takmarkaðan áhuga en nokkurn skilning. Siðmennt bað Björn Bjarnason um það sama en hann sendi svarbréf þar sem hann sagði að Siðmennt gæti starfað eins og hvert annað félag í landinu og hann hefði annað við tímann að gera. Sem sagt hin kristni Björn sýndi réttindamálum húmanista engan áhuga og algert skilningsleysi.
Þó að Siðmennt sé lítið félag eða með rétt rúmlega 200 skráða félaga, er það nálægasti lífsskoðunarfulltrúi um 19.1% (+/- 2.6%) landsmanna sem telja sig "ekki trúaða" (könnun Gallup feb-mars 2004 um trúarlíf Íslendinga). Flestir trúleysingjar eru húmanistar í lífsskoðun, þ.e. treysta á siðferði reist á rökum og skynsemi en ekki heilögum bókum eða æðri mátt.
Þjóðfélagið er í heild sinni að mestu veraldlegt og er það vegna þjóðfélagslegra framfara sem af stórum hluta má rekja til hugmynda húmanista um vísindi og lýðræði. Vissir forn-Grikkir (sjöttu öld f. at.) eins og Þales ("þekktu sjálfan þig"), Anaxagóras (fyrsti fríþenkjarinn, lagði grunn að vísindum), Prótogóras og Demókrítus sem gerðu sér ljóst að siðferðishugsun byggðist ekki á trú á hið yfirnáttúrulega. Períkles var nemandi Anoxogórasar og hann hafði áhrif á þróun hugmynda um lýðræði, hugsanafrelsi og afhjúpun hjátrúar og hindurvitna. Það var svo með endurreisnartímunum á níundu, tólftu og fjórtándu öld að smám saman tókst að brjótast undan skoðanakúgun kristninnar og menn eins og Kópernikus (sólarmiðjan), Galileo Galilei (jörðin hnattlaga) og Desiderius Erasmus (Hollandi, mannvirðing) og fleiri lögðu grunninn að húmanískri hugmyndafræði. Upplýsingin á 18. öld, iðnbyltingin, franska byltingin, stjórnarskrá Bandaríkjanna og svo þróunarkenning Darwins voru allt hlutir sem kenndu fólki að hugsa út fyrir ramma trúarbragðanna og smám saman urðu þjóðfélög hins vestræna heims og síðar Austu-Asíu að mestu leyti veraldleg (secular). Þetta var og er húmanismi en af því að húmanistar hafa ekki skipulagt sig mikið í sérstaka hópa sem slíkir hafa þeir ekki verið sérlega áberandi fyrr en síðari ár.
Í Noregi er lang stærsta húmanistafélag í heimi miðað við íbúafjölda en í Human Etisk Forbund (HEF) eru um 70 þúsund félagar og HEF hefur verið skráð sem jafngilt trúfélögum þar í landi allar götur frá 1979. Nokkur þúsund ungmenna ferma sig árlega á vegum HEF í Noregi. Siðmennt og HEFeru aðilar að International Humanist and Ethical Union (IHEU) sem er alþjóðafélag humanista og nýtur það mikillar virðingar sem álitsgjafi hjá ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna, þ.á.m. UNICEF og UNESCO. Fyrsti forseti IHEU var einmitt einnig fyrsti forseti UNESCO, Julian Huxley. Margir af merkustu hugsuðum síðustu aldar voru húmanistar og má þar nefna Albert Einstein (hann var í ráðgjafanefnd The First Humanist Society of New York) og Englendinginn Bertrand Russell en hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1950 fyrir þýðingarmikil skrif í þágu baráttu fyrir hugsanafrelsi og mannúðarstefnu.
Það er ljóst að Siðmennt er mikilvægt lífsskoðunarfélag á Íslandi og það er mjög miður að þjóðin skuli hafa haft dóms- og kirkjumálaráðherra sem sýnir því engan skilning. Ef ég hefði kosið xD hefði ég einnig strikað út nafn Björns Bjarnasonar á kjörseðlinum, ekki spurning.
Rúmlega 2500 strikuðu yfir nafn Björns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífsskoðanir | Breytt 17.5.2007 kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Framsókn stækkar á kostnað Sjálfstæðisflokks
10.5.2007 | 14:41
Fyrirsögn Mbl.is er sérstök ("Samfylking og Vg bæta við sig"). Af henni mætti ráða að xS og xV væru í sókn en í raun eru þau saman með 2 þingmönnum minna en fyrir 2 dögum síðan. Það er auðvitað hægt að miða við gærdaginn en það var í fyrradag sem einhver marktæk breyting varð á fylgi flokkanna. Fyrirsögnin ætti því að vera "Framsókn heldur enn í fylgisaukningu sína". Það er ljóst að Framsókn hefur fengið mest af þessu nýja fylgi frá Sjálfstæðismönnum en etv. voru fylgismenn þeirra í "felum" þar og eru nú að sækja í viðjur vanans (eða hlýða fjölskyldunni) heim til xB.
Frjálslyndir hafa fengið 4. manninn og því hefur Kaffibandalagið aðeins misst 1 mann frá því fyrir 2 dögum og hefur samtals 31 þingmann. Stjórnin hangir á bláþræði með 32 þingmenn.
Íslandshreyfingin er föst í 2-3% og atkvæði þeirra eru því miður dauð, þ.e. gagnast engum. Að vísu virtist slatti af atkvæðum þangað koma frá Sjálfstæðismönnum (um 4% af fyrri kjósendum þeirra, þ.e. 4% af 36%) samkvæmt könnunni fyrir 2 dögum síðan og birt var í prenti á síðum Morgunblaðsins. Talsvert færri komu frá Vinstri grænum (3.6% af 9%) og fylgi frá xB og xS var vart mælanlegt. Þessar tölur gáfu ekki til kynna hversu mikið af nýjum kjósendum væru að kjósa Íslandshreyfinguna en mér sýnist að óhætt sé að álykta að framboð flokksins sé ekki að valda töpuðum jöfnunarsætum frá stjórnarandstöðunni og er það mér léttir.
Kjósa þarf stjórnarandstöðuflokkana og koma ríkistjórninni frá af eftirfarandi ástæðum:
- Stöðva þarf ofþenslu í efnahagslífinu og koma stýrivöxtum niður en þeir stýra m.a. því hversu miklir vextir eru á yfirdráttarheimildum.
- Stöðva þarf frekari stóriðju, sérstaklega á suðvestur horninu. Eina álverið sem ég sæi mögulegt til viðbótar er álver við Húsavík en náttúra landsins er betur sett án þess. Getur ein ríkasta þjóð heims virkilega ekki fundið annað að gera en að reisa mengandi stóriðju?
- Með því að hætta við frekari stóriðju kólnar hagkerfið og því skapast skilyrði til að afnema þá ósanngjörnu skattheimtu á íbúðarkaupendur sem kallast stimpilgjald (1.5% af lánsupphæð til íbúðarkaupa). Ríkisstjórnin braut loforð sitt um að afnema þennan óréttláta skatt á kjörtímabilinu. Því ættum við að treysta þeim nú til að gera það?
- Gera þarf innflytjendalöggjöf manneskjulegri. Burt með 24-ára makaregluna sem ríkisstjórnin kom á. Dómstólar hafa dæmt hana á skjön við stjórnarskránna. Leyfa þarf innflytjendum að kjósa fyrr, t.d. eftir 2 ára fasta búsetu hér.
- Leiðréttum kjör aldraða og öryrkja með því að taka af þessar fáránlegu skerðingar og setjum fé í að auka heimaþjónustu og byggja fleiri hjúkrunarrými (fyrir þá mest heilsuskertu). Það eru enn tugir eldra fólks á bráðdeildum Landspítalans og ríkisstjórnin hefur ekki náð að ráða við þennan vanda s.l. 16 ár. Við erum verr sett í þessu en fátækasta borgarhverfi New York borgar, Suður-Bronx en þar vann ég á spítala í 7 ár. Fólk er aldrei lagt þar inn á ganga eins og tíðkast hér enn.
- Hækka þarf persónuafsláttinn og frítekjumarkið. Sú breyting gagnast þeim lægst launuðu best. Ég er ekki fylgjandi hátekjuskatti því að hann skekkir launasamanburð og kemur niður á fólki sem leggur á sig mikla vinnu.
- Aðskilja þarf ríki og kirkju, bæði í stjórnarskrá og almennum lögum. Kirkjan kostar ríkið tæpa 4 milljarða í rekstri á ári hverju. Prestar fá of há laun (prestur í sæmilega stóru prestakalli fær betri grunnlaun en sérfræðingur á sjúkrahúsi) og vinna þeirra og kaup ætti að vera háð markaðslögmálun en ekki föstum launum frá ríkinu. Allar nútímalegar stjórnarskrár í ríkjum Evrópu kveða á um aðskilnað ríkis og trúar. Við lifum við veraldlegt stjórnarfar að grunni til og við eigum að hafa það algerlega á hreinu að svo sé á öllum sviðum. Núverandi fyrirkomulag hangir í trúarhefð sem á ekki rétt á sér og sást það m.a. á áhrifum kirkjunnar á lagasetningu varðandi leyfi trúfélaga til að gefa saman samkynhneigða. Ferð alþingismanna í kirkju fyrir setningu alþingis er brot á jafnrétti og þeirri kröfu að þjóðin sé að kjósa sér veraldlega fulltrúa á þing, ekki trúarlega. Alþingi er ekki trúarstofnun og á ekki að eiga nein viðskipti við þjóðkirkjuna eða aðrar slíkar. Þó að aðeins Frjálslyndi flokkurinn sé sá eini sem hafi það skýrt í stefnu sinni að aðskilja ríki og kirkju, þá eru það stjórnarflokkarnir sem halda fastast í núverandi fyrirkomulag.
- Aðskilja þarf kirkju og skóla. Þjóðkirkjan er með trúarlega starfsemi í nokkrum skólum undir heitinu "Vinaleið". Menntamálaráðherra hefur bent á skólana og skólarnir bent á ráðherrann. Margir hafa ályktað gegn þessari starfsemi, m.a. samtökin Heimili og skóli, Siðmennt, SUS í Garðabæ, Ungir Vg og fleiri. Afnema þarf klausuna "kristilegt siðferði" í grunnskólalögunum því það er "almennt siðferði" sem gildir í skólum landsins.
- Gefa þarf lífsskoðunarfélögum (félög sem fjalla um siðferði, lífssýn, heimssýn og félagslegar athafnir fjölskyldunnar) sömu réttarstöðu og trúfélögum, þ.e. að þau fái skráningu og "sóknargjöld" rétt eins og þau. Til þess að svo verði þarf lagabreytingu en Allsherjarnefnd Alþingis og Björn Bjarnason dóm- og kirkjumálaráðherra hafa ekki haft áhuga á því að verða við þessari sjálfsögðu breytingu. Því á Siðmennt að líða fyrir það að trúa ekki á æðri mátt? Um 19.1% (+/- 2.6%) eru trúlausir á Íslandi. Þetta er stór hópur og ætti að hafa rétt á því að það lífsskoðunarfélag sem er fánaberi skoðunnar þeirra njóti jafnréttis í landinu.
- Jafnrétti í launaþróun kynjanna. Við erum með versta launamun kynjanna í nær allri Evrópu!! Hvar er beiting núverandi stjórnvalda fyrir leiðréttingu á þessu?
- Vinnuþjörkun. Við vinnum þjóða mest í vestur-Evrópu. Er ekki tími til kominn að hlúa betur að fjölskyldum þjóðfélagsins og gera okkur kleift að lifa lífinu utan vinnutímans? Við búum í okursamfélagi þar sem höft á samkeppni (t.d. stimpilgjöldin) og jaðarskattar eru að klyfa heimilin. Ég hef ekki séð þetta mál á dagskrá hjá stjórnarflokkunum.
- Menntun. Stjórnarflokkarnir eru líklegri en hinir að halda áfram með gjaldtöku í skólakerfinu og auka skráningargjöld. Menntun er grundvallarforsenda áframhaldandi framþróunar og vaxtarsprota og fjölbreytni í atvinnulífinu. Menntun á að vera öllum aðgengileg, líka fólki úr fjölskyldum sem hafa tekjur undir svokölluðum fátæktarmörkum.
- Sjávarútvegsmál. Sanngjarnari atvinnustefna og betri fiskveiðistefna verður ekki tekin upp hjá núverandi stjórnvöldum. Þarna er verulega brýnt að snúa þróuninni við og kjósa stjórnarandstöðuna. Allir í bátana, krefjumst atvinnuréttar okkar!
Íslenskt stjórnarfar þarf breytingu og aukna áherslu á mannréttindi og bætt kjör þeirra verst settu. Náttúra Íslands þarf aðhlynningu og stóriðjustefnan þarf að víkja. Efnahagskerfið þarf kælingu og stýrivextir og verðbólga að lækka - þannig minnkar sjálfkrafa streymi erlends verkafólks inn í landið. Það er kominn tími á áherslubreytingar og framfarir á sviðum sem stjórnarflokkarnir eru blindir á. Því miður eru atkvæði greidd Íslandshreyfingunni "dauð" nema að þau komi frá fyrrum kjósendum stjórnarflokkanna.
Kjósum til breyttra og betri tíma, kjósum nýja stjórn!
Samfylking og VG bæta við sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífsskoðanir | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Rökspjallið gegn guði
7.5.2007 | 01:06
- Guð er algóður, alvitur og alsjáandi. - Það er ljóst að þetta er ekki satt því allt í kringum okkur deyr fólk af tilefnislausu og fær að brjóta gegn boðorðunum óheft. Guð drap (marga af hefndarlosta) áætlaðar um 2 milljónir manna samkvæmt frásögnum Biblíunnar, slatti af þeim börn og konur. Algóður? Lokaðu á eftir þér vinur.
- Guð skapaði heiminn (á 6 dögum). - Það er ljóst að engin vera getur verið svo flókin að hún skapi allan heiminn. Hvað skapaði þá þessa flóknu veru? Heimurinn, aldingarðurinn og Adam og Eva á 6 dögum - Kanntu annan?
- Þú skalt ekki aðra guði hafa - þarna er viðurkennt í Gamla Testamentinu að aðrir guðir gætu verið í myndinni. Hvernig má það vera ef Guð átti að hafa skapað heiminn? Kunni Guð ekki lögmál markaðarins? Lítil fyrirhyggja í almáttugum guð að koma ekki á einokun strax. Þá er ljóst að guð gyðinga, kristinna og múslima var ekki til fyrr en frekar seint í mannkynssögunni. Áður voru þjóðir trúandi á fjölguðakerfi, t.d. forn-grikkir og víkingarnir. Hugarfóstur manna, gæti það verið?
- Guð á að tala til allra hvers vegna þarf þá að kynna svo marga fyrir honum? Hvers vegna voru ekki bara óþekktir þjóðflokkar með guðstrú á sama guð og hinn vestræni heimur þegar þeir voru fundnir. Duh er hinn vestræni hvíti kynstofn sem sagt hinn eini sanni mannstofn fyrst að þeir vissu um guð? Oh, þess vegna var í lagi að halda öðrum þrælum eða hreinlega losa sig við þá. Guð hefur talað.
- Guð er faðirinn, sonurinn (Jesú) og heilagur andi en samt einn! Hver er þessi heilagi andi? Er það mini-mí guðs? Pabbi, mini-mí og stráksi; kjút en frekar mikið hókus pókus að þeir komist upp með að vera allir en samt bara einn. Skytturnar þrjár meika meira sens: "einn fyrir alla og allir fyrir einn" - bravó!
- Guð lagði fram boðorðin 10 þar sem segir þú skalt ekki drýgja hór en svo barnaði hann Maríu Mey kornunga eins og ekkert væri. Búms! Jósef fékk engu breytt. Eflaust getur Vísindakirkjan bent á að þarna hafi fyrsta stoðmóðir mannkyns komið til sögunar. Sussumsvei - Guð að fikta með stofnfrumur! Jesú átti að hafa verið hreinn sveinn og síðan þá hafa margar kynslóðir munka og kaþólskra presta reynt skírlífi með oft á tíðum skelfilegum afleiðingum. Kynlíf oj bjakk. Af hverju gat Guð ekki losað okkur við það? Þetta helvíti holdsins sem veitir okkur svona mikinn unað um leið og við búum til komandi kynslóðir. Ó, ónáttúrulega himnaprik.
- Guð og Biblían lofa eilífu lífi. Auðvelt fyrir ósýnilegan að halda slíku fram í bók ritaðri af mönnum. Komdu í minn flokk og þú færð kók og prins til eilífðar. Sálin hefur aldrei fundist, ekki einu sinni af atómfræðingum. Miðlar lofa og lofa en hafa aldrei fengið hina 1 milljón dollara sem James Randi lofar þeim sanni þeir mál sitt á vísindalegan máta.
Æ, ég gæti haldið nær endalaust áfram. Passlegt að enda í prímtölu. Upprisan yrði næst en hvers vegna að ráðast á svona góða frídaga? Guð samkynhneigðra, er hann til? Guð kvenpresta og blökkumanna, er hann svört kona? Hún Gyða er sköpuð í mynd kvenmannsins.
Náttúran sá okkur fyrir auðugu ímyndunarafli til þess að við gætum sett okkur í hin ýmsu spor og búið til verkfæri okkur til framfæris. Trúartilhneigingin er mögulega erfðafræðileg hjánáttúra því við þurfum sem börn að trúa því sem fullorðnir segja okkur, ellegar brenna okkur, detta í brunninn eða enda undir alls kyns völturum. Væntumþykjan er okkur náttúruleg og þjónar rökréttum tilgangi til bættrar afkomu. Kettirnir hans Illuga Jökulssonar eru kjút (sjá maí blað Ísafoldar).
- Rökspjallamaðurinn Svanur
Lífsskoðanir | Breytt 8.5.2007 kl. 04:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Ákvörðun gegn stjórnarskrá landsins
26.4.2007 | 21:51
Í gær ákvað mikill meirihluti presta og guðfræðinga (66) á Prestaþingi Íslands á Húsavík, að styðja ekki tillögu 22 presta sem fóru þess á leit við prestaþingið að það styddi lagafrumvarp það sem fékk ekki afgreiðslu í vetur og var á þá leið að heimila ætti trúfélugum að gefa saman samkynhneigð pör.
Þarna braut trúfélag sem nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskránni á ákvæðum hennar um jafnrétti.
Þetta varðar hreinlega þau mannréttindi að allir söfnuðir megi taka sína sjálfstæðu ákvörðun um það hvort þeir vilji gefa saman samkynhneigða eða ekki. Ef frumvarpið fengi brautargengi og samþykkt á Alþingi næsta haust mætti Þjóðkirkjan eftir sem áður ákvarða sjálf hvort hún vilji gefa saman samkynhneigða. Hins vegar verður "Þjóðkirkja" að standa undir nafni og því yrði það erfiðara fyrir forystu hennar að neita samkynhneigðum um vígslu sé lagaheimild til þess til staðar. Forysta kirkjunnar ákveður því að letja stjórnvöld í þessum efnum svo að hún þurfi ekki að taka ákvörðun sjálf. Þetta er með því lágkúrulegra sem hægt er að hugsa sér, hvað varðar sjálfsábyrgð og hugrekki til að standa á eigin spýtur við eigin skoðanir og ákvarðanir. Nei, meirihluti presta á prestaþingi getur ekki unað trúfélögum á Íslandi að hafa sjálfákvörðunarrétt í málinu, til þess að geta varpað ábyrgðinni á löggjafann. Vissulega liggur ábyrgðin nú í höndum löggjafans en í vetur guggnaði ríkisstjórnin á því að láta þetta mál fram ganga, eftir að Karl Sigurbjörnsson biskup, bað um frest í áramótaræðu sinni. Það er augljóst að 66:22 meirihluti er ekki neitt á leiðinni að breyta skoðun sinni og því er ekki um frest að ræða. Landsþing Sjálfstæðisflokksins ályktaði að það myndi styðja tillöguna á komandi þingi. Ekki man ég eftir því að landsþing Framsóknarflokksins hafi gefið frá sér neitt slíkt, enda er hæsta hlutfall trúaðra þar innanborðs á meðal stjórnmálaflokka.
Enn og aftur kemur það í ljós hversu óeðlilegt það er að trúfélag, þó að það sé það elsta og stærsta, sé verndað af stjórnarskráratkvæði og hafi þannig óeðlileg völd innan stjórnkerfi landsins. Sú sama stjórnarskrá kveður á um að fólki sé ekki mismunað á grundvelli kynhneigðar eða trúar, en Þjóðkirkjan er það afl á Íslandi í dag sem stendur fyrir hve mestu misrétti og misnotkun á stöðu sinni í þjóðfélaginu í dag. Ákvörðun prestaþingsins er ekki einungis móðgun gagnvart samkynhneigðum heldur einnig brot á trúfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt trúfélaga. Þau lög sem eru í gildi í dag eru mannréttindabrot. Það eru mannréttindabrot að meina trúfélögum að gefa saman fólk óháð kynhneigð. Það er hin skýlausa húmaníska krafa nútímans að þessi mannréttindi séu virt.
Ríkisstjórnin og Þjóðkirkjan hafa einnig brotið á siðrænum húmanistum, þ.e. fólki sem aðhyllist nútíma siðferði án trúar á persónulegan guð eða yfirnáttúru. Það er brotið á jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar með því að gefa lífsskoðunarfélögum ekki sömu réttindi og trúfélögum. Lífsskoðunarfélög fjalla um siðferði, heimsmyndina og félagslegar athafnir rétt eins og trúfélög, en innihalda ekki átrúnað á yfirnátturlega hluti. Í dag er aðeins eitt slíkt félag starfandi á Íslandi en það er Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi. Samkvæmt stórri könnun Capacent Gallup í lok árs 2004 töldu um 19% landsmanna sig trúlausa. (Um 75% töldu sig trúaða en aðeins 49% töldu sig kristna. Þrátt fyrir þetta voru um 84% landsmanna í Þjóðkirkjunni) Trúlausir hafa ekki skipulagt sig í hópa eða fyrr en nýlega. Siðmennt var stofnað árið 1990 og hefur haldið borgaralegar fermingar árlega.
Það er einkum tvennt sem Siðmennt vantar uppá til að fá sömu réttindi og trúfélög. Í fyrsta lagi þarf félagið að fá skráningu hjá ríkinu og í öðru lagi þau réttindi sem skráningunni fylgja. Trúfélög skrá sig hjá ríkinu skv. lögum um skráningu trúfélaga sem voru endurskoðuð árið 1999. Til þess að fá skráningu þarf að uppfylla eftirfarandi og vitna ég hér í lögin:
"Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú sem tengja má við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur.
Enn fremur er það skilyrði skráningar að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem reglulega iðka trú sína í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld."
Siðmennt uppfyllir öll ofangreind skilyrði utan þess að það er ekki trúfélag, heldur lífsskoðunarfélag. Af ofangreindu má sjá að það geta ekki hvaða félög sem er sótt um skráningu. Siðmennt fékk Oddnýju Mjöll Árnadóttur, lögfræðing og sérfræðing í mannréttindamálum til að gera greinagerð um málið og var það niðurstaða hennar að Siðmennt uppfyllti þann kjarna málsins að byggja starfsemi sína á siðferðislegri sannfæringu sem hefði alþjóðlega tilvísan í viðurkennda heimsspeki / lífsskoðun og væri því sambærilegt trúfélagi. Lífsskoðunarfélög ættu að njóta sömu stöðu og trúfélög hjá ríkinu. Í Noregi hefur eitt stærsta húmanistafélgag heims, Human Etisk Forbund, notið þessarar stöðu allar götur frá 1979.
Eftir að hafa verið neitað tvö ár í röð um skráningu, leitaði Siðmennt eftir lagabreytingu í allan s.l. vetur og fór fyrir Allsherjarnefnd Alþingis með kynningarerindi s.l. haust. Lagabreytingin fólst í því að bæta inn ákvæðum um lífsskoðunarfélög þannig að þau fengju bæði skráningu og sóknargjöld. Með skráningunni fengi Siðmennt væntanlega einnig rétt til að halda löggiltar nafngiftir og giftingar. Siðmennt hefur lýst því yfir að það gæfi saman samkynhneigða fáist til þess nauðsynlegar lagabreytingar. Erindi Siðmenntar fékk ekki afgreiðslu hjá Allsherjarnefnd og síðar hafnaði Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra beiðni Siðmenntar um að bera fram lagatillöguna á Alþingi. Hann sagði í svarbréfi sínu að Siðmennt gæti starfað eins og hvert annað félag í landinu og hann hefði öðru þarfara að sinna.
Þetta er sú virðing sem Siðmennt fékk frá dóms- og kirkjumálaráðherra, félag sem hefur fermt yfir 900 börn í þessu landi, gefið álit sitt á fjölda siðferðislegra álitamála (nú síðast frumvarpinu um rannsóknir á stofnfrumum) fyrir nefndir borgar og alþingis, barist fyrir réttindum samkynhneigðra og fjölda annarra minnihlutahópa í landinu (m.a. innflytjenda) og er beint eða óbeint málssvari mjög stórs hóps góðra og gildra Íslendinga sem trúa ekki á guð eða yfirnátturu. Nú stendur málið þannig að nýr lögmaður Siðmenntar undirbýr lögsókn gegn íslenska ríkinu. Það er dapurlegt en ítrekaðar tilraunir til að fara siðmenntaðar leiðir samræðunnar hafa mætt skilningsleysi hjá stjórnarflokkunum, rétt eins og réttarstaða samkynhneigðra til að giftast, hjá forystu Þjóðkirkjunnar.
Skyldi engan undra að ég styð ekki þessa ríkisstjórn og ekki eru þessir hlutir ekki eina ástæðan. Kjör aldraðra og öryrkja, miðstýring og fjársvelti heilbrigðiskerfisins, með tilheyrandi biðlistum, stimpilgjöld, óábyrg stóriðjustefna (setja ábyrgðina á sveitarfélögin ein), óbjóðandi aðstaða fyrir fanga og fangaverði, kæruleysi í innflytjendamálum, ómannúðleg innflytjendalöggjöf ("24 ára" reglan) og áframhaldandi kvótakerfi í fiskveiðistjórnun eru meðal annarra ástæðna.
Allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lýst yfir stuðningi við Siðmennt og ég þykist viss um að þeir vilji leyfa trúfélugum að ráða sínum málum hvað giftingar varðar. Í þágu bættra mannréttinda í landinu þarf að koma þessari ríkisstjórn frá. Hún getur ekki einu sinni haldið á vel efnahagsmálunum en það hefur verið helsta hnoss hægrimanna fram til þessa. Ég hvet fólk til að kjósa annan hvorn stóru stjórnarandstöðuflokkanna. Það er besta tryggingin fyrir nýrri ríkisstjórn. Frjálslyndir eru best úti því þeir væru vísir til að fara í stjórnarsamstarf með xD og xB. Íslandshreyfingin, þrátt fyrir góða stefnuskrá er hreinlega ekki tilbúin og því er hætt við að atkvæði til hennar fallli dauð niður og gagnist helst ríkisstjórnarflokkunum.
Það þarf að setja aðskilnað ríkis og kirkju á dagskrá í stjórnmálum. Ég auglýsi eftir þeim stjórnmálaflokki sem hefur þann kjark að setja málið hátt á dagskrá og af miklum dug. Sjaldan hefur það verið jafn augljóst og nú að "Þjóðkirkjan" er bara forneskjulegur trúarklúbbur sem vill einungis fara sínar eigin leiðir, óháð meirihluta fólks í trúfélaginu. Sjaldan hefur það verið jafn augljóst að prestar hennar eiga að vinna fyrir eigin brauði, hjá söfnuði sem vill mæta í kirkju hjá þeim og skrá sig inn við 18 ára aldur en ekki sjálfkrafa við fæðingu. Sjaldan hefur það verið jafn ljóst að ríkið á ekki að halda uppi skóla trúfélags í Háskóla Íslands og hafa svo presta á himinháum launum um allar trissur. Þjóðkirkjan kostar okkur 3.5 milljarð á ári plús kostnað við Guðfræðideildina. Hér er ekki um lífsnauðsynlega starfsemi að ræða og hún ætti að vera einkamál hvers og eins utan þess að eðlilegt getur talist að ríkið komi að kostnaði og skipulagi við jarðsetningu / líkbrennslu látinna. Það er kominn tími til að einkavæða víðar en í bankakerfinu. Ætli margir fjárfestar myndu flykkjast að til að kaupa hlut í prestakalli?
Tillaga um hjónavígslu samkynhneigðra felld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífsskoðanir | Breytt 27.4.2007 kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Refsileiður prestur
20.4.2007 | 01:01
Prestar nútímans eru sumir hverjir nokkuð hugaðir. Þeir gefa stundum bara skít í Biblíuna og trúfræðin. John nokkur Jeffrey virðist hafa fengið of mikið af þeim gamla og ákvað að bæta smá aðfinnslu í anda nútíma siðfræði í predikun sína.
John sagði að Guð hefði verið ógeðslegur í refsigleði sinni og taldi það viðbjóð að láta krossfesta son sinn Jesú svo aðrir yrðu ekki í vegi fyrir reiði hans vegna synda mannkyns. John tiltekur í ræðu sinni hversu óþolandi hann telur þennan reiða og kvikindislega Guð:
"What sort of God was this, getting so angry with the world and the people he created, and then, to calm himself down, demanding the blood of his own Son?"
Undir lok ræðunnar túlkar hann Guð sem þann sem kemur niður til mannanna og tekur þátt í þjáningum þeirra.
Mér sýnist að séra John Jeffrey sé hér að koma með enn eina flóttaleiðina fyrir voðaverk Guðs. John virðist ekki lengur trúa á eina af höfuð kenningum kristninnar, þ.e. upprisuna og fyrirgefningu syndana gegnum pyntingu og dauða Jesú á krossinum. Nýafstaðnir eru önnur stærsta helgidagahátið kristinna manna einmitt vegna þessarar refsigleði Guðs. John sá að þetta hreinlega var ekki verjandi og hefur því komið með betri útgáfu. John var ekki kosinn biskup í UK því að hann reyndist vera hommi. Nú eru félagar hans í hempunum verulega fegnir að hann var ekki kosinn og segja að hann hafi greinilega gengið villu vegar. (sjá umfjöllun hér) Ég er feginn að John sagði þetta þó að hans útgáfa væri frekar grátleg í huga guðleysingja. Öll skynsemi og rökhugsun hlýtur nú að æpa á þá sem hlýddu og aðra presta að taka þetta sterklega til greina. Smám saman hopa kreddurnar fyrir skynseminni. Fyrir árþúsundum voru margir guðir, síðustu aldirnar einn guð og á morgun... - já vonandi enginn.
Það er grátbroslegt að fylgjast með angist presta yfir túlkunum á bókinni sinni. Það er viss samsvörun að gerast nú í íslenskum prestaskotgröfum. Hjörtur Magni Jóhannsson, fríkirkjuprestur gagnrýndi af mikilli list stefnu Þjóðkirkjunnar í Komásþætti Stöðvar 2 um Vinaleið Þjóðkirkjunnar en þannig treður hún inn trúarlegri starfsemi í vissa grunnskóla. Hjörtur Magni sagði m.a. eitthvað á þá leið að yfirgangur Þjóðkirkjunnar væri ekki samkvæmt kristilegu siðgæði og að þessi hegðun væri frekar djöfulleg. Í stað þess að taka á hegðun sinni eru prestar Þjóðkirkjunnar nú að kvarta yfir Hirti Magna fyrir þessi orð fyrir siðanefnd presta. Fyrir þetta borgum við skattgreiðendur, prestum, u.þ.b. þreföld verkamannalaun á mánuði. Undrar mann síðan að meirihluti landsmanna vilji aðskilnað ríkis og kirkju? Nei, fólk á að borga fyrir sitt trúarlíf sjálft. Það getur talið eðlilegt að ríkið aðstoði fjárhagslega við að koma fólki til grafar en lengra ætti það ekki að ná.
Þess má geta að Sjálfstæðismenn fengu einnig eitthvað skynsemiskast yfir sig á nýyfirstöðnu landsþingi. Þeir lofuðu að þeir myndu styðja lagabreytingu til að trúfélög fái frelsi til að gefa saman samkynhneigða óski þau þess. Hvað ætli hafi valdið sinnaskiptunum? Var kannski ekki um sinnaskipti að ræða heldur tjáning á nýfundnum kjarki til að koma á sjálfsögðum mannréttindum þrátt fyrir beiðni Karls Sigurbjörnssonar Þjóðkirkjubiskups um hið gagnstæða um síðustu áramót? Skyldi þetta vera kosningaloforð sem þeir svo efna eftir 3 ár og 10 mánuði? Hver sem ástæðan er, er a.m.k. ástæða til að fagna.
Lífsskoðanir | Breytt s.d. kl. 02:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ábyrgðin er okkar, ekki vætta
20.3.2007 | 18:13
Í gegnum aldirnar hefur þorra fólks, almúganum verið stýrt af valdi og hugmyndum sem setja því skorður og stað fyrir neðan þá sem fara með völdin. Bestu stjórnendunum varð ljóst að ekki dugði að hóta valdi einu sér heldur varð að fanga hugann líka. Þannig náði Hitler til dæmis tvöföldu valdi yfir þorra Þýsku þjóðarinnar. Þessar hugmyndir hafa jafnan krafist algerrar hlýðni og aðdáunar á foryngjanum. Ekkert svigrúm var leyft fyrir efasemdir eða mótbárur. Fylgja eða falla, voru kostirnir. Á miðöldum var tvennt sem hafði slíkt ægivald yfir fólki, kirkja og konungsríki. Kirkjan var meistari í að hlekkja hugarfarið. Engar aðrar trúarhugmyndir voru leyfðar og trúin var alger. Konungar urðu að leika með og vald þeirra var talið koma beint frá guði. Þetta hentaði þeim vel því engar aðrar ástæður eða réttlætingar þurfti.
Þessar forsendur tóku að bresta eftir því sem frjálsum hugum fjölgaði í Evrópu og uppgötvanir á sviði eðlisfræði, efnafræði, stjörnufræði, líffræði og verkfræði tóku að gjörbreyta heimsmyndinni og færa fólki verkfæri og nýjar aðferðir til að komast betur af. Aldrei hafði kirkjan stuðlað að slíku þó svo einstaka munkar eins og Mendel hafi iðkað vísindi í einangrun sinni. Þá urðu lýðræðishugmyndir til í Frakklandi sem byggðu á hugmyndum heimsspekinga um náttúrulega skipan í þjóðfélaginu og draumurinn um jöfnuð stétta og kynja tók sín fyrstu spor í raunveruleikanum. Þetta var húmanismi. Kirkjan barðist á móti en fræði vísindamannanna voru of nákomin afkomu og líðan fólksins þannig að bylgja þessarar endurreistu rökhugsunar og veraldlegs lífsviðhorfs varð ekki stöðvuð. Kirkjan og kreddur kristinnar trúar urðu fyrir hverju áfallinu og ósigrinum á fætur öðrum. Jörðin var ekki lengur 6000 ára, maðurinn var skyldur apanum en ekki guði, sólin var í miðju heimsins og jörðin ekki flöt, ungt fólk fór að velja sér maka sjálft, kynlíf var ekki lengur skítugt og sjálfsfróun blindaði engan, skírlífi úreltist, konur máttu kjósa og vera prestar, hjón máttu skilja, konur fengu yfirráð yfir líkama sínum, siðfræðin þroskaðist í takt við rökfræðina og mannréttindasáttmálar óháðir trú og menningu litu dagsins ljós. Þetta gerðist þrátt fyrir trúarbrögðin og á meðan tregu hopi þeirra stóð en ekki vegna þeirra eins og margir trúarleiðtogar vilja telja okkur trú um í dag.
Eftir seinni heimsstyrjöldina og sérstaklega uppúr hippatímabilinu og byltingu í kynlífsviðhorfum urðu kirkjudeildir hins vestræna heims einungis máttlausir skuggar af því sem þær voru áður. Eftir stóð að kirkjan hélt velli vegna trúarlegra athafna sem höfðu heilmikið félagslegt gildi. Þetta voru skírnir (nafngiftir), fermingar (viðurkenning unglinga, manndómsvígsla), giftingar (staðfesting sambands og fjölskyldugleði) og jarðarfarir (huggun og kveðja). Söfnuðir svartra í USA tóku þetta skrefi lengra og með söng og baráttumessum voru kirkjur þeirra bæði skemmtun og pólitískt hæli. Almennar guðsþjónustur hinna hvítu voru hrikalega leiðinlegar og eru víða enn. Aðeins örfáir fóru í messur.
Í dag notar kirkjan tölur úr alls kyns samkomum sem hýstar eru í kirkjunum til að bæta hina tölfræðilegu ásýnd. Kirkjan lifði af sinn versta tíma og hefur nú potað sér inn í líf fólks á öðrum forsendum. Eftir að prestar uppgötvuðu að þeir höfðu ekki föðurlegt vald yfir fólkinu þurfti að endurskipuleggja krossförina. Guð er nú einungis með í aftursætinu (eða falinn í skottinu). Nú hefur kirkjunnar fólki tekist að skapa þá ímynd að þjónusta þeirra og nærvera sé til mikilla bóta fyrir "andlegt ástand" alls fólks í neyð og hvarvetna geti prestar þjónað hlutverki sem að öllu jöfnu hefur talist atvinna sálfræðinga og geðlækna. Tólf spora meðferð AA-samtakana hefur átt drjúgan þátt í þessari endurreisn trúarinnar. Trúarleiðtogar víða um heim hafa uppgötvað að með því að blanda saman vísindum og trú eða hreinlega sannfæra fólk um að trú sé vísindi, er hægt að fá drjúgan fjölda fólks til liðs við sig. Þetta hefur gerst hér heima í auknu mæli. Hver man ekki eftir rannsókn Gunnjónu á bæninni. Hún taldi sig hafa sýnt fram á vísindalega að bænin virkaði. Ég las rannsóknina og sá fljótt að á henni voru stórir gallar og niðurstaðan markleysa. Morgunblaðið hampaði samt þessum "vísindum" í hástert með áberandi greinum og sterkum fyrirsögnum.
Niðurstaða könnunar sem Þjóðkirkjan fékk gerða hjá Capacent Gallup árið 2004, kom í ljós að um 75% þjóðarinnar sögðust trúa á einhvern æðri mátt. Um 49% sögðust vera kristnir. Um 19% sögðust vera trúlausir. Aðeins 8% sögðust trúa því að himnaríki tæki við eftir dauða sinn. Um 84% voru þá í Þjóðkirkjunni en það hlutfall hefur lækkað í um 82% á síðasta ári. Það er því ljóst að það eru ekki nærri allir kristnir sem eru í Þjóðkirkjunni og ég veit um fullt af fólki sem heldur sig þar eingöngu vegna hins félagslega þáttar.
Þurfum við trúna? Þurfum við kirkjubyggingar og kirkjuleg félagsheimili sem kosta okkur hundruðir milljóna? Þurfum við kirkjudeild sem kostar 3.5 milljarð á ári í rekstri og fær að auki fé til að reka sinn prestaskóla, þ.e. Guðfræðideild innan Háskóla Íslands? Til samanburðar má nefna að rekstur HÍ kostar um 4 milljarða á ári. Mánaðarlaun sóknarpresta eru á milli 400-500 þúsund plús tekjur af vissum athöfnum og grunnlaun biskups eru um 880 þúsund. Kirkjan fær ríflega 800 krónur á hvert "sóknarbarn" mánaðarlega og að auki tekjur úr "jöfnunarsjóði" sem er ætlaður uppbyggingu á húsnæði hennar. Eru greiðslur þegnanna til þjóðkirkjunnar í samræmi við það mikilvægi sem hún er talinn hafa af þorra fólks? Viljum við þetta? Viljum við borga fyrir rekstur kirkna sem standa oftast tómar? Hversu mikið vill kristið fólk greiða fyrir hina "guðdómlegu blessun"? Hefur það rétt til að nota svo mikið af almannafé í þessa starfsemi?
Þið vitið hverju ég svara. Hér liggja mikil tækifæri til að spara og beina fé okkar til uppbyggingu hugvísinda og þeirra sífjölgandi meðferðarúrræða sem heilbrigðisvísindin færa okkur með hverju árinu sem líður. Samfélög trúaðra eða ótrúaðra, t.d. húmanista eiga að vera einkarekin og njóta sömu meðferðar af hálfu ríkisvaldsins. Það er tímaskekkja að halda sérstakri vernd yfir einu trúfélagi og leyfa því að hafa forgang eða sérstakan aðgang að stofnunum og nefndum á vegum ríkisvaldsins. Mannréttindi snúast ekki um það hver sé í meirihluta, heldur að tryggja að allir hafi jafna aðstöðu. Á Íslandi skortir þessi mannréttindi og það er brotið á minnihlutanum. Trúlausir fá ekki að skrá félag sitt og njóta "sóknargjalda" og ásatrúarmenn fá ekki úthlutað úr jöfnunarsjóði. Stjórnvöld hlýða biskupi líkt og hann sé "fjórða valdið" og þingmenn láta leiða sig undir flaggi kreddufestu eins og félaga í trúarkölti inní kirkju til blessunar frá þjóni guðs fyrir setningu þings sem er algerlega veraldlegt (secular) í eðli sínu. Frakkar afnámu þetta fyrir 100 árum og því var fagnað innilega árið 2005. Hvar erum við stödd?
Ég virði skoðanafrelsi og trúfrelsi og mun því aldrei meina fólki um að trúa hverju því sem það vill. Hins vegar tel ég ekki allar skoðanir jafn góðar og mun berjast fyrir þeim skoðunum sem ég tel bestar fyrir mína nánustu og þjóðina. Sú barátta hlýtur einnig ákveðnum skoðunum (reglum) og ég samþykki ekki baráttu hroka, yfirgangs, valdnýðslu eða ofbeldis. Ég aðhyllist samtalið frekar en þögnina. Ég sætti mig ekki við stöðnun og rökleysur. Að heiminum steðjar ein sú hræðilegasta rökleysa sem maðurinn hefur nokkru sinni fundið upp, en það er trú. Trú á hið yfirnáttúrlega, hið almáttuga og hið óvéfengjanlega. Í innsta hring er öfgatrúarfólkið en utan um, í æ minna trúarlega sterkum lögum eru hinir óviljandi hlífðarskildir, hóftrúarfólkið og fólkið með "barnatrúnna". Í stað þess að öfgatrúarmenn standi naktir og einir uppúr sléttu skynseminnar með sínar banvænu trúarkreddur og guðshræðslu, er urmull af hófsemisfólki þétt við hlið þeirra (hugmyndafræðilega) og afsakar guð þeirra. Munum að guð Abrahams er hinn sami leiðtogi Osama Bin Ladens og Karls Sigurbjörnssonar biskups. Páfinn er einnig trúbróðir biskups. Biskup lofaði páfa þrátt fyrir að páfinn boði enn að eigi skuli nota getnaðarvarnir og halda úti klaustrum og skírlífi presta (ævarandi uppspretta pedophilu) . Sameinaðir undir vættinum "guði" afsaka trúarbrögðin hvort annað og valda því hugmyndafræðilegum skaða um heim allan.
Það er tími til að breyta þessu og heiminum smám saman í leiðinni. Við hér á þessari afskekktu eyju eigum að gera okkar besta til að vera til fyrirmyndar. Við höfum með okkar litla þjóðfélagi tækifæri til að vera í fararbroddi mannréttinda í heiminum. Byggjum framtíðina á heilbrigðum skoðunum, ekki ævagömlum stofnunum sem halda í kreddur. Þorum að breyta og nota aðeins það besta okkur til leiðsagnar. Aðskilnaður ríkis og kirkju er frekar flókin framkvæmd, rétt eins og afnám kvótakerfisins yrði, en hver segir að lífið sé auðvelt? Hér þarf að byrja að taka fyrstu skrefin og stefna í rétta átt. Ég hef sagt minn frið í dag.
Lífsskoðanir | Breytt 21.3.2007 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Írak og friðarríkið Ísland
19.12.2006 | 18:51
Það er með ólíkindum hversu lengi við Íslendingar ætlum að velta okkur uppúr ólýðræðislegri ákvörðun Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar að styðja Bandaríkjamenn og Bréta til stríðs í Írak. Það er ljóst að margar þjóðir voru blekktar til að taka þátt í lista "hinna viljugu þjóða" út frá röngum upplýsingum frá leyniþjónustu Bandaríkjanna um að brjálæðingurinn Saddam Hussein hefði kjarnorkuvopn í fórum sínum. Er fólk búið að gleyma því hversu mikill fantur hann var? Það kom í ljós að Saddam talaði fjálglega um hugsanlega vopnaeign til þess eins að ögra vesturlöndum og sýnast kaldur karl í arabaheiminum. Hann hélt að CIA hefði njósnara á meðal hans og myndi því aldrei trúa orðum hans. Annað kom á daginn. Leyniþjónusta USA (CIA) hafði ekki neinar almennilegar njósnir og studdi grun sinn um hugsanleg gjöreyðingarvopn Saddams því mest megnis á getgátum. Saddam kom ekki til hugar að Bandaríkjamenn gerðu alvöru úr viðvörunum sínum og það reyndist hans banabiti.
Margir hérlendis segja að innrásin í Írak hafi verið hvílík heimska því vitað væri að svona myndi fara. Ég tel að þessi gagnrýni sé ekki alls kostar sanngjörn. Það var langt í frá að það væri álit allra málsmetandi manna að útkoman yrði blóðugt stríð milli trúarhópa og ný uppeldisstöð fyrir hryðjuverkamenn. Margir héldu að fátt gæti verið verra en Saddam Hussein og fólk var þreytt á því að heyra fregnir af sífelldum morðum mannsins og ólifnaði og grimmd sona hans tveggja. Var það ekki þess virði að reyna að steypa morðóðum einræðisherra af stóli og bjóða Írak lýðræðislega stjórnarhætti? Ég bjó í New York í aðdraganda innrásanna í Afganistan og Írak og gat ekki séð að þar ríkti vissa meðal færustu fréttaskýrenda eða annarra fræðinga um að innrás í Írak væri fyrirfram glötuð. Mér fannst reyndar alltaf furðulegt að það væru ekki neinar áberandi raddir á meðal Íraka sjálfra um að fá Saddam steypt af stóli. Ég kynntist Íröskum lækni þar sem átti móður og systur í Írak og hann studdi innrásina. Gat ég vitað betur en hann? Vissu aðrir betur en hann? Mér fannst þetta alls ekki ljóst og mig grunar að svo hafi verið um marga íslenska ráðamenn.
Margir málsmetandi menn í dag, þ.á.m. Kofi Annan fráfarandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna telja ástandið verra í dag en í tíð Saddams Hussein og má vissulega færa fyrir því sterk rök. Mér sýnist að almenningur og trúarleiðtogar í Írak hafi ekki raunverulegan skilning á því hvað lýðræði er. Þekkingargrunnurinn og reynslan eru hreinlega ekki fyrir hendi og því hangir þetta allt á bláþræði og lýðræðinu er haldið uppi með valdi yfir fólki sem vill lifa eftir lögum Islam. "Ó, hvað við vorum vitlaus!", er auðvelt að segja núna. Hvað mun það sama fólk segja eftir 20 ár ef raunverulegt lýðræði kemst á í Írak? Trúlega þarf það ekki að hafa áhyggjur því líkurnar virðast ekki miklar. Það verður ekki raunverulegt lýðræði þar nema með hægfara hugarfarsbreytingu og frekari lendingu Islam á jörðina. Það þarf "operation Itsjeehad", þ.e. herferð um gagnrýna hugsun innan Islam til að þessi heimshluti breytist.
Nokkrar hetjur boða þennan nýja hugsunarhátt og siðabót innan Islam. Fremst í flokki má telja Afrísk-kanadíska múslimann og lesbíuna Irshad Manji sem kynnti þessa hugmynd í bók sinni "The problem with Islam today" en sú bók hefur vakið mikla athygli fyrir raunsæi og hreinskilna gagnrýni á hugsunarhátt og hegðun þeirra múslima í heiminum í dag sem fylgja þeirri stefnu sem hún kallar "foundamentalism" og hefur tröllriðið íslömskum meningarheim undanfarna áratugi. Í grein í New York Times var hún kölluð "versta martröð Osama Bin Laden" og verð ég að taka undir það því eftir lestur bókar hennar er enginn spurning að hér er á ferðinni sterk kona með hugann á réttum stað.
Nýlegan og merkilegan baráttumann má nefna hin danska Naser Khader sem ritað hefur "tíu boðorð lýðræðisins" (á ensku) fyrir múslima. Margir spá honum frama í stjórnmálum í Danmörku. Nýlega stóð hann fyrir ráðstefnu um skopmyndamálið þar sem Irshad Manji og fleiri framfarasinnar múslima tóku þátt. Ég bíð spenntur að vita hvernig þessum nýju hugarfarslegu leiðtogum múslima mun vegna í framtíðinni. Árangur þeirra mun skipta sköpum um horfur friðar í heiminum næstu áratugina.
Við Íslendingar þurfum að halda áfram og rannsaka vandamál dagsins í dag í stað þess að sýta endalaust ákvarðanir farinna stjórnmálamanna. Eyðum orkunni í að taka betri ákvarðanir í dag og til framtíðar. Það er sjálfsagt að við segjum aldrei neinni þjóð stríð á hendur að fyrra bragði en ef við tökum þátt í varnarbandalögum kemur að því að við þurfum að taka ákvörðun með eða á móti vinþjóðum okkar sem eiga í stríði. Þar getur ekki alltaf dugað að vera hlutlaus. Hvað segðum við t.d. ef Rússar réðust inn í Noreg að ósekju? Myndum við ekki styðja Noreg og NATO?
Lífsskoðanir | Breytt 20.12.2006 kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)