Færsluflokkur: Lífsskoðanir

Magni! Gneisti!

Í Fréttablaðinu í gær 5. okt 07, á bls 24 var birt grein Sr. Hjartar Magna Jóhannssonar sóknarprests í Fríkirkjunni sem bar heitið "Eru húmanistar óvinir Krists?"  Í greininni ræðir hann um það hversu jákvæð lífsskoðun húmanista sé og að hún eigi samleið með þeim boðskap Krists í að "reis[a] upp þá niðurbeygðu og ger[a] heila og mynduga þá sem á vegi hans verða".  Þessu er ég algerlega sammála.  Mannvirðingin er í kjarna húmanisma og þessa boðskapar Krists.  Hjörtur Magni lýsir þeirri kristni sem hann aðhyllist og hún er greinilega umburðarlynd og stefna sameiningar um góða hluti, ekki sundrungar og fráhrindinga.  Hjörtur Magni er sá veglyndasti og siðferðislega þroskaðisti prestur sem ég hef kynnst og fylgst með.

Í Blaðinu í gær á bls 15 skrifar Óli Gneisti Sóleyjarson um þá gagnrýni sem prestar Þjóðkirkjunnar höfðu uppi um gifinguna á vegum Siðmenntar í Fríkirkjunni í síðasta mánuði í greininni "Um guðs hús, krónur og aura".  Hann veltir því fyrir sér hvort að prestarnir séu argir út í Siðmennt vegna þess að þeir sjái fram á tekjutap við að athafnir færist yfir til Siðmenntar.  Ég hef ekki heyrt neinn prest kvarta yfir því beinum orðum, en e.t.v. er þetta einhver minni ástæða sem þeir hafa ekki nefnt.  Hins vegar ósköpuðust þeir mikið yfir því að þetta væri vanhelgi.  Óli Gneisti bendir réttilega á að Siðmennt hafi enga eigin aðstöðu eins og er, og því ættu prestar að styðja félagið í að fá skráningu sem lífsskoðunarfélag og sömu réttindi og trúfélög.  Þannig yrði félagið smám saman fært um að koma sér upp sínu eigin húsnæði. 

Um 19.1% þjóðarinnar (+/- 2.5%) segjast "ekki trúaðir" samkvæmt stórri könnun Gallup árið 2004.  Er ekki kominn tími til að þessi 1/5 hluti þjóðarinnar fái tækifæri til að skrá sín "sóknargjöld" í það lífsskoðunarfélag sem höfðar mest til hans?


Húmanismi - lífsskoðun til framtíðar

Hér fer grein mín sem birtist i Mbl í gær sunnud. 30. sept 07.:

Lífsskoðanir okkar hafa djúp áhrif á það hvernig okkur reiðir af og hvernig lífshlaup okkar verður í því samfélagi sem við búum í. Uppgangur húmanískra siðferðishugmynda hefur orðið til þess að miklar framfarir hafa orðið í mannréttindamálum  víða um heim og þá sérstaklega í hinum „vestræna“ hluta hans. Fólk  hefur losað sig undan kreddukenndum hugmyndum trúarbragða, afvegaleiddrar þjóðernishyggju og forræðishyggju, sem lifði góðu lífi á gullöldum kirkjulegra valda í Evrópu. Óskorað vald karlmanna hefur smám saman orðið að víkja og stærsti sigurinn vannst þegar konur fengu kosningarrétt á fyrri hluta 20. aldarinnar þrátt fyrir mikla andstöðu kirkjudeilda og íhaldssamra stjórnmálaafla.   Mismunun vegna kynþáttar eða kynhneigðar hefur víða mátt víkja en helst eru það trúfélög sem standa á móti rétti samkynhneigðra til að njóta sömu þjóðfélagsstöðu og aðrir í heiminum. 

Í húmanismanum felst heimsspekileg náttúruhyggja (að lífið eigi sér náttúrlegar skýringar), skynsemishyggja (treysta á vitræna getu okkar) og efahyggja, þ.e. að nýjar staðhæfingar eða tilgátur séu ekki teknar trúanlegar nema að þær standist rökfræðilega skoðun og prófanir, t.d. með aðferðum vísindanna.   Einn stærsti sigur húmanískra hugsjóna var stofnun Sameinuðu Þjóðanna (SÞ) og gerð mannréttindayfirlýsingar þeirra.   Alþjóðasamtök húmanista, International Humanist and Ethical Union (IHEU) hafa alla tíð starfað náið með SÞ og það var fyrsti forseti alþjóðaþings IHEU, líffræðingurinn Julian Huxley sem var einnig fyrsti forseti menningar-, mennta- og vísindastofnunar SÞ, UNESCO árið 1946.  Einn þekktasti trúleysingi og mannúðarsinni síðustu aldar var Englendingurinn Bertrand Russell (1872-1970) sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1950 fyrir skrif í þágu frálsrar hugsunar.

Nú á tímum upplýsingaflæðis og alþjóðavæðingar er á ný sóst að skynsemishyggju og húmanískum gildum með lúmskri trúarlegri innrætingu, „pólitískt réttum“ yfirgangi bókstafstrúarfólks og uppgangi gervivísinda sem notfæra sér glundroða þann sem ófullnægjandi raungreinakennsla og stundum óvandaður fréttaflutningur um vísindi og læknisfræði hafa skapað í hugum fólks.  Vegna þessa hafa fjölmargir fylgjendur manngildissins og velferðar hins lýðræðislega samfélags risið upp og komið saman í æ meira mæli sem húmanistar víða um heim.  Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 hafa æ fleiri gert sér grein fyrir því að það eru ekki aðeins bókstafstrúarmenn sem ógna húmanískum gildum eins og mannréttindum heldur einnig hin svokölluðu hófsömu trúarbrögð með því að viðhalda grunninum að hinum trúarlega og forneskjulega hugmyndaheimi þeirra.

Margt  fólk er að vakna til vitundar um mikilvægi húmanismans, t.d. sem sú lífsskoðun sem er öflugusta vopnið gegn kúgun kvenna víða um heim.  Fyrirlestar baráttukonunnar Maryam Namazie á dögunum báru þess glöggt vitni.  Sómalski rithöfundurinn, femínistinn og trúleysinginn Ayaan Hirsi Ali benti einnig á hættuna af trúarlega tengdu siðferði í sjónvarpi og blöðum nýlega.

Á Íslandi hafa húmanistar átt sitt lífsskoðunarfélag frá 1990 en það heitir Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi.   Á næsta ári á borgaraleg (veraldleg) ferming 20 ára afmæli og er það sérstakt ánægjuefni því nær 1000 ungmenni hafa hlotið húmaníska lífssýn í gegnum fermingarfræðslu félagsins  á þessum árum.  Það stefnir nú í metþátttöku á afmælisárinu.  Siðmennt nýtur ekki þeirra fríðinda að fá félagsgjöld í formi "sóknargjalda" innheimt og afhent af ríkinu líkt og trúfélög á Íslandi fá, þrátt fyrir að standa fyrir þau gildi sem stuðla að hvað mestri mannvirðingu, jafnrétti og bestu menntun allra landsmanna.  Ég vil hvetja það fólk sem telur sig vera húmanista að skrá sig „utan trúfélaga“ á skrifstofu Þjóðskrár og ganga til liðs við Siðmennt. Vefsíða félagsins er www.sidmennt.is. Þetta er mikilvægt því húmanistar þurfa að standa saman og verja og rækta gildi sín. Siðmennt þarfnast þess að fólk sem telur sig eiga samleið með húmanískum lífsgildum gangi til liðs við félagið til að stuðla að uppbyggingu veraldlegra valkosta við félagslegar athafnir eins og útfarir, nefningar og giftingar.  Það er sérstaklega ánægjulegt að í vetur mun Siðmennt bjóða uppá þjálfaða athafnarstjóra fyrir veraldlegar útfarir í fyrsta sinn.  Tökum höndum saman.

Imagine - minnisvarði um John Lennon

Þegar George Harrison dó árið 2001, var minnisvarðinn um John Lennon í Central Park, skreyttur blómum og fólk kom þar saman og söng lög eftir Harrison.   Það var eftirminnileg stund.  Þessi mynd er frá þeim stað árið 2004.  Minnisvarðinn "Imagine" vísar til samnefnds lags Lennons þar sem hann yrkir: "ímyndið ykkur heiminn án trúarbragða". 


Tímamót: Siðmennt giftir í fyrsta sinn

Það gleður mig að tilkynna hér að í dag lagardaginn 22. september verður brotið blað í sögu siðræns og veraldlegs húmanisma á Íslandi. 

Eftirfarandi fréttatilkynning var send frá Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi á dögunum í tilefni þess að í fyrsta sinn á Íslandi verður par gefið saman í hjónaband af athafnarstjóra Siðmenntar. 



Þann 22. september verða gefin saman ___ og ___ kl 14:00 í Fríkirkjunni í Reykjavík, af Jóhanni Björnssyni athafnarstjóra Siðmenntar. Þetta er í fyrsta sinn sem veraldleg gifting fer fram á vegum Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi og er hún haldin í Fríkirkjunni í Reykjavík þrátt fyrir að ekki sé um trúarlega athöfn að ræða.
Siðmennt er lífsskoðunarfélag og hefur boðið uppá borgaralegar fermingar undanfarin 19 ár. Félagið er nú í óðaönn að útvíkka þjónustu sína og mun fljótlega bjóða uppá veraldlegar giftingar og útfarir allt árið um kring. Þessar veraldlegu þjónustur við félagslegar athafnir fjöldskyldunnar eru góður valkostur fyrir fólk sem telur sig trúlaust, efahyggjufólk eða húmanista og eru í örum vexti víða um heim.

Parið mun fá borgaralega giftingu hjá sýslumanni rétt fyrir hina veraldlegu hjá Siðmennt.  

Ég útskýrði þetta og fleira á Morgunvakt rásar 1 í gærmorgun í stuttu viðtali en ég er fyrir nefnd hjá Siðmennt sem sér um uppbyggingu veraldlegra athafna félagsins.

Sjá einnig á heimasíðu Siðmenntar


Fríkkaður viðbjóður

Börn eru hvött til að lesa biblíuna og það eru sérstakar barnabiblíur til með vinalegum myndum af fallegu fólki með ávölum og þægilegum útlínum.  Móses er mikil hetja, flytur hina helgu þjóð út úr Egyptalandi eftir að Guð sendi 10 plágur á þjóð Farósins, m.a. ein sem drap öll ungabörn.  Hrikalegt en einhvern veginn svo eðlilegt... eða hvað?   Abraham fær boð um að sanna trú sína með því að fórna syni sínum á altari.  Hann ætlar að gera það en Guð sendir honum engil sinn og segir að hann hafi sannað sig... "allt í plati... bara að prufa þig góði Abraham" virðist þessi Guð hafa hugsað.  Hollt lesefni fyrir börn.  Styrkir fórnfýsi og hlíðni býst ég við... eða hvað? 

Í sumar sagði ónefndur 12 ára drengur mér frá þessum sögum sem hann var að læra í skólanum.  Ég varð forvitinn og spurði hann:  "kennir kennarinn þinn þér þetta sem sannleika... að þetta hafi gerst í alvörunni?"  Drengurinn vissi ekki hverju hann ætti að svara en fann inná að ég trúði þessu ekki og spurði á móti: "Trúir þú ekki á guð?",  "Nei" svaraði ég að bragði án frekari útskýringa.  Þá kom nokkuð sem ég átti ekki von á frá 12 ára dreng.  Hann sagði: "Þú ættir að skammast þín!".   Ég gat ekki annað en brosað af ákveðni hans en þessi viðbrögð sögðu meira en hafði spurt um.

Svo fá unglingarnir okkar, okkar fallegu ungmenni fá að lesa fullorðinsbiblíu þegar á fermingaraldurinn kemur, fullra 13 ára.   Skyldu þau nokkuð nenna að lesa alla Biblíuna?  Hún er svo andskoti löng.  Jæja, tæpast nema örfá þeirra færu að lesa hana.  Það hlýtur nú að vera forvitnilegt að lesa þessa bók sem virðulegir prestar klæddir valdsmannlegum kuflum halda svo mikið uppá.  Pabbi og mamma horfa á þessa menn með dreymnum augum og þeir halda svo fallega utan um bókina miklu.

Best að kíkja einhvers staðar í Biblíuna.  Blaðsíða 281, í Dómarabókinni, kafli 21 sem heitir "Meyjarrán í Jabes í Gíleað".  Skrítið og skrítnir staðir.   Í 10. málsgrein stendur:

(10) "Þá sendi lýðurinn þangað tólf þúsundir hraustra manna og lagði svo fyrir þá: "Farið og fellið íbúana í Jabes í Galíað sem sverðseggjum, ásamt konum og börnum.  (11)  En þannig skuluð þér að fara:  Alla karlmenn og allar konur er samræði haf átt við mann (..ehm, semsagt alla homma og eiginkonur), skuluð þér banni helga, en meyjar skuluð þér láta lífi halda."  Þeir gjörðu svo.  (12) Og þeir fundu meðal íbúanna í Jabes í Gíleað fjögur hundruð meyjar, er eigi höfðu samræði átt við mann, og þeir fóru með þær til herbúðanna í Síló, sem er í Kanaanlandi.  (13) Þá sendi allur lýðurinn og lét tala við Benjamíns sonu, þá er voru hjá Rimmónkletti, og bauð þeim frið.  (14) Þá hurfu Benjamínítar aftur og þeir gáfu þeim konur þær, er þei höfðu látið lífi halda af konunum í Jabes í Gíleað.  Þær voru þó ekki nógu margar handa þeim."

Næsti kafli Dómarabókarinnar heitir svo "Meyjarrán í Síló".  Það vantaði konur fyrir karlana í ætt Benjamíns og því var þeim ráðlagt af öldungum Ísraela að ræna sér konum í Síló.  Einhverra hluta vegna máttu ekki aðrar ættkvíslar Ísraela gefa Benjamínítum konur.  Það var greinilega mun betri kostur að ræna konum frá öðrum.  Kaflanum líkur svo þannig að "Benjamíns synir gjörðu svo" og komust upp með það án eftirmála. 

Ótrúlegt.  Hvílíkir barbarar!  En samt allt með blessun öldunga og í nafni Guðs.  Benjamínítarnir voru greinilega bænheyrðir enda af Guðs útvöldu hljóð.  Aumingja fólkið í Síló, en hverjum er ekki sama? og þetta er bara saga..., reyndar í Biblíunni sem á að leiða börnin okkar til siðsamara lífs.

Skemmtilegur lestur og uppbyggilegur Frown.  Er ekki svona efni bannað innan 18 ára í kvikmyndum?  Er þetta handbókin fyrir 13 ára ungmenni á 21. öldinni?

Ég fór að lesa þetta því ég var að glugga í bók Annie Laurie Gaylor - Woe to the Women The Bible Tells Me So, The Bible, Female Sexuality & the Law.   Þar er vitnað í manngæsku hinnar guðs útvöldu þjóðar og afstöðu til kvenna. 

En viti menn!  Ég sem fullorðinn að lesa þetta rakst á eftirfarandi.  Við samanburð á enska texta Biblíunnar og hinum íslenska rak ég augun í það að búið er að fegra íslensku útgáfuna.  Lesum nú enska textann sem vantar í Dómarabókina 21; 11-14:

"Take her home, pare her nails, shave her head, have her bewail her parents for one month, then go in onto her, and be her husband"  Þýðing mín:  "Færðu hana heim til þín, klipptu neglur hennar, rakaðu höfuð hennar og láttu hana syrgja foreldra sína í einn mánuð, hafðu þá samræði við hana og vertu henni eiginmaður" 

Sem sagt hér eru leiðbeiningar um það hvernig Benjamínítarnir áttu að halda nauðugum, leyfa að gráta í 1 mánuð, niðurlægja svo með rakstri og nauðga þeim hreinu meyjum sem þeir rændu í hernaði.   

Hvers vegna skyldi þýðandinn / þýðendurnir hafa sleppt þessum hluta úr íslensku þýðingunni?  Var þetta e.t.v. of svívirðulegt? of óhugnalegt? of viðbjóðslegt? til að hafa í hinni heilögu bók?  Var það of freistandi að loka augunum augnablik og hreinlega gleyma að þýða þessar setningar?  Vissulega hlaut að vera nóg að hafa lýst því að Benjamínítarnir ættu að drepa konur og börn.  Úff, ekki vildi ég vera þýðandi þessarar bókar. 

Bíðum nú aðeins hæg.  Woundering  Kannski er ég að missa af einhverjum tilgangi.  Kannski er þetta einhverjum lexia.  Kannski er í lagi að hafa "leiðarbók lífsins" uppfulla af morðsögum og nauðgunum?  Fullt af fullorðnu fólki segir ekkert um þessa hluti. 

Nei... Á meðan ég get ekki talið það réttlætanlegt að hafa svona efni í leiðbeiningarbók að lífinu ætla ég að ráðleggja öllum að halda þessari bók frá börnum og ungmennum.   Það eru svo margar góðar bækur sem hægt er að lesa í staðinn. 

____

Viðbót:  Það er víst skýring á þessu ósamræmi á milli ensku og íslensku útgáfunnar.   Hjalti bendir á í færslu 4 að það sem vantar sé í 5 Mósesbók í íslensku biblíunni.   Þetta er því ekki "fríkkaður viðbjóður" heldur "færður viðbjóður".


Lífsskoðanir – hvað er húmanismi?

Húmanistar eru þeir einstaklingar sem aðhyllast svokallaðan húmanisma (manngildishyggju) en hann hefur í raun fylgt manninum frá örófi alda þó að skilgreiningin sjálf sé ekki nema um 150 ára gömul.  Húmanismi birtist t.d. í því að manneskjan hefur þurft að reiða sig á rökvísi sína, fyrirhyggju og jákvætt samstarf við annað fólk til þess að komast af.  Þegar við lýsum tegundinni manninum (homo sapiens) sem „hinum viti borna manni“ erum við í raun að höfða til kjarna húmanismans.  Það er geta mannsins til að skoða umhverfið og finna í því eiginleika sem eru jafnvel utan beinnar skynjunar skilningarvitanna og nota þá sér í hag.  það er hin greinandi hugsun og getan til að búa til verkfæri og flytja þekkinguna á milli kynslóða.

Lífsskoðanir  (life stance) eru samansafn þeirra hugmynda sem líta að því hvernig við horfum á heiminn, hvernig við útskýrum lífríkið og náttúruna og hvaða aðferðum við viljum beita til að afla nýrrar þekkingar (þekkingarfræði) og vita hvernig við eigum að hegða okkur gagnvart hvert öðru og umhverfi okkar (siðfræði).   Þá eru menningarlegar hugmyndir um framkvæmd mannfagnaða vegna persónulegra lífsáfanga og tryggðarbanda oft samofinn hluti af lífsskoðunum fólks.  

Þekkingarfræði húmanista byggir á því að notast einungis við rökfræðilegar (vísindalegar) aðferðir og tilraunir á hinum þekkta efnisheimi til að afla staðreynda um heiminn, lífið og tilveruna.  Húmanismi (manngildishyggja) byggir á mannvirðingu, einstaklingsfrelsi, samábyrgð, lýðræði og vísindalegri aðferðafræði.  Skynsemishyggja (rationalism) og veraldarhyggja (secularism) eru ríkir þættir í húmanisma. 

lífsskoðunarfélögum má skipta í annars vegar trúfélög og svo aftur veraldleg félög sem ekki trúa á guð eða guði eins og Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi.   Hin almenna skilgreining á trú er sú að fylgjandinn trúi á einhvers konar æðri mátt eða guðlegan anda.  Húmanistar eru því ekki trúaðir og eiga það sameiginlegt með trúleysingjum  (non-believers) og guðleysingjum (atheists).   Guðleysi og trúleysi eru hins vegar mun afmarkaðari hugtök en manngildishyggja því þau skilgreina í raun einungis að manneskjan sé ekki trúuð, burt séð frá öðrum lífsskoðunum hennar.  Það eru því til trúleysingjar sem gætu ekki talist til húminasta þó trúleysið sé þeim sameiginlegt.  

Á meðal lífsskoðana má einnig telja skoðanir fólks á stjórnmálum þó svo flest lífsskoðunarfélög (þ.m.t. trúfélög) taki oftast ekki sterka pólitíska afstöðu.   Það er þó ljóst að trúfélög hafa áhrif á stjórnmál  því siðferðislegar hugmyndir eru nátengdar pólitík og lagagerð.   Húmanistar styðja lýðræðislega skipan þjóðfélaga, jafnrétti kynjanna, trú- , tjáningar- og lífskoðunarfrelsi, jafnan rétt til náms og afnám dauðarefsingar.    

Þá telja húmanistar að veraldlegur (secular) grunnur laga, stjórnskipulags, dómskerfis, menntunar og heilbrigðiskerfis verði að vera fyrir hendi til að tryggja jöfnuð og trúarlegt hlutleysi hins opinbera.   Sagan hefur sýnt að trú og stjórnmál eru ákaflega ófarsæl blanda sem leitt hefur til alls kyns ójöfnuðar og tíðra stríða milli þjóða eða þjóðarbrota.  Í Tyrklandi nútímans má sjá baráttu hins veraldlega og betur menntaða hluta þjóðarinnar við hin trúarlegu afturhaldsöfl sem hafa náð þar völdum.  

Í mörgum samfélögum hafa  „veraldleg“ og „húmanísk“ viðhorf í flestum tilvikum farið saman.   Á því eru þó undantekningar og það má segja með nokkru réttu að kommúnisminn hafi verið veraldlegur þar sem hann byggði ekki á trú.  Hann var hins vegar alls ekki húmanískur því hann gekk á móti mikilvægum siðferðisgildum eins og lífsskoðunarfrelsi, tjáningarfrelsi og lýðræði.   Það þarf því meira en veraldlega skipan (skipulag án trúar) hins opinbera til að skapa réttlátt og siðferðislega þroskað þjóðfélag.   

Veraldleg skipan verður þó alltaf hornsteinn þess að vernda þegnana gegn kreddufullum trúarkenningum og trúboði.  Ísland öðlast ekki fyllilega veraldlega skipan fyrr en við hættum að halda þjóðkirkju og afnemum forréttindi trúarbragða úr lögum og stjórnarskrá landsins.  Aðskilja ber ríki og trú, opinbera starfsemi og kirkju.

  Þessi grein var birt í Fréttablaðinu 13. september en í styttri útgáfu án samráðs við mig.  Ég kann Fréttablaðinu því 2/3 þakkir fyrir birtinguna.  Wink  Hér geta áhugasamir lesið greinina alla. 


Til útskýringar á hugtökum og orðum

Undanfarin blogg hafa mörg hver innihaldið myndbönd þar sem umræða um trúarbrögð (religion) og hinar ýmsu lífsskoðanir og hugtök þeim tengd hafa komið fram á ensku.  Fyrir þá sem eru ekki vanir að hlusta á ensku sem tengist þessum málum getur verið erfitt að skilja öll þau orð og hugtök sem notuð eru í þessum myndböndum.  Ég ætla því að setja hér nokkrar þýðingar og útskýringar á nokkrum þeirra.

Religion - trúarbrögð, faith - trú

Life stance organization - lífsskoðunarfélag, þ.e. félag sem hefur ákveðnar stefnur í lífsskoðunum eins og hvað sé gott siðferði, hvernig heimsmyndin sé (útskýring á lífríkinu og stöðu jarðarinnar í alheiminum) og hvernig þekkingu sé best aflað (vísindalega eða með öðru móti), hvort yfirskilvitegar verur eða æðri verur / guðir / guð sé til og hvernig fagna eigi ýmsum áföngum í lífinu (nefning, ferming, gifting) og kveðja / minnast hinna látnu (útför).  Lífsskoðunarfélögum má skipta í tvo megin flokka, annars vegar trúfélög og hins vegar veraldleg félög með sömu viðfangsefni.  Siðmennt, félag siðrænna húmanista, er dæmi um hið síðar nefnda.  Lífsskoðunarfélög eru ekki valdafélög eins og stjórnmálaflokkar en geta haft talsverð áhrif á lífssýn fólk hvað stjórnun og lagagerð varðar.  Það er því talsverð skörun á sviði stjórnmálaflokka og lífsskoðunarfélaga.

Islam - Íslam, þ.e. annað hvort hin íslamska trú sem slík eða samheiti yfir öll þau landssvæði í heiminum þar sem íslömsk trú (múhameðstrú) er iðkuð.  Á arabísku þýðir orðið "undirgefni" eða alger hlýðni við Guð múhameðs spámanns.  Fylgjendur Íslam eru kallaðir múslimar.

Islamist - Íslamisti, er komið af orðinu islamism eða íslamshyggja sem byggir á því að áhrifa Islam eigi ekki bara að gæta í trúarlífinu heldur einnig í pólitík og stjórnarfari íslamskra þjóða.  Íslamistar eru þeir/þær því kallaðir sem fylgja slíku og vilja halda uppi trúarlögum Íslam í stað veraldlegra þingsettra laga.  Lög Islam kallast sharia.  Íran er dæmi um land þar sem sharia lög eru við lýði.  Tyrkland hefur aftur haldið þeim að mestu frá.

Hijab, burka - arabísk orð yfir trúarklæði kvenna á meðal múslima.  Burkan hylur allt nema augun.  Veil - blæja eða hula.

Intimidation - það að draga kjark úr með hótunum eða ógnunum

Secularism / secularity - veraldarhyggja, þ.e. sú stefna að trúarbrögð og kirkjudeildir séu aðskilin frá hinu opinbera og hafi ekki pólitísk völd í þjóðfélögum.  Sönn veraldarhyggja kveður á um að trúarleg starfsemi fari ekki fram í menntakerfinu, dómskerfinu, heilbrigðiskerfinu, lagakerfinu, þinghaldi og öllum opinberum rekstri. 

secular - veraldlegur.  Lýsingarorð yfir starfsemi, stofnanir, þjóðfélög, lífsskoðanir og aðra þá hluti sem eru ekki trúarlegir og byggja ekki á trú.  Dæmi: secular funeral - veraldleg jarðarför.  Secular socitey - veraldlegt þjóðfélag.   Secular þjóðfélög eru ekki endilega án starfandi trúfélaga en eru alveg eða að mestu byggð á stjórnskipan og valdakerfi sem starfa óháð trúarbrögðum eða kirkjudeildum. 

Transgression - brot gegn ríkjandi lögum. 

misogynist religion/society - trúarbrögð eða þjóðfélög sem beita konur misrétti

Apologist - Afsakandi eða verjandi, þ.e. persóna sem heldur uppi vörnum fyrir stefnu, trú eða lífsskoðanir sem sæta mikilli gagnrýni.  Orðið er jafnan notað af þeim sem heldur uppi gagnrýninni.

Atheist - Guðleysingi eða trúleysingi.  Manneskja sem trúir ekki á tilvist æðri máttarvalds.  Það er algengt á vesturlöndum að trúleysingjar séu einnig húmanistar en það fer ekki alltaf saman.

Humanist - húmanisti, manngildishyggjumaður, þ.e. persóna sem er trúleysingi en jafnframt fylgjandi lífsskoðunum sem byggja á mannvirðingu, einstaklingsfrelsi, samábyrgð, lýðræði og vísindalegri aðferðafræði.  Skynsemishyggja (rationalism) og veraldarhyggja (secularism) eru ríkir þættir í húmanisma.  Maryam Namazie er húmanisti og virkur meðlimur í Breska húmanistafélaginu.   Siðmennt er félag siðrænna húmanista á Íslandi.  Hope Knútsson er formaður þess.

Cultural relativism - Menningarleg afstæðishyggja, eða moral relativism - siðferðisleg afstæðishyggja, þ.e. sú skoðun að siðferði fari eftir menningarheimum og að það sé afstætt hvað sé rétt eða rangt á hverjum stað.  Fylgjendur þessarar stefnu eru oft á móti því að gagnrýna aðra menningarheima og segja að það sé t.d. ekki okkar í hinum vestræna heimi að skipta okkur af venjum og lífsmáta t.d. austurlandabúa.  Það sé jafnvel ekki okkar að hafa nokkuð um það að segja hvernig menningarhópar í sérstökum hverfum hér hagi sínum málum, svo lengi sem það hafi ekki áhrif út fyrir þeirra raðir.  Þessi stefna er oft kennd við svokallaðan póstmodernisma.

Universal values, universal rights, natural rights - algild siðferðisgildi eða réttindi um allan heim, eða náttúruleg réttindi allra manna.  Þessi hugtök þróuðust í upplýsingunni og boðuðu að allt fólk óháð stétt eða stöðu ætti ákveðin réttindi.  Afkvæmi þessa voru mannréttindin.  Þessi stefna er ólík afstæðishyggjunni því hér er talið að allir eigi ákveðin grundvallarréttindi óháð menningu, þjóðerni eða trúarsamfélagi.   Húmanistar (þ.á.m. Maryam Namazie) eru þessu fylgjandi.

Þetta eru mikilvægustu hugtökin en sjálfsagt má bæta eitthvað við.  Vonandi kemur þetta einhverjum að gagni t.d. við lestur greina í The International Humanist News, en það er geysilega gott rit um baráttu húmanista um allan heim fyrir bættum mannréttindum og brotthvarfi hindurvitna.  Í marsblaði 2006 eru margar greinar um Islam og í nýjasta blaðinu, ágúst 2007 er fullt af greinum um mannréttindamál kvenna, m.a. grein Maryam Namazie um blæjuna.


Spurningar til Maryam Namazie í Odda 6. sept 07

Hér fer video frá fyrirspurnartímanum eftir fyrirlestur Maryam Namazie í Odda þann 6. september s.l.  Þar ber margt á góma og var ánægjulegt að sjá að hún fékk stuðning á meðal Írana sem voru þar að hlusta á.  Í lokin svaraði hún spurningunni "Er nokkur von?" á skemmtilegan máta.  

Þetta er síðasta myndbandið frá heimsókn Maryam Namazie hingað.  Hún er að mínu viti en merkasta baráttumanneskja fyrir mannréttindum sem ég hef séð hin síðari ár og það gladdi mig mikið að fá að njóta þess að hlusta á hana hér heima.  Heimurinn í dag þar sem trúarbrögð eru álitin yfir gagnrýni hafin kann eflaust ekki fyllilega að meta hana en ég á von á því að það muni breytast talsvert á næstu 5-10 árum.  Kynnið ykkur boðskap þessarar merku konu.


Fyrirlestur Maryam Namazie í Odda 6. sept 2007

Hér að neðan fer upptaka mín á fyrirlestri Maryam Namazie í Odda, Háskóla Íslands, þann 6. september s.l.

Fyrirlestur hennar fjallaði m.a. um Ráð fyrrum múslima, baráttuna gegn pólitísku Íslam og réttinn til þess að láta af trú.  Henni var ákaflega vel tekið á þessum fundi sem fór frami fyrir troðfullum sal.  Ég birti fyrirspurnartímann síðar.


Fyrirspurnir til Maryam Namazie á Hallveigarstöðum

Hér að neðan fer videoupptaka mín frá fyrirspurnartíma á fyrirlestir Maryam Namazie að Hallveigarstöðum 5. september s.l.  Fundurinn var haldinn í boði Kvenréttindafélgas Íslands og fjallaði aðalega um blæjuna og stöðu kvenna í löndum þar sem Islam er við lýði.

Ég vil hvetja alla landsmenn til að kynna sér hvað Maryam Namazie hefur að segja því það hefur mikið gildi hvað stefnumótun og afstöðu við hér á landi viljum taka til mikilvægra mannréttindamála og hvernig við eigum að berjast gegn yfirgangi Islamista og bókstafstrúarfólks sem vill koma trú sinni í hið opinbera kerfi og fá pólitísk völd.


Egill fer röklausum hamförum

Egill Helgason "í Silfrinu" fer hamförum í túlkun sinni á Richard Dawkins og Vantrú á bloggsíðu sinni.  Þar heldur hann ýmsu fram án frekari rökstuðnings.  Hér ætla ég aðeins að fjalla um þessa færslu Egils því hann býður ekki uppá athugasemdir á eigin bloggi.  Pistill Egils heitir "Ofstæki" og fer hér að neðan skáletraður og með mínu athugasemdum á milli.

"Ofstæki

richardgalapagosdiary.jpg

"Vandinn við Richard Dawkins er að hann er síst minni ofstækismaður en margt af því fólki sem hann er að fjalla um."

Hér ruglar Egill saman sterkum áhuga og ofstæki.  Margir falla í þess gildu dómgreindarleysis.  Dawkins er einarður baráttumaður gegn haldvillum trúarbragðanna og gervivísindanna.  Hann fjallar um þessi mál á opinskáan og gagnrýnin máta rétt eins og Egill leyfir sér að gagnrýna stjórnmálin hart.  Hvað er ofstæki í huga Egils?  Er það skoðun sem er öðruvísi en hann á að venjast (en ekki endilega röng) eða er það skoðun sem veldur skaða og er hættuleg?  Hvernig getur Egill sagt að Dawkins sé eitthvað í líkingu við morðóða talibana eða hómófóbíska Evangelista?  Dawkins er harður af sér en málstaður hans er sú hógværa krafa að fólk láti af blindri trú og kukli.  Það virðist því miður vera til of mikils mælst að áliti Egils.  Annars skil ég ekki þessi orð hans því hann færir hreinlega engin rök fyrir þeim

"Nýskeð var ég í Glastonbury sem telst vera miðstöð nýaldarfólks og alls kyns kukls. Mér fannst þetta bara frekar vinalegt."

Já, það er vinalegt að sjá fullt af vel meinandi fólki reyna að bæta heilsu annara en það er bara toppurinn á ísjakanum.  Lítur Egill ekki undir yfirborðið í þessum málum eins og honum er svo tamt að gera í stjórnmálunum?  Er Egill blindur hvað nýaldarkuklið varðar?  Það kukl sem nýaldarbylgjan endurfæddi veldur geysilegum fjárútlátum og skemmdum á menntun þjóðarinnar.  Líkt og órökstuddar trúarhugmyndir er kuklið kerfi haldlausra hugmynda sem tefja framfarir og skaða á endanum.  Í besta falli eru þær meinlausar lyfleysur en margt verra hlýst af þeim eins og ég hef fjallað um hér í fyrri færslum.

Ég get hugsað mér svo ótalmargt verra sem fólk getur fundið sér til að gera. Það geta ekki allir verið skynsamir.

Já vissulega er hægt að hugsa sér margt verra en það gerir ekki vitleysuna betri fyrir vikið og ekki er gott að hún breyðist út.  "Það geta ekki allir verið skynsamir"  Hvílík uppgjöf!  Er þá bara í lagi að gera ekki neitt til að bæta skynsemi fólks?  Ég vildi gjarnan bæta skynsemi Egils því að hann hefur trúlega nóg af gráu efni innanborðs til að meðtaka rök. 

Í þessu felst líka ákveðin þversögn. Dawkins og hans fólk (sem mér liggur við að kalla sértrúarsöfnuð) er mjög uppsigað við það sem má kalla trúarþörf. En sóknin í nýaldargutlið ber vott um mikla þörf fyrir að trúa – við getum jafnvel kallað það trúgirni.

Aftur ruglar hér Egill og sér ekki muninn á áhuga og trú.  Hver er þversögnin?  Ég er ekki nógu gáfaður til að sjá hana í skrifum Egils.  "Dawkins og hans fólki" er ekki uppsigað við trúarþörfina, heldur trúarhugmyndirnar sem slíkar.   Egill þarf að skoða myndbönd Dawkins og lesa bók hans The God Delusion vandlega áður en hann kastar svona rugli fram.   Dawkins tekur fyrir þessa þörf sem eina af hugsanlegum ástæðum fyrir sókn fólks í trú.  Um þessa þörf hefur farið fram mikil umræða og er þörfin ekki endilega sókn í trú upprunalega, heldur þörf fyrir huggun og sýn á eitthvað til bjargar.  Dawkins bendir á að það séu aðrar leiðir en trú til að fullnægja sömu þörf.

Ljóst er að Egill ber ekki mikla virðingu fyrir "nýaldargutlinu" eins og hann kallar það en hann getur ekki unað "Dawkins og hans fólki" að gagnrýna það af krafti.  Þá er það "ofstæki".   Ég vil hvetja Egil til að skilgreina betur fyrir sjálfum sér hvert hann vill að fólk stefni og koma með einhver rök þegar hann gagnrýnir góða fulltrúa rökhyggju og skynsemi á borð við Dawkins og Vantrú.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband