Ákvörðun gegn stjórnarskrá landsins
26.4.2007 | 21:51
Í gær ákvað mikill meirihluti presta og guðfræðinga (66) á Prestaþingi Íslands á Húsavík, að styðja ekki tillögu 22 presta sem fóru þess á leit við prestaþingið að það styddi lagafrumvarp það sem fékk ekki afgreiðslu í vetur og var á þá leið að heimila ætti trúfélugum að gefa saman samkynhneigð pör.
Þarna braut trúfélag sem nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskránni á ákvæðum hennar um jafnrétti.
Þetta varðar hreinlega þau mannréttindi að allir söfnuðir megi taka sína sjálfstæðu ákvörðun um það hvort þeir vilji gefa saman samkynhneigða eða ekki. Ef frumvarpið fengi brautargengi og samþykkt á Alþingi næsta haust mætti Þjóðkirkjan eftir sem áður ákvarða sjálf hvort hún vilji gefa saman samkynhneigða. Hins vegar verður "Þjóðkirkja" að standa undir nafni og því yrði það erfiðara fyrir forystu hennar að neita samkynhneigðum um vígslu sé lagaheimild til þess til staðar. Forysta kirkjunnar ákveður því að letja stjórnvöld í þessum efnum svo að hún þurfi ekki að taka ákvörðun sjálf. Þetta er með því lágkúrulegra sem hægt er að hugsa sér, hvað varðar sjálfsábyrgð og hugrekki til að standa á eigin spýtur við eigin skoðanir og ákvarðanir. Nei, meirihluti presta á prestaþingi getur ekki unað trúfélögum á Íslandi að hafa sjálfákvörðunarrétt í málinu, til þess að geta varpað ábyrgðinni á löggjafann. Vissulega liggur ábyrgðin nú í höndum löggjafans en í vetur guggnaði ríkisstjórnin á því að láta þetta mál fram ganga, eftir að Karl Sigurbjörnsson biskup, bað um frest í áramótaræðu sinni. Það er augljóst að 66:22 meirihluti er ekki neitt á leiðinni að breyta skoðun sinni og því er ekki um frest að ræða. Landsþing Sjálfstæðisflokksins ályktaði að það myndi styðja tillöguna á komandi þingi. Ekki man ég eftir því að landsþing Framsóknarflokksins hafi gefið frá sér neitt slíkt, enda er hæsta hlutfall trúaðra þar innanborðs á meðal stjórnmálaflokka.
Enn og aftur kemur það í ljós hversu óeðlilegt það er að trúfélag, þó að það sé það elsta og stærsta, sé verndað af stjórnarskráratkvæði og hafi þannig óeðlileg völd innan stjórnkerfi landsins. Sú sama stjórnarskrá kveður á um að fólki sé ekki mismunað á grundvelli kynhneigðar eða trúar, en Þjóðkirkjan er það afl á Íslandi í dag sem stendur fyrir hve mestu misrétti og misnotkun á stöðu sinni í þjóðfélaginu í dag. Ákvörðun prestaþingsins er ekki einungis móðgun gagnvart samkynhneigðum heldur einnig brot á trúfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt trúfélaga. Þau lög sem eru í gildi í dag eru mannréttindabrot. Það eru mannréttindabrot að meina trúfélögum að gefa saman fólk óháð kynhneigð. Það er hin skýlausa húmaníska krafa nútímans að þessi mannréttindi séu virt.
Ríkisstjórnin og Þjóðkirkjan hafa einnig brotið á siðrænum húmanistum, þ.e. fólki sem aðhyllist nútíma siðferði án trúar á persónulegan guð eða yfirnáttúru. Það er brotið á jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar með því að gefa lífsskoðunarfélögum ekki sömu réttindi og trúfélögum. Lífsskoðunarfélög fjalla um siðferði, heimsmyndina og félagslegar athafnir rétt eins og trúfélög, en innihalda ekki átrúnað á yfirnátturlega hluti. Í dag er aðeins eitt slíkt félag starfandi á Íslandi en það er Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi. Samkvæmt stórri könnun Capacent Gallup í lok árs 2004 töldu um 19% landsmanna sig trúlausa. (Um 75% töldu sig trúaða en aðeins 49% töldu sig kristna. Þrátt fyrir þetta voru um 84% landsmanna í Þjóðkirkjunni) Trúlausir hafa ekki skipulagt sig í hópa eða fyrr en nýlega. Siðmennt var stofnað árið 1990 og hefur haldið borgaralegar fermingar árlega.
Það er einkum tvennt sem Siðmennt vantar uppá til að fá sömu réttindi og trúfélög. Í fyrsta lagi þarf félagið að fá skráningu hjá ríkinu og í öðru lagi þau réttindi sem skráningunni fylgja. Trúfélög skrá sig hjá ríkinu skv. lögum um skráningu trúfélaga sem voru endurskoðuð árið 1999. Til þess að fá skráningu þarf að uppfylla eftirfarandi og vitna ég hér í lögin:
"Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú sem tengja má við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur.
Enn fremur er það skilyrði skráningar að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem reglulega iðka trú sína í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld."
Siðmennt uppfyllir öll ofangreind skilyrði utan þess að það er ekki trúfélag, heldur lífsskoðunarfélag. Af ofangreindu má sjá að það geta ekki hvaða félög sem er sótt um skráningu. Siðmennt fékk Oddnýju Mjöll Árnadóttur, lögfræðing og sérfræðing í mannréttindamálum til að gera greinagerð um málið og var það niðurstaða hennar að Siðmennt uppfyllti þann kjarna málsins að byggja starfsemi sína á siðferðislegri sannfæringu sem hefði alþjóðlega tilvísan í viðurkennda heimsspeki / lífsskoðun og væri því sambærilegt trúfélagi. Lífsskoðunarfélög ættu að njóta sömu stöðu og trúfélög hjá ríkinu. Í Noregi hefur eitt stærsta húmanistafélgag heims, Human Etisk Forbund, notið þessarar stöðu allar götur frá 1979.
Eftir að hafa verið neitað tvö ár í röð um skráningu, leitaði Siðmennt eftir lagabreytingu í allan s.l. vetur og fór fyrir Allsherjarnefnd Alþingis með kynningarerindi s.l. haust. Lagabreytingin fólst í því að bæta inn ákvæðum um lífsskoðunarfélög þannig að þau fengju bæði skráningu og sóknargjöld. Með skráningunni fengi Siðmennt væntanlega einnig rétt til að halda löggiltar nafngiftir og giftingar. Siðmennt hefur lýst því yfir að það gæfi saman samkynhneigða fáist til þess nauðsynlegar lagabreytingar. Erindi Siðmenntar fékk ekki afgreiðslu hjá Allsherjarnefnd og síðar hafnaði Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra beiðni Siðmenntar um að bera fram lagatillöguna á Alþingi. Hann sagði í svarbréfi sínu að Siðmennt gæti starfað eins og hvert annað félag í landinu og hann hefði öðru þarfara að sinna.
Þetta er sú virðing sem Siðmennt fékk frá dóms- og kirkjumálaráðherra, félag sem hefur fermt yfir 900 börn í þessu landi, gefið álit sitt á fjölda siðferðislegra álitamála (nú síðast frumvarpinu um rannsóknir á stofnfrumum) fyrir nefndir borgar og alþingis, barist fyrir réttindum samkynhneigðra og fjölda annarra minnihlutahópa í landinu (m.a. innflytjenda) og er beint eða óbeint málssvari mjög stórs hóps góðra og gildra Íslendinga sem trúa ekki á guð eða yfirnátturu. Nú stendur málið þannig að nýr lögmaður Siðmenntar undirbýr lögsókn gegn íslenska ríkinu. Það er dapurlegt en ítrekaðar tilraunir til að fara siðmenntaðar leiðir samræðunnar hafa mætt skilningsleysi hjá stjórnarflokkunum, rétt eins og réttarstaða samkynhneigðra til að giftast, hjá forystu Þjóðkirkjunnar.
Skyldi engan undra að ég styð ekki þessa ríkisstjórn og ekki eru þessir hlutir ekki eina ástæðan. Kjör aldraðra og öryrkja, miðstýring og fjársvelti heilbrigðiskerfisins, með tilheyrandi biðlistum, stimpilgjöld, óábyrg stóriðjustefna (setja ábyrgðina á sveitarfélögin ein), óbjóðandi aðstaða fyrir fanga og fangaverði, kæruleysi í innflytjendamálum, ómannúðleg innflytjendalöggjöf ("24 ára" reglan) og áframhaldandi kvótakerfi í fiskveiðistjórnun eru meðal annarra ástæðna.
Allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lýst yfir stuðningi við Siðmennt og ég þykist viss um að þeir vilji leyfa trúfélugum að ráða sínum málum hvað giftingar varðar. Í þágu bættra mannréttinda í landinu þarf að koma þessari ríkisstjórn frá. Hún getur ekki einu sinni haldið á vel efnahagsmálunum en það hefur verið helsta hnoss hægrimanna fram til þessa. Ég hvet fólk til að kjósa annan hvorn stóru stjórnarandstöðuflokkanna. Það er besta tryggingin fyrir nýrri ríkisstjórn. Frjálslyndir eru best úti því þeir væru vísir til að fara í stjórnarsamstarf með xD og xB. Íslandshreyfingin, þrátt fyrir góða stefnuskrá er hreinlega ekki tilbúin og því er hætt við að atkvæði til hennar fallli dauð niður og gagnist helst ríkisstjórnarflokkunum.
Það þarf að setja aðskilnað ríkis og kirkju á dagskrá í stjórnmálum. Ég auglýsi eftir þeim stjórnmálaflokki sem hefur þann kjark að setja málið hátt á dagskrá og af miklum dug. Sjaldan hefur það verið jafn augljóst og nú að "Þjóðkirkjan" er bara forneskjulegur trúarklúbbur sem vill einungis fara sínar eigin leiðir, óháð meirihluta fólks í trúfélaginu. Sjaldan hefur það verið jafn augljóst að prestar hennar eiga að vinna fyrir eigin brauði, hjá söfnuði sem vill mæta í kirkju hjá þeim og skrá sig inn við 18 ára aldur en ekki sjálfkrafa við fæðingu. Sjaldan hefur það verið jafn ljóst að ríkið á ekki að halda uppi skóla trúfélags í Háskóla Íslands og hafa svo presta á himinháum launum um allar trissur. Þjóðkirkjan kostar okkur 3.5 milljarð á ári plús kostnað við Guðfræðideildina. Hér er ekki um lífsnauðsynlega starfsemi að ræða og hún ætti að vera einkamál hvers og eins utan þess að eðlilegt getur talist að ríkið komi að kostnaði og skipulagi við jarðsetningu / líkbrennslu látinna. Það er kominn tími til að einkavæða víðar en í bankakerfinu. Ætli margir fjárfestar myndu flykkjast að til að kaupa hlut í prestakalli?
Tillaga um hjónavígslu samkynhneigðra felld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heimsspeki og siðfræði, Húmanismi, Lífsskoðanir, Mannréttindi, Trúmál og siðferði | Breytt 27.4.2007 kl. 13:29 | Facebook
Athugasemdir
Góð grein, aðskilnað á dagskrá! kveðja,Jósep
Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 23:10
Í tillögu 42 menninganna sagði "að vígslumönnum þjóðkirkjunnar og skráðra trúfélaga verði heimilt að annast hjónavígslu samkynhneigðra", þannig að með því að hafna tillögunni hafnaði meirihlutinn fyrst og fremst fyrir þjóðkirkjuna, hitt fór með. Fjórðungur studdi þó tillöguna, það er um helmingi meira en það var fyrir 7 árum síðan eða svo. Hörðustu andstæðingar eru e.t.v. einn áttundi. Hinir vilja eitthvað sem er mitt á milli. Það leiddi til hliðarspors í gær. Svona mál taka tíma.
Carlos (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 23:20
Góður pistill og sammála þér. Svo er ekkert "kristilegt" við þennan peningaaustur í þjóðkirkjuna. Fullt af góðum málefnum sem þarf að veita lið. Er t.d. mjög hlynnt stofnfrumurannsóknum og vildi að góðu fé væri úthlutað til þeirra. Svo mætti alveg fara að byggja hús handa foreldrum barna víða í Afríku sem búa við mikla fátækt og hafa ekki einu sinni rennandi vatn, en ekki bara heimavistarskóla fyrir börnin.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 26.4.2007 kl. 23:24
Einstaklega góður og vandaður pistill. Þakka þér fyrir þitt innlegg í þessari ótrúlegu umræðu, já sem er ótrú-leg af hálfu þeirra sem telja sig vera sérstka umboðsmenn guðs hér á meðal vor.
Viðar Eggertsson, 27.4.2007 kl. 12:11
Takk fyrir jákvæðni kæru bloggarar
Þú minnist á Afríku Margrét. Ég held að stærsta vandmálið þar sé skortur á menntun, ólýðræðislegt stjórnarfar, trúarofstæki og gríðarleg spilling í stjórnkerfunum. Það besta sem við gerum fyrir þessar þjóðir er að kenna þeim að bjarga sér og byggja sig upp sjálf. Um leið og við hjálpum eigum við að ýta á að pólitískar framfarir eigi sér stað. Stór málaflokkur. b.k.
Svanur Sigurbjörnsson, 27.4.2007 kl. 14:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.