Hefði gert slíkt hið sama
16.5.2007 | 14:10
Það er ekki tilviljun að Björn Bjarnason fékk svona margar yfirstrikanir. Það er ekki einungis Jóhannes í Bónus sem er ósáttur við hans gjörðir. Ég er ósáttur við að Björn hefur ekki sýnt réttindabaráttu húmanista á Íslandi neinn skilning. Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur tvisvar sótt um sömu réttindi og trúfélög fá, þ.e. að fá skráningu og sóknargjöld gegnum ríkið en var hafnað af nefnd dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Björn sýndi engan skilning. Svo frá janúar 2006 hefur Siðmennt reynt að fá í gegn lagabreytingartillögu þess efnis að lífsskoðunarfélög eins og Siðmennt (þ.e. félag sem hefur siðferðisboðsskap og lífssýn, sér um félagslegar athafnir eins og fermingar og hefur sýnt fram á samfellu og staðfestu í starfi) fái sömu lagalegu stöðu og trúfélög. Til þess að fá fram lagabreytingu þarf að fara í gegnum stjórnarflokkana og bað Siðmennt Allsherjarnefnd að taka upp lagatillöguna en nefndin sýndi henni takmarkaðan áhuga en nokkurn skilning. Siðmennt bað Björn Bjarnason um það sama en hann sendi svarbréf þar sem hann sagði að Siðmennt gæti starfað eins og hvert annað félag í landinu og hann hefði annað við tímann að gera. Sem sagt hin kristni Björn sýndi réttindamálum húmanista engan áhuga og algert skilningsleysi.
Þó að Siðmennt sé lítið félag eða með rétt rúmlega 200 skráða félaga, er það nálægasti lífsskoðunarfulltrúi um 19.1% (+/- 2.6%) landsmanna sem telja sig "ekki trúaða" (könnun Gallup feb-mars 2004 um trúarlíf Íslendinga). Flestir trúleysingjar eru húmanistar í lífsskoðun, þ.e. treysta á siðferði reist á rökum og skynsemi en ekki heilögum bókum eða æðri mátt.
Þjóðfélagið er í heild sinni að mestu veraldlegt og er það vegna þjóðfélagslegra framfara sem af stórum hluta má rekja til hugmynda húmanista um vísindi og lýðræði. Vissir forn-Grikkir (sjöttu öld f. at.) eins og Þales ("þekktu sjálfan þig"), Anaxagóras (fyrsti fríþenkjarinn, lagði grunn að vísindum), Prótogóras og Demókrítus sem gerðu sér ljóst að siðferðishugsun byggðist ekki á trú á hið yfirnáttúrulega. Períkles var nemandi Anoxogórasar og hann hafði áhrif á þróun hugmynda um lýðræði, hugsanafrelsi og afhjúpun hjátrúar og hindurvitna. Það var svo með endurreisnartímunum á níundu, tólftu og fjórtándu öld að smám saman tókst að brjótast undan skoðanakúgun kristninnar og menn eins og Kópernikus (sólarmiðjan), Galileo Galilei (jörðin hnattlaga) og Desiderius Erasmus (Hollandi, mannvirðing) og fleiri lögðu grunninn að húmanískri hugmyndafræði. Upplýsingin á 18. öld, iðnbyltingin, franska byltingin, stjórnarskrá Bandaríkjanna og svo þróunarkenning Darwins voru allt hlutir sem kenndu fólki að hugsa út fyrir ramma trúarbragðanna og smám saman urðu þjóðfélög hins vestræna heims og síðar Austu-Asíu að mestu leyti veraldleg (secular). Þetta var og er húmanismi en af því að húmanistar hafa ekki skipulagt sig mikið í sérstaka hópa sem slíkir hafa þeir ekki verið sérlega áberandi fyrr en síðari ár.
Í Noregi er lang stærsta húmanistafélag í heimi miðað við íbúafjölda en í Human Etisk Forbund (HEF) eru um 70 þúsund félagar og HEF hefur verið skráð sem jafngilt trúfélögum þar í landi allar götur frá 1979. Nokkur þúsund ungmenna ferma sig árlega á vegum HEF í Noregi. Siðmennt og HEFeru aðilar að International Humanist and Ethical Union (IHEU) sem er alþjóðafélag humanista og nýtur það mikillar virðingar sem álitsgjafi hjá ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna, þ.á.m. UNICEF og UNESCO. Fyrsti forseti IHEU var einmitt einnig fyrsti forseti UNESCO, Julian Huxley. Margir af merkustu hugsuðum síðustu aldar voru húmanistar og má þar nefna Albert Einstein (hann var í ráðgjafanefnd The First Humanist Society of New York) og Englendinginn Bertrand Russell en hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1950 fyrir þýðingarmikil skrif í þágu baráttu fyrir hugsanafrelsi og mannúðarstefnu.
Það er ljóst að Siðmennt er mikilvægt lífsskoðunarfélag á Íslandi og það er mjög miður að þjóðin skuli hafa haft dóms- og kirkjumálaráðherra sem sýnir því engan skilning. Ef ég hefði kosið xD hefði ég einnig strikað út nafn Björns Bjarnasonar á kjörseðlinum, ekki spurning.
Rúmlega 2500 strikuðu yfir nafn Björns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heimsspeki og siðfræði, Húmanismi, Lífsskoðanir, Mannréttindi, Trúmál og siðferði, Vísindi og fræði | Breytt 17.5.2007 kl. 12:51 | Facebook
Athugasemdir
Flottur pistill hjá þér Svanur. Ég held að slóð vísindanna, hugvitsins og húmanismans sé nú ekki eins blóði drifin og slóð kirkjunnar ef út í það er farið.
Mér finnst með ólíkindum að ykkar beiðni hjá Siðmennt skuli vera hafnað. Samt er það kannski ekkert skrítið miðað við stjórn landsins. Hér er sértrúarsöfnuðum leyft að reka meðferðarheimili bara af því þau segja hallelúja og drottinn, og fá svo væna ríkisstyrki. Haldið áfram í ykkar baráttu. Ég þarf einhvern tímann að koma á fund hjá ykkur
Margrét St Hafsteinsdóttir, 17.5.2007 kl. 01:08
Takk Margrét. Vísindaleg hugsun byggir á því að meta staðreyndir mála óháð okkar fyrirfram ákveðnu hugmyndum eða tilfinningum um þau. Sannleikur og notagildi vísindanna sést í þeim tækjum (verkfæri, lyf o.s.frv.) sem af þeim leiða og gagnast okkur verulega til góðs. Sömu tækni má nota til voðaverka en að mínu mati er það ekki siðferðislegur áfellisdómur á vísindin, heldur þá siðferðishugsun sem gerandinn hefur tileinkað sér. Vísindi og tækni ein og sér tryggja ekki betri siðferðisvitund eða siðferðisþrek en vísindalega hugsandi fólk er jafnan þó þjálfaðara í að greina vandamál, þ.m.t. siðferðileg, á hlutlægari máta og út frá fleiri hliðum. Siðferði virðist vera okkur áskapað að mörgu leyti en flóknari ákvarðanir þarf að læra og kemur þar bæði uppeldi og menntun inní, og þá helst menntun í rökhugsun, félagsfræði og sjálfri siðfræðinni. Kennarar manns gegnum alla skólagönguna hafa kennt manni siðfræði með stuttum umfjöllunum og eigin eftirbreytni, þó svo siðfræði hafi ekki verið á dagskrá sem slík.
Siðferði er flókið fyrirbæri og stundum vitum við ekki alltaf af hverju við veljum ákveðna lausn á siðferðisvanda. T.d. við þær ímynduðu aðstæður þar sem maður er staddur á lestarvagni með 5 farþegum og er u.þ.b. að klessa á vegg en hef þann kost að fara yfir á annað lestarspor þar sem manneskja liggur bundin við teinana. Flestir velja að skipta um spor og fórna þannig þessu eina fyrir 5 en ef dæmið væri þannig að einhver gæti kastað 150 kg manneskju fyrir lestina og stöðvað hana þannig í tæka tíð, þá myndu fæstir telja það rétt. Hver er munurinn á þessu tvennu? Ekki margir gera sér beint grein fyrir því þó að rétt sé valið. Í seinna tilvikinu er maður að nota manneskjuna til að stöðva lestina en í fyrra tilvikinu er ekki verið að nota manneskjuna sem liggur á teinunum, heldur er hún staðsett þar óháð atvikunum.
Já það er með ólíkindum að beiðni Siðmenntar skyldi vera hafnað ítrekað. Þegar Jónína Bjartmarz stakk upp á stofnun mannréttindastofu á vegum ríkisins nú í kosningabaráttunni, fannst mér það koma úr ólíklegri átt miðað við lítinn stuðning ríkistjórnarinnar við MRSÍ og að Jónína var í Allsherjarnefnd og virtist ekki skilja baráttumál Siðmenntar. Hún er svo sem ekki ein um það og tillaga um mannréttindastofu er góð hvaðan sem hún kemur.
Svanur Sigurbjörnsson, 17.5.2007 kl. 13:51
Takk fyrir þetta Svanur. Það er eins og fólk hafi einhverjar ranghugmyndir um Siðmennt og vilji ekki skoða þeirra mál vegna þess. Hvað getur það verið annað? Haldið bara áfram og ég styð ykkur á minn hátt Ég vil alls ekki trúboð í skólum. Allt í lagi að kenna sögu trúarbragða en ekki boða trú í formi kristni. Foreldrarnir geta sinnt því ef þeir vilja. Ég ól strákana mína upp í trú á Guð sem hið góða í lífinu og upplýsandi. Þeir sögðu sig báðir úr Þjóðkirkjunni fyrir þó nokkru síðan. Þeir eru vísindalega þenkjandi en hafa ákveðna trú og eldri sonur minn er búinn að lesa um öll trúarbrögð heimsins og trúarheimspeki og er mikill hugsuður og spekúlant. Yngri strákurinn minn ætlar að verða læknir og er með mjög góða rökhugsun. Þeir eru 18 og 22 ára. Ég er sjálf mjög hlynnt vísindum og finnst þau spennandi og áhugaverð. Annars var ég að skrifa pistil sem heitir "Það eru allir trúaðir" pistillinn sem ég skrifaði þar á undan......"Trúarofstækismaður fallinn" fékk eina ofurkristna til að gráta mín vegna yfir því hversu hatursfull og grimm ég væri
Margrét St Hafsteinsdóttir, 19.5.2007 kl. 00:57
Já kannski eru þetta ranghugmyndir. Maður heldur bara áfram baráttunni. Takk fyrir stuðninginn.
Flottir strákar sem þú átt.
Þú hefur væntanlega átt við Bandaríkjamanninn sem lést nýlega. Sá var hrikalegur. Kíki á pistlana þína. :-)
Svanur Sigurbjörnsson, 19.5.2007 kl. 12:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.