Þjóðin hefur kosið

Nú er það endanlega í garð gengið að ný ríkisstjórn mun taka við löggjafa- og ráðherravaldi landsins.  Tveir stærstu flokkar landsins taka höndum saman og ætla að reyna að bæta þjóðfélagið næstu 4 árin.   Það verður að telja mjög heilbrigðan kost því að baki þessa flokka liggja 63.4% greiddra atkvæða og því 43 þingsæti af 63.  Mannaflinn verður nægur til að takast á við brýn verkefni og engin hætta er á að meirihlutinn falli vegna sinnaskipta einstaka þingmanna.  Ég fagna þessari stjórn og vona að Samfylkingin og nýtt fólk hjá Sjálfstæðismönnum boði breytta tíma með tilliti til mannréttindamála, betur rekins heilbrigðiskerfis, hagkerfis og náttúru landsins.

Það var ljóst að þjóðin vildi breytingar en ekki á kostnað Sjálfstæðismanna því þeir juku við sig fylgi.  Fólk er farið að nýta sér meira útstrikanir og varð Árni Johnsen að gjalda þess með því að falla um eitt sæti.  Björn Bjarnason féll sömuleiðis um sæti en hélt samt ráðherraembætti sínu sem verður að telja frekar á skjön við niðurstöðuna.   Þetta virðast því vera skilaboð frá Geir um að Birni sé vel treystandi þrátt fyrir óánægju um 20% kjósenda xD þar sem hægt var að strika út (þ.e. séu utankjörstaðaratkvæði ekki tekin í reikninginn).  Margir eru ánægðir með verk Björns hjá Lögreglunni en ýmsir eru óánægðir af öðrum orsökum.   Maður getur bara vonað að Björn noti þetta tækifæri til að endurskoða það sem menn benda á að miður hafi farið hjá honum.

Stór lýðræðisleg lexia kom í ljós en ekki er víst að hún hafi verið lærð.  Fullkomlega frambærilegu framboði, Íslandshreyfingunni, var hafnað vegna 5% reglu á jöfnunarsætum.  Að vísu náði framboðið hvergi inn kjördæmakjörnum þingmanni en það þarf 9-11% atkvæða til.  Ljóst er að stjórnarflokkarnir sem settu þessa reglu árið 1999 höfðu ekki áhuga á því að hleypa nýjum stjórnmálaflokkum að og völdu hærri prósentu en tíðkast víða í löndum í kringum okkur.    Miðað við núverandi reglu þarf yfir 9250 atkvæði á landsvísu til að ná inn jöfnunarsætunum þremur og það þyrfti að skoða hvort að raunverulega séu ástæður til að réttlæta þetta háan þröskuld.

Ég vona að hin nýja ríkisstjórn beri gæfu til að hlusta á góðar tillögur, sama hvaðan þær koma, þ.e. frá stjórnarandstöðu, félagasamtökum eða einstaklingum.  Þá á ég við, ekki bara hlusta, heldur einnig taka upp og samþykkja. 

Ég óska hinni nýju ríkisstjórn velfarnaðar.  Ég hef trú á því að hún muni reynast þjóðinni vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband