Hin frelsandi þjóð - þjóð Thomas Jeffersons. Hvar er hún?

Tilefni þessa skrifa er ástand mála í USA og að hluta í hinum vestræna heimi.  Hvatningin kemur frá skrifum og starfi Thomas Jefferson, sem ég hef nú síðustu misseri lært æ meira um, m.a. frá lestri bóka Alan Dershowitz, A.C. Grayling, Richard Dawkins, Sam Harris og síðast en ekki síst frá vandaðri bók tilvitnana í Jefferson, Light and Liberty - Reflections on the Pursuit of Happiness, ritstýrt af Eric S. Petersen, sem heimsótti Ísland nýlega og hélt fyrirlestur í HÍ um ævi og störf meistara Jefferson.

(Hægt er að niðurhala MP3 skjali með hljóðupptöku frá fyrirlestri Petersen hér.  Thanks to Vinay Gupta!. Ræður Herdísar Þorgeirsdóttur og Jóns Baldvins Hannibalssonar voru einnig mjög áhugaverðar.).

Eric S Petersen

Mynd:  Eric S Petersen og Jón Baldvin Hannibalsson.  13. sept 08 í Odda, HÍ.

Heyrum hvað einn af frægustu heimsspekingum Bandaríkjanna sagði fyrir nokkrum árum, eftir að hann heyrði niðurstöður úr könnun á lífsskoðunum fólks í landi hinna frjálsu.

Tölurnar eru áfall.  Þrír fjórðu hlutar amerísku þjóðarinnar trúa bókstaflega á kraftaverk fyrir tilstuðlan trúar.  Fjöldi þeirra sem trúa á tilvist djöfulsins, upprisuna, að Guð geri hitt og þetta - er sláandi.  Þessar tölur ná hvergi sömu hæð í hinum iðnvædda heimi. Þú þarft ef til vill að fara í mosku í Íran eða gera skoðanakönnun meðal gamalla kvenna á Sikiley til að jafna þessa útkomu.  Samt er þetta ameríska þjóðin.  - Noam Chomsky

 

Þriðji forseti Bandaríkjanna Thomas Jefferson skrifaði frelsisyfirlýsingu Bandaríkjanna sem var samþykkt nær óbreytt við stofnun þeirra af fyrsta löggjafarþingi þjóðarinnar.  Jefferson var ákaflega vel menntaður maður fyrir sinn tíma og hafði lesið heimsspeki Forn-Grikkja.  Hann trúði á guð náttúrunnar, þ.e. að guð hefði í forneskju skapað heiminn en síðan látið jörðina og náttúruna afskiptalausa og mennirnir tækju ábyrgð á eigin gerðum.  Hann taldi Biblíuna verk manna og tók hana ekki bókstaflega.  Hann var ekki kristinn, heldur deisti líkt og títt var meðal þeirra best menntuðu í lok 18. aldar.  (T.d. Thomas Payne, Hamilton, Washington o.fl) Hann ráðlagði fólki að efast og trúa ekki á ósannaða hluti.  Hann var það sem á þeim tíma var hve næst því að vera trúlaus húmanisti.  Hann var úthrópaður sem guðleysingi af andstæðingum sínum og það furðar mig ekki. 

Jefferson og stofnendur Bandaríkjanna skildu að það yrði að slíta sundur hina fornu valdtryggingu kónga, presta og aðalsmanna (í dag: Stjórnvöld, biskupar og stóreignamenn) með því að koma á fót lýðræði, dreifa valdinu í löggjafavald, dómsvald og framkvæmdavald og loks aðskilnaði Thomas Jeffersontrúar og ríkis.  Jefferson lærði af sögunni og gat því hafið nýjan djarfan kafla í sögu mannkyns og þjóða.  Hann var einn mikilvægasti og áhrifamesti maður Upplýsingarinnar sem hófst um 100 árum fyrir hans tíma.  Í landi þar sem fólkið gat ekki verið ólíkara af uppruna og trú, hófst sú djörfung og áræðni til að gefa fólki áhrifamátt með skoðunum sínum og atkvæði og uppbyggingu menntunar þjóðar til að vita hvað hún ætti að velja.  Um 150 árum síðar, eftir seinni heimsstyrjöldina voru Bandríkin orðin öflugasta þjóðríki í heimi og framverðir lista, frjórrar hugsunar, tækniframfara og umróta í átt til bættra mannréttinda.  Marshall hjálpin reisti Evrópu upp úr öskustó eftirstríðsárana og niðurlæging millistríðsáranna var úr sögunni.  Samanborið við hina augljósu andstæðu, Sovétríkin voru Bandaríkin boðberi alls þess sem eftirsóknarvert gæti verið í nokkurri þjóð... eða það hélt maður að minnsta kosti þar til....skrrrrtzssss...bwwwwbww..eitthvað stakk mann í eyrað - ill meðferð blökkumanna, pólitískar ofsóknir McCarthys, tilgangslaus stríð, mafía og dóp - loks þegar maður fór að lesa sögu utan skólanna og þjóðfélagsgagnrýnar kvikmyndir urðu æ algengari síðustu 2-3 áratugina, fór glansmyndin að hrynja.  Bandaríki seinni hluta 20. aldar voru talsvert gölluð, en fram til tíunda áratugarins fannst manni að kjarni landsins sem kennt er við frelsi, stæði enn undir nafni. 

Svo kom Bush yngri.  Framhaldið þekkið þið.  Bandaríkin hunsa SÞ, skorast undan alþjóðlegum herrétti, ráðast inn í þjóðir til að betrumbæta þær og hefna sín, traðka á rétti borgara í nafni öryggis, viðhalda dauðarefsingum, víkka út NATO og storka Rússum með staðsetningu eldflauga við túnfót þeirra.  Bandaríkjamenn einangruðu sig og misstu mikið traust.  Á sama tíma er áhrifum mjög afturhaldssinnaðra trúfélaga hleypt inn í Hvíta húsið.  Trúfélögin njóta æ fleiri ívílnana og dómarar í hæstarétt eru valdir eftir trúarsannfæringu.  Tvö fylki banna fóstureyðingar.  Miklar árásir eru gerðar á eina mikilvægustu uppgötvun manna, þ.e. að við þróuðumst sem lífsform úr einfaldari í flóknari og að þróun lífs átti sér stað yfir milljónir ára á plánetunni jörð sem er um 4.5 milljarða ára gömul.  Árásirnar koma frá kristilegum ráðgjöfum Bush-stjórnarinnar sem vilja að kennt sé að jörðin sé 6000 ára gömul og mynduð af veru líkri manni sem kölluð er Guð og átti að hafa afrekað þetta allt á 6 dögum í upphafi þessa stutta tímabils.  7. daginn hvíldi veran sig og því gerum við það líka.  Meirihluti fólks í mið- og suðurríkjum USA trúir á þessa vitfirru og þetta sama fólk styður stjórnmálamenn eins og G.W. Bush jr.  Þetta eru það sem þeir í hægri flokknum Repúblikanar, kalla á hinn rómatíska máta "small town values", þ.e. lífsgildi smábæjafólksins. 

Hin falska hógværð og tilhöfðun til hins fábreytna bandaríkjamanns sem gerir það sem kirkjufaðirinn segir honum og verksmiðjustjórinn skipar honum, eða herinn sendir hann í, tryggir þeim sem standa í raun fjærst frá verkamanninum, þ.e. stórefnafólkinu og einstaklingshyggjumönnunum völdin.  Gulrótum er veifað, öryggi frá "ógnum" heimsins er lofað og andstæðingurinn er borinn lygum.  Tilgangurinn á að helga meðalið.  Í hinum þekkta háskólabæ Princeton í New Jersey fylki, hefur G.W.Bush um 8% fylgi.  Hin upplýsta Ameríka strandríkjanna austan og vestan megin ásamt Norðaustur horninu er nær algerlega á máli Demokrata.  Miðjan (Biblíubeltið) og suðaustrið styðja Bushtýpur.  Þetta er eins og tvær þjóðir þar sem önnur er samlokuð inní miðjunni í eins konar tímabelti sem lifir enn í hugmyndafræði tímans fyrir þróunarkenningu Darwins sem var sett fram fyrir rétt tæpum 150 árum síðan.  Í stað þess að þróast fyllilega með bylgju upplýsingarinnar hefur þessi þykki "kjöthleifur" smáborgara gengið í hugmyndafræðilegan barndóm (og þrældóm) og er nú ógnum gagnvart menntakerfinu, stjórnkerfinu og friði í heiminum.  Þetta er alræði hinna fáu og ríku með stuðningi hinna mörgu fáfróðu og fátæku. 

Thomas Jefferson sagði:

"Menntið og upplýsið allan mannfjöldann.  Gerið fólkinu kleift að sjá hvað þeim er fyrir bestu til að varðveita frið og reglu, og það mun framfylgja því.  Og það þarf ekki háa menntagráðu til þess að sannfæra það um þetta.  Þetta er hið eina sem treysta má á með vissu að varðveiti frelsi okkar."

"Í hverju landi og á hverri öld, hefur presturinn sýnt frelsinu óvináttu.  Hann er alltaf í bandalagi með harðstjóranum, ráðgefandi í valdníðslu hans svo hann tryggi vernd handa sjálfum sér.  Það er auðveldara að öðlast ríkidæmi og völd með þessari samsetningu en að eiga þau skilið, og vegna þessa, hafa þeir snúið hreinustu trú sem predikuð hefur verið manninum upp í vesæld og málskrípi, óskiljanlegt mannkyni og því skjólshús fyrir tilgang þeirra.  Sagan, ég held, getur engra prestsetinna þjóða (priest-ridden nations) sem viðhalda frjálst valinni borgaralegri ríkisstjórn.  Þetta er til merkis um hámark fáfræðinnar, sem bæði borgaralegir og trúarlegir leiðtogar slíkra þjóða notfæra sér til að ná fram eigin markmiðum.   Ég hef svarið við altari Guðs, eilífa andúð gegn hvers kyns harðstjórn yfir hugum manna.  Uppreisn gegn harðstjórum er hlýðni við Guð".

Það má sjá á þessum orðum hans að hann fyrirleit kirkjulegt vald og blöndun þess við veraldlega valdhafa.  Aðskilnaður þessa tveggja var lykilatriði í  myndun frjálsrar þjóðar ásamt trúfrelsi (sannfæringarfrelsi), frelsi fjölmiðla, vernd gegn stríðandi herjum, takmörkun einokunarvelda í viðskiptum, rétt til sanngjarnra réttarhalda og rétt til að velja sér atvinnu.   Fleiri atriði komu auðvitað fram í skrifum hans en þetta sýnir að mestu hvað um ræðir.

Standa Bandaríkin í dag undir þeim fyrirheitum um upplýsingu og frelsi sem Thomas Jefferson og frumstofnendur þjóðarinnar vonuðust eftir?  Hver er helsta ógnunin við þessi fyrirheit í dag?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Blessaður Nafni;

Þótt ég hafi ýmislegu við þetta að bæta þá ætla ég að láta það nægja núna að hrósa þér fyrir góða grein sem ég er sammála að langmestu leiti. En það er spurningin um hvers vegna þetta ástand hefur skapast sem mér er hugleikin ásamt spekúleringum um hvað sé til ráða. Educate er svar, en educate með hverju?

Svanur Gísli Þorkelsson, 28.9.2008 kl. 01:28

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Frábær grein.  Þú hittir þarna á alla réttu punktana...það var í raun ekki fyrr en ég fluttist hingað til Bandaríkjanna að ég sá með eigin augum hvað trúarbrögð geta haft skaðleg áhrif á þjóðfélagið.  Það er sorglegt að Bandaríkjamenn virðast vera búnir að gleyma uppruna sínum og hugsjónum "the Founding Fathers".  Meira að segja sjálf stjórnarskráin fær ekki einu sinni að vera í friði fyrir ágengum kristlingum.

Langar að benda þér á frábæra nýja sjónvarpsþáttaröð (6 þættir) frá HBO kapalstöðinni um John Adams.  Þar kemur Jefferson að sjálfsögðu mikið við sögu.  Snilldarþættir með Paul Giamatti í aðalhlutverki.  Bloggaði aðeins um þessa þætti í vor http://robertb.blog.is/blog/robertb/entry/506065/    Er nýkomið út á DVD og er sjálfsægt líka hægt að finna þetta á netinu.

Kveðja,

Róbert Björnsson, 28.9.2008 kl. 03:15

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Vel fram sett og skorinort. Hlakka til að hlusta á fyrirlestur Petersons.  Ég held að systematísk gjaldfelling menntakerfisins sé grunnurinn að þessari ógnvænlegu þróun og sú gjaldfelling er undan rifjum trúarbragðanna runnin, sem svo oft áður í sögunni. Forheimskun bandarísku þjóðarinnar, hefur gert henni ómögulegt að viðhalda hlutleysi í þessum málum og þess heldur lýðræðisháttum. Fjölmiðlarnir sjá svo um rest. "Out with the good stuff in with the bad" Þetta er óhugnanleg þróun, sem snertir ekki bara þessa þjóð heldur allan helvítins heiminn.

Hér á Íslandi er menntun enn á heimsmælikvarða og möguleikar til úrtásar einstaklinga í henni góðir. Það eru þó hnignurarmerki og ljóst að forsvarsmenn okkar hér stíga fæstir í vitið, enda menntun eki skilyrði til þingsetu. Við erum aftar  á merinni hvað varðar trúarbrögðin og ríkistuðningur þeirra er algerlega úr takti við samtímann, stjórnarskrá og jafnræðisákvæði. Forréttindi kirkjunnar veldur því nú að fleiri trúarstofnanir og samtök heimta sama rétt. Sama skattleysi, sama aðgang að skólum t.d.

Hér er kominn tími til að segja stopp og fá bókhald og fjáröflun trúarstofnana upp á borðið og ekki síst alla dogmatíska innrætingu út úr skólakerfinu. Til viðbótar þessu þarf að setja lög gegn trúarlegu áreiti og yfirgangi og vernda friðhelgi fólks fyrir stöðugum ágangi þessara költa, sem jafnvel sitja um fólk, sem hefur orðið fyrir sárum ástvinamissi, til að ná því á sínu veikasta augnabliki.  Menntakerfið hér er gegnsýrt af þessu og við hlægjum hér að sköpunarsinum og kröfum þeirra í US um að sköpunarsagan verði kennd sem vísindi samhliða þróunarkenningunni.  Illskiljanlegur húmor, þegar litið er til þess að sköpunarsagan er kennd hér á forskólastigi og grunnskóla! Þessi "fræði" eru efst á kúrrigúlumi í kristnum fræðum og trúarbragðakennslu. Hvað er verið að kenna hér? Staðreyndir? Kenningar? Vísindi?Sögu? Er forsvaranlegt að slíkt eigi sér stað? Að einhverja absúrd tröllasögur séu í námsefni barna á viðkvæmasta og móttækilegasta námsaldri?

Ég get sagt af minni skólagöngu, fimmtugum kallinum, að ég lærði alrei stafkrók um þróunarkenninguna en var með marga tíma í viku í "kristnum fræðum" þar sem ég lærði um sköpunina (sem ég man að mér fannst skrítin af ví að guð gerði sama hlutinn tvisvar í nokkur skipti í ferlinu og hafði forganginn ansi undarlegan) Ég lærði líka um Nóaflóðið og greypt er í huga mér sagan af Abraham og Ísak.

Vissulega er þróun í átt að guðræði í US og er það áhyggjuefni fyrir heiminn. Hér er það hinsvegar þegar í skötulíki og þarf ekki að gera mikið til að hér ríki ómengað trúræði. Við höfum jú heyrt af þeim ignoramusum á þingi, sem hefðu sko ekkert á móti því.

Hvers vegna eru trúarbrögð orðin svona militant og plássfrek á upplýsingaöld, þegar í raun þau ættu að vera á undanhaldi? (allavega stofnanavæðingin og mistýringin)

Ég hef ákveðnar kenningar um það, sem virðast vera tabú í eyrum manna. Það er Zionísk stefna og lobbyismi, sem hefur hleypt þessu í þetta far. Á herðum þeirrar öfgastefnu geistlegra forréttinda og mannfyrirlitningar, ríður vitfirrtur evangelismi og öfgaIslam, sem rekið er frá Saudi til mótvægis. 

Ég vil svo sem varnagla segja þeim rétthugsunarhænsnum sem hugsanlega vilja koma með slandur og upphrópanir vegna slíks að það er ekki samasemmerki á milli óvildar í garð gyðinga og óvildar í garð Zionisma. Anti Zionismi er ekki Anti Semetismi. Það eru stórar hreyfingar meðal gyðinga, sem andmæla og andæfa Zionisma af mikilli hörku og leiða raunar það andóf. Zionisminn er að kalla dauða og eyðingu yfir gyrðinga, rétt eins og öfgaislam yfir múslimi.  Nú fer að nálgast showdown í  þeim harmleik og ekki víst að margir verði til frásagnar eftir það. Þar er hluti af skýringunni á hnignun USA. Þar er öll skýringin á öfgatrú samtímans. Menn verða hreinlega að fara að kannast við þetta.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.9.2008 kl. 04:11

4 identicon

Það er endalaus heilaþvottur svona ala Omega allt frá blautu barnsbeini... til þess að fá menn í stríð, til þess að menn telji sig betri en aðra... það er í lagi að ljúga fyrir Jesú

Sillhoutte City... scary stuff og ísland er að mér sýnist að byrja að feta sig þessa leið
http://doctore.blog.is/blog/doctore/entry/645833/

Nú krefjast trúarsöfnuðir þess að fá að vera með kosningaáróður og halda skattaívilnunum
http://www.nytimes.com/2008/09/26/us/politics/26preach.html?ex=1380168000&en=8d44576c23a2a77b&ei=5124&partner=permalink&exprod=permalink

Talibanar eða TaliKanar...

DoctorE (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 09:29

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Dr.E: Bandarísk trúarkölt eru þegar undanskilin því að þurfa að sýna bókhald. Allavega í allflestum ríkjum. Það er t.d. ekki hægt að hanka Benny Hinn og þennan fyrir fjárplógsstarfsemi í einkaþágu á þessum forsendum.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.9.2008 kl. 09:34

6 identicon

Já en spáðu að költ vilja vera undanskilin og fá að reka áróður fyrir stjórnmálamenn.
Þeir hafa reyndar alltaf gert þetta en núna vilja þeir lögleiða kosningaáróður beint úr biblíu.... McCain / Palin because the bible says so

DoctorE (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 10:46

7 identicon

DoctorE (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 10:50

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Standa Bandaríkin í dag undir þeim fyrirheitum um upplýsingu og frelsi sem Thomas Jefferson og frumstofnendur þjóðarinnar vonuðust eftir?  Hver er helsta ógnunin við þessi fyrirheit í dag? Nei Svanur það gera Bandaríkin ekki. 

Og það er alveg vita mál hvers vegna.  Til þessu eru vítin að varast þau ekki satt ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.9.2008 kl. 10:56

9 Smámynd: Sigurður Rósant

Ja, ef þetta er rétt haft eftir Thomasi heitnum Jeffersons.....  "Ég hef svarið við altari Guðs, eilífa andúð gegn hvers kyns harðstjórn yfir hugum manna.  Uppreisn gegn harðstjórum er hlýðni við Guð".

...þá er ekki skrýtið þó hugmyndafræði hans hafi ekki gengið upp. Hann segir með öðrum orðum ... uppreisn gegn harðstjórum er hlýðni við harðstjórann Guð.

Þessi afstaða hans segir mér að kallinn hefur ekki verið laus við þversagnir í sínum kolli frekar en við öll sem höldum að við höfum svör á reiðum höndum.

Þú skilgreinir hann sem  "deisti"

og fullyrðir.. "Hann ráðlagði fólki að efast og trúa ekki á ósannaða hluti."

Enn fremur... " Hann var það sem á þeim tíma var hve næst því að vera trúlaus húmanisti."

Þessir eiginleikar hanga ekki saman í heilsteyptum einstaklingi. Ef þessi eiginleiki hefur síðan orðið eiginleiki þjóðarinnar, þá er ekki að búast við öðru en klofnu hugarfari og þversagnakenndum yfirlýsingum.

Sigurður Rósant, 28.9.2008 kl. 11:04

10 identicon

Frábær grein um erlent efni. Þessir menn gerðu og sögðu margt sem var þeim hugleikið. En eins og sögur fara fluttu evrópu búar í tonnatali til hins frjálsa lands. T.d. í New York fylki voru það ítalir og gyðingar sem mótuðu fylkið. Þetta fólk kom með sínar stjórnarskrár og hugmyndir sem enn eru við líði þar, peningar og glæpir.  Texas var einu sinni ríkasta fylkið en er nú eitt af þeim fátækustu. Byggt að mestu af bændum. Fylkið sem ég bjó í 23 ár, er að mestu evrópskt með ívafi af asíumönnum og mexikönum. Í dag eitt af því ríkasta. Microsoft, apple og Boeing. Íslendingarnir stunda sjómennsku og aðrar tengdar greinar þar. Þar má sjá íslenska fánan við hún. Ásamt fánum annara norðlenskra þjóða. Þar er bær sem var byggður eingöngu af íslendingum. Bærinn heitir Blain. Þar eru götur sem bera íslensk nöfn eins og gunnars stræti, eiríkstræti og fl. Þar er kirkjugarður sem margur íslendingurinn er grafinn. Fólk í leit að betra lífi og frelsi. Forsetinn sem var við völd ætlaði að gera bæinn að bækistöð hersins. Ráða menn íslendinga skrifuðu honum bréf og báðu hann um að leyfa þeim að virkja bæinn og búa til atvinnu fyrir fólkið sitt. Hann samþykkti og fólk flutti að frá ýmsum hornum.

Það sem ég er að ýja að er að Norður Ameríka er saman sett af alskonar þjóðum sem hafa átt sín áhrif í að móta landið. Hér á landi eru fáein ár síðan að erlend áhrif tóku sér bólfestu. Hvert sinn sem ég kom heim sá ég merki þess að ísland var að breytast í N Ameríku í smækkarðri mynd. Erlendir skindibitastaðir. Holdarfar fólks fór að breytast til  þess verra. Íslenska tungan í undanhaldi þar sem ensku sletturnar eru notaðar í skrifuðu máli og tali. Sjónvarpið yfirfullt af Amerískum þáttum. Frétta flutningar og eftirhermu þættir allsráðandi. Innflutningur af erlendu fólki í leit af frelsi og betra lífi. Þetta er kallað þróun af mörgum, af sumum hnignun. Ég held að forfeður okkar séu einnig að snúa sér við í gröf sinni þar sem þeir höfðu annað í hyggju fyrir þjóðina. Forfeður okkar breyttu mörgu til hins betra og unnu jöfnum höndum um að setja lög og reglur í landinu.

Í staðinn fyrir að benda endalaust á aðrar þjóðir ( bandaríkin ) ættum við að skoða hvað er að skaða þær og breyta rétt til. Stöðva þróunina sem er að eitra þjóðina. Snúa við blaðinu ef það er ekki orðið of seint. Hér eru 2-3 bílar á heimili og hætta á mengun.  Sjónvarpsþættir að menga huga fólks. Tölvur sem skaða bæði menn og börn.  Eiturlyf. Fæði að drepa fólk úr fitu. Heilsukerfi sem annar ekki fólksfjöldanum. Ólært fólk í stjórnmálum....svo ég nefni fáeina hluti.

Ég ákvað fyrir 4 árum að flytja heim. Frá eymd og glæpum. Rasissma og hatri. Ómenntun og stjórnleysi. Barnaníðingum og nauðgurum. Drápum. Heilbrigðismálum eða vöntun á því. Spillingu og fátækt. Ég var orðin þreytt á þessu þarna í The land of the free. Mér stóð ógnun af kreppu. Ég sá fyrir mér rebbana aftur í stjórn og mun það tröllríða landinu. Ég kalla þetta ekki þróun heldur hnignun og ef ekkert er að gert t.d. að fjarlægja bjálkann úr auga okkar endum við í sömu stöðu, erum þar kannski nú þegar. Hér er skipt um stjórn eins og .....er lengra en hálft ár síðan að við kusum nýja stjórn.

Og að lokum.  Allt snýst þetta um val. Ég og maðurinn minn, bæði íslensk, eigum einn son. Hann er háskólamenntaður og býr hér á landi. Hann lærði um þessa menn (Forfeður usa) þegar hann var 12 ára. Hann kom alldrei með biblíusögur eða kúreka sögur heim úr skólanum. Í dag er hann sjálfstæður einstaklingur, á sína íbúð og ræktar peninga í bankanum. Honum verður oft að orði; að íslensk ungmenni kunni ekkert með peninga að fara. Hér séu ungmenni ofurölvi um helgar og gera lítið til að rækta framtíð sína. Hann er 24 ára gamall. Við hefðum svo sem getað valið aðra leið og látið hann afskiptasaman, látið forfeður og sögur um gömlu góðu dagana ráða framtíð hans. En við kusum að kenna honum, að búa til sína eigin sögu og rækta sjálfann sig til að eiga góða ævi.  Allt er þetta um val að ræða.   Þetta tel ég svarið við spurningunni :  hvar er hún? Hvar erum við og hvað gerum við fyrir framtíðina ?

Með von um að engar tær ég troðið hef, bið ég ykkur vel að lifa. kv Fanney

Fanney Gunnlaugsdóttir (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 13:05

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Er ekki kominn tími til, að veraldarhyggjan fari að hægja á keyrslunni? 

Annars er athyglisvert að sjá, að ýmsir vinstrimenn og líberalar taka undir þetta hjá Jefferson: "Uppreisn gegn harðstjórum er hlýðni við Guð".

Svo má minna á þessa setningu hans: "Umhyggja fyrir mannlegu lífi, gagnstætt eyðingu þess, er æðsta markmið góðrar ríkisstjórnar." Var hún tekin upp í stefnuskrá Borgaraflokksins fyrir rúmum tveimur áratugum með þessu framhaldi: "Því mun Borgaraflokkurinn beita sér fyrir því, að sett verði ný löggjöf um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir og fræðsla þar að lútandi verði aukin. Borgaraflokkurinn mun leggja áherzlu á að leysa félagsleg vandamál vegna barneigna og stórauka aðstoð við einstæða foreldra."

Jón Valur Jensson, 28.9.2008 kl. 18:29

12 identicon

Hlýðni við guð er helvíti á jörð, það er margsannað, guð er tilbúningur kufla JVJ... þér er óhætt að hætta að trúa, guddi drepur þig ekki eða sendir þig til helvítis.... og það er ekkert eilíft líf, þú ert að sóa tíma þínum rugl.
Harðstjórar vilja vera guðir, stefna þeirra er nákvæmlega sú sama og sést hjá guðum.

DoctorE (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 21:41

13 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Bestu þakkir fyrir fróðlega og góða grein Svanur. Ég hef lesið dálítið af Hitchens og einmitt smitast af áhuga hans og virðingu fyrir Jefferson sem skín af skrifum hans og ræðum.

Trúaræsingurinn í austri og vestri er yfirgengilegur og mér óskiljanlegur á þessum upplýstu tímum. Allar stefnur ríkja virðast, samkvæmt ræðum pólitíkusa, vera vilji einhverra guða, og leiðtogar þjóða kjósast eftir því hvaða yfirnáttúru þeir aðhyllast.

Fólksfjöldinn virðist þurfa á einhverju auðmeltu ójarðnesku sameiningartákni að halda, það má vera ljóst, en þurfa það að vera kirkjur og moskur sem sjá fólki fyrir þeirri fyllingu?

Ég fór að sjá búlgörsku myndina Zift á kvikmyndahátíðinni í kvöld. Það var ágæt mynd, full af dramatík og grófum og hrottalegum glæsileika. Það stóð upp úr í myndinni fyrir mér hvað fangelsislífið, kommúnisminn og að lokum kirkjan voru öll máluð lúmskt heillandi litum, í svarthvítri myndinni. Menn grétu af innlifun þegar þeir sungu búlgörsku ættjarðalögin, pírðu inn í sáli sína þegar þeir sátu í fangelsi og hnigu á hné og kysstu hönd dimmraddaðs prestsins í kirkjunni.

Það er verið að upphefja þætti í myndinni sem ekki tengjast daglegu mannlegu lífi; verið að segja okkur að sálin sé mótuð með því að láta aðra stýra ferðinni og vera neyddur til að þola hluti sem maður veldi ekki öllu jöfnu sjálfur.

Ég er að reyna að segja að fólk þarf að hafa eitthvað val á borð við kirkju eða her eða eitthvað til að ganga í og leyfa að taka af sér valdið - en helst eitthvað uppbyggilegra en kirkjuna og herinn, sem þó er fullt af reglum og uppbyggilegum boðskap.

Erfiður vítahringur að rjúfa.

Blaðri lokið.

...

Góð innlegg frá lesendum, þangað til hinn vel gefni en sorglega afvegaleiddi JVJ kemur þrammandi með sinn illa boðskap. Ég vildi óska að þú hefðir eitthvað fallegra að eyða þínum agaða ritstíl og mikla fróðleik í Jón Valur.

...

Vonandi tekur Obama þetta í BNA og stendur undir því góða nafni sem hann skapaði sér með The Audacity of Hope.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 28.9.2008 kl. 23:31

14 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk öll fyrir innlegg, sum hver ekki af skornum skammti

Ég var búinn að setja inn svar við spurningu nafna míns en það tapaðist í cyberworld.    Ég verð því að gefa stutta svarið; það á að kenna gagnrýna hugsun, rökfræði og hugmyndasögu.  Þá á að nálgast trúarbragðakennslu út frá sjónarhorni skoðandans, ekki fylgjandans.  Kennarar og almennir fræðimenn eiga að útbúa námsefnið, ekki prestar.  Kenna þarf að ekkert undir sólu er stikkfrí frá djúpri skoðun og gagnrýni.  Það á ekki að gera börn að passívum játendum.

Takk Róbert.  Ég verð endilega að komast yfir þessa þætti um John Adams frá HMO.  Takk fyrir hlekkinn - kíki á þig.

Athyglisvert DoktorE - Vissar kirkjur í USA farnar að hafa bein afskipti af stjórnmálum og krefjast þess að sóknarbörn þeirra kjósi McCain.  Það er ljóst hvert þetta stefnir.

Jú einmitt Ásthildur Cesil, vítin eru til að varast þau, meira að segja þau guðlegu.

Svanur Sigurbjörnsson, 28.9.2008 kl. 23:53

15 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Kæri Sigurður R

Það er ljóst að þessar andstæður voru í málflutningi Jefferson og hann hélt þræla þó að hann segði að allir menn ættu að vera jafnir.  Deismi var það sem kom næst guðleysi á þessum tíma og þú verður að athuga það að hann hafði ekki niðurstöður Darwins.  Jefferson var einnig mjög praktískur maður þannig að það hefði aldrei gengið fyrir hann sem pólitíkus að afneita algerlega guði.  Þess í stað kaus hann að setja guðshugmyndina á mjög afvikinn stað, þar sem hún var valdlaus og í raun aðeins táknræn.  Guð var skapari náttúrunnar og lítið annað.   Það er auðvitað hægt að gagnrýna Jefferson fyrir tvískinnung en hann og deistarnir í kringum hann komu miklum framförum til leiðar.  Þú getur kosið að horfa ekki á það og líta bara á það sem uppá vantaði en Jefferson verður ekki kennt um að ekki náðust meiri þjóðfélagslegar framfarir en raun ber vitni.  Góðir hlutir gerast hægt og hann skilaði algerlega sínu til næstu kynslóðar að bæta um betur.

Svanur Sigurbjörnsson, 29.9.2008 kl. 00:04

16 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Fanney

Takk fyrir áhugavert innlegg.  Fyrst vil ég segja að þó að hér sé verið að ræða um USA á þetta efni ekki síður við um Ísland.  Þetta er því í raun alþjóðlegt efni.  Líkt og þú segir, þá er ég ekki að benda á, heldur einnig að greina vanda, svo að hægt sé að fyrirbyggja. 

Athyglisverð saga af bænum Blain.  Þú hefur eflaust merkilega sögu að segja frá allri þinni reynslu í Seattle.  Ástæður þínar fyrir heimferðinni eru því miður eitthvað sem maður bjóst við að heyra og ég hef sömu áhyggjur og þú af þróun mála hér á fróni.  Já þetta með valið er mikilvægt því það er svo miklu hægt að áorka með réttri pólitík, þ.e. forgangsraða skynsamlega og fjárfesta í hugarfarslegu heilbrigði og siðferði frekar en endalausum efnahagslegum lífsgæðum.  Flott að heyra hvernig þið hafið tekið ábyrga afstöðu í uppeldi sonar ykkar.   Hann býr að því.  Lifðu heil Fanney!

Svanur Sigurbjörnsson, 29.9.2008 kl. 00:16

17 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Haukur

Í spurn/svör hluta fyrirlestursins talaði Eric Petersen um að Jefferson gerði sér grein fyrir því að þjóðum yrði ekki breitt með hernaði.  Hann vissi að upplýsing yrði að eiga sér stað á undan stjórnarfarslegri byltingu.  Þetta hunsaði ríkisstjórn G W Bush.  Bush & Co töluðu oft um "Nation building" áður en farið var inn í Afganistan og Írak en við sjáum nú árangurinn af þeirri "uppbyggingu".  Lengi vel hélt ég í þann möguleika að e.t.v. næði USA að byggja upp lýðræði í þessum löndum en nú tel ég að það sé vonlaust með þessum hætti.

Sæll Jón Valur

Þessi setning í enda á málsgrein Jefferson þar sem hann segir "Uppreisn gegn harðstjórum er hlýðni við Guð", er nokkuð sem ég vildi ekki taka út úr málsgreininni þó að mér líki setningin ekki.  Jefferson var trúaður á þann máta sem lýst er og það verður að fylgja.   Það er ekki stuðningur við þessa setningu sem um ræðir heldur það sem á undan var sagt hjá Jefferson.   Fyrir trúaða er hún sjálfsagt ágæt nema fyrir þá sem aðhyllast guðræði.

Þú kýst hér að skjóta á gamla Borgaraflokkinn og þá varðandi fóstureyðingar, sem eru ekki beint til umræðu í þessum pistli.  Það skilja nú allir sem vilja hvað þeir hafa átt við, en þú kýst að láta það líta út sem þversögn.  Annars er gott að heyra að þér sýnist að veraldarhyggjan sé ekkert að hægja á keyrslunni.  Hvatning úr óvæntri átt.  Takk.

Sæll Kristinn

Já, hvað ætli geti komið í staðinn fyrir hin hugarfarslegu snuð, guð og kukl?  Aukin menntun og sjálfstyrking fólks þannig að megin þorri fólks þurfi ekki þessara blekkinga við.  Blekking og óskhyggja verður alltaf til staðar en markmiðið er að lágmarka hana og halda utan hins sameiginlega (ríkis).

Ég tel að fyrst að mannkynið komst þetta langt og reif sig upp úr myrkri alræðistrúar og heimsku miðalda, þá ætti það að geta skilað upplýsingunni lengra.  Það þarf bara nýja vakningu - sofandi verður okkur ekki ágengt.

Svanur Sigurbjörnsson, 29.9.2008 kl. 00:43

18 Smámynd: Kolgrima

Flott grein og áhugaverðar pælingar í kjölfarið. Ég er alin upp í nokkrum svona meginreglum (!); ein er sú að bera virðingu fyrir trú annarra. Það reynist mér reyndar æ erfiðara, einkum vegna þess að stór hluti hinna trúuðu virðist ekki nota trúna til að rækta eigin garð heldur til að valda öðrum vanlíðan, óhamingju og sektarkennd.

Það er ekki hægt að bera virðingu fyrir trú þeirra sem nota trúna til að valta yfir allt og alla - og halda fólki í heljargreipum í orðsins fyllstu merkingu!

Kolgrima, 29.9.2008 kl. 11:19

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Kolgríma og takk.  Algerlega sammála.

Já þessi regla um að "bera virðingu fyrir trú annarra" hefur fleygt trúnni ansi langt án þess að fá þá gagnrýni sem hún á skilið.  Mér sýnist á öllu að reglan hafi m.a. orðið til af því að trúað fólk brást ákaflega illa við gagnrýni og stutt var í dramatísk viðbrögð þeirra.  Þannig er það jafnan þegar skoðun er illa ígrunduð og er því brothætt.  Trú verður líka til í vanmætti þannig að ef trúarsnuðið er í hættu, þá kreppir að og stutt er í reiðina. 

Þetta sást hér í deilunum um orðalagið "kristilegt siðgæði" í grunnskólalögunum síðasta vetur.  Þó að almennt viðurkennd siðferðisgildi (líka meðal kristinna) ætti að setja í staðinn fyrir þessi orð, þá varð allt vitlaust í heimi trúaðra.  Biskupinn kallaði Siðmennt "hatrömm samtök" og netheimar loguðu af reiðu bókstafstrúarfólki.  Merkimiðann "kristilegt" mátti ekki taka því þá myndi allt hrynja.

Svanur Sigurbjörnsson, 29.9.2008 kl. 12:38

20 identicon

Ég veit að því miður er trúin stundum sett upp sem stjórnun og árás eða til að hafa vald yfir fólki og það er ekki gott - reyndar alrangt - svoleiðis á alls ekki að gera!

Trúin er góð ef rétt er með farið - þekki það svo innilega sjálf - myndi ekki vilja snúa aftur frá trúnni og finnst hún líka dýrmæt til góðs í uppeldi barna minna.

Ása (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband