Framboðsgreinar: hluti IV - Umhverfismál og atvinnustefna þeim tengd

Það er deginum ljósara að við þurfum raforku til að lýsa upp heimilin og elda matinn.  Við þurfum hana til að knýja ýmis raftæki, þ.á.m.t. tölvur og netþjóna.  Við ætlum ekki til baka 100 ár og afneita okkur þessum gæðum.  Við þurfum því virkjanir og einhverja viðbót við þær eftir því sem mannfjöldinn eykst.  Sólarupprás við Grundartanga

Virkjanir kosta okkur – ekki aðeins fjármuni, heldur einnig ásjónu landsins og valda breytingum á gróðri og dýralífi.  Fleiri vegir, fleiri rafmagnsstaurar, fleiri varasamar lagnir, fleiri skipulögð svæði í óspilltri náttúru. Við þurfum atvinnuvegi til að fæða og okkur og klæða, en hvar erum við stödd og hvaða valkosti höfum við til uppbyggingar á þeim?  Erum við svo illa stödd að stóriðja verður að vera í myndinni til að skapa lífsviðurværi handa hluta þjóðarinnar? Erum við svo aðþrengd með valkosti til uppbyggingar atvinnu að orkufrekur stóriðnaður og risavaxin netþjónasetur eru óumflýjanleg svo forða megi of miklu atvinnuleysi og langvarandi fjármálakreppu?

Dugir ekki lágorkuiðnaður, ferðaþjónusta, ræktun, búvöruframleiðsla, sjávarútvegur, hugbúnaðar- og tæknifyrirtæki, verslun, útflutningur fullunninnar vöru og annað margt smálegt í sniðum en stórt í heild?  Ég tel að þetta dugi. 

Eða er ástæðan fyrir brennisteinspúandi borholum, risastíflum, uppistöðulónum og álverum einfaldlega sú að erindrekar snjallra drengja  í forstjóraleik vilja nýta alla möguleika landsins til að snúa orkuframleiðslu í fjármuni?  Sjáið fyrir ykkur eftirfarandi með mér!
Maðurinn vill verða forstjóri og aðal hluthafi 500 megavatta virkjunar í einhvers konar „ríkis-einkaeign“,   Hann sér fyrir sér stálið og strókinn á himninum um leið og gormet elskandi megabeibið við hlið hans gefur frá sér sælubros yfir 800 fermetra sumarbústaðssetrinu sem er í byggingu.  Það stendur hátt uppi á fegurstu hæð náttúruperlu í innsveitum, sem gleymst hafði að friða.  Hann væri jafnframt virtur af hundruðum manna fyrir að skapa þeim atvinnu.  Þetta fólk teldi að án hans hefði það lifað í fátækt.   Millinafn hans væri „kaupmáttarauki“ og það myndi kosta hálfan milljarð að reka hann.  Fólki þætti það sanngjarnt vegna gríðarlegrar ábyrgðar sem felst í forstjórastarfinu. 

Höfum við ekki sagt nei við þessari sýn nú?  Bless 1997-2007!  Megi draugar græðgi þinnar koðna.

Við verðum alltaf að spyrja okkur; Erum við of gráðug og óþolinmóð eða erum við að gera það illskásta í stöðunni af brýnni nauðsyn?  Erum við að hugsa um að gera það nauðsynlegasta og valda sem minnstu náttúruraski eða viljum við framleiða orku og málm af því að það blasir við sem efnahagslegt páskaegg af stærð 8?  Við fullorðna fólkið eigum að vita að stærstu eggin eru ekki endilega þau hollustu fyrir okkur eða skila okkur mestri vellíðan á endanum.   Ég vil ekki fleiri virkjanir og stóriðjur, en renni upp sá dagur að hagfræðingar færi mér mjög góð og gild rök fyrir því að þjóðin þurfi nauðsynlega akkúrat slík úrræði til að forða sér frá fátækt og langvarandi atvinnuleysi, skal ég endurskoða afstöðu mína.   Líkt og þegar læknir hugar að meðferðarúrræðum fyrir skjólstæðing sinn, ætti fyrsta reglan í úrræðum til uppbyggingar atvinnu að vera; sköðum ekki!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Frábær stefnuræða. Ég hef heyrt hugmyndir viðraðar um aukna sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar og aukningu vöruskipta sem ég tel að spara muni þjóðinni fjármuni og auka jafnvel um leið atvinnusköpun sem og að komið verði fyrir of mikið útstreymi fjármagns úr landi.

Hilmar Gunnlaugsson, 9.3.2009 kl. 18:40

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir Hilmar.  Athyglisverð hugmynd um vöruskipti.  Minnir mann á hagkerfið bronsaldar, ha ha, en er e.t.v. alls ekki galin.  Nú þarf að beita hugmyndaauðginni og gefa henni séns til að auka líkur á að eitthvað ferskt og sterkt fæðist úr allri kreppunni.

Svanur Sigurbjörnsson, 10.3.2009 kl. 01:45

3 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Alveg sammála því.

Hilmar Gunnlaugsson, 10.3.2009 kl. 02:44

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Fyrir ríflega hálfri öld vildu Portúgalar greiða okkur fyrir saltfiskinn með rauðvíni og ýmissi innanlandsframleiðslu þeirra sem Íslendingar höfðu ekki þróað með sér smekk fyrir í den.  Það var sneitt framhjá þessu með ákveðnum mútugreiðslum til portúgalskra embættismanna sem ríkisstjórnin var sammála um að halda leyndum af illri nauðsyn.  Það má lesa um þetta í bók Guðmundar Magnússonar um Thorsarana.

Svanur Sigurbjörnsson, 10.3.2009 kl. 11:09

5 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Ég á reyndar eftir að lesa þá bók en "oft var þörf en nú er nauðsyn" má segja um vöruskiptin. Einnig tel ég að spilling verði lítil sem engin eftir næstu alþingiskosningar enda er fjöldi góðs fólks sem bíður sig fram nú og hafa flokkarnir axlað ábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru í stjórnun landsins og eru staðráðnir í að leiðrétta þann misskilning.

Hilmar Gunnlaugsson, 10.3.2009 kl. 17:49

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég vildi að ég gæti trúað þessu sama og þú Hilmar um að "spilling verði lítil sem engin eftir næstu alþingiskosningar".   Það er trúlega rétt hjá þér að fjöldi góðs fólks er að bjóða sig fram nú, en miðað við að ótrúlega margt fólk (tæp 29%) ætlar að kjósa áfram Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur ekki sýnt sérlega mikil merki þess að hafa áttað sig á mistökum sínum, finnst mér útlitið ekki sérlega bjart.  Ef fólk ætlar að kjósa áfram flokk sem setti innlagnargjöld á sjúklinga til þess að greiða niður það arðrán sem þjóðin varð fyrir, þá er það ekki alveg að skilja hvernig siðað þjóðfélag á að virka.

Svanur Sigurbjörnsson, 13.3.2009 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband