Fyrir 1. flokks þegna Íslands
10.7.2009 | 13:25
Í frétt Fréttablaðsins Hálfur milljarður í Hallgrímskirkjuturn þ. 22. júní sl. (bls. 2) kemur fram að borgarstjórnin hafi velt fyrir sér því að með fyrirhuguðu 228 milljóna framlagi sínu (á móti ríkinu) hafi hún mögulega verið að brjóta á jafnræði gagnvart öðrum trúfélögum.
Það brot á jafnræði var þó fljótt afgreitt sem mun léttara lóð á vogarskál réttlætisins því um væri að ræða höfuðkirkju landsins og eitt helsta kennileiti Reykjavikurborgar sem jafnframt er hluti af byggingarsögu Íslands.
Þessu má svara með því að rétt eins og að Valhöll, hús Sjálfstæðismanna er ekki höfuðskrifstofa stjórnmála landsins þá er ekki réttlætanlegt að kalla þessa kirkju eins safnaðar einhverja höfuðkirkju allra landsmanna. Slíkt er hreinn yfirgangur.
Vissulega er Hallgrímskirkja kennileiti og hluti af byggingarsögunni, en hún er í einkaeign trúfélags sem á digra sjóði og er ekki vorkunn að standa undir eigin viðhaldi. Þjóðkirkjan fær að njóta þess að hafa þessa kirkju á einum besta stað borgarinnar og því ætti hún að sýna fulla ábyrgð á viðhaldi hennar og útliti svo ekki verði lýti af.
Í þeirri bók sem stoltir kristnir menn vilja gjarnan kalla bók bókanna segir á mörgum stöðum að náð fyrir augum Guðs almáttugs felist ekki í því að safna veraldlegum auði, heldur fylgja orðinu og deila brauðinu, sbr. hin ágætu orð í Lúk. 9,25:
Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða fyrirgjöra sjálfum sér?
Á hinn bóginn stendur á enn fleiri stöðum í sömu bók að Guð og hinn erfðafræðilega ómögulega sonur hans Jesú, séu alfa og ómega alls sem hugsast getur, sérstaklega hluta eins og óskoraðs valds, kærleika, visku, fyrirgefningu, hjálpræðis og áreiðanleika. Hyggilegt sé að treysta á Guð og láta ekki mannlega skynsemi þvælast fyrir. Í fagurgylltri bókinni Orð dagsins úr Biblíunni eftir hinn ástsæla biskup Ólaf Skúlason, sem fékk áberandi stað í bókabúðum yfir fermingartímann síðastliðið vor, má lesa perlur eins og fyrir daginn 5. maí:
Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit (Orðskv. 3,5).
Önnur tilvitnun í þessari bók Ólafs ber þess vitni um hvaðan sumir kristnir trúarleiðtogar landsins fá þá glórulausu hugmynd að ekkert eigi upphaf utan kristninnar, því fyrir daginn 21. júní er vitnað í Jóh. 15,5:
Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört.
Þrátt fyrir boðskap um nægjusemi, var það fyrsta verk frumkirkjunnar í Róm á 2-4. öld að safna gríðarlegum auði. Það var ekki óalgengt að fólk eftirléti kirkjunni þriðjung eigna sinna af sér látnum. Þessi stefna tryggði henni veraldlegt vald og hinn ríkulegi boðskapur hennar um óskorað einræði yfir trúarlífi fólks gerði hana ákaflega hentuga fyrir keisara og einræðisherra, sem í samvinnu við biskupa gátu tryggt völd sín enn frekar með guðlegri blessun.
Ægivald þetta hrundi með tilkomu húmanískrar og vísindalegrar hugsunar sem gjörbreytti heimsmynd manna og gaf áræðni til sjálfstæði og frjálsra skoðanaskipta, en leifar þess lifa þó enn góðu lífi í mörgum vestrænum þjóðfélögum.
Á sviði lífsskoðana og trúarlífs Íslendinga hefur hin evangelísk-lúterska kirkja skapað sér rækileg forréttindi og sérstakan aðgang að stjórnvöldum. Ein kirkna er hún á launum hjá þjóðinni og um hana hefur aldrei verið kosið. Gríðarlegur kostnaður við hana hefur aldrei fengið að komast upp á pallborð stjórnmálaumræðunnar, þrátt fyrir að hún minnki hlutfallslega með hverju ári og er nú með undir 80% landsmanna skráða. Með aflögn hennar mætti spara 3-6 milljarða árlega háð mismunandi útfærsluleiðum. Þjónar hennar rukka hvort eð er gjöld fyrir athafnir svo hverju er verið að tapa?
Siðmennt, félagi siðrænna húmanista, var neitað um húsaleigustyrk (kr. 250 þúsund vegna leigu kennsluhúsnæðis við borgaralega fermingu) af hálfu Reykjavíkurborg síðastliðinn vetur, en á sama tíma felldi borgin niður 17 milljóna krónu skuld Langholtskirkju og nú á að greiða ríflega 228 milljónir til viðgerðar á Hallgrímskirkju næstu árin og búist viðað ríkið geri hið sama. Digrir sjóðir þjóðkirkjunnar og miklar jarðeignir mega ávaxta sig í friði.
Ásatrúarfélaginu var neitað af dómstólum aðgangi að jöfnunarsjóði kirkna þegar það vildi láta reyna á 64. málsgrein stjórnarskrárinnar um að:
...enginn megi neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna,...
Það blasir við, en fáir vilja heyra að þeir 2. flokks og 3. flokks þegnar þjóðarinnar (20.6%) sem ekki eru í þjóðkirkjunni eru meðhöndluð sem menningarleg úrhrök andlit sem ekki þarf að horfa framan í.
Jesú átti að hafa deilt út brauði til allra, en ef að það er kristið siðgæði sem stýrir hönd stjórnvalda í útdeilingu brauðsins til lífsskoðunarfélaga á Íslandi, þá er boðskapur þess í raun sá að aðeins eitt félag sé verðugt. Hinn evangelísk-lúterski (gagnkynhneigði karl-) maður Íslands er hinn útvaldi og saga hans og eignir eru öðru mikilvægara.
----
Grein þessi var birt í Morgunblaðinu í dag 10. júlí 2009.
Athugasemd vegna prentúgáfu greinarinnar: Prófarkalesari blaðsins breytti þar mynd orðsins "ómögulega" yfir í "ómögulegi" og fékk því setningin um Guð og Jesú dálítið aðra merkingu fyrir vikið. Ætlunin er að segja að það sé erfðafræðilega ómögulegt að geta son á þann veg sem Guð á að hafa getið Jesú með Maríu, en ekki að segja að Jesú sé ómögulegur.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Heimsspeki og siðfræði, Mannréttindi, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Frábær grein - vonandi vekur þetta sanngjarnt fólk til umhugsunar um þá grófu mismunun sem við "2. og 3. flokks þegnar" þessa lands megum sætta okkur við og fáránleikann sem býr í því að ríki og borg skuli dæla endalausum fjármunum úr vösum skattborgaranna í Þjóðkirkjuna á sama tíma og þeir neita Siðmennt um smáaura í húsaleigustyrk. Skandall.
Takk fyrir mig.
Róbert Björnsson, 10.7.2009 kl. 15:51
Flott þetta!
Er búið að lagfæra bandorminn annars? með "sóknargjöldin" okkar sem erum ekki skráð í trúfélög?
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 10.7.2009 kl. 23:21
gaman að sjá þig hér Hildigunnur hjá þessum ofstækistrúleysingja....
Steini (IP-tala skráð) 11.7.2009 kl. 00:07
Glæsileg grein Svanur, þörf og góð.
Steini hér fyrir ofan mig hlýtur að notast við afar víða skilgreiningu á orðinu ofstæki, fyrst barátta fyrir jafnræði telst þess háttar hegðun.
Ef kristið fólk sæi nú almennt bjálkann í eigin auga...
mbk,
Kristinn Theódórsson, 11.7.2009 kl. 00:40
Takk fyrir góða grein.
Það er illt til þess að hugsa að í fyrirhuguðum niðurskurði næstu ára skuli Ríkiskirkjan ætla að verða stikkfrí. Þú bendir réttilega á að þar mætti auðveldlega spara 3-6 milljarða árlega, en í mínum huga væri þeim fjármunum betur verið í félags- eða heilbrigðisþjónustunni. Ég hygg m.a.s. að ef Jesús Jósepsson væri uppi í dag að þá myndi hann verða fyrstur manna til þess að hvetja til niðurlagningar Ríkiskirkjunnar.
Óli Jón, 11.7.2009 kl. 09:31
Almenningur á einn kost í stöðunni, sá kostur er gríðarlega mikilvægur... það er að fara og skrá sig utan trúfélaga, þá fáum við þúsundir milljóna til að bæta hag bágstaddra, til að setja í menntakerfið... börn í dag eru að missa af menntun á meðan 100+ prestar geimgaldrapabbastofnunnar ríkisins fá þúsundir milljóna árlega...
Ég legg til að allir sem bera virðngu fyrir öðrum manneskjum fari nú og taki sig og sína út úr ríkiskirkju og standi utan skipulagðs svindls biskups og kufla hans.
Svo legg ég líka til að eftir að ísland er komið á réttan kjöl, að þá haldi þessi skattur sér en verði settur í þróunarhjálp.
Það er allt að vinna, engu að tapa; Það er meira vit í Batman en biblíu, biblían er ekkert skárri en kóran... hver vill dýrka guð sem er með það á topplista sínum að myrða börn og hata konur..
Ert þú maður eða vitleysingur... það er það sem þetta snýst um.
Guð er ekki til, Jesú var aldrei til... þetta er allt skáldskapur krakkar.. hvað er meira lame en að láta plastast af kuflum,páfum og öðrum trúarnöttum... það er heimskara en að falla fyrir Nígeríusvindli.
DoctorE (IP-tala skráð) 11.7.2009 kl. 15:03
Sæl og takk fyrir góðar viðtökur
Já það væri betra að veita a.m.k. þremur af þessum 6 milljörðum í heilbrigðis- og menntamál. DoctorE bendir réttilega á að fólk sem ekki er trúað getur lagt sitt til málanna með því að skrá sig utan trúfélaga. Það er stórt hlutfall fólks í þjóðkirkjunni sem er í raun ekki trúað heldur er þar vegna þess að það var skráð þar samkvæmt "trúfélagi móður"
Í mæðraverndinni er hin ólétta kona spurð að því (12. viku meðgöngu) í hvaða trúfélagi hún sé í og það er skráð í meðgönguskýrsluna sem fylgir konunni svo á fæðingardeildina. Þar er þessi skráning svo tilkynnt til Þjóðskrár sem skráir ómálga barnið í trúfélag móðurinnar.
Þetta er með ólíkindum því trúfélagsaðild konunnar kemur heilbrigðisstarfsfólki ekkert við og ég efast um að þetta standist lög um persónuvernd. Hugsið ykkur ef spurt væri um stjórnmálaflokk móður. Hvað yrði sagt þá?
:-) SS
Svanur Sigurbjörnsson, 14.7.2009 kl. 00:38
Ég heyrði í Snorra í Betel um daginn á Omega (Já maður er bilaður)
Þar sagði Snorri að húmanismi gæti ekki gengið upp án Sússa og Gudda, ef menn tækju galdrakarlinn út úr dæminu að þá værum við að bjóða upp á hörnumgar eins og í Júgóslavíu...(Kosov)
Vill einhver manneskja tengja sig við svona geðsjúkt kjaftæði, vill einhver tengjast yfirnáttúrulegt kjaftæði frá bronsöld sem hatar konur, sem drepur börn til að koma ruglinu áfram... það er biblían, það er þa sem prestar ríkisins segja þér ekki frá.
Það má eiginlega segja að sá semskráir sig í kristni skrái sig á móti manneskjum, á móti börnum og konum.
Það er afar líklegt að jafnréttisbarátta kvenna sé tilkomin vegna biblíu, biblían metur dömurnar okkar sem 50% af verðgildi karla, biblían er með verðlista yfir þræla allt frá fæðingu til grafar..
Skammast þú þín ekkert kæri kristlingur
DoctorE (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 12:00
Svona "svarar" séra Gunnar Jóhannesson þessari grein í prédikun.+
Ekki beinlínis gáfulegt hjá prestinum en það var svosem ekki hægt að gera ráð fyrir merkilegum skrifum úr þeirri átt.
Matthías Ásgeirsson, 14.7.2009 kl. 20:54
Sæll Svanur og takk fyrir heimsóknina á mína síðu.
Þetta er frábær grein!
Mér leiðist hversu mikið er farið að kalla trúlaust fólk "guðleysingja" en það er ákveðin ímyndarherferð hinna ofurtrúuðu til að sverta fólk sem aðhyllist ekki trúarbrögð og er trúlaust. Gera það enn skelfilegra í augum þeirra trúuðu svo það sé nú enginn hætta á því að það taki orð þeirra og rök til greina á einhvern hátt, af því að það er fátt eins skelfilegt fyrir ofurtrúað fólk eins og "guðlaus manneskja". Þannig manneskjur eru ekki verðugar áheyrnar og hreint út sagt hættulegar.
Mér finnst að trúlaust fólk þurfi að berjast gegn þessari ímyndunarherferð gegn þeim og benda á þessa aðferðartækni sem er notuð gegn þeim af þeim sem hafa "trúarlegt vald" eins og presturinn sem Matti kemur með efni um hér fyrir ofan.
Það fólk sem hefur kynnt sér hugarheim trúarofstækis veit að það sem myndar gjá á milli trúarofstækis og trúlausra er hræðsluáróður þeirra sem fara með trúarlegt vald og nota það grimmt til að ala á ótta gegn trúleysi, með því m.a. að kalla trúleysingja "guðleysingja" og fyrir trúuðum er guðleysingi einhver sem hefur ekkert gott með sé heldur hið vonda, eða skrattann sjálfan.
Svona er þetta nú, hversu fáránlega sem það hljómar
Margrét St Hafsteinsdóttir, 14.7.2009 kl. 23:49
Takk fyrir ábendinguna og sýnishornið Matti. Já það er merkilegt þetta með "guðleysingja"-talið Margrét. Trúleysingjar á Íslandi kalla sig jafnan trúleysingja en ekki guðleysingja því að það er til trú á annars konar yfirnáttúru en guð. Það er því þrenging á orðræðunni við afstöðu gagnvart þeirra eigin guði sem virðist stýra skrifum Gunnars prests. Það má vera að það virki í byrjun sem ögn meira skelfilegra í hugum "guðsdýrkenda" (svo ég noti einhvers konar mótorð til samanburðar), en á endanum skiptir það ekki máli því eftir ofnotkun (sem verður óhjákvæmilega) missir það bitið. Annars yrðu "sófistarnir" hið forna væntanlega stoltir af þessari mælskulist.
Það sem er öllu alvarlega er þegar fólk kallar trúlausa "ofstækistrúleysingja" þegar þeir hafa ekki unnið annað til "saka" en að lýsa skoðun sinni málefnalega. Gunnar fellur sem betur fer ekki þann pitt sýnist mér.
Gunnar fer á hálar brautir í andmælum sínum því hann gefur sér alls kyns forsendur sem hann getur ekki sannað og reynir samt að draga af þeim ýmsar ályktanir.
Hann segir að Guð verði að vera til svo að kraftaverk séu til. Samkvæmt þessu er útilokað í hans huga að kraftaverk verði til án Guðs. Kraftaverk eru væntanlega yfirnáttúrulegir hlutir sem oft hafa áhrif á menn, oftast til góðs. (Annars væri það voðaverk ekki satt? ;-) )
Gunnar sleppir því svo að fullyrða að Guð sé til og lætur nægja að segja að "ef Guð er til ..." Óvenju hógvært af presti þjóðkirkjunnar,en hann forðast með þessu að rökstyðja tilvist Guðs sem er forsenda kraftaverka (eins og tilurð Jesú án getnaðar). Ég skil það vel því allar slíkar röksemdir hafa hriplekið allt frá tilraunum Tómasar Aquínó til Dantes eða meistara Immanuel Kant. Tilvist Guðs er í raun aðeins hugartilvist í huga þess sem trúir.
Hefur kristið fólk alltaf hafnað því að heimurinn sé eilífur? Gunnar segir nokkuð. Steindór Erlingsson vísindasagnfræðingur benti á að Biblían boðar í raun heimsendi og kristnin sé slík trú, en hvergi lærði ég um slíkt í minni fermingarfræðslu, kristinfræði í skóla, né hef ég heyrt nokkurn prest þjóðkirkjunnar predika um slíkt. Sú kenning líkt og fabúlan um helvíti fór verulega hljótt á 20. öldinni nema hjá bókstafstrúaðri kristnum söfnuðum. Gunnar færir mér því fréttir um heimsendahyggju kristninnar úr vörum þjóðkirkjuprests í fyrsta sinn.
Gunnar talar um að heimurinn eigi sér "upphaf og þar af leiðandi orsök" út frá skynsamlegum rökum sem hann nefnir ekki. Læt ég það vera að hann nefni ekki rökin, en hitt er annað mál að "guðleysingjar" hafa mjög mismunandi skoðanir á þessu og eru því ekki í þessari hreinu andstöðu við "upphaf" heimsins sem Gunnar vil gera þeim upp. Trúlaust fólk (og fleiri) spyrja hins vegar oft fleiri spurninga, t.d. eins og "þarf endilega að vera eitthvað upphaf? (eða endir?)". Nægir ekki að "vera"? Það þarf heldur ekki endilega að vera einhver ein orsök eða einhver orsök, og viti menn ekki hver hún er, er óþarfi að búa til einhverja skýringu byggða á yfirnáttúrulegri hugarveru sem enginn hefur sýnt fram á að sé til, hvorki efnislega né sem orkugeislun (eða tóm). Síðasta málsgreinin fellur því um sjálft sig því enginn hefur sýnt fram á upphaf eða orsök heimsins. Í heimi vísindanna eru allar útskýringar á mögulegri tilurð heimsins enn einungis ósannaðar tilgátur og því er ekki hægt að ræða þetta út frá einhverju gefnu í þeim efnum.
Gunnar vill þar sýna fram á að guðleysi leiði til þess að lífið missi gildi sitt, en þar kemur aftur af því hversu hrokafull guðstrúin er. Líkt og ein tilvitnunin ("...en án mín getið þér alls ekkert gjört") í greininni minni bendir á, þá er hluti af boðskap kristninnar að setja sjálfan sig á stall og án Guðs sé enginn raunverulegur tilgangur eða sannur útgangspunktur. Fólk sem trúir þessu mun alltaf líta á hina sem "óhreina" eða "-lausa", þ.e. að einhverju mikilvægu sé ábótavant hjá þeim og það geti jafnvel ekki sýnt sannan kærleik (því Guð er jú kærleikurinn). Þessi trú er jafnan ekki til staðar hjá hinum venjubundna "kristna" Íslendingi því aðeins um 8-10% þjóðarinnar trúa á kjarnaguðfræði kristninnar (upprisuna, himnavist o.s.frv.) skv. könnun Gallup 2004. Þessi trú er sönn kristin trú (kristnir trúir trúarjátningunni og boðskapnum í Biblíunni) og er vart hægt að finna nema hjá þessum 8% og þá aðallega hjá vissum prestum og guðfræðingum.
Lesandi - ertu kristinn? ;-)
Svanur Sigurbjörnsson, 15.7.2009 kl. 02:23
Góð grein Svanur. Ég var nátturulega ekki í kirkjunni síðastliðinn sunnudag og heyrði því ekki hvort presturinn fór eitthvað inná það sem mér finnst vera aðalatriðið í greininni, fjárhagslegt óréttlæti. Það er endalaust hægt að diskutera það hvort guð sé til eða ekki og munum við seint komast að niðurstöðu. Hitt er annað mál að fjárhagslegt misrétti er hægt að diskutera, en mér skilst að kirkjunnar menn séu ekki svo viljugir til að ræða það.
Hvað varðar guðleysingja, er ég guðleysingi og skammast mín ekkert fyrir það. Mér finnst það orð ekki vera neikvæðara en orðið "trúaður".
Asta Norrman (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 06:36
Sæl Ásta. Gaman að "heyra í þér".
Predikun Gunnars Jóhannessonar prests er hér.
Í miðri predikuninni víkur hann máli sínu að grein minni með þessum orðum:
Merkilegt er að hann talar um mig sem "guðleysingja" án þess að nefna nafn mitt. Síðar í ræðunni nefnir hann í framhjáhlaupi að ég sé læknir. Sérkennilegt að sjá svona vitnað nafnlaust í grein eftir mann. Ég er hræddur um að ég hefði fengið í besta falli C mínus fyrir heimildarritgerð ef ég hefði sleppt nöfnum höfunda í heimildaskránni.
Hann fjallar ekki um megin efni greinarinnar, þ.e. að ójafnræði ríki milli lífsskoðunarfélaga í meðferð ríkisins á þeim eins og þú bendir á Ásta. Það er í lagi því predikun hans fjallaði um skynsemi og trú.
Hins vegar er öllu verra að hann oftúlkar skrif mín og rangfærir með þessum orðum sínum. Það er eitt að taka óskynsamlegar ákvarðanir á einhverjum sviðum (eins og hvað trú varðar) og annað að vera "óskynsamlegt fólk". Ég set ekki samasemmerki við það að vera trúaður og það að vera óskynsamur. Grein mín "ýjaði" ekki að slíku heldur var tilvitnun mín í Orðskviður 3.5 þar sem segir, "Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit", gagnrýni á þann boðskap að það eigi að reiða sig á upphugsaða goðveru frekar en eigið hyggjuvit.
Það er leitt að sjá svona kolranga túlkun á skrifum manns og andsvar við hluta greinar minnar á nokkuð ítarlegan máta án þess að sýna þá virðingu að nefna mig á nafn.
Svanur Sigurbjörnsson, 15.7.2009 kl. 21:15
Sammala ter Svanur, tetta er i raun donaskapur at vitna svona i mann an tess ad nafnid komi fram.Tad er sennilega of veraldlegt ad ræda fjarmuni i kirkju, en mer finnst kirkjunnar menn vera latir almennt vid ad ræda fjarhagslegu . Sennilega vegna tess ad tad eru ekki til nein svør af viti vid tvi orettlæti sem tar vidgengst. Tess vegna leida teir tad hja ser og festa sig vid annad efni, sem kannske ekki var adalefni greinarinnar.
Ásta Kristín Norrman, 15.7.2009 kl. 23:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.